Ganga ekki allir að því vísu að það sé líf eftir dauðann, sagði hann á leiðinni út úr kirkjunni. Mér heyrðist ekki betur en að presturinn hefði lofað vini okkur snöggri heimför.
Já, er það ekki samkvæmt bókinni?
Ætlarðu í erfidrykkjuna?
Það var enginn með hundaþunglyndissvip í erfinu. Ánægjan var allsráðandi enda veitingar með afbrigðum góðar. Heil skriðdrekasveit af brauðtertum sem vannst hratt og örugglega á. Síðan hurfu sörurnar ein af annarri enda í fremstu víglínu.
Trúaður maður horfir á heiminn öðrum augum en sá sem ekki trúir, heyrðist sagt við eitt borðanna. Og samtalið hélt áfram:
Hvernig þá?
Trúin skýrir heiminn, leysir hann upp með sínum hætti, veit að heimurinn er flókinn og verður aldrei skilinn hundrað prósent. Samt gefst manneskjan ekki upp. Hún leitar og leitar.
En nemur staðar við dauðann. Er nokkur svör að finna við honum?
Það er svo sem sagt að trúin virðist eiga dauðann.
Ekki bara dauðann, er það? Vill hún ekki eiga orð við okkur allt lífið? Meðan sálin er í holdinu, eða þannig.
En hefur trúin ekki svar við honum? Mér heyrist ekki betur og get alveg tekið undir það þar til annað kemur í ljós.
Enda ert þú með praktískari mönnum, sagði einhver glottandi við þessari síðustu athugasemd.
Auðvitað er það upprisan sem er málið. Sagði ekki presturinn að kristin trú væri upprisutrú?
Og býðst þá upprisan öllum?
Enginn við borðið treysti sér til að svara þessari spurningu. Ein umlaði þó: Ætli það ekki? Óþarfi að gera upp á milli fólks svona á síðasta sprettinum.
Ég kalla það nú ekki síðasta sprettinn, hló annar. Blasir ekki eilífðin þá fyrst almennilega við?
Varla þarf maður að fara að veifa við himnahliðið árangursvottorðum um góðgerðarköst sem maður hefur tekið annað slagið. Hvað gefið þið annars í árlegar fátækrasafnanir?
Hópurinn þagði. Einhver stóð upp og sagðist ætla að bæta á sig. Konan hans bað hann um að krækja í eina kleinu handa sér í leiðinni.
Sumum fannst þessi sena við himnahliðið vera fyndin og ískruðu af hlátri. Öðrum fannst þetta dálítið ábyrgðarlaust miðað við mann í hans stöðu. En bláleit undirhaka mælandans skalf eins og brauðterta sem skorin er of hægt og hikandi. En honum fannst þetta gott hjá sér.
Ég er alveg sannfærð um að eilífðin sé til og þar er upprisan eins og bara fyrsti rauði stimpillinn sem þú fékkst í skriftabókina í skólanum í gamla daga.
Þetta gátu nokkrir viðstaddir tekið undir og skotist var í smáútúrdúr og rætt um hvetjandi stimplakerfi skólans fyrir meira en alllöngu. Kosti þess og galla. Hvað hver hefði fengið margar stjörnur og hvers vegna ekki fengið stjörnu. Kennarinn var hinn allsráðandi guð í skólastofunni.
Mér þætti það heldur súrt í broti eftir ferðalag okkar hérna á jörðinni að öllu væri bara slegið í lás. Sagt kurteislega: Meira var það ekki. Fannst þér annars ekki þessi túr góður?
Ja, ég er greinilega ekki eins trúaður og þið, sagði einn lágum rómi við borðið, og tæki því ekki óstinnt upp þó dauðastundin væri eins og nettur endir á hverri annarri misspennandi skáldsögu. Eða þá bara magnaður endir í ævintýramynd.
Það væri heldur þunnur þrettándi, ég er miklu meira á því að þetta ferðalag hérna hafi einhvern tilgang, stefni á æðri leiðir eins og snillingurinn Einar Ben segir í sálminum sem var sunginn áðan. Ég tek alltaf hressilega undir Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir – heyrðuð þið það ekki?
Jú, þau öll við borðið höfðu heyrt það. Og þegar hann ætlaði að fara með ljóð eftir sinn mann báðu þau hann lengstra orða að geyma það. Þetta væri erfidrykkja. En tóku svo sem undir það með honum að það væri skandall að stórskáldið ætti ekki nema tvo sálma í sálmabókinni.
Ég veit það ekki, en mér fannst fólk hér í gamla daga ekki tala svo mikið um þessa upprisu og það fengi einhver hlutabréf í henni? Er þetta misskilningur? Eða voru þetta allt spíritistar eins og amma mín og henni fannst einhvern veginn lausnin vera komin?
Já, hvað varð um alla þessa spíritista sem allt ætlaði að verða vitlaust yfir?
Þetta voru allt meira og minna einhverjir loddarar.
Nema Hafsteinn miðill.
Ég veit það ekki. Fór einu sinni á opinn miðilsfund hjá honum og hann lýsti fjalli og bóndabæ. Já, líka fossi fyrir ofan bæinn. Utan við bæinn sá hann aldurhnignar konur á peysufötum. Allur salurinn kveikti á perunni, þetta var amma þeirra allra. Segi þetta svona í gríni.
Hvar fundurinn var? í Austurbæjarbíói.
Austurbæjarbíó? Átti ekki að rífa það?
Enginn hélt umræðunni áfram um bíóið þar sem Roy Rogers brilleraði í gamla daga. Og John Wayne.
Ég fer ekki ofan af því að okkar bíði góður áfangastaður eftir stússið hérna megin. Já, hvíldarstaður eftir langt ferðalag. Er þetta ekki annars Hótel Jörð? Og hún hló.
En hvað þá um verri staðinn? Öll búin að gleyma honum?
Þarf nú að fara að tala um það?
Það er ekki annað en kúgunartæki sem notað var á lýðinn, sagði einhver í hópnum og var fastmæltur.
Þau við borðið gátu öll tekið undir það.
Við erum bara venjulegt fólk sem reynir að gera okkar besta. Ætti svo að fara að grilla okkur fyrir það?
Glaðhlakkalegur hlátur reis upp við þessa síðustu setningu sem allir skrifuðu undir.
Jæja, rísum upp frá borðinu, sagði einn með tilgerðarlegum hátíðleika um leið og hann stóð upp. Honum fannst sem þetta væri brandari en hann féll í grýtta jörð. Sagði svo ögn vandræðalegur á svipinn: Við þurfum að fara aftur í vinnuna.
Og eiginkona hans bætti við: Við verðum að koma bráðum saman og það almennilega. Ómögulegt að hittast bara við jarðarfarir.
Ganga ekki allir að því vísu að það sé líf eftir dauðann, sagði hann á leiðinni út úr kirkjunni. Mér heyrðist ekki betur en að presturinn hefði lofað vini okkur snöggri heimför.
Já, er það ekki samkvæmt bókinni?
Ætlarðu í erfidrykkjuna?
Það var enginn með hundaþunglyndissvip í erfinu. Ánægjan var allsráðandi enda veitingar með afbrigðum góðar. Heil skriðdrekasveit af brauðtertum sem vannst hratt og örugglega á. Síðan hurfu sörurnar ein af annarri enda í fremstu víglínu.
Trúaður maður horfir á heiminn öðrum augum en sá sem ekki trúir, heyrðist sagt við eitt borðanna. Og samtalið hélt áfram:
Hvernig þá?
Trúin skýrir heiminn, leysir hann upp með sínum hætti, veit að heimurinn er flókinn og verður aldrei skilinn hundrað prósent. Samt gefst manneskjan ekki upp. Hún leitar og leitar.
En nemur staðar við dauðann. Er nokkur svör að finna við honum?
Það er svo sem sagt að trúin virðist eiga dauðann.
Ekki bara dauðann, er það? Vill hún ekki eiga orð við okkur allt lífið? Meðan sálin er í holdinu, eða þannig.
En hefur trúin ekki svar við honum? Mér heyrist ekki betur og get alveg tekið undir það þar til annað kemur í ljós.
Enda ert þú með praktískari mönnum, sagði einhver glottandi við þessari síðustu athugasemd.
Auðvitað er það upprisan sem er málið. Sagði ekki presturinn að kristin trú væri upprisutrú?
Og býðst þá upprisan öllum?
Enginn við borðið treysti sér til að svara þessari spurningu. Ein umlaði þó: Ætli það ekki? Óþarfi að gera upp á milli fólks svona á síðasta sprettinum.
Ég kalla það nú ekki síðasta sprettinn, hló annar. Blasir ekki eilífðin þá fyrst almennilega við?
Varla þarf maður að fara að veifa við himnahliðið árangursvottorðum um góðgerðarköst sem maður hefur tekið annað slagið. Hvað gefið þið annars í árlegar fátækrasafnanir?
Hópurinn þagði. Einhver stóð upp og sagðist ætla að bæta á sig. Konan hans bað hann um að krækja í eina kleinu handa sér í leiðinni.
Sumum fannst þessi sena við himnahliðið vera fyndin og ískruðu af hlátri. Öðrum fannst þetta dálítið ábyrgðarlaust miðað við mann í hans stöðu. En bláleit undirhaka mælandans skalf eins og brauðterta sem skorin er of hægt og hikandi. En honum fannst þetta gott hjá sér.
Ég er alveg sannfærð um að eilífðin sé til og þar er upprisan eins og bara fyrsti rauði stimpillinn sem þú fékkst í skriftabókina í skólanum í gamla daga.
Þetta gátu nokkrir viðstaddir tekið undir og skotist var í smáútúrdúr og rætt um hvetjandi stimplakerfi skólans fyrir meira en alllöngu. Kosti þess og galla. Hvað hver hefði fengið margar stjörnur og hvers vegna ekki fengið stjörnu. Kennarinn var hinn allsráðandi guð í skólastofunni.
Mér þætti það heldur súrt í broti eftir ferðalag okkar hérna á jörðinni að öllu væri bara slegið í lás. Sagt kurteislega: Meira var það ekki. Fannst þér annars ekki þessi túr góður?
Ja, ég er greinilega ekki eins trúaður og þið, sagði einn lágum rómi við borðið, og tæki því ekki óstinnt upp þó dauðastundin væri eins og nettur endir á hverri annarri misspennandi skáldsögu. Eða þá bara magnaður endir í ævintýramynd.
Það væri heldur þunnur þrettándi, ég er miklu meira á því að þetta ferðalag hérna hafi einhvern tilgang, stefni á æðri leiðir eins og snillingurinn Einar Ben segir í sálminum sem var sunginn áðan. Ég tek alltaf hressilega undir Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir – heyrðuð þið það ekki?
Jú, þau öll við borðið höfðu heyrt það. Og þegar hann ætlaði að fara með ljóð eftir sinn mann báðu þau hann lengstra orða að geyma það. Þetta væri erfidrykkja. En tóku svo sem undir það með honum að það væri skandall að stórskáldið ætti ekki nema tvo sálma í sálmabókinni.
Ég veit það ekki, en mér fannst fólk hér í gamla daga ekki tala svo mikið um þessa upprisu og það fengi einhver hlutabréf í henni? Er þetta misskilningur? Eða voru þetta allt spíritistar eins og amma mín og henni fannst einhvern veginn lausnin vera komin?
Já, hvað varð um alla þessa spíritista sem allt ætlaði að verða vitlaust yfir?
Þetta voru allt meira og minna einhverjir loddarar.
Nema Hafsteinn miðill.
Ég veit það ekki. Fór einu sinni á opinn miðilsfund hjá honum og hann lýsti fjalli og bóndabæ. Já, líka fossi fyrir ofan bæinn. Utan við bæinn sá hann aldurhnignar konur á peysufötum. Allur salurinn kveikti á perunni, þetta var amma þeirra allra. Segi þetta svona í gríni.
Hvar fundurinn var? í Austurbæjarbíói.
Austurbæjarbíó? Átti ekki að rífa það?
Enginn hélt umræðunni áfram um bíóið þar sem Roy Rogers brilleraði í gamla daga. Og John Wayne.
Ég fer ekki ofan af því að okkar bíði góður áfangastaður eftir stússið hérna megin. Já, hvíldarstaður eftir langt ferðalag. Er þetta ekki annars Hótel Jörð? Og hún hló.
En hvað þá um verri staðinn? Öll búin að gleyma honum?
Þarf nú að fara að tala um það?
Það er ekki annað en kúgunartæki sem notað var á lýðinn, sagði einhver í hópnum og var fastmæltur.
Þau við borðið gátu öll tekið undir það.
Við erum bara venjulegt fólk sem reynir að gera okkar besta. Ætti svo að fara að grilla okkur fyrir það?
Glaðhlakkalegur hlátur reis upp við þessa síðustu setningu sem allir skrifuðu undir.
Jæja, rísum upp frá borðinu, sagði einn með tilgerðarlegum hátíðleika um leið og hann stóð upp. Honum fannst sem þetta væri brandari en hann féll í grýtta jörð. Sagði svo ögn vandræðalegur á svipinn: Við þurfum að fara aftur í vinnuna.
Og eiginkona hans bætti við: Við verðum að koma bráðum saman og það almennilega. Ómögulegt að hittast bara við jarðarfarir.