Sólríkur sumardagur tók vel á móti þeim sem röltu í gær um í kyrrð kirkjugarðsins við Suðurgötu. Garðurinn aldrei jafn vel hirtur eins og nú um hásumar. Unga starfsfólkið var í hádegishléi og sat og spjallaði og lífið geislaði af því. Kona gekk með lítið barn og önnur ekki langt frá var með hund í bandi. Miðaldra maður gekk á milli leiða og nam staðar af og til og las af legsteinum.

Kirkjugarðar eru milli himins og jarðar. Þeir geyma liðna sögu. Og Hólavallagarður geymir mörg söguleg nöfn sem almenningur kannast við úr námsbókum. Þeim fækkar sem koma að leiðum ástvina enda skilja alltaf fleiri og fleiri kynslóðir á milli þeirra og hinna lifandi. Mörg leiði gleymast. En leiði sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar gleymist aldrei og er sótt reglulega heim.

Legsteinarnir eða minningarmörkin eru mörg hver mikil um sig og leitast við að segja að sá eða sú sem undir þeim liggur hafi verið merk persóna í lifanda lífi og megi ekki gleymast. Minningarmarkið dregur fram virðingu og væntumþykju. Því stærra og veglegra þeim mun meiri sæmdarpersóna þar undir. Svo eru önnur fábrotin minningarmörk um aðrar gengnar manneskjur engu ómerkari en hinar sem hvíla undir þungum steinum – og söm er væntumþykjan og virðingin. Ekki má gleyma leiðunum sem hvíla í þögn án nokkurs minningarmarks. Þau sem þar hvíla eru horfin í djúp tímans. En öll minningarmörkin falla hins vegar vel saman þegar litið er yfir gróskumikinn garðinn. Fjölbreytileg eins og mannlífið.

En það leynist líka list í kirkjugörðum.

Nær um miðjan Hólavallagarð steinsnar frá klukknaportinu er leiði umlukið mosavöxnu lábörðu grjóti sem listamennirnir Þorvaldur Skúlason og Sigurjón Ólafsson sáu um að hlaða í virðingarskyni við þann sem þar hvílir. Minningarmarkið á þessu leiði sker sig úr frá öðrum. Það er abstrakt listaverk, um einn og hálfur metri á hæð. Höggvið í gráan stein. Listamaðurinn Sigurjón er höfundur þess og sá er undir því hvílir er Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi. Nafn hans er á sökklinum, fæðingarár og dánarár.

Verkið heitir Finngálkn og var unnið 1946. Sigurjón hafði ekki hugsað sér að það yrði legsteinn eins og raunin varð.

Erlendur í Unuhúsi var nokkru fyrir miðja síðustu öld mikill áhrifamaður á skáld og listamenn. Menn sögðu að það væri á við að sækja akademíuna að ræða við hann. Ungir listamenn drógust að honum og fundu að Erlendur var maður eigi einhamur. Yfir honum hvíldi ára lista, mennta og mannúðar. Í hugum sumra var hann guði líkur – að minnsta kosti hvarflaði þetta að Halldóri Laxness þegar hann sá Erlend þegar sá fyrrnefndi var mjólkurpóstur í Reykjavík:

„Er þar skemst frá að segja að þá kunni ég ekki mann að þekkja ef þetta var ekki frelsarinn sjálfur, meira að segja kliptur útúr biflíumynd í jesúhjartastíl, nema bar ekki hjartað utaná.“  (Sjömeistarasagan, R. 1978, 155-156).

Síðar var Erlendur gerður ódauðlegur í Atómstöð Laxness, sem organistinn – og taóistinn.

Finngálkn eða kentári er sambland af manni og dýri og kemur fyrir í goðafræði Miðjarðarhafsþjóða og í þjóðsögum. Það er vera úr öðrum heimi en er þó í þessum heimi. Listamanninum hefur kannski þess vegna þótt við hæfi að höggmyndin yrði minningarmark um hinn margbrotna mann, Erlend í Unuhúsi, sem var af ætt guða og manna að áliti margra; vitrastur og réttlátastur eins og gríska finngálknið Keiros. Sjálfur ekki ólíkur myndhöggvaranum Sigurjóni nema hvað Erlendur mótaði huga og hugsjónir margra þeirra sem vöndu komur sínar í Unuhús á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sólríkur sumardagur tók vel á móti þeim sem röltu í gær um í kyrrð kirkjugarðsins við Suðurgötu. Garðurinn aldrei jafn vel hirtur eins og nú um hásumar. Unga starfsfólkið var í hádegishléi og sat og spjallaði og lífið geislaði af því. Kona gekk með lítið barn og önnur ekki langt frá var með hund í bandi. Miðaldra maður gekk á milli leiða og nam staðar af og til og las af legsteinum.

Kirkjugarðar eru milli himins og jarðar. Þeir geyma liðna sögu. Og Hólavallagarður geymir mörg söguleg nöfn sem almenningur kannast við úr námsbókum. Þeim fækkar sem koma að leiðum ástvina enda skilja alltaf fleiri og fleiri kynslóðir á milli þeirra og hinna lifandi. Mörg leiði gleymast. En leiði sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar gleymist aldrei og er sótt reglulega heim.

Legsteinarnir eða minningarmörkin eru mörg hver mikil um sig og leitast við að segja að sá eða sú sem undir þeim liggur hafi verið merk persóna í lifanda lífi og megi ekki gleymast. Minningarmarkið dregur fram virðingu og væntumþykju. Því stærra og veglegra þeim mun meiri sæmdarpersóna þar undir. Svo eru önnur fábrotin minningarmörk um aðrar gengnar manneskjur engu ómerkari en hinar sem hvíla undir þungum steinum – og söm er væntumþykjan og virðingin. Ekki má gleyma leiðunum sem hvíla í þögn án nokkurs minningarmarks. Þau sem þar hvíla eru horfin í djúp tímans. En öll minningarmörkin falla hins vegar vel saman þegar litið er yfir gróskumikinn garðinn. Fjölbreytileg eins og mannlífið.

En það leynist líka list í kirkjugörðum.

Nær um miðjan Hólavallagarð steinsnar frá klukknaportinu er leiði umlukið mosavöxnu lábörðu grjóti sem listamennirnir Þorvaldur Skúlason og Sigurjón Ólafsson sáu um að hlaða í virðingarskyni við þann sem þar hvílir. Minningarmarkið á þessu leiði sker sig úr frá öðrum. Það er abstrakt listaverk, um einn og hálfur metri á hæð. Höggvið í gráan stein. Listamaðurinn Sigurjón er höfundur þess og sá er undir því hvílir er Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi. Nafn hans er á sökklinum, fæðingarár og dánarár.

Verkið heitir Finngálkn og var unnið 1946. Sigurjón hafði ekki hugsað sér að það yrði legsteinn eins og raunin varð.

Erlendur í Unuhúsi var nokkru fyrir miðja síðustu öld mikill áhrifamaður á skáld og listamenn. Menn sögðu að það væri á við að sækja akademíuna að ræða við hann. Ungir listamenn drógust að honum og fundu að Erlendur var maður eigi einhamur. Yfir honum hvíldi ára lista, mennta og mannúðar. Í hugum sumra var hann guði líkur – að minnsta kosti hvarflaði þetta að Halldóri Laxness þegar hann sá Erlend þegar sá fyrrnefndi var mjólkurpóstur í Reykjavík:

„Er þar skemst frá að segja að þá kunni ég ekki mann að þekkja ef þetta var ekki frelsarinn sjálfur, meira að segja kliptur útúr biflíumynd í jesúhjartastíl, nema bar ekki hjartað utaná.“  (Sjömeistarasagan, R. 1978, 155-156).

Síðar var Erlendur gerður ódauðlegur í Atómstöð Laxness, sem organistinn – og taóistinn.

Finngálkn eða kentári er sambland af manni og dýri og kemur fyrir í goðafræði Miðjarðarhafsþjóða og í þjóðsögum. Það er vera úr öðrum heimi en er þó í þessum heimi. Listamanninum hefur kannski þess vegna þótt við hæfi að höggmyndin yrði minningarmark um hinn margbrotna mann, Erlend í Unuhúsi, sem var af ætt guða og manna að áliti margra; vitrastur og réttlátastur eins og gríska finngálknið Keiros. Sjálfur ekki ólíkur myndhöggvaranum Sigurjóni nema hvað Erlendur mótaði huga og hugsjónir margra þeirra sem vöndu komur sínar í Unuhús á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir