Hugurinn er veröld út af fyrir sig eða kannski öllu heldur höfuðbækistöðvar okkar í lífsbaráttunni. Hugur sem virðist vera samofinn líkamanum, holdinu, óáþreifanlegur en þó er hann þarna og skiptir öllu máli. Þar eru stórar og smáar ákvarðanir teknar, þar er málum velt fram og aftur. Síðan hafist handa – eða ekkert látið að gert. Þessar bækistöðvar hafa ekki orðið til á einni nóttu heldur hafa þær byggst upp á ævi okkar sem er orðin mislöng. Inn í bækistöðvarnar berast ógrynnin öll af hvers kyns skilaboðum á hverri sekúndu sem við vinnum úr eða geymum til betri tíma. Iðulega streyma þangað boð sem við meira að segja ráðum ekki við og snerta tilfinningar okkar en eins og öllum er kunnugt um þá er harla erfitt að kortleggja þær nákvæmlega.

Við leiðum ekki hugann eingöngu að okkur sjálfum heldur einnig að öðru. Manneskjan er í sjálfri sér en hún er líka í heiminum. Þar gengur á ýmsu eins og í huga okkar. Ólíkar skoðanir takast á. Afleiðingar átaka enda oft með ósköpum þar sem mannslíf eru til fárra fiska metin og hugur okkar fær ekki við það ráðið. En við verðum að taka afstöðu hér og nú enda þótt við höfum spurnir af því að veröldin sé ekki eins og til var ætlast í upphafi. Það hafi orðið nánast nokkurs konar skammhlaup sem kom öllu í uppnám. Þjófavörn himneskra hliða pípti hressilega eins og í stórmarkaði þegar farið var í gegnum það með þjófstolinn varning af skilningstrénu fræga í Eden forðum daga. En það er huggun harmi gegn að þrátt fyrir þessar gangtruflanir veraldar þá er hinn mikli vélameistari að störfum í vélarúminu og sagan segir að hann muni koma öllu í lag vegna þess að honum er annt um heiminn og manninn. En við erum knúin til að fara upp á dekk og taka til hendinni.

Hugurinn sveiflast einnig fram og aftur, er alla jafna síkvikur eða festist í einhverju fari sem hann telur vera öruggt. Sá hugur sem nær að haldast heill og óbrjálaður þrátt fyrir að líkaminn sem hann dvelur í sé farin að hrörna og bogna er talinn spakur og nýtur iðulega ómældrar virðingar hver sem kann að eiga þann huga. Öldungurinn er ætíð með einhvern viskuglampa í djúpu auga og þröngu þó æðablá höndin sé kreppt.

Oft er sem manneskjur svífi um á vettvangi hversdagsins með kappsfullan, glaðlegan svip í andliti – og stundum annarlegan svip og jafnvel kvíðafullan – og hugurinn hvikull eða staðfastur. Hún veit að hversdagurinn þar sem hún mæðist í mörgu er tímabundinn viðkomustaður þegar öllu er á botninn hvolft og sömuleiðis jafnvel líkaminn –  brothætt geymsluhólf hugans. Þessar staðreyndir ræna hana ekki hversdagslegri ábyrgð og umhyggju, gleði og þakklæti. Þær vekja oft upp í huganum ýmsar spurningar sem erfitt getur verið að sjá hvar eigi upptök sín, hvort heldur í öllum boðum sem flætt hafa inn í hugann á ævinni eða hvort megi líta á þær sem unna afurð af öllu því efni sem hlaðist hefur upp í hugann – nema hvort tveggja sé. Efni og andi? Sál og líkami? Ein heild eða tvær?

því hvað er auður og afl og hús
ef eingin jurt vex í þinni krús?

                                      Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk, R. 2007, bls. 479

Eitt af mörgum boðum sem berst huganum er að honum sé búinn hvíldar- og vinnustaður sem fyrirbærið trú talar um – kannski hin iðjusama paradís. Manneskjan fær fljótt vitneskju um að í þessum heimi og utan hans sé jafnvel annar veruleiki. Önnur vídd eins og sú sem frelsarinn skaust inn í og frásögnin um ummyndun hans greinir frá í guðspjöllunum (t.d. Markús 9.2-8).

Vettvangur manneskjunnar er þessi veröld hér og nú með hversdagslegum önnum og himneskum ilmi (lesist upprisu og eilíft líf) og þar hefur hún næg verkefni að vinna. Hugurinn tekst á við trúna og efann, átök í heimi og óáran, gæfu, gleði og ást. Hversdaginn í heimi Guðs og manns – en þar:

eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum.

                                      Jesaja 55.8-9

Það er fagnaðarerindi.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Hugurinn er veröld út af fyrir sig eða kannski öllu heldur höfuðbækistöðvar okkar í lífsbaráttunni. Hugur sem virðist vera samofinn líkamanum, holdinu, óáþreifanlegur en þó er hann þarna og skiptir öllu máli. Þar eru stórar og smáar ákvarðanir teknar, þar er málum velt fram og aftur. Síðan hafist handa – eða ekkert látið að gert. Þessar bækistöðvar hafa ekki orðið til á einni nóttu heldur hafa þær byggst upp á ævi okkar sem er orðin mislöng. Inn í bækistöðvarnar berast ógrynnin öll af hvers kyns skilaboðum á hverri sekúndu sem við vinnum úr eða geymum til betri tíma. Iðulega streyma þangað boð sem við meira að segja ráðum ekki við og snerta tilfinningar okkar en eins og öllum er kunnugt um þá er harla erfitt að kortleggja þær nákvæmlega.

Við leiðum ekki hugann eingöngu að okkur sjálfum heldur einnig að öðru. Manneskjan er í sjálfri sér en hún er líka í heiminum. Þar gengur á ýmsu eins og í huga okkar. Ólíkar skoðanir takast á. Afleiðingar átaka enda oft með ósköpum þar sem mannslíf eru til fárra fiska metin og hugur okkar fær ekki við það ráðið. En við verðum að taka afstöðu hér og nú enda þótt við höfum spurnir af því að veröldin sé ekki eins og til var ætlast í upphafi. Það hafi orðið nánast nokkurs konar skammhlaup sem kom öllu í uppnám. Þjófavörn himneskra hliða pípti hressilega eins og í stórmarkaði þegar farið var í gegnum það með þjófstolinn varning af skilningstrénu fræga í Eden forðum daga. En það er huggun harmi gegn að þrátt fyrir þessar gangtruflanir veraldar þá er hinn mikli vélameistari að störfum í vélarúminu og sagan segir að hann muni koma öllu í lag vegna þess að honum er annt um heiminn og manninn. En við erum knúin til að fara upp á dekk og taka til hendinni.

Hugurinn sveiflast einnig fram og aftur, er alla jafna síkvikur eða festist í einhverju fari sem hann telur vera öruggt. Sá hugur sem nær að haldast heill og óbrjálaður þrátt fyrir að líkaminn sem hann dvelur í sé farin að hrörna og bogna er talinn spakur og nýtur iðulega ómældrar virðingar hver sem kann að eiga þann huga. Öldungurinn er ætíð með einhvern viskuglampa í djúpu auga og þröngu þó æðablá höndin sé kreppt.

Oft er sem manneskjur svífi um á vettvangi hversdagsins með kappsfullan, glaðlegan svip í andliti – og stundum annarlegan svip og jafnvel kvíðafullan – og hugurinn hvikull eða staðfastur. Hún veit að hversdagurinn þar sem hún mæðist í mörgu er tímabundinn viðkomustaður þegar öllu er á botninn hvolft og sömuleiðis jafnvel líkaminn –  brothætt geymsluhólf hugans. Þessar staðreyndir ræna hana ekki hversdagslegri ábyrgð og umhyggju, gleði og þakklæti. Þær vekja oft upp í huganum ýmsar spurningar sem erfitt getur verið að sjá hvar eigi upptök sín, hvort heldur í öllum boðum sem flætt hafa inn í hugann á ævinni eða hvort megi líta á þær sem unna afurð af öllu því efni sem hlaðist hefur upp í hugann – nema hvort tveggja sé. Efni og andi? Sál og líkami? Ein heild eða tvær?

því hvað er auður og afl og hús
ef eingin jurt vex í þinni krús?

                                      Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk, R. 2007, bls. 479

Eitt af mörgum boðum sem berst huganum er að honum sé búinn hvíldar- og vinnustaður sem fyrirbærið trú talar um – kannski hin iðjusama paradís. Manneskjan fær fljótt vitneskju um að í þessum heimi og utan hans sé jafnvel annar veruleiki. Önnur vídd eins og sú sem frelsarinn skaust inn í og frásögnin um ummyndun hans greinir frá í guðspjöllunum (t.d. Markús 9.2-8).

Vettvangur manneskjunnar er þessi veröld hér og nú með hversdagslegum önnum og himneskum ilmi (lesist upprisu og eilíft líf) og þar hefur hún næg verkefni að vinna. Hugurinn tekst á við trúna og efann, átök í heimi og óáran, gæfu, gleði og ást. Hversdaginn í heimi Guðs og manns – en þar:

eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum.

                                      Jesaja 55.8-9

Það er fagnaðarerindi.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir