Löngum hafa konur ofið og saumað messuklæði, rykkilín, hökla og stólur. Einnig altarisdúka, altarisklæði og annað sem kirkjur þurfa til helgihaldsins. Sú mikla vinna vill oft gleymast og er það miður. Öll þessi kvennavinna er unnin af mikilli listfengi og elju.

Íslenskar listakonur hafa fengist við gerð hökla. Þar þekktustu eru Unnur Ólafsdóttir (1897-1983) Guðrún J. Vigfúsdóttir (1921-2015), Sigrún Jónsdóttir (1921-2001), Elín Jónsdóttir (1928-2020), og Sigríður Jóhannsdóttir (f. 1948). Einnig skulu þessar nefndar: Áslaug Sverrisdóttir (f. 1940), Elín Stefánsdóttir (f. 1943), Hólmfríður Árnadóttir (1930-2022), Hrafnhildur Sigurðardóttir (f. 1970), Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir (f. 1948), og Sigríður Halldórsdóttir (1930-2015).

Höklar allra þessara listakvenna eru mikil listaverk og eru í eigu margra kirkna – sumir í einkaeign. Bækur hafa komið út um listakonurnar Guðrúnu og Sigrúnu.

Í síðustu viku kom út einstaklega falleg bók um hökla. Hún er gefin út af höfundinum, Herder Andersson og tilefnið er 90 ára afmæli hans en hann er fæddur 1933. Bókin heitir Messuhöklar og altarisklæði.

Höklar eru messuklæði og eru notaðir ystir fata í guðsþjónustum. Saga þessa fats er löng en hún var hversdagsleg yfirhöfn almennings í Rómaríki hinu forna og um tíma mikil tískuflík. Síðan lagði almenningur hökulinn frá sér en hann varð svo að segja eftir í kirkjunni. Hann var gerður úr ull eða lérefti og þegar silkið hóf innreið sína um árið 1000 urðu silkihöklar nokkuð algengir. Hökullinn táknar skikkju Krists og hann á aðeins að nota við guðsþjónustur.

Í fyrstu voru höklar ekki með neinar skreytingar en þær komu smám saman og voru þá einkum kristin trúartákn saumuð í þá.

Herder er sænskur en hefur búið á Íslandi svo áratugum skiptir. Hann fékkst við gerð hökla á árunum 2006-2014. Alls gerði hann 27 hökla, þrettán þeirra eru í kirkjum á Íslandi og fjórtán í sænskum kirkjum. Þessa hökla hannaði hann og saumaði sjálfur og auk þess þrjú altarisklæði.

Í bókinni segir Herder sögu sína í stuttu máli og lipru. Það er stórmerkileg saga ungs manns úr fátækri verkamannafjölskyldu í Svíþjóð sem finnur til listrænnar köllunar sinnar og ákveður að hlýða henni. Það var ekki aðeins listrænn saumaskapur heldur einnig málun og ballett sem hann stundaði með glæsibrag. Í Svíþjóð kynntist hann lífsförunaut sínum, Guðbrandi Hlíðar (1915-2000), dýralækni frá Akureyri. Saman fluttust þeir til Íslands.

Herder rekur ástæðu þess að hann hóf að sinna kirkjulist. Hann las frétt um mann sem gaf kirkju einni i Reykjavík altarisdúk. Herder hugsaði með sér að þetta gæti hann svo sannarlega sjálfur gert. Fyrsta verk hans var altarisdúkur á altari Langholtskirkju, fallegur harðangursdúkur. Síðan leiddi eitt af öðru eins og hann segir og fyrsti hökullinn kom frá honum árið 2006. Þær kirkjur sem eiga hökla eftir Herder eru Langholtskirkja, Seltjarnarneskirkja, Akureyrarkirkja, og Landakirkja í Vestmannaeyjum. Altarisklæði af hendi hans eru í Langholtskirkju og Seltjarnarneskirkju.

Í kirkjulist koma að sjálfsögðu fram margvísleg trúarleg stef. Herder var alinn upp í kristinni trú og er trúaður maður. Sterk og traust tengsl við kirkju og kristni studdu við bakið á honum í listastarfseminni. Honum segist svo frá:

Þar sem ég sat við saumaskapinn átti ég mörg samtöl við Drottin minn og kveinkaði mér stundum, því skal ekki neitað. En Drottinn er harður húsbóndi, rak mig áfram og veitti mér styrk til að ljúka verkinu. Það hvarflaði jafnvel að mér að englar hans kæmu öðru hverju að saumaskapnum meðan ég svaf. (bls. 7).

Ekki er algengt að karlmenn stundi höklagerð hér á landi. Þó er dæmi um það en Gunnar Markússon (1918-1997), skólastjóri í Þorlákshöfn, prjónaði hökul fyrir Þorlákshafnarkirkju, grænan á lit. Kona hans Sigurlaug A. Stefánsdóttir (1922-2017), handavinnukennari, sá um saumaskapinn.

Bók Herders, Messuhöklar og altarisklæði, er falleg og ber höfundi sínum og list hans fagurt vitni. Hún fæst í Kirkjuhúsinu og er 48 bls. Höfundur gefur út. Bókin kostar 5.000 krónur.

Nokkrir höklar sem Herder hefur gert. Á vandaðri heimasíðu hans er hægt að sjá alla höklana og margt fleira

Frétt í Morgunblaðinu 21. júní 2007

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Löngum hafa konur ofið og saumað messuklæði, rykkilín, hökla og stólur. Einnig altarisdúka, altarisklæði og annað sem kirkjur þurfa til helgihaldsins. Sú mikla vinna vill oft gleymast og er það miður. Öll þessi kvennavinna er unnin af mikilli listfengi og elju.

Íslenskar listakonur hafa fengist við gerð hökla. Þar þekktustu eru Unnur Ólafsdóttir (1897-1983) Guðrún J. Vigfúsdóttir (1921-2015), Sigrún Jónsdóttir (1921-2001), Elín Jónsdóttir (1928-2020), og Sigríður Jóhannsdóttir (f. 1948). Einnig skulu þessar nefndar: Áslaug Sverrisdóttir (f. 1940), Elín Stefánsdóttir (f. 1943), Hólmfríður Árnadóttir (1930-2022), Hrafnhildur Sigurðardóttir (f. 1970), Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir (f. 1948), og Sigríður Halldórsdóttir (1930-2015).

Höklar allra þessara listakvenna eru mikil listaverk og eru í eigu margra kirkna – sumir í einkaeign. Bækur hafa komið út um listakonurnar Guðrúnu og Sigrúnu.

Í síðustu viku kom út einstaklega falleg bók um hökla. Hún er gefin út af höfundinum, Herder Andersson og tilefnið er 90 ára afmæli hans en hann er fæddur 1933. Bókin heitir Messuhöklar og altarisklæði.

Höklar eru messuklæði og eru notaðir ystir fata í guðsþjónustum. Saga þessa fats er löng en hún var hversdagsleg yfirhöfn almennings í Rómaríki hinu forna og um tíma mikil tískuflík. Síðan lagði almenningur hökulinn frá sér en hann varð svo að segja eftir í kirkjunni. Hann var gerður úr ull eða lérefti og þegar silkið hóf innreið sína um árið 1000 urðu silkihöklar nokkuð algengir. Hökullinn táknar skikkju Krists og hann á aðeins að nota við guðsþjónustur.

Í fyrstu voru höklar ekki með neinar skreytingar en þær komu smám saman og voru þá einkum kristin trúartákn saumuð í þá.

Herder er sænskur en hefur búið á Íslandi svo áratugum skiptir. Hann fékkst við gerð hökla á árunum 2006-2014. Alls gerði hann 27 hökla, þrettán þeirra eru í kirkjum á Íslandi og fjórtán í sænskum kirkjum. Þessa hökla hannaði hann og saumaði sjálfur og auk þess þrjú altarisklæði.

Í bókinni segir Herder sögu sína í stuttu máli og lipru. Það er stórmerkileg saga ungs manns úr fátækri verkamannafjölskyldu í Svíþjóð sem finnur til listrænnar köllunar sinnar og ákveður að hlýða henni. Það var ekki aðeins listrænn saumaskapur heldur einnig málun og ballett sem hann stundaði með glæsibrag. Í Svíþjóð kynntist hann lífsförunaut sínum, Guðbrandi Hlíðar (1915-2000), dýralækni frá Akureyri. Saman fluttust þeir til Íslands.

Herder rekur ástæðu þess að hann hóf að sinna kirkjulist. Hann las frétt um mann sem gaf kirkju einni i Reykjavík altarisdúk. Herder hugsaði með sér að þetta gæti hann svo sannarlega sjálfur gert. Fyrsta verk hans var altarisdúkur á altari Langholtskirkju, fallegur harðangursdúkur. Síðan leiddi eitt af öðru eins og hann segir og fyrsti hökullinn kom frá honum árið 2006. Þær kirkjur sem eiga hökla eftir Herder eru Langholtskirkja, Seltjarnarneskirkja, Akureyrarkirkja, og Landakirkja í Vestmannaeyjum. Altarisklæði af hendi hans eru í Langholtskirkju og Seltjarnarneskirkju.

Í kirkjulist koma að sjálfsögðu fram margvísleg trúarleg stef. Herder var alinn upp í kristinni trú og er trúaður maður. Sterk og traust tengsl við kirkju og kristni studdu við bakið á honum í listastarfseminni. Honum segist svo frá:

Þar sem ég sat við saumaskapinn átti ég mörg samtöl við Drottin minn og kveinkaði mér stundum, því skal ekki neitað. En Drottinn er harður húsbóndi, rak mig áfram og veitti mér styrk til að ljúka verkinu. Það hvarflaði jafnvel að mér að englar hans kæmu öðru hverju að saumaskapnum meðan ég svaf. (bls. 7).

Ekki er algengt að karlmenn stundi höklagerð hér á landi. Þó er dæmi um það en Gunnar Markússon (1918-1997), skólastjóri í Þorlákshöfn, prjónaði hökul fyrir Þorlákshafnarkirkju, grænan á lit. Kona hans Sigurlaug A. Stefánsdóttir (1922-2017), handavinnukennari, sá um saumaskapinn.

Bók Herders, Messuhöklar og altarisklæði, er falleg og ber höfundi sínum og list hans fagurt vitni. Hún fæst í Kirkjuhúsinu og er 48 bls. Höfundur gefur út. Bókin kostar 5.000 krónur.

Nokkrir höklar sem Herder hefur gert. Á vandaðri heimasíðu hans er hægt að sjá alla höklana og margt fleira

Frétt í Morgunblaðinu 21. júní 2007

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir