Segja má að fólk sé umvafið tímanum. Og það faðmlag er mjúkt og gott á hamingjusömum stundum en líka hrjúft og kalt þegar á móti blæs. En tíminn er líka þannig fyrirbæri að hann bindur endi á allar stundir og heldur svo áfram á nýjar lendur. Tíminn stendur nefnilega aldrei kyrr.
Á jólum fara margir í tímaferðalag og minnast sinna eigin jóla – eða að minnsta kosti hugsa til þeirra og bera þau jafnvel saman við yfirstandandi jól. Jólin gefa hverjum minningu sem hann eða hún fer með inn í lífið.
Tíminn er fyrirbæri sem hefur verið mælt frá fornu fari. Sennilega hefur engin þjóð lifað í tímaleysi. Tímanum var skipt hér fyrrum í mun stærri heildir en nú tíðkast, vetur og sumar. Og alls staðar þar sem mannleg athafnasemi fer fram er tíma skipt niður. Skólar eru gott dæmi um það, stundatöflurnar. Og þá má nefna tímaskiptingu í klaustrum fyrr og nú: Vinna, söngur, bænalestur og matur. Inni í þessu eru og tíðagjörðirnar (Laude, hexta, vesper og completorium).
Sennilega býr hvert samfélag til tímaramma sinn af ýmsum ástæðum og kannski þá sérstaklega þeim sem snúa að öflun lífsviðurværis. Hin náttúrulega tímaskipting sem mótaðist af búverkum fyrr á tíma virðist hafa verið mjög svo eðlileg miðað við hverja samfélagstegund fyrir sig.
Stjórnun á tíma er og merki um að samfélagið sé undir stjórn. Tíminn mælir hinn háttbundna takt í samfélaginu. Þar var og er efst í píramídanum vinnan eða athafnasemin sem snýst um að eiga skæði og klæði, gera sér sæmileg húsakynni sem standast veður og vinda – og margt fleira. Í bændasamfélaginu var bóndinn og búalið hans sem ein vinnuvél og hún þurfti að vera vel stillt svo allt færi á sem bestan veg. Leti var því ódygð enda andstæða þess að nýta tímann vel í vinnusemi – leti var óvinur tímans og hæddist að honum. Sveitastörfin bjuggu til tímaramma í kringum vinnuna. Iðnaðarsamfélögin, þ. e. samfélögin þar sem fjölmenn stétt verkafólks starfaði í verksmiðjum, þurftu að losna úr fjötrum þessa tímaskipulags sem það hafði verið alið upp við (til dæmis í sveitunum). Laun voru því mæld eftir vinnustundum.
Tími mannsins í heiminum er hverfull og þess vegna verður tíminn í markaðssamfélagi takmörkuð auðlind eða gæði sem hverjum og einum er gert að nýta. Hver er sinnar gæfu smiður, má kannski segja – og bæta má við: veltur þó oft á því hvaða umgjörð samfélagið býr þeim gæfusmiðum sem einstaklingum og sem heild. Þar er tímastjórnun í nútímanum eitt lykilatriðið. Sjálfsagi er því og mikilvægur þegar skipta skal tíma milli heimilis, vinnu, skylduverka og tómstunda. Ekki furðar að hér fyrrum hafi mörg fyrirtæki gefið traustu starfsfólki gullúr í tilefni starfsloka eftir aldarfjórðung. Varla hægt að hugsa sér meiri undirstrikun á gildi tímans, stundvísi og iðjusemi, í lífi einstaklings og framleiðslutækis. Tíminn er sem sé gull ígildi.
Borgarklukka í Reykjavík kom til sögunnar um miðja 19. öld í turni Dómkirkjunnar. Síðan var reynt að koma upp veraldlegri klukku í bænum til mótvægis við hina andlegu í Dómkirkjunni. Það var hin fræga Persil-klukka á Lækjartorgi, svo kölluð af því að aðalauglýsingin var lengi vel svífandi létt kona hamingjusöm á svip. Það var nefnilega Persíl-þvottaefni sem veitti henni hinn undursamlega léttleika – hún flaug af gleði. Þessi staður var svo vinsæll til stefnumóta síðar meir enda Persil-konan tákn hinnar fullkomnu húsmóður. En verst var að eftir því sem árin liðu tók þessi klukka upp á því að nema staðar en það mega klukkur ekki gera því þá heita þær ekki lengur klukkur. Og það sem verra var lengi vel að ef vísarnir hreyfðust þá sýndu þeir ekki réttan tíma. Hún gerði sem sé uppreisn og ungu herramennirnir í makaleit urðu að laga líf sitt framvegis eftir því. En klukkan í Dómkirkjunni gekk rétt, og gengur rétt, þó að gömul sé. Og hér má heyra alvörufullan klukkuverkslátt hennar, kannski ögn þreytulegur og andstuttur enda ferðin orðin löng. Vefurinn Kirkjuklukkur Íslands geymir svo hljóm þeirra.
Nú er allt breytt. Tíminn er aldrei eins nálægur og um þessar stundir: alls staðar sjáanlegur þar sem fólk dvelst í anda og líkama eins og í símanum, í tölvunni o.s.frv. Manneskjan hefur kannski aldrei sem nú verið jafn föst í viðjum tímans.
Já, tíminn. Á yfirstandandi jólum 2023 er einmitt það ártal skorið sem hin undangengnu á dyrastaf lífsins til minnis um að þessi árafjöldi er liðinn frá fæðingu Jesúbarnsins sem færði okkur eilífðina.
Sveinstaulinn Álfgrímur velti fyrir sér tímanum. Í Brekkukoti var stór skosk standklukka (sem reyndar var búið að taka stöpulinn af svo hún kæmist inn í kotið). Klukkan var frá 1750. Álfgrími fannst hún segja „ei-líbbð.“ Það varð drengnum ásamt öðru tilefni til að spyrja afa sinn:
„Heyrðu afi minn, sagði ég þá. Er eilífðin kvikindi?
Vendu þig ekki á rugl deingur minn, sagði afi.
Heyrðu afi minn, er nokkuð að marka aðrar klukkur en klukkuna okkar?
Nei, sagði af minn; okkar klukka gengur rétt.“(Halldór Laxness, Brekkukotsannáll, R. 1957, bls. 10-11).
„Gengur okkar klukka ekki líka rétt?“
Segja má að fólk sé umvafið tímanum. Og það faðmlag er mjúkt og gott á hamingjusömum stundum en líka hrjúft og kalt þegar á móti blæs. En tíminn er líka þannig fyrirbæri að hann bindur endi á allar stundir og heldur svo áfram á nýjar lendur. Tíminn stendur nefnilega aldrei kyrr.
Á jólum fara margir í tímaferðalag og minnast sinna eigin jóla – eða að minnsta kosti hugsa til þeirra og bera þau jafnvel saman við yfirstandandi jól. Jólin gefa hverjum minningu sem hann eða hún fer með inn í lífið.
Tíminn er fyrirbæri sem hefur verið mælt frá fornu fari. Sennilega hefur engin þjóð lifað í tímaleysi. Tímanum var skipt hér fyrrum í mun stærri heildir en nú tíðkast, vetur og sumar. Og alls staðar þar sem mannleg athafnasemi fer fram er tíma skipt niður. Skólar eru gott dæmi um það, stundatöflurnar. Og þá má nefna tímaskiptingu í klaustrum fyrr og nú: Vinna, söngur, bænalestur og matur. Inni í þessu eru og tíðagjörðirnar (Laude, hexta, vesper og completorium).
Sennilega býr hvert samfélag til tímaramma sinn af ýmsum ástæðum og kannski þá sérstaklega þeim sem snúa að öflun lífsviðurværis. Hin náttúrulega tímaskipting sem mótaðist af búverkum fyrr á tíma virðist hafa verið mjög svo eðlileg miðað við hverja samfélagstegund fyrir sig.
Stjórnun á tíma er og merki um að samfélagið sé undir stjórn. Tíminn mælir hinn háttbundna takt í samfélaginu. Þar var og er efst í píramídanum vinnan eða athafnasemin sem snýst um að eiga skæði og klæði, gera sér sæmileg húsakynni sem standast veður og vinda – og margt fleira. Í bændasamfélaginu var bóndinn og búalið hans sem ein vinnuvél og hún þurfti að vera vel stillt svo allt færi á sem bestan veg. Leti var því ódygð enda andstæða þess að nýta tímann vel í vinnusemi – leti var óvinur tímans og hæddist að honum. Sveitastörfin bjuggu til tímaramma í kringum vinnuna. Iðnaðarsamfélögin, þ. e. samfélögin þar sem fjölmenn stétt verkafólks starfaði í verksmiðjum, þurftu að losna úr fjötrum þessa tímaskipulags sem það hafði verið alið upp við (til dæmis í sveitunum). Laun voru því mæld eftir vinnustundum.
Tími mannsins í heiminum er hverfull og þess vegna verður tíminn í markaðssamfélagi takmörkuð auðlind eða gæði sem hverjum og einum er gert að nýta. Hver er sinnar gæfu smiður, má kannski segja – og bæta má við: veltur þó oft á því hvaða umgjörð samfélagið býr þeim gæfusmiðum sem einstaklingum og sem heild. Þar er tímastjórnun í nútímanum eitt lykilatriðið. Sjálfsagi er því og mikilvægur þegar skipta skal tíma milli heimilis, vinnu, skylduverka og tómstunda. Ekki furðar að hér fyrrum hafi mörg fyrirtæki gefið traustu starfsfólki gullúr í tilefni starfsloka eftir aldarfjórðung. Varla hægt að hugsa sér meiri undirstrikun á gildi tímans, stundvísi og iðjusemi, í lífi einstaklings og framleiðslutækis. Tíminn er sem sé gull ígildi.
Borgarklukka í Reykjavík kom til sögunnar um miðja 19. öld í turni Dómkirkjunnar. Síðan var reynt að koma upp veraldlegri klukku í bænum til mótvægis við hina andlegu í Dómkirkjunni. Það var hin fræga Persil-klukka á Lækjartorgi, svo kölluð af því að aðalauglýsingin var lengi vel svífandi létt kona hamingjusöm á svip. Það var nefnilega Persíl-þvottaefni sem veitti henni hinn undursamlega léttleika – hún flaug af gleði. Þessi staður var svo vinsæll til stefnumóta síðar meir enda Persil-konan tákn hinnar fullkomnu húsmóður. En verst var að eftir því sem árin liðu tók þessi klukka upp á því að nema staðar en það mega klukkur ekki gera því þá heita þær ekki lengur klukkur. Og það sem verra var lengi vel að ef vísarnir hreyfðust þá sýndu þeir ekki réttan tíma. Hún gerði sem sé uppreisn og ungu herramennirnir í makaleit urðu að laga líf sitt framvegis eftir því. En klukkan í Dómkirkjunni gekk rétt, og gengur rétt, þó að gömul sé. Og hér má heyra alvörufullan klukkuverkslátt hennar, kannski ögn þreytulegur og andstuttur enda ferðin orðin löng. Vefurinn Kirkjuklukkur Íslands geymir svo hljóm þeirra.
Nú er allt breytt. Tíminn er aldrei eins nálægur og um þessar stundir: alls staðar sjáanlegur þar sem fólk dvelst í anda og líkama eins og í símanum, í tölvunni o.s.frv. Manneskjan hefur kannski aldrei sem nú verið jafn föst í viðjum tímans.
Já, tíminn. Á yfirstandandi jólum 2023 er einmitt það ártal skorið sem hin undangengnu á dyrastaf lífsins til minnis um að þessi árafjöldi er liðinn frá fæðingu Jesúbarnsins sem færði okkur eilífðina.
Sveinstaulinn Álfgrímur velti fyrir sér tímanum. Í Brekkukoti var stór skosk standklukka (sem reyndar var búið að taka stöpulinn af svo hún kæmist inn í kotið). Klukkan var frá 1750. Álfgrími fannst hún segja „ei-líbbð.“ Það varð drengnum ásamt öðru tilefni til að spyrja afa sinn:
„Heyrðu afi minn, sagði ég þá. Er eilífðin kvikindi?
Vendu þig ekki á rugl deingur minn, sagði afi.
Heyrðu afi minn, er nokkuð að marka aðrar klukkur en klukkuna okkar?
Nei, sagði af minn; okkar klukka gengur rétt.“(Halldór Laxness, Brekkukotsannáll, R. 1957, bls. 10-11).
„Gengur okkar klukka ekki líka rétt?“