Hugur okkar er einn og óskiptur i margbreytileika sínum – og hugsanir hlaupa eftir ólíkum nótum og mynda eitt verk sem hljómar á ýmsan veg eftir því hverjir flytja og hverjir hlusta. Þó fjölbreytnin kunni að vera nokkur þá er engu að síður að finna einn samhljóm þegar upp er staðið: Það er þinn hljómur umvafinn hljómum annarra svo sem nótur er vefjast í tónverk hver um aðra. Hljómur sem er svo sterkur að hann endurómar allt það sem skiptir máli og ekkert annað.

Þegar við lítum yfir svið nútímans þá sjáum við að ýmsar hugmyndir eru uppi um Guð. Og það er svo sem ekkert nýtt. Á öllum öldum hafa menn haft uppi ólíkar skoðanir í umræðunni um Guð. Það er í sjálfu sér ekki svo undravert því málið snýst um það sem mestu skiptir í lífi manna: sjálft lífið og tilgang mannsins í heiminum, vöxt og viðgang hans í heiminum, upphaf hans og lok. Snýst um ráðgátu lífsins – þennan magnaða lífsins veg. Maðurinn skyggnist um gáttir veraldar og leitar að fótfestu fyrir hugsanir sínar, langanir og þrár. Hann veit um mörk sín – hann veit líka að hann er sérstök vera – engri annarri lík í heiminum. Maðurinn er vera sem spyr um Guð – hann er leitandi og spyrjandi.

Manneskjan er vera sem trúir.

Við spyrjum okkur sjálf hvað það merki fyrir okkur að vera kristin eða hallast að kristinni trú – eða vilja vera kristin – leitast við að vera kristin. Hvernig manneskja er kristin manneskja? Hvernig sér hún lífið? Hvernig sér hún sjálfa sig í lífinu? Svo mætti lengi spyrja.

Við skoðun trú okkar og iðkun hana hvert með sínum hætti. Leiðum iðulega hugann að því hversu haldgóð hún er þegar hugmyndir og skoðanir þyrlast að okkur úr öllum áttum og ganga oft þvert á þau gildi sem við höfum talið kristinni trú til tekna. Mörgum finnst sem kristin trú hafi jafnvel orðið undir í samfélagi nútímans og fyllast svartsýni á framgang trúarinnar og telja harla oft að vegið sé að henni bæði leynt og ljóst. Önnur horfa vanmáttug til þess sem margur segir að sé óhjákvæmilegt og það sé hin allhraða afhelgun samfélagsins sem dragi fjölda fólks smám saman út af hinu trúarlega sviði. En afhelgun þarf ekki að vera svo slæm í sjálfu sér að mati margra og alls ekki neinn dauðadómur yfir trú. Þótt skipuleg trúarstarfsemi sem fram fer í kirkjum dragist saman þá geti einstaklingurinn haft sína guðstrú og iðkað hana án aðkomu formlegrar kirkjustofnunar. Það sé ekki skilyrði þess að vera kristin manneskja að sækja kirkju – en kirkjan verði engu að síður alltaf til í einhverri mynd.

Hvað sem þessu líður þá höfum við flest hugmyndir um höfund lífsins – um Guð – og köllum hann jafnvel ýmsum nöfnum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru hugmyndir manna um hann sennilega jafn margar mönnunum. Og fólk sem er að mörgu leyti sama sinnis býr sér gjarnan til samfélag um trú sína og sið sem veitir því styrk og næringu.

Eins er með Jesú Krist. Hvert og eitt okkar sér hann með sínum augum og biður til hans með sínum hætti. Mynd hans er til í jafn mörgum útgáfum og við mennirnir sjálfir erum. Að sönnu hefur kristin kirkja oft reynt að steypa saman hugmyndum sínum um hann í eina heildstæða mynd – það er jú eðli manna að samræma og flokka – manneskjan er sú vera sem hefur meðvitaða skipan á öllum sínum málum og er það að einhverju leyti bundið eðlishvöt hennar.

Jesús Kristur er meðal okkar – mitt á meðal okkar. Ekki eins og eitt andlit sem við öll þekkjum. Heldur sem mörg andlit og hvert og eitt þeirra er okkur kunnugt. Er okkar. Þannig lifir hann í hugskoti okkar sem andlit, tilfinning, straumur, afl, verk eða hvað eina orð sem við kjósum að nota um hann, og einmitt vegna þess að ekki er til einhver ein opinber mynd af honum þá er hann lifandi hjá okkur. Hann er nefnilega í hverju andliti.

Stundum er sagt að kirkjan sé breiðfylking og faðmur hennar stór og öllum opinn. Sumir segja að það gera hana bitlausa og hún beygi kné sín fyrir öllum. Hún sé um of umburðarlynd og jafnvel værukær. Kirkjan er við og hún er ekki svo ólík okkur sem tökum stöðu með henni – og orð trúarinnar hríslast líka um kirkjuna og gefa henni kraft sem dugar betur en okkar; orð Jesú Krists hljóma og móta okkur; orð kærleika, krossfestingar og upprisu. Orð vonar.

Fjölbreytileiki einkennir manneskjurnar og þannig er kirkjan. Öll þau andlit sem hún geymir eru andlit Guðs – eru andlit okkar – andlit Jesú Krists. Hann var umburðarlyndur og víðsýnn, kærleiksríkur og miskunnsamur.

Guð er nokkuð umburðarlyndur gagnvart okkur mönnum svo ekki sé meira sagt. Ætli nokkur efist um það sem alla jafnan leiðir hugann að skapara veraldar?

En umfram allt snýr hann andliti miskunnseminnar að okkur.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Hugur okkar er einn og óskiptur i margbreytileika sínum – og hugsanir hlaupa eftir ólíkum nótum og mynda eitt verk sem hljómar á ýmsan veg eftir því hverjir flytja og hverjir hlusta. Þó fjölbreytnin kunni að vera nokkur þá er engu að síður að finna einn samhljóm þegar upp er staðið: Það er þinn hljómur umvafinn hljómum annarra svo sem nótur er vefjast í tónverk hver um aðra. Hljómur sem er svo sterkur að hann endurómar allt það sem skiptir máli og ekkert annað.

Þegar við lítum yfir svið nútímans þá sjáum við að ýmsar hugmyndir eru uppi um Guð. Og það er svo sem ekkert nýtt. Á öllum öldum hafa menn haft uppi ólíkar skoðanir í umræðunni um Guð. Það er í sjálfu sér ekki svo undravert því málið snýst um það sem mestu skiptir í lífi manna: sjálft lífið og tilgang mannsins í heiminum, vöxt og viðgang hans í heiminum, upphaf hans og lok. Snýst um ráðgátu lífsins – þennan magnaða lífsins veg. Maðurinn skyggnist um gáttir veraldar og leitar að fótfestu fyrir hugsanir sínar, langanir og þrár. Hann veit um mörk sín – hann veit líka að hann er sérstök vera – engri annarri lík í heiminum. Maðurinn er vera sem spyr um Guð – hann er leitandi og spyrjandi.

Manneskjan er vera sem trúir.

Við spyrjum okkur sjálf hvað það merki fyrir okkur að vera kristin eða hallast að kristinni trú – eða vilja vera kristin – leitast við að vera kristin. Hvernig manneskja er kristin manneskja? Hvernig sér hún lífið? Hvernig sér hún sjálfa sig í lífinu? Svo mætti lengi spyrja.

Við skoðun trú okkar og iðkun hana hvert með sínum hætti. Leiðum iðulega hugann að því hversu haldgóð hún er þegar hugmyndir og skoðanir þyrlast að okkur úr öllum áttum og ganga oft þvert á þau gildi sem við höfum talið kristinni trú til tekna. Mörgum finnst sem kristin trú hafi jafnvel orðið undir í samfélagi nútímans og fyllast svartsýni á framgang trúarinnar og telja harla oft að vegið sé að henni bæði leynt og ljóst. Önnur horfa vanmáttug til þess sem margur segir að sé óhjákvæmilegt og það sé hin allhraða afhelgun samfélagsins sem dragi fjölda fólks smám saman út af hinu trúarlega sviði. En afhelgun þarf ekki að vera svo slæm í sjálfu sér að mati margra og alls ekki neinn dauðadómur yfir trú. Þótt skipuleg trúarstarfsemi sem fram fer í kirkjum dragist saman þá geti einstaklingurinn haft sína guðstrú og iðkað hana án aðkomu formlegrar kirkjustofnunar. Það sé ekki skilyrði þess að vera kristin manneskja að sækja kirkju – en kirkjan verði engu að síður alltaf til í einhverri mynd.

Hvað sem þessu líður þá höfum við flest hugmyndir um höfund lífsins – um Guð – og köllum hann jafnvel ýmsum nöfnum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru hugmyndir manna um hann sennilega jafn margar mönnunum. Og fólk sem er að mörgu leyti sama sinnis býr sér gjarnan til samfélag um trú sína og sið sem veitir því styrk og næringu.

Eins er með Jesú Krist. Hvert og eitt okkar sér hann með sínum augum og biður til hans með sínum hætti. Mynd hans er til í jafn mörgum útgáfum og við mennirnir sjálfir erum. Að sönnu hefur kristin kirkja oft reynt að steypa saman hugmyndum sínum um hann í eina heildstæða mynd – það er jú eðli manna að samræma og flokka – manneskjan er sú vera sem hefur meðvitaða skipan á öllum sínum málum og er það að einhverju leyti bundið eðlishvöt hennar.

Jesús Kristur er meðal okkar – mitt á meðal okkar. Ekki eins og eitt andlit sem við öll þekkjum. Heldur sem mörg andlit og hvert og eitt þeirra er okkur kunnugt. Er okkar. Þannig lifir hann í hugskoti okkar sem andlit, tilfinning, straumur, afl, verk eða hvað eina orð sem við kjósum að nota um hann, og einmitt vegna þess að ekki er til einhver ein opinber mynd af honum þá er hann lifandi hjá okkur. Hann er nefnilega í hverju andliti.

Stundum er sagt að kirkjan sé breiðfylking og faðmur hennar stór og öllum opinn. Sumir segja að það gera hana bitlausa og hún beygi kné sín fyrir öllum. Hún sé um of umburðarlynd og jafnvel værukær. Kirkjan er við og hún er ekki svo ólík okkur sem tökum stöðu með henni – og orð trúarinnar hríslast líka um kirkjuna og gefa henni kraft sem dugar betur en okkar; orð Jesú Krists hljóma og móta okkur; orð kærleika, krossfestingar og upprisu. Orð vonar.

Fjölbreytileiki einkennir manneskjurnar og þannig er kirkjan. Öll þau andlit sem hún geymir eru andlit Guðs – eru andlit okkar – andlit Jesú Krists. Hann var umburðarlyndur og víðsýnn, kærleiksríkur og miskunnsamur.

Guð er nokkuð umburðarlyndur gagnvart okkur mönnum svo ekki sé meira sagt. Ætli nokkur efist um það sem alla jafnan leiðir hugann að skapara veraldar?

En umfram allt snýr hann andliti miskunnseminnar að okkur.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir