„Reyndu ekki að vera fullkominn –
það er aðeins náttúran sem er fullkomin.“
[1]

 

Hér verða starfsaðferðir enska listamannsins Andy Goldsworthy (f. 1956) skoðaðar og þá með hvaða hætti hann sýnir náttúrunni virðingu með listsköpun sinni. Hann hefur starfað að listsköpun frá árinu 1976 – býr í Skotlandi.[2]

Í þessu samhengi verður hugtakið náttúra skilgreint og vikið að mögulegri skilgreiningu á hugtakinu virðing þegar um náttúruna ræðir. Loks verður leitast við að greina með hvaða hætti listamaðurinn auðsýnir náttúrunni virðingu. Þá niðurstaða.

Starfsaðferðir listamannsins: Listamaðurinn Goldsworthy sækir allan efnivið sinn til listsköpunar út í náttúruna hvort heldur þá hann gengur um skóglendi, með fram vatni eða uppi á fjöllum. Veður skiptir máli, staður, tími (t.d. í sjávarfallaverkum), nótt og dagur, árstíð og líðan. „Ég hef orðið þess áskynja hvernig náttúran tekur sífelldum breytingum og það er ákveðinn lykill til skilnings á henni. Ég vil að list mín sé næm og vakandi yfir öllum breytingum eftir árstíðum og veðri.“[3] Verk hans, náttúruskúlptúrar og innsetningar, eru mörg lítil um sig: úr laufblöðum, grjóti, steinvölum, stilkum og greinum, snjó og leir. Hin stærri verk eru hlaðin úr grjóti, trjágreinum- og drumbum. Stærri grjótverkin standa af sér veður og vinda eins og grjótkeilur og veggir; og réttin mikla í Cumbria svo dæmi séu nefnd.[4] Í flestum tilvikum lúta hin minni verk í lægra haldi fyrir veðrinu.

Ísnálarverk – lifandi verk þegar sólin bræðir það niður

Myndflötur hans er náttúran, eða öllu heldur ramminn. Dæmi: hann leggur tugi sölnaðra laufblaða í hring sem feykjast svo burt. Býr til grind úr stilkum og setur niður við tré eða á. Veður og vindar hremma svo verkið. Setur saman ísnálaverk. Hann ljósmyndar allt. Þar eru verkin eða öllu heldur ný verk. [5]

Hann hefur ákveðna sýn til efnisins sem hann vinnur með. Horfir ekki til þess hvernig efnið er heldur hvað það gerir; reynir að skilja það með því að renna svo að segja saman við sköpunarferlið – lifa sig inn í það; kannski andlegur samruni manns og hráefnis listarinnar „Ég get ekki skilið náttúruna án þess að þekkja hvort tveggja grjót og blóm. Ég vinn með hvort tveggja eins og það er – aflmikið á sinn hátt – hold og bein náttúrunnar. Eins er með lit. Hann er í augum mínum hvorki fallegur eða til skrauts – hann er hrein og klár orka. Hann hvílir ekki á yfirborðinu, ég rannsaka litinn í og kringum kletta, litur er form og rými,“ segir hann.[6] Efnið stendur ekki utan við hann heldur skapar hann í gegnum það, fyrir tilstilli þess. „Það er hægt að finna öll form í náttúrunni og það eru margir eiginleikar í hverju og einu þeirra. Ég vonast til þess að skilja heildarsamhengið með því að rannsaka þau.“[7] Saga þess er mikilvæg, lífsnauðsynlegt að taka á efninu, handfjatla það og umfaðma. Skilja styrkleika þess og veikleika. Vera með því. Hjá því. Finna kraft þess, dýnamík, rotnun, vöxt og flæði; hreyfing og verðandi eru hér lykilhugtök. Hann nálgast allan efnivið sinn af virðingu og auðmýkt. „Mér er ljóst að náttúran tekur sífelldum breytingum og þær eru lykillinn til að geta skilið hana,“ segir Goldsworthy.[8]

Verk hans eru aldrei skipulögð heldur koma til hans þegar hann gengur út í skóg eða annað. Þá er að geta þess að flest verkanna eru býsna hverful og geta horfið áður en varir, þess vegna myndar hann þau, skráir þau.[9] „Öll verk mín eru ljósmynduð, hvort sem þau eru góð eða slæm … það er ekki kjarni málsins hvort list er stöðug eða ekki. Andráin sem listaverk mín lifa endurspegla aðeins það sem ég sé í náttúrunni …“ segir hann.[10] Ljósmyndun minni verkanna er mikilvæg þar sem það er eina leiðin til að varðveita listaverkið og koma því áleiðis til áhorfandans. Þótt hann leggi sig fram um að skrá verkin með ljósmyndun þá hafa mörg þeirra farið fram hjá auga ljósmyndavélarinnar, glatast.[11] En ljósmyndin kemur aldrei í stað verksins sjálfs og þeirrar reynslu að njóta þess þar sem það er hverju sinni.[12]

Umhverfislistaverk hans verða til á staðnum sem áður sagði,[13] úti í náttúrunni og þar er þeim ætlað að vera.[14] Ekki inni á safni. Hann leitast við að gera sem minnst rask í náttúrunni þegar hann sækir efnivið í verk sín.[15] Sum verka hans hverfa meðan á vinnslu þeirra stendur vegna þess að veður hefur gert áhlaup.[16] Listaverkin eru á hreyfingu, fjúka, fljóta eða rotna. Þau hverfa eftir atvikum út í náttúruna – eru í fangi tímans. Hann segir verkin enda vera vinnu með tímahugtakið: „Ég hef alltaf verið áhugasamur um andartakið þegar verkið verður til.“[17] Jafnvel hin minni verk hans eru staðbundin umhverfislistaverk (e. site-specific) í þeim skilningi að þau eru sköpuð í byrjun á ákveðnum stað í náttúrunni enda þótt þau fari á ferð eða hverfi.

Steingarðurinn (e. Garden of Stone), minnismerki við menningarsafn Gyðinga í New York

Hin stærri verk hans sem standa þar sem þau eru sköpuð og kallast á við sinn stað og taka mörg hver algjörlega mið af staðnum – til dæmis fyrrnefnd rétt í Cumbria og minnismerki hans, Steingarðurinn (e. Stone Garden), um helför Gyðinga við The Museum of Jewish Heritage í New York.[18]

Andy Goldsworthy hefur ekkert á móti því að fólk fylgist með listsköpun hans úti í náttúrunni. Hann telur að áhorfendur geti haft áhrif á verkið eins og sjálft veðrið. Ekki er verra að hans mati að fólk skjóti upp kollinum þar sem hann er að störfum en það er í huga hans eins og skyndileg regnskúr eða snjókoma – hefur áhrif á verkið. Þess vegna má álykta að samband listamannsins og áhorfenda sé gott og skapandi.[19]

Gefum listamanninum sjálfum orðið til að draga saman:

„Ég vil komast undir yfirborðið. Þegar ég vinn með laufblað, vænan stein, trjágrein, þá er það ekki aðeins efnið í sjálfu sér heldur farvegur inn til lífsins og umhverfisins. Þegar ég hverf frá því heldur ferlið áfram.“[20]

Náttúran er sá ytri heimur sem maðurinn lifir og hrærist í, er hluti af og hann henni háður. Maðurinn er í náttúrunni. Náttúran er í kringum manninn – og setur honum ákveðinn ramma.

Náttúran er lífríkið. Ljóst er að óslitin lífkeðja náttúrunnar er skilyrði þess að líf haldist í náttúrunni. Náttúra og maður eiga það sameiginlegt að vera lifandi.

Náttúran nær til allrar veraldarinnar. Víðfeðmasta skilgreiningin væri sú að náttúran er heimurinn, lífið; lífríkið. Maðurinn hefur nýtt sér hana með hugviti sínu og rannsakað á umliðnum öldum. Niðurstöður rannsókna sinna hefur hann ekki ætíð virt jafnvel þótt honum mætti vera ljóst um afleiðingar þess. Reyndar hefur hann skákað í skjóli þess að í mörgu efni eru niðurstöður misvísandi og gengið að náttúrunni með eigin hagsmuni að leiðarljósi.[21]

Samskipti manns og náttúru eru náin. Umsvif mannsins í náttúrunni hafa áhrif, bæði til heilla og óheilla. Maðurinn á oft í átökum við náttúruna og hún reynist honum ofjarl á mörgum sviðum; á sama hátt og maðurinn hefur leikið náttúruna hart hefur hún einnig leikið manninn hart.

Þegar talað er um virðingu leitar hugurinn fljótt til mannlegs samfélags sem hefur lög og reglur þar sem meðal annars virðing kemur fyrir sem hluti af mannréttindum einstaklinga: Í hverju virðing sé fólgin, með hvaða hætti hún sé auðsýnd, kennd og innrætt í siðferðisgrunni samfélagsins. Lög samfélagsins endurspegla þetta. Á sama má lesa í lögum um vernd dýra, náttúru og skipulag, umhyggju og virðingu fyrir náttúrunni.[22]

Andy Goldsworthy tilheyrir umhverfislistahreyfingu sem spratt upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hlýnun jarðar, loftslagsfræði, græn pólitík, umhverfisstjórnmál, og tengsl alls þessa við hátæknisamfélag nútímans, iðnaðarsamfélagsins var í umræðudeiglu þessa tíma. Margir listamenn töldu það skyldu sína að bregðast umhverfinu til varnar með eindregnum og skeleggum hætti. Í þeirri viðleitni kom fram ábyrgðarkennd og virðing fyrir náttúrunni.[23] Goldsworthy var í þeim hópi.

Bandaríski siðfræðingurinn, Paul Taylor segir svo: „Lífverur náttúrunnar hafa allar sitt gildi einfaldlega í krafti þess að þær eru hluti af lífríkinu. Þetta gildi þeirra á ekki rætur í því að þær séu manninum nytsamlegar, honum til gleði og ánægju, til rannsókna og tilrauna.“[24]

Epli eru fræg úr trúar- og menningarsögunni – þau eru forgengileg enda þótt rauði litur þeirra tákni líf og kærleika

Þessi fullyrðing höfundar hefur sjálft lífið í forgrunni og hann segir að hverjar þær siðferðilegu skyldur sem við teljum okkur þurfa að standa við gagnvart öðrum mönnum nái og til lífríkisins, náttúrunnar í heild sinni. Hann tiltekur þó að lífverur náttúrunnar (ekki maðurinn, homo sapiens) hafi ekki siðferðileg réttindi með sama hætti og maðurinn. Lifandi náttúra býr yfir eiginleikum og gæðum sem óheimilt er að líta á að séu eingöngu manninum til nytja. Það er vegna náttúrunnar sjálfrar sem gæði hennar skulu efld eða vernduð. Á sama hátt og fram skuli koma af virðingu við menn skuli hið sama gilda um náttúru.[25]

Einnig telja sumir að samband sé á milli fagurfræðilegrar upplifunar á náttúrunni og virðingar. Af því leiði og siðferðilegar skyldur gagnvart náttúrunni.[26] Virðing er enda af siðferðilegum toga og telst vera dygð.

Lykilatriði virðingar fyrir náttúrunni er að vernda hana og fjölbreytni hennar í öllu tilliti. Til þess að svo megi verða þarf að fara að gát með alla nýtingu náttúruauðlinda. Keppikeflið er sjálfbær nýting auðlinda og náttúrugæða. Maðurinn er hluti af náttúrunni og er henni algerlega háður hvað alla framfærslu snerti.

Virðing felur í sér að hlusta og sýna umhyggju. Bregðast við og aðhafast ef hjálpar er þörf. Í sjálfu sér má segja að það sé samhljómur milli náttúruvirðingar og mannvirðingar að breyttu breytanda.

Hversdagsleg virðing felur í sér samskipti eftir óskrifuðum reglum en þær eiga þó heima innan hinna almennu siðgæðisreglna. Hversdagsleg virðing fyrir náttúrunni er fólgin í því að að láta sér annt um hana og vega ekki illa að henni. Í þessu sem öðru er hófsemd lykilatriði.

En það er líka önnur hlið á þessu. Náttúran eða lífríkið er eldra en maðurinn og þar af leiðandi í ákveðnum skilningi manninum æðra. Virðingarleysi gagnvart náttúrunni getur kostað útrýmingu margra tegunda sem er óviðunandi.[27]

Sýnir listamaðurinn náttúrunni virðingu eða ekki?

Hér kemur til athugunar hvaða áhöld (ef svo má segja) hægt er að nota til að kveða upp úr um með hvort virðing er sýnd fyrir einhverju tilteknu eða ekki.

Hvikult listaverk, abstrakt verk úr stráum sem fjúka svo burt og grotna

Ein leið er að skoða verk listamannsins og hvernig hann stendur að gerð þeirra.

Þá er og hægt að kanna hvernig hann talar um náttúruna og hvaða viðhorf hann hefur til hennar – sömuleiðis hvernig aðrir lýsa starfsaðferðum hans.

Í þriðja lagi er hægt að fylgjast með honum að listsköpun sinni úti í náttúrunni á myndböndum – eða ganga fram á hann við liststörf![28]

Eins og þegar hefur komið fram er efniviður hans fenginn úr náttúrunni. Verk hans eru stór og smá, sum hverfa fljótt en önnur ekki. Hann gengur ekki gegn náttúrunni í verkum sínum heldur tekur sér stöðu við hlið hennar. Verkin eru þess eðlis að þau eru hvikul og hverful, viðkvæm og veikburða. Listamaðurinn segir með verkum sínum að náttúran þurfi á umhyggju og vernd halda. Hún gefur líf, fegurð og nytjar.

Virðing listamannsins kemur fram í viðtölum sem hafa verið tekin við hann. Hann segir til dæmis:

„…ég á í nánu andlegu sambandi við náttúruna.“[29]

„Ég er hluti af náttúrunni, ég get ekki séð sjálfan mig í andstöðu við hana, og mér finnst það undarleg hugmynd að halda því fram að við séum aðskilin frá henni.“[30]

„Við snertum öll náttúruna og erum hluti af þessum gagnkvæmu samskiptum og breytingum, við reiðum okkur hvert á annað. Það er gott ef vel er gert, með virðingu, og ég fagna því með list minni: með því að snerta og sjá hvernig landslag breytist.“[31]

„Ég vinn úti í náttúrunni og vil bera ábyrgð á því sem landið lætur mér í té. Það gerir mig sennilega meira meðvitaðan um hvaða áhrif ég hef á landið og samúð mín með því vaknar vegna þessa.“[32]

Móti þessu gætu miklir efasemdarmenn fært þau rök að orð séu annað en verk; tilhneiging mannsins til að fegra gerðir sínar sé alkunn og að hegða sér á annan hátt þegar aðrir sjá. Því til svara er ekki annað en að benda á verk hans úti í náttúrunni og annars staðar og verður þá hver og einn að meta hvort höfundur þeirra virði náttúruna eða ekki með listsköpun sinni. Slíkt mat er að sönnu huglægt.

Listamaðurinn að störfum – hér vefur hann náttúrulistaverk úr stráum

Niðurstaða. Þegar sjálfstæði náttúrunnar er virt samkvæmt þeirri skilgreiningu sem kom hér að framan: hún hefur gildi sitt vegna sjálfrar sín og er ekki ætluð manninum fyrst og síðast til nytja, má segja að Andy Goldsworthy virði náttúruna enda þótt hann nýti hana alfarið til listsköpunar sinnar. Hvernig þá? Hann nýtir fallin og sölnuð laufblöð, ár og vötn, grjót og tré, jurtir og fleira úr náttúrunni. Það er allt tekið á staðnum og í langflestum tilvikum skilið þar eftir – eða í fangi náttúrunnar. Önnur verk, og þá einkum þau úr grjóti, eru tekin úr náttúrunni og sett upp annars staðar. Listiðja hans er sjálfbær. Orð hans um náttúruna lýsa virðingu og auðmýkt gagnvart henni. Þegar fylgst er með honum í myndböndum að störfum sést og hve hann gengur um náttúruna af virðingu og umhyggju.

Ekki er annað að sjá en Andy Goldsworthy virði náttúruna vel í liststörfum sínum. Hann áttar sig fyllilega á takmörkunum sínum og sér að enginn er fullkominn nema náttúran. Í ljósi þeirrar niðurstöðu vaknar önnur spurning, gömul og ný: Hvaðan er náttúran sprottin?

Tilvísanir

[1] Orð höfð eftir Jóhannesi Kjarval, í: Sigurður Benediktsson, „Hann sá og sigraði,“ Steinar og sterkir litir, svipmyndir 16 myndlistarmanna, (Reykjavík: Skálholt, 1965): 245.

[2] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[3] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 1.

[4] Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 11.

[5] Afar gott yfirlit um verk Goldsworthy er að finna: Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): engin blaðsíðutöl á myndasíðum.

[6] Andy Goldsworthy, Stone, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1994): 6.

[7] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 2.

[8] Andy Goldsworthy, Ice and snow drawings, (Edinborg: The FruitMarket Gallery, 1992): 40.

[9] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks“, Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021):19.

[10] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 3.

[11] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 10.

[12] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks,“ Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021): 19.

[13]Goldworthy segir: „…þú vinnur með staðinn sem er svo ríkur af tengslum milli fólksins og landsins og það auðgar hann gríðarlega. Hlaðinn veggur segir sína sögu af fólki sem var nátengt landinu. … ég er ekki í samfélagslegri herferð til að sannfæra fólk um gildi listar… auðvelt er að láta sum þessara verka fara fram hjá sér ef þú vilt ekki sjá þau.“ (Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 17-18.

[14] Æsa Sigurjónsdóttir, „Að lesa list – Hugleiðingar um tengsl sagnfræði, listasögu og búninga- og textílsögu“, Sagnir, 14. árg., 1. tbl. (1993), (Reykjavík: Sagnir©Félag sagnfræðinema við Háskóla Íslands, 1993): 44: „Listaverk er aldrei einangrað fyrirbæri og ekkert verður til úr engu. Að baki sérhvers verks er hugmynd, vinna og leit.“

[15] Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, „Introduction“, eftir Judith Collins, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[16] Andy Goldsworthy, Passage, (London: Thames&Hudson, 2004): 133.

[17] Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 15.

[18] Natasha Goldman, Memory Passages, Holocaust Memorials in the United States and Germany, (New York: Temple University Press, 2020): 169 -176.

[19] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[20] Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990): 160.

[21] Þessi skilgreining er höfundar. Náttúru-hugtakið má skilgreina með ýmsu móti, til dæmis er hér að finna skilgreiningu í þremur liðum (eðli skapaðra hluta, heimsöflin og hin sýnilega veröld): Páll Skúlason, „Inngangur“, Náttúrusýn – safn greina um siðfræði og náttúru, (Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknarstofnun í siðfræði: 1994): 14-15.

[22] Dæmi: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 1944. nr. 33. 17. júní; Lög um dýravernd, 1994 nr. 15. 16. mars; lög um náttúruvernd 2013 nr. 60 10. apríl; lög um landgræðslu 2018 nr. 155 21. desember. Sjá: Lagasafn Alþingis: Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) | Lög samþykkt á Alþingi | Alþingi (althingi.is) – sótt 14. júní 2023.

[23] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks“, Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021):19.

[24] Paul W. Taylor, Respect for nature – A Theory of Environmental Ethics, (Princeton University Press: New Jersey, 1986): 13.

[25] Sama, 13 og 81.

[26] „…upplifun af fegurð náttúrunnar leiðir til aðdáunar og virðingar og þannig verður til annars konar samband milli manns og náttúru en hið hefðbundna nytjasamband þar sem maðurinn nýtir náttúruna án nokkurra siðferðilegra takmarkana.“ Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Fagurfræði náttúrunnar“, Vá! – ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar, (Reykjavík: Heimspekistofnun: 2020): 44.

[27] Halldór Björnsson, „Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar,“ Skírnir, haust 2008, (Reykjavík: 2008): 302.

[28] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[29] Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990): 164

[30] Sama, 164.

[31] Sama, 164.

[32] Sama, 166.

Heimildir

Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks,“ Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021), Iași: Artes Publishing House, 2021.

Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987.

Andy Goldsworthy, Stone, New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1994.

Andy Goldsworthy, Ice and snow drawings, Edinborg: The FruitMarket Gallery, 1992.

Andy Goldsworthy, Passage, London: Thames&Hudson, 2004.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Fagurfræði náttúrunnar,“ Vá! – ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar, Reykjavík: Heimspekistofnun: 2020.

Halldór Björnsson, „Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar“, Skírnir, haust 2008, Reykjavík, 2008.

Lagasafn Alþingis: Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) | Lög samþykkt á Alþingi | Alþingi (althingi.is) – sótt 14. júní 2023.

Natasha Goldman, Memory Passages, Holocaust Memorials in the United States and Germany, New York: Temple University Press, 2020.

Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ártal.

Paul W. Taylor, Respect for nature – A Theory of Environmental Ethics, Princeton University Press: New Jersey, 1986.

Páll Skúlason, „Inngangur,“ Náttúrusýn – safn greina um siðfræði og náttúru, Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknarstofnun í siðfræði: 1994.

Sigurður Benediktsson, „Hann sá og sigraði“, Steinar og sterkir litir, svipmyndir 16 myndlistarmanna, Reykjavík: Skálholt, 1965.

Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Að lesa list – Hugleiðingar um tengsl sagnfræði, listasögu og búninga- og textílsögu“, Sagnir, 14. árg., 1. tbl., (1993), Sagnir©Félag sagnfræðinema við Háskóla Íslands, 1993.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

„Reyndu ekki að vera fullkominn –
það er aðeins náttúran sem er fullkomin.“
[1]

 

Hér verða starfsaðferðir enska listamannsins Andy Goldsworthy (f. 1956) skoðaðar og þá með hvaða hætti hann sýnir náttúrunni virðingu með listsköpun sinni. Hann hefur starfað að listsköpun frá árinu 1976 – býr í Skotlandi.[2]

Í þessu samhengi verður hugtakið náttúra skilgreint og vikið að mögulegri skilgreiningu á hugtakinu virðing þegar um náttúruna ræðir. Loks verður leitast við að greina með hvaða hætti listamaðurinn auðsýnir náttúrunni virðingu. Þá niðurstaða.

Starfsaðferðir listamannsins: Listamaðurinn Goldsworthy sækir allan efnivið sinn til listsköpunar út í náttúruna hvort heldur þá hann gengur um skóglendi, með fram vatni eða uppi á fjöllum. Veður skiptir máli, staður, tími (t.d. í sjávarfallaverkum), nótt og dagur, árstíð og líðan. „Ég hef orðið þess áskynja hvernig náttúran tekur sífelldum breytingum og það er ákveðinn lykill til skilnings á henni. Ég vil að list mín sé næm og vakandi yfir öllum breytingum eftir árstíðum og veðri.“[3] Verk hans, náttúruskúlptúrar og innsetningar, eru mörg lítil um sig: úr laufblöðum, grjóti, steinvölum, stilkum og greinum, snjó og leir. Hin stærri verk eru hlaðin úr grjóti, trjágreinum- og drumbum. Stærri grjótverkin standa af sér veður og vinda eins og grjótkeilur og veggir; og réttin mikla í Cumbria svo dæmi séu nefnd.[4] Í flestum tilvikum lúta hin minni verk í lægra haldi fyrir veðrinu.

Ísnálarverk – lifandi verk þegar sólin bræðir það niður

Myndflötur hans er náttúran, eða öllu heldur ramminn. Dæmi: hann leggur tugi sölnaðra laufblaða í hring sem feykjast svo burt. Býr til grind úr stilkum og setur niður við tré eða á. Veður og vindar hremma svo verkið. Setur saman ísnálaverk. Hann ljósmyndar allt. Þar eru verkin eða öllu heldur ný verk. [5]

Hann hefur ákveðna sýn til efnisins sem hann vinnur með. Horfir ekki til þess hvernig efnið er heldur hvað það gerir; reynir að skilja það með því að renna svo að segja saman við sköpunarferlið – lifa sig inn í það; kannski andlegur samruni manns og hráefnis listarinnar „Ég get ekki skilið náttúruna án þess að þekkja hvort tveggja grjót og blóm. Ég vinn með hvort tveggja eins og það er – aflmikið á sinn hátt – hold og bein náttúrunnar. Eins er með lit. Hann er í augum mínum hvorki fallegur eða til skrauts – hann er hrein og klár orka. Hann hvílir ekki á yfirborðinu, ég rannsaka litinn í og kringum kletta, litur er form og rými,“ segir hann.[6] Efnið stendur ekki utan við hann heldur skapar hann í gegnum það, fyrir tilstilli þess. „Það er hægt að finna öll form í náttúrunni og það eru margir eiginleikar í hverju og einu þeirra. Ég vonast til þess að skilja heildarsamhengið með því að rannsaka þau.“[7] Saga þess er mikilvæg, lífsnauðsynlegt að taka á efninu, handfjatla það og umfaðma. Skilja styrkleika þess og veikleika. Vera með því. Hjá því. Finna kraft þess, dýnamík, rotnun, vöxt og flæði; hreyfing og verðandi eru hér lykilhugtök. Hann nálgast allan efnivið sinn af virðingu og auðmýkt. „Mér er ljóst að náttúran tekur sífelldum breytingum og þær eru lykillinn til að geta skilið hana,“ segir Goldsworthy.[8]

Verk hans eru aldrei skipulögð heldur koma til hans þegar hann gengur út í skóg eða annað. Þá er að geta þess að flest verkanna eru býsna hverful og geta horfið áður en varir, þess vegna myndar hann þau, skráir þau.[9] „Öll verk mín eru ljósmynduð, hvort sem þau eru góð eða slæm … það er ekki kjarni málsins hvort list er stöðug eða ekki. Andráin sem listaverk mín lifa endurspegla aðeins það sem ég sé í náttúrunni …“ segir hann.[10] Ljósmyndun minni verkanna er mikilvæg þar sem það er eina leiðin til að varðveita listaverkið og koma því áleiðis til áhorfandans. Þótt hann leggi sig fram um að skrá verkin með ljósmyndun þá hafa mörg þeirra farið fram hjá auga ljósmyndavélarinnar, glatast.[11] En ljósmyndin kemur aldrei í stað verksins sjálfs og þeirrar reynslu að njóta þess þar sem það er hverju sinni.[12]

Umhverfislistaverk hans verða til á staðnum sem áður sagði,[13] úti í náttúrunni og þar er þeim ætlað að vera.[14] Ekki inni á safni. Hann leitast við að gera sem minnst rask í náttúrunni þegar hann sækir efnivið í verk sín.[15] Sum verka hans hverfa meðan á vinnslu þeirra stendur vegna þess að veður hefur gert áhlaup.[16] Listaverkin eru á hreyfingu, fjúka, fljóta eða rotna. Þau hverfa eftir atvikum út í náttúruna – eru í fangi tímans. Hann segir verkin enda vera vinnu með tímahugtakið: „Ég hef alltaf verið áhugasamur um andartakið þegar verkið verður til.“[17] Jafnvel hin minni verk hans eru staðbundin umhverfislistaverk (e. site-specific) í þeim skilningi að þau eru sköpuð í byrjun á ákveðnum stað í náttúrunni enda þótt þau fari á ferð eða hverfi.

Steingarðurinn (e. Garden of Stone), minnismerki við menningarsafn Gyðinga í New York

Hin stærri verk hans sem standa þar sem þau eru sköpuð og kallast á við sinn stað og taka mörg hver algjörlega mið af staðnum – til dæmis fyrrnefnd rétt í Cumbria og minnismerki hans, Steingarðurinn (e. Stone Garden), um helför Gyðinga við The Museum of Jewish Heritage í New York.[18]

Andy Goldsworthy hefur ekkert á móti því að fólk fylgist með listsköpun hans úti í náttúrunni. Hann telur að áhorfendur geti haft áhrif á verkið eins og sjálft veðrið. Ekki er verra að hans mati að fólk skjóti upp kollinum þar sem hann er að störfum en það er í huga hans eins og skyndileg regnskúr eða snjókoma – hefur áhrif á verkið. Þess vegna má álykta að samband listamannsins og áhorfenda sé gott og skapandi.[19]

Gefum listamanninum sjálfum orðið til að draga saman:

„Ég vil komast undir yfirborðið. Þegar ég vinn með laufblað, vænan stein, trjágrein, þá er það ekki aðeins efnið í sjálfu sér heldur farvegur inn til lífsins og umhverfisins. Þegar ég hverf frá því heldur ferlið áfram.“[20]

Náttúran er sá ytri heimur sem maðurinn lifir og hrærist í, er hluti af og hann henni háður. Maðurinn er í náttúrunni. Náttúran er í kringum manninn – og setur honum ákveðinn ramma.

Náttúran er lífríkið. Ljóst er að óslitin lífkeðja náttúrunnar er skilyrði þess að líf haldist í náttúrunni. Náttúra og maður eiga það sameiginlegt að vera lifandi.

Náttúran nær til allrar veraldarinnar. Víðfeðmasta skilgreiningin væri sú að náttúran er heimurinn, lífið; lífríkið. Maðurinn hefur nýtt sér hana með hugviti sínu og rannsakað á umliðnum öldum. Niðurstöður rannsókna sinna hefur hann ekki ætíð virt jafnvel þótt honum mætti vera ljóst um afleiðingar þess. Reyndar hefur hann skákað í skjóli þess að í mörgu efni eru niðurstöður misvísandi og gengið að náttúrunni með eigin hagsmuni að leiðarljósi.[21]

Samskipti manns og náttúru eru náin. Umsvif mannsins í náttúrunni hafa áhrif, bæði til heilla og óheilla. Maðurinn á oft í átökum við náttúruna og hún reynist honum ofjarl á mörgum sviðum; á sama hátt og maðurinn hefur leikið náttúruna hart hefur hún einnig leikið manninn hart.

Þegar talað er um virðingu leitar hugurinn fljótt til mannlegs samfélags sem hefur lög og reglur þar sem meðal annars virðing kemur fyrir sem hluti af mannréttindum einstaklinga: Í hverju virðing sé fólgin, með hvaða hætti hún sé auðsýnd, kennd og innrætt í siðferðisgrunni samfélagsins. Lög samfélagsins endurspegla þetta. Á sama má lesa í lögum um vernd dýra, náttúru og skipulag, umhyggju og virðingu fyrir náttúrunni.[22]

Andy Goldsworthy tilheyrir umhverfislistahreyfingu sem spratt upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hlýnun jarðar, loftslagsfræði, græn pólitík, umhverfisstjórnmál, og tengsl alls þessa við hátæknisamfélag nútímans, iðnaðarsamfélagsins var í umræðudeiglu þessa tíma. Margir listamenn töldu það skyldu sína að bregðast umhverfinu til varnar með eindregnum og skeleggum hætti. Í þeirri viðleitni kom fram ábyrgðarkennd og virðing fyrir náttúrunni.[23] Goldsworthy var í þeim hópi.

Bandaríski siðfræðingurinn, Paul Taylor segir svo: „Lífverur náttúrunnar hafa allar sitt gildi einfaldlega í krafti þess að þær eru hluti af lífríkinu. Þetta gildi þeirra á ekki rætur í því að þær séu manninum nytsamlegar, honum til gleði og ánægju, til rannsókna og tilrauna.“[24]

Epli eru fræg úr trúar- og menningarsögunni – þau eru forgengileg enda þótt rauði litur þeirra tákni líf og kærleika

Þessi fullyrðing höfundar hefur sjálft lífið í forgrunni og hann segir að hverjar þær siðferðilegu skyldur sem við teljum okkur þurfa að standa við gagnvart öðrum mönnum nái og til lífríkisins, náttúrunnar í heild sinni. Hann tiltekur þó að lífverur náttúrunnar (ekki maðurinn, homo sapiens) hafi ekki siðferðileg réttindi með sama hætti og maðurinn. Lifandi náttúra býr yfir eiginleikum og gæðum sem óheimilt er að líta á að séu eingöngu manninum til nytja. Það er vegna náttúrunnar sjálfrar sem gæði hennar skulu efld eða vernduð. Á sama hátt og fram skuli koma af virðingu við menn skuli hið sama gilda um náttúru.[25]

Einnig telja sumir að samband sé á milli fagurfræðilegrar upplifunar á náttúrunni og virðingar. Af því leiði og siðferðilegar skyldur gagnvart náttúrunni.[26] Virðing er enda af siðferðilegum toga og telst vera dygð.

Lykilatriði virðingar fyrir náttúrunni er að vernda hana og fjölbreytni hennar í öllu tilliti. Til þess að svo megi verða þarf að fara að gát með alla nýtingu náttúruauðlinda. Keppikeflið er sjálfbær nýting auðlinda og náttúrugæða. Maðurinn er hluti af náttúrunni og er henni algerlega háður hvað alla framfærslu snerti.

Virðing felur í sér að hlusta og sýna umhyggju. Bregðast við og aðhafast ef hjálpar er þörf. Í sjálfu sér má segja að það sé samhljómur milli náttúruvirðingar og mannvirðingar að breyttu breytanda.

Hversdagsleg virðing felur í sér samskipti eftir óskrifuðum reglum en þær eiga þó heima innan hinna almennu siðgæðisreglna. Hversdagsleg virðing fyrir náttúrunni er fólgin í því að að láta sér annt um hana og vega ekki illa að henni. Í þessu sem öðru er hófsemd lykilatriði.

En það er líka önnur hlið á þessu. Náttúran eða lífríkið er eldra en maðurinn og þar af leiðandi í ákveðnum skilningi manninum æðra. Virðingarleysi gagnvart náttúrunni getur kostað útrýmingu margra tegunda sem er óviðunandi.[27]

Sýnir listamaðurinn náttúrunni virðingu eða ekki?

Hér kemur til athugunar hvaða áhöld (ef svo má segja) hægt er að nota til að kveða upp úr um með hvort virðing er sýnd fyrir einhverju tilteknu eða ekki.

Hvikult listaverk, abstrakt verk úr stráum sem fjúka svo burt og grotna

Ein leið er að skoða verk listamannsins og hvernig hann stendur að gerð þeirra.

Þá er og hægt að kanna hvernig hann talar um náttúruna og hvaða viðhorf hann hefur til hennar – sömuleiðis hvernig aðrir lýsa starfsaðferðum hans.

Í þriðja lagi er hægt að fylgjast með honum að listsköpun sinni úti í náttúrunni á myndböndum – eða ganga fram á hann við liststörf![28]

Eins og þegar hefur komið fram er efniviður hans fenginn úr náttúrunni. Verk hans eru stór og smá, sum hverfa fljótt en önnur ekki. Hann gengur ekki gegn náttúrunni í verkum sínum heldur tekur sér stöðu við hlið hennar. Verkin eru þess eðlis að þau eru hvikul og hverful, viðkvæm og veikburða. Listamaðurinn segir með verkum sínum að náttúran þurfi á umhyggju og vernd halda. Hún gefur líf, fegurð og nytjar.

Virðing listamannsins kemur fram í viðtölum sem hafa verið tekin við hann. Hann segir til dæmis:

„…ég á í nánu andlegu sambandi við náttúruna.“[29]

„Ég er hluti af náttúrunni, ég get ekki séð sjálfan mig í andstöðu við hana, og mér finnst það undarleg hugmynd að halda því fram að við séum aðskilin frá henni.“[30]

„Við snertum öll náttúruna og erum hluti af þessum gagnkvæmu samskiptum og breytingum, við reiðum okkur hvert á annað. Það er gott ef vel er gert, með virðingu, og ég fagna því með list minni: með því að snerta og sjá hvernig landslag breytist.“[31]

„Ég vinn úti í náttúrunni og vil bera ábyrgð á því sem landið lætur mér í té. Það gerir mig sennilega meira meðvitaðan um hvaða áhrif ég hef á landið og samúð mín með því vaknar vegna þessa.“[32]

Móti þessu gætu miklir efasemdarmenn fært þau rök að orð séu annað en verk; tilhneiging mannsins til að fegra gerðir sínar sé alkunn og að hegða sér á annan hátt þegar aðrir sjá. Því til svara er ekki annað en að benda á verk hans úti í náttúrunni og annars staðar og verður þá hver og einn að meta hvort höfundur þeirra virði náttúruna eða ekki með listsköpun sinni. Slíkt mat er að sönnu huglægt.

Listamaðurinn að störfum – hér vefur hann náttúrulistaverk úr stráum

Niðurstaða. Þegar sjálfstæði náttúrunnar er virt samkvæmt þeirri skilgreiningu sem kom hér að framan: hún hefur gildi sitt vegna sjálfrar sín og er ekki ætluð manninum fyrst og síðast til nytja, má segja að Andy Goldsworthy virði náttúruna enda þótt hann nýti hana alfarið til listsköpunar sinnar. Hvernig þá? Hann nýtir fallin og sölnuð laufblöð, ár og vötn, grjót og tré, jurtir og fleira úr náttúrunni. Það er allt tekið á staðnum og í langflestum tilvikum skilið þar eftir – eða í fangi náttúrunnar. Önnur verk, og þá einkum þau úr grjóti, eru tekin úr náttúrunni og sett upp annars staðar. Listiðja hans er sjálfbær. Orð hans um náttúruna lýsa virðingu og auðmýkt gagnvart henni. Þegar fylgst er með honum í myndböndum að störfum sést og hve hann gengur um náttúruna af virðingu og umhyggju.

Ekki er annað að sjá en Andy Goldsworthy virði náttúruna vel í liststörfum sínum. Hann áttar sig fyllilega á takmörkunum sínum og sér að enginn er fullkominn nema náttúran. Í ljósi þeirrar niðurstöðu vaknar önnur spurning, gömul og ný: Hvaðan er náttúran sprottin?

Tilvísanir

[1] Orð höfð eftir Jóhannesi Kjarval, í: Sigurður Benediktsson, „Hann sá og sigraði,“ Steinar og sterkir litir, svipmyndir 16 myndlistarmanna, (Reykjavík: Skálholt, 1965): 245.

[2] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[3] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 1.

[4] Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 11.

[5] Afar gott yfirlit um verk Goldsworthy er að finna: Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): engin blaðsíðutöl á myndasíðum.

[6] Andy Goldsworthy, Stone, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1994): 6.

[7] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 2.

[8] Andy Goldsworthy, Ice and snow drawings, (Edinborg: The FruitMarket Gallery, 1992): 40.

[9] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks“, Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021):19.

[10] Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, (Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987): 3.

[11] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 10.

[12] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks,“ Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021): 19.

[13]Goldworthy segir: „…þú vinnur með staðinn sem er svo ríkur af tengslum milli fólksins og landsins og það auðgar hann gríðarlega. Hlaðinn veggur segir sína sögu af fólki sem var nátengt landinu. … ég er ekki í samfélagslegri herferð til að sannfæra fólk um gildi listar… auðvelt er að láta sum þessara verka fara fram hjá sér ef þú vilt ekki sjá þau.“ (Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 17-18.

[14] Æsa Sigurjónsdóttir, „Að lesa list – Hugleiðingar um tengsl sagnfræði, listasögu og búninga- og textílsögu“, Sagnir, 14. árg., 1. tbl. (1993), (Reykjavík: Sagnir©Félag sagnfræðinema við Háskóla Íslands, 1993): 44: „Listaverk er aldrei einangrað fyrirbæri og ekkert verður til úr engu. Að baki sérhvers verks er hugmynd, vinna og leit.“

[15] Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, „Introduction“, eftir Judith Collins, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[16] Andy Goldsworthy, Passage, (London: Thames&Hudson, 2004): 133.

[17] Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, (London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ár): 15.

[18] Natasha Goldman, Memory Passages, Holocaust Memorials in the United States and Germany, (New York: Temple University Press, 2020): 169 -176.

[19] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[20] Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990): 160.

[21] Þessi skilgreining er höfundar. Náttúru-hugtakið má skilgreina með ýmsu móti, til dæmis er hér að finna skilgreiningu í þremur liðum (eðli skapaðra hluta, heimsöflin og hin sýnilega veröld): Páll Skúlason, „Inngangur“, Náttúrusýn – safn greina um siðfræði og náttúru, (Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknarstofnun í siðfræði: 1994): 14-15.

[22] Dæmi: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 1944. nr. 33. 17. júní; Lög um dýravernd, 1994 nr. 15. 16. mars; lög um náttúruvernd 2013 nr. 60 10. apríl; lög um landgræðslu 2018 nr. 155 21. desember. Sjá: Lagasafn Alþingis: Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) | Lög samþykkt á Alþingi | Alþingi (althingi.is) – sótt 14. júní 2023.

[23] Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks“, Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021): (Iași: Artes Publishing House, 2021):19.

[24] Paul W. Taylor, Respect for nature – A Theory of Environmental Ethics, (Princeton University Press: New Jersey, 1986): 13.

[25] Sama, 13 og 81.

[26] „…upplifun af fegurð náttúrunnar leiðir til aðdáunar og virðingar og þannig verður til annars konar samband milli manns og náttúru en hið hefðbundna nytjasamband þar sem maðurinn nýtir náttúruna án nokkurra siðferðilegra takmarkana.“ Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Fagurfræði náttúrunnar“, Vá! – ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar, (Reykjavík: Heimspekistofnun: 2020): 44.

[27] Halldór Björnsson, „Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar,“ Skírnir, haust 2008, (Reykjavík: 2008): 302.

[28] Judith Collins, „Introduction,“ Midsummer Snowballs, Andy Goldsworthy, (London: Thames & Hudson, 2001): 9.

[29] Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, (New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990): 164

[30] Sama, 164.

[31] Sama, 164.

[32] Sama, 166.

Heimildir

Ali Shobeiri, „Thinking from Materials in Andy Goldsworthy´s Environmental Artworks,“ Studies in Visual Arts and Commonications, An international journal, vol. 8, nr. 1, (2021), Iași: Artes Publishing House, 2021.

Andy Goldsworthy, A Collaboration with nature, Yorkshire: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1987.

Andy Goldsworthy, Stone, New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1994.

Andy Goldsworthy, Ice and snow drawings, Edinborg: The FruitMarket Gallery, 1992.

Andy Goldsworthy, Passage, London: Thames&Hudson, 2004.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Fagurfræði náttúrunnar,“ Vá! – ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar, Reykjavík: Heimspekistofnun: 2020.

Halldór Björnsson, „Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar“, Skírnir, haust 2008, Reykjavík, 2008.

Lagasafn Alþingis: Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) | Lög samþykkt á Alþingi | Alþingi (althingi.is) – sótt 14. júní 2023.

Natasha Goldman, Memory Passages, Holocaust Memorials in the United States and Germany, New York: Temple University Press, 2020.

Paul Nesbitt og Andrew Humpries, Andy Goldsworthy Sheepfold, London: Michael Hue-Williams Fine Art, ekkert ártal.

Paul W. Taylor, Respect for nature – A Theory of Environmental Ethics, Princeton University Press: New Jersey, 1986.

Páll Skúlason, „Inngangur,“ Náttúrusýn – safn greina um siðfræði og náttúru, Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknarstofnun í siðfræði: 1994.

Sigurður Benediktsson, „Hann sá og sigraði“, Steinar og sterkir litir, svipmyndir 16 myndlistarmanna, Reykjavík: Skálholt, 1965.

Terry Fried og Andy Goldsworthy, Hand to Earth – Andy Goldsworthy Sculpture 1976-1990, New York: Harry N. Abrams, Inc., Publishers, 1990.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Að lesa list – Hugleiðingar um tengsl sagnfræði, listasögu og búninga- og textílsögu“, Sagnir, 14. árg., 1. tbl., (1993), Sagnir©Félag sagnfræðinema við Háskóla Íslands, 1993.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir