„…margs konar sjónarsælur sálunni til hressingar.“[1]

Sr. Tómas Sæmundsson, mynd: Þjóðminjasafnið

Tómas Sæmundsson fæddist að Kúhól í Landeyjum árið 1807 og lést á Breiðabólstað 1841. Hann var sonur Sæmundar Ögmundssonar Dannebrogsmanns og Guðrúnar Jónsdóttur. Eiginkona Tómasar var Sigríður Þórðardóttir og komust upp tvö börn þeirra af fimm.

Tómas lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann var einn Fjölnismanna er hvöttu til framfara í málefnum Íslands og gáfu út tímaritið Fjölni. Hann var prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1835 og til dauðadags.

 

Breiðabólstaðakirkja í Fljótshlíð á sumardegi, 12. júlí 2023. Mynd: Kirkjublaðið.is

Menntaferð

Tómas fór í mikla ferð um Evrópu 1832-1834. Mörgum landa hans hér heima þóttu þetta „furðurfréttir“ er þeir fregnuðu af þessari ferð. Einn landa hans sagði: „…hann hefir ekki farið ferðina án þess að bera nokkuð úr býtum.“[2]

Tómas skrifaði um þessa menntaferð sína þegar hann kom heim til Íslands 1834.

Ætla má að samhliða ritun ferðabókarinnar hafi orðið til grein eða bréf sem birtistí í Fjölni 1835 undir fyrirsögninni: Úr bréfi frá Íslandi, dagsett 30. janúar það ár.[3]

Þetta var svokölluðu grand tour ferð sem hefur verið kölluð menntaferð og á uppruna sinn í Bretlandi. Ungir og velmenntaðir aðalbornir menn fóru gjarnan í miklar reisur áður en þeir tóku til starfa. Þessi tegund ferðalaga barst svo til borgarastéttarinnar.[4]

Tómas áleit svo að eftir haldgóða háskólamenntun þyrfti hann að bæta við sig „manna-, þjóða- og veraldarþekkingu, sem væri (er) svo aldeilis nauðsynleg, til að geta verkað gagnlega í svo mörgum embættisstöðum í lífinu.“[5] Hann leitar í bréfi til föður síns um styrk til þessarar ferðar: „…ég er fullvissaður um, að þér ei neitið mér um…“[6]

Tómas ferðaðist til fjölda borga í Evrópu: frá Danmörku til Prússlands, Saxlands, Bæjaralands, Bæheims, Austurríkis, Ítalíu, um Miðjarðarhaf. Til Sviss, Frakklands og Englands. Hann heimsótti borgir á þessum stöðum, þetta var borgarferð.[7] Menntareisa hans varð til þess að Bjarni Thorarensen kallaði hann Tómas hinn víðförla.[8]

Hvað er fegurð?

Það skiptir vissulega máli hvaða sýn Tómas hafði til fegurðarhugtaksins þegar hugað er að hugmyndum hans um borgarlandslag og sjónmenntir.

Fegurðarhugtakið var skilgreint í ávarpi Fjölnismanna árið 1835 en ávarpið var samið af Tómasi Sæmundssyni[9]:

„Annað, sem við aldrei ötlum að gleyma, er fegurðin. Hún er sameinuð nytseminni, – að so miklu leyti sem það sem fagurt er ætíð er til nota, andlegra eða líkamlegra, – eða þá til eblíngar nytseminni. Samt er fegurðin henni eptir eðli sínu aungvanveginn háð, heldur so ágæt, að allir menn eiga að gyrnast hana sjálfrar hennar vegna.“[10]

Óhætt er að fullyrða að fegurðarsmekkur Tómasar hafi mótast af nytjastefnu og upplýsingastefnunni sem hann var hallur undir enda þótt rómantíkina bankaði á dyrnar.[11] Það er ekki ofmælt að hann hafi staðið í gáttum upplýsingar og rómantíkur.[12]

Auk ofangreindra orða úr stefnu Fjölnis um fegurðina víkur hann sérstaklega að fegurðinni á nokkrum stöðum í Ferðabók sinni. Listin er frjáls, hún er „sjálfráður leikur ímyndunarkraftarins“, fylgir sínum eigin lögum og setur þau sjálf. Sannleikurinn er aðalsmerki listarinnar og listin gerir sér far um að skapa fegurð til að vekja tilfinningar og efla siðgæði. Listin fylgir skynseminni að málum um það sem er fallegt og hins sem „verka megi þægiliga eður óþægiliga á smekktilfinnunina.“[13] Listamenn eða „snilldarmannastéttin“ eins og hann kallar þá, fær góð ummæli sem sverja sig við hugmyndir hans um fegurð og sannleika: „hún opnar augun fyrir öllu því falliga í veröldinni…“ og hún er nær því goðumlík því að við „hennar hlið getur enginn rustaskapur og hráleikur lengi staðizt.“[14]

Svo sannarlega má taka undir eftirfarandi orð:

„Með skrifum sínum flutti Tómas algjörlega nýjar hugmyndir um list og listamenn inn í íslenska menningu, þar sem helstu viðmiðanirnar voru fagrar alþjóðlegar menntir, snilld, fegurðartilfinning og fegurðarinnar hugsjón.“[15]

Fjölnismaðurinn Tómas hafði eyru og augu opin í þessari menntaferð.

Hugsað heim

Eins og ferðalanga er háttur þá hvarflar hugur hans til fósturjarðarinnar. Strax á bls. 17 í Ferðabók sinni minnist hann á fljótin sem hann sér og segir þau vera víðast í útlöndum uppsprettu velsældar en heima á Fróni séu þau varla nema til „óþæginda.“[16] Skógar og tré bera fyrir augu hans og honum verður hugsað heim þegar hann segir að viðhorfið sé ekki eins og heima þar sem „hvör megi rífa upp eður höggva hvar sýnist eður rjóðurfella, hvar með tekizt hefir að uppræta alla skógana hjá oss.“ Skógar sem hann sér eru umgirtir og þeirra gætt.[17] Hann sér upphleypt landakort í Sviss sem kemur sér vel í allri barnakennslu og segir: „Hefi eg oft óskað að á Bessastöðum væri til þvílík afmyndan föðurlandsins…“[18] Á náttúrgripasafni í Berlín verður honum hugsað heim og þykir leitt að slíkt safn skuli ekki vera til á Íslandi „landsbúum til þekkingar á landsins merkiliga náttúrfari…“[19] Þetta eru aðeins fá dæmi úr Ferðabók hans en hún sýnir dugnað hans og iðjusemi á ferðalögunum. Hann skoðar sig um í „heiminum af miklum áhuga og saklausri ánægju.“[20]

Hvarvetna blasti við honum nýtt og nýtt borgarlandslag sem varð honum umhugsunarefni. Allt er hann sá og hreifst af sakir fegurðar eða hagkvæmni varð honum tilefni til að hugsa heim, hvort það mætti koma að einhverju gagni þar. Sjálfur segir hann svo í lok Ferðabókar sinnar og kallar það ályktun – en hann er fullur af heimþrá:

„…girntist eg ogsvo að koma í föðurlandi mínu nokkru því til vegar sem eg hafði séð í hinum siðaðri löndunum og þóktist sannfærður um að líka gæti þrifizt á Íslandi.“[21]

Og hvað sá hann fleira?

Fyrst skal aðeins drepið á umfjöllun Tómasar um skipulag borga og fegurðarsjónarmið sem fram koma í Ferðabók hans, í þeim hluta er hugsaður var sem inngangur bókarinnar. Í upphafi þess kafla er nánast lýsing á fyrirmyndarborg. Þar koma fyrir sjónir hans fjölbýlishús, sem hann kallar hólma, þau eru þverhnípt á alla vegu. Milli þeirra eru þröng sund og stræti. Á strætum geta vagnar mæst og þar er rými fyrir fótgangandi fólk. Hann hefur farið upp í turn allháan til að líta yfir borgina, en það var venja þessa tíma.[22] Þegar hann lítur þar yfir kemur honum í huga brunahraun og eldgjósandi fjöll gamla Íslands því að húsþökin voru ójöfn og svæla mikil yfir öllu frá reykháfum húsanna. Í borgunum eru torg, sölu- og markaðstorg, og þá annars konar torg „sem ætluð eru einasta til prýðis, því alls staðar er… þess gætt hjá siðuðum þjóðum að fegurð og þokki sé nytseminni samfara…hinar stærstu og fegurstu opinberar byggingar prýða því alloft slík torg.“ Að þessum torgum er öllu því safnað sem „fegurðarkeimur er að.“  Þar eru almenningssöfn sem eru liður í menntun og uppfræðingu – lista og sjónmenningar. Síðast en ekki síst almenningsgarðar sem hann kallar aldingarða þar sem fólk getur gengið um sér til hressingar og upplífgunar eins og hann segir.[23]

Svo sannarlega er þetta fögur sjón og margt sem hefur farið um huga Tómasar þegar honum varð hugsað heim eftir sjö ára fjarvist. Þetta er kannski borg hillinganna, framtíðarborg, fyrir fiskiþorpið Reykjavík, sem endurómar svo í draumsýn hans um hana sem vikið verður að hér síðar.

Sumt  fagurt og annað ekki

Eflaust hefur hann vegið og metið það sem kom fyrir augu hans út frá almennum fegurðarsjónarmiðum sem sett voru fram í Fjölni og í Ferðabókinni. Þar lýsti hann því sem fyrir augu bar á ferðinni og minnist á það sem honum þótti fagurt, nytamlegt, ljótt og óprýðilegt. Þá skal og tekið fram að hann skrifaði nokkur bréf til föður síns og lýsti staðháttum í nokkrum borgum og dæmdi um fegurð þeirra og ljótleika. Hann segir í bréfi til Frónskra í Höfn sem hann skrifar frá Dresden að hann hafi haft í Berlín næstum alltaf eitthvað til að dást að. Hann varð yfir sig hrifinn af blindrakennslu svo dæmi sé tekið. Heimsótti siðbreytingaborgina Wittenberg og segir að: „…staðurinn er ógnarlega ljótur og fyrir sunnan hann mold og mýrar.“ En brúin yfir Elfuna var falleg.[24] Leipzig fellur honum ekki í geð: „Þessi háu hús í kringum bognar götur eru eins og bylgjur á sjó að utan.“[25]  Segir borgina þó vera merkilega og líflega.[26] Saxland er fallegt, segir hann, og borgarlandslagið Dresden: „…líkist með Hreppunum, svo sem hjá Hruna og upp með Hvítá…“[27] En Dresden er nafnfrægur staður fyrir fegurð sína[28] og München er falleg borg.[29]

Þessir palladómar um borgir og staði eru ekki með miklar útskýringar. Kannski tilfinning sem hann hefur fengið fyrir stöðunum. Þó dregur hann fram meðal annars óhreinleika sem lýti og þröngar og bugðóttar götur. Ljóst er að hann vill að götur liggi samsíða og hornrétt hver á aðra og hús séu rétthyrnd.[30] Menn helluleggja fyrir framan hús sín og þau „standa í svo lagligri röð hvört við annars hlið.“[31] Annað en húsin heima, sem vikið verður að ögn síðar. Honum hugnast ekki borgarlandslagið í Napólí þar sem torg og stræti eru „óreglulig(t) niðri í borginni; er maður víðast innibyrgður og sér lítið frá sér, og gætir fegurðarinnar litið… .“[32] Allt er þetta hluti af borgarlandslagi sem hann lýsir og bæta má við orðum sem hann lætur falla um Napólí: „…2 beinar húsaraðir se mjög hefur verið til vandað. Þá tekur brekkan við alskrýdd aldingörðum og lystihúsum…“[33]

En hann er einnig yfir sig hrifinn af borgum eins og Berlín, Róm og Napólí.

Berlín er einn fegursti staður Norðurálfunnar að mati hans. Þar ber fyrir sjónir hallir, borgarhlið, dýragarð, fögur torg og vegleg hús. Bókhlaða, „sjónleikarahús“, háskóli sem og „snilldarmannaskólinn“ (listaskóli) – þá  verslanir með málverk og „snilldarverkum“. Og myndastyttur.[34]  Allt sem gleður augað, leikhús og „söngsnilld“[35]. Tómas fór oft í forngripasafnið í Berlín en þar var líka málverkasafn og segir frá því hvaða áhrif listin hafði á sig en hún gat: „…uppfyllt geð manns með blíðum og ánægjufullum tilfinning, hvað þau hjálpa til að þekkja veröldina og innbúa hennar athafnir og siðu… .“ Taldi þó „snilldarverkabúr“ þeirra á Ítalíu veglegra en það þýska. Í þessu sambandi getur hann innan sviga að Forngripasafnið heima hafi verið sent til Danmerkur, „allt sent“ og má kenna ósættis í því.[36] En hvað sem þessu líður þá var sjónmenntaáhugi hans vakinn hressilega. Í Dresden fer hann á málverkasafn og sér þar verkið Nótt eftir Corceggio – segir aðrar borgir öfundi Dresden af góðu safni.[37] Og um Napólí segir hann að þar sé sífellt vor – „…ein jurtin lifnar eður blómgast þegar önnur fölnar…“[38]

„…græn þúfa og sönn bæjar-prýði…“

Hann leggur upp til Íslands með allar hinar fögru myndir í höfðinu af yndælum stöðum sem hann hefur sótt heim í grand-tour ferð sinn.

Kannski getur það gefið einhverja hugmynd um menningarlegan mun milli stórra borga og smárra bæja að svo miklu leyti sem hann mótast af íbúafjölda, ef hafður er í huga íbúafjöldi Reykjavíkur á þeim tíma er Tómas kemur til bæjarins eftir för sína. Svo dæmi sé tekið þá nefnir Tómas íbúafjölda í Napólí og segir að þar séu um 350.000 manns.[39] Og í Berlín eru um 250.000 íbúar.[40] Í Reykjavík bjuggu árið 1835 alls 639 manns.[41] Með þessu er þó ekki sagt að menning sé merkilegri í stórborgum en litlum stöðum. En fullyrða má að líklega sé menningin fjölbreytilegri í hinum stærri stöðum og tækifæri til menningarlegrar iðkunar víðtækari en í hinum smærri. Fleiri íbúar gera staði alla jafna fjárhagslega öflugri sé atvinnulíf traust og því viðbúið að þeir geti stutt betur við listir en hinir fámennari og fátækari þó ekkert sé einhlítt í þessu efni.

Borg eða bær getur verið spegill menningarinnar, skipulag og útlit segir sögu og afhjúpar sálar- og menningarástand íbúanna. „Góð byggingarlist getur búið yfir fallegum og göfgandi boðskap en byggingarlistin knýr engan til hlýðni. Hún getur hvatt og örvað til fallegs mannlífs…“, segir í bókinni Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis.[42] Óhætt er að fullyrða að Tómas Sæmundsson hafi tekið undir það heilum huga.

Þegar hann nálgaðist Reykjavík á skipsfjöl sá hann „inn af öllum Borgarfyrði, Akrafjall og Esjuna, og voru fjöllin so fögur tilsýndum, sem mér valla hafa þau fyrri sýnst, heiðblá, með sólskins-blettum til og frá; niður frá sjó og upp til miðs blöstu við grænar hlíðar, hið efra stöku snjódeplar, sem jók enn meir afbreitinguna. Öllum virtist þeim landið álitlegt, og þótt mér vel er so var.“[43] Landið tók því vel á móti ferðalangnum og hann fullur stolts yfir því að útlendir samferðamenn hans á skipinu kunni að meta fegurð þess. Tómas er afar ánægður með  stiptamtmannin Krieger[44] sem hafi látið gera veg upp að Skólavörðunni, umhlaðið hana, sett þar borð og bekki. „Er nú þángað orðin allfögur skemtigánga þegar gott er veður, því víðsýni er mikið yfir öll nes, út til sjáfar og upp til fjalls.“[45]

Tómas segir að mikið hafi verið rætt um uppgang í Reykjavík og þar hafi húsum vissulega fjölgað. Húsin væru „ásjáleg“ eftir því sem þau gætu verið en það skorti upp á fegurð bæjarins og góðan bæjarbrag.[46]

Reykjavík 1835 – Lækjargata – mynd úr leiðangri Pauls Gaimard til Íslands 1835-1836

Fyrst mætti huga að grundvellinum. Tómasi er ljóst að bæjarbúar, Reykvíkingar, þurfi að komast  „betur í álnir enn orðið er.“ Segir hann staðina vera enn „í bernsku sinni.“ Sem framfaramaður, og Fjölnismaður, er honum morgunljóst samhengi milli atvinnu og hagsældar. Kaupmenn og bændur eru „undirstaða lanzins velmeigunar; því fje þeirra er kyrt í landinu, eykst þar og eyðist…“[47]  Traustur efnahagur eflir framfarir og gerir kleift að fegra umhverfið og prýða.

Hann veltir hann fyrir sér skipulagi Reykjavíkur. Segir að hún gæti verið „dá-snoturt kaupstaðarkorn: á fleti milla sjáfar og stöðuvatns með grænum holtum beggjamegin.“ Því er nú aldeilis ekki að heilsa. „Kotaþyrpingin“ sem umvefur bæinn býður af sér „sér staklegan óþokka.“[48] En þar á móti kann að koma ánægja hans með að Arnarhóll hafi verið tekinn niður: „…þar er nú græn þúfa og sönn bæjar-prýði“.[49]

Það stingur í skipulagsauga hans að kotum fjölgar í holtunum að sama skapi sem húsum á láglendinu. Þurrabúðafólkið á að hans hyggju að reisa sín kot við sjóinn, þar gæti verið „fiskimanna-þorp“ og yrði af því minni óprýði. Sneiðir hann að iðjuleysi manna sem ráfa um götur og sníkja brennivín inni í búðum og væri þeim nær að aka steinum að ströndinni til að reisa bæi.[50] Hann segir þær sveitir sem fjærst séu kaupstöðum standi vel, þar sé samheldni og sparsemi. Í kaupstöðum beri mikið á „svalli, skuldum, og ónytjúngsskapnum sem hefir tekið sér bústað í kringum kaupstaðina.“[51] Allt þetta setur ljótan blett á mannlífið og kaupstaðina.

Tómasi fannst því „fegurðarinnar kröfum í bænum sjálfum“ ekki fullnægt. Nýjum húsum er skipað niður handahófskennt, eða eins og hann segir „öldúngis í blindni“, og ekki hugsað um skipulag framtíðarinnar með tilliti til fegurðar og hagvæmni.[52]

Draumur um Reykjavík

En Tómas elur með sér draum um Reykjavík þar sem háleit fegurðarsjónarmið ráða miklu.

Hann sér fyrir sér Löngustétt (nú Austurstræti) sem beina götu og gerist svo djarfur að nefna hina fjölförnu götu í London, Strand, til samanburðar. En Langastétt er bugðótt og hús sköguðu út í götuna. Auk þess var Langastétt að mati hans of mjó eftir því sem vestar dró. Með fram Löngustétt sér hann „tvær aðrar jafnsíðis henni eptir endilaungum Austurvelli“ og kæmu svo aðrar götur þvert á þær frá sjó og upp undir Tjörnina. Skammt frá sjónum væri kauptorg fyrir miðri strönd og svo annað torg „fallegra“ með fram norðurvegg Dómkirkjunnar. Þar væri og háskóli, menntastofnanir og ráðhús. Á miðju torginu „heiðursvarða þess manns, er slíku hefði til leiðar komið.“ Suður með Tjörninni væru „skemtigaung“ og þá kirkjugarður á Hólavöllum (sem reyndar kom 1838).[53] Óhætt er að fullyrða að upptök þessa draums megi leita til þeirra borga og bæja sem Tómas fór um og segir frá í Ferðabók sinni.

Það leið nokkur tími þar til að borgarbragur komst á Reykjavík. Tómasi auðnaðist ekki að sjá bæinn breytast í borg. Segja má að hugmyndir hans hafi verið háleitar og metnaðarfullar, jafnvel komist nálægt merkilegri tillögu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, um „háborg íslenskrar menningar“ á Skólavörðuhæð sem kynnt var árið 1924.[54] Sú tillaga hefði eflaust fallið Tómasi vel í geð. Hún komst ekki í framkvæmd.

Fyrsti íslenski nútímamaðurinn?

Tómas var framsýnn maður og hugmyndir hans um „sameiningu nytsemdar, fegurðar og upplýsingar lágu til grundvallar stofnun bæði Forngripasafns Ísland og Listasafns Íslands (1884.)“[55] Já, framfaramaður eins og Benedikt Gröndal orðaði það í æviminningum sínum, Dægradvöl. Hann minnist þess er Tómas kom á Bessastaði og ræddi við föður hans um „framfarir“ og bætir því við að þá hafi allir framfaramenn verið „skoðaðir hér sem hálfvitlausir eða jafnvel sem eins konar upphlaupsmenn.“[56]

Tómas hafði séð fyrir sér styttur[57] í Reykjavík eins og hann sá í grand-tour ferð sinni. Hann lést ungur að árum, 34, ára, árið 1841. Hann var mörgum harmdauði og hinar frægu ljóðlínur vinar hans Jónasar Hallgrímssonar: Dáinn, horfinn, harmafregn, eru úr erfiljóð um hann.  En árið 1855 var komið upp minnisvarða um hann í kirkjugarðinum á Breiðabólstað í Fljótshlíð.[58] Það fer vel á því.

Eftirmæli Tómasar Sæmundssonar í sögunni eru góð eins og þessi: „Tómas Sæmundsson og félagar hans í kringum tímaritið Fjölni opnuðu Ísland fyrir nútímanum.“[59]

Lokaorðin á fyrrum menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, sem á sumarhús skammt fyrir austan Breiðabólstað í Fljótshlíð þar sem séra Tómas þjónaði sem prestur í tæp sex ár: „Þeim mun meira sem ég fræðist um sr. Tómas Sæmundsson kemur í hugann hvort hann hafi verið fyrsti íslenski nútímamaðurinn.“[60]

Jarðarför á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1836 – presturinn á miðri mynd mun vera sr. Tómas Sæmundsson – lituð mynd, gerð eftir frummynd Augustes Meyers – úr bók Pauls Gaimards um ferðina til Íslands

Tilvísanir

[1] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 35.

[2] Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, Jón Helgason, R. 1941, bls. 99.

[3] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835.

[4] Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 52-53.

[5] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.98. (XVII. Til Sæmundar Ögmundssonar 23 apríl 1832).

[6] Sama bls. 100.

[7] Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 53

[8] Bjarni Thorarensen, Bréf II., Jón Helgason bjó til prentunar. Safn Fræðafélagsins, XII. bindi, Kaupmannahöfn, 1943, 2. útg. 1986, bls. 143.

[9] Heimir Pálsson, Frá lærdómsöld til raunsæis – íslenskar bókmenntir 1550-1900, R. (1999), 2005, bls. 121-122.

[10] Fjölnir (ávarp), Fjölnir, 1. árg., 2. janúar 1835. Bls. 10-11.

[11] Hjalti Hugason segir að Tómas hafi staðið á mótum tveggja tíma, upplýsingarinnar og þeirra hreyfinga sem komu í kjölfar hennar, sjá: Ritröð Guðfræðistofnunar, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ R. 2008, bls. 77, 96-97.

[12] Saga Íslands, VIII. bindi, ritstjóri Sigurður Líndal, R. 2006 bls. 299-301

[13] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 113, 333.

[14] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 331.

[15] Þórir Óskarsson, „Hið fagra, góða og sanna er eitt“, Tómas Sæmundsson og fagurfræði Fjölnis, Andvari 128. árgangur 2003, 1. tbl., bls. 98. Hér má og skjóta inn að listfræðingurinn Ólafur Gíslason telur að Tómas hafi verið undir áhrifum fagurfræði þýska listfræðingsins Jóhanns J. Winckelmanns hvað snertir meðal annars útlit fólks, sjá: Ólafur Gíslason, Skírnir, haust 2012, R. 2012, bls. 367-368.

[16] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 17.

[17] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 24.

[18] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 45.

[19] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 52.

[20] Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Að kasta sér meðal útlendra þjóða,“ Andvari, 131. árg. 2006, 1. tbl., bls. 148.

[21] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 288.

[22] Marion Lerner, „Varla er  til ófrýniligri sjón…“, borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 56.

[23] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 290-293.

[24] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 105. Um blindrakennslu einnig Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 148.

[25] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.106.

[26] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 115.

[27] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 109.

[28] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.116.

[29] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 117.

[30] Marion Lerner, „Varla er  til ófrýniligri sjón…“, borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, R. bls. 58.

[31] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 41.

[32] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 280.

[33] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 277.

[34] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 37-40.

[35] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 68-69.

[36] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 61.

[37] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 216-217.

[38] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 276.

[39] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar, – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947bls. 275.

[40] Jón Helgason, Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og æfistarf, R. 1941, bls. 70

[41] Hagskinna, sögulegar hagtölur á Íslandi, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, R. 1997, bls. 66 (og þess má geta að fimm árum síðar, eða 1840 var íbúatala bæjarins komin upp í 890).

[42] Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis, R. 2008, bls. 32.

[43] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 62.

[44] Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, Jón Helgason, R. 1941, bls. 106.

[45] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 64.

[46] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls.67-68.

[47] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 71.

[48] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[49] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[50] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[51] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 77.

[52] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[53] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 69-70.

[54] Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson, húsameistari, R. 2020, bls. 137.

[55] Aðalsteinn Ingólfsson í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

[56] Benedikt Gröndal, Dægradvöl, R. 1965, bls. 35.

[57] „Hugmyndin um minnisvarða berst hingað með Tómasi Sæmundssyni.“ Aðalsteinn Ingólfsson í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

[58] Sjá nánar um minnisvarðann og sitthvað honum tengt: Halldór J. Jónsson, „Myndir af Tómasi Sæmundssyni,“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags, R. 1998, bls. 35-45.

[59] Ólafur Gíslason, „Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin“ – Grand Tour Tómasar Sæmundssonar, Skírnir, haust 2012, R. 2012, bls. 374.

[60] Dagbók Björns Bjarnasonar, laugardaginn 1. júlí 2017: https://www.bjorn.is/dagbok/um-sr-tomas-saemundsson-fjolnismann-a-breidabolstad
Sótt 15. júlí 2023, kl. 8.54.

Heimildir

Aðalsteinn Ingólfsson, fyrirlestur í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

Benedikt Gröndal, Dægradvöl, R. 1965.

Bjarni Thorarensen, Bréf I-II. Jón Helgason bjó til prentunar. Safn Fræðafélagsins, XII. bindi, Kaupmannahöfn, 1943-1986.

Bréf Tómasar Sæmundssonar. Gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní 1907. Jón Helgason bjó til prentunar. Reykjavík 1907.

Dagbók Björns Bjarnasonar, laugardaginn 1. júlí 2017: https://www.bjorn.is/dagbok/um-sr-tomas-saemundsson-fjolnismann-a-breidabolstad – Sótt 15. júlí 2023, kl. 8.54.

Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947.

Fjölnir (ávarp), Fjölnir, 1. árg., 2. janúar 1835. Ársrit handa Íslendíngum. Fyrsta ár. Kaupamannahöfn, 1835.

Halldór J. Jónsson, Myndir af Tómasi Sæmundssyni, Árbók hins íslenzka fornleifafélags, R. 1998.

Hagskinna, sögulegar hagtölur á Íslandi, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, R. 1997.

Heimir Pálsson, Frá lærdómsöld til raunsæis – íslenskar bókmenntir 1550-1900, R. (1999), 2005.

Hjalti Hugason, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ Ritröð Guðfræðistofnunar, R. 2008

Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis. 2008.

Jón Helgason, Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, R. 1941.

Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018.

Ólafur Gíslason, „Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin“ – Grand Tour Tómasar Sæmundssonar, Skírnir, haust 2012, R. 2012.

Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson, húsameistari, R. 2020.

Hjalti Hugason, Ritröð Guðfræðistofnunar, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ R. 2008,

Saga Íslands, VIII. bindi, ritstjóri Sigurður Líndal, R. 2006.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Að kasta sér meðal útlendra þjóða,“ Andvari, 131. árg. 2006, 1. tbl.

Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835.“ Fjölnir, 1835.

Þórir Óskarsson, „Hið fagra, góða og sanna er eitt“, Tómas Sæmundsson og fagurfræði Fjölnis, Andvari 128. árgangur 2003, 1. tbl.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

„…margs konar sjónarsælur sálunni til hressingar.“[1]

Sr. Tómas Sæmundsson, mynd: Þjóðminjasafnið

Tómas Sæmundsson fæddist að Kúhól í Landeyjum árið 1807 og lést á Breiðabólstað 1841. Hann var sonur Sæmundar Ögmundssonar Dannebrogsmanns og Guðrúnar Jónsdóttur. Eiginkona Tómasar var Sigríður Þórðardóttir og komust upp tvö börn þeirra af fimm.

Tómas lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann var einn Fjölnismanna er hvöttu til framfara í málefnum Íslands og gáfu út tímaritið Fjölni. Hann var prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1835 og til dauðadags.

 

Breiðabólstaðakirkja í Fljótshlíð á sumardegi, 12. júlí 2023. Mynd: Kirkjublaðið.is

Menntaferð

Tómas fór í mikla ferð um Evrópu 1832-1834. Mörgum landa hans hér heima þóttu þetta „furðurfréttir“ er þeir fregnuðu af þessari ferð. Einn landa hans sagði: „…hann hefir ekki farið ferðina án þess að bera nokkuð úr býtum.“[2]

Tómas skrifaði um þessa menntaferð sína þegar hann kom heim til Íslands 1834.

Ætla má að samhliða ritun ferðabókarinnar hafi orðið til grein eða bréf sem birtistí í Fjölni 1835 undir fyrirsögninni: Úr bréfi frá Íslandi, dagsett 30. janúar það ár.[3]

Þetta var svokölluðu grand tour ferð sem hefur verið kölluð menntaferð og á uppruna sinn í Bretlandi. Ungir og velmenntaðir aðalbornir menn fóru gjarnan í miklar reisur áður en þeir tóku til starfa. Þessi tegund ferðalaga barst svo til borgarastéttarinnar.[4]

Tómas áleit svo að eftir haldgóða háskólamenntun þyrfti hann að bæta við sig „manna-, þjóða- og veraldarþekkingu, sem væri (er) svo aldeilis nauðsynleg, til að geta verkað gagnlega í svo mörgum embættisstöðum í lífinu.“[5] Hann leitar í bréfi til föður síns um styrk til þessarar ferðar: „…ég er fullvissaður um, að þér ei neitið mér um…“[6]

Tómas ferðaðist til fjölda borga í Evrópu: frá Danmörku til Prússlands, Saxlands, Bæjaralands, Bæheims, Austurríkis, Ítalíu, um Miðjarðarhaf. Til Sviss, Frakklands og Englands. Hann heimsótti borgir á þessum stöðum, þetta var borgarferð.[7] Menntareisa hans varð til þess að Bjarni Thorarensen kallaði hann Tómas hinn víðförla.[8]

Hvað er fegurð?

Það skiptir vissulega máli hvaða sýn Tómas hafði til fegurðarhugtaksins þegar hugað er að hugmyndum hans um borgarlandslag og sjónmenntir.

Fegurðarhugtakið var skilgreint í ávarpi Fjölnismanna árið 1835 en ávarpið var samið af Tómasi Sæmundssyni[9]:

„Annað, sem við aldrei ötlum að gleyma, er fegurðin. Hún er sameinuð nytseminni, – að so miklu leyti sem það sem fagurt er ætíð er til nota, andlegra eða líkamlegra, – eða þá til eblíngar nytseminni. Samt er fegurðin henni eptir eðli sínu aungvanveginn háð, heldur so ágæt, að allir menn eiga að gyrnast hana sjálfrar hennar vegna.“[10]

Óhætt er að fullyrða að fegurðarsmekkur Tómasar hafi mótast af nytjastefnu og upplýsingastefnunni sem hann var hallur undir enda þótt rómantíkina bankaði á dyrnar.[11] Það er ekki ofmælt að hann hafi staðið í gáttum upplýsingar og rómantíkur.[12]

Auk ofangreindra orða úr stefnu Fjölnis um fegurðina víkur hann sérstaklega að fegurðinni á nokkrum stöðum í Ferðabók sinni. Listin er frjáls, hún er „sjálfráður leikur ímyndunarkraftarins“, fylgir sínum eigin lögum og setur þau sjálf. Sannleikurinn er aðalsmerki listarinnar og listin gerir sér far um að skapa fegurð til að vekja tilfinningar og efla siðgæði. Listin fylgir skynseminni að málum um það sem er fallegt og hins sem „verka megi þægiliga eður óþægiliga á smekktilfinnunina.“[13] Listamenn eða „snilldarmannastéttin“ eins og hann kallar þá, fær góð ummæli sem sverja sig við hugmyndir hans um fegurð og sannleika: „hún opnar augun fyrir öllu því falliga í veröldinni…“ og hún er nær því goðumlík því að við „hennar hlið getur enginn rustaskapur og hráleikur lengi staðizt.“[14]

Svo sannarlega má taka undir eftirfarandi orð:

„Með skrifum sínum flutti Tómas algjörlega nýjar hugmyndir um list og listamenn inn í íslenska menningu, þar sem helstu viðmiðanirnar voru fagrar alþjóðlegar menntir, snilld, fegurðartilfinning og fegurðarinnar hugsjón.“[15]

Fjölnismaðurinn Tómas hafði eyru og augu opin í þessari menntaferð.

Hugsað heim

Eins og ferðalanga er háttur þá hvarflar hugur hans til fósturjarðarinnar. Strax á bls. 17 í Ferðabók sinni minnist hann á fljótin sem hann sér og segir þau vera víðast í útlöndum uppsprettu velsældar en heima á Fróni séu þau varla nema til „óþæginda.“[16] Skógar og tré bera fyrir augu hans og honum verður hugsað heim þegar hann segir að viðhorfið sé ekki eins og heima þar sem „hvör megi rífa upp eður höggva hvar sýnist eður rjóðurfella, hvar með tekizt hefir að uppræta alla skógana hjá oss.“ Skógar sem hann sér eru umgirtir og þeirra gætt.[17] Hann sér upphleypt landakort í Sviss sem kemur sér vel í allri barnakennslu og segir: „Hefi eg oft óskað að á Bessastöðum væri til þvílík afmyndan föðurlandsins…“[18] Á náttúrgripasafni í Berlín verður honum hugsað heim og þykir leitt að slíkt safn skuli ekki vera til á Íslandi „landsbúum til þekkingar á landsins merkiliga náttúrfari…“[19] Þetta eru aðeins fá dæmi úr Ferðabók hans en hún sýnir dugnað hans og iðjusemi á ferðalögunum. Hann skoðar sig um í „heiminum af miklum áhuga og saklausri ánægju.“[20]

Hvarvetna blasti við honum nýtt og nýtt borgarlandslag sem varð honum umhugsunarefni. Allt er hann sá og hreifst af sakir fegurðar eða hagkvæmni varð honum tilefni til að hugsa heim, hvort það mætti koma að einhverju gagni þar. Sjálfur segir hann svo í lok Ferðabókar sinnar og kallar það ályktun – en hann er fullur af heimþrá:

„…girntist eg ogsvo að koma í föðurlandi mínu nokkru því til vegar sem eg hafði séð í hinum siðaðri löndunum og þóktist sannfærður um að líka gæti þrifizt á Íslandi.“[21]

Og hvað sá hann fleira?

Fyrst skal aðeins drepið á umfjöllun Tómasar um skipulag borga og fegurðarsjónarmið sem fram koma í Ferðabók hans, í þeim hluta er hugsaður var sem inngangur bókarinnar. Í upphafi þess kafla er nánast lýsing á fyrirmyndarborg. Þar koma fyrir sjónir hans fjölbýlishús, sem hann kallar hólma, þau eru þverhnípt á alla vegu. Milli þeirra eru þröng sund og stræti. Á strætum geta vagnar mæst og þar er rými fyrir fótgangandi fólk. Hann hefur farið upp í turn allháan til að líta yfir borgina, en það var venja þessa tíma.[22] Þegar hann lítur þar yfir kemur honum í huga brunahraun og eldgjósandi fjöll gamla Íslands því að húsþökin voru ójöfn og svæla mikil yfir öllu frá reykháfum húsanna. Í borgunum eru torg, sölu- og markaðstorg, og þá annars konar torg „sem ætluð eru einasta til prýðis, því alls staðar er… þess gætt hjá siðuðum þjóðum að fegurð og þokki sé nytseminni samfara…hinar stærstu og fegurstu opinberar byggingar prýða því alloft slík torg.“ Að þessum torgum er öllu því safnað sem „fegurðarkeimur er að.“  Þar eru almenningssöfn sem eru liður í menntun og uppfræðingu – lista og sjónmenningar. Síðast en ekki síst almenningsgarðar sem hann kallar aldingarða þar sem fólk getur gengið um sér til hressingar og upplífgunar eins og hann segir.[23]

Svo sannarlega er þetta fögur sjón og margt sem hefur farið um huga Tómasar þegar honum varð hugsað heim eftir sjö ára fjarvist. Þetta er kannski borg hillinganna, framtíðarborg, fyrir fiskiþorpið Reykjavík, sem endurómar svo í draumsýn hans um hana sem vikið verður að hér síðar.

Sumt  fagurt og annað ekki

Eflaust hefur hann vegið og metið það sem kom fyrir augu hans út frá almennum fegurðarsjónarmiðum sem sett voru fram í Fjölni og í Ferðabókinni. Þar lýsti hann því sem fyrir augu bar á ferðinni og minnist á það sem honum þótti fagurt, nytamlegt, ljótt og óprýðilegt. Þá skal og tekið fram að hann skrifaði nokkur bréf til föður síns og lýsti staðháttum í nokkrum borgum og dæmdi um fegurð þeirra og ljótleika. Hann segir í bréfi til Frónskra í Höfn sem hann skrifar frá Dresden að hann hafi haft í Berlín næstum alltaf eitthvað til að dást að. Hann varð yfir sig hrifinn af blindrakennslu svo dæmi sé tekið. Heimsótti siðbreytingaborgina Wittenberg og segir að: „…staðurinn er ógnarlega ljótur og fyrir sunnan hann mold og mýrar.“ En brúin yfir Elfuna var falleg.[24] Leipzig fellur honum ekki í geð: „Þessi háu hús í kringum bognar götur eru eins og bylgjur á sjó að utan.“[25]  Segir borgina þó vera merkilega og líflega.[26] Saxland er fallegt, segir hann, og borgarlandslagið Dresden: „…líkist með Hreppunum, svo sem hjá Hruna og upp með Hvítá…“[27] En Dresden er nafnfrægur staður fyrir fegurð sína[28] og München er falleg borg.[29]

Þessir palladómar um borgir og staði eru ekki með miklar útskýringar. Kannski tilfinning sem hann hefur fengið fyrir stöðunum. Þó dregur hann fram meðal annars óhreinleika sem lýti og þröngar og bugðóttar götur. Ljóst er að hann vill að götur liggi samsíða og hornrétt hver á aðra og hús séu rétthyrnd.[30] Menn helluleggja fyrir framan hús sín og þau „standa í svo lagligri röð hvört við annars hlið.“[31] Annað en húsin heima, sem vikið verður að ögn síðar. Honum hugnast ekki borgarlandslagið í Napólí þar sem torg og stræti eru „óreglulig(t) niðri í borginni; er maður víðast innibyrgður og sér lítið frá sér, og gætir fegurðarinnar litið… .“[32] Allt er þetta hluti af borgarlandslagi sem hann lýsir og bæta má við orðum sem hann lætur falla um Napólí: „…2 beinar húsaraðir se mjög hefur verið til vandað. Þá tekur brekkan við alskrýdd aldingörðum og lystihúsum…“[33]

En hann er einnig yfir sig hrifinn af borgum eins og Berlín, Róm og Napólí.

Berlín er einn fegursti staður Norðurálfunnar að mati hans. Þar ber fyrir sjónir hallir, borgarhlið, dýragarð, fögur torg og vegleg hús. Bókhlaða, „sjónleikarahús“, háskóli sem og „snilldarmannaskólinn“ (listaskóli) – þá  verslanir með málverk og „snilldarverkum“. Og myndastyttur.[34]  Allt sem gleður augað, leikhús og „söngsnilld“[35]. Tómas fór oft í forngripasafnið í Berlín en þar var líka málverkasafn og segir frá því hvaða áhrif listin hafði á sig en hún gat: „…uppfyllt geð manns með blíðum og ánægjufullum tilfinning, hvað þau hjálpa til að þekkja veröldina og innbúa hennar athafnir og siðu… .“ Taldi þó „snilldarverkabúr“ þeirra á Ítalíu veglegra en það þýska. Í þessu sambandi getur hann innan sviga að Forngripasafnið heima hafi verið sent til Danmerkur, „allt sent“ og má kenna ósættis í því.[36] En hvað sem þessu líður þá var sjónmenntaáhugi hans vakinn hressilega. Í Dresden fer hann á málverkasafn og sér þar verkið Nótt eftir Corceggio – segir aðrar borgir öfundi Dresden af góðu safni.[37] Og um Napólí segir hann að þar sé sífellt vor – „…ein jurtin lifnar eður blómgast þegar önnur fölnar…“[38]

„…græn þúfa og sönn bæjar-prýði…“

Hann leggur upp til Íslands með allar hinar fögru myndir í höfðinu af yndælum stöðum sem hann hefur sótt heim í grand-tour ferð sinn.

Kannski getur það gefið einhverja hugmynd um menningarlegan mun milli stórra borga og smárra bæja að svo miklu leyti sem hann mótast af íbúafjölda, ef hafður er í huga íbúafjöldi Reykjavíkur á þeim tíma er Tómas kemur til bæjarins eftir för sína. Svo dæmi sé tekið þá nefnir Tómas íbúafjölda í Napólí og segir að þar séu um 350.000 manns.[39] Og í Berlín eru um 250.000 íbúar.[40] Í Reykjavík bjuggu árið 1835 alls 639 manns.[41] Með þessu er þó ekki sagt að menning sé merkilegri í stórborgum en litlum stöðum. En fullyrða má að líklega sé menningin fjölbreytilegri í hinum stærri stöðum og tækifæri til menningarlegrar iðkunar víðtækari en í hinum smærri. Fleiri íbúar gera staði alla jafna fjárhagslega öflugri sé atvinnulíf traust og því viðbúið að þeir geti stutt betur við listir en hinir fámennari og fátækari þó ekkert sé einhlítt í þessu efni.

Borg eða bær getur verið spegill menningarinnar, skipulag og útlit segir sögu og afhjúpar sálar- og menningarástand íbúanna. „Góð byggingarlist getur búið yfir fallegum og göfgandi boðskap en byggingarlistin knýr engan til hlýðni. Hún getur hvatt og örvað til fallegs mannlífs…“, segir í bókinni Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis.[42] Óhætt er að fullyrða að Tómas Sæmundsson hafi tekið undir það heilum huga.

Þegar hann nálgaðist Reykjavík á skipsfjöl sá hann „inn af öllum Borgarfyrði, Akrafjall og Esjuna, og voru fjöllin so fögur tilsýndum, sem mér valla hafa þau fyrri sýnst, heiðblá, með sólskins-blettum til og frá; niður frá sjó og upp til miðs blöstu við grænar hlíðar, hið efra stöku snjódeplar, sem jók enn meir afbreitinguna. Öllum virtist þeim landið álitlegt, og þótt mér vel er so var.“[43] Landið tók því vel á móti ferðalangnum og hann fullur stolts yfir því að útlendir samferðamenn hans á skipinu kunni að meta fegurð þess. Tómas er afar ánægður með  stiptamtmannin Krieger[44] sem hafi látið gera veg upp að Skólavörðunni, umhlaðið hana, sett þar borð og bekki. „Er nú þángað orðin allfögur skemtigánga þegar gott er veður, því víðsýni er mikið yfir öll nes, út til sjáfar og upp til fjalls.“[45]

Tómas segir að mikið hafi verið rætt um uppgang í Reykjavík og þar hafi húsum vissulega fjölgað. Húsin væru „ásjáleg“ eftir því sem þau gætu verið en það skorti upp á fegurð bæjarins og góðan bæjarbrag.[46]

Reykjavík 1835 – Lækjargata – mynd úr leiðangri Pauls Gaimard til Íslands 1835-1836

Fyrst mætti huga að grundvellinum. Tómasi er ljóst að bæjarbúar, Reykvíkingar, þurfi að komast  „betur í álnir enn orðið er.“ Segir hann staðina vera enn „í bernsku sinni.“ Sem framfaramaður, og Fjölnismaður, er honum morgunljóst samhengi milli atvinnu og hagsældar. Kaupmenn og bændur eru „undirstaða lanzins velmeigunar; því fje þeirra er kyrt í landinu, eykst þar og eyðist…“[47]  Traustur efnahagur eflir framfarir og gerir kleift að fegra umhverfið og prýða.

Hann veltir hann fyrir sér skipulagi Reykjavíkur. Segir að hún gæti verið „dá-snoturt kaupstaðarkorn: á fleti milla sjáfar og stöðuvatns með grænum holtum beggjamegin.“ Því er nú aldeilis ekki að heilsa. „Kotaþyrpingin“ sem umvefur bæinn býður af sér „sér staklegan óþokka.“[48] En þar á móti kann að koma ánægja hans með að Arnarhóll hafi verið tekinn niður: „…þar er nú græn þúfa og sönn bæjar-prýði“.[49]

Það stingur í skipulagsauga hans að kotum fjölgar í holtunum að sama skapi sem húsum á láglendinu. Þurrabúðafólkið á að hans hyggju að reisa sín kot við sjóinn, þar gæti verið „fiskimanna-þorp“ og yrði af því minni óprýði. Sneiðir hann að iðjuleysi manna sem ráfa um götur og sníkja brennivín inni í búðum og væri þeim nær að aka steinum að ströndinni til að reisa bæi.[50] Hann segir þær sveitir sem fjærst séu kaupstöðum standi vel, þar sé samheldni og sparsemi. Í kaupstöðum beri mikið á „svalli, skuldum, og ónytjúngsskapnum sem hefir tekið sér bústað í kringum kaupstaðina.“[51] Allt þetta setur ljótan blett á mannlífið og kaupstaðina.

Tómasi fannst því „fegurðarinnar kröfum í bænum sjálfum“ ekki fullnægt. Nýjum húsum er skipað niður handahófskennt, eða eins og hann segir „öldúngis í blindni“, og ekki hugsað um skipulag framtíðarinnar með tilliti til fegurðar og hagvæmni.[52]

Draumur um Reykjavík

En Tómas elur með sér draum um Reykjavík þar sem háleit fegurðarsjónarmið ráða miklu.

Hann sér fyrir sér Löngustétt (nú Austurstræti) sem beina götu og gerist svo djarfur að nefna hina fjölförnu götu í London, Strand, til samanburðar. En Langastétt er bugðótt og hús sköguðu út í götuna. Auk þess var Langastétt að mati hans of mjó eftir því sem vestar dró. Með fram Löngustétt sér hann „tvær aðrar jafnsíðis henni eptir endilaungum Austurvelli“ og kæmu svo aðrar götur þvert á þær frá sjó og upp undir Tjörnina. Skammt frá sjónum væri kauptorg fyrir miðri strönd og svo annað torg „fallegra“ með fram norðurvegg Dómkirkjunnar. Þar væri og háskóli, menntastofnanir og ráðhús. Á miðju torginu „heiðursvarða þess manns, er slíku hefði til leiðar komið.“ Suður með Tjörninni væru „skemtigaung“ og þá kirkjugarður á Hólavöllum (sem reyndar kom 1838).[53] Óhætt er að fullyrða að upptök þessa draums megi leita til þeirra borga og bæja sem Tómas fór um og segir frá í Ferðabók sinni.

Það leið nokkur tími þar til að borgarbragur komst á Reykjavík. Tómasi auðnaðist ekki að sjá bæinn breytast í borg. Segja má að hugmyndir hans hafi verið háleitar og metnaðarfullar, jafnvel komist nálægt merkilegri tillögu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, um „háborg íslenskrar menningar“ á Skólavörðuhæð sem kynnt var árið 1924.[54] Sú tillaga hefði eflaust fallið Tómasi vel í geð. Hún komst ekki í framkvæmd.

Fyrsti íslenski nútímamaðurinn?

Tómas var framsýnn maður og hugmyndir hans um „sameiningu nytsemdar, fegurðar og upplýsingar lágu til grundvallar stofnun bæði Forngripasafns Ísland og Listasafns Íslands (1884.)“[55] Já, framfaramaður eins og Benedikt Gröndal orðaði það í æviminningum sínum, Dægradvöl. Hann minnist þess er Tómas kom á Bessastaði og ræddi við föður hans um „framfarir“ og bætir því við að þá hafi allir framfaramenn verið „skoðaðir hér sem hálfvitlausir eða jafnvel sem eins konar upphlaupsmenn.“[56]

Tómas hafði séð fyrir sér styttur[57] í Reykjavík eins og hann sá í grand-tour ferð sinni. Hann lést ungur að árum, 34, ára, árið 1841. Hann var mörgum harmdauði og hinar frægu ljóðlínur vinar hans Jónasar Hallgrímssonar: Dáinn, horfinn, harmafregn, eru úr erfiljóð um hann.  En árið 1855 var komið upp minnisvarða um hann í kirkjugarðinum á Breiðabólstað í Fljótshlíð.[58] Það fer vel á því.

Eftirmæli Tómasar Sæmundssonar í sögunni eru góð eins og þessi: „Tómas Sæmundsson og félagar hans í kringum tímaritið Fjölni opnuðu Ísland fyrir nútímanum.“[59]

Lokaorðin á fyrrum menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, sem á sumarhús skammt fyrir austan Breiðabólstað í Fljótshlíð þar sem séra Tómas þjónaði sem prestur í tæp sex ár: „Þeim mun meira sem ég fræðist um sr. Tómas Sæmundsson kemur í hugann hvort hann hafi verið fyrsti íslenski nútímamaðurinn.“[60]

Jarðarför á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1836 – presturinn á miðri mynd mun vera sr. Tómas Sæmundsson – lituð mynd, gerð eftir frummynd Augustes Meyers – úr bók Pauls Gaimards um ferðina til Íslands

Tilvísanir

[1] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 35.

[2] Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, Jón Helgason, R. 1941, bls. 99.

[3] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835.

[4] Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 52-53.

[5] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.98. (XVII. Til Sæmundar Ögmundssonar 23 apríl 1832).

[6] Sama bls. 100.

[7] Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 53

[8] Bjarni Thorarensen, Bréf II., Jón Helgason bjó til prentunar. Safn Fræðafélagsins, XII. bindi, Kaupmannahöfn, 1943, 2. útg. 1986, bls. 143.

[9] Heimir Pálsson, Frá lærdómsöld til raunsæis – íslenskar bókmenntir 1550-1900, R. (1999), 2005, bls. 121-122.

[10] Fjölnir (ávarp), Fjölnir, 1. árg., 2. janúar 1835. Bls. 10-11.

[11] Hjalti Hugason segir að Tómas hafi staðið á mótum tveggja tíma, upplýsingarinnar og þeirra hreyfinga sem komu í kjölfar hennar, sjá: Ritröð Guðfræðistofnunar, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ R. 2008, bls. 77, 96-97.

[12] Saga Íslands, VIII. bindi, ritstjóri Sigurður Líndal, R. 2006 bls. 299-301

[13] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 113, 333.

[14] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 331.

[15] Þórir Óskarsson, „Hið fagra, góða og sanna er eitt“, Tómas Sæmundsson og fagurfræði Fjölnis, Andvari 128. árgangur 2003, 1. tbl., bls. 98. Hér má og skjóta inn að listfræðingurinn Ólafur Gíslason telur að Tómas hafi verið undir áhrifum fagurfræði þýska listfræðingsins Jóhanns J. Winckelmanns hvað snertir meðal annars útlit fólks, sjá: Ólafur Gíslason, Skírnir, haust 2012, R. 2012, bls. 367-368.

[16] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 17.

[17] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 24.

[18] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 45.

[19] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 52.

[20] Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Að kasta sér meðal útlendra þjóða,“ Andvari, 131. árg. 2006, 1. tbl., bls. 148.

[21] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 288.

[22] Marion Lerner, „Varla er  til ófrýniligri sjón…“, borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018, bls. 56.

[23] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 290-293.

[24] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 105. Um blindrakennslu einnig Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 148.

[25] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.106.

[26] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 115.

[27] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 109.

[28] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls.116.

[29] Bréf Tómasar Sæmundssonar, gefin út á hundrað ára afmæli hans 7 júní 1907, Jón Helgason, R. 1907, bls. 117.

[30] Marion Lerner, „Varla er  til ófrýniligri sjón…“, borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, R. bls. 58.

[31] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 41.

[32] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 280.

[33] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 277.

[34] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 37-40.

[35] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 68-69.

[36] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 61.

[37] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 216-217.

[38] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947, bls. 276.

[39] Ferðabók Tómasar Sæmundssonar, – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947bls. 275.

[40] Jón Helgason, Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og æfistarf, R. 1941, bls. 70

[41] Hagskinna, sögulegar hagtölur á Íslandi, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, R. 1997, bls. 66 (og þess má geta að fimm árum síðar, eða 1840 var íbúatala bæjarins komin upp í 890).

[42] Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis, R. 2008, bls. 32.

[43] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 62.

[44] Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, Jón Helgason, R. 1941, bls. 106.

[45] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 64.

[46] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls.67-68.

[47] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 71.

[48] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[49] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[50] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[51] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 77.

[52] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 68.

[53] Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835,,“ Fjölnir, 1835. Bls. 69-70.

[54] Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson, húsameistari, R. 2020, bls. 137.

[55] Aðalsteinn Ingólfsson í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

[56] Benedikt Gröndal, Dægradvöl, R. 1965, bls. 35.

[57] „Hugmyndin um minnisvarða berst hingað með Tómasi Sæmundssyni.“ Aðalsteinn Ingólfsson í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

[58] Sjá nánar um minnisvarðann og sitthvað honum tengt: Halldór J. Jónsson, „Myndir af Tómasi Sæmundssyni,“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags, R. 1998, bls. 35-45.

[59] Ólafur Gíslason, „Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin“ – Grand Tour Tómasar Sæmundssonar, Skírnir, haust 2012, R. 2012, bls. 374.

[60] Dagbók Björns Bjarnasonar, laugardaginn 1. júlí 2017: https://www.bjorn.is/dagbok/um-sr-tomas-saemundsson-fjolnismann-a-breidabolstad
Sótt 15. júlí 2023, kl. 8.54.

Heimildir

Aðalsteinn Ingólfsson, fyrirlestur í Háskóla Íslands, 28. september 2022.

Benedikt Gröndal, Dægradvöl, R. 1965.

Bjarni Thorarensen, Bréf I-II. Jón Helgason bjó til prentunar. Safn Fræðafélagsins, XII. bindi, Kaupmannahöfn, 1943-1986.

Bréf Tómasar Sæmundssonar. Gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní 1907. Jón Helgason bjó til prentunar. Reykjavík 1907.

Dagbók Björns Bjarnasonar, laugardaginn 1. júlí 2017: https://www.bjorn.is/dagbok/um-sr-tomas-saemundsson-fjolnismann-a-breidabolstad – Sótt 15. júlí 2023, kl. 8.54.

Ferðabók Tómasar Sæmundssonar – Jakob Benediktsson bjó undir prentun, R. 1947.

Fjölnir (ávarp), Fjölnir, 1. árg., 2. janúar 1835. Ársrit handa Íslendíngum. Fyrsta ár. Kaupamannahöfn, 1835.

Halldór J. Jónsson, Myndir af Tómasi Sæmundssyni, Árbók hins íslenzka fornleifafélags, R. 1998.

Hagskinna, sögulegar hagtölur á Íslandi, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, R. 1997.

Heimir Pálsson, Frá lærdómsöld til raunsæis – íslenskar bókmenntir 1550-1900, R. (1999), 2005.

Hjalti Hugason, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ Ritröð Guðfræðistofnunar, R. 2008

Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur – Genius Reykiavicensis. 2008.

Jón Helgason, Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og ævistarf, R. 1941.

Marion Lerner: „Varla er til ófrýniligri sjón…“ – Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar, Ritið 2/2018.

Ólafur Gíslason, „Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin“ – Grand Tour Tómasar Sæmundssonar, Skírnir, haust 2012, R. 2012.

Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson, húsameistari, R. 2020.

Hjalti Hugason, Ritröð Guðfræðistofnunar, „Guðfræði Tómasar Sæmundssonar, Tilraun til greiningar með sérstöku tilliti til aðfararæðu hans,“ R. 2008,

Saga Íslands, VIII. bindi, ritstjóri Sigurður Líndal, R. 2006.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Að kasta sér meðal útlendra þjóða,“ Andvari, 131. árg. 2006, 1. tbl.

Tómas Sæmundsson, „Úr bréfi frá Íslandi dagsettu 30ta jan. 1835.“ Fjölnir, 1835.

Þórir Óskarsson, „Hið fagra, góða og sanna er eitt“, Tómas Sæmundsson og fagurfræði Fjölnis, Andvari 128. árgangur 2003, 1. tbl.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir