Tveggja morðingja milli…[1]

Það er við hæfi i lok kyrruviku að fjalla um verk Albrechts Dürers (1471-1528): Harmkvælamaðurinn (þ. Christus als Schmerzensmann) sem er frá árinu 1493. Þetta er lítið verk (30×19 sm) á stærð, olíuverk á við. Verkið er í eigu Karslsruhe, Staatlicher Kunsthalle í Karlsruhe, Þýskalandi.

Með hjálp listfræðilegra greiningaraðferða[2] verður vikið að listaverkinu frá 1493 og síðan spurt til hverra nota verk af þessu tagi hafi verið. Enn fremur: tjáðu slík verk þunglyndi fólks og drógu fram samlíðunarkennd?

Albrecht Dürer var endurreisnarmaður og aðal myndlistarmaður siðbótarinnar í Þýskalandi og stuðningsmaður Marteins Lúthers.[3] Hann er einn meisturum listasögunnar sem menn þreytast aldrei á að velta fyrir sér og greina verk hans.

Nafn verksins er sótt til spádómsbókar Jesaja þar sem talað er um harmkvælamanninn.[4]

Harmkvælamaðurinn er sem sé stef í kristinni menningu Vesturlanda, myndlist og bókmenntum. Það er stefið um hinn hrjáða mann þar sem fengist er við mennskuna. Dæmi um þetta eru Fávitinn í samnefndri bók eftir Dostojevský og Ólafur Kárason Ljósvíkingur í Heimsljósi Halldórs Laxness.[5] Harmkvælamaðurinn hefur og birst í kvikmyndum sem kristsgervingur eða jesúgervingur með tilvísunum til meistarans, lífs hans og örlaga.[6] Í því sambandi er stundum talað um helgimyndafræði þjáninga sem eiga sér bæði rætur í bókmenntum, samfélagi og trúarbrögðum. Susan Sonntag skrifaði svo: „Áhorfandinn kann að vorkenna hinum þjáða í kvölum hans – og þar sem kristnu dýrlingarnir eru annars vegar finnst honum hann jafnvel fá áminningu eða hugljómun um fyrirmyndartrú og sálarþrek…“[7]

Trúarbrögð fela í sér ákveðna hugmyndafræði sem mótast í sögu og menningu. Fyrr á öldum hafði kirkjan mikið um það að segja hvernig hugmyndafræðinni var miðlað áfram en hún munstraði „myndina í þjónustu sína sem auglýsingatæki“ og myndlistin tók að sér gegn þóknun að auglýsa „trúarkenningar kirkjunnar“ enda voru trúarbrögðin orðin „stóriðjufyrirtæki.“ [8] Listamenn áttu mikið undir kirkju og aðli hvað vinnu snerti.[9]

Hugmyndafræðin sem þetta verk Dürers á rætur sínar í er kristin trú sem var í mikilli deiglu á tíma listamannsins. Enda þótt hann væri mjög svo ötull fylgismaður siðbótarinnar var verk þetta gert nokkru áður en áhrifa siðbótarinnar fór að gæta. Hugmyndafræðilegt stef myndarinnar er sígilt og fellur í flokk með harmkvælamyndum. Listasagan geymir fjölda mynda af svipuðum toga.

Listaverkið skoðað

Þegar listaverkið er virt fyrir sér í heild sinni (og sú athugun kallast í listfræði foríkónógrafísk greining, eðlileg merking) sést maður sem horfir í augu þess er virðir verkið fyrir sér. Hann er með blóðslettur á líkamanum og heldur á einhverjum áhöldum. Svipur hans er kannski ögn þunglyndislegur.

Með nánari athugun (sem er íkónógrafísk, hefðbundin merking) sést að hér er um að ræða mynd af Jesú Kristi. Verkið sýnir hann með hönd undir kinn, vinstri hönd snertir svipuskaft sem liggur ofan á hrísvendi. Hægri hönd hvílir á hægra hné sem nemur við einhvers konar brík og á henni hvílir fremur máttvana frekar en afslöppuð vinstri hönd. Hann er með þyrnikórónu og síðusárið sést sem og blóðslettur á handlegg, hægri fæti, bringu og öxl. Með lendaskýlu en naflinn sést. Naglaför á höndum hans eru sjáanleg, sérstaklega á þeirri hægri. Kristur er all stæltur og horfir út úr myndinni í augu þess sem stendur fyrir framan hana. Gullinn rammi hvolfist íbjúgur að hálfu leiti yfir myndflötinn svo minnir á íkón. Þessi rammi gæti vísað til grafar að gyðinglegum sið en þær voru oft hellar[10] og voru innangengnar.[11] Í þessum  gullna fleti má sjá tákn eins og uglu en háðskur svipur hennar ber með sér fyrirlitningu. Uglan er hvort tveggja tákn fyrir Satan sem situr í myrkri og leggur gildrur fyrir aðra fugla sem og Krist sjálfan sem lýsir upp myrkrið og þau sem þar sitja.[12] (1Mósebók 3.17-18.[13]) Það má líka telja að þessi fugl sé fuglinn fönix sem var tákn um upprisuna meðal hinna fyrstu kristnu og á miðöldum tákn um krossfestinguna.[14] Þistilbrumhnappur stendur fyrir sorgir manneskjunnar og vísar sömuleiðis til þjáningarinnar (þyrnikórónan).[15]

Þegar myndin er skoðuð út frá þriðja greiningarhluta þar sem leitað er eiginlegrar merkingar (heitir í listfræði íkónólógísk túlkun) er þetta að segja: Þegar litið er til verksins með þau stef í huga sem koma einatt fyrir í myndlist eins og hugmyndafræði, listsögu, táknfræði og túlkunarfræði: Það er sérstakt við þessa mynd að í henni fléttast saman trúartáknið hinn krossfesti og upprisni Kristur. Hann situr fyrir framan gröfina sem merkir að hún er tóm, hann er upprisinn. Samt er hann hinn krossfesti og ber öll merki þess. Hinn krossfesti er risinn upp frá dauðum. Eftir píslir og háðung sem listir Vesturlanda hafa tekið á með ýmsum hætti í myndum og máli.

Táknin tengjast öll sögu harmkvælamannsins eins og hún er rakin í trúartextum kristninnar. Þau eru hluti af píslarsögunni sem lesa má um í guðspjöllunum.[16] Þyrnikórónan er háðung þess er sagðist vera konungur, hrísvöndurinn segir að hann hafi verið sleginn og svipan að hann hafi mátt þola högg hennar. Allt eru þetta tákn um það sem harmkvælamaðurinn gengur í gegnum. Auk þess síðusárið sem tákn og blóðið. Þá er hægt að spyrja hvað hinn íhuguli svipur harmkvælamannsins merkir og að hann skuli horfa beint í augu þess sem á lítur. Ég þjáist með þér? Eða: Sérð þú þjáningu mína – hún er ekki fjarri þinni.

Myndformið harmkvælamaðurinn á sér fyrirmynd í býsanskri íkonalist. Í Evrópu var latneska hugtakið Imago pietatis (Mynd hörmunganna) notað um þetta form. Myndir af þessu tagi voru notaðar sem bænamyndir, (þ. Andachtsbild). Stefið um harmkvælamanninn náði þó aldrei að verða jafn algengt og krossfestingarstefið. Harmkvælamaðurinn er þjáningarportrett og var notað í helgihaldi kirkjunnar og einstaklinga. Mikill fjöldi mynda af þessu tagi er til frá miðöldum og síðar. Margir listamenn hafa spreytt sig á gerð þeirra.[17] Sjálfur glímdi Dürer oft við þetta mótíf.[18]

Þá er komið að því að kveða upp úr um með það hvort verkið endurspegli þunglyndi.

Lífeðlisfræði miðalda kenndi að líkaminn byggi yfir fjórum eigindum sem settu mark sitt á skaphöfn mannsins. Þar var meðal annars svartagall sem talið var valda þunglyndi og bölsýni.[19] Það má og bæta við skýringuna: „Magnleysi, einsemd, kvíði og depurð.“[20]

Það er sem Kristur hafi stigið um stund ofan af krossinum og gefið sér tíma til að ræða við einhvern sem gengur í gegnum þjáningu og sampínist með honum. Eins og hann sé í hvíld eða í hléi. Horfir fast í augu hans – í augu þjáningar- bróður eða systur? Kannski hefur þetta augnaráð orðið til þess að myndin varð svo kölluð andaktsmynd, einhvers konar íkon eins og áður sagði. Það er form myndarinnar og hlutverk.

Fyrst verður að túlka andlit meistarans hvort það beri með sér þunglyndislegan svip eða vonlítinn. Vissulega er þetta huglægt mat eins og svo margt annað þegar kemur að túlkun. Svipurinn er að minni hyggju fremur hlutlaus, ögn þunglyndislegur, þreytulegur, ekki vonlaus; frekar svona eins og stund milli stríða. Líkami hans ber merki pyntinga en þrátt fyrir það er hann svo að segja fullur fjörs.

Kannski kemur það heim og saman við það ef verkið er túlkað svo að þarna sé hann upprisinn enda þótt tákn písla og harðúðar fylgi myndinni.

Niðurstaðan er sem sé sú að þetta sé þunglyndisverk af Kristi sem Dürer gerði 1493.

En hvað með samlíðunina?

Samlíðunin er hugtak sem nær til þess að Jesús Kristur hafi sampínst mannkyni í jarðvistarlífi sínu og náði hún hámarki í krossfestingunni. Þessi mynd sýnir ekki aðeins þunglyndan frelsara heldur og þann sem hefur sampínst. Öll þjáning píslargöngunnar sést á myndinni í harmkvælamanninum, þeim sem leið með öðrum. Þjáningin er handan tíma og rúms þeirra píslarsöguatburða sem guðspjöllin rekja og gengur með augnasvip Krists á myndinni inn í tíma yfirstandandi þjáningar heims og manns. Myndin hefur allt það til að bera sem telst til þjáningarverks í þessum listaverkaflokki.[21] Þessi samlíðunarkennd er skynjuð á „dulfræðilegan hátt“ og fyrir tilstilli hennar má „heyra stunur fólks“ yfir margvíslegu óréttlæti.[22]

Hér norður við Ballarhaf var það Hallgrímur Pétursson sem orti um pínu lausnarans og sampíndist honum – og frelsarinn með honum. Varla er hægt að hugsa sér meiri niðurlægingu en þá sem beið meistarans frá Nasaret. Píslarsagan greinir frá því. Í þessu sambandi má geta um undirfyrirsögn þessarar greinar: Tveggja morðingja milli. Hún er sótt í Passíusálm 33.5:

Tveggja morðingja á milli
miskunnar herrann hékk,
spádóminn frá eg að fylli,
sem fyrr meir um það gekk.
Ræðir svo ritning þekk:
Þjón minn, sá einn útvalinn,
er með spillvirkjum talinn,
forsmán mjög þunga fékk.[23]

Það var ekki aðeins að meistari andans væri hæddur og tekinn af lífi heldur var hann festur upp á milli tveggja illræðismanna. Á vissan hátt standa þeir annars vegar fyrir brigðult og hins vegar vonarríkt mannkyn vegna orðanna er hrutu af vörum þeirra á þessari ögurstundu lífsins. Annar formælti meistaranum meðan hinn bað hann minnast sín og fékk það svar að þann dag skyldi hann vera með meistara sínum í Paradís.[24]

Tilvísanir

[1] Hallgrímur Pétursson, Passíusálmararnir – útgáfa og leiðsögn: Mörður Árnason, 92. útg., (Reykjavík: Crymogea,  2015), hér sálmur 33. 5., 415.

[2] Einkum hinnar íkónografísku, sjá Richard Howellls og Joaquim Negrerios, Visual Culture, (Medford: Polity Press, 2019), 11-35 – og hinnar túlkunarfræðilegu, 147-163.

[3] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr siðbótarsögu, (Reykjavík: HÍB, 2014), 123.

[4] Biblían: Jesajabók 53.3-6 (11. íslenska útgáfan): „Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann,/harmkvælamaður og kunnugur þjáningum,/líkur manni sem menn byrgja augu sín fyrir,/fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. /En vorar þjáningar voru það sem hann bar /og vor harmkvæli er hann á sig lagði. /Vér álitum honum refsað, /hann sleginn og niðurlægðan af Guði./En hann var særður vegna vorra synda, /kraminn vegna vorra misgjörða. /Honum var refsað svo að vér fengjum frið /og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir. /Vér fórum allir villir vegar sem sauðir,/héldum hver sína leið /en Drottinn lét synd vor allra /koma niður á honum.” – Einnig má vísa til harmkvælamannsins Jobs sem segir frá í Jobsbók.

[5] Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið – persónur í verkum Halldórs Laxness, (Reykjavík: Mál og menning, 2002), 115. Einnig: Tímarit Máls og menningar, „Úr heimi Ljósvíkingsins,“ 1. tbl. (Reykjavík: Mál og menning: 1982), 9-36.

[6] Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kristur á hvíta tjaldinu: Um túlkun á persónu og boðskap Jesú Krists í kvikmyndum,“ Guð á hvíta tjaldinu – Trúar- og biblíustef í kvikmyndum, (Reykjavík: Háskólaútgáfan: 2001), 52-53.

[7] Susan Sontag, Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson, (Reykjavík: HÍB, 2006), 63-64.

[8] Halldór Kiljan Laxness, „Myndir,“ í Alþýðubókinni, (Reykjavík: 5. útg., Helgafell, 1956), 110. Hér má líka benda á að rómversk-kaþólska kirkjan hafði mikil tök á helstu listamönnum endurreisnarinnar eins og rakið er í bókinni: Die Päpste und ihre Maler – von Raffael bis Tizian, eftir Robero Zapperi, (München: Verlag C. H. Beck), 2014. Margir páfar og kardínálar voru miklir listaverkasafnarar.

[9] Woods, W. Kim, ritstj. Art and Visual Culture 1100-1600 – Medieval to Renaissance, (London: Tate Publishing), 2013, 9.

[10] A. C. Bouquet, Daglegt líf á dögum Krists, dr. Jakob Jónsson þýddi, (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1977), 168.

[11] Biblían 2007, Lúkasarguðspjall 23.53.

[12] George Ferguson, Signs and Symbols in Christian Art, (London: Oxford University Press, 1976), 23.

[13] Biblían (11. íslenska útgáfan): „Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar/og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af,/þá sé akurlendið bölvað þín vegna./Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því/alla þína ævidaga./Þyrna og þistla skal landið gefa af sér/og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.“

[14] James Hall, Dictionary of Subject and Symbols in Art, (London: John Murray, 1987), 246.

[15] George Ferguson, Signs and Symbols in Christian Art, (London: Oxford University Press, 1976), 38.

[16] Biblían (11. íslenska útgáfan) Matteusarguðspjall 27, Markúsarguðspjall 15, Lúkasarguðspjall 22-23, og Jóhannesarguðspjall 18-19.

[17] Puglise, Catherine og L. Barcham, William, ritstj., Mitchel B. Merback, „The Man of Sorrows in Northern Europe: Ritual Metaphor and Therapeutic Exchange,“ í New Perspectives on the Man of Sorrows – Studies in Iconography Themes and Variations, (Kalamazoo: Medevial Institue Publication, 2013), 77-78.

[18] Puglise, Catherine og L. Barcham, William, ritstj., „The Man of Sorrows in Northern Europe: Ritual Metaphor and Therapeutic Exchange,“ í New Perspectives on the Man of Sorrows – Studies in Iconography Themes and Variations,, (Kalamazoo: Medevial Institue Publication, 2013), 110.

[19] James Hall, Dictionary of Subject and Symbols in Art, (London: John Murray, 1987), 130-131.

[20] Ástráður Eysteinsson, „Myndbrot frá barnæsku,“ Skírnir – Haust, (Reykjavík: HÍB, 1990), 479.

[21] Johann Eckart von Borries, Albrecht Dürer, Christus als Schmerzensmann, (Karlsrue ? 1972), 9.

[22] Halldór Laxness, „Inngángur að Passíusálmum,“ Vettvángur dagsins, (Reykjavík: Helgafell, 1979), 23.

[23] Hallgrímur Pétursson, Passíusálmararnir – útgáfa og leiðsögn: Mörður Árnason, 92. útg., (Reykjavík: Crymogea,  2015), hér sálmur 33. 5., 415.

[24] Biblían. Lúkasarguðspjall 23.39-43 (11. íslenska útgáfan).

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Tveggja morðingja milli…[1]

Það er við hæfi i lok kyrruviku að fjalla um verk Albrechts Dürers (1471-1528): Harmkvælamaðurinn (þ. Christus als Schmerzensmann) sem er frá árinu 1493. Þetta er lítið verk (30×19 sm) á stærð, olíuverk á við. Verkið er í eigu Karslsruhe, Staatlicher Kunsthalle í Karlsruhe, Þýskalandi.

Með hjálp listfræðilegra greiningaraðferða[2] verður vikið að listaverkinu frá 1493 og síðan spurt til hverra nota verk af þessu tagi hafi verið. Enn fremur: tjáðu slík verk þunglyndi fólks og drógu fram samlíðunarkennd?

Albrecht Dürer var endurreisnarmaður og aðal myndlistarmaður siðbótarinnar í Þýskalandi og stuðningsmaður Marteins Lúthers.[3] Hann er einn meisturum listasögunnar sem menn þreytast aldrei á að velta fyrir sér og greina verk hans.

Nafn verksins er sótt til spádómsbókar Jesaja þar sem talað er um harmkvælamanninn.[4]

Harmkvælamaðurinn er sem sé stef í kristinni menningu Vesturlanda, myndlist og bókmenntum. Það er stefið um hinn hrjáða mann þar sem fengist er við mennskuna. Dæmi um þetta eru Fávitinn í samnefndri bók eftir Dostojevský og Ólafur Kárason Ljósvíkingur í Heimsljósi Halldórs Laxness.[5] Harmkvælamaðurinn hefur og birst í kvikmyndum sem kristsgervingur eða jesúgervingur með tilvísunum til meistarans, lífs hans og örlaga.[6] Í því sambandi er stundum talað um helgimyndafræði þjáninga sem eiga sér bæði rætur í bókmenntum, samfélagi og trúarbrögðum. Susan Sonntag skrifaði svo: „Áhorfandinn kann að vorkenna hinum þjáða í kvölum hans – og þar sem kristnu dýrlingarnir eru annars vegar finnst honum hann jafnvel fá áminningu eða hugljómun um fyrirmyndartrú og sálarþrek…“[7]

Trúarbrögð fela í sér ákveðna hugmyndafræði sem mótast í sögu og menningu. Fyrr á öldum hafði kirkjan mikið um það að segja hvernig hugmyndafræðinni var miðlað áfram en hún munstraði „myndina í þjónustu sína sem auglýsingatæki“ og myndlistin tók að sér gegn þóknun að auglýsa „trúarkenningar kirkjunnar“ enda voru trúarbrögðin orðin „stóriðjufyrirtæki.“ [8] Listamenn áttu mikið undir kirkju og aðli hvað vinnu snerti.[9]

Hugmyndafræðin sem þetta verk Dürers á rætur sínar í er kristin trú sem var í mikilli deiglu á tíma listamannsins. Enda þótt hann væri mjög svo ötull fylgismaður siðbótarinnar var verk þetta gert nokkru áður en áhrifa siðbótarinnar fór að gæta. Hugmyndafræðilegt stef myndarinnar er sígilt og fellur í flokk með harmkvælamyndum. Listasagan geymir fjölda mynda af svipuðum toga.

Listaverkið skoðað

Þegar listaverkið er virt fyrir sér í heild sinni (og sú athugun kallast í listfræði foríkónógrafísk greining, eðlileg merking) sést maður sem horfir í augu þess er virðir verkið fyrir sér. Hann er með blóðslettur á líkamanum og heldur á einhverjum áhöldum. Svipur hans er kannski ögn þunglyndislegur.

Með nánari athugun (sem er íkónógrafísk, hefðbundin merking) sést að hér er um að ræða mynd af Jesú Kristi. Verkið sýnir hann með hönd undir kinn, vinstri hönd snertir svipuskaft sem liggur ofan á hrísvendi. Hægri hönd hvílir á hægra hné sem nemur við einhvers konar brík og á henni hvílir fremur máttvana frekar en afslöppuð vinstri hönd. Hann er með þyrnikórónu og síðusárið sést sem og blóðslettur á handlegg, hægri fæti, bringu og öxl. Með lendaskýlu en naflinn sést. Naglaför á höndum hans eru sjáanleg, sérstaklega á þeirri hægri. Kristur er all stæltur og horfir út úr myndinni í augu þess sem stendur fyrir framan hana. Gullinn rammi hvolfist íbjúgur að hálfu leiti yfir myndflötinn svo minnir á íkón. Þessi rammi gæti vísað til grafar að gyðinglegum sið en þær voru oft hellar[10] og voru innangengnar.[11] Í þessum  gullna fleti má sjá tákn eins og uglu en háðskur svipur hennar ber með sér fyrirlitningu. Uglan er hvort tveggja tákn fyrir Satan sem situr í myrkri og leggur gildrur fyrir aðra fugla sem og Krist sjálfan sem lýsir upp myrkrið og þau sem þar sitja.[12] (1Mósebók 3.17-18.[13]) Það má líka telja að þessi fugl sé fuglinn fönix sem var tákn um upprisuna meðal hinna fyrstu kristnu og á miðöldum tákn um krossfestinguna.[14] Þistilbrumhnappur stendur fyrir sorgir manneskjunnar og vísar sömuleiðis til þjáningarinnar (þyrnikórónan).[15]

Þegar myndin er skoðuð út frá þriðja greiningarhluta þar sem leitað er eiginlegrar merkingar (heitir í listfræði íkónólógísk túlkun) er þetta að segja: Þegar litið er til verksins með þau stef í huga sem koma einatt fyrir í myndlist eins og hugmyndafræði, listsögu, táknfræði og túlkunarfræði: Það er sérstakt við þessa mynd að í henni fléttast saman trúartáknið hinn krossfesti og upprisni Kristur. Hann situr fyrir framan gröfina sem merkir að hún er tóm, hann er upprisinn. Samt er hann hinn krossfesti og ber öll merki þess. Hinn krossfesti er risinn upp frá dauðum. Eftir píslir og háðung sem listir Vesturlanda hafa tekið á með ýmsum hætti í myndum og máli.

Táknin tengjast öll sögu harmkvælamannsins eins og hún er rakin í trúartextum kristninnar. Þau eru hluti af píslarsögunni sem lesa má um í guðspjöllunum.[16] Þyrnikórónan er háðung þess er sagðist vera konungur, hrísvöndurinn segir að hann hafi verið sleginn og svipan að hann hafi mátt þola högg hennar. Allt eru þetta tákn um það sem harmkvælamaðurinn gengur í gegnum. Auk þess síðusárið sem tákn og blóðið. Þá er hægt að spyrja hvað hinn íhuguli svipur harmkvælamannsins merkir og að hann skuli horfa beint í augu þess sem á lítur. Ég þjáist með þér? Eða: Sérð þú þjáningu mína – hún er ekki fjarri þinni.

Myndformið harmkvælamaðurinn á sér fyrirmynd í býsanskri íkonalist. Í Evrópu var latneska hugtakið Imago pietatis (Mynd hörmunganna) notað um þetta form. Myndir af þessu tagi voru notaðar sem bænamyndir, (þ. Andachtsbild). Stefið um harmkvælamanninn náði þó aldrei að verða jafn algengt og krossfestingarstefið. Harmkvælamaðurinn er þjáningarportrett og var notað í helgihaldi kirkjunnar og einstaklinga. Mikill fjöldi mynda af þessu tagi er til frá miðöldum og síðar. Margir listamenn hafa spreytt sig á gerð þeirra.[17] Sjálfur glímdi Dürer oft við þetta mótíf.[18]

Þá er komið að því að kveða upp úr um með það hvort verkið endurspegli þunglyndi.

Lífeðlisfræði miðalda kenndi að líkaminn byggi yfir fjórum eigindum sem settu mark sitt á skaphöfn mannsins. Þar var meðal annars svartagall sem talið var valda þunglyndi og bölsýni.[19] Það má og bæta við skýringuna: „Magnleysi, einsemd, kvíði og depurð.“[20]

Það er sem Kristur hafi stigið um stund ofan af krossinum og gefið sér tíma til að ræða við einhvern sem gengur í gegnum þjáningu og sampínist með honum. Eins og hann sé í hvíld eða í hléi. Horfir fast í augu hans – í augu þjáningar- bróður eða systur? Kannski hefur þetta augnaráð orðið til þess að myndin varð svo kölluð andaktsmynd, einhvers konar íkon eins og áður sagði. Það er form myndarinnar og hlutverk.

Fyrst verður að túlka andlit meistarans hvort það beri með sér þunglyndislegan svip eða vonlítinn. Vissulega er þetta huglægt mat eins og svo margt annað þegar kemur að túlkun. Svipurinn er að minni hyggju fremur hlutlaus, ögn þunglyndislegur, þreytulegur, ekki vonlaus; frekar svona eins og stund milli stríða. Líkami hans ber merki pyntinga en þrátt fyrir það er hann svo að segja fullur fjörs.

Kannski kemur það heim og saman við það ef verkið er túlkað svo að þarna sé hann upprisinn enda þótt tákn písla og harðúðar fylgi myndinni.

Niðurstaðan er sem sé sú að þetta sé þunglyndisverk af Kristi sem Dürer gerði 1493.

En hvað með samlíðunina?

Samlíðunin er hugtak sem nær til þess að Jesús Kristur hafi sampínst mannkyni í jarðvistarlífi sínu og náði hún hámarki í krossfestingunni. Þessi mynd sýnir ekki aðeins þunglyndan frelsara heldur og þann sem hefur sampínst. Öll þjáning píslargöngunnar sést á myndinni í harmkvælamanninum, þeim sem leið með öðrum. Þjáningin er handan tíma og rúms þeirra píslarsöguatburða sem guðspjöllin rekja og gengur með augnasvip Krists á myndinni inn í tíma yfirstandandi þjáningar heims og manns. Myndin hefur allt það til að bera sem telst til þjáningarverks í þessum listaverkaflokki.[21] Þessi samlíðunarkennd er skynjuð á „dulfræðilegan hátt“ og fyrir tilstilli hennar má „heyra stunur fólks“ yfir margvíslegu óréttlæti.[22]

Hér norður við Ballarhaf var það Hallgrímur Pétursson sem orti um pínu lausnarans og sampíndist honum – og frelsarinn með honum. Varla er hægt að hugsa sér meiri niðurlægingu en þá sem beið meistarans frá Nasaret. Píslarsagan greinir frá því. Í þessu sambandi má geta um undirfyrirsögn þessarar greinar: Tveggja morðingja milli. Hún er sótt í Passíusálm 33.5:

Tveggja morðingja á milli
miskunnar herrann hékk,
spádóminn frá eg að fylli,
sem fyrr meir um það gekk.
Ræðir svo ritning þekk:
Þjón minn, sá einn útvalinn,
er með spillvirkjum talinn,
forsmán mjög þunga fékk.[23]

Það var ekki aðeins að meistari andans væri hæddur og tekinn af lífi heldur var hann festur upp á milli tveggja illræðismanna. Á vissan hátt standa þeir annars vegar fyrir brigðult og hins vegar vonarríkt mannkyn vegna orðanna er hrutu af vörum þeirra á þessari ögurstundu lífsins. Annar formælti meistaranum meðan hinn bað hann minnast sín og fékk það svar að þann dag skyldi hann vera með meistara sínum í Paradís.[24]

Tilvísanir

[1] Hallgrímur Pétursson, Passíusálmararnir – útgáfa og leiðsögn: Mörður Árnason, 92. útg., (Reykjavík: Crymogea,  2015), hér sálmur 33. 5., 415.

[2] Einkum hinnar íkónografísku, sjá Richard Howellls og Joaquim Negrerios, Visual Culture, (Medford: Polity Press, 2019), 11-35 – og hinnar túlkunarfræðilegu, 147-163.

[3] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr siðbótarsögu, (Reykjavík: HÍB, 2014), 123.

[4] Biblían: Jesajabók 53.3-6 (11. íslenska útgáfan): „Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann,/harmkvælamaður og kunnugur þjáningum,/líkur manni sem menn byrgja augu sín fyrir,/fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. /En vorar þjáningar voru það sem hann bar /og vor harmkvæli er hann á sig lagði. /Vér álitum honum refsað, /hann sleginn og niðurlægðan af Guði./En hann var særður vegna vorra synda, /kraminn vegna vorra misgjörða. /Honum var refsað svo að vér fengjum frið /og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir. /Vér fórum allir villir vegar sem sauðir,/héldum hver sína leið /en Drottinn lét synd vor allra /koma niður á honum.” – Einnig má vísa til harmkvælamannsins Jobs sem segir frá í Jobsbók.

[5] Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið – persónur í verkum Halldórs Laxness, (Reykjavík: Mál og menning, 2002), 115. Einnig: Tímarit Máls og menningar, „Úr heimi Ljósvíkingsins,“ 1. tbl. (Reykjavík: Mál og menning: 1982), 9-36.

[6] Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kristur á hvíta tjaldinu: Um túlkun á persónu og boðskap Jesú Krists í kvikmyndum,“ Guð á hvíta tjaldinu – Trúar- og biblíustef í kvikmyndum, (Reykjavík: Háskólaútgáfan: 2001), 52-53.

[7] Susan Sontag, Um sársauka annarra, ísl. þýð. Uggi Jónsson, (Reykjavík: HÍB, 2006), 63-64.

[8] Halldór Kiljan Laxness, „Myndir,“ í Alþýðubókinni, (Reykjavík: 5. útg., Helgafell, 1956), 110. Hér má líka benda á að rómversk-kaþólska kirkjan hafði mikil tök á helstu listamönnum endurreisnarinnar eins og rakið er í bókinni: Die Päpste und ihre Maler – von Raffael bis Tizian, eftir Robero Zapperi, (München: Verlag C. H. Beck), 2014. Margir páfar og kardínálar voru miklir listaverkasafnarar.

[9] Woods, W. Kim, ritstj. Art and Visual Culture 1100-1600 – Medieval to Renaissance, (London: Tate Publishing), 2013, 9.

[10] A. C. Bouquet, Daglegt líf á dögum Krists, dr. Jakob Jónsson þýddi, (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1977), 168.

[11] Biblían 2007, Lúkasarguðspjall 23.53.

[12] George Ferguson, Signs and Symbols in Christian Art, (London: Oxford University Press, 1976), 23.

[13] Biblían (11. íslenska útgáfan): „Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar/og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af,/þá sé akurlendið bölvað þín vegna./Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því/alla þína ævidaga./Þyrna og þistla skal landið gefa af sér/og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.“

[14] James Hall, Dictionary of Subject and Symbols in Art, (London: John Murray, 1987), 246.

[15] George Ferguson, Signs and Symbols in Christian Art, (London: Oxford University Press, 1976), 38.

[16] Biblían (11. íslenska útgáfan) Matteusarguðspjall 27, Markúsarguðspjall 15, Lúkasarguðspjall 22-23, og Jóhannesarguðspjall 18-19.

[17] Puglise, Catherine og L. Barcham, William, ritstj., Mitchel B. Merback, „The Man of Sorrows in Northern Europe: Ritual Metaphor and Therapeutic Exchange,“ í New Perspectives on the Man of Sorrows – Studies in Iconography Themes and Variations, (Kalamazoo: Medevial Institue Publication, 2013), 77-78.

[18] Puglise, Catherine og L. Barcham, William, ritstj., „The Man of Sorrows in Northern Europe: Ritual Metaphor and Therapeutic Exchange,“ í New Perspectives on the Man of Sorrows – Studies in Iconography Themes and Variations,, (Kalamazoo: Medevial Institue Publication, 2013), 110.

[19] James Hall, Dictionary of Subject and Symbols in Art, (London: John Murray, 1987), 130-131.

[20] Ástráður Eysteinsson, „Myndbrot frá barnæsku,“ Skírnir – Haust, (Reykjavík: HÍB, 1990), 479.

[21] Johann Eckart von Borries, Albrecht Dürer, Christus als Schmerzensmann, (Karlsrue ? 1972), 9.

[22] Halldór Laxness, „Inngángur að Passíusálmum,“ Vettvángur dagsins, (Reykjavík: Helgafell, 1979), 23.

[23] Hallgrímur Pétursson, Passíusálmararnir – útgáfa og leiðsögn: Mörður Árnason, 92. útg., (Reykjavík: Crymogea,  2015), hér sálmur 33. 5., 415.

[24] Biblían. Lúkasarguðspjall 23.39-43 (11. íslenska útgáfan).

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir