Það er stundum kvartað undan bókagagnrýni og sagt að ekki sé neitt að marka stjörnugjöf. Allar bækur fái þetta fjórar og fimm stjörnur. Auðvitað er þetta aðallega fyrir bókakaupavertíðina þegar allir vilja koma sínum feng til lestrarhesta þjóðarinnar. Og almenningur emjar yfir því að vita ekki hvað er í raun góð bók vegna þess að þær séu allar góðar. Og sumar þeirra meira að segja orðnar metsölubækur áður en þær koma út. Þetta geta bara ekki staðist þótt Íslendingar séu stórasta þjóð í heimi.

En nú barst í hendur Kirkjublaðsins.is lítil og nett bók, bleik bók eftir konu. Lítil bók segir þar, já Lítil bók um stóra hluti – Hugleiðingar. Eftir lestur þessarar bókar gefur Kirkjublaðið.is henni stjörnuregn. Engar fjórar eða fimm stjörnur heldur regn. Stjörnuský.

Af hverju?

Einfalt svar: bókin er frábær lesning. Bæði skemmtileg og alvarleg. Þó stutt sé er hún líka löng því að efni hennar situr áfram í huga lesandans og vinnur úr því. Þannig er þessi stutta bók nokkuð löng og það er vel og að ekki þurfti að fella fleiri tré til að koma henni út á þrykk – viðbætur bókarinnar prentast áfram í sálarprentsmiðju lesandans.

Bókina ættu allir guðfræðingar að lesa. Hún er guðfræðileg skemmtiganga. Þeir kennimenn sem hefðu hæfileika höfundarins, Þórunnar Valdimarsdóttur, til að segja frá og vekja til umhugsunar um trú, trúleysi, kristna trú og önnur trúarbrögð, sið og sögu, myndu fylla kirkjurnar. Verst að Þórunn lærði ekki til prests. Eða?

Bókin tekur á ótrúlega mörgu. Fjallar um lífið og tilveruna, manneskjuna, konuna, karlinn og börnin. Um líkamann, söguna, baráttuna, jafnrétti, fordómana, nútíðina og framtíðina. Umhverfið. Menninguna. Sem sé kjarna lífsins. Þar ber að sjálfsögðu höfund lífsins á góma. Hvað annað. Þórunn kýs að tala um hann eða almættið sem „Tilveru“  (bls. 66) og það er ekki verra en hvað annað. Hún er trúuð kona á sinn hátt, trúaður sagnfræðingur og rithöfundar, ljóðskáld og margt fleira til viðbótar. Hún er hispurslaus og persónuleg í allri umfjöllun sinni um trúmál og þar er engin væmni og ekkert væl á ferð heldur eingöngu skýr og póetísk hugsun og viðhorf nútímamanneskju til hinnar flóknu veraldar.

Það er ekkert verið að slá af harðri gagnrýni á kirkju og sögu hennar heldur eru þau dæmi sem hún tínir til svo sjálfsögð innan þessarar litlu bókar að þau fljóta út fyrir hana og hljóta að vekja fólk til umræðu. Umræða er reyndar næsta lítil innan þjóðkirkjunnar og óskapleg þögn og deyfð yfir mörgu. Þessi bók gæti verið vítamínsprauta fyrir kirkjuna og söfnuðina til að lesa saman og ræða.

Þórunn segir að íslensk kirkja standi enn sterkum fótum þrátt fyrir alls konar áföll og að milli kristni og þjóðar sé „tryggðarband“  (bls. 131). Sem barn hafi hún  þroskað: „tengingar heilafrumanna í trúarheilastöðvunum, vegna bæna föður míns fyrir svefninn. Nú sem ég sit hér og skrifa skynja ég ljómandi heilagleika, er sem oftar komin í trans.“ (Bls. 141).

Og eilífðarmálin? Hún efast um að margir trúi bókstaflega á upprisu dauðra þó þau skírðu fari með trúarjátninguna. Nei: „Eilífðin er stjarnfræðilegt hugtak nátengt ljósinu og óþarfi að útskýra hana. Lífið heldur áfram. Lífið er ljós.“  (Bls. 143).

Karlaveldið á rætur sínar hér á landi vegna þess að það kom með krossi kristinnar (bls. 167) og lútherskan jók bóklegt misrétti kynjanna (bls. 165). Í anda nútímans og við hina ferðaglöðu spyr Lykla-Pétur okkur við himnahliðið: „Ja, hvert er kolefnisspor þitt?“ (Bls. 21). Kristur lyfti „mjúka manninum“  á stall (bls. 39) og einkvæni kristninnar stríðir á móti fjöllyndu eðli manneskjunnar (bls. 48). Hún segir að sum „leiktjöld kristninnar“ hangi upp þrátt fyrir alla afhelgun. (Bls. 52). Og meira til: kristninni megi kenna um „ægilegar kynbælingarnar“  og því sé erfitt að tala um það viðkvæmasta í manneskjunum (bls. 63). Kristnin hafi refsað fólki, pyntað og tekið af lífi, vegna barneigna því að offjölgun var orðin ískyggileg. „Bannhelgi kynlífs framkallaði ógeð á eigin líkama. Kristnin gerði það fegursta í heimi að viðbjóði …“ (bls. 148).

Þannig stiklar Þórunn á mörgu stóru í kirkjusögunni af yfirvegun og skilningi. Allt hollt og gott til upprifjunar og umræðu. Ekki sísta að horfast í augu við liðna sögu, það slæma og góða. „Allar öfgar mannlegrar sálar er að finna í kirkjusögunni.Pyntingar og blíðu, græðgi, grimmd og kærleika.“ (Bls. 160).

Þrátt fyrir margt skelfilegt í sögu kirkjunnar og samfélaga sem hún mótaði þá er líka margt gott að finna þar.

Þórunn spyr lesendur:

„Hví ekki að lifa undir formerkjum eigin trúararfs? Trúarmenning okkar er fögur. Til þess að meðtaka trú og náðarmeðul þurfum við að skilja að táknmál trúarinnar er af heimi sem vísindin komast aldrei með fótinn í. Heimi draums og líkingamáls.“ (Bls. 141).

Kirkjublaðið.is hvetur lesendur sína að verða sér út um þessa snjöllu og mjög svo umhugsunarverðu bók og minnir á orð höfundarins á bls. 93: „Allt sem lyftir andanum er rétt að gera að sínu. Lesa ber fegurð úr öllu, með öllum skynfærum.“  (Bls. 93).

Nú er bara að skella sér í hina guðfræðilegu skemmtigöngu… og minnast þess svo sem að öllu gamni fylgir líka alvara.

Lítil bók um stóra hluti – Hugleiðingar,
eftir Þórunni Valdimarsdóttur,
JPV gaf út 2023, 175 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Það er stundum kvartað undan bókagagnrýni og sagt að ekki sé neitt að marka stjörnugjöf. Allar bækur fái þetta fjórar og fimm stjörnur. Auðvitað er þetta aðallega fyrir bókakaupavertíðina þegar allir vilja koma sínum feng til lestrarhesta þjóðarinnar. Og almenningur emjar yfir því að vita ekki hvað er í raun góð bók vegna þess að þær séu allar góðar. Og sumar þeirra meira að segja orðnar metsölubækur áður en þær koma út. Þetta geta bara ekki staðist þótt Íslendingar séu stórasta þjóð í heimi.

En nú barst í hendur Kirkjublaðsins.is lítil og nett bók, bleik bók eftir konu. Lítil bók segir þar, já Lítil bók um stóra hluti – Hugleiðingar. Eftir lestur þessarar bókar gefur Kirkjublaðið.is henni stjörnuregn. Engar fjórar eða fimm stjörnur heldur regn. Stjörnuský.

Af hverju?

Einfalt svar: bókin er frábær lesning. Bæði skemmtileg og alvarleg. Þó stutt sé er hún líka löng því að efni hennar situr áfram í huga lesandans og vinnur úr því. Þannig er þessi stutta bók nokkuð löng og það er vel og að ekki þurfti að fella fleiri tré til að koma henni út á þrykk – viðbætur bókarinnar prentast áfram í sálarprentsmiðju lesandans.

Bókina ættu allir guðfræðingar að lesa. Hún er guðfræðileg skemmtiganga. Þeir kennimenn sem hefðu hæfileika höfundarins, Þórunnar Valdimarsdóttur, til að segja frá og vekja til umhugsunar um trú, trúleysi, kristna trú og önnur trúarbrögð, sið og sögu, myndu fylla kirkjurnar. Verst að Þórunn lærði ekki til prests. Eða?

Bókin tekur á ótrúlega mörgu. Fjallar um lífið og tilveruna, manneskjuna, konuna, karlinn og börnin. Um líkamann, söguna, baráttuna, jafnrétti, fordómana, nútíðina og framtíðina. Umhverfið. Menninguna. Sem sé kjarna lífsins. Þar ber að sjálfsögðu höfund lífsins á góma. Hvað annað. Þórunn kýs að tala um hann eða almættið sem „Tilveru“  (bls. 66) og það er ekki verra en hvað annað. Hún er trúuð kona á sinn hátt, trúaður sagnfræðingur og rithöfundar, ljóðskáld og margt fleira til viðbótar. Hún er hispurslaus og persónuleg í allri umfjöllun sinni um trúmál og þar er engin væmni og ekkert væl á ferð heldur eingöngu skýr og póetísk hugsun og viðhorf nútímamanneskju til hinnar flóknu veraldar.

Það er ekkert verið að slá af harðri gagnrýni á kirkju og sögu hennar heldur eru þau dæmi sem hún tínir til svo sjálfsögð innan þessarar litlu bókar að þau fljóta út fyrir hana og hljóta að vekja fólk til umræðu. Umræða er reyndar næsta lítil innan þjóðkirkjunnar og óskapleg þögn og deyfð yfir mörgu. Þessi bók gæti verið vítamínsprauta fyrir kirkjuna og söfnuðina til að lesa saman og ræða.

Þórunn segir að íslensk kirkja standi enn sterkum fótum þrátt fyrir alls konar áföll og að milli kristni og þjóðar sé „tryggðarband“  (bls. 131). Sem barn hafi hún  þroskað: „tengingar heilafrumanna í trúarheilastöðvunum, vegna bæna föður míns fyrir svefninn. Nú sem ég sit hér og skrifa skynja ég ljómandi heilagleika, er sem oftar komin í trans.“ (Bls. 141).

Og eilífðarmálin? Hún efast um að margir trúi bókstaflega á upprisu dauðra þó þau skírðu fari með trúarjátninguna. Nei: „Eilífðin er stjarnfræðilegt hugtak nátengt ljósinu og óþarfi að útskýra hana. Lífið heldur áfram. Lífið er ljós.“  (Bls. 143).

Karlaveldið á rætur sínar hér á landi vegna þess að það kom með krossi kristinnar (bls. 167) og lútherskan jók bóklegt misrétti kynjanna (bls. 165). Í anda nútímans og við hina ferðaglöðu spyr Lykla-Pétur okkur við himnahliðið: „Ja, hvert er kolefnisspor þitt?“ (Bls. 21). Kristur lyfti „mjúka manninum“  á stall (bls. 39) og einkvæni kristninnar stríðir á móti fjöllyndu eðli manneskjunnar (bls. 48). Hún segir að sum „leiktjöld kristninnar“ hangi upp þrátt fyrir alla afhelgun. (Bls. 52). Og meira til: kristninni megi kenna um „ægilegar kynbælingarnar“  og því sé erfitt að tala um það viðkvæmasta í manneskjunum (bls. 63). Kristnin hafi refsað fólki, pyntað og tekið af lífi, vegna barneigna því að offjölgun var orðin ískyggileg. „Bannhelgi kynlífs framkallaði ógeð á eigin líkama. Kristnin gerði það fegursta í heimi að viðbjóði …“ (bls. 148).

Þannig stiklar Þórunn á mörgu stóru í kirkjusögunni af yfirvegun og skilningi. Allt hollt og gott til upprifjunar og umræðu. Ekki sísta að horfast í augu við liðna sögu, það slæma og góða. „Allar öfgar mannlegrar sálar er að finna í kirkjusögunni.Pyntingar og blíðu, græðgi, grimmd og kærleika.“ (Bls. 160).

Þrátt fyrir margt skelfilegt í sögu kirkjunnar og samfélaga sem hún mótaði þá er líka margt gott að finna þar.

Þórunn spyr lesendur:

„Hví ekki að lifa undir formerkjum eigin trúararfs? Trúarmenning okkar er fögur. Til þess að meðtaka trú og náðarmeðul þurfum við að skilja að táknmál trúarinnar er af heimi sem vísindin komast aldrei með fótinn í. Heimi draums og líkingamáls.“ (Bls. 141).

Kirkjublaðið.is hvetur lesendur sína að verða sér út um þessa snjöllu og mjög svo umhugsunarverðu bók og minnir á orð höfundarins á bls. 93: „Allt sem lyftir andanum er rétt að gera að sínu. Lesa ber fegurð úr öllu, með öllum skynfærum.“  (Bls. 93).

Nú er bara að skella sér í hina guðfræðilegu skemmtigöngu… og minnast þess svo sem að öllu gamni fylgir líka alvara.

Lítil bók um stóra hluti – Hugleiðingar,
eftir Þórunni Valdimarsdóttur,
JPV gaf út 2023, 175 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?