Allt sem gerist er fært í frásögn frétta sem birtast í netmiðlum, sjónvarpi og blöðum. Þannig er saga líðandi stundar í samfélaginu skráð og við fylgjumst með rás atburða. Erum hluti þeirrar sögu og myndefni.

Við drögumst að hamingjuhjólinu og viljum að það snúist ætíð okkur í hag. Hamingjan umvefur alla og gleðin skín á vonarhýrri brá. Innst inni vitum við að einhver raun getur bankað upp á fyrirvaralaust og hjól hamingjunnar farið að hökta. Þjáning og angist eru ekki velkomnir ferðafélagar og myndir þeirra raunalegar.

Sjálf eigum við hvert og eitt eigin sögu sem ekki er fréttaefni og kannski sem betur fer: Uppruna og fjölskyldu, vonir og vettvang dagsins. Það er okkar ævi þar sem skiptast á skin og skúrir. Stímabrak og gleði. Allt þar á milli. Við segjum okkar nánustu frá því sem á daga okkar drífur og afkomendur okkar fá sögubita í ævinesti. Ekki segjum við allt því að sumt er svo sárt að það er ekki hægt að segja frá því í orðum. En stundum má lesa þessa sögu úr andliti okkar. Andlit okkar er mynd. Já, meira en mynd. Lifandi skjár sem getur ekki leynt öllu. Andlitið dregur oft tilfinningar okkar upp í myndum.

Svo er það andlit meistarans frá Nasaret í lífi okkar og menningarinnar.

Kristið fólk býr til í huganum sínar eigin myndir af honum í alls konar aðstæðum. Enginn veit hvernig hann leit út og því má segja að sú staðreynd sé fyrsta frelsið sem kristnum manni er boðið: gerðu þína eigin mynd af honum.

Og myndirnar hafa verið margar.

Það þekkjum við öll. Menning okkar rekur þá sögu.

Sumar þessara mynda af meistaranum frá Nasaret eru býsna líkar og tefla fram stæðilegum vestrænum karlmanni með fagran limaburð. Svipur hans er mildur og mjúkur. Sýnir kærleika og skilning. Myndir þar sem hann er meðal sjúkra og vandalausa í hversdeginum. Myndir af honum krossfestum sýna flestar hrjáðan mann og þjáningin hrópar úr hverjum andlitsdrætti.

Myndir úr lífi hans. Píslarmyndir, krossfestingarmyndir. Upprisumyndir. Myndir sem sýna uppstigningu hans til himna. Myndir þar sem himinn og jörð skarast. Andlit meistarans er ólíkt frá einni mynd til annarrar. En þó er andlitsmyndin ein í huga hvers og eins. Já, og meira að segja ein í margbreytileika sínum.

Myndin sem fylgir þessum orðum sker sig úr fyrir að vera lítil nærmynd af hinum þjáða guðsyni og er frá 15. öld. Myndrými hennar er óvenju þétt og gernýtt. Áhorfandinn á hugsanlega að lesa úr myndinni það sem á vantar miðað við hefðbundnar þjáningarmyndir krossfestingarinnar. Það er andlitssvipur tilfinninganna sem talar skýru máli. Andlit hans kemur nánast upp að andliti þess sem horfir á myndina. Þú kemst ekki nær honum.

Þetta er andlitsmynd – og bænamynd. Meistarinn ber sterkan svip og karlmannlegan. Úr augum hans logar í senn hryggð, þjáning og bæn um miskunn. Munnsvipur lýsir vissri undran og jafnvel leynist þar veik von að baki. Hárið er svitastorkið. Blóðdropa má sjá á kyrtli hans og meistarinn tárfellir. Háðung og niðurlæging þyrnikórónunnar er á sínum stað. Og þyrnikórónan er óvenjulega vel gerð eins og við hana hafi verið nostrað af djöfullegri nautn. Hnúturinn neðst á myndinni vísar til þess að hann er bundinn við staur. Hnútur sem samfélagið hefur hnýtt.

Þetta andlit má líka sjá í fréttum frá stríðinu í Úkraínu og átökunum í Súdan. Ekki bara á hermönnum heldur og saklausum borgurum. Í raun og veru hvar sem stríð geisar með öllum sínum þjáningum og hörmungum.

Þetta andlit kallar á viðbrögð þess sem sér það.

Viðbrögð okkar.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Allt sem gerist er fært í frásögn frétta sem birtast í netmiðlum, sjónvarpi og blöðum. Þannig er saga líðandi stundar í samfélaginu skráð og við fylgjumst með rás atburða. Erum hluti þeirrar sögu og myndefni.

Við drögumst að hamingjuhjólinu og viljum að það snúist ætíð okkur í hag. Hamingjan umvefur alla og gleðin skín á vonarhýrri brá. Innst inni vitum við að einhver raun getur bankað upp á fyrirvaralaust og hjól hamingjunnar farið að hökta. Þjáning og angist eru ekki velkomnir ferðafélagar og myndir þeirra raunalegar.

Sjálf eigum við hvert og eitt eigin sögu sem ekki er fréttaefni og kannski sem betur fer: Uppruna og fjölskyldu, vonir og vettvang dagsins. Það er okkar ævi þar sem skiptast á skin og skúrir. Stímabrak og gleði. Allt þar á milli. Við segjum okkar nánustu frá því sem á daga okkar drífur og afkomendur okkar fá sögubita í ævinesti. Ekki segjum við allt því að sumt er svo sárt að það er ekki hægt að segja frá því í orðum. En stundum má lesa þessa sögu úr andliti okkar. Andlit okkar er mynd. Já, meira en mynd. Lifandi skjár sem getur ekki leynt öllu. Andlitið dregur oft tilfinningar okkar upp í myndum.

Svo er það andlit meistarans frá Nasaret í lífi okkar og menningarinnar.

Kristið fólk býr til í huganum sínar eigin myndir af honum í alls konar aðstæðum. Enginn veit hvernig hann leit út og því má segja að sú staðreynd sé fyrsta frelsið sem kristnum manni er boðið: gerðu þína eigin mynd af honum.

Og myndirnar hafa verið margar.

Það þekkjum við öll. Menning okkar rekur þá sögu.

Sumar þessara mynda af meistaranum frá Nasaret eru býsna líkar og tefla fram stæðilegum vestrænum karlmanni með fagran limaburð. Svipur hans er mildur og mjúkur. Sýnir kærleika og skilning. Myndir þar sem hann er meðal sjúkra og vandalausa í hversdeginum. Myndir af honum krossfestum sýna flestar hrjáðan mann og þjáningin hrópar úr hverjum andlitsdrætti.

Myndir úr lífi hans. Píslarmyndir, krossfestingarmyndir. Upprisumyndir. Myndir sem sýna uppstigningu hans til himna. Myndir þar sem himinn og jörð skarast. Andlit meistarans er ólíkt frá einni mynd til annarrar. En þó er andlitsmyndin ein í huga hvers og eins. Já, og meira að segja ein í margbreytileika sínum.

Myndin sem fylgir þessum orðum sker sig úr fyrir að vera lítil nærmynd af hinum þjáða guðsyni og er frá 15. öld. Myndrými hennar er óvenju þétt og gernýtt. Áhorfandinn á hugsanlega að lesa úr myndinni það sem á vantar miðað við hefðbundnar þjáningarmyndir krossfestingarinnar. Það er andlitssvipur tilfinninganna sem talar skýru máli. Andlit hans kemur nánast upp að andliti þess sem horfir á myndina. Þú kemst ekki nær honum.

Þetta er andlitsmynd – og bænamynd. Meistarinn ber sterkan svip og karlmannlegan. Úr augum hans logar í senn hryggð, þjáning og bæn um miskunn. Munnsvipur lýsir vissri undran og jafnvel leynist þar veik von að baki. Hárið er svitastorkið. Blóðdropa má sjá á kyrtli hans og meistarinn tárfellir. Háðung og niðurlæging þyrnikórónunnar er á sínum stað. Og þyrnikórónan er óvenjulega vel gerð eins og við hana hafi verið nostrað af djöfullegri nautn. Hnúturinn neðst á myndinni vísar til þess að hann er bundinn við staur. Hnútur sem samfélagið hefur hnýtt.

Þetta andlit má líka sjá í fréttum frá stríðinu í Úkraínu og átökunum í Súdan. Ekki bara á hermönnum heldur og saklausum borgurum. Í raun og veru hvar sem stríð geisar með öllum sínum þjáningum og hörmungum.

Þetta andlit kallar á viðbrögð þess sem sér það.

Viðbrögð okkar.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir