Afi var alltaf í banastuði á degi aldraðra og krafðist þess að ég pantaði pizzu handa sér.

Þetta er minn dagur, sagði hann. Eiga ekki allir sinn dag? Og þetta var vel til fundið hjá kirkjunni að velja uppstigningardag sem dag aldraðra. Algjörlega kórrétt samkvæmt kenningunni. Segir ekki postullega trúarjátningin sem er keyrð í gegn í hverri messu – það var reyndar ekki svo í gamla daga – frá ferðalagi? Frá fæðingu og til dauða? Og öllu þar á milli, við gleymum því ekki. Sú saga rifjast fljótt upp í alls konar myndum.

Já, minningarnar eru nú aldeilis fjársjóður sem seint verður skattlagður. Þetta voru dýrðardagar þó að stundum gengi á með hressilegum éljum – hefur annars nokkur lofað eilífu sumri? Það var nú ekki átakalaust að koma þaki yfir höfuðið á okkur en það var skemmtilegt að byggja þó það tæki tímann sinn. Og kláraðist aldrei eins og hún amma þín sagði.

Er hægt að kvarta? Já, auðvitað. En skilar það einhverju úr þessu? Nei. Er ekki lokað hjá umboðsmanni aldraðra? Eða opnaði hann kannski aldrei? Einmitt, hann hefur aldrei verið til. Þá er ekki hægt að kenna honum um hallann á ríkissjóði.

Svo er það upprisan, og ég trúi alveg á hana og finnst hún bara lógísk og kenndi ég stærðfræði í Menntaskólanum við Fjall, MF, alla mína hunds- og kattartíð. Þetta gengur allt saman upp eins og snjallt algebrudæmi og góð saga þar sem allt er á sínum stað. Og ef þér finnst það ekki rökrétt þá gerirðu bara þína prívatbyltingu en flækir ekki öðrum inn í þinn einkahag – við höfum nóg með okkar.

En svo kemur mál dagsins: uppstigning. Það hefur mér alltaf fundist mesta dramað og lifi mig inn í það þegar ég fletti hratt í gegnum lífssögu mína. Uppstigning. Og þá til himna. Hér er ekkert snakk um sumarlandið sem hefur hertekið himininn heldur bara orðað tradisjónelt: steig upp til himna. Og hver vill ekki vera á himnum? Himinninn er okkar staður. Þar er nóg að sýsla og ég ætla rétt að vona að ég muni nöfnin á öllu mínu fólki og nemendunum sem fóru á undan mér.

Ég er hins vegar lítið fyrir það sem þeir segja mér hérna í trúarjátningunni að frelsarinn ætli að skjótast aftur til okkar til að dæma lifendur og dauða. Inn í hvaða lagaflækjur á nú að fara að þvæla manni á gamalsaldri? Það er ekki viðkvæmni heldur finnst mér það algjör óþarfi. Dæma hvað? Ætli flestir hafi ekki reynt að gera sitt besta og ekki á að fara að draga ógæfufólkið fyrir dómstólana? Margt af því hefur nú fengið nóg af hinum jarðnesku dómstólum, ætli það dugi ekki? Svo ég nefni nú ekki dómstól alþýðunnar. Eða þá heitu pottana í sundlaugunum og eldhúsborðið í sveitinni – þar falla nú aldeilis dómar í hrönnum um menn og málefni!

Og hvað með þessa erfðasynd? Hún er á ferli – sagði ekki skáldið annars að erfðasyndin kæmi á flókaskóm? Af hverju? Jú, það eru hljóðlátir skór og hún læðist aftan að þér kyrrlát og undirförul – þú hefur ekki roð við henni. En presturinn hér er alltaf að tala um hana sem einhverja upprunasynd, ég veit ekki hvaðan sú fluga er komin í höfuðið á honum. Hann hefur nú ekki sagt neitt til um hvernig hún er skóuð. Ætli hún sé ekki á íþróttaskóm eins og nær allir nú til dags? Flest okkar hér á heimilinu höfum hins vegar kosið að dragast um gólfin á flókaskóm erfðasyndinni til samlætis enda sólinn þeirra stamur og stöðugur á gljáandi bónuðu gólfinu.

Pizzan var farin að kólna. Er hún ekki örugglega með aukaosti? spurði afi. Svo krækti hann sér í eina sneið og beit í hana með bros á vör. Sagði: Þú ert engill.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Afi var alltaf í banastuði á degi aldraðra og krafðist þess að ég pantaði pizzu handa sér.

Þetta er minn dagur, sagði hann. Eiga ekki allir sinn dag? Og þetta var vel til fundið hjá kirkjunni að velja uppstigningardag sem dag aldraðra. Algjörlega kórrétt samkvæmt kenningunni. Segir ekki postullega trúarjátningin sem er keyrð í gegn í hverri messu – það var reyndar ekki svo í gamla daga – frá ferðalagi? Frá fæðingu og til dauða? Og öllu þar á milli, við gleymum því ekki. Sú saga rifjast fljótt upp í alls konar myndum.

Já, minningarnar eru nú aldeilis fjársjóður sem seint verður skattlagður. Þetta voru dýrðardagar þó að stundum gengi á með hressilegum éljum – hefur annars nokkur lofað eilífu sumri? Það var nú ekki átakalaust að koma þaki yfir höfuðið á okkur en það var skemmtilegt að byggja þó það tæki tímann sinn. Og kláraðist aldrei eins og hún amma þín sagði.

Er hægt að kvarta? Já, auðvitað. En skilar það einhverju úr þessu? Nei. Er ekki lokað hjá umboðsmanni aldraðra? Eða opnaði hann kannski aldrei? Einmitt, hann hefur aldrei verið til. Þá er ekki hægt að kenna honum um hallann á ríkissjóði.

Svo er það upprisan, og ég trúi alveg á hana og finnst hún bara lógísk og kenndi ég stærðfræði í Menntaskólanum við Fjall, MF, alla mína hunds- og kattartíð. Þetta gengur allt saman upp eins og snjallt algebrudæmi og góð saga þar sem allt er á sínum stað. Og ef þér finnst það ekki rökrétt þá gerirðu bara þína prívatbyltingu en flækir ekki öðrum inn í þinn einkahag – við höfum nóg með okkar.

En svo kemur mál dagsins: uppstigning. Það hefur mér alltaf fundist mesta dramað og lifi mig inn í það þegar ég fletti hratt í gegnum lífssögu mína. Uppstigning. Og þá til himna. Hér er ekkert snakk um sumarlandið sem hefur hertekið himininn heldur bara orðað tradisjónelt: steig upp til himna. Og hver vill ekki vera á himnum? Himinninn er okkar staður. Þar er nóg að sýsla og ég ætla rétt að vona að ég muni nöfnin á öllu mínu fólki og nemendunum sem fóru á undan mér.

Ég er hins vegar lítið fyrir það sem þeir segja mér hérna í trúarjátningunni að frelsarinn ætli að skjótast aftur til okkar til að dæma lifendur og dauða. Inn í hvaða lagaflækjur á nú að fara að þvæla manni á gamalsaldri? Það er ekki viðkvæmni heldur finnst mér það algjör óþarfi. Dæma hvað? Ætli flestir hafi ekki reynt að gera sitt besta og ekki á að fara að draga ógæfufólkið fyrir dómstólana? Margt af því hefur nú fengið nóg af hinum jarðnesku dómstólum, ætli það dugi ekki? Svo ég nefni nú ekki dómstól alþýðunnar. Eða þá heitu pottana í sundlaugunum og eldhúsborðið í sveitinni – þar falla nú aldeilis dómar í hrönnum um menn og málefni!

Og hvað með þessa erfðasynd? Hún er á ferli – sagði ekki skáldið annars að erfðasyndin kæmi á flókaskóm? Af hverju? Jú, það eru hljóðlátir skór og hún læðist aftan að þér kyrrlát og undirförul – þú hefur ekki roð við henni. En presturinn hér er alltaf að tala um hana sem einhverja upprunasynd, ég veit ekki hvaðan sú fluga er komin í höfuðið á honum. Hann hefur nú ekki sagt neitt til um hvernig hún er skóuð. Ætli hún sé ekki á íþróttaskóm eins og nær allir nú til dags? Flest okkar hér á heimilinu höfum hins vegar kosið að dragast um gólfin á flókaskóm erfðasyndinni til samlætis enda sólinn þeirra stamur og stöðugur á gljáandi bónuðu gólfinu.

Pizzan var farin að kólna. Er hún ekki örugglega með aukaosti? spurði afi. Svo krækti hann sér í eina sneið og beit í hana með bros á vör. Sagði: Þú ert engill.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir