Listfræðingurinn og presturinn sr. Friðrik J. Hjartar heldur hér áfam umfjöllun sinni um steindu gluggana í Bessastaðakirkju. Fyrri hluti umfjöllunar hans birtist í gær. Nú skoðar hann hvern glugga fyrir sig í kirkjuskipinu og í forkirkjunni og dregur svo saman í lokin helstu niðurstöður úr rannsókn sinni.

 

Lítum nú nánar til sjálfra glugganna sem verkstæði William Morris & Co framleiddi undir styrkri stjórn Frederics Cole á verkstæði William Morris í Englandi. Í hverri mynd má finna margvísleg tákn hlaðin guðfræðilegri eða kirkjulegri merkingu og mun ég fara fáeinum orðum þar um, enda dýpka þau skilning á myndefninu. Mörg þeirra koma fyrir í fleiri en einni af myndunum og mun ég því ekki endurtaka það við hverja mynd. Í lýsingu þessari er oft stuðst við bók Karls Sigurbjörnssonar, Táknmál trúarinnar. Ég feta mig inn kirkjuskipið og fjalla fyrst um gluggana á norðurveggnum.

Koma Papa

Næst dyrum er mynd Finns Jónssonar af komu Papanna, írskra einsetumunka, sem talið er að hafi komið hingað áður en landið byggðist. Þeir skarta allir geislabaug, enda helgir menn í hugum margra, en upphaflega var geislabaugurinn gylltur bakgrunnur helgimyndanna og stendur í því sambandi við sólina og ljósið sem eru tákn hins góða. Inn í geislabaugana er felldur keltneski krossinn. Sá af mönnunum sem stendur heldur á n.k. prósessíukrossi sem bægja á frá þeim öllu illu. Krossinn er umluktur sólinni og geislar heilags anda standa út af örmunum til vitnisburðar um mátt hans. Hinir mennirnir tveir bera með sér bænarandann í luktum lófum bænastellingar og Guðs orð og umboð í opinni Biblíu.

Skipið er tákn kirkjunnar, sbr. kirkjuskip, en þar er vísað til arkarinnar hans Nóa sem bjargaði lífinu og hinum trúuðu frá flóðinu. Mastur skipsins er tákn krossins, en seglið er trúin á fagnaðarerindið. Hreyfiaflið er heilagur andi sem blæs í seglið. Farmurinn vekur athygli: Geitur, „en þær eru í fornum bókum oftlega nefndar munkafé.“[49] Kistan á þilfarinu gefur hugarfluginu lausan tauminn um innihaldið en minnir full mikið á trilluöldina.

Fiskurinn sem markar neðsta hluta myndarinnar er eitt af elstu táknum kristninnar. Í fyrstu var hann felutákn, en fiskur er ritað með grísku stöfunum „ichþys“ sem standa þá fyrir orðin „Jesús Kristur Guðs sonur, frelsari“. Hér virðast vera á ferðinni höfrungar sem eru bjargvættir í sjávarháska og eru tákn eilífa lífsins. Hér fer það vel við merkingu hins bláa litar fiskanna og sjávarins, en blátt er litur himins og hafs, litur trúarinnar, sannleikans og hins guðdómlega.

Ysti rammi þessarar myndar er sérstakur fyrir það að mávar í ýmsum stellingum fylla hann, en ekki gróður eða kirkjugripir. Þeir gætu vísað til matarkistunnar Íslands og hinna gjöfulu miða sem umlykja landið.

Í bakgrunni og fyrir stafni má sjá eldspúandi fjall, sem er viðeigandi vísun í eldfjallaeyjuna Ísland. Ljósblái liturinn handan skipsins gæti gefið í skin að ísspangir hangi við land milli skips og fjöru. Tæplega er hægt að sjá meira líf í nokkurri af hinum myndanna.

Guðbrandur Þorláksson

Næsta mynd að norðan er eftir Guðmund Einarsson og sýnir kirkjuhöfðingjann Guðbrand Þorláksson (1541-1627) biskup á Hólum með sitt stóra framlag til íslenskrar kristni, Guðbrandsbiblíu, sem út kom 1584, undir vinstra handlegg. Hann var umsvifamikill á Hólum og hélt úti prentverki sem íslendingar geta verið þakklátir fyrir æ síðan. Hann var atorku og hagleiksmaður og mun hafa skorið sjálfur marga af upphafsstöfunum í biblíuútgáfu sinni. Guðbrandur birtist í föðurlegri stellingu með biskupskross um hálsinn og ífærður kjól og kápu, loðbryddaðri. Að baki höfuðs hans er hringlaga krans, tákn sigurs og eilífðar, fylltur að mestu með laufsveig en rauður hringur innst. Rautt er einnig áberandi á ramma myndarinnar og á bókinni, en rautt er litur andans, en einnig elds, blóðs og kærleika. Guðbrandur var andans maður, en rauð Biblían færir okkur sannleikann um andann. Í skreyti myndarinnar eru þrjár raðir kornaxa áberandi á hvora hönd. Kornaxið táknar upprisuna eins og segir í Jóh. 12:26, „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.“ Það er Guð sem gefur vöxtinn, en græni liturinn sem er nokkuð ríkulegur í myndinni táknar vonina og jafnframt vöxt og þroska. Málfar Biblíunnar hefur haft ríkuleg áhrif á íslenskt mál og þannig borið mikinn ávöxt. Herra Guðbrandur er með daufan svip og nokkur kyrrstaða í myndinni.

Allar myndir Guðmundar eiga það sammerkt að á ysta kanti þeirra gefur að líta sveig saman settan af margskonar laufgreinum eða gróðri, en í sveigum þessum má sjá vinnubrögð sem benda til áhrifa framleiðandans.

 Hallgrímur Pétursson

Við hliðina á myndinni af Guðbrandi er önnur mynd eftir Guðmund Einarsson, mynd Hallgríms Péturssonar (1614-1674), sem einnig tengist Hólastað. Hann er ífærður messuskrúða í stöðu blessunarinnar með uppréttar hendur skrýddur hvítu rykkilíni, pípukraga og fjólubláum hökli skreyttum hvítum liljum. Andlitið er þekkt frá öðrum myndum af skáldinu, en skótauið virðist full nútímalegt. Fjólublár litur hökulsins táknar iðrun og yfirbót, en fjólublái liturinn er blanda af rauðu, lit kærleikans, bláu, sem er tákn trúmennsku og sannleika og  svörtu, sem er litur sorgar.

Liljurnar gætu minnt á blómin í tengslum við sálm Hallgríms sem allir þekkja, „Allt eins og blómstrið eina“. Annars er liljan einkennistákn Maríu Guðsmóður, tákn hreinleika og sakleysis. Liljur fylla einnig þann stóra baug sem er að baki höfuðs Hallgríms. Þar er gulur litur ráðandi, en gult vísar til sannleikans og himinsins.

Konan sem situr Hallgrími á vinstri hönd táknar væntanlega Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups uppábúna, en henni færði hann fyrsta eintak Passíusálmanna. Drengurinn á hægri hönd situr við lestur sömu bókar og er fulltrúi þjóðarinnar, en uppaf þeim báðum vottar fyrir fjölda fólks, kynslóðunum sem tóku Passíusálmana í arf. Laufsveigur rammar inn myndina. Hér er meiri sannfæring í myndefninu heldur en í myndinni af Guðbrandi. Þó er erfitt að líta á liljurnar nema sem skraut.

Fjallræðan

Í kórnum að norðanverður er mynd Guðmundar Einarssonar af Fjallræðunni, önnur þeirra mynda sem beðið var eftir og sker sig lítið eitt úr myndum Guðmundar fyrir mýkt sína sem kemur vel fram í stöðu frelsarans. Sjá má að hann er í sannfærandi tengslum við fólkið í kring, sem er fulltrúar mannfjöldans sem guðsspjallssagan í Matt. 5:1 greinir frá. Hendurnar eru að tjá frásögnina. Höfuðið er krýnt geislabaug með innfeldum krossi.

Hvítur kyrtillinn táknar hið himneska ljós og minnir á dýrð Krists og eilífðarinnar. Skikkja hans er rauð og gyllt, en rauði liturinn er þarna tákn kærleikans og eldsins sem kyndir undir trúnni en gyllti liturinn stendur fyrir himininn og eilífðina. Allt er þetta knýtt saman með blárri spennu trúfestinnar og hins guðdómlega. Fjöll koma víða við sögu í Biblíunni og styrkja frásagnir hennar með ýmsu móti; fjallræðan, Sínaífjall, Ararat og ummyndunin á fjallinu eru fáein dæmi. Tákngildi háfjalla sem gnæfa yfir allt og tengja saman himin og jörð eru ámóta að merkingu og vísa til nærveru

hins guðlega.[50] Hér er þetta mjög skírt í bakgrunninum þar sem fjöllin teygja sig í og yfir skýin. Efst gefur svo að líta dúfuna sem snýr niður á við og táknar því Heilagan anda, eins og líka gult geislaflóðið út frá dúfunni.

Á jaðri myndarinnar fléttast vínviðargreinar rótfestar í hinu helga landi og minna á lífsins tré. Þrúgurnar minna á ávextina sem trúin gefur ríkulega, en laufin eru fallega stílfærð og minna á töluna fjóra sem merkt getur heiminn eða sköpunarverkið.

Neðst fyrir miðri mynd má sjá vörumerki framleiðanda glugganna. Þar er ritað: WILLIAM.MORRIS.ENGLAND.1956.

Kristnitakan á Þingvöllum árið 1000

Við hefjum aftur för í vestri, en nú á suðurvegg kirkjunnar. Þar er brugðið upp mynd Finns Jónssonar af kristnitökunni á Alþingi árið 1000. Sýnir hún Þorgeir ljósvetningagoða sem kvað upp þann úrskurð að íslendingar skyldu vera kristnir. Hann er skrautlega búinn skikkju, kufli og með skóþvengi, tiginmannlegur og lyftir hendi eins og til áherslu máli sínu. Hann hefur skjöld á baki sér og sverð hans er slíðrað og snýr niður eins og vera bar í lögréttunni. Kólguskýin í bakgrunni minna á ótryggt ástandið, en á hvora hönd eru fylkingar manna sem ýmist halda á lofti krossum eða vopnum sínum, en úrskurður Þorgeirs fól í sér sáttargjörð, því án hennar var stefnt í voða friðinum í landinu. Sverð, skildir og hjálmar eru ríkulegir á myndinni og þótt sverðið minni oft á krossinn fer best á að vitna til orða Páls postula í Ef. 6:10-20 í Biblíunni til að ná utanum merkingu verkfæra og aðstæðna: Sverð andans, hjálmur hjálpræðisins, skjöldur trúarinnar koma þar til tals ásamt fleiru sem erfitt er að festa á mynd.

Gjárnar minna á Þingvelli eins og Skjaldbreiður til vinstri og eldfjöll til hægri. Andstæðurnar eru ríkulegar í öllu efninu og hvergi skortir á litadýrðina frekar en í hinum myndunum. Í hornum myndarinnar neðst og upp við bogann má sjá mann, uxa, örn og ljón sem tákna guðspjallamennina, en líkindi eru með þessum táknum og verunum í skjaldarmerki Íslands. Hafið sem sjá má undir myndinni undirstrikar enn frekar hversu langt var á milli sjónarmiðanna.

Jón Arason

Síðasta mynd Guðmundar Einarssonar er af Jóni biskupi Arasyni (1484-1550), síðasta kaþólska biskupsins á Ísland. Hann birtist okkur í fullum skrúða með bagal í vinstri hönd, mítur á höfði og með myndskreytta oblátu upplyfta í hægri hendi. Andlitið er vel gert, en eins og það horfi út úr myndinni. Rauð biskupskápa með gylltum bryddingum yst klæða, rykkilín og hvít stóla fagurskreytt. Kórdrengir standa sinn á hvora hönd með reykelsisker, en reykelsið er tákn bænanna sem stíga til himins. Þeir eru klæddir grænum kuflum, en græni liturinn táknar vöxt og þroska, en er jafnframt litur vonarinnar. Biskupsbúnaðurinn og reykelsiskerin minna á kaþólsku kirkjuna. Á ystu brún myndarinnar er fínlegur sveigur, en síðan gróskumikið og vel rótfest lauftré sem vefur sig um og yfir persónurnar, en vel hefur tekist að tjá aldursmun kórdrengjanna og Jóns biskups. Litir og skreyti fremur fallegt og bjartur blær yfir myndinni. Skótauið sem fyrr af nýrri gerðinni.

Jón Vídalín

Næst kórnum að sunnan kemur mynd Finns Jónssonar af Jóni biskupi Vídalín (1666-1720). Sr. Jón Vídalín þjónaði Bessastaðakirkju um tíma frá Görðum áður en hann hlaut biskupsdóm og má því kallast tengdur staðnum. Honum er stillt upp fullskrýddum framan við altari með Postillu sína opna í höndum. Hún er miðlæg í myndinni. Boðskapurinn streymir af blöðum hennar og kveikir strax tengsl í hugum íslendinga við hinn orðsnjalla biskup, enda lesin á flestum heimilum um aldir. Andlitið er vel heppnað og horfir beint á þann sem skoðar myndina. Hökull Jóns er rauður með ísaumuðum grænbláum rómönskum krossi, sigurkrossi.

Það er altarið sjálft sem er tákn Krists í kirkjunni. Jafnframt getur það hvort tveggja í senn táknað jötuna sem frelsarinn var lagður í og gröfina. Altarisdúkurinn er tákn reifanna sem Jesúbarnið var reifað og eins líndúkanna sem hann var sveipaður að honum látnum. Upp af höfði Jóns er sérkennilegur oddbogi með mynd af Maríu með barnið, en rauður og gylltur bogi að baki biskupinum. Rauði liturinn getur þarna táknað eld andans sem inni fyrir bjó, en rauði liturinn setur mikinn svip á myndina. Symmetrisk ljós lifa á altarinu. Þau boða okkur að Drottinn lifir og er mitt á meðal okkar. Þau geta annars vegar táknað lögmál og fagnaðarerindi og hins vegar að Jesús er sannur Guð og sannur maður. Fyrir mörgum eru þau líka tákn Gamla- og Nýja-testamentisins. Kertunum er ætlað að brenna niður. Þess vegna er litið á þau sem fórn. Þrír þríarma stjakar á bláum grunni skreyta kantbogann, en hver þeirra getur táknað trú, von og kærleika. Gólfið sem er lagt grænum og rauðum ferningslaga flísum vekur einnig athygli.

María Guðsmóðir

Kórmyndin að sunnanverðu af Maríu með barnið er verk Finns Jónssonar. Hún er skrautlega búin með ábyrgðarfullan svip og heldur barninu þétt að sér. Stór geislabaugur með innfelldum bláum krossi er að baki höfuðs hennar. Barnið er með hvítan baug með rauðum krossi. Tveir englar standa henni á hægri hönd og þrír á vinstri. Engill þýðir sendiboði og vængirnir tákna hversu hratt þeir geta farið yfir, ýmist til að bera boð eða hlýða þeim. Englar báru mönnum boðin á Betlehemsvöllum að frelsarinn væri fæddur. Það er fyrst á fjórðu öld sem vængirnir birtast í myndlistinni, en á 15. öld verða englarnir kvenlegir ásýndum. Hér tákna þeir hina himnesku tengingu, herskara himnanna sem gleðjast yfir fæðingu frelsarans og útbreiða fagnaðarerindið.

Það fer vel á að kantskreytingin skuli vera möndlulaga, en þar er komið tákn Maríu meyjar. Græn laufin merkja vöxt og þroska, en skipin sem speglast á haffletinum í grunni myndarinnar tákna kirkjuna sem breiðir út og stendur vörð um boðskapinn. Öll eru andlitin falleg og fínlega unnin. Þetta er eina mynd Finns Jónssonar sem sett er laufskrúði sem kantskreytingu.

Samantekt

Fljótt á litið virðast flestar myndanna í sama lit, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést hversu vel hefur tekist að blanda litunum þannig að engar tvær séu sláandi líkar eins og virst getur við fyrstu sýn. Það skiptir líka miklu máli að ríkjandi litir í myndunum eru hinir litúrgísku litir, rauður, grænn, fjólublár, gylltur, hvítur og svartur.

Listamennirnir höfðu með sér náið samstarf við gerð myndanna sem kemur m.a. fram í því hversu kantskreytin eru fjölbreytileg í lit og formi. Trúlegt er að verksmiðjan sjálf hafi hannað skreytið og flétturnar sem fylla upp í heildarrýmið með hliðsjón og reynslu af þeirri nytjastefnu (Art and Crafts) sem átti sér góðan jarðveg á Englandi á þessum tíma. Allir hafa gluggarnir verið hannaðir um svipað leyti. Meðan ekki er hægt að bera myndirnar saman við frumgerðirnar er erfitt að sjá hve framleiðandinn hefur lagt mikið til myndanna af reynslu sinni, en athyglisvert er að sjá þá athugasemd sem dr. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, ritaði í minnisblað, en hann hafði með að gera mál er varðaði útgáfurétt listamannanna á myndunum. Hann ritaði eftirfarndi í minnisblað 21.11.77: „Þó aldrei nema mér sýnist að verkstæði Cole‘s eigi eins mikið í listaverkunum og þeir.“[51]

Gjafagluggar Coles og íhaldssöm kirkjulist

Frederic Cole lét sér mál kirkjunnar varða og gaf til hennar tvo litla „mosaikglugga“, eins og þeir eru nefndir í vísitasíugjörð, en þeir eru staðsettir í forkirkjunni. Fyrri glugginn sem er yfir útidyrum sýnir heilagan Nikulás, verndardýrlinginn sem kirkjan var helguð í kaþólskri tíð en sá síðari er yfir millihurðinni og sýnir Krist sem herra himins og jarðar.[52]

Gjafagluggarnir tveir gefa til kynna hversu fínlegar og smáar myndskreytingarnar geta verið, en ljósum hefur verið komið fyrir bak við bæði verkin sem eru töluvert minni en umræddir kirkjugluggar.

Hinir steindu gluggar Bessastaðakirkju eru væntanlega með fyrstu glermyndum sem settar eru í opinberar byggingar hérlendis.

Herra Ásgeir forseti virðist hafa verið mjög áhugasamur um frekari glerviðskipti. Samkvæmt bréfi sem hann skrifar dómprófasti og sóknarnefndarfólki í dómkirkjunni í Reykjavík þann 6. mars 1965 býður hann fram fund við Mr. Cole sem væntanlegur var hingað um páska það ár vegna glugga í bókhlöðuna á Bessastöðum. Skýrir hann jafnframt frá því að þeir hafi rætt málið og var Cole búinn að senda tillögur sem Ásgeir hafði metið eftir sínum smekk og sendi með í bréfinu.[53] Sjá má mynd af tillöguglugga Coles í bókinni Dómkirkjan í Reykjavík. Þar sést gegndreypt gler í kringum aðalmyndefnið.[54]

Í bréfaskiptum þeirra Guðmundar Einarssonar og Frederic Cole má sjá gagnkvæmar tilraunir til aukinna viðskipta. Guðmundur getur þess að í vændum séu kirkjubyggingar sem þurft geti gler, en F. Cole býðst til að hanna prédikunarstól fyrir Bessastaðakirkju. Í öllu falli er ekki hægt að sjá annað en að öll viðskiptin við verkstæði William Morris hafi staðist með miklum ágætum og fagleg samskipti eins og flutningur, mælingar og ísetningaraðferðir virtust vel fram sett. Í fréttatilkynningu sem skrifstofa forseta Íslands sendir á blöðin í júní 1967 er þeim sem áhuga hafa á gluggagerð í kirkjur eða aðrar byggingar boðið að hitt Frederic Cole með milligöngu Guðmundar Einarssonar.[55]

Áður eru nefndar listakonurnar Gerður Helgadóttir og Nína Tryggvadóttir, en glerverk þeirra koma fram um líkt leiti og gluggar Bessastaðakirkju. Með hinnum óhlutbundnu myndum sem þær og fleiri kynna til leiks má segja að myndlistin í kirkjum landsins breytist, því svokölluðum Biblíu- og helgimyndum sem þekktar voru úr gerð altaristaflna á fyrri hluta síðustu aldar fækkar. Þær myndir hverfa af sviðinu með breyttum byggingarstíl og óhlutbundnum myndverkum nýrra listamanna.[56] Altaristafla Muggs í Bessastaðakirkju sver sig í þessa ætt og því lýsir það íhaldssamri afstöðu til myndlistar að setja hana upp á þessum tíma.

Samanburður

Þegar setið er í dómkirkjunni í Reykjavík, sem byggð er á svipuðum tíma og Bessastaðakirkja, sést að ekki hefur enn þótt ástæða til eða gefist tækifæri til að setja í hana steinda glugga. Það kemur greinilega ekki að sök. Rúðurnar glæru í gömlum stíl hleypa hluta af lífinu í kringum kirkjuna inn um gluggana. Það getur vissulega truflað, en það skapar eigi að síður lífræn tengsl milli hins trúarlega sviðs og lífsins í landinu sem trauðla verður aðskilið. Að kvöldi nýtur kirkjan ljóssins í kring sem berst inn. Glært glerið skýlir einnig jafn vel og hið litaða  fyrir veðri og vindum eins og vera ber.  Dómkirkjan er á sinn hátt sambærileg Bessastaðakirkju að aldri en umhverfið þar er annað. Ekkert af fögru umhverfi Bessastaðakirkju sést úr kirkjunni og þegar hún er upplýst að kvöldi er enginn utan dyra til að njóta litanna, auk þess sem talsvert mikið ljósmagn þyrfti til að vel færi.

Mikilvægt er að viðhafa nærgætni gagnvart litum í steindu gleri. Í Bessastaðakirkju eru litirnir of frekir á ljósið og mættu hleypa meiri birtu inn til að umhverfið þar njóti sín. Þetta leiðir einnig til þess að utandyra sjást litirnir ekki í dagsljósi þótt blýlistarnir og umgjörðin gefi til kynna útlínur myndmálsins. Þetta er svipað og málverk ætti í hlut. Það nýtur sín aðeins á aðra hliðina. Fínlegar myndir litlu glugganna sem gefnir voru af Frederic Cole sýna fram á að nægilegt svigrúm hefði verið fyrir gegndreypt gler í kringum aðalefni myndar ef vilji hefði verið til staðar.

Glerlistin í Bessastaðakirkju er eitt af fáum atriðum viðgerðanna á kirkjunni sem ekki hefur verið deilt um þótt allir séu ekki á einu máli um listgildi þeirra. Gluggar kirkjuskipsins glæða kirkjuna litadýrð eins og áður sagði, en ljósflæðið mætti vera meira, enda virðist sem framleiðandinn hafi lagt það til í upphafi að raða ljósdreypnu gleri umhverfis myndir úr íslandssögu og Kristni sem voru eðlilegt og sjálfsagt myndefni og í stíl við fyrstu tillögu, þótt „svipur“ lambfjárins í bráðabirgðatillögu hafi ekki fallið forsetanum og ráðgjöfum hans í geð.

Það var heppilegt að Ásgeir Ásgeirsson skyldi vinna úr hugmyndum forvera síns og fá íslenska listamenn til að skapa myndgerðina og gaman hefði verið ef þeir hefðu orðið þrír eins og upphaflega var stofnað til. Það verður hins vegar að teljast sérstakt hversu ákveðna listpólitíska afstöðu forsetinn tekur með því að velja til verksins íhaldssömustu listamenn landsins, sem nýlega höfðu skorið sig úr samtökum listamanna með stofnun Félags óháðra listamanna.

Aftur að altarinu

Í guðsþjónustunni 31.10.48 í tilefni af loknum viðgerðum á kirkjunni tilkynntu forsetahjónin, þau Georgía Björnsson og Sveinn Björnsson með bréfi að þau færðu kirkjunni að gjöf til ævarandi eignar altarisklæði skapað af Unni Ólafsdóttur listakonu, en klæðið var ofið í Danmörku úr líni ræktuðu á Bessastöðum. Ísaumurinn var gerður með þræði spunnum úr Bessastaðalíni.[57] Framar er minnst á umfangsmikinn búrekstur hins nýja ríkisstjóra, en þetta er áþreyfanlegt dæmi um þá starfsemi.

Greinilegt er að altarisbúnaðurinn hefur ekki hugnast öllum, því að árið 1957 hafði Ásgeir Ásgeirsson látið smíða nýtt þrískipt altari og fært það frá veggnum og komið fyrir skrúðhúsi að baki þess. Ágæt lausn í sjálfu sér, en tjaldað til einnar nætur. Ófullgerð mynd Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs (1891-1924) frá 1921 sem fengin var að láni tímabundið frá Listasafni Íslands stóð á altarinu og lokaði þessari hönnun, en breytingar þessar teiknaði Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, þáverandi húsameistari ríkisins, ásamt gráðum, myndskreyttum með smíðajárni af Finni Jónssyni og Guðmundi Einarssyni, en þær voru engar fyrir.[58]

Gunnlaugur lengdi altarið til beggja hliða með mjórri hliðarskápum með hurðum að aftan, en til að gæta samræmis vantaði altarisklæði á þessa hliðarskápa. Svo óhönduglega  tókst til að Sigrún Jónsdóttir var fengin til þess verks. Notaði hún dúk í öðrum lit og saumaði í þá sama munstur og Unnur á þeim dúk sem fyrir var auk viðbótar myndefnis. Þetta skapaði mikla reiði og sárindi hjá frú Unni Ólafsdóttur sem einnig hafði gert hökul fyrir kirkjuna.

Gluggarnir komu í kirkjuna árið 1956 og þegar nú var búið að endurnýja altari og altaristöflu og laga til í kórnum með smíði á grátum hefur Ásgeiri Ásgeirssyni væntanleg þótt að kirkjan hafi hlotið fullnaðar viðgerð. Í öllu falli boðar forsetaembættið þann 9. júní 1957, á hvítasunnudag, til hátíðarguðsþjónustu í tilefni af lokinni viðgerð Bessastaðakirkju. – Voru þá aðeins liðin tæp níu ár frá hátíðahöldunum vegna loka á „viðgerðum“ Guðjóns Samúelssonar.

Kristslíkneski Ríkarðs Jónssonar var á þessum sama tíma fært á norðurvegg. Ásgeir Ásgeirsson lét setja litla hillu neðan á krossmarkið og kom þar fyrir litlum koparstjökum sem hann keypti á fornsölu í Kaupmannahöfn og gaf kirkjunni.[59] (Sjá myndí Samvinnunni, 11.-12. tbl. 01.12.57 bls. 5) Þann 04.11.76 ritar Ólöf Ríkarðsdóttir fyrir hönd föður síns, Ríkarðs Jónssonar, bréf til Kristjáns Eldjárns forseta og biður um að umrædd hilla verði fjarlægð undan krossmarkinu og fer yfir sárindi föður síns vegna meðferðarinnar á listaverkinu þegar fótstallurinn var sagaður neðan af því. Varð dr. Kristján Eldjárn við þessari beiðni eftir að hafa ráðfært sig við sóknarprest og formann sóknarnefndar.[60] Stjakarnir standa nú á altarinu og er þar ofaukið að mínu mati. Þannig hefur vinnan við altarið í Bessastaðakirkju skapað djúp sárindi a.m.k. tveggja listamanna.  Verst er þó að vandinn er enn óleystur þar sem fótstykkið er horfið og mynd Muggs er fengin að láni.

Ljóst er að mikill áhugi er í röðum húsfriðunarmanna að breyta Bessastaðakirkju aftur í upprunalegt horf að innan. Minjastofnun Íslands hefur fengið Pétur Grétarsson til að gera fallegt myndband af því hvernig kirkjan gæti litið út samkvæmt tillögu stofnunarinnar. Má skoða það á heimasíðu stofnunarinnar, minjastofnun.is eða á slóðinni að neðan.[61]

Á sóknarnefndarfundi í Bessastaðasókn 8. febrúar 1988 kom fram fyrirspurn um hvort fyrirhugaðar væru breytingar á kirkjunni og hvaða skoðun nefndarmenn hefðu á því. Segir þar orðrétt: „Nefndarmönnum leist illa á þá hugmynd að kirkjan yrði færð í upprunalegt horf.“ Kom fram að prófasturinn hafði ekki vitað af breytingunum sem gerðar voru.[62] Tel ég að sama sjónarmið sé enn ríkjandi meðal safnaðarfólks, en á móti má segja að Bessastaðasókn er ekki eigandi kirkjunnar.

Niðurstöður

Það þarf ekki glöggan mann til að sjá að Bessastaðakirkja var upphaflega óþarflega stór fyrir þann fámenna söfnuð sem þá bjó á Álftanesi, enda gekk á ýmsu í tímans rás bæði með smíði hennar og viðhald. Byggingartíminn var óhóflegur og á tímabili var beinlínis hættulegt að sækja kirkjuna sem stóð enn innan veggja hinnar ófullbyggðu steinkirkju.

Það reyndist líka bæði leiguliðum og hinum dönsku valdhöfum erfitt að halda henni við með þeim hætti að hægt væri að nota hana til helgihalds, en þó ekki væri nema vegna útfara þurfti söfnuðurinn skjól fyrir starf sitt og presturinn frá Görðum þarfnaðist aðstöðu til helgihaldsins. Um þetta alt vitna vísitasíur og bréfaskriftir eins og fram hefur komið.

Bessastaðir voru í konungseigu í um 600  ára skeið. Frá þeim tíma sem Grímur Thomsen hafði makaskipti á Bessastöðum og Belgsholti 1867 og þangað til Sigurður Jónasson forstjóri gefur ríkinu jörðina 1941 var hún bændakirkja, en lenti m.a. í eigu Landsbankans. Margir eigenda hennar lögðu til fjármagn til viðgerða, en aldrei varð sá mælir fullur, m.a. vegna þess að þjóðminjavörður fékk sínum hugmyndum um kirkjuna ekki framgengt en gerði hann þó vel í viðhaldsmálum.

Það vaknaði strax skilningur á að margt þyrfti að gera á staðnum til að hann þjónað hlutverki sínu sem aðsetur forseta og tókst það með ágætum eins og lýst hefur verið. Hefur staðurinn síðan átt virðingarsess í hugum þjóðarinnar.

Kirkjan fylgdi staðnum, en ekki er mikil þörf fyrir slíkt hús hjá forsetaembættinu nú um stundir. Það var því nokkur krafa á hendur ríkinu að axla ábyrgð sína sem kirkjueigandi og hefur mikil viðgerð farið fram á ytra birði, tréverki og raflögnum í turni hin síðari ár.[63] Kirkjan verður ekki glædd lífi nema söfnuðurinn sjái sér fært að nota hana, en eins og áður sagði, þá hefur Bessastaðasöfnuður aldrei átt kirkju og kallaði eftir því að hún yrði lagfærð.

Á samleið þessari hefur söfnuðurinn lagt kirkjunni til líf það sem ekki síst varð henni til varðveislu. Á síðustu árum hefur hann kostað til nýju pípuorgeli, píanói, sessum í bekki og fleiru auk nokkurrar alúðar sem hjálpað hefur til að glæða hana lífi og eykur þrátt fyrir allt virðingu og reisn staðarins. Um viðgerðirnar á kirkjunni hafði söfnuðurinn ekkert að segja. – Þetta er svipað og með glerið. Það glæðist lífi þegar ljósinu er beint að því.

Hér hefur komið fram að tveir fyrstu forsetar íslenska lýðveldisins hafi boðað til guðsþjónustu í kirkjunni til að fagna lokum viðgerða. Einnig eru sterk rök Minjastofnunar Íslands og áhugi fyrir því að endurgera Bessastaðakirkju í upphaflegri mynd. Söfnuðurinn sem notar kirkjuna hefur ekki yfir henni að segja, en gott samband forseta og sóknarnefndar er mikilvægt eins og verið hefur, því að eins og fram hefur komið glæðir starf safnaðarins kirkjuhúsið lífi og stuðlar að alúðlegri umhyggju.

Ásgeir Ásgeirsson kom á sterkum tengslum við Frederic Cole sem stýrði verkstæði William Morris & Co og hafði listpólitísk áhrif með vali listamanna til gluggagerðarinnar. Hann lét breyta þeim altarisbúnaði sem Guðjón Samúelsson bjó kirkjunni og lét sér annt um hana. Kristsmynd Ríkarðs Jónssonar hangir enn á norðurvegg og minnir sem fyrr á niðurlægingu frelsarans og misbeitingu valds. Framtíðin mun skera úr um það hvort oftar verður messað í Bessastaðakirkju til að fagna lokum viðgerða, en freistandi er að kalla það kaldhæðni að á vesturvegg kirkjuskipsins yfir kirkjudyrum skuli hanga gifsafsteypa af lágmynd Thorvaldsens, „Verndarvættur byggingarlistarinnar“, sem hann gerði í Nysö 1843.

Það er mat mitt að gluggarnir geta ekki verið punkturinn yfir i-ið í þeim framkvæmdum sem hafa farið fram, þar sem altarismálin hafa enn ekki verið útkljáð. Altaristöflu Muggs þarf að skila, en þá skapast spennandi verkefni fyrir íslenskan listamann. Þá kemur í ljós hvort listpólitík sitjandi forseta mun ráða för og eins hvaða svigrúm Minjastofnun Íslands getur gefið til frekari fullnustu á löngu ferli.

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir

[49] Gísli Sigurðsson. „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum.“ Samvinnan, 1957, 11. – 12. tbl.  01.12.1957. Bls. 5.

[50] Sölvi Sveinsson, Táknin í málinu. 117.

[51] ÞÍ. B/0060 – 4. 1957-1980. Bessastaðakirkja.

[52] ÞÍ. AA/008. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 0000-021. Bls. 180.

[53] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 59-1.

[54] Þórir Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík I, Byggingarsagan, 212.

[55] ÞÍ. B/0060 – 4. 1957-1980. Bessastaðakirkja.

[56] Gunnar Kristjánsson, „Kirkja og kristni á seinni hluta 20. aldar“, 332.

[57] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[58]Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II,  53.

[59] ÞÍ. AA/008. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 0000-021. Bls. 184.

[60] ÞÍ. B/60-4. Bessastaðakirkja 1957-1980.

[61] Minjastofnun.is  Sótt 27.04.21  https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/hofudborgarsvaedid/nr/445.

[62] Fundargerðabók Bessastaðasóknar 1986-1996, bls. 21.

[63] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II,  45.

Heimildaskrá

Anna Ólafsdóttir Björnsson. Álftaness saga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík: Þjóðsaga 1996.

Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir og Jón Proppé. Íslens listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. 3. bindi. Abstraktlist. Reykjavík: Listasafn Íslands og Forlagið, 2011.

Ásgeir Ásgeirsson. Ávarp forseta Íslands í Bessastaðakirkju á hvítasunnudag, 9. júní 1957. Tölvubréf frá Örnólfi Thorssyni, 12.04.2021.

Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld. Drög að sögulegu yfirliti. 2. bindi. Reykjavík: Helgafell, 1973.

Hjalti Hugason og Jón Hnefill Aðalsteinsson. Íslensk þjóðmenning V: Trúarhættir – Norræn trú, kristni, þjóðtrú. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988.

Kirkjur Íslands, 12. bindi. Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II. Ritnefnd Margrét Hallgrímsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson og Karl Sigurbjörnsson. Reykjavík: Húsfriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands, höfundar 2008 og Hið íslenska bókmenntafélag, 2008.

Fundargerðabók Bessastaðasafnaðar 1986-1996.

Gísli Sigurðsson. „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum.“ Samvinnan, 1957, 11. – 12. tbl.  01.12.1957. Bls. 5

Gunnar Kristjánsson. „Kirkja og kristni á seinni hluta 20. aldar.“ Í Kristni á Íslandi IV. Bindi. Ritstj. Hjalti Hugason, bls. 332. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsfriðunarnefnd ríkisins, 1998.

Jón Þ. Þór. Saga Kjalarnessprófastsdæmis. Kjalarnessprófastsdæmi: Kjalarnessprófastsdæmi, 2000.

Karl Sigurbjörnsson. Táknmál trúarinnar. Leiðsögn um tákn og myndmál kristinnar trúar og tilbeiðslu. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, 1993.

„Minjastofnun Íslands“ Bessastaðakirkja. Myndband eftir Pétur Grétarsson. Sótt 27.04.21.  https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/hofudborgarsvaedid/nr/445

Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókafélag, 2020.

Pétur H. Ármannsson. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. Reykjavík: Hið íslenska bókafélag, 2014.

Steinar J. Lúðvíksson. Saga Garðabæjar frá landnámi til 2010 I. Álftaneshreppur hinn forni. Garðabær: Steinar J. Lúðvíksson, 2015.

Sölvi Sveinsson.Táknin í málinu. Reykjavík: Iðunn, 2011.

Vilhjálmur Þ. Gíslason. Bessastaðir. Þættir úr sögu höfuðbóls. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri, 1957.

Þór Magnússon. „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2002-2003. Ritstj. Mjöll Snæsdóttir. Bls. 60-61, 77

Þórir Stephensen. Dómkirkjan í Reykjavík. 1. Bindi: Byggingarsagan. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Dómkirkjan í Reykjavík, 1996.

Þjóðskjalasafn Íslands – Óútgefið efni:

Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 000-021.

Kassi AA/008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti afh. 2002.

B/1644-6. Bessastaðakirkja 1946-1958.

Forsætisráðuneytið afh. 1989.

B/53-1. Bessastaðakirkja I, II og III. 1943-1957.

B/54-1. Bessastaðakirkja IV, V. 1957-1966.

Skrifstofa forseta Íslands afh.1994.

B/59-1. Bessastaðir 1944-1959.

B/60-4. Bessastaðakirkja 1957-1980.

B/61-1. Bessastaðakirkja, uppbygging hennar og hátíðarmessa. 1945-1956.

Skrifstofa forseta Íslands afh. 1968.

B/2/1/1 Bessastaðir 1944-1962.

Sendiráð Íslands í London afh. 1990-34.

B/1-3. Bessastaðakirkja 1947-1961.

B/57 1-2 Bessastaðakirkja 1961-1972.

Utanríkisráðuneytið afh. 1968.

B/2-1 Bessastaðir 1944-1962.

Aðalsteinn Ingólfssson, listfræðingur, var leiðbeinandi sr. Friðriks við ritun BA-ritgerðarinnar árið 2021 um sögu glugganna í Bessastaðakirkju. Hér má lesa ritgerðina í heild sinni í útgáfu Háskóla Íslands. 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Listfræðingurinn og presturinn sr. Friðrik J. Hjartar heldur hér áfam umfjöllun sinni um steindu gluggana í Bessastaðakirkju. Fyrri hluti umfjöllunar hans birtist í gær. Nú skoðar hann hvern glugga fyrir sig í kirkjuskipinu og í forkirkjunni og dregur svo saman í lokin helstu niðurstöður úr rannsókn sinni.

 

Lítum nú nánar til sjálfra glugganna sem verkstæði William Morris & Co framleiddi undir styrkri stjórn Frederics Cole á verkstæði William Morris í Englandi. Í hverri mynd má finna margvísleg tákn hlaðin guðfræðilegri eða kirkjulegri merkingu og mun ég fara fáeinum orðum þar um, enda dýpka þau skilning á myndefninu. Mörg þeirra koma fyrir í fleiri en einni af myndunum og mun ég því ekki endurtaka það við hverja mynd. Í lýsingu þessari er oft stuðst við bók Karls Sigurbjörnssonar, Táknmál trúarinnar. Ég feta mig inn kirkjuskipið og fjalla fyrst um gluggana á norðurveggnum.

Koma Papa

Næst dyrum er mynd Finns Jónssonar af komu Papanna, írskra einsetumunka, sem talið er að hafi komið hingað áður en landið byggðist. Þeir skarta allir geislabaug, enda helgir menn í hugum margra, en upphaflega var geislabaugurinn gylltur bakgrunnur helgimyndanna og stendur í því sambandi við sólina og ljósið sem eru tákn hins góða. Inn í geislabaugana er felldur keltneski krossinn. Sá af mönnunum sem stendur heldur á n.k. prósessíukrossi sem bægja á frá þeim öllu illu. Krossinn er umluktur sólinni og geislar heilags anda standa út af örmunum til vitnisburðar um mátt hans. Hinir mennirnir tveir bera með sér bænarandann í luktum lófum bænastellingar og Guðs orð og umboð í opinni Biblíu.

Skipið er tákn kirkjunnar, sbr. kirkjuskip, en þar er vísað til arkarinnar hans Nóa sem bjargaði lífinu og hinum trúuðu frá flóðinu. Mastur skipsins er tákn krossins, en seglið er trúin á fagnaðarerindið. Hreyfiaflið er heilagur andi sem blæs í seglið. Farmurinn vekur athygli: Geitur, „en þær eru í fornum bókum oftlega nefndar munkafé.“[49] Kistan á þilfarinu gefur hugarfluginu lausan tauminn um innihaldið en minnir full mikið á trilluöldina.

Fiskurinn sem markar neðsta hluta myndarinnar er eitt af elstu táknum kristninnar. Í fyrstu var hann felutákn, en fiskur er ritað með grísku stöfunum „ichþys“ sem standa þá fyrir orðin „Jesús Kristur Guðs sonur, frelsari“. Hér virðast vera á ferðinni höfrungar sem eru bjargvættir í sjávarháska og eru tákn eilífa lífsins. Hér fer það vel við merkingu hins bláa litar fiskanna og sjávarins, en blátt er litur himins og hafs, litur trúarinnar, sannleikans og hins guðdómlega.

Ysti rammi þessarar myndar er sérstakur fyrir það að mávar í ýmsum stellingum fylla hann, en ekki gróður eða kirkjugripir. Þeir gætu vísað til matarkistunnar Íslands og hinna gjöfulu miða sem umlykja landið.

Í bakgrunni og fyrir stafni má sjá eldspúandi fjall, sem er viðeigandi vísun í eldfjallaeyjuna Ísland. Ljósblái liturinn handan skipsins gæti gefið í skin að ísspangir hangi við land milli skips og fjöru. Tæplega er hægt að sjá meira líf í nokkurri af hinum myndanna.

Guðbrandur Þorláksson

Næsta mynd að norðan er eftir Guðmund Einarsson og sýnir kirkjuhöfðingjann Guðbrand Þorláksson (1541-1627) biskup á Hólum með sitt stóra framlag til íslenskrar kristni, Guðbrandsbiblíu, sem út kom 1584, undir vinstra handlegg. Hann var umsvifamikill á Hólum og hélt úti prentverki sem íslendingar geta verið þakklátir fyrir æ síðan. Hann var atorku og hagleiksmaður og mun hafa skorið sjálfur marga af upphafsstöfunum í biblíuútgáfu sinni. Guðbrandur birtist í föðurlegri stellingu með biskupskross um hálsinn og ífærður kjól og kápu, loðbryddaðri. Að baki höfuðs hans er hringlaga krans, tákn sigurs og eilífðar, fylltur að mestu með laufsveig en rauður hringur innst. Rautt er einnig áberandi á ramma myndarinnar og á bókinni, en rautt er litur andans, en einnig elds, blóðs og kærleika. Guðbrandur var andans maður, en rauð Biblían færir okkur sannleikann um andann. Í skreyti myndarinnar eru þrjár raðir kornaxa áberandi á hvora hönd. Kornaxið táknar upprisuna eins og segir í Jóh. 12:26, „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.“ Það er Guð sem gefur vöxtinn, en græni liturinn sem er nokkuð ríkulegur í myndinni táknar vonina og jafnframt vöxt og þroska. Málfar Biblíunnar hefur haft ríkuleg áhrif á íslenskt mál og þannig borið mikinn ávöxt. Herra Guðbrandur er með daufan svip og nokkur kyrrstaða í myndinni.

Allar myndir Guðmundar eiga það sammerkt að á ysta kanti þeirra gefur að líta sveig saman settan af margskonar laufgreinum eða gróðri, en í sveigum þessum má sjá vinnubrögð sem benda til áhrifa framleiðandans.

 Hallgrímur Pétursson

Við hliðina á myndinni af Guðbrandi er önnur mynd eftir Guðmund Einarsson, mynd Hallgríms Péturssonar (1614-1674), sem einnig tengist Hólastað. Hann er ífærður messuskrúða í stöðu blessunarinnar með uppréttar hendur skrýddur hvítu rykkilíni, pípukraga og fjólubláum hökli skreyttum hvítum liljum. Andlitið er þekkt frá öðrum myndum af skáldinu, en skótauið virðist full nútímalegt. Fjólublár litur hökulsins táknar iðrun og yfirbót, en fjólublái liturinn er blanda af rauðu, lit kærleikans, bláu, sem er tákn trúmennsku og sannleika og  svörtu, sem er litur sorgar.

Liljurnar gætu minnt á blómin í tengslum við sálm Hallgríms sem allir þekkja, „Allt eins og blómstrið eina“. Annars er liljan einkennistákn Maríu Guðsmóður, tákn hreinleika og sakleysis. Liljur fylla einnig þann stóra baug sem er að baki höfuðs Hallgríms. Þar er gulur litur ráðandi, en gult vísar til sannleikans og himinsins.

Konan sem situr Hallgrími á vinstri hönd táknar væntanlega Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups uppábúna, en henni færði hann fyrsta eintak Passíusálmanna. Drengurinn á hægri hönd situr við lestur sömu bókar og er fulltrúi þjóðarinnar, en uppaf þeim báðum vottar fyrir fjölda fólks, kynslóðunum sem tóku Passíusálmana í arf. Laufsveigur rammar inn myndina. Hér er meiri sannfæring í myndefninu heldur en í myndinni af Guðbrandi. Þó er erfitt að líta á liljurnar nema sem skraut.

Fjallræðan

Í kórnum að norðanverður er mynd Guðmundar Einarssonar af Fjallræðunni, önnur þeirra mynda sem beðið var eftir og sker sig lítið eitt úr myndum Guðmundar fyrir mýkt sína sem kemur vel fram í stöðu frelsarans. Sjá má að hann er í sannfærandi tengslum við fólkið í kring, sem er fulltrúar mannfjöldans sem guðsspjallssagan í Matt. 5:1 greinir frá. Hendurnar eru að tjá frásögnina. Höfuðið er krýnt geislabaug með innfeldum krossi.

Hvítur kyrtillinn táknar hið himneska ljós og minnir á dýrð Krists og eilífðarinnar. Skikkja hans er rauð og gyllt, en rauði liturinn er þarna tákn kærleikans og eldsins sem kyndir undir trúnni en gyllti liturinn stendur fyrir himininn og eilífðina. Allt er þetta knýtt saman með blárri spennu trúfestinnar og hins guðdómlega. Fjöll koma víða við sögu í Biblíunni og styrkja frásagnir hennar með ýmsu móti; fjallræðan, Sínaífjall, Ararat og ummyndunin á fjallinu eru fáein dæmi. Tákngildi háfjalla sem gnæfa yfir allt og tengja saman himin og jörð eru ámóta að merkingu og vísa til nærveru

hins guðlega.[50] Hér er þetta mjög skírt í bakgrunninum þar sem fjöllin teygja sig í og yfir skýin. Efst gefur svo að líta dúfuna sem snýr niður á við og táknar því Heilagan anda, eins og líka gult geislaflóðið út frá dúfunni.

Á jaðri myndarinnar fléttast vínviðargreinar rótfestar í hinu helga landi og minna á lífsins tré. Þrúgurnar minna á ávextina sem trúin gefur ríkulega, en laufin eru fallega stílfærð og minna á töluna fjóra sem merkt getur heiminn eða sköpunarverkið.

Neðst fyrir miðri mynd má sjá vörumerki framleiðanda glugganna. Þar er ritað: WILLIAM.MORRIS.ENGLAND.1956.

Kristnitakan á Þingvöllum árið 1000

Við hefjum aftur för í vestri, en nú á suðurvegg kirkjunnar. Þar er brugðið upp mynd Finns Jónssonar af kristnitökunni á Alþingi árið 1000. Sýnir hún Þorgeir ljósvetningagoða sem kvað upp þann úrskurð að íslendingar skyldu vera kristnir. Hann er skrautlega búinn skikkju, kufli og með skóþvengi, tiginmannlegur og lyftir hendi eins og til áherslu máli sínu. Hann hefur skjöld á baki sér og sverð hans er slíðrað og snýr niður eins og vera bar í lögréttunni. Kólguskýin í bakgrunni minna á ótryggt ástandið, en á hvora hönd eru fylkingar manna sem ýmist halda á lofti krossum eða vopnum sínum, en úrskurður Þorgeirs fól í sér sáttargjörð, því án hennar var stefnt í voða friðinum í landinu. Sverð, skildir og hjálmar eru ríkulegir á myndinni og þótt sverðið minni oft á krossinn fer best á að vitna til orða Páls postula í Ef. 6:10-20 í Biblíunni til að ná utanum merkingu verkfæra og aðstæðna: Sverð andans, hjálmur hjálpræðisins, skjöldur trúarinnar koma þar til tals ásamt fleiru sem erfitt er að festa á mynd.

Gjárnar minna á Þingvelli eins og Skjaldbreiður til vinstri og eldfjöll til hægri. Andstæðurnar eru ríkulegar í öllu efninu og hvergi skortir á litadýrðina frekar en í hinum myndunum. Í hornum myndarinnar neðst og upp við bogann má sjá mann, uxa, örn og ljón sem tákna guðspjallamennina, en líkindi eru með þessum táknum og verunum í skjaldarmerki Íslands. Hafið sem sjá má undir myndinni undirstrikar enn frekar hversu langt var á milli sjónarmiðanna.

Jón Arason

Síðasta mynd Guðmundar Einarssonar er af Jóni biskupi Arasyni (1484-1550), síðasta kaþólska biskupsins á Ísland. Hann birtist okkur í fullum skrúða með bagal í vinstri hönd, mítur á höfði og með myndskreytta oblátu upplyfta í hægri hendi. Andlitið er vel gert, en eins og það horfi út úr myndinni. Rauð biskupskápa með gylltum bryddingum yst klæða, rykkilín og hvít stóla fagurskreytt. Kórdrengir standa sinn á hvora hönd með reykelsisker, en reykelsið er tákn bænanna sem stíga til himins. Þeir eru klæddir grænum kuflum, en græni liturinn táknar vöxt og þroska, en er jafnframt litur vonarinnar. Biskupsbúnaðurinn og reykelsiskerin minna á kaþólsku kirkjuna. Á ystu brún myndarinnar er fínlegur sveigur, en síðan gróskumikið og vel rótfest lauftré sem vefur sig um og yfir persónurnar, en vel hefur tekist að tjá aldursmun kórdrengjanna og Jóns biskups. Litir og skreyti fremur fallegt og bjartur blær yfir myndinni. Skótauið sem fyrr af nýrri gerðinni.

Jón Vídalín

Næst kórnum að sunnan kemur mynd Finns Jónssonar af Jóni biskupi Vídalín (1666-1720). Sr. Jón Vídalín þjónaði Bessastaðakirkju um tíma frá Görðum áður en hann hlaut biskupsdóm og má því kallast tengdur staðnum. Honum er stillt upp fullskrýddum framan við altari með Postillu sína opna í höndum. Hún er miðlæg í myndinni. Boðskapurinn streymir af blöðum hennar og kveikir strax tengsl í hugum íslendinga við hinn orðsnjalla biskup, enda lesin á flestum heimilum um aldir. Andlitið er vel heppnað og horfir beint á þann sem skoðar myndina. Hökull Jóns er rauður með ísaumuðum grænbláum rómönskum krossi, sigurkrossi.

Það er altarið sjálft sem er tákn Krists í kirkjunni. Jafnframt getur það hvort tveggja í senn táknað jötuna sem frelsarinn var lagður í og gröfina. Altarisdúkurinn er tákn reifanna sem Jesúbarnið var reifað og eins líndúkanna sem hann var sveipaður að honum látnum. Upp af höfði Jóns er sérkennilegur oddbogi með mynd af Maríu með barnið, en rauður og gylltur bogi að baki biskupinum. Rauði liturinn getur þarna táknað eld andans sem inni fyrir bjó, en rauði liturinn setur mikinn svip á myndina. Symmetrisk ljós lifa á altarinu. Þau boða okkur að Drottinn lifir og er mitt á meðal okkar. Þau geta annars vegar táknað lögmál og fagnaðarerindi og hins vegar að Jesús er sannur Guð og sannur maður. Fyrir mörgum eru þau líka tákn Gamla- og Nýja-testamentisins. Kertunum er ætlað að brenna niður. Þess vegna er litið á þau sem fórn. Þrír þríarma stjakar á bláum grunni skreyta kantbogann, en hver þeirra getur táknað trú, von og kærleika. Gólfið sem er lagt grænum og rauðum ferningslaga flísum vekur einnig athygli.

María Guðsmóðir

Kórmyndin að sunnanverðu af Maríu með barnið er verk Finns Jónssonar. Hún er skrautlega búin með ábyrgðarfullan svip og heldur barninu þétt að sér. Stór geislabaugur með innfelldum bláum krossi er að baki höfuðs hennar. Barnið er með hvítan baug með rauðum krossi. Tveir englar standa henni á hægri hönd og þrír á vinstri. Engill þýðir sendiboði og vængirnir tákna hversu hratt þeir geta farið yfir, ýmist til að bera boð eða hlýða þeim. Englar báru mönnum boðin á Betlehemsvöllum að frelsarinn væri fæddur. Það er fyrst á fjórðu öld sem vængirnir birtast í myndlistinni, en á 15. öld verða englarnir kvenlegir ásýndum. Hér tákna þeir hina himnesku tengingu, herskara himnanna sem gleðjast yfir fæðingu frelsarans og útbreiða fagnaðarerindið.

Það fer vel á að kantskreytingin skuli vera möndlulaga, en þar er komið tákn Maríu meyjar. Græn laufin merkja vöxt og þroska, en skipin sem speglast á haffletinum í grunni myndarinnar tákna kirkjuna sem breiðir út og stendur vörð um boðskapinn. Öll eru andlitin falleg og fínlega unnin. Þetta er eina mynd Finns Jónssonar sem sett er laufskrúði sem kantskreytingu.

Samantekt

Fljótt á litið virðast flestar myndanna í sama lit, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést hversu vel hefur tekist að blanda litunum þannig að engar tvær séu sláandi líkar eins og virst getur við fyrstu sýn. Það skiptir líka miklu máli að ríkjandi litir í myndunum eru hinir litúrgísku litir, rauður, grænn, fjólublár, gylltur, hvítur og svartur.

Listamennirnir höfðu með sér náið samstarf við gerð myndanna sem kemur m.a. fram í því hversu kantskreytin eru fjölbreytileg í lit og formi. Trúlegt er að verksmiðjan sjálf hafi hannað skreytið og flétturnar sem fylla upp í heildarrýmið með hliðsjón og reynslu af þeirri nytjastefnu (Art and Crafts) sem átti sér góðan jarðveg á Englandi á þessum tíma. Allir hafa gluggarnir verið hannaðir um svipað leyti. Meðan ekki er hægt að bera myndirnar saman við frumgerðirnar er erfitt að sjá hve framleiðandinn hefur lagt mikið til myndanna af reynslu sinni, en athyglisvert er að sjá þá athugasemd sem dr. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, ritaði í minnisblað, en hann hafði með að gera mál er varðaði útgáfurétt listamannanna á myndunum. Hann ritaði eftirfarndi í minnisblað 21.11.77: „Þó aldrei nema mér sýnist að verkstæði Cole‘s eigi eins mikið í listaverkunum og þeir.“[51]

Gjafagluggar Coles og íhaldssöm kirkjulist

Frederic Cole lét sér mál kirkjunnar varða og gaf til hennar tvo litla „mosaikglugga“, eins og þeir eru nefndir í vísitasíugjörð, en þeir eru staðsettir í forkirkjunni. Fyrri glugginn sem er yfir útidyrum sýnir heilagan Nikulás, verndardýrlinginn sem kirkjan var helguð í kaþólskri tíð en sá síðari er yfir millihurðinni og sýnir Krist sem herra himins og jarðar.[52]

Gjafagluggarnir tveir gefa til kynna hversu fínlegar og smáar myndskreytingarnar geta verið, en ljósum hefur verið komið fyrir bak við bæði verkin sem eru töluvert minni en umræddir kirkjugluggar.

Hinir steindu gluggar Bessastaðakirkju eru væntanlega með fyrstu glermyndum sem settar eru í opinberar byggingar hérlendis.

Herra Ásgeir forseti virðist hafa verið mjög áhugasamur um frekari glerviðskipti. Samkvæmt bréfi sem hann skrifar dómprófasti og sóknarnefndarfólki í dómkirkjunni í Reykjavík þann 6. mars 1965 býður hann fram fund við Mr. Cole sem væntanlegur var hingað um páska það ár vegna glugga í bókhlöðuna á Bessastöðum. Skýrir hann jafnframt frá því að þeir hafi rætt málið og var Cole búinn að senda tillögur sem Ásgeir hafði metið eftir sínum smekk og sendi með í bréfinu.[53] Sjá má mynd af tillöguglugga Coles í bókinni Dómkirkjan í Reykjavík. Þar sést gegndreypt gler í kringum aðalmyndefnið.[54]

Í bréfaskiptum þeirra Guðmundar Einarssonar og Frederic Cole má sjá gagnkvæmar tilraunir til aukinna viðskipta. Guðmundur getur þess að í vændum séu kirkjubyggingar sem þurft geti gler, en F. Cole býðst til að hanna prédikunarstól fyrir Bessastaðakirkju. Í öllu falli er ekki hægt að sjá annað en að öll viðskiptin við verkstæði William Morris hafi staðist með miklum ágætum og fagleg samskipti eins og flutningur, mælingar og ísetningaraðferðir virtust vel fram sett. Í fréttatilkynningu sem skrifstofa forseta Íslands sendir á blöðin í júní 1967 er þeim sem áhuga hafa á gluggagerð í kirkjur eða aðrar byggingar boðið að hitt Frederic Cole með milligöngu Guðmundar Einarssonar.[55]

Áður eru nefndar listakonurnar Gerður Helgadóttir og Nína Tryggvadóttir, en glerverk þeirra koma fram um líkt leiti og gluggar Bessastaðakirkju. Með hinnum óhlutbundnu myndum sem þær og fleiri kynna til leiks má segja að myndlistin í kirkjum landsins breytist, því svokölluðum Biblíu- og helgimyndum sem þekktar voru úr gerð altaristaflna á fyrri hluta síðustu aldar fækkar. Þær myndir hverfa af sviðinu með breyttum byggingarstíl og óhlutbundnum myndverkum nýrra listamanna.[56] Altaristafla Muggs í Bessastaðakirkju sver sig í þessa ætt og því lýsir það íhaldssamri afstöðu til myndlistar að setja hana upp á þessum tíma.

Samanburður

Þegar setið er í dómkirkjunni í Reykjavík, sem byggð er á svipuðum tíma og Bessastaðakirkja, sést að ekki hefur enn þótt ástæða til eða gefist tækifæri til að setja í hana steinda glugga. Það kemur greinilega ekki að sök. Rúðurnar glæru í gömlum stíl hleypa hluta af lífinu í kringum kirkjuna inn um gluggana. Það getur vissulega truflað, en það skapar eigi að síður lífræn tengsl milli hins trúarlega sviðs og lífsins í landinu sem trauðla verður aðskilið. Að kvöldi nýtur kirkjan ljóssins í kring sem berst inn. Glært glerið skýlir einnig jafn vel og hið litaða  fyrir veðri og vindum eins og vera ber.  Dómkirkjan er á sinn hátt sambærileg Bessastaðakirkju að aldri en umhverfið þar er annað. Ekkert af fögru umhverfi Bessastaðakirkju sést úr kirkjunni og þegar hún er upplýst að kvöldi er enginn utan dyra til að njóta litanna, auk þess sem talsvert mikið ljósmagn þyrfti til að vel færi.

Mikilvægt er að viðhafa nærgætni gagnvart litum í steindu gleri. Í Bessastaðakirkju eru litirnir of frekir á ljósið og mættu hleypa meiri birtu inn til að umhverfið þar njóti sín. Þetta leiðir einnig til þess að utandyra sjást litirnir ekki í dagsljósi þótt blýlistarnir og umgjörðin gefi til kynna útlínur myndmálsins. Þetta er svipað og málverk ætti í hlut. Það nýtur sín aðeins á aðra hliðina. Fínlegar myndir litlu glugganna sem gefnir voru af Frederic Cole sýna fram á að nægilegt svigrúm hefði verið fyrir gegndreypt gler í kringum aðalefni myndar ef vilji hefði verið til staðar.

Glerlistin í Bessastaðakirkju er eitt af fáum atriðum viðgerðanna á kirkjunni sem ekki hefur verið deilt um þótt allir séu ekki á einu máli um listgildi þeirra. Gluggar kirkjuskipsins glæða kirkjuna litadýrð eins og áður sagði, en ljósflæðið mætti vera meira, enda virðist sem framleiðandinn hafi lagt það til í upphafi að raða ljósdreypnu gleri umhverfis myndir úr íslandssögu og Kristni sem voru eðlilegt og sjálfsagt myndefni og í stíl við fyrstu tillögu, þótt „svipur“ lambfjárins í bráðabirgðatillögu hafi ekki fallið forsetanum og ráðgjöfum hans í geð.

Það var heppilegt að Ásgeir Ásgeirsson skyldi vinna úr hugmyndum forvera síns og fá íslenska listamenn til að skapa myndgerðina og gaman hefði verið ef þeir hefðu orðið þrír eins og upphaflega var stofnað til. Það verður hins vegar að teljast sérstakt hversu ákveðna listpólitíska afstöðu forsetinn tekur með því að velja til verksins íhaldssömustu listamenn landsins, sem nýlega höfðu skorið sig úr samtökum listamanna með stofnun Félags óháðra listamanna.

Aftur að altarinu

Í guðsþjónustunni 31.10.48 í tilefni af loknum viðgerðum á kirkjunni tilkynntu forsetahjónin, þau Georgía Björnsson og Sveinn Björnsson með bréfi að þau færðu kirkjunni að gjöf til ævarandi eignar altarisklæði skapað af Unni Ólafsdóttur listakonu, en klæðið var ofið í Danmörku úr líni ræktuðu á Bessastöðum. Ísaumurinn var gerður með þræði spunnum úr Bessastaðalíni.[57] Framar er minnst á umfangsmikinn búrekstur hins nýja ríkisstjóra, en þetta er áþreyfanlegt dæmi um þá starfsemi.

Greinilegt er að altarisbúnaðurinn hefur ekki hugnast öllum, því að árið 1957 hafði Ásgeir Ásgeirsson látið smíða nýtt þrískipt altari og fært það frá veggnum og komið fyrir skrúðhúsi að baki þess. Ágæt lausn í sjálfu sér, en tjaldað til einnar nætur. Ófullgerð mynd Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs (1891-1924) frá 1921 sem fengin var að láni tímabundið frá Listasafni Íslands stóð á altarinu og lokaði þessari hönnun, en breytingar þessar teiknaði Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, þáverandi húsameistari ríkisins, ásamt gráðum, myndskreyttum með smíðajárni af Finni Jónssyni og Guðmundi Einarssyni, en þær voru engar fyrir.[58]

Gunnlaugur lengdi altarið til beggja hliða með mjórri hliðarskápum með hurðum að aftan, en til að gæta samræmis vantaði altarisklæði á þessa hliðarskápa. Svo óhönduglega  tókst til að Sigrún Jónsdóttir var fengin til þess verks. Notaði hún dúk í öðrum lit og saumaði í þá sama munstur og Unnur á þeim dúk sem fyrir var auk viðbótar myndefnis. Þetta skapaði mikla reiði og sárindi hjá frú Unni Ólafsdóttur sem einnig hafði gert hökul fyrir kirkjuna.

Gluggarnir komu í kirkjuna árið 1956 og þegar nú var búið að endurnýja altari og altaristöflu og laga til í kórnum með smíði á grátum hefur Ásgeiri Ásgeirssyni væntanleg þótt að kirkjan hafi hlotið fullnaðar viðgerð. Í öllu falli boðar forsetaembættið þann 9. júní 1957, á hvítasunnudag, til hátíðarguðsþjónustu í tilefni af lokinni viðgerð Bessastaðakirkju. – Voru þá aðeins liðin tæp níu ár frá hátíðahöldunum vegna loka á „viðgerðum“ Guðjóns Samúelssonar.

Kristslíkneski Ríkarðs Jónssonar var á þessum sama tíma fært á norðurvegg. Ásgeir Ásgeirsson lét setja litla hillu neðan á krossmarkið og kom þar fyrir litlum koparstjökum sem hann keypti á fornsölu í Kaupmannahöfn og gaf kirkjunni.[59] (Sjá myndí Samvinnunni, 11.-12. tbl. 01.12.57 bls. 5) Þann 04.11.76 ritar Ólöf Ríkarðsdóttir fyrir hönd föður síns, Ríkarðs Jónssonar, bréf til Kristjáns Eldjárns forseta og biður um að umrædd hilla verði fjarlægð undan krossmarkinu og fer yfir sárindi föður síns vegna meðferðarinnar á listaverkinu þegar fótstallurinn var sagaður neðan af því. Varð dr. Kristján Eldjárn við þessari beiðni eftir að hafa ráðfært sig við sóknarprest og formann sóknarnefndar.[60] Stjakarnir standa nú á altarinu og er þar ofaukið að mínu mati. Þannig hefur vinnan við altarið í Bessastaðakirkju skapað djúp sárindi a.m.k. tveggja listamanna.  Verst er þó að vandinn er enn óleystur þar sem fótstykkið er horfið og mynd Muggs er fengin að láni.

Ljóst er að mikill áhugi er í röðum húsfriðunarmanna að breyta Bessastaðakirkju aftur í upprunalegt horf að innan. Minjastofnun Íslands hefur fengið Pétur Grétarsson til að gera fallegt myndband af því hvernig kirkjan gæti litið út samkvæmt tillögu stofnunarinnar. Má skoða það á heimasíðu stofnunarinnar, minjastofnun.is eða á slóðinni að neðan.[61]

Á sóknarnefndarfundi í Bessastaðasókn 8. febrúar 1988 kom fram fyrirspurn um hvort fyrirhugaðar væru breytingar á kirkjunni og hvaða skoðun nefndarmenn hefðu á því. Segir þar orðrétt: „Nefndarmönnum leist illa á þá hugmynd að kirkjan yrði færð í upprunalegt horf.“ Kom fram að prófasturinn hafði ekki vitað af breytingunum sem gerðar voru.[62] Tel ég að sama sjónarmið sé enn ríkjandi meðal safnaðarfólks, en á móti má segja að Bessastaðasókn er ekki eigandi kirkjunnar.

Niðurstöður

Það þarf ekki glöggan mann til að sjá að Bessastaðakirkja var upphaflega óþarflega stór fyrir þann fámenna söfnuð sem þá bjó á Álftanesi, enda gekk á ýmsu í tímans rás bæði með smíði hennar og viðhald. Byggingartíminn var óhóflegur og á tímabili var beinlínis hættulegt að sækja kirkjuna sem stóð enn innan veggja hinnar ófullbyggðu steinkirkju.

Það reyndist líka bæði leiguliðum og hinum dönsku valdhöfum erfitt að halda henni við með þeim hætti að hægt væri að nota hana til helgihalds, en þó ekki væri nema vegna útfara þurfti söfnuðurinn skjól fyrir starf sitt og presturinn frá Görðum þarfnaðist aðstöðu til helgihaldsins. Um þetta alt vitna vísitasíur og bréfaskriftir eins og fram hefur komið.

Bessastaðir voru í konungseigu í um 600  ára skeið. Frá þeim tíma sem Grímur Thomsen hafði makaskipti á Bessastöðum og Belgsholti 1867 og þangað til Sigurður Jónasson forstjóri gefur ríkinu jörðina 1941 var hún bændakirkja, en lenti m.a. í eigu Landsbankans. Margir eigenda hennar lögðu til fjármagn til viðgerða, en aldrei varð sá mælir fullur, m.a. vegna þess að þjóðminjavörður fékk sínum hugmyndum um kirkjuna ekki framgengt en gerði hann þó vel í viðhaldsmálum.

Það vaknaði strax skilningur á að margt þyrfti að gera á staðnum til að hann þjónað hlutverki sínu sem aðsetur forseta og tókst það með ágætum eins og lýst hefur verið. Hefur staðurinn síðan átt virðingarsess í hugum þjóðarinnar.

Kirkjan fylgdi staðnum, en ekki er mikil þörf fyrir slíkt hús hjá forsetaembættinu nú um stundir. Það var því nokkur krafa á hendur ríkinu að axla ábyrgð sína sem kirkjueigandi og hefur mikil viðgerð farið fram á ytra birði, tréverki og raflögnum í turni hin síðari ár.[63] Kirkjan verður ekki glædd lífi nema söfnuðurinn sjái sér fært að nota hana, en eins og áður sagði, þá hefur Bessastaðasöfnuður aldrei átt kirkju og kallaði eftir því að hún yrði lagfærð.

Á samleið þessari hefur söfnuðurinn lagt kirkjunni til líf það sem ekki síst varð henni til varðveislu. Á síðustu árum hefur hann kostað til nýju pípuorgeli, píanói, sessum í bekki og fleiru auk nokkurrar alúðar sem hjálpað hefur til að glæða hana lífi og eykur þrátt fyrir allt virðingu og reisn staðarins. Um viðgerðirnar á kirkjunni hafði söfnuðurinn ekkert að segja. – Þetta er svipað og með glerið. Það glæðist lífi þegar ljósinu er beint að því.

Hér hefur komið fram að tveir fyrstu forsetar íslenska lýðveldisins hafi boðað til guðsþjónustu í kirkjunni til að fagna lokum viðgerða. Einnig eru sterk rök Minjastofnunar Íslands og áhugi fyrir því að endurgera Bessastaðakirkju í upphaflegri mynd. Söfnuðurinn sem notar kirkjuna hefur ekki yfir henni að segja, en gott samband forseta og sóknarnefndar er mikilvægt eins og verið hefur, því að eins og fram hefur komið glæðir starf safnaðarins kirkjuhúsið lífi og stuðlar að alúðlegri umhyggju.

Ásgeir Ásgeirsson kom á sterkum tengslum við Frederic Cole sem stýrði verkstæði William Morris & Co og hafði listpólitísk áhrif með vali listamanna til gluggagerðarinnar. Hann lét breyta þeim altarisbúnaði sem Guðjón Samúelsson bjó kirkjunni og lét sér annt um hana. Kristsmynd Ríkarðs Jónssonar hangir enn á norðurvegg og minnir sem fyrr á niðurlægingu frelsarans og misbeitingu valds. Framtíðin mun skera úr um það hvort oftar verður messað í Bessastaðakirkju til að fagna lokum viðgerða, en freistandi er að kalla það kaldhæðni að á vesturvegg kirkjuskipsins yfir kirkjudyrum skuli hanga gifsafsteypa af lágmynd Thorvaldsens, „Verndarvættur byggingarlistarinnar“, sem hann gerði í Nysö 1843.

Það er mat mitt að gluggarnir geta ekki verið punkturinn yfir i-ið í þeim framkvæmdum sem hafa farið fram, þar sem altarismálin hafa enn ekki verið útkljáð. Altaristöflu Muggs þarf að skila, en þá skapast spennandi verkefni fyrir íslenskan listamann. Þá kemur í ljós hvort listpólitík sitjandi forseta mun ráða för og eins hvaða svigrúm Minjastofnun Íslands getur gefið til frekari fullnustu á löngu ferli.

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir

[49] Gísli Sigurðsson. „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum.“ Samvinnan, 1957, 11. – 12. tbl.  01.12.1957. Bls. 5.

[50] Sölvi Sveinsson, Táknin í málinu. 117.

[51] ÞÍ. B/0060 – 4. 1957-1980. Bessastaðakirkja.

[52] ÞÍ. AA/008. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 0000-021. Bls. 180.

[53] ÞÍ. Skrifstofa forseta Íslands 1994-22 B-B 59-1.

[54] Þórir Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík I, Byggingarsagan, 212.

[55] ÞÍ. B/0060 – 4. 1957-1980. Bessastaðakirkja.

[56] Gunnar Kristjánsson, „Kirkja og kristni á seinni hluta 20. aldar“, 332.

[57] ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989. B/0053 B – Bréfasafn 1943 – 1957.

[58]Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II,  53.

[59] ÞÍ. AA/008. Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 0000-021. Bls. 184.

[60] ÞÍ. B/60-4. Bessastaðakirkja 1957-1980.

[61] Minjastofnun.is  Sótt 27.04.21  https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/hofudborgarsvaedid/nr/445.

[62] Fundargerðabók Bessastaðasóknar 1986-1996, bls. 21.

[63] Kirkjur Íslands 12, Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II,  45.

Heimildaskrá

Anna Ólafsdóttir Björnsson. Álftaness saga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík: Þjóðsaga 1996.

Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir og Jón Proppé. Íslens listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. 3. bindi. Abstraktlist. Reykjavík: Listasafn Íslands og Forlagið, 2011.

Ásgeir Ásgeirsson. Ávarp forseta Íslands í Bessastaðakirkju á hvítasunnudag, 9. júní 1957. Tölvubréf frá Örnólfi Thorssyni, 12.04.2021.

Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld. Drög að sögulegu yfirliti. 2. bindi. Reykjavík: Helgafell, 1973.

Hjalti Hugason og Jón Hnefill Aðalsteinsson. Íslensk þjóðmenning V: Trúarhættir – Norræn trú, kristni, þjóðtrú. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988.

Kirkjur Íslands, 12. bindi. Friðaðar kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi II. Ritnefnd Margrét Hallgrímsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson og Karl Sigurbjörnsson. Reykjavík: Húsfriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands, höfundar 2008 og Hið íslenska bókmenntafélag, 2008.

Fundargerðabók Bessastaðasafnaðar 1986-1996.

Gísli Sigurðsson. „Kirkjugluggarnir á Bessastöðum.“ Samvinnan, 1957, 11. – 12. tbl.  01.12.1957. Bls. 5

Gunnar Kristjánsson. „Kirkja og kristni á seinni hluta 20. aldar.“ Í Kristni á Íslandi IV. Bindi. Ritstj. Hjalti Hugason, bls. 332. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsfriðunarnefnd ríkisins, 1998.

Jón Þ. Þór. Saga Kjalarnessprófastsdæmis. Kjalarnessprófastsdæmi: Kjalarnessprófastsdæmi, 2000.

Karl Sigurbjörnsson. Táknmál trúarinnar. Leiðsögn um tákn og myndmál kristinnar trúar og tilbeiðslu. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, 1993.

„Minjastofnun Íslands“ Bessastaðakirkja. Myndband eftir Pétur Grétarsson. Sótt 27.04.21.  https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/hofudborgarsvaedid/nr/445

Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókafélag, 2020.

Pétur H. Ármannsson. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. Reykjavík: Hið íslenska bókafélag, 2014.

Steinar J. Lúðvíksson. Saga Garðabæjar frá landnámi til 2010 I. Álftaneshreppur hinn forni. Garðabær: Steinar J. Lúðvíksson, 2015.

Sölvi Sveinsson.Táknin í málinu. Reykjavík: Iðunn, 2011.

Vilhjálmur Þ. Gíslason. Bessastaðir. Þættir úr sögu höfuðbóls. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri, 1957.

Þór Magnússon. „„Vandalisminn“ í Bessastaðakirkju eða víti til varnaðar.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2002-2003. Ritstj. Mjöll Snæsdóttir. Bls. 60-61, 77

Þórir Stephensen. Dómkirkjan í Reykjavík. 1. Bindi: Byggingarsagan. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Dómkirkjan í Reykjavík, 1996.

Þjóðskjalasafn Íslands – Óútgefið efni:

Prófastar – Kjalarnesprófastsdæmi 000-021.

Kassi AA/008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti afh. 2002.

B/1644-6. Bessastaðakirkja 1946-1958.

Forsætisráðuneytið afh. 1989.

B/53-1. Bessastaðakirkja I, II og III. 1943-1957.

B/54-1. Bessastaðakirkja IV, V. 1957-1966.

Skrifstofa forseta Íslands afh.1994.

B/59-1. Bessastaðir 1944-1959.

B/60-4. Bessastaðakirkja 1957-1980.

B/61-1. Bessastaðakirkja, uppbygging hennar og hátíðarmessa. 1945-1956.

Skrifstofa forseta Íslands afh. 1968.

B/2/1/1 Bessastaðir 1944-1962.

Sendiráð Íslands í London afh. 1990-34.

B/1-3. Bessastaðakirkja 1947-1961.

B/57 1-2 Bessastaðakirkja 1961-1972.

Utanríkisráðuneytið afh. 1968.

B/2-1 Bessastaðir 1944-1962.

Aðalsteinn Ingólfssson, listfræðingur, var leiðbeinandi sr. Friðriks við ritun BA-ritgerðarinnar árið 2021 um sögu glugganna í Bessastaðakirkju. Hér má lesa ritgerðina í heild sinni í útgáfu Háskóla Íslands. 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir