Fjöldi ljóðabóka kemur út fyrir jólin. Þær eru minna auglýstar en aðrar bækur og ef þá nokkuð. Hins vegar ganga dyggir ljóðaunnendur að þeim og njóta þeirra. Þetta er ekki stór hópur í sjálfu sér en hann er traustur og þakklátur. Hann veit nefnilega að góð ljóðabók er þess eðlis að hægt er að lesa hana aftur og aftur. Hún er ekki einnota heldur margnota. Og sumar þær bestu lifa um aldir.

Því miður er ekki ljóðabókum ekki alltaf sýndur sá sómi sem þær verðskulda. Þetta á einkum við hvar þeim er komið fyrir í bókabúðum. Nú er varla þverfótað fyrir heilu stæðunum af glæpasögum metsöluhöfundanna á miðju gólfi sumra bókaverslana. Ljóðin verða að láta sér nægja að vera úti í horni og bíða átekta. En ljóðin eru hógvær og vita að elskulegir lesendur munu heilsa upp á þau og eru kannski fegnir að vera lausir við bókaauglýsingaskrumið.

Ljóðabókin Mold er nýútkomin og höfundur hennar er dr. Sigurður Ingólfsson. Doktor í frönskum bókmenntum og stundar guðfræðinám við Háskóla Íslands.

Þegar spurt var um ljóðabókina í virðulegri bókabúð sagði afgreiðslustúlkan að hún væri jú komin í hús en það ætti eftir að skrá hana. Kaupandi spurði hvort það væri nokkurt mál en fékk það svar að í versluninni væri unnið eftir skipulagi og starfsfólkið væri að gera annað núna. Og hvenær yrði hún skráð væri óvíst, líkast til á morgun. Sem sé bókin komin í hús og ekki til sölu. Kaupandi sagði ef hann ætti þessa verslun þá hefði hann hlaupið inn og sótt eitt eintak fyrir áhugasaman viðskiptavin fyrst að röðin náði ekki út á götu. Annasöm afgreiðslustúlkan varð aðeins hugsi á svip og eftir úthugsaða kúnstpásu sagðist hún ætla að kanna málið. Kom svo að vörmu spori og sagði að bókin yrði skrásett eftir andartak. Já, í þetta sinn notaði hún það orð eins og Lúkas guðspjallamaður sem sagði frá skrásetningu heimsbyggðarinnar á sínum tíma. Nokkru síðar samfögnuðu afgreiðslustúlkan og kaupandinn þessari góðu þjónustulund hinnar virðulegu verslunar.

Eftir þennan inngang er best að snúa sér að ljóðabókinni sjálfri. Það er alltaf álitamál hvort eigi að skrifa mikið um ljóð og ljóðabækur fyrir aðra. Ljóð eru endurspeglun á hugsun skáldsins og að skrifa um þau minnir kannski óþægilega á það að ef einhver tæki sig til og færi að skrifa um hugsanir manns. En auðvitað er sá munur hér á að um leið og ljóð er komið á prent í bók er búið að skjóta því að áhugasömum lesendum. Þeir geta haft ýmsar skoðanir á ljóðunum en sjaldnast koma þær skáldunum nokkuð við. Mestu skiptir að komið sé samband á milli ljóðs og lesanda.

Ljóð tala. Þau tala til lesanda. Samtal fer fram milli tveggja í huganum. Þess vegna er ljóðformið eitt dularfyllsta bókmenntaformið og það verufræðilegasta. Ljóðið er ljóðið í huga hvers og eins – og er þessi dulúðugi samtalsneisti milli lesanda og höfundar.

Þessari ljóðabók fylgir prologus, formáli. Það er reyndar fremur óvenjulegt nema þegar bókmenntafræðingar slæðast til og skrifa slíka formála yfir látnum skáldum. En hvað um það. Formálinn er skrifaður af sr. Kristjáni Val Ingólfssyni, fyrrum vígslubiskupi í Skálholtsumdæmi. Í honum er farið nokkrum orðum um höfundinn, ljóðin og röðun kaflanna þriggja sem höfundur skipar ljóðum sínum í.

Ljóðabókin Mold skiptist í þrjá hluta og yfirskrift þeirra eru kunn orð sem sögð eru við útfarir: Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Reyndar er síðasta setningin sem vísar til upprisunnar á undan: Að jörðu skaltu aftur verða.

Meðal kristinna manna hefur sem sé verið kennt að maðurinn sé af jörðu kominn, hann er Adam, og að loknu dagsverki þar hverfi hann aftur til jarðarinnar. Síðan rís hann upp til lífsins hjá skaparanum vegna hins nýja Adams (þ.e. Krists) án þess að farið sé út í smáatriði þeirra tímamóta enda á færi fárra ef nokkurra að útskýra þau mál svo vit sé í.

Áhersla höfundar er hins vegar á upprisu manneskjunnar til jarðarinnar, til lífsins á jörðu, og að því loknu bíði jörðin hans.

Maðurinn
er gróðursettur.

Annað hvort
í lundi eða
eyðimörk. (Bls. 2).

Lesandi fær fljótt á tilfinninguna að þessi þriggja kafla skipting hafi í raun ekki mikið að segja. Ljóð í hverjum kafla flæða á milli kaflaskila þó að hægt sé að nema staðar við eitt og eitt ljóð og segja að það eigi heima til dæmis í kaflanum Af jörðu ertu kominn o.s.frv. Þrátt fyrir þetta mynda ljóðin eina góða og samstæða heild og eru áhugaverð til lestrar og ýta við lesandanum. Yfir sumum er þunglyndisbragur og öðrum svipur efa og spurnar. Margar myndir í þeim eru snjallar og sterkar:

Haf hugans
nærir fiska líkamans. (Bls. 5)

Eða:

Hver grein er
stjörnuþoka. (Bls. 9).

Og:

Snjólykt læðist, heldur í hugarfals. (Bls. 34).

Eftirfarandi geymir sérstaklega skemmtilegar líkingar – bls. 37:

En úr því rætist
þegar lífsblöðin
eru lesin
undir náljóma.

Sennilega er orðið náljómi nýyrði – eða kannast hlustendur við orðið?

Eitt ljóðanna í fyrsta hluta er óður til sköpunarinnar, kröftugt og ögrandi á vissan hátt:

Frumdjúp óreiðunnar.

Þang.

Fegurð framtíðar
og vona.
Iðuköst undrandi
nætur
myrkurs í undirdjúpum.

Sköpunaróp fyllir
myrkrið.

Býr til ljós
úr óskapnaði
opnar fyrir boðaföll,
fæðingar.

Móðir jörð
tekur andköf
við sköpunina.

Nýtt líf gengur út úr paradís
með pálmann í höndunum.  (Bls. 6).

Margar tilvistarspurningar eru reiddar fram í ljóðunum og sumum þeirra er reynt að svara en lesendum er skilið eftir að svara öðrum.

Jörðin er móðirin mikla og:

Maður er
græðlingur
jarðar

sáð af
andardrætti
Allífsins. (Bls. 15).

Ekki er hægt að segja annað en að í ljóðum höfundar kenni náttúrumýstíkur sem margt nútímafólk er spennt fyrir.

Upprisan til lífsins felst í því að þegar jörð hefur fætt manninn.

Að morgni lifs
kveður jörð
um stund.

Leit að himni
hefst. (Bls. 20).

Vangaveltur um mennskuna er að finna í ljóði upprisukaflans. Þar kemur fram að það eru margar leiðir í átt að mennskunni enda þótt áhyggjur geti sótt að:

Móðir jörð
horfir á eftir barni sínu
í átt til mennsku.

Óneitanlega
fylgja því áhyggjur:

„Skyldi barn mitt
fara framhjá mennskunni?“ (Bls. 22).

Eitt snjallasta og áhrifamesta ljóðið er að finna á bls. 27:

Það er
merkilegt
að vera
treyst fyrir
eigin lifi.

Eins brothætt og það er
og stundum er maður
eins og fíll í eigin
brothætta veruleika.

Steinhissa á því
að hafa verið hleypt inn.

Eins og hann
er búinn
að brjóta.

Einhver annar
hlýtur að standa

við dyrnar.

Sum ljóðanna eru fjörlega torræð og hnippa hressilega í lesandann. Til dæmis ljóðið á bls. 23.

Kennsl

eru viðkvæm.

Að fara með þiljum
að skauta yfir
grímu hins.

Hinn,
sem þó er þú
órjúfanlegur
hluti þess
aldingarðs
sem fylgir  upprisu þinni.

Persóna.

Andstæður eru oft settar fram í ljóðum og eru hluti af hinu knappa formi. Dæmi um það er:

Ræktun manns tekur
langa örskotsstund. (Bls. 26).

Sömuleiðis getur ósigur verið hinn mesti sigur en þetta ljóð er á bls. 29:

Upp Jakobsstigann
er ein leið,
einnig niður.

Baráttan við sjálfan sig
skilur eftir tómar
skotgrafir.

Hversu oft sem farið er með
sigur af hólmi

sigrar þú
og tapar

En það að tapa fyrir sjálfum sér,
getur verið hinn mesti sigur.

Flest ljóðanna eru í miðjukafla bókarinnar Af jörðu skaltu upp rísa – alls fimmtán. Ellefu í fyrsta kafla, Af jörðu ertu kominn. Sex að viðbættum eftirmála í þriðja kafla, Af jörðu skaltu aftur verða, og þar er meðal annars þetta ljóð á bls. 49:

Guð
sáir nýjum eða gömlum
sálum, sem drjúpa með
regninu niður að jörðinni
í skjóðu sáðmanns.

Sumar taka sér leið
með regnboganum.

Allir litir
allt fólk,
eins að innan
og utan ef að er gáð.

Orðalyng, það er sterkur ilmur af þessum ljóðum, þau eru sannkallað orðalyng, en það orð notar höfundur tvisvar í bókinni. Það er margt sem fer um hugann eftir fyrsta lestur bókarinnar sem segir að hér sé meira en virðist við fyrstu sýn. Ljóðin fara með lesendur um dýpstu lendur huga skáldsins og þar kannast margir við eitt og annað. Því allt fólk, eins og segir í ofanvitnaða ljóðinu, er eins hið ytra sem innan. Tilvera mannsins hér á jörðu er í holdinu sem er einhvers konar hylki þar sem persónan á sér hæli. Líkaminn er það efnisrými sem hún tekur sér í heiminum en hið andlega rými getur verið umfangsmeira. En allir eru á ferð í þessari dularfullu veröld:

Veikburða fætur
styrkjast við hvert skref. Tekið
af líkama eða sál.
Torfærur eru öllum
leiðitamar hvort sem
þær eru farnar
fótgangandi

eða í huganum. (Bls. 21).

Bókina hefði mátt prófarkalesa ögn betur. Aðallega er ósamræmi í punktasetningu. En eins og allir vita eru punktar mikilvægir í ljóðum ef þeir eru þar á annað borð. Vel fer hins vegar á því að gefa því greinarmerki frí í ljóðum. Annars er allur frágangur bókarinnar smekklegur.

Franskar tilvitnanir hefði mátt þýða að ósekju yfir á íslensku.

Myndir eru gerðar af dr. Pétri Péturssyni, prófessor emeritus. Þær eru fallega bernskar og falla vel að ljóðunum og bókinni í heild.

Útgefandi bókarinnar er Reykir í Hveragerði. Hún er 51 bls.

Niðurstaða: Ljóðabók sem færir lesendum djúp og ilmandi ljóð þar sem oft er brugðið upp sterkum myndum með heitri þrá eftir lífi og skilningi. Bók þar sem fengist er við það sem máli skiptir hjá hverjum manni: líf hans hér í heimi, þroska og hugsanir, og það sem kemur. Upphaf og lok eða í öndverðri röð.

Kirkjublaðið.is óskar höfundi til hamingju með bókina.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Fjöldi ljóðabóka kemur út fyrir jólin. Þær eru minna auglýstar en aðrar bækur og ef þá nokkuð. Hins vegar ganga dyggir ljóðaunnendur að þeim og njóta þeirra. Þetta er ekki stór hópur í sjálfu sér en hann er traustur og þakklátur. Hann veit nefnilega að góð ljóðabók er þess eðlis að hægt er að lesa hana aftur og aftur. Hún er ekki einnota heldur margnota. Og sumar þær bestu lifa um aldir.

Því miður er ekki ljóðabókum ekki alltaf sýndur sá sómi sem þær verðskulda. Þetta á einkum við hvar þeim er komið fyrir í bókabúðum. Nú er varla þverfótað fyrir heilu stæðunum af glæpasögum metsöluhöfundanna á miðju gólfi sumra bókaverslana. Ljóðin verða að láta sér nægja að vera úti í horni og bíða átekta. En ljóðin eru hógvær og vita að elskulegir lesendur munu heilsa upp á þau og eru kannski fegnir að vera lausir við bókaauglýsingaskrumið.

Ljóðabókin Mold er nýútkomin og höfundur hennar er dr. Sigurður Ingólfsson. Doktor í frönskum bókmenntum og stundar guðfræðinám við Háskóla Íslands.

Þegar spurt var um ljóðabókina í virðulegri bókabúð sagði afgreiðslustúlkan að hún væri jú komin í hús en það ætti eftir að skrá hana. Kaupandi spurði hvort það væri nokkurt mál en fékk það svar að í versluninni væri unnið eftir skipulagi og starfsfólkið væri að gera annað núna. Og hvenær yrði hún skráð væri óvíst, líkast til á morgun. Sem sé bókin komin í hús og ekki til sölu. Kaupandi sagði ef hann ætti þessa verslun þá hefði hann hlaupið inn og sótt eitt eintak fyrir áhugasaman viðskiptavin fyrst að röðin náði ekki út á götu. Annasöm afgreiðslustúlkan varð aðeins hugsi á svip og eftir úthugsaða kúnstpásu sagðist hún ætla að kanna málið. Kom svo að vörmu spori og sagði að bókin yrði skrásett eftir andartak. Já, í þetta sinn notaði hún það orð eins og Lúkas guðspjallamaður sem sagði frá skrásetningu heimsbyggðarinnar á sínum tíma. Nokkru síðar samfögnuðu afgreiðslustúlkan og kaupandinn þessari góðu þjónustulund hinnar virðulegu verslunar.

Eftir þennan inngang er best að snúa sér að ljóðabókinni sjálfri. Það er alltaf álitamál hvort eigi að skrifa mikið um ljóð og ljóðabækur fyrir aðra. Ljóð eru endurspeglun á hugsun skáldsins og að skrifa um þau minnir kannski óþægilega á það að ef einhver tæki sig til og færi að skrifa um hugsanir manns. En auðvitað er sá munur hér á að um leið og ljóð er komið á prent í bók er búið að skjóta því að áhugasömum lesendum. Þeir geta haft ýmsar skoðanir á ljóðunum en sjaldnast koma þær skáldunum nokkuð við. Mestu skiptir að komið sé samband á milli ljóðs og lesanda.

Ljóð tala. Þau tala til lesanda. Samtal fer fram milli tveggja í huganum. Þess vegna er ljóðformið eitt dularfyllsta bókmenntaformið og það verufræðilegasta. Ljóðið er ljóðið í huga hvers og eins – og er þessi dulúðugi samtalsneisti milli lesanda og höfundar.

Þessari ljóðabók fylgir prologus, formáli. Það er reyndar fremur óvenjulegt nema þegar bókmenntafræðingar slæðast til og skrifa slíka formála yfir látnum skáldum. En hvað um það. Formálinn er skrifaður af sr. Kristjáni Val Ingólfssyni, fyrrum vígslubiskupi í Skálholtsumdæmi. Í honum er farið nokkrum orðum um höfundinn, ljóðin og röðun kaflanna þriggja sem höfundur skipar ljóðum sínum í.

Ljóðabókin Mold skiptist í þrjá hluta og yfirskrift þeirra eru kunn orð sem sögð eru við útfarir: Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Reyndar er síðasta setningin sem vísar til upprisunnar á undan: Að jörðu skaltu aftur verða.

Meðal kristinna manna hefur sem sé verið kennt að maðurinn sé af jörðu kominn, hann er Adam, og að loknu dagsverki þar hverfi hann aftur til jarðarinnar. Síðan rís hann upp til lífsins hjá skaparanum vegna hins nýja Adams (þ.e. Krists) án þess að farið sé út í smáatriði þeirra tímamóta enda á færi fárra ef nokkurra að útskýra þau mál svo vit sé í.

Áhersla höfundar er hins vegar á upprisu manneskjunnar til jarðarinnar, til lífsins á jörðu, og að því loknu bíði jörðin hans.

Maðurinn
er gróðursettur.

Annað hvort
í lundi eða
eyðimörk. (Bls. 2).

Lesandi fær fljótt á tilfinninguna að þessi þriggja kafla skipting hafi í raun ekki mikið að segja. Ljóð í hverjum kafla flæða á milli kaflaskila þó að hægt sé að nema staðar við eitt og eitt ljóð og segja að það eigi heima til dæmis í kaflanum Af jörðu ertu kominn o.s.frv. Þrátt fyrir þetta mynda ljóðin eina góða og samstæða heild og eru áhugaverð til lestrar og ýta við lesandanum. Yfir sumum er þunglyndisbragur og öðrum svipur efa og spurnar. Margar myndir í þeim eru snjallar og sterkar:

Haf hugans
nærir fiska líkamans. (Bls. 5)

Eða:

Hver grein er
stjörnuþoka. (Bls. 9).

Og:

Snjólykt læðist, heldur í hugarfals. (Bls. 34).

Eftirfarandi geymir sérstaklega skemmtilegar líkingar – bls. 37:

En úr því rætist
þegar lífsblöðin
eru lesin
undir náljóma.

Sennilega er orðið náljómi nýyrði – eða kannast hlustendur við orðið?

Eitt ljóðanna í fyrsta hluta er óður til sköpunarinnar, kröftugt og ögrandi á vissan hátt:

Frumdjúp óreiðunnar.

Þang.

Fegurð framtíðar
og vona.
Iðuköst undrandi
nætur
myrkurs í undirdjúpum.

Sköpunaróp fyllir
myrkrið.

Býr til ljós
úr óskapnaði
opnar fyrir boðaföll,
fæðingar.

Móðir jörð
tekur andköf
við sköpunina.

Nýtt líf gengur út úr paradís
með pálmann í höndunum.  (Bls. 6).

Margar tilvistarspurningar eru reiddar fram í ljóðunum og sumum þeirra er reynt að svara en lesendum er skilið eftir að svara öðrum.

Jörðin er móðirin mikla og:

Maður er
græðlingur
jarðar

sáð af
andardrætti
Allífsins. (Bls. 15).

Ekki er hægt að segja annað en að í ljóðum höfundar kenni náttúrumýstíkur sem margt nútímafólk er spennt fyrir.

Upprisan til lífsins felst í því að þegar jörð hefur fætt manninn.

Að morgni lifs
kveður jörð
um stund.

Leit að himni
hefst. (Bls. 20).

Vangaveltur um mennskuna er að finna í ljóði upprisukaflans. Þar kemur fram að það eru margar leiðir í átt að mennskunni enda þótt áhyggjur geti sótt að:

Móðir jörð
horfir á eftir barni sínu
í átt til mennsku.

Óneitanlega
fylgja því áhyggjur:

„Skyldi barn mitt
fara framhjá mennskunni?“ (Bls. 22).

Eitt snjallasta og áhrifamesta ljóðið er að finna á bls. 27:

Það er
merkilegt
að vera
treyst fyrir
eigin lifi.

Eins brothætt og það er
og stundum er maður
eins og fíll í eigin
brothætta veruleika.

Steinhissa á því
að hafa verið hleypt inn.

Eins og hann
er búinn
að brjóta.

Einhver annar
hlýtur að standa

við dyrnar.

Sum ljóðanna eru fjörlega torræð og hnippa hressilega í lesandann. Til dæmis ljóðið á bls. 23.

Kennsl

eru viðkvæm.

Að fara með þiljum
að skauta yfir
grímu hins.

Hinn,
sem þó er þú
órjúfanlegur
hluti þess
aldingarðs
sem fylgir  upprisu þinni.

Persóna.

Andstæður eru oft settar fram í ljóðum og eru hluti af hinu knappa formi. Dæmi um það er:

Ræktun manns tekur
langa örskotsstund. (Bls. 26).

Sömuleiðis getur ósigur verið hinn mesti sigur en þetta ljóð er á bls. 29:

Upp Jakobsstigann
er ein leið,
einnig niður.

Baráttan við sjálfan sig
skilur eftir tómar
skotgrafir.

Hversu oft sem farið er með
sigur af hólmi

sigrar þú
og tapar

En það að tapa fyrir sjálfum sér,
getur verið hinn mesti sigur.

Flest ljóðanna eru í miðjukafla bókarinnar Af jörðu skaltu upp rísa – alls fimmtán. Ellefu í fyrsta kafla, Af jörðu ertu kominn. Sex að viðbættum eftirmála í þriðja kafla, Af jörðu skaltu aftur verða, og þar er meðal annars þetta ljóð á bls. 49:

Guð
sáir nýjum eða gömlum
sálum, sem drjúpa með
regninu niður að jörðinni
í skjóðu sáðmanns.

Sumar taka sér leið
með regnboganum.

Allir litir
allt fólk,
eins að innan
og utan ef að er gáð.

Orðalyng, það er sterkur ilmur af þessum ljóðum, þau eru sannkallað orðalyng, en það orð notar höfundur tvisvar í bókinni. Það er margt sem fer um hugann eftir fyrsta lestur bókarinnar sem segir að hér sé meira en virðist við fyrstu sýn. Ljóðin fara með lesendur um dýpstu lendur huga skáldsins og þar kannast margir við eitt og annað. Því allt fólk, eins og segir í ofanvitnaða ljóðinu, er eins hið ytra sem innan. Tilvera mannsins hér á jörðu er í holdinu sem er einhvers konar hylki þar sem persónan á sér hæli. Líkaminn er það efnisrými sem hún tekur sér í heiminum en hið andlega rými getur verið umfangsmeira. En allir eru á ferð í þessari dularfullu veröld:

Veikburða fætur
styrkjast við hvert skref. Tekið
af líkama eða sál.
Torfærur eru öllum
leiðitamar hvort sem
þær eru farnar
fótgangandi

eða í huganum. (Bls. 21).

Bókina hefði mátt prófarkalesa ögn betur. Aðallega er ósamræmi í punktasetningu. En eins og allir vita eru punktar mikilvægir í ljóðum ef þeir eru þar á annað borð. Vel fer hins vegar á því að gefa því greinarmerki frí í ljóðum. Annars er allur frágangur bókarinnar smekklegur.

Franskar tilvitnanir hefði mátt þýða að ósekju yfir á íslensku.

Myndir eru gerðar af dr. Pétri Péturssyni, prófessor emeritus. Þær eru fallega bernskar og falla vel að ljóðunum og bókinni í heild.

Útgefandi bókarinnar er Reykir í Hveragerði. Hún er 51 bls.

Niðurstaða: Ljóðabók sem færir lesendum djúp og ilmandi ljóð þar sem oft er brugðið upp sterkum myndum með heitri þrá eftir lífi og skilningi. Bók þar sem fengist er við það sem máli skiptir hjá hverjum manni: líf hans hér í heimi, þroska og hugsanir, og það sem kemur. Upphaf og lok eða í öndverðri röð.

Kirkjublaðið.is óskar höfundi til hamingju með bókina.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir