Engin tímamót jafnast á við þá sumar tekur við af vetri. Engin yfirlýsing dagatalsins er jafn kærkomin og þar sem stendur skýrum stöfum: Sumardagurinn fyrsti. Ekki aðeins vegna þess að sumarið er gengið í garð samkvæmt dagatalinu heldur líka vegna þess að fleiri sumardagar fylgja á eftir. Þetta er aðeins sá fyrsti. Þarna er hann kominn á fætur og lætur ekkert styggja sig.

Hvert sem augað lítur sér til sumars og skiptir engu máli þótt kórónudraugar vetrarins stjákli um. Allt sumarskrautið sem flýgur syngjandi um himininn og frjósemin leynist á hverri grein og bakvið hvern stein. Nú er eggtíð á næsta leiti. Sú tíð þá hljóðlátur titringur fer um jörð og lífið brýst fram.

Sumarið fellir veiruna skæru úr sæti sínu og sviptir hana kórónu sinni.

Lífið gengur aftur inn á gömlu góðu götuna, finnur hamingjuleiðina.

Náttúran springur út.

Enginn efast um sumarið. Eða hvað?

Kraftar náttúrunnar leysast úr læðingi og bjóða manninum í heiminum til samfylgdar um daga og nætur sumars. Samfylgd í veröld Guðs og manns: Núna, á þessu andataki sem og allar aldir.

Hver öld sem líður reynir á þanþol og þolrif kristinnar trúar á vegferð mannsins. Hún stendur andspænis nýju samfélagi, nýjum vísindum og fjörmiklum skoðunum. Viðbrögð hennar sýna hæfni hennar hverju sinni til að ræða við yfirstandandi nútíma. Sagan sýnir að hæfni hennar er harla misjöfn en henni hefur líka tekist vel.

Í trúarsamtali við nútímann er hægt að fara ýmsar leiðir en ekki skila þær allar niðurstöðu sem sátt er um. Í hugum margra er í öndvegi krafa um að kristin trú skuli túlkuð á sem fjölbreytilegastan hátt. Það hæfi enda grunneðli hennar sem margstofna trés sem lifað hefur hvert sumarið á fætur öðru. En stofninn er einn og óskiptur. Nýjar greinar vaxa – aðrar brotna. Sumar þarf að klippa. Aðrir telja trúna vera nánast sem hvert annað forrit þar sem allt liggur klárt fyrir. Hafa svör á reiðum höndum við öllu því sem upp kann að koma og benda á vígi kenninga og hefða máli sínu til stuðnings. En trúin rúmar fjölbreytni enda vistarverurnar margar í húsi Guðs.

Fylgifiskur trúar er gjarnan efinn. Hann þarf fráleitt að vera veikleikamerki sálarinnar heldur öllu heldur vottur um vakandi hugsun. Efi í trúarefnum getur verið sprækur vísir að lifandi trú. Hann verður að taka alvarlega og ræða af hreinskilni. Tíð hinna breiðu spjóta er liðin og lítt tjóar að koma til umræðu klæddur brynju kenninga og bókstafsítroðslu og ætla sér að reka efann í gegn.

Það er margt í farteski kristinnar trúar sem nútíminn álítur vera safngripi en kann vel að meta þá út af fyrir sig. Gripir sem segja sögu, oft skelfilega sögu. Sumir þeirra eru reyndar best geymdir á safni og eiga ekkert brýnt erindi í sjálfu sér inn í nútímann en aðrir þurfa að vera í notkun. Þá þarf að skýra og túlka svo nútíminn átti sig á þeim. Velta þeim fyrir sér, ræða um þá, skoða og láta þá tala til sín. Finna sumarið í þeim.

Kristin trú er sumar í heimi mannsins. Kærleiksríkur Guð gengur inn í vetur mannsins og hver klakabrynjan af annarri bráðnar. Hvað með þína brynju?

Gleðilegt sumar!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Engin tímamót jafnast á við þá sumar tekur við af vetri. Engin yfirlýsing dagatalsins er jafn kærkomin og þar sem stendur skýrum stöfum: Sumardagurinn fyrsti. Ekki aðeins vegna þess að sumarið er gengið í garð samkvæmt dagatalinu heldur líka vegna þess að fleiri sumardagar fylgja á eftir. Þetta er aðeins sá fyrsti. Þarna er hann kominn á fætur og lætur ekkert styggja sig.

Hvert sem augað lítur sér til sumars og skiptir engu máli þótt kórónudraugar vetrarins stjákli um. Allt sumarskrautið sem flýgur syngjandi um himininn og frjósemin leynist á hverri grein og bakvið hvern stein. Nú er eggtíð á næsta leiti. Sú tíð þá hljóðlátur titringur fer um jörð og lífið brýst fram.

Sumarið fellir veiruna skæru úr sæti sínu og sviptir hana kórónu sinni.

Lífið gengur aftur inn á gömlu góðu götuna, finnur hamingjuleiðina.

Náttúran springur út.

Enginn efast um sumarið. Eða hvað?

Kraftar náttúrunnar leysast úr læðingi og bjóða manninum í heiminum til samfylgdar um daga og nætur sumars. Samfylgd í veröld Guðs og manns: Núna, á þessu andataki sem og allar aldir.

Hver öld sem líður reynir á þanþol og þolrif kristinnar trúar á vegferð mannsins. Hún stendur andspænis nýju samfélagi, nýjum vísindum og fjörmiklum skoðunum. Viðbrögð hennar sýna hæfni hennar hverju sinni til að ræða við yfirstandandi nútíma. Sagan sýnir að hæfni hennar er harla misjöfn en henni hefur líka tekist vel.

Í trúarsamtali við nútímann er hægt að fara ýmsar leiðir en ekki skila þær allar niðurstöðu sem sátt er um. Í hugum margra er í öndvegi krafa um að kristin trú skuli túlkuð á sem fjölbreytilegastan hátt. Það hæfi enda grunneðli hennar sem margstofna trés sem lifað hefur hvert sumarið á fætur öðru. En stofninn er einn og óskiptur. Nýjar greinar vaxa – aðrar brotna. Sumar þarf að klippa. Aðrir telja trúna vera nánast sem hvert annað forrit þar sem allt liggur klárt fyrir. Hafa svör á reiðum höndum við öllu því sem upp kann að koma og benda á vígi kenninga og hefða máli sínu til stuðnings. En trúin rúmar fjölbreytni enda vistarverurnar margar í húsi Guðs.

Fylgifiskur trúar er gjarnan efinn. Hann þarf fráleitt að vera veikleikamerki sálarinnar heldur öllu heldur vottur um vakandi hugsun. Efi í trúarefnum getur verið sprækur vísir að lifandi trú. Hann verður að taka alvarlega og ræða af hreinskilni. Tíð hinna breiðu spjóta er liðin og lítt tjóar að koma til umræðu klæddur brynju kenninga og bókstafsítroðslu og ætla sér að reka efann í gegn.

Það er margt í farteski kristinnar trúar sem nútíminn álítur vera safngripi en kann vel að meta þá út af fyrir sig. Gripir sem segja sögu, oft skelfilega sögu. Sumir þeirra eru reyndar best geymdir á safni og eiga ekkert brýnt erindi í sjálfu sér inn í nútímann en aðrir þurfa að vera í notkun. Þá þarf að skýra og túlka svo nútíminn átti sig á þeim. Velta þeim fyrir sér, ræða um þá, skoða og láta þá tala til sín. Finna sumarið í þeim.

Kristin trú er sumar í heimi mannsins. Kærleiksríkur Guð gengur inn í vetur mannsins og hver klakabrynjan af annarri bráðnar. Hvað með þína brynju?

Gleðilegt sumar!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir