Manneskjan er vera sem er í samskiptum við aðra. Hún þarf að vera í samskiptum til þess að lifa af. Enginn er eyland, er stundum sagt, og þá er hugsunin sú að enginn standi einn og yfirgefinn alla daga sem væri hann staddur á eyðieyju. Samskipti við annað fólk eru öllum nauðsynleg. Þessi samskipti geta oft verið flókin og stundum erfið. Þau geta líka verið ósköp þægileg og gengið vel fyrir sig. Það ræður þó miklu hve löng þessi samskipti eru. Í fjölskyldum móta samskipti ævina út og hjá flestum ganga þau vel. Þó kunna sennilega allir að segja frá einhverjum hnökrum í þeim samskiptum og jafnvel þegar þau hafa horfið sem dögg fyrir sólu um lengri eða skemmri tíma. Og í sumum tilvikum til lífstíðar.

Stofnanir samfélagsins eru margar. Samskipti við þær eru mismikil en allar eru þær settar upp til þess að þjóna samfélaginu. Þessar stofnanir geta stundum verið svifaseinar og starf þeirra er líka margslungið. Það getur tekið tíma fyrir þau sem leita til þeirra að skilja hvernig þær þjóna fólki og hvað sé á valdi þeirra að gera hverju sinni. Sumir krefjast afdráttarlausra svara frá þeim á stundinni meðan aðrir sýna biðlund og skilning. Það síðastnefnda skilar oftast góðum árangri enda þótt stundum þurfi að láta í sér hvína þegar einhver stofnun samfélagsins er sofandaleg og sljó í þjónustu sinni. Eða fari með rangt mál og tali niður til fólks og samtaka.

Kirkjan er samfélag og þar gengur allt alla jafna vel fyrir sig þegar miðað er við fólksfjölda og ólík sjónarmið. Starfsfólk kirkjunnar leggur sig í líma við að eiga góð samskipti við fólk enda er það í anda þess boðskapar sem kirkjan vill að móti samfélagið. Ef starfsfólk kirkjunnar temur sér neikvæð samskipti stendur það gegn þeim boðskap sem það boðar. Slíkt er bæði gamalt og nýtt. Hver starfsmaður er andlit þeirrar stofnunar sem hann eða hún vinnur hjá.

Lang flest samskipti ganga vel fyrir sig vegna þess að fólk hefur þroska til þess að taka á þeim með mannsæmandi hætti. Stundum bregður þó út af eins og á vinnustöðum þegar einelti lætur á sér kræla og gripið til þess ráðs að horfa í gegnum starfsmenn eins og þeir séu ekki til. Það er mannfyrirlitning og ofbeldi. Allar stofnanir reyna að taka á slíkum samskiptum sem dæma sig reyndar sjálf.

Manneskja er vera sem þarf að vera í samskiptum við samferðamenn sína – og Guð. Í tæknivæddu samfélagi nútímans hefur Guð verið á undanhaldi og manneskjan talið sig geta lifað án hans og rekið samfélag þar sem nafn hans má helst ekki nefna. En manneskjan hefur á öllum tímum reynt að úthýsa Guði og gengið misvel við þá iðju sína. Hann leitar líka alltaf inn – gefst ekki upp.

Trúaður maður á samskipti við Guð. Hann talar við Guð í bænalífi sínu og leggur traust sitt á hann. Hugmyndir hans um hvað sé gott og fagurt, heilt og uppbyggilegt, er að finna í trúararfinum. Bænalíf, lestur í Biblíu og fúsleiki til að rétta öðrum hjálparhönd eru dygðir sem hver og einn trúaður maður verður að rækta með sjálfum sér. En trúaður maður veit líka um galla sína og mistök – hann skilur út frá trúarhugmyndum sínum hvernig á þeim stendur. Veit hvað hann skal gera þegar hann er við það að stíga út í eitthvert fen. Hann bregst stundum við í samræmi við trú sína og stundum ekki.

Manneskjan á samfélag við samvisku sína á hverjum degi. Það eru oftast nær traust og indæl samskipti. Hluti af samvisku okkar er allt það góða sem okkur hefur verið innrætt frá því að vorum börn. Í henni er líka að finna það sem stendur okkur ofar í lífi og dauða. Hún spyr okkur margra spurninga sem kristnar manneskjur: Hvernig kem ég fram við annað fólk? Hvaða hlið sýni ég á mér í fjölskyldunni og á vinnustað?

Get ég bætt samskipti mín?

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Manneskjan er vera sem er í samskiptum við aðra. Hún þarf að vera í samskiptum til þess að lifa af. Enginn er eyland, er stundum sagt, og þá er hugsunin sú að enginn standi einn og yfirgefinn alla daga sem væri hann staddur á eyðieyju. Samskipti við annað fólk eru öllum nauðsynleg. Þessi samskipti geta oft verið flókin og stundum erfið. Þau geta líka verið ósköp þægileg og gengið vel fyrir sig. Það ræður þó miklu hve löng þessi samskipti eru. Í fjölskyldum móta samskipti ævina út og hjá flestum ganga þau vel. Þó kunna sennilega allir að segja frá einhverjum hnökrum í þeim samskiptum og jafnvel þegar þau hafa horfið sem dögg fyrir sólu um lengri eða skemmri tíma. Og í sumum tilvikum til lífstíðar.

Stofnanir samfélagsins eru margar. Samskipti við þær eru mismikil en allar eru þær settar upp til þess að þjóna samfélaginu. Þessar stofnanir geta stundum verið svifaseinar og starf þeirra er líka margslungið. Það getur tekið tíma fyrir þau sem leita til þeirra að skilja hvernig þær þjóna fólki og hvað sé á valdi þeirra að gera hverju sinni. Sumir krefjast afdráttarlausra svara frá þeim á stundinni meðan aðrir sýna biðlund og skilning. Það síðastnefnda skilar oftast góðum árangri enda þótt stundum þurfi að láta í sér hvína þegar einhver stofnun samfélagsins er sofandaleg og sljó í þjónustu sinni. Eða fari með rangt mál og tali niður til fólks og samtaka.

Kirkjan er samfélag og þar gengur allt alla jafna vel fyrir sig þegar miðað er við fólksfjölda og ólík sjónarmið. Starfsfólk kirkjunnar leggur sig í líma við að eiga góð samskipti við fólk enda er það í anda þess boðskapar sem kirkjan vill að móti samfélagið. Ef starfsfólk kirkjunnar temur sér neikvæð samskipti stendur það gegn þeim boðskap sem það boðar. Slíkt er bæði gamalt og nýtt. Hver starfsmaður er andlit þeirrar stofnunar sem hann eða hún vinnur hjá.

Lang flest samskipti ganga vel fyrir sig vegna þess að fólk hefur þroska til þess að taka á þeim með mannsæmandi hætti. Stundum bregður þó út af eins og á vinnustöðum þegar einelti lætur á sér kræla og gripið til þess ráðs að horfa í gegnum starfsmenn eins og þeir séu ekki til. Það er mannfyrirlitning og ofbeldi. Allar stofnanir reyna að taka á slíkum samskiptum sem dæma sig reyndar sjálf.

Manneskja er vera sem þarf að vera í samskiptum við samferðamenn sína – og Guð. Í tæknivæddu samfélagi nútímans hefur Guð verið á undanhaldi og manneskjan talið sig geta lifað án hans og rekið samfélag þar sem nafn hans má helst ekki nefna. En manneskjan hefur á öllum tímum reynt að úthýsa Guði og gengið misvel við þá iðju sína. Hann leitar líka alltaf inn – gefst ekki upp.

Trúaður maður á samskipti við Guð. Hann talar við Guð í bænalífi sínu og leggur traust sitt á hann. Hugmyndir hans um hvað sé gott og fagurt, heilt og uppbyggilegt, er að finna í trúararfinum. Bænalíf, lestur í Biblíu og fúsleiki til að rétta öðrum hjálparhönd eru dygðir sem hver og einn trúaður maður verður að rækta með sjálfum sér. En trúaður maður veit líka um galla sína og mistök – hann skilur út frá trúarhugmyndum sínum hvernig á þeim stendur. Veit hvað hann skal gera þegar hann er við það að stíga út í eitthvert fen. Hann bregst stundum við í samræmi við trú sína og stundum ekki.

Manneskjan á samfélag við samvisku sína á hverjum degi. Það eru oftast nær traust og indæl samskipti. Hluti af samvisku okkar er allt það góða sem okkur hefur verið innrætt frá því að vorum börn. Í henni er líka að finna það sem stendur okkur ofar í lífi og dauða. Hún spyr okkur margra spurninga sem kristnar manneskjur: Hvernig kem ég fram við annað fólk? Hvaða hlið sýni ég á mér í fjölskyldunni og á vinnustað?

Get ég bætt samskipti mín?

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir