Þau sérstöku ljós sem kveikt eru á aðventu vísa til þeirrar hátíðar sem senn gengur í garð. Margir segja að sú hátíð sé mikil hátíð hlutanna og boðskapur hennar falli í skuggann af þeim. Öll vitum við að margvíslegir hlutir fylgja manneskjunni og því er það ekki undravert að ókjör hluta sigli með þeirri hátíð sem fram undan er – hvort tveggja þarfir hlutir og óþarfir. En það er hvers og eins að skera þar úr um á hverju sé þörf og hverju ekki.

Öll þau sem komin eru til vits og ára vita svo sem í sjálfu sér að hlutir eru ekki það sem skiptir höfuðmáli í lífinu. Andlegri leit okkar verður tæpast svalað í veröld hlutanna nema við séum hreinir og klárir hlutadýrkendur og aðhyllumst hlutatrú. Auðvitað getur fagur hlutur vakið góðan hug hjá okkur, já og bent út fyrir sjálfan sig. Jafnvel til einhvers æðra. Falið í sér hlýju og umhyggju, verið vináttuvottur.

Fagur hlutur getur skapað vellíðan í sálinni meðan ljótur hlutur og illa gerður getur sært sálina. Fegurð hefur áhrif á sálarástand manneskjunnar og lyftir henni oft upp í andan hæðir.

En þó að við fjösum um hlutina þá eru þeir okkur býsna kærir. Við getum ekki lifað án þeirra. Þeir eru óaðskiljanlegir hversdagslegu lífi okkar. Gera lífið auðveldara og skemmtilegra.

Og hlutatískan sem eltir okkur á röndum og við mörg hver hana sömuleiðis vill stýra okkur og segja okkur hvað sé eftirsóknarvert enda þótt hún segi okkur ekki hvers vegna. Tískan er líka sköpunarkraftur sem elur margt af sér sem heillar manneskjuna. Hún endurspeglar að einhverju leyti hugarheim mannsins og sköpunarkraft hans. Þannig erum við í slagtogi með tískunni og hlutunum eins og ráðalausir unglingar og nöldur okkar yfir þessum samferðafélögum okkar ristir kannski ekki alltaf djúpt. Innst inni elskum við þá. Og margur kann upp á sína tíu fingur helstu tískumerkin þó nöfn gömlu og góðu guðspjallamannanna séu móðu hulin.

Við erum manneskjur og alls konar kenndir og uppátæki fylgja okkur. Lífið er alltaf einhvers konar mannamót þar sem margir reigja sig eins og hanar á haug meðan aðrir láta lítt á sér kræla. Ótal margir vilja eiga við okkur orð. Það eru til dæmis alls konar áhrifavaldar, stjórnmálamenn, álitsgjafar og áfram mætti telja, sem geta villt okkur sýn meira en dauðir hlutir. Okkar er að láta ekki gapuxa og gáfnaljón leiða okkur í ógöngur – það reynir á hvern og einn einstakling að velja, hafna eða grisja úr. Þetta er svo sem ekki sagt efnishyggju okkar til varnar heldur aðeins sett fram til umhugsunar um að mörg eru þau sem sitja um okkur.

En aftur að aðventuljósunum. Þau eru táknræn í heimi trúarinnar og vísa bæði út fyrir hversdagslegan ramma tilverunnar, til hins æðra, og sömuleiðis aftur til tilverunnar og þá í fylgd hins æðra. Hér er náttúrlega hægt að nota alls konar orð, Jesúbarn, frelsari og lausnari, hinn alvaldi, guðssonur, mannssonur, Guð í manni og fleira mætti tína til. Búningur þessa atburðar sem aðventuljósin varpa birtu sinni á er helgisagan um umkomulaust par og barnsfæðingu. Helgisaga sem er lesin, leikin og sungin. Sagan verður nánast ljóslifandi í hugum okkar og við tökum þátt í henni. Aftur og aftur. Ár eftir ár. Hún er sígild og dregur saman einhverja ólíka þræði tilvistar mannsins í einn sterkan þráð. Já, það er eitthvað sem talar til okkar í þessari dramatík. Eitthvað sem á eða vill eiga samastað í huga okkar. Hvað skyldi það vera?

Ætli það sé ekki von. Þarflaust er að fara mörgum orðum um þær stríðshörmungar sem hrjá veröldina nú um stundir. Von býr í brjóstum allra að manndrápum og fólskuverkum sem þeim fylgja linni. Það er ekki lítil von sem ólgar í brjóstum okkar um frið og líf þegar við heyrum um manndráp á saklausu fólki á hverjum degi.

Kannski finnst einhverjum það vera barnalegt að tala um von sem fylgi aðventu. Það sé bara hálfgert píp og ekki síst andspænis hermönnum gráum fyrir járnum á vígvellinum gegnt óvinaher. Þar er ekkert pláss fyrir von heldur aðeins sigur. Já, margur er efablandinn og með súran viskusvip og telur sig vita betur en sá er lífið gaf. Þá er það hlutverk okkar sem erum að bauka við að koma fagnaðarerindinu áleiðis í hversdeginum að reyna að sannfæra viðkomandi um að betra sé að ala með sér von um farsæld heldur en láta bölmóð drekkja sér. Vonin sé mannbætandi en bölmóðurinn sé sem hver annar sálarmorðingi.

Sennilega er enginn svo aumur að hann eða hún geti ekki vakið von hjá einhverjum, von til hins betra. Það geta verið sterk aðventuljós ef tekst að kveikja þau í sálargluggum okkar og náungans á vettvangi dagsins.

Kristin trú kallar ætíð til ábyrgðar gagnvart þeim sem standa höllum fæti í tilverunni – gagnvart þeim sem eru hrjáðir hvort heldur í fátækt sinni eða auðlegð. Aðventan bregður mjúkri birtu sinni yfir til þeirra og bendir okkur á að þar sé mikið verk að vinna. Þetta er ábyrgð gagnvart lífinu í öllum fjölbreytileika þess, styrkleika þess og veikleika.

Þetta er von aðventunnar. Og þetta er andi aðventunnar sem vð bjóðum til sætis.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þau sérstöku ljós sem kveikt eru á aðventu vísa til þeirrar hátíðar sem senn gengur í garð. Margir segja að sú hátíð sé mikil hátíð hlutanna og boðskapur hennar falli í skuggann af þeim. Öll vitum við að margvíslegir hlutir fylgja manneskjunni og því er það ekki undravert að ókjör hluta sigli með þeirri hátíð sem fram undan er – hvort tveggja þarfir hlutir og óþarfir. En það er hvers og eins að skera þar úr um á hverju sé þörf og hverju ekki.

Öll þau sem komin eru til vits og ára vita svo sem í sjálfu sér að hlutir eru ekki það sem skiptir höfuðmáli í lífinu. Andlegri leit okkar verður tæpast svalað í veröld hlutanna nema við séum hreinir og klárir hlutadýrkendur og aðhyllumst hlutatrú. Auðvitað getur fagur hlutur vakið góðan hug hjá okkur, já og bent út fyrir sjálfan sig. Jafnvel til einhvers æðra. Falið í sér hlýju og umhyggju, verið vináttuvottur.

Fagur hlutur getur skapað vellíðan í sálinni meðan ljótur hlutur og illa gerður getur sært sálina. Fegurð hefur áhrif á sálarástand manneskjunnar og lyftir henni oft upp í andan hæðir.

En þó að við fjösum um hlutina þá eru þeir okkur býsna kærir. Við getum ekki lifað án þeirra. Þeir eru óaðskiljanlegir hversdagslegu lífi okkar. Gera lífið auðveldara og skemmtilegra.

Og hlutatískan sem eltir okkur á röndum og við mörg hver hana sömuleiðis vill stýra okkur og segja okkur hvað sé eftirsóknarvert enda þótt hún segi okkur ekki hvers vegna. Tískan er líka sköpunarkraftur sem elur margt af sér sem heillar manneskjuna. Hún endurspeglar að einhverju leyti hugarheim mannsins og sköpunarkraft hans. Þannig erum við í slagtogi með tískunni og hlutunum eins og ráðalausir unglingar og nöldur okkar yfir þessum samferðafélögum okkar ristir kannski ekki alltaf djúpt. Innst inni elskum við þá. Og margur kann upp á sína tíu fingur helstu tískumerkin þó nöfn gömlu og góðu guðspjallamannanna séu móðu hulin.

Við erum manneskjur og alls konar kenndir og uppátæki fylgja okkur. Lífið er alltaf einhvers konar mannamót þar sem margir reigja sig eins og hanar á haug meðan aðrir láta lítt á sér kræla. Ótal margir vilja eiga við okkur orð. Það eru til dæmis alls konar áhrifavaldar, stjórnmálamenn, álitsgjafar og áfram mætti telja, sem geta villt okkur sýn meira en dauðir hlutir. Okkar er að láta ekki gapuxa og gáfnaljón leiða okkur í ógöngur – það reynir á hvern og einn einstakling að velja, hafna eða grisja úr. Þetta er svo sem ekki sagt efnishyggju okkar til varnar heldur aðeins sett fram til umhugsunar um að mörg eru þau sem sitja um okkur.

En aftur að aðventuljósunum. Þau eru táknræn í heimi trúarinnar og vísa bæði út fyrir hversdagslegan ramma tilverunnar, til hins æðra, og sömuleiðis aftur til tilverunnar og þá í fylgd hins æðra. Hér er náttúrlega hægt að nota alls konar orð, Jesúbarn, frelsari og lausnari, hinn alvaldi, guðssonur, mannssonur, Guð í manni og fleira mætti tína til. Búningur þessa atburðar sem aðventuljósin varpa birtu sinni á er helgisagan um umkomulaust par og barnsfæðingu. Helgisaga sem er lesin, leikin og sungin. Sagan verður nánast ljóslifandi í hugum okkar og við tökum þátt í henni. Aftur og aftur. Ár eftir ár. Hún er sígild og dregur saman einhverja ólíka þræði tilvistar mannsins í einn sterkan þráð. Já, það er eitthvað sem talar til okkar í þessari dramatík. Eitthvað sem á eða vill eiga samastað í huga okkar. Hvað skyldi það vera?

Ætli það sé ekki von. Þarflaust er að fara mörgum orðum um þær stríðshörmungar sem hrjá veröldina nú um stundir. Von býr í brjóstum allra að manndrápum og fólskuverkum sem þeim fylgja linni. Það er ekki lítil von sem ólgar í brjóstum okkar um frið og líf þegar við heyrum um manndráp á saklausu fólki á hverjum degi.

Kannski finnst einhverjum það vera barnalegt að tala um von sem fylgi aðventu. Það sé bara hálfgert píp og ekki síst andspænis hermönnum gráum fyrir járnum á vígvellinum gegnt óvinaher. Þar er ekkert pláss fyrir von heldur aðeins sigur. Já, margur er efablandinn og með súran viskusvip og telur sig vita betur en sá er lífið gaf. Þá er það hlutverk okkar sem erum að bauka við að koma fagnaðarerindinu áleiðis í hversdeginum að reyna að sannfæra viðkomandi um að betra sé að ala með sér von um farsæld heldur en láta bölmóð drekkja sér. Vonin sé mannbætandi en bölmóðurinn sé sem hver annar sálarmorðingi.

Sennilega er enginn svo aumur að hann eða hún geti ekki vakið von hjá einhverjum, von til hins betra. Það geta verið sterk aðventuljós ef tekst að kveikja þau í sálargluggum okkar og náungans á vettvangi dagsins.

Kristin trú kallar ætíð til ábyrgðar gagnvart þeim sem standa höllum fæti í tilverunni – gagnvart þeim sem eru hrjáðir hvort heldur í fátækt sinni eða auðlegð. Aðventan bregður mjúkri birtu sinni yfir til þeirra og bendir okkur á að þar sé mikið verk að vinna. Þetta er ábyrgð gagnvart lífinu í öllum fjölbreytileika þess, styrkleika þess og veikleika.

Þetta er von aðventunnar. Og þetta er andi aðventunnar sem vð bjóðum til sætis.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir