Sennilega hefur ekkert stef úr Nýja testamentinu orðið jafn gjöfull efniviður fyrir listamenn eins og heilög kvöldmáltíð. Þar er af nógu að taka og hver listamaður hefur sinn hátt á við að setja þessa máltíð fram með sjónrænum hætti.

Benedikt Gunnarsson (1929-2018), listmálari, var fenginn til að mála altaristöflu í nýja kirkju á Breiðabólsstað á Skógarströnd sem var vígð 1973 en gamla kirkjan brann 1971. Myndefni gömlu altaristöflunnar sem brann var heilög kvöldmáltíð. Nýju altaristöfluna málaði Benedikt 1974 og fylgir hún þessari grein.

Altaristafla Benedikts er því hálfrar aldar gömul á þessu ári. Í sjálfu sér ekki hár aldur á altaristöflu þar sem myndefnið er heilög kvöldmáltíð en það var lang algengast allt frá fornu fari. Heilög kvöldmáltíð var einmitt myndefni altaristöflunnar sem brann með kirkjunni.

Þá er þess og að geta að altaristaflan er fyrsta opinbera kirkjulistaverk Benedikts.

Kvöldmáltíðarmyndin er nokkuð sígild í uppröðun sinni á lærisveinunum. Frelsarinn er fyrir miðju og aðrir sitja við borðið en einn stendur fyrir framan það.

Gjarnan er spurt: Hvar er Júdas, lærisveinninn sem sveik Jesú?

Listamenn hafa fylgt ýmsum hefðum þegar Júdas hefur verið málaður. Pyngjan er algengasta táknið en hann hafði sameiginlegan sjóð lærisveinanna í höndum sínum. Hann er oft með rautt hár sem vísar til vítisloga og í gulleitum kyrtli en gulur litur stendur fyrir græðgi. Hann er líka iðulega látinn standa fyrir framan borð og þá einsamall. Geislabaugar eru yfir öllum nema honum. Listamenn á öllum öldum hafa sett hann fram með sínum hætti sem hefur verið mótaður af hefðum, aldarfari og margbreytilegum listastraumum.

Ekki er fráleitt að álykta svo að Júdas sé fremst í myndinni, vinstra megin. Stendur einn og reigður á svip. Hann lætur vinstri hönd hvíla valdsmannslega á borðinu. Gulleitt klæði í höndum sem virðist pyngjulaga nær líkama hans nema þar sé daufur skuggi af pyngju. Hnífarnir tveir á borðinu vísa til hans – Júdas Ískaríot en seinna nafnið gæti þýtt: hnífakastari. Auk þess er svo að sjá sem Jesús horfi alvörufullum augum á hann. Þá er svo að sjá að fararsnið sé á Júdasi enda gekk hann út og hengdi sig.

Á altaristöflu Benedikts er enginn með geislabaug nema frelsarinn.

Geislabaugur frelsarans rennur að hluta til saman við breiðan afmarkaðan geisla á ólgandi úfnum himni. Hægri hönd hans er björt og blessandi (lat. benedictio latina). Listamanninum tekst það sem máli skiptir í altaristöflugerð og það er að frelsarinn er miðpunktur og frá honum stelur enginn senunni jafnvel þótt hann sé hnakkakerrtur og með þóttafullan svip. Auga þess sem horfir á myndina dregst að frelsaranum og ásjónu hans. Hann er alvörufullur á svip. Kannski er ástæða hins þungbúna andrúmslofts og alvörusvips á lærisveinunum orð Jesú við kvöldmáltíðina: „Einn af ykkur mun svíkja mig.“ (Matteusarguðspjall 26.21). Þau orð ollu því eflaust að hver leit á annan spurnaraugum og tortryggni gróf um sig í vinahópnum sem er nokkuð harðsnúið lið að sjá á altaristöflu Benedikts. Engir veifiskatar þar á ferð enda áttu flestir þeirra eftir að gjalda með lífi sínu fyrir trúna.

Allir á myndinni eru dökkhærðir og skeggjaðir. Bláleitir litatónar eru ríkjandi í klæðum margra þeirra. Í kirkjulist getur blár litur staðið fyrir margt, meðal annars von og traust.

Fimm kirkjur eru prýddar listaverkum eftir Benedikt: Breiðabólsstaðarkirkja, Keflavíkurkirkja (steindir gluggar), Háteigskirkja (mósaík-altaristafla og Maríumynd), Fáskrúðarbakkakirkja (steindir gluggar), Hábæjarkirkja í Þykkvabæ (steindir gluggar) og Suðureyrarkirkja (steindir gluggar).

Benedikt Gunnarsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1929 og lést 2018. Hann nam við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík, síðar við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, París og Madríd. Þá stundaði hann myndfræðilegar rannsóknir við Lourvre-safnið í París og Prado-safnið í Madríd. Benedikt var fjölhæfur listamaður. Eftir hann liggja portrettmyndir, steindir gluggar, altaristöflur, veggmyndir, afstraktverk en hann var einn af frumkvöðlum geómetríska afstraktsmálverksins hér á landi á sjötta áratug síðustu aldar. Benedikt myndskreytti og gerði káp­ur á fjölda bóka og tíma­rita, m. a. list­tíma­ritið Birt­ing. Hann sýndi verk sín á fjölmörgum listsýningum hér heima og heiman. Listasöfn hér á landi og í útlöndum eiga verk eftir hann. Benedikt kenndi víða myndlist og var dósent í þeim fræðum við Kennaraháskóla Íslands (nú menntavísindasvið Háskóla Íslands).

Benedikt var einn helsti brautryðjandi í íslenskri málaralist á sjötta áratug síðustu aldar og oft lýst sem hæfileikaríkasta listamanni sinnar kynslóðar og þá var á engan hallað.

Mjög athyglisvert viðtal við Benedikt þar sem hann ræðir trú og list má lesa í tímaritinu Bjarma, 5. tbl. 1998.

Í vinstra horn altaristöflunnar hefur listamaðurinn sett nafn sitt og ártal

Kirkjan brann

Breiðabólsstaðarkirkja á Skógarströnd á Snæfellsnesi brann til kaldra kola sunnudaginn 29. ágúst 1971.

Þennan dag var hvasst og fór eldurinn hratt um kirkjuna og engum grip tókst að bjarga úr henni.

Morgunblaðið ræddi við prestinn 31. ágúst 1971

Söfnuðurinn var kominn á staðinn og beið prestsins sem hafði tafist. Eldur varð skyndilega laus og engum vörnum var við komið. Fólkið horfði á kirkjuna sína brenna til grunna.

En hvað tafði för sr. Hjalta Guðmundssonar (1931-2001) í kirkjuna þennan sunnudag? Það var dálítið merkilegt. Á ferð hans til messugerðar á Breiðabólsstað vildi svo til að eldur kom upp í bíl hans. Hann náði að slökkva eldinn en í þann mund bárust honum fréttir af því að kirkjan stæði í ljósum logum.

Nú er messað í Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd tvisvar á ári, á jólum og páskum.

Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, skrifaði grein í Morgunblaðið og með henni birtist mynd af kirkjunni í ljósum logum. Sr. Sigurbjörn þjónaði Skógstrendingum 1938-1941.

 

Í Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd                                                   

Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd – klukknaóm hennar má heyra á vefnum Kirkjuklukkur Íslands

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sennilega hefur ekkert stef úr Nýja testamentinu orðið jafn gjöfull efniviður fyrir listamenn eins og heilög kvöldmáltíð. Þar er af nógu að taka og hver listamaður hefur sinn hátt á við að setja þessa máltíð fram með sjónrænum hætti.

Benedikt Gunnarsson (1929-2018), listmálari, var fenginn til að mála altaristöflu í nýja kirkju á Breiðabólsstað á Skógarströnd sem var vígð 1973 en gamla kirkjan brann 1971. Myndefni gömlu altaristöflunnar sem brann var heilög kvöldmáltíð. Nýju altaristöfluna málaði Benedikt 1974 og fylgir hún þessari grein.

Altaristafla Benedikts er því hálfrar aldar gömul á þessu ári. Í sjálfu sér ekki hár aldur á altaristöflu þar sem myndefnið er heilög kvöldmáltíð en það var lang algengast allt frá fornu fari. Heilög kvöldmáltíð var einmitt myndefni altaristöflunnar sem brann með kirkjunni.

Þá er þess og að geta að altaristaflan er fyrsta opinbera kirkjulistaverk Benedikts.

Kvöldmáltíðarmyndin er nokkuð sígild í uppröðun sinni á lærisveinunum. Frelsarinn er fyrir miðju og aðrir sitja við borðið en einn stendur fyrir framan það.

Gjarnan er spurt: Hvar er Júdas, lærisveinninn sem sveik Jesú?

Listamenn hafa fylgt ýmsum hefðum þegar Júdas hefur verið málaður. Pyngjan er algengasta táknið en hann hafði sameiginlegan sjóð lærisveinanna í höndum sínum. Hann er oft með rautt hár sem vísar til vítisloga og í gulleitum kyrtli en gulur litur stendur fyrir græðgi. Hann er líka iðulega látinn standa fyrir framan borð og þá einsamall. Geislabaugar eru yfir öllum nema honum. Listamenn á öllum öldum hafa sett hann fram með sínum hætti sem hefur verið mótaður af hefðum, aldarfari og margbreytilegum listastraumum.

Ekki er fráleitt að álykta svo að Júdas sé fremst í myndinni, vinstra megin. Stendur einn og reigður á svip. Hann lætur vinstri hönd hvíla valdsmannslega á borðinu. Gulleitt klæði í höndum sem virðist pyngjulaga nær líkama hans nema þar sé daufur skuggi af pyngju. Hnífarnir tveir á borðinu vísa til hans – Júdas Ískaríot en seinna nafnið gæti þýtt: hnífakastari. Auk þess er svo að sjá sem Jesús horfi alvörufullum augum á hann. Þá er svo að sjá að fararsnið sé á Júdasi enda gekk hann út og hengdi sig.

Á altaristöflu Benedikts er enginn með geislabaug nema frelsarinn.

Geislabaugur frelsarans rennur að hluta til saman við breiðan afmarkaðan geisla á ólgandi úfnum himni. Hægri hönd hans er björt og blessandi (lat. benedictio latina). Listamanninum tekst það sem máli skiptir í altaristöflugerð og það er að frelsarinn er miðpunktur og frá honum stelur enginn senunni jafnvel þótt hann sé hnakkakerrtur og með þóttafullan svip. Auga þess sem horfir á myndina dregst að frelsaranum og ásjónu hans. Hann er alvörufullur á svip. Kannski er ástæða hins þungbúna andrúmslofts og alvörusvips á lærisveinunum orð Jesú við kvöldmáltíðina: „Einn af ykkur mun svíkja mig.“ (Matteusarguðspjall 26.21). Þau orð ollu því eflaust að hver leit á annan spurnaraugum og tortryggni gróf um sig í vinahópnum sem er nokkuð harðsnúið lið að sjá á altaristöflu Benedikts. Engir veifiskatar þar á ferð enda áttu flestir þeirra eftir að gjalda með lífi sínu fyrir trúna.

Allir á myndinni eru dökkhærðir og skeggjaðir. Bláleitir litatónar eru ríkjandi í klæðum margra þeirra. Í kirkjulist getur blár litur staðið fyrir margt, meðal annars von og traust.

Fimm kirkjur eru prýddar listaverkum eftir Benedikt: Breiðabólsstaðarkirkja, Keflavíkurkirkja (steindir gluggar), Háteigskirkja (mósaík-altaristafla og Maríumynd), Fáskrúðarbakkakirkja (steindir gluggar), Hábæjarkirkja í Þykkvabæ (steindir gluggar) og Suðureyrarkirkja (steindir gluggar).

Benedikt Gunnarsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1929 og lést 2018. Hann nam við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík, síðar við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, París og Madríd. Þá stundaði hann myndfræðilegar rannsóknir við Lourvre-safnið í París og Prado-safnið í Madríd. Benedikt var fjölhæfur listamaður. Eftir hann liggja portrettmyndir, steindir gluggar, altaristöflur, veggmyndir, afstraktverk en hann var einn af frumkvöðlum geómetríska afstraktsmálverksins hér á landi á sjötta áratug síðustu aldar. Benedikt myndskreytti og gerði káp­ur á fjölda bóka og tíma­rita, m. a. list­tíma­ritið Birt­ing. Hann sýndi verk sín á fjölmörgum listsýningum hér heima og heiman. Listasöfn hér á landi og í útlöndum eiga verk eftir hann. Benedikt kenndi víða myndlist og var dósent í þeim fræðum við Kennaraháskóla Íslands (nú menntavísindasvið Háskóla Íslands).

Benedikt var einn helsti brautryðjandi í íslenskri málaralist á sjötta áratug síðustu aldar og oft lýst sem hæfileikaríkasta listamanni sinnar kynslóðar og þá var á engan hallað.

Mjög athyglisvert viðtal við Benedikt þar sem hann ræðir trú og list má lesa í tímaritinu Bjarma, 5. tbl. 1998.

Í vinstra horn altaristöflunnar hefur listamaðurinn sett nafn sitt og ártal

Kirkjan brann

Breiðabólsstaðarkirkja á Skógarströnd á Snæfellsnesi brann til kaldra kola sunnudaginn 29. ágúst 1971.

Þennan dag var hvasst og fór eldurinn hratt um kirkjuna og engum grip tókst að bjarga úr henni.

Morgunblaðið ræddi við prestinn 31. ágúst 1971

Söfnuðurinn var kominn á staðinn og beið prestsins sem hafði tafist. Eldur varð skyndilega laus og engum vörnum var við komið. Fólkið horfði á kirkjuna sína brenna til grunna.

En hvað tafði för sr. Hjalta Guðmundssonar (1931-2001) í kirkjuna þennan sunnudag? Það var dálítið merkilegt. Á ferð hans til messugerðar á Breiðabólsstað vildi svo til að eldur kom upp í bíl hans. Hann náði að slökkva eldinn en í þann mund bárust honum fréttir af því að kirkjan stæði í ljósum logum.

Nú er messað í Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd tvisvar á ári, á jólum og páskum.

Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, skrifaði grein í Morgunblaðið og með henni birtist mynd af kirkjunni í ljósum logum. Sr. Sigurbjörn þjónaði Skógstrendingum 1938-1941.

 

Í Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd                                                   

Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd – klukknaóm hennar má heyra á vefnum Kirkjuklukkur Íslands

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir