Myndlist hefur á öllum öldum verið notuð til að styðja við málstað af hinu og þessu taginu. Sérstaklega þegar alvarleg og söguleg átök eiga sér stað. Listamenn taka afstöðu í verkum sínum af ýmsum ástæðum hvort heldur af hugsjón, framfærsluþörf eða vegna listræns innblásturs. Þess vegna er mikilvægt að geta lesið út úr listaverkum, bæði sögulegum og eins þeim sem fram koma á líðandi stund, boðskap listamannanna.

Fjallað verður í stuttu máli um minningartöflu (þ. das Epitaph) eftir Lucas Cranach yngri (1515-1586), í Borgarkirkjunni í Wittenberg, tilurð hennar, hlutverk og merkingu út frá listfræðilegu sjónarhorni. Innihald og merking hennar verður sett í sögulegt samhengi og reynt að meta vægi hennar í listasögunni; er hún rammpólitísk í þágu málstaðar siðbótarmanna, og ber áróður[1] listina ofurliði eða er þar sæmilegt jafnvægi á milli?

Lucas Cranach yngri var endurreisnarmálari og útskurðarmeistari, sonur Cranachs hins eldri (1472-1553); lærði hjá föður sínum og vann á málverkastofu hans alla ævi. Mjög erfitt er að greina á milli verka þeirra feðga. Hann var eins og faðirinn ákafur fylgismaður siðbótarhreyfingarinnar og málaði margar myndir af siðbótarmönnum sem og trúarlegar myndir.[2]

Þetta voru róstusamir tímar sem hófust með uppreisn Marteins Lúthers gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni 1517 þegar hann setti fram gagnrýni á hana í 95 liðum.

Ekki verður annað sagt en margt sé að sjá þegar horft er á þessa mynd á foríkónóngrafísku stigi og reynt að átta sig almennt á því sem ber fyrir á myndfletinum sem er garður. Hann er hálfhringur og hvöss stauragirðing þverar myndflötinn neðarlega. Gráleitur stígur eða skurður gengur þvert upp hálfhringinn á ská og greinir að tvo fleti, þann vinstri og hinn hægri. Á vinstri fletinum sér í flokk manna í skrautlegum klæðum, kirkjunnar menn líkast til og fara nokkrir um porthlið. Sá sem þar er fremstur gæti verið biskup eða páfi og hann réttir út hönd til manns í móleitum kufli. Bak þeim er hópur fólks sem horfir einkum fram en sumir til hliðar. Þegar haldið er ögn ofar í myndina sér í brunn og er svo að sjá sem gráleitum hnullungum sé sturtað ofan í hann – þar er og fólk við margvísleg jarðyrkjustörf. Á hægri fletinum eru sömuleiðis menn að fást við jarðyrkjustörf. Þeir raka, grafa, týna upp o.sv.frv. Þar er og brunnur mikill sem einn stendur við og eys vatni úr, vökvar. Fjærst í hægra fleti sér í kastala. Hægra megin flatarins fyrir framan girðinguna, er hópur fólks og flestir sitjandi. Fremst eru fimm hvítklædd börn. Flestir eru með lófa í bænastellingu en einn heldur á opinni bók.

Þegar grafist er fyrir um hvern þessi minningartafla sé reynist handhafi hennar vera Paul Eber nokkur sem dó 1569. Hann var prófessor í gamlatestamentisfræðum og forystumaður meðal annarrar kynslóðar menntamanna í hópi mótmælenda eftir að forystumenn siðbótarinnar í Wittenberg, Marteinn Lúther (d. 1546) og Filippus Melankton (d. 1560), voru fallnir frá. Paul var lærisveinn Melanktons sem var nánasti samstarfsmaður Lúthers [3] Eftir lát Paul Ebers pöntuðu erfingjar hans minningartöflu hjá Lucasi Cranach yngri og skyldi henni komið fyrir í Borgarkirkjunni í Wittenberg.[4] Þá ber minningartaflan þýska nafnið Der Weinberg des Herrn (Víngarðsfjall Drottins).[5]

Þegar myndin er skoðuð betur með íkónógrafískum aðferðum er byrjað sem fyrr á vinstri fleti og nú handan girðingar kemur í ljós að þeir menn sem þar eru að störfum ráða vart við þau. Störf þeirra eru unnin með þeim hætti að ekki verður annað séð en að garðurinn verði lagður í auðn.

Nokkrir sem þar eru að störfum bera kirkjutákn eins og mítur, bagal (hirðisstaf) og helgigöngukross. Aðrir eru í kirkjuklæðum, munkakuflum. Einn handleikur haka all djarflega; þeir dansa, spila, sveifla mishættulegum amboðum. Og einhverjir slást og sumir sitja annars hugar, utanveltu. Hópurinn er illvirkur og nokkurs konar birtingarmynd kaos, öngþveitis.

Verður nú gripið til íkónólógískra vangaveltna um myndina:

Það tákn sem er áberandi vinstra og hægra megin í myndinni er brunnur.

Brunnurinn vinstra megin sem fylltur er með grjóti tæmist skjótt. Hér er brunnur tákn fyrir lífið, næringu og frumskilyrði lífs – sé brunnvatni spillt er voðinn vís. Fólk sem fyllir brunn af steinum er vitaskuld að vinna hervirki. En brunnur hefur líka trúarlega skírskotun fyrir lifandi vatn.[6] Brunnur (þ. der Brunnen, lat. Quelle) hefur víðtæka trúarlega skírskotun og merkingu sem uppspretta er styrkir lífið og er nauðsynlegt fyrir það,  bæði andlegt líf og náttúrulegt – vísar sem tákn í hinu trúarlega samhengi til uppsprettu lífsins.[7] Og óhreint brunnvatn kallar á óhreina kenningu sem Lúther gagnrýndi hina kaþólsku kirkju fyrir.

Öðru máli gegnir með hópinn í hægri fletinum þegar hann er rýndur nánar. Þar er nú ekki verið að hlaða grjóti ofan í brunn heldur vatni ausið og jörð vökvuð svo sem vera ber. Menn eru með hrífur og raka steinvölur og illgresi er tekið upp. Margar verkfúsar og velvirkar hendur eru þar á lofti til að sinna garðinum af alúð. Nokkrir menn eru mest áberandi í miðju myndflatar,  einn hálfvegis krýpur og heldur utan um eitthvert verkfæri og mun það vera sá er minningartaflan er um, Paul Eber, hann horfir beint í augu myndrýnanda. Sá er stendur og rakar með stórri hrífu, mestur um sig, er siðbótarmaðurinn og prófessorinn, Marteinn Lúther. Við brunninn fjærst, sá sem halar fötu upp, er höfuðaðstoðarmaður Lúthers, húmanistinn Filippus Melankton.[8]

Augljóst er að hér er verkamunur á þeim sem starfa vinstra megin og hinum sem eru hægra megin að störfum.

Þá skal hugað nánar að þeim skrautklædda hópi fremst, vinstra megin. Þetta er meðal annars kennilýður rómversks-kaþólskrar kirkju – og tákn hennar. Sá er fremstur fer fyrir flokki þessum réttir fram lófann og virðist vera í honum gráleit hringlaga mynd – það er líkast til einn denar, verkalaunin – sjá neðanmálsgrein nr. 12 – en þeir sem fyrstir komu fengu sömu laun og þeir sem síðastir komu. Sá sem hefur rétt honum verkalaunin er frelsarinn, allt útlit og samhengi ber tilvísan til hans, sem og styrkist með þeim manni er heldur á lykli, það er sjálfur Lykla-Pétur – og lærisveinar að baki. Hér standa þeir tveir, Pétur og Kristur, á vissan hátt til hliðar í mynd enda þótt þeir báðir standi fyrir tákn kirkjunnar (Pétur og Kristur) og lífsins (Kristur).

Hópurinn sem er hægra megin fyrir framan girðinguna eru ættingjar þess sem minningartöfluna á, Páls Ebers. Allir bíða þeir eftir „herra“ víngarðsins. Börnin eru þrettán (það eru börn Páls og konu hans), fimm eru hvítklædd sem merkir að þau eru látin. Paul Eber, næst konu sinni, heldur á Biblíu. Hann samdi fjölda sálma sem enn eru sungnir og því var starfi hans í víngarði Drottins árangursríkur.[9] Hér fylgir Cranach að vísu fyrirmynd íhugunarmynda miðalda með því að láta Paul Eber halda á opinni bók nema hvað að siðbótin felldi hlutverk þeirra úr gildi. Þær höfðu ekkert að segja sem einhvers konar meðalgangari/bænastaður/fyrirbæn fyrir hinn látna, hvorki sálarheill hans né ættmenna hans. Hér var komin kjarnasetning siðbótarinnar til sögu: maðurinn réttlætist frammi fyrir Guði af trú og engu öðru – hvorki góðum verkum né fyrirbænum annarra.[10]

Nánari athugun leiðir í ljós að á þessari minningartöflu er sett á svið dæmisaga Jesú um víngarðinn.[11] Jafnframt er hún nýtt af mótmælendum til að koma höggi á rómversk-kaþólska kirkju til að sýna sviksemi þeirra og ólifnað í víngarðinum sem þeir áttu að gæta af samviskusemi og trúmennsku – verkalaun þeirra voru einn denar þrátt fyrir langa varðstöðu (v.10). Sömuleiðis sýnir hún iðjusemi og samviskusemi mótmælenda í garðvinnunni – þeir fengu og einn denar fyrir stutta varðstöðu í garðinum (v.9).

Hér beitir listamaðurinn, Cranach yngri, listrænum hæfileikum sínum óspart, til að vega að hinum rómversk-kaþólsku. Kannski ekki aðeins að ósk ættingja svo þeir yrðu ánægðir með verkið heldur er meira en líklegt að hann sjálfur hafi verið sama sinnis enda ötull fylgismaður siðbótar sem áður greindi.

Af hverju velur Cranach þessa dæmisögu? Liggur við borð að segja að tilefnið sé sjálfsagt og gefið af andstæðingnum. Nokkuð sannfærandi kenning hefur verið sett fram um það. Minningartaflan er um Paul Eber svo sem komið hefur fram. „Eber“ þýðir á þýsku „villt öskur“. Í bannhótunarbréfi  Leós páfa X., frá júní 1520 til Lúthers var textinn eitt „allsherjarhróp“ gegn Lúther og kenningum hans.[12]Í bréinu voru ákallaðir helgir menn, til að slá skjaldborg um víngarð Drottins sem Lúther og hans villta öskur ætluðu sér að yfirtaka og leggja í rúst.[13]

Þetta bannhótunarbréf páfa ásamt rómverska kirkjuréttinum brenndi Lúther opinberlega í Wittenberg 10. desember 1520.[14] Lúther var svo bannfærður ári síðar og stóð sú bannfæring allt til dauða hans.

Sá sem er kominn til að gera óskunda í víngarðinum að mati rómversku kirkjunnar er Marteinn Lúther – villigölturinn en hann er trúarlegt tákn fyrir agaleysi.[15] Hér kemur og tákn til sögu sem er víngarðurinn – hann táknar kirkjuna sem mönnum er fengin til að stýra og stjórna, fara vel með og láta gott af sér leiða.

Stef minningartöflunnar er því sótt til óvinarins (ef svo má segja) og hann niðurlægður með því að sýna hvernig hann hagar störfum sínum í víngarðinum samanborið við siðbótarmennina.

Niðurstaðan er sem sé þessi í stuttu máli:

Þegar hugað er að merkingu myndarinnar verður ekki annað sagt en að hér sé á ferð óvenjuleg minningartafla siðbótarmanns og ættingjar hans hafa komið skilaboðum til listamannsins – að því marki sem þess þurfti við en hann var sonur Cranachs, eldri, vinar og stuðningsmanns Marteins Lúthers. Minningartaflan er hins vegar gerð rammtrúarpólitísk – og í raun réttri háðung fyrir rómversk-kaþólska kirkju.

Kannski má segja að myndmál minningartöflunnar sé tiltölulega einfalt og velta má fyrir sér fyrir hverja það sé fyrir utan ættingja Ebers. Myndmálið er skýrt: víngarðurinn hjá hinum rómversk-kaþólsku er í órækt og þau sem sinna honum gera það með sviksamlegum hætti og mörg þeirra eru drukkin. Mótmælendur sinna sínum garðhluta af mikilli prýði og dugnaði. Þar fer fremstur siðbótarforinginn sjálfur, Lúther, Melankton og Paul Eber. Þrátt fyrir allt er garðurinn ein heild þó skiptur sé – sýnir kannski að aldrei stóð til að kljúfa kirkjuna í herðar niður enda svo færi á endanum.

Hér er staðið fast við siðbótina og áróðurinn magnaður gegn rómversku kirkjunni. Cranach yngri er einbeittur í verki sínu og úthugsar það. Kannski verður að hafa í huga að fyrsta kynslóð siðbótarfólksins var að renna sitt skeið á enda, önnur kynslóðin komin á kreik. Enda þótt áróðursverk sé þá er það sett fram með listrænum hætti af hendi listamannsins og ekkert svo sem gefið eftir af listrænum kröfum þess tíma.

Minninartaflan í Borgarkirkjunni (Maríukirkjunni) í Wittenberg

[1] Áróður felst í því að fá fólk til að taka afstöðu með einhverju eða á móti. Önnur orð um áróður: málafylgja, stefnuboðun, útbreiðslustarfsemi, sjá: Íslensk samheitaorðabók, 32.

[2] The Dictionary of Art, 120.

[3] Dictionary of Luther and the Lutheran Traditions, 201-202.

[4] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57.

[5] Með vísan til Víngarðsfjalls (Drottins) má ætla að um tilvísun í Olíufjallið sé að ræða en við rætur þess var hinn kunni garður í kristinni trúarsögu, Getsemanegarðurinn, enda þótt ekki sé nákvæmlega vitað hvar. Orðið Getsemane þýðir olíupressa. Táknræn merking hans felst í að þar baðst Jesús fyrir í angist (Matteusarguðspjall 26.36) og þar sveik Júdas hann (Jóhannesarguðspjall 18.1-2). The HarperCollins Bible Dictionary, 374.

[6] Samanber samtal Jesú við samversku konuna við brunninn: Jóhannesarguðspjall 4.1-41; sérstaklega: „Jesús svaraði henni: ‚Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir hver sá er sem segir við þig: Gef mér að drekka, þá mundir þú biðja hann og hann gæfi þér lifandi vatn.‘ Hún segir við hann: ‚Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?‘ “ Biblían (11. íslenska útgáfan).

[7] Lexikon der christlichen Ikonographie, 485-486. Í þessu sambandi er vitnað til Fljótsins í Eden (1. Mósebók 2.10), Davíðssálma 35.10 sem dæmi. Táknmyndir uppsprettunnar tengjast Paradís sem er uppspretta hins eilífa lífs og Kristi sbr. orð hans um læki lifandi vatns… (Jóhannesarguðspjall 7.38).

[8] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57 – og: Lausten, Schwarz, Martin, Philipp Melanchton – humanist og luthersk reformator i Tyskland og Danmark, 217-219. Aðra siðbótarmenn á myndinni er hægt að nafngreina en þessi stutta umfjöllun leyfir það ekki.

[9] Steinwachs, Albrecht, The Vineyard of the Lord – epitaph for Paul Eber, 8.

[10] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57-58.

[11] Dæmisögu Jesú um víngarðinn má finna í Matteusarguðspjalli 20.1-16. Hún gengur út á það að Drottinn leigði landbúnaðarverkamenn til að sinna víngarði sínum og lofaði þeim sama kaupi burtséð frá því hvenær þeir hefðu komið til vinnu. Einn denar skyldi hver fá. Ljóst er að hér er gefið til kynna að hin rómversk-kaþólska kirkja hafði nú heldur betur vetur verið lengur í víngarði Drottins en hin nýuppsprottna hreyfing mótmælenda og taldi sig eiga þar góðan lífeyrisjóð svo gripið sé til nútímaorðfæris – kannski var það líka ástæða þess að hún var orðin löt og værukær. En svona er dæmisagan: „1 Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3 Síðan gekk hann út um dagmál[ og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4 Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. 5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón[ og gerði sem fyrr. 6 Og á elleftu stundu[ fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? 7 Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.
8 Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. 9 Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. 10 Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. 11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12 Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
13 Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ Biblían (11. íslenska útgáfan).

[13] „Rís upp, ó Drottinn og dæm í máli þínu. Villigöltur hefur brotizt inn í víngarð þinn. Rís upp, ó Pétur, og huga að málstað hinnar helgu, rómversku kirkju, móður allra kirkna … Rís upp, ó, Páll, þú sem lýst hefur og lýsir enn kirkjunni með kenning þinni og dauða. Rísið upp, allir þér heilagir … Þær bækur Marteins Lúthers, er geyma þessar villukenningar, verður að rannsaka og brenna.“ sjá Roland H. Bainton, Marteinn Lúther, 114.

[14] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar, 472. Þess má geta að Mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna er haldinn hátíðlegur hvert ár hinn 10. desember og sækir í þetta tilefni þar sem einstaklingurinn stendur berskjaldaður frammi fyrir ríkisvaldi/kirkjuvaldi en lætur það ekki bjóða sér birginn heldur rís upp og stendur á rétti sínum.

[15] Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst, 145.

Heimildaskrá:

The Dictionary of Art, ritstj., Jane Turner, 8. bindi. Ohio: Macmillan Publishers Ltd., 1996.

Dictionary of Luther and the Lutheran Traditions – ritstj., Timothy J. Wengert. Michigan:  Baker Academic,  2017.

Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014,

Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst. Kaupmannahöfn: Bogtrykkeri Tönder, 1979.

The HarperCollins Bible Dictionary, aðalritstj., Paul J. Achtmeyer. New York: HarperCollins Publishers, 1996.

Hoffmann, Thomas R., Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild. Stuttgart: Belser, 2017.

 Íslensk samheitaorðabók, ritstj., Svavar Sigmundsson. Reykjavík: Oddi hf.,1993.

Lausten, Schwarz, Martin, Philipp Melanchton – humanist og luthersk reformator i Tyskland og Danmark. Kaupmannahöfn: Forlag Anis, 2015.

Lexikon der christlichen Ikonographie – aðalhöfundur von Engelbert Kirschbaum SJ+ í samvinnu við fleiri, þriðja bindi, Laban-Ruth. Vínarborg: Herder, 1971.

The Oxford Dictionary of Art, ritstj. Ian Chilvers og Harold Osborne, ráðgefandi ritstj. Dennis Farr. Midsomer, Norton, Somerset: Oxford University Press, 1997.

Roland H. Bainton, Marteinn Lúther, (ísl. þýð. Guðmundur Óli Ólafsson). Reykjavík: Bókaútgáfan Salt, 1984.

Steinwachs, Albrecht, The Vineyard of the Lord – epitaph for Paul Eber. Spröda: Akanthus, 2001.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Myndlist hefur á öllum öldum verið notuð til að styðja við málstað af hinu og þessu taginu. Sérstaklega þegar alvarleg og söguleg átök eiga sér stað. Listamenn taka afstöðu í verkum sínum af ýmsum ástæðum hvort heldur af hugsjón, framfærsluþörf eða vegna listræns innblásturs. Þess vegna er mikilvægt að geta lesið út úr listaverkum, bæði sögulegum og eins þeim sem fram koma á líðandi stund, boðskap listamannanna.

Fjallað verður í stuttu máli um minningartöflu (þ. das Epitaph) eftir Lucas Cranach yngri (1515-1586), í Borgarkirkjunni í Wittenberg, tilurð hennar, hlutverk og merkingu út frá listfræðilegu sjónarhorni. Innihald og merking hennar verður sett í sögulegt samhengi og reynt að meta vægi hennar í listasögunni; er hún rammpólitísk í þágu málstaðar siðbótarmanna, og ber áróður[1] listina ofurliði eða er þar sæmilegt jafnvægi á milli?

Lucas Cranach yngri var endurreisnarmálari og útskurðarmeistari, sonur Cranachs hins eldri (1472-1553); lærði hjá föður sínum og vann á málverkastofu hans alla ævi. Mjög erfitt er að greina á milli verka þeirra feðga. Hann var eins og faðirinn ákafur fylgismaður siðbótarhreyfingarinnar og málaði margar myndir af siðbótarmönnum sem og trúarlegar myndir.[2]

Þetta voru róstusamir tímar sem hófust með uppreisn Marteins Lúthers gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni 1517 þegar hann setti fram gagnrýni á hana í 95 liðum.

Ekki verður annað sagt en margt sé að sjá þegar horft er á þessa mynd á foríkónóngrafísku stigi og reynt að átta sig almennt á því sem ber fyrir á myndfletinum sem er garður. Hann er hálfhringur og hvöss stauragirðing þverar myndflötinn neðarlega. Gráleitur stígur eða skurður gengur þvert upp hálfhringinn á ská og greinir að tvo fleti, þann vinstri og hinn hægri. Á vinstri fletinum sér í flokk manna í skrautlegum klæðum, kirkjunnar menn líkast til og fara nokkrir um porthlið. Sá sem þar er fremstur gæti verið biskup eða páfi og hann réttir út hönd til manns í móleitum kufli. Bak þeim er hópur fólks sem horfir einkum fram en sumir til hliðar. Þegar haldið er ögn ofar í myndina sér í brunn og er svo að sjá sem gráleitum hnullungum sé sturtað ofan í hann – þar er og fólk við margvísleg jarðyrkjustörf. Á hægri fletinum eru sömuleiðis menn að fást við jarðyrkjustörf. Þeir raka, grafa, týna upp o.sv.frv. Þar er og brunnur mikill sem einn stendur við og eys vatni úr, vökvar. Fjærst í hægra fleti sér í kastala. Hægra megin flatarins fyrir framan girðinguna, er hópur fólks og flestir sitjandi. Fremst eru fimm hvítklædd börn. Flestir eru með lófa í bænastellingu en einn heldur á opinni bók.

Þegar grafist er fyrir um hvern þessi minningartafla sé reynist handhafi hennar vera Paul Eber nokkur sem dó 1569. Hann var prófessor í gamlatestamentisfræðum og forystumaður meðal annarrar kynslóðar menntamanna í hópi mótmælenda eftir að forystumenn siðbótarinnar í Wittenberg, Marteinn Lúther (d. 1546) og Filippus Melankton (d. 1560), voru fallnir frá. Paul var lærisveinn Melanktons sem var nánasti samstarfsmaður Lúthers [3] Eftir lát Paul Ebers pöntuðu erfingjar hans minningartöflu hjá Lucasi Cranach yngri og skyldi henni komið fyrir í Borgarkirkjunni í Wittenberg.[4] Þá ber minningartaflan þýska nafnið Der Weinberg des Herrn (Víngarðsfjall Drottins).[5]

Þegar myndin er skoðuð betur með íkónógrafískum aðferðum er byrjað sem fyrr á vinstri fleti og nú handan girðingar kemur í ljós að þeir menn sem þar eru að störfum ráða vart við þau. Störf þeirra eru unnin með þeim hætti að ekki verður annað séð en að garðurinn verði lagður í auðn.

Nokkrir sem þar eru að störfum bera kirkjutákn eins og mítur, bagal (hirðisstaf) og helgigöngukross. Aðrir eru í kirkjuklæðum, munkakuflum. Einn handleikur haka all djarflega; þeir dansa, spila, sveifla mishættulegum amboðum. Og einhverjir slást og sumir sitja annars hugar, utanveltu. Hópurinn er illvirkur og nokkurs konar birtingarmynd kaos, öngþveitis.

Verður nú gripið til íkónólógískra vangaveltna um myndina:

Það tákn sem er áberandi vinstra og hægra megin í myndinni er brunnur.

Brunnurinn vinstra megin sem fylltur er með grjóti tæmist skjótt. Hér er brunnur tákn fyrir lífið, næringu og frumskilyrði lífs – sé brunnvatni spillt er voðinn vís. Fólk sem fyllir brunn af steinum er vitaskuld að vinna hervirki. En brunnur hefur líka trúarlega skírskotun fyrir lifandi vatn.[6] Brunnur (þ. der Brunnen, lat. Quelle) hefur víðtæka trúarlega skírskotun og merkingu sem uppspretta er styrkir lífið og er nauðsynlegt fyrir það,  bæði andlegt líf og náttúrulegt – vísar sem tákn í hinu trúarlega samhengi til uppsprettu lífsins.[7] Og óhreint brunnvatn kallar á óhreina kenningu sem Lúther gagnrýndi hina kaþólsku kirkju fyrir.

Öðru máli gegnir með hópinn í hægri fletinum þegar hann er rýndur nánar. Þar er nú ekki verið að hlaða grjóti ofan í brunn heldur vatni ausið og jörð vökvuð svo sem vera ber. Menn eru með hrífur og raka steinvölur og illgresi er tekið upp. Margar verkfúsar og velvirkar hendur eru þar á lofti til að sinna garðinum af alúð. Nokkrir menn eru mest áberandi í miðju myndflatar,  einn hálfvegis krýpur og heldur utan um eitthvert verkfæri og mun það vera sá er minningartaflan er um, Paul Eber, hann horfir beint í augu myndrýnanda. Sá er stendur og rakar með stórri hrífu, mestur um sig, er siðbótarmaðurinn og prófessorinn, Marteinn Lúther. Við brunninn fjærst, sá sem halar fötu upp, er höfuðaðstoðarmaður Lúthers, húmanistinn Filippus Melankton.[8]

Augljóst er að hér er verkamunur á þeim sem starfa vinstra megin og hinum sem eru hægra megin að störfum.

Þá skal hugað nánar að þeim skrautklædda hópi fremst, vinstra megin. Þetta er meðal annars kennilýður rómversks-kaþólskrar kirkju – og tákn hennar. Sá er fremstur fer fyrir flokki þessum réttir fram lófann og virðist vera í honum gráleit hringlaga mynd – það er líkast til einn denar, verkalaunin – sjá neðanmálsgrein nr. 12 – en þeir sem fyrstir komu fengu sömu laun og þeir sem síðastir komu. Sá sem hefur rétt honum verkalaunin er frelsarinn, allt útlit og samhengi ber tilvísan til hans, sem og styrkist með þeim manni er heldur á lykli, það er sjálfur Lykla-Pétur – og lærisveinar að baki. Hér standa þeir tveir, Pétur og Kristur, á vissan hátt til hliðar í mynd enda þótt þeir báðir standi fyrir tákn kirkjunnar (Pétur og Kristur) og lífsins (Kristur).

Hópurinn sem er hægra megin fyrir framan girðinguna eru ættingjar þess sem minningartöfluna á, Páls Ebers. Allir bíða þeir eftir „herra“ víngarðsins. Börnin eru þrettán (það eru börn Páls og konu hans), fimm eru hvítklædd sem merkir að þau eru látin. Paul Eber, næst konu sinni, heldur á Biblíu. Hann samdi fjölda sálma sem enn eru sungnir og því var starfi hans í víngarði Drottins árangursríkur.[9] Hér fylgir Cranach að vísu fyrirmynd íhugunarmynda miðalda með því að láta Paul Eber halda á opinni bók nema hvað að siðbótin felldi hlutverk þeirra úr gildi. Þær höfðu ekkert að segja sem einhvers konar meðalgangari/bænastaður/fyrirbæn fyrir hinn látna, hvorki sálarheill hans né ættmenna hans. Hér var komin kjarnasetning siðbótarinnar til sögu: maðurinn réttlætist frammi fyrir Guði af trú og engu öðru – hvorki góðum verkum né fyrirbænum annarra.[10]

Nánari athugun leiðir í ljós að á þessari minningartöflu er sett á svið dæmisaga Jesú um víngarðinn.[11] Jafnframt er hún nýtt af mótmælendum til að koma höggi á rómversk-kaþólska kirkju til að sýna sviksemi þeirra og ólifnað í víngarðinum sem þeir áttu að gæta af samviskusemi og trúmennsku – verkalaun þeirra voru einn denar þrátt fyrir langa varðstöðu (v.10). Sömuleiðis sýnir hún iðjusemi og samviskusemi mótmælenda í garðvinnunni – þeir fengu og einn denar fyrir stutta varðstöðu í garðinum (v.9).

Hér beitir listamaðurinn, Cranach yngri, listrænum hæfileikum sínum óspart, til að vega að hinum rómversk-kaþólsku. Kannski ekki aðeins að ósk ættingja svo þeir yrðu ánægðir með verkið heldur er meira en líklegt að hann sjálfur hafi verið sama sinnis enda ötull fylgismaður siðbótar sem áður greindi.

Af hverju velur Cranach þessa dæmisögu? Liggur við borð að segja að tilefnið sé sjálfsagt og gefið af andstæðingnum. Nokkuð sannfærandi kenning hefur verið sett fram um það. Minningartaflan er um Paul Eber svo sem komið hefur fram. „Eber“ þýðir á þýsku „villt öskur“. Í bannhótunarbréfi  Leós páfa X., frá júní 1520 til Lúthers var textinn eitt „allsherjarhróp“ gegn Lúther og kenningum hans.[12]Í bréinu voru ákallaðir helgir menn, til að slá skjaldborg um víngarð Drottins sem Lúther og hans villta öskur ætluðu sér að yfirtaka og leggja í rúst.[13]

Þetta bannhótunarbréf páfa ásamt rómverska kirkjuréttinum brenndi Lúther opinberlega í Wittenberg 10. desember 1520.[14] Lúther var svo bannfærður ári síðar og stóð sú bannfæring allt til dauða hans.

Sá sem er kominn til að gera óskunda í víngarðinum að mati rómversku kirkjunnar er Marteinn Lúther – villigölturinn en hann er trúarlegt tákn fyrir agaleysi.[15] Hér kemur og tákn til sögu sem er víngarðurinn – hann táknar kirkjuna sem mönnum er fengin til að stýra og stjórna, fara vel með og láta gott af sér leiða.

Stef minningartöflunnar er því sótt til óvinarins (ef svo má segja) og hann niðurlægður með því að sýna hvernig hann hagar störfum sínum í víngarðinum samanborið við siðbótarmennina.

Niðurstaðan er sem sé þessi í stuttu máli:

Þegar hugað er að merkingu myndarinnar verður ekki annað sagt en að hér sé á ferð óvenjuleg minningartafla siðbótarmanns og ættingjar hans hafa komið skilaboðum til listamannsins – að því marki sem þess þurfti við en hann var sonur Cranachs, eldri, vinar og stuðningsmanns Marteins Lúthers. Minningartaflan er hins vegar gerð rammtrúarpólitísk – og í raun réttri háðung fyrir rómversk-kaþólska kirkju.

Kannski má segja að myndmál minningartöflunnar sé tiltölulega einfalt og velta má fyrir sér fyrir hverja það sé fyrir utan ættingja Ebers. Myndmálið er skýrt: víngarðurinn hjá hinum rómversk-kaþólsku er í órækt og þau sem sinna honum gera það með sviksamlegum hætti og mörg þeirra eru drukkin. Mótmælendur sinna sínum garðhluta af mikilli prýði og dugnaði. Þar fer fremstur siðbótarforinginn sjálfur, Lúther, Melankton og Paul Eber. Þrátt fyrir allt er garðurinn ein heild þó skiptur sé – sýnir kannski að aldrei stóð til að kljúfa kirkjuna í herðar niður enda svo færi á endanum.

Hér er staðið fast við siðbótina og áróðurinn magnaður gegn rómversku kirkjunni. Cranach yngri er einbeittur í verki sínu og úthugsar það. Kannski verður að hafa í huga að fyrsta kynslóð siðbótarfólksins var að renna sitt skeið á enda, önnur kynslóðin komin á kreik. Enda þótt áróðursverk sé þá er það sett fram með listrænum hætti af hendi listamannsins og ekkert svo sem gefið eftir af listrænum kröfum þess tíma.

Minninartaflan í Borgarkirkjunni (Maríukirkjunni) í Wittenberg

[1] Áróður felst í því að fá fólk til að taka afstöðu með einhverju eða á móti. Önnur orð um áróður: málafylgja, stefnuboðun, útbreiðslustarfsemi, sjá: Íslensk samheitaorðabók, 32.

[2] The Dictionary of Art, 120.

[3] Dictionary of Luther and the Lutheran Traditions, 201-202.

[4] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57.

[5] Með vísan til Víngarðsfjalls (Drottins) má ætla að um tilvísun í Olíufjallið sé að ræða en við rætur þess var hinn kunni garður í kristinni trúarsögu, Getsemanegarðurinn, enda þótt ekki sé nákvæmlega vitað hvar. Orðið Getsemane þýðir olíupressa. Táknræn merking hans felst í að þar baðst Jesús fyrir í angist (Matteusarguðspjall 26.36) og þar sveik Júdas hann (Jóhannesarguðspjall 18.1-2). The HarperCollins Bible Dictionary, 374.

[6] Samanber samtal Jesú við samversku konuna við brunninn: Jóhannesarguðspjall 4.1-41; sérstaklega: „Jesús svaraði henni: ‚Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir hver sá er sem segir við þig: Gef mér að drekka, þá mundir þú biðja hann og hann gæfi þér lifandi vatn.‘ Hún segir við hann: ‚Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?‘ “ Biblían (11. íslenska útgáfan).

[7] Lexikon der christlichen Ikonographie, 485-486. Í þessu sambandi er vitnað til Fljótsins í Eden (1. Mósebók 2.10), Davíðssálma 35.10 sem dæmi. Táknmyndir uppsprettunnar tengjast Paradís sem er uppspretta hins eilífa lífs og Kristi sbr. orð hans um læki lifandi vatns… (Jóhannesarguðspjall 7.38).

[8] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57 – og: Lausten, Schwarz, Martin, Philipp Melanchton – humanist og luthersk reformator i Tyskland og Danmark, 217-219. Aðra siðbótarmenn á myndinni er hægt að nafngreina en þessi stutta umfjöllun leyfir það ekki.

[9] Steinwachs, Albrecht, The Vineyard of the Lord – epitaph for Paul Eber, 8.

[10] Thomas R. Hoffmann, Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild, 57-58.

[11] Dæmisögu Jesú um víngarðinn má finna í Matteusarguðspjalli 20.1-16. Hún gengur út á það að Drottinn leigði landbúnaðarverkamenn til að sinna víngarði sínum og lofaði þeim sama kaupi burtséð frá því hvenær þeir hefðu komið til vinnu. Einn denar skyldi hver fá. Ljóst er að hér er gefið til kynna að hin rómversk-kaþólska kirkja hafði nú heldur betur vetur verið lengur í víngarði Drottins en hin nýuppsprottna hreyfing mótmælenda og taldi sig eiga þar góðan lífeyrisjóð svo gripið sé til nútímaorðfæris – kannski var það líka ástæða þess að hún var orðin löt og værukær. En svona er dæmisagan: „1 Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3 Síðan gekk hann út um dagmál[ og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4 Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. 5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón[ og gerði sem fyrr. 6 Og á elleftu stundu[ fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? 7 Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.
8 Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. 9 Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. 10 Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. 11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12 Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
13 Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ Biblían (11. íslenska útgáfan).

[13] „Rís upp, ó Drottinn og dæm í máli þínu. Villigöltur hefur brotizt inn í víngarð þinn. Rís upp, ó Pétur, og huga að málstað hinnar helgu, rómversku kirkju, móður allra kirkna … Rís upp, ó, Páll, þú sem lýst hefur og lýsir enn kirkjunni með kenning þinni og dauða. Rísið upp, allir þér heilagir … Þær bækur Marteins Lúthers, er geyma þessar villukenningar, verður að rannsaka og brenna.“ sjá Roland H. Bainton, Marteinn Lúther, 114.

[14] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar, 472. Þess má geta að Mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna er haldinn hátíðlegur hvert ár hinn 10. desember og sækir í þetta tilefni þar sem einstaklingurinn stendur berskjaldaður frammi fyrir ríkisvaldi/kirkjuvaldi en lætur það ekki bjóða sér birginn heldur rís upp og stendur á rétti sínum.

[15] Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst, 145.

Heimildaskrá:

The Dictionary of Art, ritstj., Jane Turner, 8. bindi. Ohio: Macmillan Publishers Ltd., 1996.

Dictionary of Luther and the Lutheran Traditions – ritstj., Timothy J. Wengert. Michigan:  Baker Academic,  2017.

Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014,

Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst. Kaupmannahöfn: Bogtrykkeri Tönder, 1979.

The HarperCollins Bible Dictionary, aðalritstj., Paul J. Achtmeyer. New York: HarperCollins Publishers, 1996.

Hoffmann, Thomas R., Luther – eine Ikone wird erschaffen im Bild. Stuttgart: Belser, 2017.

 Íslensk samheitaorðabók, ritstj., Svavar Sigmundsson. Reykjavík: Oddi hf.,1993.

Lausten, Schwarz, Martin, Philipp Melanchton – humanist og luthersk reformator i Tyskland og Danmark. Kaupmannahöfn: Forlag Anis, 2015.

Lexikon der christlichen Ikonographie – aðalhöfundur von Engelbert Kirschbaum SJ+ í samvinnu við fleiri, þriðja bindi, Laban-Ruth. Vínarborg: Herder, 1971.

The Oxford Dictionary of Art, ritstj. Ian Chilvers og Harold Osborne, ráðgefandi ritstj. Dennis Farr. Midsomer, Norton, Somerset: Oxford University Press, 1997.

Roland H. Bainton, Marteinn Lúther, (ísl. þýð. Guðmundur Óli Ólafsson). Reykjavík: Bókaútgáfan Salt, 1984.

Steinwachs, Albrecht, The Vineyard of the Lord – epitaph for Paul Eber. Spröda: Akanthus, 2001.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir