Maðurinn hefur sennilega ætíð litið á sig sem skynsemisveru enda þótt hann hegði sér oft óskynsamlega. Stundum virðist svo sem skynsemin og andhverfa hennar togist á. Fallvaltur maðurinn gefur skynseminni stundum frí og snýst á sveif með andhverfu hennar sem hampar t.d. tímabundinni sælu eða gróðavon.

Á hátíðastundum er talað um manninn sem frjálsa skynsemisveru: Skynsemina í öndvegi! Hann hefur jafnvel frelsi til að þoka skynseminni til hliðar ekki vegna þess að það sé svo skynsamlegt. Það þjónar nefnilega lund hans þá stundina.

En burtflæmd skynsemin bankar upp á fyrr eða síðar.

Eins og trúin.

Þegar maðurinn skyggnist um veröldina sér hann afrakstur skynsemi sinnar og afleiðingar óskynseminnar. Tækninýjungar sem létta lífið – framfarir í vísindum sem auka hagsæld og skilja drýgri lífsgæðum. En ekki njóta þó allir þeirra gæða. Margir búa við hungur og vesöld, öryggisleysi og kvíða. Ótta og ofbeldi.

Skynsemin getur verið frjó og leitt til farsældar. Hún getur líka verið torskilin og þurrpumpuleg á stundum. Neistar geta og hrokkið frá henni og kveikt elda óskynseminnar.

Trúnni er oft teflt fram sem einni af mörgum andhverfum skynseminnar. Hinn frjálsborni og skynsami maður geti ekki verið þekktur fyrir að trúa. Trúin byggi enda ekki á neinu nema óskhyggju.

Sennilega hefur maðurinn á öllum öldum haft eitthvert hugboð um að lífið í veröldinni eigi sér einhvern höfund eða háleitara markmið en skynsemi hans ræður við. Trúarbrögð mannkyns segja þessa sögu og hún er margslungin. Og trúarbrögðin eru ekki eitthvert forneskjutaut því ný skjóta upp kolli á öllum tímum. Þau sem fyrir eru ganga stundum í endurnýjun lífdaganna. Sum stirðna og önnur lognast út af.

Trú er ekki úreltari í sjálfu sér en maðurinn. Hún mun ætíð fylgja honum eins og dagur nótt. Nútíminn er hallur undir skynsemistrú og maðurinn löngum verið veikur fyrir því að trúa á sjálfan sig. Skynsemin talin leysa öll vandamál sem kunna að koma upp. Og það er maðurinn sem beitir skynseminni. Skynseminni sem hann hefur þegið að gjöf. Vísindalegar uppgötvanir með skynsemina í fararbroddi hafa þokað mörgum frá trú en þær hafa líka kallað aðra til fylgdar við trúna.

Það gleymist að andhverfa skynseminnar getur birst í dularfullum athöfnum og hugsunum mannsins. Veröldin er ekki í sauðalitunum. Hún er marglit og stundum er það skynsamlegasta sem maðurinn gerir það óskynsamlegasta þegar öllu er á botninn hvolft. Eða öfugt. Manneskjan er ekki heldur í sauðalitunum.

Trú er vídd í mannlegri skynjun. Köld skynsemin, oft sjálfumglöð og sigurviss, gerir stundum lítið úr henni. Sumir segja að trúin sé tilfinning ekki ólík ástinni. Þegar ástin blossar upp leitar eldblár loginn ekki endilega að kaldri skynseminni því þá stundina er þar á bæ ekkert sprek að finna. Hún leitar að öðru. Leitar að manneskju. Lifandi og hugsandi veru. Leitar að samhljómi í lífinu.

Trú og skynsemi geta leiðst hönd í hönd. Það er skynsamlegt að trúa því það hefur aldrei leitt til farnaðar að afneita mannlegu eðli og því sem mætir manninum á lífsleiðinni. Maðurinn á hlutdeild í mætti trúarinnar og skynseminni sem honum er gefin af þeim er kallaði hann til lífsins.

Það er hægt að deila um það hver kallaði manninn til lífsins. En það verður ekki deilt um hver er kallaður til lífsins.

Lífið er tímabundinn dvalarstaður þar sem á ýmsu gengur. Það reynir á manneskjuna í átökum lífsins. Reynir á skynsemi hennar. Og líka trú. Maðurinn getur sennilega aldrei fundið tilgang lífsins með skynseminni einni. Trúin stendur við hlið skynseminnar og þær stöllur talast við.

Okkar er að opna augun. Og eyrun.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Maðurinn hefur sennilega ætíð litið á sig sem skynsemisveru enda þótt hann hegði sér oft óskynsamlega. Stundum virðist svo sem skynsemin og andhverfa hennar togist á. Fallvaltur maðurinn gefur skynseminni stundum frí og snýst á sveif með andhverfu hennar sem hampar t.d. tímabundinni sælu eða gróðavon.

Á hátíðastundum er talað um manninn sem frjálsa skynsemisveru: Skynsemina í öndvegi! Hann hefur jafnvel frelsi til að þoka skynseminni til hliðar ekki vegna þess að það sé svo skynsamlegt. Það þjónar nefnilega lund hans þá stundina.

En burtflæmd skynsemin bankar upp á fyrr eða síðar.

Eins og trúin.

Þegar maðurinn skyggnist um veröldina sér hann afrakstur skynsemi sinnar og afleiðingar óskynseminnar. Tækninýjungar sem létta lífið – framfarir í vísindum sem auka hagsæld og skilja drýgri lífsgæðum. En ekki njóta þó allir þeirra gæða. Margir búa við hungur og vesöld, öryggisleysi og kvíða. Ótta og ofbeldi.

Skynsemin getur verið frjó og leitt til farsældar. Hún getur líka verið torskilin og þurrpumpuleg á stundum. Neistar geta og hrokkið frá henni og kveikt elda óskynseminnar.

Trúnni er oft teflt fram sem einni af mörgum andhverfum skynseminnar. Hinn frjálsborni og skynsami maður geti ekki verið þekktur fyrir að trúa. Trúin byggi enda ekki á neinu nema óskhyggju.

Sennilega hefur maðurinn á öllum öldum haft eitthvert hugboð um að lífið í veröldinni eigi sér einhvern höfund eða háleitara markmið en skynsemi hans ræður við. Trúarbrögð mannkyns segja þessa sögu og hún er margslungin. Og trúarbrögðin eru ekki eitthvert forneskjutaut því ný skjóta upp kolli á öllum tímum. Þau sem fyrir eru ganga stundum í endurnýjun lífdaganna. Sum stirðna og önnur lognast út af.

Trú er ekki úreltari í sjálfu sér en maðurinn. Hún mun ætíð fylgja honum eins og dagur nótt. Nútíminn er hallur undir skynsemistrú og maðurinn löngum verið veikur fyrir því að trúa á sjálfan sig. Skynsemin talin leysa öll vandamál sem kunna að koma upp. Og það er maðurinn sem beitir skynseminni. Skynseminni sem hann hefur þegið að gjöf. Vísindalegar uppgötvanir með skynsemina í fararbroddi hafa þokað mörgum frá trú en þær hafa líka kallað aðra til fylgdar við trúna.

Það gleymist að andhverfa skynseminnar getur birst í dularfullum athöfnum og hugsunum mannsins. Veröldin er ekki í sauðalitunum. Hún er marglit og stundum er það skynsamlegasta sem maðurinn gerir það óskynsamlegasta þegar öllu er á botninn hvolft. Eða öfugt. Manneskjan er ekki heldur í sauðalitunum.

Trú er vídd í mannlegri skynjun. Köld skynsemin, oft sjálfumglöð og sigurviss, gerir stundum lítið úr henni. Sumir segja að trúin sé tilfinning ekki ólík ástinni. Þegar ástin blossar upp leitar eldblár loginn ekki endilega að kaldri skynseminni því þá stundina er þar á bæ ekkert sprek að finna. Hún leitar að öðru. Leitar að manneskju. Lifandi og hugsandi veru. Leitar að samhljómi í lífinu.

Trú og skynsemi geta leiðst hönd í hönd. Það er skynsamlegt að trúa því það hefur aldrei leitt til farnaðar að afneita mannlegu eðli og því sem mætir manninum á lífsleiðinni. Maðurinn á hlutdeild í mætti trúarinnar og skynseminni sem honum er gefin af þeim er kallaði hann til lífsins.

Það er hægt að deila um það hver kallaði manninn til lífsins. En það verður ekki deilt um hver er kallaður til lífsins.

Lífið er tímabundinn dvalarstaður þar sem á ýmsu gengur. Það reynir á manneskjuna í átökum lífsins. Reynir á skynsemi hennar. Og líka trú. Maðurinn getur sennilega aldrei fundið tilgang lífsins með skynseminni einni. Trúin stendur við hlið skynseminnar og þær stöllur talast við.

Okkar er að opna augun. Og eyrun.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir