
Sálmurinn, Um dauðans óvissan tíma, fluttur
Segja má að það hafi verið söguleg stund í Neskirkju þegar sálmurinn Um dauðans óvissan tíma eftir séra Hallgrím Pétursson (1614-1674) var fluttur af séra Erni Bárði Jónssyni við guðsþjónustu í gær. Hann flutti allan sálminn utan bókar. Stóð í kórdyrum kirkjunnar, hempuklæddur, og frá honum streymdi hvert erindið á fætur öðru en þau eru alls þrettán að tölu. Framsögnin var skýr og einstaklega falleg, strengir tilfinninganna voru stroknir af mikilli næmni og listfengi. Einn gestanna tók fram við Kirkjublaðið.is að ekki væri fráleitt að höfundurinn hefði flutt sálmana með líkum hætti væri hann á „meðal vor“ eins og gesturinn orðaði það.
Tilefni flutningsins var að þess var minnst víða í gær að 350 ár voru liðin frá láti sálmaskáldsins.
Sr. Örn Bárður er listamaður á ýmsum sviðum hvort heldur á sviði leikrænnar tjáningar, ljóðaflutnings, myndlistar og á ritvellinum. Kunnasta smásaga hans fjallar um sölu á Esjunni en hún birtist í smásagnabók hans Íslensk fjallasala og fleiri sögur; hún kom út 2002 og vakti mikla athygli og fjörugar umræður í samfélaginu. Sr. Örn Bárður hefur verið hispurslaus í umræðu á vettvangi þjóðmála og látið oft að sér kveða á þeim vettvangi
Sóknarpresturinn fyrrverandi, sr. Örn Bárður, heldur líka sýningu á vatnslitamyndum sínum á Torginu í Neskirkju og var hún opnuð í gær við messulok. Alls eru verkin 29 auk þriggja skissubóka sem gestum gefst tækifæri til að skoða. Sjálfur segist listamaðurinn líta á skissubækurnar í þessu samhengi sem innsetningu og kallist þær á við vatnslitamyndirnar.
Myndirnar á sýningunni eru kraftmiklar og myndefnið dregur augað strax til sín. Listamaðurinn notar gjarnan ákveðna liti og mótífin liggja ljós fyrir en þau eru úr mannlífinu, af húsum og stemningu í borgarlífinu og sum snerta strengi trúarinnar. Nokkrar myndir eru frá æskuslóðum listamannsins, Ísafirði.
Sr. Örn Bárður hefur fengist við myndlist allt frá unglingsaldri og sótt menntun sína í henni til ýmissa meistara. Hann hefur haldið sýningar víðs vegar.
Kirkjublaðið.is hvetur alla til að skoða sýninguna á Torginu í Neskirkju og óskar sr. Erni Bárði Jónssyni til hamingju með glæsileg verk.

Ísafjarðarkirkja

Stundum hefur listamaðurinn texta í myndum sínum

Myndasyrpa

Í Neskirkju á jólum

Neskirkja var þéttsetin eins og oftast áður enda starfið þar öflugt
Listgluggi í Hallgrímskirkju í Saurbæ eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975)
Um dauðans óvissan tíma
1.
Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund,
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði,
líf mannlegt endar skjótt.
2.
Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið
sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu
upp á lífsstunda bið,
en þann kost undir gengu
allir að skilja við.
3.
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er.
Grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.
4.
Lífið manns hratt fram hleypur,
hafandi enga bið,
í dauðans grimmar greipur,
gröfin tekur þar við.
Allrar veraldar vegur
víkur að sama punkt.
Fetar þann fús sem tregur,
hvort fellur létt eða þungt.
5.
Hvorki fyrir hefð né valdi
hopar dauðinn eitt strik.
Fæst síst með fögru gjaldi
frestur um augnablik.
Allt hann að einu gildir,
þótt illa líki eða vel.
Bón ei né bræði mildir
hans beiska heiftarþel.
6.
Menn vaða í villu og svima,
veit enginn neitt um það
hverninn, á hverjum tíma,
eða hvar hann kemur að.
Einn vegur öllum greiðir
inngang í heimsins rann.
Margbreyttar líst mér leiðir
liggi þó út þaðan.
7.
Afl dauðans eins nam krenkja
alla í veröld hér.
Skal ég þá þurfa að þenkja
hann þyrmi einum mér?
Adams er eðlið runnið
í mitt náttúrlegt hold.
Ég hef þar og til unnið
aftur að verða mold.
8.
Hvorki með hefð né ráni
hér þetta líf ég fann.
Sálin er, svo sem að láni.
samtengd við líkamann.
Í herrans höndum stendur
að heimta sitt af mér.
Dauðinn má segjast sendur
að sækja hvað skaparans er.
9.
Nú vel í herrans nafni,
fyrst nauðsyn ber til slík,
ég er ei þeirra jafni,
sem jörðin geymir nú lík.
Hvenær sem kallið kemur,
kaupir sig enginn frí.
Þar læt ég nótt, sem nemur.
Neitt skal ei kvíða því.
10.
Ég veit minn ljúfur lifir
lausnarinn himnum á.
Hann ræður öllu yfir.
Einn heitir Jesus sá,
sigrarinn dauðans sanni
sjálfur á krossi dó,
og mér svo aumum manni
eilíft líf víst til bjó.
11.
Með sínum dauða hann deyddi
dauðann og sigur vann,
makt hans og afli eyddi.
Ekkert mig skaða kann.
Þó leggist lík í jörðu,
lifir mín sála frí.
Hún mætir aldrei hörðu
himneskri sælu í.
12.
Jesús er mér í minni.
Mig á hans vald ég gef,
hvort ég er úti eða inni,
eins þá ég vaki og sef.
Hann er mín hjálp og hreysti.
Hann er mitt rétta líf.
Honum af hjarta ég treysti.
Hann mýkir dauðans kíf.
13.
Ég lifi í Jesú nafni.
Í Jesú nafni ég dey.
Þó heilsa og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt.
Í Kristí krafti ég segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.
Hallgrímur Pétursson (1614-1674) – sálmurinn er númer 373 í Sálmabók íslensku kirkjunnar

Sálmurinn, Um dauðans óvissan tíma, fluttur
Segja má að það hafi verið söguleg stund í Neskirkju þegar sálmurinn Um dauðans óvissan tíma eftir séra Hallgrím Pétursson (1614-1674) var fluttur af séra Erni Bárði Jónssyni við guðsþjónustu í gær. Hann flutti allan sálminn utan bókar. Stóð í kórdyrum kirkjunnar, hempuklæddur, og frá honum streymdi hvert erindið á fætur öðru en þau eru alls þrettán að tölu. Framsögnin var skýr og einstaklega falleg, strengir tilfinninganna voru stroknir af mikilli næmni og listfengi. Einn gestanna tók fram við Kirkjublaðið.is að ekki væri fráleitt að höfundurinn hefði flutt sálmana með líkum hætti væri hann á „meðal vor“ eins og gesturinn orðaði það.
Tilefni flutningsins var að þess var minnst víða í gær að 350 ár voru liðin frá láti sálmaskáldsins.
Sr. Örn Bárður er listamaður á ýmsum sviðum hvort heldur á sviði leikrænnar tjáningar, ljóðaflutnings, myndlistar og á ritvellinum. Kunnasta smásaga hans fjallar um sölu á Esjunni en hún birtist í smásagnabók hans Íslensk fjallasala og fleiri sögur; hún kom út 2002 og vakti mikla athygli og fjörugar umræður í samfélaginu. Sr. Örn Bárður hefur verið hispurslaus í umræðu á vettvangi þjóðmála og látið oft að sér kveða á þeim vettvangi
Sóknarpresturinn fyrrverandi, sr. Örn Bárður, heldur líka sýningu á vatnslitamyndum sínum á Torginu í Neskirkju og var hún opnuð í gær við messulok. Alls eru verkin 29 auk þriggja skissubóka sem gestum gefst tækifæri til að skoða. Sjálfur segist listamaðurinn líta á skissubækurnar í þessu samhengi sem innsetningu og kallist þær á við vatnslitamyndirnar.
Myndirnar á sýningunni eru kraftmiklar og myndefnið dregur augað strax til sín. Listamaðurinn notar gjarnan ákveðna liti og mótífin liggja ljós fyrir en þau eru úr mannlífinu, af húsum og stemningu í borgarlífinu og sum snerta strengi trúarinnar. Nokkrar myndir eru frá æskuslóðum listamannsins, Ísafirði.
Sr. Örn Bárður hefur fengist við myndlist allt frá unglingsaldri og sótt menntun sína í henni til ýmissa meistara. Hann hefur haldið sýningar víðs vegar.
Kirkjublaðið.is hvetur alla til að skoða sýninguna á Torginu í Neskirkju og óskar sr. Erni Bárði Jónssyni til hamingju með glæsileg verk.

Ísafjarðarkirkja

Stundum hefur listamaðurinn texta í myndum sínum

Myndasyrpa

Í Neskirkju á jólum

Neskirkja var þéttsetin eins og oftast áður enda starfið þar öflugt
Listgluggi í Hallgrímskirkju í Saurbæ eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975)
Um dauðans óvissan tíma
1.
Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund,
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði,
líf mannlegt endar skjótt.
2.
Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið
sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu
upp á lífsstunda bið,
en þann kost undir gengu
allir að skilja við.
3.
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er.
Grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.
4.
Lífið manns hratt fram hleypur,
hafandi enga bið,
í dauðans grimmar greipur,
gröfin tekur þar við.
Allrar veraldar vegur
víkur að sama punkt.
Fetar þann fús sem tregur,
hvort fellur létt eða þungt.
5.
Hvorki fyrir hefð né valdi
hopar dauðinn eitt strik.
Fæst síst með fögru gjaldi
frestur um augnablik.
Allt hann að einu gildir,
þótt illa líki eða vel.
Bón ei né bræði mildir
hans beiska heiftarþel.
6.
Menn vaða í villu og svima,
veit enginn neitt um það
hverninn, á hverjum tíma,
eða hvar hann kemur að.
Einn vegur öllum greiðir
inngang í heimsins rann.
Margbreyttar líst mér leiðir
liggi þó út þaðan.
7.
Afl dauðans eins nam krenkja
alla í veröld hér.
Skal ég þá þurfa að þenkja
hann þyrmi einum mér?
Adams er eðlið runnið
í mitt náttúrlegt hold.
Ég hef þar og til unnið
aftur að verða mold.
8.
Hvorki með hefð né ráni
hér þetta líf ég fann.
Sálin er, svo sem að láni.
samtengd við líkamann.
Í herrans höndum stendur
að heimta sitt af mér.
Dauðinn má segjast sendur
að sækja hvað skaparans er.
9.
Nú vel í herrans nafni,
fyrst nauðsyn ber til slík,
ég er ei þeirra jafni,
sem jörðin geymir nú lík.
Hvenær sem kallið kemur,
kaupir sig enginn frí.
Þar læt ég nótt, sem nemur.
Neitt skal ei kvíða því.
10.
Ég veit minn ljúfur lifir
lausnarinn himnum á.
Hann ræður öllu yfir.
Einn heitir Jesus sá,
sigrarinn dauðans sanni
sjálfur á krossi dó,
og mér svo aumum manni
eilíft líf víst til bjó.
11.
Með sínum dauða hann deyddi
dauðann og sigur vann,
makt hans og afli eyddi.
Ekkert mig skaða kann.
Þó leggist lík í jörðu,
lifir mín sála frí.
Hún mætir aldrei hörðu
himneskri sælu í.
12.
Jesús er mér í minni.
Mig á hans vald ég gef,
hvort ég er úti eða inni,
eins þá ég vaki og sef.
Hann er mín hjálp og hreysti.
Hann er mitt rétta líf.
Honum af hjarta ég treysti.
Hann mýkir dauðans kíf.
13.
Ég lifi í Jesú nafni.
Í Jesú nafni ég dey.
Þó heilsa og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt.
Í Kristí krafti ég segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.
Hallgrímur Pétursson (1614-1674) – sálmurinn er númer 373 í Sálmabók íslensku kirkjunnar