Hann sagðist bara vera eitt af þessum jólabörnum og léti þetta kristilega umstang ekki trufla sig. Hefði aldrei verið trúaður og hugsaði aldrei út í þau mál. Skipti sér ekki af þeim enda væri hann maður andartaksins. Líðandi stundar núsins svipula, hvorki fortíð né framtíð til. Aðeins nú sem brynni hratt eins og blys þar sem eitt tæki við af öðru. Lífið væri blysför mót tímanum og leit mannsins að byrgi hans. En öll jólaumgjörðin í hversdagslegu leikhúsi lífsins heillaði hann. Þessi tilfinning að allt væri að rifna af spenningi sem sumir kölluðu trylling en aðrir jólaundirbúning og enn aðrir aðdraganda jólanna. Honum fannst hann vera þarna einhvers staðar á milli eða alls staðar. Allt eftir því hvernig hann væri stemmdur. Jólin væru verufræðileg upplifun og ekkert andartak eins. Matur, og aftur matur. Morguninn byrjaði á því að jóladagatalið var opnað og súkkulaðimolinn hljóp ærslafullur í munn hans. Endalaus sætindi og kertaljós hvar sem hann kom. Peningalyktin í loftinu þegar greiðslukortin strykjust hljóðlega um posana eins og á leyndu stefnumóti og síðan kæmi dómsdagsreikningurinn í heimabankann. Gjafirnar væru ekki sísti stemmarinn og þau sýndu innsta eðli manneskjunnar sem fælist í því að gefa og að taka á móti. Alla daga væri verið að gefa og að taka á móti. Jólin væru einmitt hátíð gjafanna og áminning um að gleyma því að aldrei að manneskjan væri vera sem gæfi og tæki á móti. Andar að sér og frá sér. Allar gjafir stórar sem smáar endurómuðu þá mannlegu kennd. Hver vill ekki gefa og hver vill ekki taka á móti gjöf? sagði hann og svaraði því að bragði sjálfur: Allir. Að minnsta kosti innst inni. Og ilmandi jólatréð í stofunni hvarf í gjafahafi. Hann sagðist standa vörð um jólin og vildi ekki að þeim yrði úthýst eins og samanbitnir guðleysingjarnir hömruðu á með graftarbólgna þráhyggju í vansælum augunum. Nei, hann vildi jólahelgileikina í skólana og hafði sjálfur leikið engil eitt sinn í Melaskóla. Gleymdi því aldrei. Og fékk ilmandi epli að launum. Hann vildi heyra sálmasönginn og jólalögin. Og sagðist vera svo staðfastur í veraldlegri aðdáun sinni á jólunum að hann sótti hverja guðsþjónustu út alla aðventuna. Og mætti spariklæddur af virðingu við sjálfan sig og hátíðina sem var á næsta leiti. Söng sálmana af mikilli innlifun. Þetta voru jólin og það var ekkert athugavert við þau frekar en kandísflos á sautjánda júní. Jólin voru hornsteinn í lífi hans á þessum árstíma. Vildi koma því bara áleiðis að trúin skipti ekki máli í því samhengi. Og ef hún gerði það þá væri það bara í stóra samhenginu sem hann sæi ekki því að hann væri maður smáatriðanna. En nú þyrfti hann að kveðja því að hann færi að fara á jólaball með frænku sinni og þangað kæmi jólasveinninn sem væri hans uppáhald. Svo var hann rokinn.
Hann sagðist bara vera eitt af þessum jólabörnum og léti þetta kristilega umstang ekki trufla sig. Hefði aldrei verið trúaður og hugsaði aldrei út í þau mál. Skipti sér ekki af þeim enda væri hann maður andartaksins. Líðandi stundar núsins svipula, hvorki fortíð né framtíð til. Aðeins nú sem brynni hratt eins og blys þar sem eitt tæki við af öðru. Lífið væri blysför mót tímanum og leit mannsins að byrgi hans. En öll jólaumgjörðin í hversdagslegu leikhúsi lífsins heillaði hann. Þessi tilfinning að allt væri að rifna af spenningi sem sumir kölluðu trylling en aðrir jólaundirbúning og enn aðrir aðdraganda jólanna. Honum fannst hann vera þarna einhvers staðar á milli eða alls staðar. Allt eftir því hvernig hann væri stemmdur. Jólin væru verufræðileg upplifun og ekkert andartak eins. Matur, og aftur matur. Morguninn byrjaði á því að jóladagatalið var opnað og súkkulaðimolinn hljóp ærslafullur í munn hans. Endalaus sætindi og kertaljós hvar sem hann kom. Peningalyktin í loftinu þegar greiðslukortin strykjust hljóðlega um posana eins og á leyndu stefnumóti og síðan kæmi dómsdagsreikningurinn í heimabankann. Gjafirnar væru ekki sísti stemmarinn og þau sýndu innsta eðli manneskjunnar sem fælist í því að gefa og að taka á móti. Alla daga væri verið að gefa og að taka á móti. Jólin væru einmitt hátíð gjafanna og áminning um að gleyma því að aldrei að manneskjan væri vera sem gæfi og tæki á móti. Andar að sér og frá sér. Allar gjafir stórar sem smáar endurómuðu þá mannlegu kennd. Hver vill ekki gefa og hver vill ekki taka á móti gjöf? sagði hann og svaraði því að bragði sjálfur: Allir. Að minnsta kosti innst inni. Og ilmandi jólatréð í stofunni hvarf í gjafahafi. Hann sagðist standa vörð um jólin og vildi ekki að þeim yrði úthýst eins og samanbitnir guðleysingjarnir hömruðu á með graftarbólgna þráhyggju í vansælum augunum. Nei, hann vildi jólahelgileikina í skólana og hafði sjálfur leikið engil eitt sinn í Melaskóla. Gleymdi því aldrei. Og fékk ilmandi epli að launum. Hann vildi heyra sálmasönginn og jólalögin. Og sagðist vera svo staðfastur í veraldlegri aðdáun sinni á jólunum að hann sótti hverja guðsþjónustu út alla aðventuna. Og mætti spariklæddur af virðingu við sjálfan sig og hátíðina sem var á næsta leiti. Söng sálmana af mikilli innlifun. Þetta voru jólin og það var ekkert athugavert við þau frekar en kandísflos á sautjánda júní. Jólin voru hornsteinn í lífi hans á þessum árstíma. Vildi koma því bara áleiðis að trúin skipti ekki máli í því samhengi. Og ef hún gerði það þá væri það bara í stóra samhenginu sem hann sæi ekki því að hann væri maður smáatriðanna. En nú þyrfti hann að kveðja því að hann færi að fara á jólaball með frænku sinni og þangað kæmi jólasveinninn sem væri hans uppáhald. Svo var hann rokinn.