Sennilega finnst öllum gott að vera í liðinu sem sigrar.

Trúarlega táknið sem krossdauðinn ber með sér elur af sér sigur í kjölfar þjáningar. Svo er reyndar fráleitt alltaf í mannlegu lífi því að harla oft fylgir ósigur þjáningu.

En þjáningin á krossinum hefur hins vegar verið sett fram í kristinni trú sem undanfari sigurs. Við stöndum vissulega í öðrum sporum en þau sem stóðu hnípin við krossinn. Það er ekki að sjá að upprisutrúin hafi verið sterk hjá þeim. En við erum svo að segja í stúkusæti því að við þekkjum sögulokin. Vitum að þessari dauðans hörmung lýkur og innan skamms muni sól eilífðar umlykja sviðið.

Kristin manneskja telur sig mega stíga upp á hið uppljómaða svið upprisunnar. Hún bindur sig við orð sem höfð eru eftir honum:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ (Jóhannesarguðspjall 11.25-26).

Kannski ómuðu þessi orð dýpst í huga þeirra sem stóðu við krossinn en komust ekki að vegna þjáningarinnar. En konurnar sem komu að gröf meistarans fengu það einstaka hlutverk að segja frá upprisunni – lífinu sem komið var í heiminn.

Boðskapur um líf er kjarni kristinnar trúar. Um líf hér í heimi þar sem manneskjan hefur hlutverk sem á að mótast af kærleika og umhyggju.  Og kristinn maður horfir á dauðann í öðru ljósi en áður. Hann veit vissulega að mikið er eftir meðan dauðinn á ólokið erindi sínu við hann. Þess vegna getur hann íhugað söguna um líf Jesú Krists og dauða hans á krossi. Hann skoðar líf sitt í ljósi upprisunnar – byggir sjálfan sig ekki aðeins upp fyrir lífið heldur og dauðann:

„að gefi mér þín gæskan blíð
góða kristins manns dauðatíð.“
(Passíusálmur 45.15).

Það er sólarupprás í lífi okkar þegar tekið er í trúnni í hönd þess sem lífið gefur. Allt líf þarf einhvern grunn til að standa á og hver maður þarf lífsstefnu sem mótuð er af bjartsýni, von og kærleika. Þau sem í skugga standa og horfa þangað sem sólin skín eru boðin velkomin. Hvers vegna að híma í drungalegum skugga sem daprar hug og hönd þegar hægt er að fagna og gleðjast yfir sigri lífsins?

Við sjáum hvernig vorið tekur eitt skref í einu úti í náttúrunni. Þó skrefin séu ekki stór þá er hvert og eitt þeirra sköpun út af fyrir sig og upprisa náttúrunnar.

Nú knýr vorið á dyrnar og upprisan sömuleiðis. Trúin. Hún er ekki mótuð af græðgi heimsins eða hégóma heldur af kærleika Guðs sem birtist í Jesú Kristi þegar hann gekk hér um á jörðu og liðsinnti mönnum.

Já, það er gott að vera í sigurliðinu og vera lífsins megin.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sennilega finnst öllum gott að vera í liðinu sem sigrar.

Trúarlega táknið sem krossdauðinn ber með sér elur af sér sigur í kjölfar þjáningar. Svo er reyndar fráleitt alltaf í mannlegu lífi því að harla oft fylgir ósigur þjáningu.

En þjáningin á krossinum hefur hins vegar verið sett fram í kristinni trú sem undanfari sigurs. Við stöndum vissulega í öðrum sporum en þau sem stóðu hnípin við krossinn. Það er ekki að sjá að upprisutrúin hafi verið sterk hjá þeim. En við erum svo að segja í stúkusæti því að við þekkjum sögulokin. Vitum að þessari dauðans hörmung lýkur og innan skamms muni sól eilífðar umlykja sviðið.

Kristin manneskja telur sig mega stíga upp á hið uppljómaða svið upprisunnar. Hún bindur sig við orð sem höfð eru eftir honum:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ (Jóhannesarguðspjall 11.25-26).

Kannski ómuðu þessi orð dýpst í huga þeirra sem stóðu við krossinn en komust ekki að vegna þjáningarinnar. En konurnar sem komu að gröf meistarans fengu það einstaka hlutverk að segja frá upprisunni – lífinu sem komið var í heiminn.

Boðskapur um líf er kjarni kristinnar trúar. Um líf hér í heimi þar sem manneskjan hefur hlutverk sem á að mótast af kærleika og umhyggju.  Og kristinn maður horfir á dauðann í öðru ljósi en áður. Hann veit vissulega að mikið er eftir meðan dauðinn á ólokið erindi sínu við hann. Þess vegna getur hann íhugað söguna um líf Jesú Krists og dauða hans á krossi. Hann skoðar líf sitt í ljósi upprisunnar – byggir sjálfan sig ekki aðeins upp fyrir lífið heldur og dauðann:

„að gefi mér þín gæskan blíð
góða kristins manns dauðatíð.“
(Passíusálmur 45.15).

Það er sólarupprás í lífi okkar þegar tekið er í trúnni í hönd þess sem lífið gefur. Allt líf þarf einhvern grunn til að standa á og hver maður þarf lífsstefnu sem mótuð er af bjartsýni, von og kærleika. Þau sem í skugga standa og horfa þangað sem sólin skín eru boðin velkomin. Hvers vegna að híma í drungalegum skugga sem daprar hug og hönd þegar hægt er að fagna og gleðjast yfir sigri lífsins?

Við sjáum hvernig vorið tekur eitt skref í einu úti í náttúrunni. Þó skrefin séu ekki stór þá er hvert og eitt þeirra sköpun út af fyrir sig og upprisa náttúrunnar.

Nú knýr vorið á dyrnar og upprisan sömuleiðis. Trúin. Hún er ekki mótuð af græðgi heimsins eða hégóma heldur af kærleika Guðs sem birtist í Jesú Kristi þegar hann gekk hér um á jörðu og liðsinnti mönnum.

Já, það er gott að vera í sigurliðinu og vera lífsins megin.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir