„Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?“ stendur skrifað í 1. Korintubréfi 3.16.

Við gleymum því stundum hvað líkaminn er stórmerkilegt fyrirbæri. Hugur okkar situr í líkamanum og ferðast um víða veröld í honum. Við komumst ekkert frá honum. Hann er við og við erum hann. Samspil hugar og líkama getur verið flókið og oftast gengur það vel fyrir sig. Hugur veit af líkama og líkaminn af huganum. Andleg vanlíðan getur kveikt vanlíðan í líkamanum og angri eitthvað líkamann er næsta víst að það angur bankar upp á hugann.  Líkamanleg velsæld fer sem hlýr straumur um hugann.

Líkaminn talar á sinn hátt og við eigum að hlusta á hann. Einfaldasta rödd hans er svengdin og þá seðjum við hungur okkar. Margar aðrar raddir hans þekkjum við og erum misfljót til að gegna þeim. Stundum alltof fljót – og stundum alltof sein.

En líkaminn talar líka á annan hátt. Sá sem steytir hnefa í reiði sinni mót öðrum hefur ljáð líkama sínum mál án þess að eitt aukatekið orð hafi verið sagt.  Þöglu bíómyndirnar á sínum tíma notuðu raddir líkamanna á mjög fjölbreytilegan hátt og ýktu oft um of. Aldrei sem þá nutu þær sín. En þær voru leiknar.

Daglega tölum við með líkamanum. Eitt handtak án orða getur sagt allt. Hlýtt og þétt handtak á sorgarstundu. Á sama hátt segir snöggt handtak fjandmanna allt sem segja þarf þá stundina. Hikandi handtak og slytttingslegt segir líka sitt á sama hátt og hressilegt handtak og ljómandi andlit.

Mannfræðingar hafa reiknað það út að meðalsetning í samtali taki um 2.5 sekúndur. Orðin segja ekki allt. Í hita stjórnmálanna er þó mælt hvað hver talar lengi í sjónvarpskappræðum til að gæta jafnræðis – en það segir ekki alla söguna. Hvað með framíköllin? Í næstu kappræðum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum verður slökkt á hljóðnemum þegar viðkomandi er ekki að tala – fólki ofbauð fyrirgangurinn í síðustu kappræðum – og röddin er partur af líkamstjáningu. Andlitið talar sínu máli ef svo má segja – við getum greint 250. 000 svipbrigði í einu andliti. Eitt bros segir meira en mörg orð. Vísindamenn hafa greint sautján tegundir brosa hjá manneskjunni og hvert og eitt þeirra fleytir áfram tilfinningu ánægju og gleði.

Rúmlega helmingur allra samskipta fólks fer fram án orða – það er líkaminn sem kemur þessum skilaboðum áleiðis. Þessi þögla rödd líkamans hefur komið upp um margan og hjálpað öðrum.

Hin þögla rödd líkamans – eða hin sýnilega rödd – kemur vel fram í sjónvarpi. Þau sem vilja æfa sig í að sjá rödd líkamans ættu að slökkva á talinu í sjónvarpinu og horfa um stund á myndina þögla. Reyna að sjá hvað um er að vera og hvað fólk segir með líkama sínum. Hver tekur í hönd hvers að fyrrabragði? Hvernig er handtakið?

Þegar horft er á rödd líkamans er það andlit og hendur sem segja mest. Hin sigursæla hönd sem veifar til mannfjöldans. Stjórnmálamaðurinn sem veifar á útifundi til áheyrenda sem hann ímyndar sér að séu vinir hans. Útbreiddur faðmur sem lýsir hlýju og alúð. Spennt hönd hermannsins við húfuskyggni sem segir að hann sé til þjónustu reiðubúinn. Hönd á hjartastað þegar þjóðsöngur er leikinn. Eða vísifingur sem rís einn og sér upp úr höndinni og talinn almennt hafa neikvæð áhrif á þau sem það sjá.

Svipbrigði í andliti er að mestu leyti sem alheimstungumál. Brosið er alls staðar bros, efasvipur er efasvipur o.s.frv. Aðrar hreyfingar með líkamanum eins og til dæmis hið kunna sigurmerki (V) með vísifingri og löngutöng úr opnum lófa þýða ekki alltaf það sama í öllum löndum. Sá sem myndar vaff með vísifingri og löngutöng í Grikklandi segir með því að viðkomandi eigi að fara til fjandans.  Handtak í Japan eða hressilegt faðmlag er dónaskapur að áliti þarlendra. Þar lúta menn höfði þegar þeir hittast. Japanir kinka oft kolli í samtölum og það þýðir eins og  víðast hvar annars staðar í heiminum: „Já, ég hlusta á þig.“   – nema í Búlgaríu þar sem það þýðir: „Nei.“

Snerting á nefi getur sagt margt. Við komum við það ef kvef hrellir okkur eða eitthvert kusk hefur fokið upp í það. En svo er ekki alltaf. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að þegar menn ljúga þá verður mikið blóðflæði til hinna fínu háræða í nefinu og vegna þess finna menn fyrir smá kláða í nefinu og verða að snerta það. Frægasta dæmið um þetta er framburður fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem ásakaður var um framhjáhald. Sjónvarpsupptaka af yfirheyrslum yfir forsetanum var skoðuð af taugasérfræðingum og kom í ljós að í hvert skipti sem hann laug þá snerti hann nef sitt en annars örsjaldan.

Líkaminn segir nefnilega býsa oft satt. Enda musteri Guðs.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

„Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?“ stendur skrifað í 1. Korintubréfi 3.16.

Við gleymum því stundum hvað líkaminn er stórmerkilegt fyrirbæri. Hugur okkar situr í líkamanum og ferðast um víða veröld í honum. Við komumst ekkert frá honum. Hann er við og við erum hann. Samspil hugar og líkama getur verið flókið og oftast gengur það vel fyrir sig. Hugur veit af líkama og líkaminn af huganum. Andleg vanlíðan getur kveikt vanlíðan í líkamanum og angri eitthvað líkamann er næsta víst að það angur bankar upp á hugann.  Líkamanleg velsæld fer sem hlýr straumur um hugann.

Líkaminn talar á sinn hátt og við eigum að hlusta á hann. Einfaldasta rödd hans er svengdin og þá seðjum við hungur okkar. Margar aðrar raddir hans þekkjum við og erum misfljót til að gegna þeim. Stundum alltof fljót – og stundum alltof sein.

En líkaminn talar líka á annan hátt. Sá sem steytir hnefa í reiði sinni mót öðrum hefur ljáð líkama sínum mál án þess að eitt aukatekið orð hafi verið sagt.  Þöglu bíómyndirnar á sínum tíma notuðu raddir líkamanna á mjög fjölbreytilegan hátt og ýktu oft um of. Aldrei sem þá nutu þær sín. En þær voru leiknar.

Daglega tölum við með líkamanum. Eitt handtak án orða getur sagt allt. Hlýtt og þétt handtak á sorgarstundu. Á sama hátt segir snöggt handtak fjandmanna allt sem segja þarf þá stundina. Hikandi handtak og slytttingslegt segir líka sitt á sama hátt og hressilegt handtak og ljómandi andlit.

Mannfræðingar hafa reiknað það út að meðalsetning í samtali taki um 2.5 sekúndur. Orðin segja ekki allt. Í hita stjórnmálanna er þó mælt hvað hver talar lengi í sjónvarpskappræðum til að gæta jafnræðis – en það segir ekki alla söguna. Hvað með framíköllin? Í næstu kappræðum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum verður slökkt á hljóðnemum þegar viðkomandi er ekki að tala – fólki ofbauð fyrirgangurinn í síðustu kappræðum – og röddin er partur af líkamstjáningu. Andlitið talar sínu máli ef svo má segja – við getum greint 250. 000 svipbrigði í einu andliti. Eitt bros segir meira en mörg orð. Vísindamenn hafa greint sautján tegundir brosa hjá manneskjunni og hvert og eitt þeirra fleytir áfram tilfinningu ánægju og gleði.

Rúmlega helmingur allra samskipta fólks fer fram án orða – það er líkaminn sem kemur þessum skilaboðum áleiðis. Þessi þögla rödd líkamans hefur komið upp um margan og hjálpað öðrum.

Hin þögla rödd líkamans – eða hin sýnilega rödd – kemur vel fram í sjónvarpi. Þau sem vilja æfa sig í að sjá rödd líkamans ættu að slökkva á talinu í sjónvarpinu og horfa um stund á myndina þögla. Reyna að sjá hvað um er að vera og hvað fólk segir með líkama sínum. Hver tekur í hönd hvers að fyrrabragði? Hvernig er handtakið?

Þegar horft er á rödd líkamans er það andlit og hendur sem segja mest. Hin sigursæla hönd sem veifar til mannfjöldans. Stjórnmálamaðurinn sem veifar á útifundi til áheyrenda sem hann ímyndar sér að séu vinir hans. Útbreiddur faðmur sem lýsir hlýju og alúð. Spennt hönd hermannsins við húfuskyggni sem segir að hann sé til þjónustu reiðubúinn. Hönd á hjartastað þegar þjóðsöngur er leikinn. Eða vísifingur sem rís einn og sér upp úr höndinni og talinn almennt hafa neikvæð áhrif á þau sem það sjá.

Svipbrigði í andliti er að mestu leyti sem alheimstungumál. Brosið er alls staðar bros, efasvipur er efasvipur o.s.frv. Aðrar hreyfingar með líkamanum eins og til dæmis hið kunna sigurmerki (V) með vísifingri og löngutöng úr opnum lófa þýða ekki alltaf það sama í öllum löndum. Sá sem myndar vaff með vísifingri og löngutöng í Grikklandi segir með því að viðkomandi eigi að fara til fjandans.  Handtak í Japan eða hressilegt faðmlag er dónaskapur að áliti þarlendra. Þar lúta menn höfði þegar þeir hittast. Japanir kinka oft kolli í samtölum og það þýðir eins og  víðast hvar annars staðar í heiminum: „Já, ég hlusta á þig.“   – nema í Búlgaríu þar sem það þýðir: „Nei.“

Snerting á nefi getur sagt margt. Við komum við það ef kvef hrellir okkur eða eitthvert kusk hefur fokið upp í það. En svo er ekki alltaf. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að þegar menn ljúga þá verður mikið blóðflæði til hinna fínu háræða í nefinu og vegna þess finna menn fyrir smá kláða í nefinu og verða að snerta það. Frægasta dæmið um þetta er framburður fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem ásakaður var um framhjáhald. Sjónvarpsupptaka af yfirheyrslum yfir forsetanum var skoðuð af taugasérfræðingum og kom í ljós að í hvert skipti sem hann laug þá snerti hann nef sitt en annars örsjaldan.

Líkaminn segir nefnilega býsa oft satt. Enda musteri Guðs.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir