Sumarið er tími brúðkaupanna vegna þess að engin árstíð ber með sér jafnsterka von og gleði. Það fyllir allt af ilmi lífsins og væntingum. Með gróandanum og bjartri sólu umvefur það okkur og við tökum fagnandi á móti því full af bjartsýni. Sumarið hleður okkur af krafti og kærleika.

Þess vegna er fallegt að ganga í hjónaband á sumrin. Þá brosir veröld víða – og allt eykur yndishag.

Hjónabandið er sameiginlegt verkefni sem einstaklingar glíma við alla ævi. Það er skemmtilegt viðfangsefni þar sem hver dagur færir eitthvað nýtt fram til að takast á við, í sameiningu og líka með sínum hætti. Auðvitað er mikilvægt að hjón séu samrýmd en það er líka mikilvægt að þau haldi sínum sérkennum, að sérkennin fái að haldast lifandi innan ramma hjónabandsins. Sumir segja að hjónabandið sé ein stór samningalota um smátt og stórt – en sú lota felst ekki í haugum af pappírum og útreikningum – heldur augntilliti, kossum, raddblæ og kærleiksríku hugarfari sem oft krefst engra orða.

Gæfuspor hjónabandsins ilma og þau veita ekki einasta þeim er þau stíga gæfu og yndi heldur og einnig öðrum sem nær standa.

Þræðirnir í hamingjunni eru margslungnir og saman flétta hjónin þá saman í lífi sínu. Hamingjan er ekki bara það sem við vinnum að innra með okkur heldur og með öðrum. Hún býr til minningar – minningar sem hjón eiga saman og verða þeim hjartfólgnari eftir því sem árin líða.

Tilefni þessara orða um hjónabandið er annars konar hjónaband en þau sem við eigum að venjast.

Allt annars konar hjónavígsla.

Myndin sem fylgir þessum orðum sýnir hinn mæta munk, Frans frá Assisi (1181-1226) og vin hans, Leó (d. 1271). Listaverkið ber nafnið Hið dularfulla brúðkaup heilags Frans frá Assisi. Það er málað 1437-1444 af ítalska endurreisnarmálaranum Sassetta (um 1392–1450). Umhverfi myndarinnar er friðsælt, kastalar og ræktaðir akrar, fjöll og skóglendi. Allt í annarlegum stærðarhlutföllum enda er þetta sennilega í gáttum þessa heims og annars, þó að ílangur blær gotneskunnar svífi yfir vötnum og hóflegur yfirstéttarbragur fylgi með í kaupbæti.

Tilefnið er að Frans fór ásamt öðrum munki til að leita sér lækninga við sjóndepru sem herjaði á hann. Á þessu ferðalagi urðu þrjár konur á vegi þeirra félaganna og stendur Frans ögn álútur fyrir framan þær. Konurnar þrjár standa fyrir einkunnarorð Frans: skírlífi, fátækt og hlýðni. Þetta voru þær þrjár höfuðdygðir sem Frans frá Assisi gekk að eiga svo sem hjónaband væri. Sérstaklega var það fátæktin en á myndinni bregður hann hring um fingur hennar til staðfestingar á fátæktareið sínum. Konan sem stendur fyrir hana er berfætt eins og Frans sjálfur og vinur hans. Kufl hennar er í sama lit og munkanna tveggja, og hún heldur á lítilli trjágrein. Hvítklædda konan heldur á lilju, táknar skírlífið. Sú rauðklædda heldur á oki til að bregða á uxa á akrinum og táknar það hlýðnina. Á hægri hönd Frans sjást sáramerki Krists. Dygðirnar þrjár, englarnir, hefja sig svo til flugs. Ein þeirra lítur aftur til Frans, það er fátæktin sem hann gekk að eiga.

Þó að myndin sýni annars konar hjónavígslu – ef svo má segja – en þær sem hafðar eru um hönd að sumri þá banka stundum þessar dygðir upp á í hinum venjulegu hjónaböndum á öllum tímum: skírlífi, hlýðni og fátækt, með mismiklum þunga. Það er líka hluti af því sem hjón takast á við og leysa farsællega í sátt og samlyndi. Þess vegna geta sennilega öll hjónabönd verið dularfull, hvert með sínum hætti, þó eðlileg séu. Og Frans frá Assisi í fullu gildi enn sem fyrirmynd, vinur guðs, fugla og manna.

Kirkjublaðið.is óskar öllum sem ganga í hjónaband á þessu sumri hjartanlega til hamingju.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sumarið er tími brúðkaupanna vegna þess að engin árstíð ber með sér jafnsterka von og gleði. Það fyllir allt af ilmi lífsins og væntingum. Með gróandanum og bjartri sólu umvefur það okkur og við tökum fagnandi á móti því full af bjartsýni. Sumarið hleður okkur af krafti og kærleika.

Þess vegna er fallegt að ganga í hjónaband á sumrin. Þá brosir veröld víða – og allt eykur yndishag.

Hjónabandið er sameiginlegt verkefni sem einstaklingar glíma við alla ævi. Það er skemmtilegt viðfangsefni þar sem hver dagur færir eitthvað nýtt fram til að takast á við, í sameiningu og líka með sínum hætti. Auðvitað er mikilvægt að hjón séu samrýmd en það er líka mikilvægt að þau haldi sínum sérkennum, að sérkennin fái að haldast lifandi innan ramma hjónabandsins. Sumir segja að hjónabandið sé ein stór samningalota um smátt og stórt – en sú lota felst ekki í haugum af pappírum og útreikningum – heldur augntilliti, kossum, raddblæ og kærleiksríku hugarfari sem oft krefst engra orða.

Gæfuspor hjónabandsins ilma og þau veita ekki einasta þeim er þau stíga gæfu og yndi heldur og einnig öðrum sem nær standa.

Þræðirnir í hamingjunni eru margslungnir og saman flétta hjónin þá saman í lífi sínu. Hamingjan er ekki bara það sem við vinnum að innra með okkur heldur og með öðrum. Hún býr til minningar – minningar sem hjón eiga saman og verða þeim hjartfólgnari eftir því sem árin líða.

Tilefni þessara orða um hjónabandið er annars konar hjónaband en þau sem við eigum að venjast.

Allt annars konar hjónavígsla.

Myndin sem fylgir þessum orðum sýnir hinn mæta munk, Frans frá Assisi (1181-1226) og vin hans, Leó (d. 1271). Listaverkið ber nafnið Hið dularfulla brúðkaup heilags Frans frá Assisi. Það er málað 1437-1444 af ítalska endurreisnarmálaranum Sassetta (um 1392–1450). Umhverfi myndarinnar er friðsælt, kastalar og ræktaðir akrar, fjöll og skóglendi. Allt í annarlegum stærðarhlutföllum enda er þetta sennilega í gáttum þessa heims og annars, þó að ílangur blær gotneskunnar svífi yfir vötnum og hóflegur yfirstéttarbragur fylgi með í kaupbæti.

Tilefnið er að Frans fór ásamt öðrum munki til að leita sér lækninga við sjóndepru sem herjaði á hann. Á þessu ferðalagi urðu þrjár konur á vegi þeirra félaganna og stendur Frans ögn álútur fyrir framan þær. Konurnar þrjár standa fyrir einkunnarorð Frans: skírlífi, fátækt og hlýðni. Þetta voru þær þrjár höfuðdygðir sem Frans frá Assisi gekk að eiga svo sem hjónaband væri. Sérstaklega var það fátæktin en á myndinni bregður hann hring um fingur hennar til staðfestingar á fátæktareið sínum. Konan sem stendur fyrir hana er berfætt eins og Frans sjálfur og vinur hans. Kufl hennar er í sama lit og munkanna tveggja, og hún heldur á lítilli trjágrein. Hvítklædda konan heldur á lilju, táknar skírlífið. Sú rauðklædda heldur á oki til að bregða á uxa á akrinum og táknar það hlýðnina. Á hægri hönd Frans sjást sáramerki Krists. Dygðirnar þrjár, englarnir, hefja sig svo til flugs. Ein þeirra lítur aftur til Frans, það er fátæktin sem hann gekk að eiga.

Þó að myndin sýni annars konar hjónavígslu – ef svo má segja – en þær sem hafðar eru um hönd að sumri þá banka stundum þessar dygðir upp á í hinum venjulegu hjónaböndum á öllum tímum: skírlífi, hlýðni og fátækt, með mismiklum þunga. Það er líka hluti af því sem hjón takast á við og leysa farsællega í sátt og samlyndi. Þess vegna geta sennilega öll hjónabönd verið dularfull, hvert með sínum hætti, þó eðlileg séu. Og Frans frá Assisi í fullu gildi enn sem fyrirmynd, vinur guðs, fugla og manna.

Kirkjublaðið.is óskar öllum sem ganga í hjónaband á þessu sumri hjartanlega til hamingju.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir