Bakgrunnur listaverksins er stef krossfestingarinnar. Í stað krossins er stórt skilti sem á stendur Útsölunni lýkur í dag (e. Sale ends today). Biblíupersónur lyfta höndum upp svo sem verið sé að lofa og tigna það sem skiltið boðar. Slíkar handahreyfingar eru afar algengar í krossfestingarmyndum hjá þeim er standa við krossinn og horfa upp á kvalir Jesú frá Nasaret. Úr þeim má lesa lofgjörð og þökk fyrir krossfórnina sem og sigur yfir dauða. Reyndar má túlka slíka handahreyfingar einnig sem merki um örvilnan þeirra er standa við krossinn.

Myndin fellur í flokk þeirra verka Banksy sem gagnrýna neysluhyggju nútímans. Neyslan er tignuð sem væri hún guð. Neyslumenning er sem ný trúarbrögð og er komin í stað hjálpræðisins. Vísan til trúarlegra tilfinninga er að finna í verkinu og útsalan er sem síðustu forvöð til að ganga inn í helgidóm neyslunnar á góðum kjörum. Útsölur eru kauphvati sem skilar góðum árangri í markaðssamfélaginu og skýrir hvers vegna þær eru svo tíðar og á öllum tíma ársins.

Önnur túlkun á verkinu er sú að það feli í sér skilaboð um að hjálpræðinu ljúki í dag (e. salvation ends today). Þegar hjálpræðið var til sölu á miðöldum í formi aflátsbréfa var mörgum vissulega í mun að komast yfir slík bréf. Mönnum var ljóst að hjálpræðið væri að vísu eilíft en aðgangur að því í krafti fjármuna gat verið takmarkaður. Meðalaldur miðaldamanna var rúmlega þrjátíu ár og það var einmitt sá aldur sem Jesús frá Nasaret náði (hann varð 33 ára) og því var hver krossfestingarmynd ákveðin áminning um að lífið væri stutt og jafnframt hvatning til að kaupa aflátsbréf meðan birgðir entust.[1]

Banksy er stundum sagður vera frægasti götulistamaður heimsins en verk hans má finna í opinberu rými og á veggjum allt frá Melbourne í Ástralíu til Timbuktu í Malí. Listamaðurinn er býsna róttækur á köflum. Verk hans eru pólitísk og vekja gjarnan mikla athygli enda grípur hann með ferskum hætti á ýmsum samfélagsmálum sem brenna á líðandi stund.[2] Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg en öll eiga þau það meira og minna sammerkt að listamaðurinn beinir sjónum sínum að samfélagslegum vandamálum sem snerta einstaklinga og þjóðir. Mörg verkanna eru með háðskum broddi og beittum sem túlka má með ýmsum hætti en vekja umræðu og ýmsa þanka hjá þeim er sjá þau. Ýmsar stofnanir samfélagsins fá að kenna á róttækum samfélagsskoðunum hans eins og dómstólar, lögregla, stjórnvöld og kirkja.[3]

Aðferð Banksy, listin í almannarýminu, er líka áhugaverð miðlunarleið til að koma skilaboðum til almennings. Hann byrjaði sem graffíti-listamaður en sneri sér að stensilsverkum vegna þess að hann taldi sig ekki valda almennilega úðabrúsanum í graffítinu.[4] Sum verka hans staldra stutt við vegna þess að þau eru tekin niður, skemmd eða færð til. Íbúar í námunda við verkin hafa í sumum tilvikum krafist þess að þau yrðu sett aftur upp og komið hefur fyrir að þeir hafa skellt akrýlmálningarlagi yfir myndina í verndarskyni.[5]

Allt er á huldu um hver maðurinn er en listaverk hans sáust fyrst opinberlega upp úr 1990. Banksy er talinn vera frá Bristol (f. 1973) og tók þátt í lífi listamanna og tónlistarmanna á jaðrinum þar í borg.[6] Sérstaða hans sem listamanns er að hann er óþekktur einstaklingur enda þótt listamannsnafnið Banksy sé víðfrægt. Einu tengsl fólks við verk hans er að sjá þau á þeim stað sem listamaðurinn hefur sjálfur valið – eða afrit þeirra. Sumir líta á listamannsnafn hans sem vörumerki og sá varningur (listin) sem ber það merki renni út og sé verðmætur í markaðshagkerfi nútímans og sé því höfundurinn, Banksy, engu betri en aðrir sem falbjóða verk sín og þess vegna megi segja að holur hljómur í gagnrýni hins ókunna listamanns undir nafninu Banksy. Nafnleysið, eða öllu heldur ókunnugleiki um listamanninn sjálfan, vekur og hina mannlegu forvitni á hversdagslegu plani, hver er þessi maður eiginlega?[7] Auðvitað hafa ýmsir reynt að komast að því hver þessi listamaður er en ekki haft erindi sem erfiði.[8]

Götulistin (e. streetart) getur orðið á vegi hvers manns en er ekki lokuð inni á söfnum en þó eru nokkur verka hans sem aðeins hafa verið sýnd innan húss eins og Sale Ends Today frá 2006. Verk hans eru gerð með stensli eða sniðmáti.[9] Þau eru sett upp í hasti í skjóli nætur því að listamaðurinn vill ekki láta grípa sig glóðvolgan við listiðju sína. Hann hefur mjög líklega á að skipa sveit aðstoðarfólks og sumt af því veit ekki hver hann er. Verkin eru iðulega svo úr garði gerð að þau vekja fólk til alvarlegrar umhugsunar um efni þeirra, stef og framsetningu. Staðsetning verkanna er líka úthugsuð og tengist oft boðskap þeirra; það getur verið húsgafl, skuggasund eða á brúm í alfaraleið. Stundum vekja verkin óþægilegar tilfinningar og jafnvel hrylling hjá áhorfendum. Persónur í verkum hans eru gjarnan fáar. Til draga fram ákveðnar tilvísanir notast hann gjarnan við börn, lögreglumenn, hermenn, teiknimyndapersónur og dýramyndir. Allt kunnuglegt úr hversdagslífi borgarbúa en verkin eru einnig oft samsett úr táknum og tilvísunum – og gagnrýnin á ýmsar stofnanir samfélagsins. Í verkunum gætir oft kímni sem stundum er tvöföld, hæðni og tvíræðni – og kaldhæðni. Banksy sækir margvísleg tákn í sjóð menningarinnar og trúarbragða og snýr stundum við merkingu þeirra.[10]

Síðasta verk sem Banksy setti upp var 21. -22. desember) á vegg í Bayswater, vestur London. Tvö börn horfa upp í himininn. Banksy staðfesti á Instagramreikningi sínum að verkð væri hans.[11]

Tilvísanir:

[1] Kelly Grovier, How Banksy saved Art History (Thames & Hudson, 2024), 45.

[2] Amanda Scardamaglia, „Banksy: culture counterculture and cancellation“, Griffith Law Review, 3:13: (2022):  419. https://doi.org/10.1080/10383441.2022.2096973

[3] Með því að fletta bókunum Banksy, Wall and Piece, Century, 2005, fæst gott yfirlit yfir verk hans til þess tíma og fleiri bækur eins og The World of Banksy, Global Event´s & Management (sýningarskrá), 2023, og Kelly Grovier, How Banksy saved Art History (Thames & Hudson, 2024). Þá er sjálfsagt að nefna heimasíðu hans: Banksy.

[4] Simon Hattenstone, „Something to spray,“ The Guardian, 17. júlí 2003.  https://www.theguardian.com/artanddesign/2003/jul/17/art.artsfeatures – Sótt 22. nóvember 2025.

[5] Lexa Brenner, „The Banksy Effect: revolutionizing Humanitarian Protest Art,“ Harvard International Review, 40, nr. 2, (2019): 34-37. https://www.proquest.com/scholarly-journals/bansky-effect-revolutionizing-humanitarian/docview/2215509570/se-2 Sótt 22. nóvember 2025.

[6] Natalie Rudd, Contemporary Art (Thames & Hudson, 2023), 84-85.

[7] Sofia Pinto, „Names schredded apart: Bansky, pseudonymity, and fame,“ Celebrity studies, vol. 15. nr. 1, (2024):115-116. https://doi.org/10.1080/19392397.2022.2115707

[8] Getgátur hafa verið uppi um að hann væri Robert Del Naja í hljómsveitinni Massive Attack og Robin Gunningham, sjá: Amanda Scardamaglia, „Banksy: culture counterculture and cancellation“, Griffith Law Review, 3:13 (2022): 419-420. https://doi.org/10.1080/10383441.2022.2096973.

[9] Arnar Freyr Kristinsson, „Banksy í Palestínu: Götulist og pólitík“ (BA-ritgerð, Háskóli Íslands, 2025), 17. https://hdl.handle.net/1946/48817 Sótt 28. nóvember 2025.

[10] Singgih Prio Wicaksono & Setyo Yanuartuti, „Visual Strategies of Contemporary Art: The Study of Banksy´s Artwork“, í Journal of Urban Society´s Arts, vol. 7, nr. 1, apríl 2020, 12-13. https://doi.org/10.24821/jousa.v7i1.3924 – sótt 16. nóvember 2025.

[11] Sjá: Sammy Gecsoyler, „London gets at least one new Banksy mural for Christmas“  – sótt 30. desember 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Bakgrunnur listaverksins er stef krossfestingarinnar. Í stað krossins er stórt skilti sem á stendur Útsölunni lýkur í dag (e. Sale ends today). Biblíupersónur lyfta höndum upp svo sem verið sé að lofa og tigna það sem skiltið boðar. Slíkar handahreyfingar eru afar algengar í krossfestingarmyndum hjá þeim er standa við krossinn og horfa upp á kvalir Jesú frá Nasaret. Úr þeim má lesa lofgjörð og þökk fyrir krossfórnina sem og sigur yfir dauða. Reyndar má túlka slíka handahreyfingar einnig sem merki um örvilnan þeirra er standa við krossinn.

Myndin fellur í flokk þeirra verka Banksy sem gagnrýna neysluhyggju nútímans. Neyslan er tignuð sem væri hún guð. Neyslumenning er sem ný trúarbrögð og er komin í stað hjálpræðisins. Vísan til trúarlegra tilfinninga er að finna í verkinu og útsalan er sem síðustu forvöð til að ganga inn í helgidóm neyslunnar á góðum kjörum. Útsölur eru kauphvati sem skilar góðum árangri í markaðssamfélaginu og skýrir hvers vegna þær eru svo tíðar og á öllum tíma ársins.

Önnur túlkun á verkinu er sú að það feli í sér skilaboð um að hjálpræðinu ljúki í dag (e. salvation ends today). Þegar hjálpræðið var til sölu á miðöldum í formi aflátsbréfa var mörgum vissulega í mun að komast yfir slík bréf. Mönnum var ljóst að hjálpræðið væri að vísu eilíft en aðgangur að því í krafti fjármuna gat verið takmarkaður. Meðalaldur miðaldamanna var rúmlega þrjátíu ár og það var einmitt sá aldur sem Jesús frá Nasaret náði (hann varð 33 ára) og því var hver krossfestingarmynd ákveðin áminning um að lífið væri stutt og jafnframt hvatning til að kaupa aflátsbréf meðan birgðir entust.[1]

Banksy er stundum sagður vera frægasti götulistamaður heimsins en verk hans má finna í opinberu rými og á veggjum allt frá Melbourne í Ástralíu til Timbuktu í Malí. Listamaðurinn er býsna róttækur á köflum. Verk hans eru pólitísk og vekja gjarnan mikla athygli enda grípur hann með ferskum hætti á ýmsum samfélagsmálum sem brenna á líðandi stund.[2] Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg en öll eiga þau það meira og minna sammerkt að listamaðurinn beinir sjónum sínum að samfélagslegum vandamálum sem snerta einstaklinga og þjóðir. Mörg verkanna eru með háðskum broddi og beittum sem túlka má með ýmsum hætti en vekja umræðu og ýmsa þanka hjá þeim er sjá þau. Ýmsar stofnanir samfélagsins fá að kenna á róttækum samfélagsskoðunum hans eins og dómstólar, lögregla, stjórnvöld og kirkja.[3]

Aðferð Banksy, listin í almannarýminu, er líka áhugaverð miðlunarleið til að koma skilaboðum til almennings. Hann byrjaði sem graffíti-listamaður en sneri sér að stensilsverkum vegna þess að hann taldi sig ekki valda almennilega úðabrúsanum í graffítinu.[4] Sum verka hans staldra stutt við vegna þess að þau eru tekin niður, skemmd eða færð til. Íbúar í námunda við verkin hafa í sumum tilvikum krafist þess að þau yrðu sett aftur upp og komið hefur fyrir að þeir hafa skellt akrýlmálningarlagi yfir myndina í verndarskyni.[5]

Allt er á huldu um hver maðurinn er en listaverk hans sáust fyrst opinberlega upp úr 1990. Banksy er talinn vera frá Bristol (f. 1973) og tók þátt í lífi listamanna og tónlistarmanna á jaðrinum þar í borg.[6] Sérstaða hans sem listamanns er að hann er óþekktur einstaklingur enda þótt listamannsnafnið Banksy sé víðfrægt. Einu tengsl fólks við verk hans er að sjá þau á þeim stað sem listamaðurinn hefur sjálfur valið – eða afrit þeirra. Sumir líta á listamannsnafn hans sem vörumerki og sá varningur (listin) sem ber það merki renni út og sé verðmætur í markaðshagkerfi nútímans og sé því höfundurinn, Banksy, engu betri en aðrir sem falbjóða verk sín og þess vegna megi segja að holur hljómur í gagnrýni hins ókunna listamanns undir nafninu Banksy. Nafnleysið, eða öllu heldur ókunnugleiki um listamanninn sjálfan, vekur og hina mannlegu forvitni á hversdagslegu plani, hver er þessi maður eiginlega?[7] Auðvitað hafa ýmsir reynt að komast að því hver þessi listamaður er en ekki haft erindi sem erfiði.[8]

Götulistin (e. streetart) getur orðið á vegi hvers manns en er ekki lokuð inni á söfnum en þó eru nokkur verka hans sem aðeins hafa verið sýnd innan húss eins og Sale Ends Today frá 2006. Verk hans eru gerð með stensli eða sniðmáti.[9] Þau eru sett upp í hasti í skjóli nætur því að listamaðurinn vill ekki láta grípa sig glóðvolgan við listiðju sína. Hann hefur mjög líklega á að skipa sveit aðstoðarfólks og sumt af því veit ekki hver hann er. Verkin eru iðulega svo úr garði gerð að þau vekja fólk til alvarlegrar umhugsunar um efni þeirra, stef og framsetningu. Staðsetning verkanna er líka úthugsuð og tengist oft boðskap þeirra; það getur verið húsgafl, skuggasund eða á brúm í alfaraleið. Stundum vekja verkin óþægilegar tilfinningar og jafnvel hrylling hjá áhorfendum. Persónur í verkum hans eru gjarnan fáar. Til draga fram ákveðnar tilvísanir notast hann gjarnan við börn, lögreglumenn, hermenn, teiknimyndapersónur og dýramyndir. Allt kunnuglegt úr hversdagslífi borgarbúa en verkin eru einnig oft samsett úr táknum og tilvísunum – og gagnrýnin á ýmsar stofnanir samfélagsins. Í verkunum gætir oft kímni sem stundum er tvöföld, hæðni og tvíræðni – og kaldhæðni. Banksy sækir margvísleg tákn í sjóð menningarinnar og trúarbragða og snýr stundum við merkingu þeirra.[10]

Síðasta verk sem Banksy setti upp var 21. -22. desember) á vegg í Bayswater, vestur London. Tvö börn horfa upp í himininn. Banksy staðfesti á Instagramreikningi sínum að verkð væri hans.[11]

Tilvísanir:

[1] Kelly Grovier, How Banksy saved Art History (Thames & Hudson, 2024), 45.

[2] Amanda Scardamaglia, „Banksy: culture counterculture and cancellation“, Griffith Law Review, 3:13: (2022):  419. https://doi.org/10.1080/10383441.2022.2096973

[3] Með því að fletta bókunum Banksy, Wall and Piece, Century, 2005, fæst gott yfirlit yfir verk hans til þess tíma og fleiri bækur eins og The World of Banksy, Global Event´s & Management (sýningarskrá), 2023, og Kelly Grovier, How Banksy saved Art History (Thames & Hudson, 2024). Þá er sjálfsagt að nefna heimasíðu hans: Banksy.

[4] Simon Hattenstone, „Something to spray,“ The Guardian, 17. júlí 2003.  https://www.theguardian.com/artanddesign/2003/jul/17/art.artsfeatures – Sótt 22. nóvember 2025.

[5] Lexa Brenner, „The Banksy Effect: revolutionizing Humanitarian Protest Art,“ Harvard International Review, 40, nr. 2, (2019): 34-37. https://www.proquest.com/scholarly-journals/bansky-effect-revolutionizing-humanitarian/docview/2215509570/se-2 Sótt 22. nóvember 2025.

[6] Natalie Rudd, Contemporary Art (Thames & Hudson, 2023), 84-85.

[7] Sofia Pinto, „Names schredded apart: Bansky, pseudonymity, and fame,“ Celebrity studies, vol. 15. nr. 1, (2024):115-116. https://doi.org/10.1080/19392397.2022.2115707

[8] Getgátur hafa verið uppi um að hann væri Robert Del Naja í hljómsveitinni Massive Attack og Robin Gunningham, sjá: Amanda Scardamaglia, „Banksy: culture counterculture and cancellation“, Griffith Law Review, 3:13 (2022): 419-420. https://doi.org/10.1080/10383441.2022.2096973.

[9] Arnar Freyr Kristinsson, „Banksy í Palestínu: Götulist og pólitík“ (BA-ritgerð, Háskóli Íslands, 2025), 17. https://hdl.handle.net/1946/48817 Sótt 28. nóvember 2025.

[10] Singgih Prio Wicaksono & Setyo Yanuartuti, „Visual Strategies of Contemporary Art: The Study of Banksy´s Artwork“, í Journal of Urban Society´s Arts, vol. 7, nr. 1, apríl 2020, 12-13. https://doi.org/10.24821/jousa.v7i1.3924 – sótt 16. nóvember 2025.

[11] Sjá: Sammy Gecsoyler, „London gets at least one new Banksy mural for Christmas“  – sótt 30. desember 2025.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir