Trúin á sér sitt málfar – öll trúarbrögð tala með sínum sérstaka hætti. Þau eiga einnig arf, hefðir og siði, sem boðskapur trúarinnar er borinn fram í. Það eru í flestum tilvikum aldir og aldaraðir sem skilja okkur frá því máli og búningi trúarinnar.

Nútímamaðurinn verður að virða þetta allt og átta sig á því hvernig trúin hefur verið sett fram fyrr á tímum. En hann verður ekki síður að finna sér sínar eigin leiðir til að skilja og skynja boðskap trúar sinnar ef hann telur hana skipta einhverju máli fyrir sig.

Kristin trú byggir upp í kringum sig samfélag enda er það svo að segja inngreypt í hana. Trúin er iðkuð í samfélagi sem og einslega. Þetta samfélag átti að mótast af kærleika, vera kærleikssamfélag. Það er svo hægt að dæma um það með ýmsu móti í hve miklum mæli það hefur tekist. Ósanngjarnt væri að segja ekki að í sumum tilvikum hefur það tekist býsna vel.

Menn hafa á öllum öldum gert uppreisn gegn túlkun og skilningi fyrri tíðar manna á einstökum þáttum trúarinnar hvort heldur kennisetningum eða föstum túlkunum á ritningarstöðum. Sumir hlutu bágt fyrir og enn aðrir voru brenndir á báli fyrir vikið. Margir voru bannfærðir og útskúfaðir.  Okkar maður, Marteinn Lúther, kynntist því vel. Í mörgum tilvika náði reynsla þeirra og skilningur síðar fótfestu og rann saman við trúararfinn. Nýjar hefðir fæddust sem enn aðrir gerðu síðar uppreisn gegn eða mæltu í mót. Sumir endurbættu reyndar kenningar og sniðu þær til eftir þörfum síns tíma til þess að halda þeim lifandi. Kannski mætti segja að það sé í eðli sumra að brjóta af sér hlekki kerfis og vana meðan aðrir una sér nokkuð vel í faðmi vanans. Var ekki annars sagt að ást yxi með vana?

Og á góðum stundum segir fólk ábúðarfullt á svip: Ecclesia semper reformanda: Kirkjan verður alltaf að vera í siðbótargírnum.

Og þannig gengur sagan. Orð Ritningarinnar er einmitt með þessum hætti lifandi því það kallar á nýjan og hvassan skilning hverrar kynslóðar. Kallar á nýja túlkun handa nýjum tíma.

Öll orð verðum við að túlka, snúa þeim og hugsunum þeirra; flytja þau yfir á okkar mál. Það getur stundum reynst mikil þraut og torleyst. Horfin veröld blasir við þegar fornum trúarritum er flett. Heimur sem við í fljótu bragði áttum okkur ekki fyllilega á. Veröld sem var en hefur þó skilið svo margt eftir sem við verðum að gaumgæfa en fleygja ekki í æði einnotahyggjunnar.

Biblían dregur upp mynd af heiminum, heimsmynd. Þar ríkir Guð yfir öllu hátt á himni, menn strita á jörðu og undir henni er hel, hinn dimmi heimur, staður fordæmdra. Þessi heimsmynd er löngu  rykfallin og okkar mynd sem nú lifum er önnur og þarf ekki svo sem að fara mörgum orðum um það. Hún er sem gamalt ævintýri en samt bankar hún upp á í orðum, sögum og sögumyndleiftrum og reynir að koma sér að í hinum nýja heimi með ýmsu móti. Sérstaklega ein persóna þessarar sögu. Hún stígur nokkuð fast inn á svið heimsins og kallar eftir athygli. Jesús Kristur. Þau eru mörg sem kafað hafa ofan í sögu hans og túlkað. Um boðskap hans hafa verið reist svo mörg hús að ekki verður tölu á þau komið. Allt byggir meira og minna á því sem skrifað var um hann löngu eftir að hann var fallinn frá. En hann er staddur þarna í menningunni, menningu okkar, og margir telja sig skilja hann betur en aðrir. Enn aðrir segja að hann sé á förum úr menningunni. Sumir fagna því jafnvel og telja veröldina loks vera orðna mynduga.

Kenning hans og siðir hefur líka tekið sér bólfestu í stofnunum sem kallast kirkjur, söfnuðir eða trúfélög. Flóra þeirra er fjölbreytileg og útgáfur af frelsaranum margar. Sumar þessara stofnana líta svo á í mörgum tilvikum að þær hafi vald til að túlka orð smiðsins mikla með þeim hætti sem aðrir verði að beygja sig undir. Þær skjóta jafnvel stoðum undir þetta vald sitt með þeim orðum að það sé komið úr efri andans byggðum og því ættu menn ekki að voga sér að efast um það. En nútíminn blæs í flestum tilvikum á þetta og vill heldur túlka sjálfur: nútímamaðurinn er hin túlkandi vera.

Allt snýst þetta um túlkun – hvernig á að skilja? Og spyrja! Melta, túlka, meta, ígrunda, draga ályktanir, já og mótmæla í hjarta sínu, sættast við, jafnvel brosa breitt, hlæja, syrgja og gráta. Er lífið manneskjunnar í hvaða heimsmynd sem er ekki nokkuð samhljóma í grunnmerkingu sinni?

Það eru margir sem eru á sveimi í þorpsgötu menningarinnar og telja sig eiga erindi. Þar er samkeppni um athygli og fé. Örtröð. Samt eru trúartáknin alls staðar – líka bak við trén inni í mannmergðinni. Og nútímamanneskjan er stundum vegvillt og margar þeirra hafa ekki áhuga á þessum fátæka farandprédikara úr Galíleu. Skilja hann ekki enda þótt þeim finnist orð hans mörg fögur og góð til eftirbreytni. Svo eru þau sem fylgja honum af gömlum vana og finnst hann veita öryggi. Og hin sem brenna í eldmóði af boðskap hans og láta hann móta sig í einu og öllu. Þá enn önnur sem axla byrðar nútímans með stolti en þrá innst inni einhverja lífsfyllingu, grundvöll undir lífið, sem skynsemi þeirra, upplifun og skynjun, getur sæst við án þess að glata vegabréfi nútímans.

Það er fjölbreytileikinn sem mestu skiptir þegar öllu er á botninn hvolft, skynsemi og kærleikur.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Trúin á sér sitt málfar – öll trúarbrögð tala með sínum sérstaka hætti. Þau eiga einnig arf, hefðir og siði, sem boðskapur trúarinnar er borinn fram í. Það eru í flestum tilvikum aldir og aldaraðir sem skilja okkur frá því máli og búningi trúarinnar.

Nútímamaðurinn verður að virða þetta allt og átta sig á því hvernig trúin hefur verið sett fram fyrr á tímum. En hann verður ekki síður að finna sér sínar eigin leiðir til að skilja og skynja boðskap trúar sinnar ef hann telur hana skipta einhverju máli fyrir sig.

Kristin trú byggir upp í kringum sig samfélag enda er það svo að segja inngreypt í hana. Trúin er iðkuð í samfélagi sem og einslega. Þetta samfélag átti að mótast af kærleika, vera kærleikssamfélag. Það er svo hægt að dæma um það með ýmsu móti í hve miklum mæli það hefur tekist. Ósanngjarnt væri að segja ekki að í sumum tilvikum hefur það tekist býsna vel.

Menn hafa á öllum öldum gert uppreisn gegn túlkun og skilningi fyrri tíðar manna á einstökum þáttum trúarinnar hvort heldur kennisetningum eða föstum túlkunum á ritningarstöðum. Sumir hlutu bágt fyrir og enn aðrir voru brenndir á báli fyrir vikið. Margir voru bannfærðir og útskúfaðir.  Okkar maður, Marteinn Lúther, kynntist því vel. Í mörgum tilvika náði reynsla þeirra og skilningur síðar fótfestu og rann saman við trúararfinn. Nýjar hefðir fæddust sem enn aðrir gerðu síðar uppreisn gegn eða mæltu í mót. Sumir endurbættu reyndar kenningar og sniðu þær til eftir þörfum síns tíma til þess að halda þeim lifandi. Kannski mætti segja að það sé í eðli sumra að brjóta af sér hlekki kerfis og vana meðan aðrir una sér nokkuð vel í faðmi vanans. Var ekki annars sagt að ást yxi með vana?

Og á góðum stundum segir fólk ábúðarfullt á svip: Ecclesia semper reformanda: Kirkjan verður alltaf að vera í siðbótargírnum.

Og þannig gengur sagan. Orð Ritningarinnar er einmitt með þessum hætti lifandi því það kallar á nýjan og hvassan skilning hverrar kynslóðar. Kallar á nýja túlkun handa nýjum tíma.

Öll orð verðum við að túlka, snúa þeim og hugsunum þeirra; flytja þau yfir á okkar mál. Það getur stundum reynst mikil þraut og torleyst. Horfin veröld blasir við þegar fornum trúarritum er flett. Heimur sem við í fljótu bragði áttum okkur ekki fyllilega á. Veröld sem var en hefur þó skilið svo margt eftir sem við verðum að gaumgæfa en fleygja ekki í æði einnotahyggjunnar.

Biblían dregur upp mynd af heiminum, heimsmynd. Þar ríkir Guð yfir öllu hátt á himni, menn strita á jörðu og undir henni er hel, hinn dimmi heimur, staður fordæmdra. Þessi heimsmynd er löngu  rykfallin og okkar mynd sem nú lifum er önnur og þarf ekki svo sem að fara mörgum orðum um það. Hún er sem gamalt ævintýri en samt bankar hún upp á í orðum, sögum og sögumyndleiftrum og reynir að koma sér að í hinum nýja heimi með ýmsu móti. Sérstaklega ein persóna þessarar sögu. Hún stígur nokkuð fast inn á svið heimsins og kallar eftir athygli. Jesús Kristur. Þau eru mörg sem kafað hafa ofan í sögu hans og túlkað. Um boðskap hans hafa verið reist svo mörg hús að ekki verður tölu á þau komið. Allt byggir meira og minna á því sem skrifað var um hann löngu eftir að hann var fallinn frá. En hann er staddur þarna í menningunni, menningu okkar, og margir telja sig skilja hann betur en aðrir. Enn aðrir segja að hann sé á förum úr menningunni. Sumir fagna því jafnvel og telja veröldina loks vera orðna mynduga.

Kenning hans og siðir hefur líka tekið sér bólfestu í stofnunum sem kallast kirkjur, söfnuðir eða trúfélög. Flóra þeirra er fjölbreytileg og útgáfur af frelsaranum margar. Sumar þessara stofnana líta svo á í mörgum tilvikum að þær hafi vald til að túlka orð smiðsins mikla með þeim hætti sem aðrir verði að beygja sig undir. Þær skjóta jafnvel stoðum undir þetta vald sitt með þeim orðum að það sé komið úr efri andans byggðum og því ættu menn ekki að voga sér að efast um það. En nútíminn blæs í flestum tilvikum á þetta og vill heldur túlka sjálfur: nútímamaðurinn er hin túlkandi vera.

Allt snýst þetta um túlkun – hvernig á að skilja? Og spyrja! Melta, túlka, meta, ígrunda, draga ályktanir, já og mótmæla í hjarta sínu, sættast við, jafnvel brosa breitt, hlæja, syrgja og gráta. Er lífið manneskjunnar í hvaða heimsmynd sem er ekki nokkuð samhljóma í grunnmerkingu sinni?

Það eru margir sem eru á sveimi í þorpsgötu menningarinnar og telja sig eiga erindi. Þar er samkeppni um athygli og fé. Örtröð. Samt eru trúartáknin alls staðar – líka bak við trén inni í mannmergðinni. Og nútímamanneskjan er stundum vegvillt og margar þeirra hafa ekki áhuga á þessum fátæka farandprédikara úr Galíleu. Skilja hann ekki enda þótt þeim finnist orð hans mörg fögur og góð til eftirbreytni. Svo eru þau sem fylgja honum af gömlum vana og finnst hann veita öryggi. Og hin sem brenna í eldmóði af boðskap hans og láta hann móta sig í einu og öllu. Þá enn önnur sem axla byrðar nútímans með stolti en þrá innst inni einhverja lífsfyllingu, grundvöll undir lífið, sem skynsemi þeirra, upplifun og skynjun, getur sæst við án þess að glata vegabréfi nútímans.

Það er fjölbreytileikinn sem mestu skiptir þegar öllu er á botninn hvolft, skynsemi og kærleikur.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir