Saga kvenna í íslenskri kirkjulistasögu er að mestu leyti ókönnuð en Kirkjublaðið.is hefur vakið athygli á þætti þeirra í kirkjulistinni og meðal annars hér. Þær hafa skilið eftir sig mörg og djúp spor í þessari sögu og sýnt kirkjulist mikla ræktarsemi sem meta mætti meira en gert er.

Nokkrar listakonur hafa hannað, ofið og saumað messuklæði og skulu þessar helst nefndar: Guðrún J. Vigfúsdóttir (1921-2015), Unnur Ólafsdóttir (1897-1983), Sigrún Jónsdóttir (1921-2001) og Sigríður Jóhannsdóttir. Þá er mikill fjöldi kvenna sem hefur gert altarisdúka  sem kannski fáir leiða sjónum að þó að fagrir listmunir séu og hafi kostað margar vinnustundirnar sem ekki eru taldar.

Altaristöflur eftir konur í kirkjum hér á landi eru nokkrar. Fyrst kemur auðvitað upp í hugann mósaíkverk Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) í Skálholti – hana þekkja allir. Steinunn Þórarinsdóttir á töfluna í Kópavogskirkju, Agnete Þórarinsson (1903-1992) töfluna í kirkjunni í Bæ í Borgarfirði, Barbara J. Árnason (1911-1975), á töflu í Staðarhraunskirkju og myndverk á kórvegg í Kópavogskirkju. Altarisverkið í Árbæjarkirkju er eftir Rúri (Þuríði Rúrí Fannberg). Í Hvammskirkju á Skaga er verk eftir Ingunni Eydal (1942-2017). Listaverk eftir Höllu Haraldsdóttur (1934-2023) prýðir kór Hveragerðiskirkju. Þetta er ekki tæmandi upptalning og gaman væri að lesendur Kirkjublaðsins.is létu vita af altaristöflum í íslenskum kirkjum eftir konur sem hér eru ótaldar – netfangið er: kirkjubladid@kirkjubladid.is

Tilefni þessa greinarstúfs er lítil og löngu uppseld bók sem varð á vegi Kirkjublaðsins.is á fornbókasölu og fjallar um kirkjulistakonuna Guðrúnu Guðmundsdóttur. Bókin sem heitir Ævispor – Útsaumsverk Guðrúnar Guðmundsdóttur, kom út 2010 í tengslum við sýningu á útsaumsverkum hennar í Þjóðminjasafninu.

Guðrún er ein af mörgum huldukonum í íslenskri kirkjulistasögu. Í formála bókarinnar fer Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur, nokkrum orðum um verk hennar. Dætur Guðrúnar rita svo um ævi móður sinnar og þar kemur fram að áhrifavaldar í lífi hennar hafi verið handavinnukennari hennar í Garðinum og barnaskólakennarinn. Hún hóf nám í kvöldskóla Handíða- og myndlistarskólans. Með fram því námi lærði hún að taka mál og sníða föt. Seinni árin fékk hún mikinn áhuga á ættfræði og saumaði út nokkur ættarklæði, klæði með ættartöflum. Óm af ættarklæðum má sjá í verki hennar sem hér er sérstaklega nefnt.

Fyrirmyndir þær sem Guðrún notaði við sauma sína voru sóttar í forn íslensk klæði, lýsingar í handritum og Teiknibókina frá 15. öld. Auk þessa saumaði hún verk eftir eigin hugmyndum.

Guðrún Guðmundsdóttir fæddist í Garðhúsum í Garði árið 1930 og ólst þar upp.

Sýning var haldin á verkum Guðrúnar þegar æskuslóðir hennar fögnuðu aldarafmæli árið 2008 og var það kveikja að sýningu Þjóðminjasafnsins 2010. „Annars hef ég aldrei tranað mér fram nema stundum látið gera jólakort eftir nýjasta teppinu og sent til ættingja og vina,“ sagði hún í viðtali við Fréttablaðið 30. janúar 2010 í tilefni sýningar Þjóðminjasafnsins.

Það verk sem vakti sérstaka athygli Kirkjublaðsins.is er útsaumsverk eftir Guðrúnu og er fyrirmyndin tekin úr fornnorræna biblíuhandritinu Stjórn (AM 227 fol). Í verkinu bregður hún fyrir sig krosssaumi, perluspori, og afturspori. Saumað með ullargarni og silfurþræði í ramma. Þetta er myndin: Adam og Eva við skilningstréð og var saumað árið 2000. Stærð þess er 92 cm í þvermál.

Guðrún víkur ögn með fjörlegum hætti frá fyrirmyndinni og lætur sköpunaranda listarinnar knýja sig áfram. Heldur sér þó við höfuðdrætti hins ókunna listamanns sem á myndina í handritinu. Allir litir í verki Guðrúnar eru sterkari en þó mildir og kallast þannig á við forna mynd handritsins en litir þess hafa dofnað. Hún hefur skotið að regnboga og til hliðar við hann eru fagrar jurtir. Letrið vinstra megin við regnbogann er ættartala úr Flateyarbók frá Adam til Haralds hárfagra og hægra megin ættartala frá Haraldi hárfagra til móður listakonunnar. Þannig setur hún sitt persónulega mark á listaverkið.

Verk Guðrúnar er mjög svo fínlegt. Drættirnir eru grannir og mjúkir, sveigðir fagurlega og gerðir af mikilli nostursemi og alúð. Athugulir lesendur geta svo borið saman andlitssvip annars vegar í útsaumsverki Guðrúnar og hins vegar í handritinu.

 

Skjáskot af myndinni í fornnorræna biblíuhandritinu, Stjórn, og Guðrún hafði að fyrirmynd og innblæstri                                                                                                                                                                

Guðrún Guðmundsdóttir – Fréttablaðið 30. janúar 2010 – skjáskot

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Saga kvenna í íslenskri kirkjulistasögu er að mestu leyti ókönnuð en Kirkjublaðið.is hefur vakið athygli á þætti þeirra í kirkjulistinni og meðal annars hér. Þær hafa skilið eftir sig mörg og djúp spor í þessari sögu og sýnt kirkjulist mikla ræktarsemi sem meta mætti meira en gert er.

Nokkrar listakonur hafa hannað, ofið og saumað messuklæði og skulu þessar helst nefndar: Guðrún J. Vigfúsdóttir (1921-2015), Unnur Ólafsdóttir (1897-1983), Sigrún Jónsdóttir (1921-2001) og Sigríður Jóhannsdóttir. Þá er mikill fjöldi kvenna sem hefur gert altarisdúka  sem kannski fáir leiða sjónum að þó að fagrir listmunir séu og hafi kostað margar vinnustundirnar sem ekki eru taldar.

Altaristöflur eftir konur í kirkjum hér á landi eru nokkrar. Fyrst kemur auðvitað upp í hugann mósaíkverk Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) í Skálholti – hana þekkja allir. Steinunn Þórarinsdóttir á töfluna í Kópavogskirkju, Agnete Þórarinsson (1903-1992) töfluna í kirkjunni í Bæ í Borgarfirði, Barbara J. Árnason (1911-1975), á töflu í Staðarhraunskirkju og myndverk á kórvegg í Kópavogskirkju. Altarisverkið í Árbæjarkirkju er eftir Rúri (Þuríði Rúrí Fannberg). Í Hvammskirkju á Skaga er verk eftir Ingunni Eydal (1942-2017). Listaverk eftir Höllu Haraldsdóttur (1934-2023) prýðir kór Hveragerðiskirkju. Þetta er ekki tæmandi upptalning og gaman væri að lesendur Kirkjublaðsins.is létu vita af altaristöflum í íslenskum kirkjum eftir konur sem hér eru ótaldar – netfangið er: kirkjubladid@kirkjubladid.is

Tilefni þessa greinarstúfs er lítil og löngu uppseld bók sem varð á vegi Kirkjublaðsins.is á fornbókasölu og fjallar um kirkjulistakonuna Guðrúnu Guðmundsdóttur. Bókin sem heitir Ævispor – Útsaumsverk Guðrúnar Guðmundsdóttur, kom út 2010 í tengslum við sýningu á útsaumsverkum hennar í Þjóðminjasafninu.

Guðrún er ein af mörgum huldukonum í íslenskri kirkjulistasögu. Í formála bókarinnar fer Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur, nokkrum orðum um verk hennar. Dætur Guðrúnar rita svo um ævi móður sinnar og þar kemur fram að áhrifavaldar í lífi hennar hafi verið handavinnukennari hennar í Garðinum og barnaskólakennarinn. Hún hóf nám í kvöldskóla Handíða- og myndlistarskólans. Með fram því námi lærði hún að taka mál og sníða föt. Seinni árin fékk hún mikinn áhuga á ættfræði og saumaði út nokkur ættarklæði, klæði með ættartöflum. Óm af ættarklæðum má sjá í verki hennar sem hér er sérstaklega nefnt.

Fyrirmyndir þær sem Guðrún notaði við sauma sína voru sóttar í forn íslensk klæði, lýsingar í handritum og Teiknibókina frá 15. öld. Auk þessa saumaði hún verk eftir eigin hugmyndum.

Guðrún Guðmundsdóttir fæddist í Garðhúsum í Garði árið 1930 og ólst þar upp.

Sýning var haldin á verkum Guðrúnar þegar æskuslóðir hennar fögnuðu aldarafmæli árið 2008 og var það kveikja að sýningu Þjóðminjasafnsins 2010. „Annars hef ég aldrei tranað mér fram nema stundum látið gera jólakort eftir nýjasta teppinu og sent til ættingja og vina,“ sagði hún í viðtali við Fréttablaðið 30. janúar 2010 í tilefni sýningar Þjóðminjasafnsins.

Það verk sem vakti sérstaka athygli Kirkjublaðsins.is er útsaumsverk eftir Guðrúnu og er fyrirmyndin tekin úr fornnorræna biblíuhandritinu Stjórn (AM 227 fol). Í verkinu bregður hún fyrir sig krosssaumi, perluspori, og afturspori. Saumað með ullargarni og silfurþræði í ramma. Þetta er myndin: Adam og Eva við skilningstréð og var saumað árið 2000. Stærð þess er 92 cm í þvermál.

Guðrún víkur ögn með fjörlegum hætti frá fyrirmyndinni og lætur sköpunaranda listarinnar knýja sig áfram. Heldur sér þó við höfuðdrætti hins ókunna listamanns sem á myndina í handritinu. Allir litir í verki Guðrúnar eru sterkari en þó mildir og kallast þannig á við forna mynd handritsins en litir þess hafa dofnað. Hún hefur skotið að regnboga og til hliðar við hann eru fagrar jurtir. Letrið vinstra megin við regnbogann er ættartala úr Flateyarbók frá Adam til Haralds hárfagra og hægra megin ættartala frá Haraldi hárfagra til móður listakonunnar. Þannig setur hún sitt persónulega mark á listaverkið.

Verk Guðrúnar er mjög svo fínlegt. Drættirnir eru grannir og mjúkir, sveigðir fagurlega og gerðir af mikilli nostursemi og alúð. Athugulir lesendur geta svo borið saman andlitssvip annars vegar í útsaumsverki Guðrúnar og hins vegar í handritinu.

 

Skjáskot af myndinni í fornnorræna biblíuhandritinu, Stjórn, og Guðrún hafði að fyrirmynd og innblæstri                                                                                                                                                                

Guðrún Guðmundsdóttir – Fréttablaðið 30. janúar 2010 – skjáskot

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir