Engin hátíð meðal kristinna manna er eldri en páskarnir. Hún er hátíð fagnaðar og gleði eins og aðrar hátíðir hjá okkur kristnum mönnum. Trúin er enda gleðiboðskapur sem vill ná eyrum sem flestra á öllum tímum.

Páskarnir tala með misjöfnum hætti til okkar. Þeir segja margt og boða enn meira. Benda til dæmis á að vorið sé ekki svo ýkja langt undan. Engin árstíð er jafnkröftug sem vorið og það hefur ýmisleg áhrif á okkur mennina.

Vorið!

Og hvað boðar vorið ekki? Vorið sem við öll þráum hvort heldur við lifum sumar, haust eða vetur.

Já, blessað vorið.

Það voraði í heiminum þegar skaparinn ávarpaði okkur í Jesú Kristi. Já, það vorar í huga okkar þegar hann ávarpar okkur og við svörum. Hverju svarar þú? Og hverju svara ég ávarpi þess er kallaði okkur fram á leiksvið lífsins?

Margur myndi segja að fátt minnti á vorið á kórónuveirutíð þegar svo mörgu er lokað sem ætti að vera opið. Svo margt snúið niður sem ætti að rísa upp. Og fátt er andstæðara hátíð en samfélag þar sem lífið er á vissan hátt í fjötrum. En samt er svo margt sem er opið! Eins og hvað? Jú, öll náttúran, Guðs góða sköpun sem hefur reyndar heldur betur látið á sér kræla suður á Reykjanesi. Við getum gengið út í Guðs mildu og dularfullu náttúru sem gefur og kennir. Það er ekki lítið.

Auk þess býr vorið á veirutíð þrátt fyrir allt innst inni í hverju og einu okkar þó svo dagarnir séu öðruvísi nú en áður. Vorið sem geymir von okkar um þann dag þegar mjúkt frelsið leikur um höfuð og við getum litið aftur til þess þessarar veirutíðar með engum söknuði. Við stígum út í kunnuglegt frelsið von bráðar og göngum út í sólbjartan dag. Það er nokkurs konar upprisa.

Mörg okkar myndu svara því til að aldrei sem nú hafi augu okkar horft jafn ákveðið fram og þráð upprisu alls. Samfélagsins. Samskipta. Lífs. Í hjarta okkar vitum við að samfélagið mun rísa upp og verða kannski aldrei samt og áður. Kórónuveiran hefur sett mark sitt á svo margt. Bæði tekið frá okkur og vakið með okkur mikilvægi þess að eiga hvert annað.

Já, upprisa.

Páskarnir eru upprisuhátíð. Það er undarlegt orð upprisa en um það snýst kristin trú þegar öllu er á botninn hvolft. Kristin trú segir reyndar að veröld öll hafi verið sem eitt fangelsi áður en Guð gekk inn í heiminn í Jesú Kristi. Það var veröld án vonar og án vors í huga mannkyns. Hann kom til að frelsa heiminn – frelsa mennina. En vorsólin skein hátt á himni morgun þann er steini nokkrum var velt frá gröf einni. Sú gröf er týnd og það eitt segir margt um þann vonarríka anda sem fylgdi kristinni trú. Það var ónauðsynlegt að muna hvar sá var í gröf lagður er gekk nú um meðal lifenda.

Von er sterkur þáttur í kristinni trú. Lifandi von sem skín skært í Jesú Kristi. Von sem smitar út frá sér og gefur mönnum kraft í hinum erfiðustu aðstæðum. Kristið fólk á sér von sem er bundin Jesú Kristi og upprisu hans. Vonin sú er að eiga hlut í upprisu hans til lífsins.

Ég lifi og þér munuð lifa. (Jóhannesarguðspjall 14.19).

Þetta er boðskapur páskanna sem okkur er fluttur á þessum páskum sem endranær. Okkur er boðið að lifa undir merki lífsins: Jesú Kristi.

Kristin trú er trú lífsins. Hún er bjartsýn á lífið og framgang þess þrátt fyrir að nú um stund sé það í djúpri veirulægð. Sú trú sem hefur Jesú Krist sem leiðarstjörnu getur aldrei annað en verið bjartsýn og sterk fyrir hönd okkar í hvaða aðstæðum sem við kunnum að vera. Tökum þátt í þessari bjartsýnu trú og finnum hvað lífið er dýrmætt.

Gleðilega páska!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Engin hátíð meðal kristinna manna er eldri en páskarnir. Hún er hátíð fagnaðar og gleði eins og aðrar hátíðir hjá okkur kristnum mönnum. Trúin er enda gleðiboðskapur sem vill ná eyrum sem flestra á öllum tímum.

Páskarnir tala með misjöfnum hætti til okkar. Þeir segja margt og boða enn meira. Benda til dæmis á að vorið sé ekki svo ýkja langt undan. Engin árstíð er jafnkröftug sem vorið og það hefur ýmisleg áhrif á okkur mennina.

Vorið!

Og hvað boðar vorið ekki? Vorið sem við öll þráum hvort heldur við lifum sumar, haust eða vetur.

Já, blessað vorið.

Það voraði í heiminum þegar skaparinn ávarpaði okkur í Jesú Kristi. Já, það vorar í huga okkar þegar hann ávarpar okkur og við svörum. Hverju svarar þú? Og hverju svara ég ávarpi þess er kallaði okkur fram á leiksvið lífsins?

Margur myndi segja að fátt minnti á vorið á kórónuveirutíð þegar svo mörgu er lokað sem ætti að vera opið. Svo margt snúið niður sem ætti að rísa upp. Og fátt er andstæðara hátíð en samfélag þar sem lífið er á vissan hátt í fjötrum. En samt er svo margt sem er opið! Eins og hvað? Jú, öll náttúran, Guðs góða sköpun sem hefur reyndar heldur betur látið á sér kræla suður á Reykjanesi. Við getum gengið út í Guðs mildu og dularfullu náttúru sem gefur og kennir. Það er ekki lítið.

Auk þess býr vorið á veirutíð þrátt fyrir allt innst inni í hverju og einu okkar þó svo dagarnir séu öðruvísi nú en áður. Vorið sem geymir von okkar um þann dag þegar mjúkt frelsið leikur um höfuð og við getum litið aftur til þess þessarar veirutíðar með engum söknuði. Við stígum út í kunnuglegt frelsið von bráðar og göngum út í sólbjartan dag. Það er nokkurs konar upprisa.

Mörg okkar myndu svara því til að aldrei sem nú hafi augu okkar horft jafn ákveðið fram og þráð upprisu alls. Samfélagsins. Samskipta. Lífs. Í hjarta okkar vitum við að samfélagið mun rísa upp og verða kannski aldrei samt og áður. Kórónuveiran hefur sett mark sitt á svo margt. Bæði tekið frá okkur og vakið með okkur mikilvægi þess að eiga hvert annað.

Já, upprisa.

Páskarnir eru upprisuhátíð. Það er undarlegt orð upprisa en um það snýst kristin trú þegar öllu er á botninn hvolft. Kristin trú segir reyndar að veröld öll hafi verið sem eitt fangelsi áður en Guð gekk inn í heiminn í Jesú Kristi. Það var veröld án vonar og án vors í huga mannkyns. Hann kom til að frelsa heiminn – frelsa mennina. En vorsólin skein hátt á himni morgun þann er steini nokkrum var velt frá gröf einni. Sú gröf er týnd og það eitt segir margt um þann vonarríka anda sem fylgdi kristinni trú. Það var ónauðsynlegt að muna hvar sá var í gröf lagður er gekk nú um meðal lifenda.

Von er sterkur þáttur í kristinni trú. Lifandi von sem skín skært í Jesú Kristi. Von sem smitar út frá sér og gefur mönnum kraft í hinum erfiðustu aðstæðum. Kristið fólk á sér von sem er bundin Jesú Kristi og upprisu hans. Vonin sú er að eiga hlut í upprisu hans til lífsins.

Ég lifi og þér munuð lifa. (Jóhannesarguðspjall 14.19).

Þetta er boðskapur páskanna sem okkur er fluttur á þessum páskum sem endranær. Okkur er boðið að lifa undir merki lífsins: Jesú Kristi.

Kristin trú er trú lífsins. Hún er bjartsýn á lífið og framgang þess þrátt fyrir að nú um stund sé það í djúpri veirulægð. Sú trú sem hefur Jesú Krist sem leiðarstjörnu getur aldrei annað en verið bjartsýn og sterk fyrir hönd okkar í hvaða aðstæðum sem við kunnum að vera. Tökum þátt í þessari bjartsýnu trú og finnum hvað lífið er dýrmætt.

Gleðilega páska!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir