Það skiptir máli að mæta gulum og rauðum viðvörunum vetrarins með bros á vör og klyfjuð af sumrinu í sálinni.

Með grímu eða án þar sem við á.

Aldrei er að vita hversu napur vetrarvindurinn verður og sömuleiðis slagviðrið sem fylgir stundum. Vetrarmyrkrið sígur líka á sálina með vissum þunga og birtan hopar. Ljósið á sálarlampanum dofnar.

Manneskjan býr nefnilega í veðrinu sem umlykur hana og það á kannski sérstaklega við um okkur hér norður í höfum. Veðrið er stærri hluti af okkur heldur en þeim sem búa við stöðugt veðurfar þar sem sól og blíða eru nánast alla daga. En við hér á hala veraldar erum í stöðugum átökum við veðrið. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér enda þótt það komi okkur sífellt á óvart og sé óþrjótandi umræðuefni. Ástæðan er eflaust sú að veðrið er stór þáttur í tilveru okkar. Það hefur áhrif á okkur. Sólin skín og hugurinn fyllist gleði og ánægju. Vetrarfjúkið lemur á glugga og vekur oft með okkur ugg og fer stundum að berja á sálargluggann og við felum okkur undir sæng. Og veturinn getur verið harður í horn að taka í öllu sínu veldi ef kýs að byrsta sig hressilega – stríðir stormar svipta okkur til og frá – frostið læðist að okkur og ís leggst yfir sálartjörnina. Hún verður hál.

Við búum í veðrinu. Það býr í okkur. Nágranni sem við þekkjum vel og verðum að eiga góð samskipti við. Ekki þýðir að bölva honum í sand og ösku. Hann breytist ekki við það. Við tökum honum vel og: lærum á hann. Vitum hvenær hann ýfir sig, hellir sér yfir okkur í formi regns eða fergir sálarlífið með snjóþyngslum. Og líka þegar veðrið er eins og margur segir umhleypingasamt sem þýðir að á ekkert er að treysta. Svona í dag og hinsegin á morgun – eða allt á sama degi og enginn friður.

Allir vita að nauðsynlegt er að búa í sátt við nágranna sinn hvort heldur í blokkinni, raðhúsinu, einbýlishúsinu í götunni – vinnunni. Sáttinni fylgir gagnkvæmur skilningur og virðing. Ákveðin mörk sem menn gæta sín á að stíga ekki yfir – og svo sameiginlegt rými sem reynir oft á persónuþroska manna. Enginn skal gína yfir öðrum eins og hvínandi stormur sem feykir öllu til eða sem óstöðug lægð. Nei, menn ættu að líkjast vetrarkyrrðinni eða haustblænum, þegar allt er milt og gott – eða sumargolunni – brosi sólarinnar og ilmi frá nýslegnum túnum; fuglasöng og jarmi í fjarska. En það fylgir líka manneskjunni sem býr í veðrinu að hún getur komið sem veðurhvellur ef einhver hegðar sér ósæmilega í hinu sameiginlega rými. Þó eru veðurhljóðin auðvitað misjöfn hjá fólki þegar einhver dritar í almenninginn. Því verður ekki breytt og enginn dómur kveðinn upp úr með það þó í einum hvíni eða annar brosi góðlátlega sem sól á himni (og glotti við tönn?) og sá þriðji drynji sem þruma.

Þegar frystir á milli nágranna er nauðsynlegt að leita sátta. Það er nefnilega alkunna að mönnum líður betur í sálarkofanum þegar þau systkinin sátt og samlyndi haldast í hendur. Ósætti étur manneskjuna að innan, hatur og fyrirlitning afmynda annars falleg andlit og minna fremur á skrímsl en manneskju. Eins er með veðrið. Ef menn búa ekki í sátt við það þá sligar það sálina og slítur manneskjunni út. Sem betur sættast nú flestir við veðrið þó sumir leggi land undir fót og flytjist úr norðrinu á suðlægar slóðir. Margur hefur sagt reyndar eftir að hafa verið sólbakaður á suðrænum ströndum að garrinn heima á Fróni banki stundum upp – og þegar þeir koma aftur á skerið reki þeir nefið út í svalann og feginsstuna fylgir.

Veðurfarið í sálarkvörninni á kórónuveirutíma getur tekið meira á en það sem fólk hefur lifað áður. Fólk er berskjaldaðra vegna ýmissa þátta sem fylgja hinu sérstaka ástandi en flestir hafa þó sem betur fer vanist því að klæða af sér kórónuveðrið. Fara út í garrann með grímu og aðgát. En veðrið bítur, það fer ekki í manngreinarálit eins og kunnugt er: Það rignir yfir réttláta og rangláta. Og sólin skín á vonda og góða. (Matteusarguðspjall 5.45). Allir standa líka jafnfætis andspænis veðrabrigðum faraldursins en sumir geta verið veikari fyrir en aðrir – og um þau verðum við að hugsa. Það er grímulaus skylda okkar gagnvart náunganum.

Og hamingjuveðrið? Það er jafnvægi hugar og sálar, eðlilegt hvassviðri, veðurmökkur og bylur; mild veður og bjartar nætur, hlýtt regn og kalt, hraglandi og allt þar á milli. Semsé: jafnvægi. Eða: allskonar!

Hamingjuveður með grímu eða án þar sem það á við.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það skiptir máli að mæta gulum og rauðum viðvörunum vetrarins með bros á vör og klyfjuð af sumrinu í sálinni.

Með grímu eða án þar sem við á.

Aldrei er að vita hversu napur vetrarvindurinn verður og sömuleiðis slagviðrið sem fylgir stundum. Vetrarmyrkrið sígur líka á sálina með vissum þunga og birtan hopar. Ljósið á sálarlampanum dofnar.

Manneskjan býr nefnilega í veðrinu sem umlykur hana og það á kannski sérstaklega við um okkur hér norður í höfum. Veðrið er stærri hluti af okkur heldur en þeim sem búa við stöðugt veðurfar þar sem sól og blíða eru nánast alla daga. En við hér á hala veraldar erum í stöðugum átökum við veðrið. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér enda þótt það komi okkur sífellt á óvart og sé óþrjótandi umræðuefni. Ástæðan er eflaust sú að veðrið er stór þáttur í tilveru okkar. Það hefur áhrif á okkur. Sólin skín og hugurinn fyllist gleði og ánægju. Vetrarfjúkið lemur á glugga og vekur oft með okkur ugg og fer stundum að berja á sálargluggann og við felum okkur undir sæng. Og veturinn getur verið harður í horn að taka í öllu sínu veldi ef kýs að byrsta sig hressilega – stríðir stormar svipta okkur til og frá – frostið læðist að okkur og ís leggst yfir sálartjörnina. Hún verður hál.

Við búum í veðrinu. Það býr í okkur. Nágranni sem við þekkjum vel og verðum að eiga góð samskipti við. Ekki þýðir að bölva honum í sand og ösku. Hann breytist ekki við það. Við tökum honum vel og: lærum á hann. Vitum hvenær hann ýfir sig, hellir sér yfir okkur í formi regns eða fergir sálarlífið með snjóþyngslum. Og líka þegar veðrið er eins og margur segir umhleypingasamt sem þýðir að á ekkert er að treysta. Svona í dag og hinsegin á morgun – eða allt á sama degi og enginn friður.

Allir vita að nauðsynlegt er að búa í sátt við nágranna sinn hvort heldur í blokkinni, raðhúsinu, einbýlishúsinu í götunni – vinnunni. Sáttinni fylgir gagnkvæmur skilningur og virðing. Ákveðin mörk sem menn gæta sín á að stíga ekki yfir – og svo sameiginlegt rými sem reynir oft á persónuþroska manna. Enginn skal gína yfir öðrum eins og hvínandi stormur sem feykir öllu til eða sem óstöðug lægð. Nei, menn ættu að líkjast vetrarkyrrðinni eða haustblænum, þegar allt er milt og gott – eða sumargolunni – brosi sólarinnar og ilmi frá nýslegnum túnum; fuglasöng og jarmi í fjarska. En það fylgir líka manneskjunni sem býr í veðrinu að hún getur komið sem veðurhvellur ef einhver hegðar sér ósæmilega í hinu sameiginlega rými. Þó eru veðurhljóðin auðvitað misjöfn hjá fólki þegar einhver dritar í almenninginn. Því verður ekki breytt og enginn dómur kveðinn upp úr með það þó í einum hvíni eða annar brosi góðlátlega sem sól á himni (og glotti við tönn?) og sá þriðji drynji sem þruma.

Þegar frystir á milli nágranna er nauðsynlegt að leita sátta. Það er nefnilega alkunna að mönnum líður betur í sálarkofanum þegar þau systkinin sátt og samlyndi haldast í hendur. Ósætti étur manneskjuna að innan, hatur og fyrirlitning afmynda annars falleg andlit og minna fremur á skrímsl en manneskju. Eins er með veðrið. Ef menn búa ekki í sátt við það þá sligar það sálina og slítur manneskjunni út. Sem betur sættast nú flestir við veðrið þó sumir leggi land undir fót og flytjist úr norðrinu á suðlægar slóðir. Margur hefur sagt reyndar eftir að hafa verið sólbakaður á suðrænum ströndum að garrinn heima á Fróni banki stundum upp – og þegar þeir koma aftur á skerið reki þeir nefið út í svalann og feginsstuna fylgir.

Veðurfarið í sálarkvörninni á kórónuveirutíma getur tekið meira á en það sem fólk hefur lifað áður. Fólk er berskjaldaðra vegna ýmissa þátta sem fylgja hinu sérstaka ástandi en flestir hafa þó sem betur fer vanist því að klæða af sér kórónuveðrið. Fara út í garrann með grímu og aðgát. En veðrið bítur, það fer ekki í manngreinarálit eins og kunnugt er: Það rignir yfir réttláta og rangláta. Og sólin skín á vonda og góða. (Matteusarguðspjall 5.45). Allir standa líka jafnfætis andspænis veðrabrigðum faraldursins en sumir geta verið veikari fyrir en aðrir – og um þau verðum við að hugsa. Það er grímulaus skylda okkar gagnvart náunganum.

Og hamingjuveðrið? Það er jafnvægi hugar og sálar, eðlilegt hvassviðri, veðurmökkur og bylur; mild veður og bjartar nætur, hlýtt regn og kalt, hraglandi og allt þar á milli. Semsé: jafnvægi. Eða: allskonar!

Hamingjuveður með grímu eða án þar sem það á við.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir