Daglega er fagurrautt tjald fyrir altari kapellunnar á Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar í Reykjavík og salurinn notaður fyrir ýmsa viðburði á heimilinu. Þegar tjaldið er dregið frá kemur í ljós hin fallegasta kirkjuumgjörð, altari, með altaristöflu eftir Jóhann Briem (1907-1991). Minna ber á tveimur steindum gluggum, norðan og sunnan megin í kór kapellunnar.

Í myndarlegri kapellunni sem vígð var 1955 [1] er að finna fyrstu steindu íslensku gluggana með trúarlegu myndefni í vígðu rými á Íslandi.[2] Þeir eru eftir listakonuna Gerði Helgadóttur (1928-1975).

„Saga steinda glersins í nútíð hefst með tveimur gluggum sem Gerður Helgadóttir gerir fyrir kapellu Elliheimilisins í Reykjavík árið 1955…“[3]

Segja má að undarleg þögn hafi ríkt um þessa merku listglugga sem forstjóri Grundar, Gísli Sigurbjörnsson (1907-1994) hafði frumkvæði að fela listakonunni að skapa árið 1955 [4] en þá var hún aðeins 27 ára gömul. Hvorki í listasögu Björns Th. Björnssonar (1922-2007) frá 1973 né í Íslenskri listasögu frá 2009 er getið um þessa glugga.

Samt er þetta tímamótaverk í íslenskri nútímalist þótt myndefnið sé að mestu hefðbundið.

Myndefni glugganna  tveggja var valið af sr. Sigurbirni Á. Gíslasyni (1876-1969) sem  var heimilisprestur á Grund. Hann kaus að annar glugginn sýndi fagnaðarerindi jólanna og hinn upprisuna. Til stóð að gera þriðja gluggann en vegna mistaka í mælingum varð ekkert af því.

Gísli Sigurbjörnsson var afar hliðhollur listakonunni ungu og gaf til dæmis steinda gluggann sem hún gerði á vesturstafn Hallgrímskirkju í Saurbæ til minningar um gamla fólkið í landinu.[5]

Það var árið 1953 sem áhugi Gerðar vaknaði á glerlist og næsta áratug helgaði hún sér þeirri listgrein en síðar urðu höggmyndir aðalviðfangsefni hennar. Hún vann skúlptúra, lágmyndir og mósaíkverk. Þegar hún lést innan við fimmtugt var hún orðin einn helsti myndhöggvari þjóðarinnar á 20. öld.

Glerlistaverk Gerðar má finna í nokkrum kirkjum á Íslandi fyrir utan kapelluna á Grund: Hallgrímskirkju í Saurbæ, Skálholtsdómkirkju, Kópavogskirkju, Neskirkju í Reykjavík, og Ólafsvíkurkirkju. Auk þess á hún mörg glerlistaverk í kirkjum í útlöndum.

Steindi glugginn norðan megin í kapellu Grundar

Steindi glugginn hér til vinstri sýnir Maríu guðsmóður og Jesúbarnið og dregur fram kraftmikla mynd sem er í miklu jafnvægi. Blár litur er gjarnan eignaður Maríu en hér er hún í rauðum kyrtli en sá litur er tákn kærleikans. Hins vegar er blár litur ríkjandi í allri myndinni, djúpur blár litur himinsins umvefur alla á myndinni. Og sólin er kærleiksrauð með geislum sínum sem leysast upp í bjarta liti. Þrír englar vaka yfir Maríu og barninu hennar, einn karlkyns engill og tveir kvenkyns. Yfir öllum er geislabaugur. Andlitssvipur englanna er alvarlegur sem og Maríu – en svipbrigði sjást afar vel enda teiknað í glerið. Það er drengjalegur svipur á Jesúbarninu og augu hans stór og opin eins og á móðurinni. Enda þótt myndin sé hefðbundin eins og sagt er kennir þar og tilhneigingar til hins óhlutlæga listforms (abstrakt) sem Gerður átti eftir að snúa sér að í ríkum mæli. Steint gler gefur listamönnum mjög svo gott tækifæri til að leika sér með samspil hins hefðbundna og hins óhlutlæga án þess að annað trufli hitt. Nú verður alltaf að gæta sín á því að oftúlka ekki listaverk. Það fer þó ekki fram hjá þeim er virðir þetta listaverk Gerðar fyrir sér að í hægra horni er möndulaga eða fiskilaga tákn sem er lárétt. Kannski fisktákn en þá er sporðurinn ógreinilegur, fiskur er tákn Jesú Krists. Ekki er fráleitt að lesa þetta tákn Gerðar sem hið ævaforna Maríutákn. Mandla er tengd stærðfræðilega tákninu, vesica piscis, sem stendur fyrir guðdómlegan samruna. Sjálf mandlan er hörð og bak við skel hennar leynist hreint hjarta guðsmóðurinnar og hinn huldi guðdómur Jesúbarnsins í mannsbarninu. Þá má líka túlka þetta möndlulaga tákn sem auga og þá er það auga hins alsjáanda Guðs. Þannig lætur listakonan áhorfandann um það að lesa út úr þessu tákni það sem hann telur að það merki. Og áfram má túlka. Vinstra megin í myndinni sést í tvö laufblöð og það þriðja rís upp eins og höggormur, að hálfu laufblað og dökkur flötur. Getur verið að þarna sé verið að minna á stefið úr aldingarðinum Eden þar sem höggormurinn lék stórt hlutverk þegar maðurinn féll, Adam og Eva? Oft er talað um Jesú sem hinn nýja Adam þar sem hann reisti mannkynið við. Það er hann sem liggur í jötunni, hinn nýi Adam sem færir heiminn til hins betra; frelsari heimsins.

Steindi glugginn sunnan megin – Kristur upp risinn

Steindi glugginn sunnan megin er upprisumynd (hér til hægri). Þar er Jesús Kristur miðpunktur og svo að segja brýst með miklum og kraftmiklum og ljóma út úr myndfletinum. Mildur á svip og umvafinn sterkum geislabaug. Fimm manneskjur eru með á myndinni og er svo að sjá það fjórar þeirra séu karlar og ein kona – kannski María Magdalena sem styður hönd undir kinn? Beggja megin í myndinni eru tveir karlar fullir lotningar andspænis meistaranum og aðrir tveir við fætur hans og annar þeirra nokkuð hugsi. Litasamspilið gerir myndina í senn fjörlega og hátíðlega. Þá skal bent á tré með laufblöðum vinstra megin. Kannski er það tilvísun til skilningstrés góðs og ills. Í þessum glugga sem hinum fyrri renna saman hefðbundin mótíf sem og óhlutlæg.

Gluggarnir tveir eru jafnstórir, 153 x 108 cm.

Þegar gengið er um heimili Grundar blasa hvarvetna við listaverk, bæði frumverk og eftirmyndir. Innan húss sem utan. Fyrir utan heimilið eru höggmyndirnar Bæn, Demantur og Kona eftir Einar Jónsson (1874-1954). Þau sem hafa verið og eru í forystu fyrir þessari merku stofnun hafa strax gert sér glögga grein fyrir mikilvægi listarinnar fyrir heimilisfólkið hvort heldur til menningarlegrar ánægju eða trúarlegrar ástundunar. Auk þess er listin hvatning til íhugunar og hin trúarlegu verk eru bænahvetjandi sem eflir heilsu og andlegan hag.

 

Altaristaflan á Grund – eftir Jóhann Briem                                                   

„Demanturinn,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)                                         

„Bæn,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)                                                      

„Kona,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir

[1] Séra Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R. Guðmundsdóttir, Grund – afmælisrit 1922-2022, (Bókaútgáfan Grund, Reykjavík 2022), bls. 94. Og: M.J. (Magnús Jónsson), „Kórvígsla í Elliheimilinu Grund,“ Kirkjuritið 4. tbl. 1. apríl 1955, bls. 174.)

[2] Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning hvenær steindu gluggarnir komu í kapellu Grundar, þeir voru ekki komnir við vígslu hennar 1955. Líklegt er að þeir hafi komið á því ári eða 1956. Steindan glugga í Hallgrímskirkju í Saurbæ vann Gerður 1955-1956. (Sjá: Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985, texta við litmynd gegnt bls. 128.) Steindir gluggar voru settir í Bessastaðakirkju og segir Ásgeir Ásgeirsson, forseti, frá aðdraganda þess í ævisögu sinni sem Gylfi Gröndal skráði. Ásgeir varð sextugur 1954 og ákveðið var að setja steinda glugga í kirkjuna, vinnsla þeirra tók tvö ár og síðan þurfti að koma þeim fyrir í kirkjunni. Gluggarnir voru vígðir á hvítasunnu 1957, sjá: Gylfi Gröndal, Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, Forlagið 1992, bls. 390-394. Einnig: Samvinnan 11.-12. tbl. 1. desember 1957.  Og: Kirkjuritið 10. tbl. 1. desember 1956. Samvinnan – 11.-12. Tölublað (01.12.1957) – Tímarit.is (timarit.is)

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – Steint gler, (Mál og menning, Reykjavík 1995) bls. 4.

[4] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985, bls. 96.

[5] Pétur H. Ármannsson, Lýsing kirkjunnar, Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, í Kirkjum Íslands , Þjóðminjasafn Íslands o.fl., Reykjavík 2018,) bls. 41.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Daglega er fagurrautt tjald fyrir altari kapellunnar á Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar í Reykjavík og salurinn notaður fyrir ýmsa viðburði á heimilinu. Þegar tjaldið er dregið frá kemur í ljós hin fallegasta kirkjuumgjörð, altari, með altaristöflu eftir Jóhann Briem (1907-1991). Minna ber á tveimur steindum gluggum, norðan og sunnan megin í kór kapellunnar.

Í myndarlegri kapellunni sem vígð var 1955 [1] er að finna fyrstu steindu íslensku gluggana með trúarlegu myndefni í vígðu rými á Íslandi.[2] Þeir eru eftir listakonuna Gerði Helgadóttur (1928-1975).

„Saga steinda glersins í nútíð hefst með tveimur gluggum sem Gerður Helgadóttir gerir fyrir kapellu Elliheimilisins í Reykjavík árið 1955…“[3]

Segja má að undarleg þögn hafi ríkt um þessa merku listglugga sem forstjóri Grundar, Gísli Sigurbjörnsson (1907-1994) hafði frumkvæði að fela listakonunni að skapa árið 1955 [4] en þá var hún aðeins 27 ára gömul. Hvorki í listasögu Björns Th. Björnssonar (1922-2007) frá 1973 né í Íslenskri listasögu frá 2009 er getið um þessa glugga.

Samt er þetta tímamótaverk í íslenskri nútímalist þótt myndefnið sé að mestu hefðbundið.

Myndefni glugganna  tveggja var valið af sr. Sigurbirni Á. Gíslasyni (1876-1969) sem  var heimilisprestur á Grund. Hann kaus að annar glugginn sýndi fagnaðarerindi jólanna og hinn upprisuna. Til stóð að gera þriðja gluggann en vegna mistaka í mælingum varð ekkert af því.

Gísli Sigurbjörnsson var afar hliðhollur listakonunni ungu og gaf til dæmis steinda gluggann sem hún gerði á vesturstafn Hallgrímskirkju í Saurbæ til minningar um gamla fólkið í landinu.[5]

Það var árið 1953 sem áhugi Gerðar vaknaði á glerlist og næsta áratug helgaði hún sér þeirri listgrein en síðar urðu höggmyndir aðalviðfangsefni hennar. Hún vann skúlptúra, lágmyndir og mósaíkverk. Þegar hún lést innan við fimmtugt var hún orðin einn helsti myndhöggvari þjóðarinnar á 20. öld.

Glerlistaverk Gerðar má finna í nokkrum kirkjum á Íslandi fyrir utan kapelluna á Grund: Hallgrímskirkju í Saurbæ, Skálholtsdómkirkju, Kópavogskirkju, Neskirkju í Reykjavík, og Ólafsvíkurkirkju. Auk þess á hún mörg glerlistaverk í kirkjum í útlöndum.

Steindi glugginn norðan megin í kapellu Grundar

Steindi glugginn hér til vinstri sýnir Maríu guðsmóður og Jesúbarnið og dregur fram kraftmikla mynd sem er í miklu jafnvægi. Blár litur er gjarnan eignaður Maríu en hér er hún í rauðum kyrtli en sá litur er tákn kærleikans. Hins vegar er blár litur ríkjandi í allri myndinni, djúpur blár litur himinsins umvefur alla á myndinni. Og sólin er kærleiksrauð með geislum sínum sem leysast upp í bjarta liti. Þrír englar vaka yfir Maríu og barninu hennar, einn karlkyns engill og tveir kvenkyns. Yfir öllum er geislabaugur. Andlitssvipur englanna er alvarlegur sem og Maríu – en svipbrigði sjást afar vel enda teiknað í glerið. Það er drengjalegur svipur á Jesúbarninu og augu hans stór og opin eins og á móðurinni. Enda þótt myndin sé hefðbundin eins og sagt er kennir þar og tilhneigingar til hins óhlutlæga listforms (abstrakt) sem Gerður átti eftir að snúa sér að í ríkum mæli. Steint gler gefur listamönnum mjög svo gott tækifæri til að leika sér með samspil hins hefðbundna og hins óhlutlæga án þess að annað trufli hitt. Nú verður alltaf að gæta sín á því að oftúlka ekki listaverk. Það fer þó ekki fram hjá þeim er virðir þetta listaverk Gerðar fyrir sér að í hægra horni er möndulaga eða fiskilaga tákn sem er lárétt. Kannski fisktákn en þá er sporðurinn ógreinilegur, fiskur er tákn Jesú Krists. Ekki er fráleitt að lesa þetta tákn Gerðar sem hið ævaforna Maríutákn. Mandla er tengd stærðfræðilega tákninu, vesica piscis, sem stendur fyrir guðdómlegan samruna. Sjálf mandlan er hörð og bak við skel hennar leynist hreint hjarta guðsmóðurinnar og hinn huldi guðdómur Jesúbarnsins í mannsbarninu. Þá má líka túlka þetta möndlulaga tákn sem auga og þá er það auga hins alsjáanda Guðs. Þannig lætur listakonan áhorfandann um það að lesa út úr þessu tákni það sem hann telur að það merki. Og áfram má túlka. Vinstra megin í myndinni sést í tvö laufblöð og það þriðja rís upp eins og höggormur, að hálfu laufblað og dökkur flötur. Getur verið að þarna sé verið að minna á stefið úr aldingarðinum Eden þar sem höggormurinn lék stórt hlutverk þegar maðurinn féll, Adam og Eva? Oft er talað um Jesú sem hinn nýja Adam þar sem hann reisti mannkynið við. Það er hann sem liggur í jötunni, hinn nýi Adam sem færir heiminn til hins betra; frelsari heimsins.

Steindi glugginn sunnan megin – Kristur upp risinn

Steindi glugginn sunnan megin er upprisumynd (hér til hægri). Þar er Jesús Kristur miðpunktur og svo að segja brýst með miklum og kraftmiklum og ljóma út úr myndfletinum. Mildur á svip og umvafinn sterkum geislabaug. Fimm manneskjur eru með á myndinni og er svo að sjá það fjórar þeirra séu karlar og ein kona – kannski María Magdalena sem styður hönd undir kinn? Beggja megin í myndinni eru tveir karlar fullir lotningar andspænis meistaranum og aðrir tveir við fætur hans og annar þeirra nokkuð hugsi. Litasamspilið gerir myndina í senn fjörlega og hátíðlega. Þá skal bent á tré með laufblöðum vinstra megin. Kannski er það tilvísun til skilningstrés góðs og ills. Í þessum glugga sem hinum fyrri renna saman hefðbundin mótíf sem og óhlutlæg.

Gluggarnir tveir eru jafnstórir, 153 x 108 cm.

Þegar gengið er um heimili Grundar blasa hvarvetna við listaverk, bæði frumverk og eftirmyndir. Innan húss sem utan. Fyrir utan heimilið eru höggmyndirnar Bæn, Demantur og Kona eftir Einar Jónsson (1874-1954). Þau sem hafa verið og eru í forystu fyrir þessari merku stofnun hafa strax gert sér glögga grein fyrir mikilvægi listarinnar fyrir heimilisfólkið hvort heldur til menningarlegrar ánægju eða trúarlegrar ástundunar. Auk þess er listin hvatning til íhugunar og hin trúarlegu verk eru bænahvetjandi sem eflir heilsu og andlegan hag.

 

Altaristaflan á Grund – eftir Jóhann Briem                                                   

„Demanturinn,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)                                         

„Bæn,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)                                                      

„Kona,“ eftir Einar Jónsson (1874-1954)

Allar myndir: Kirkjublaðið.is

Tilvísanir

[1] Séra Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R. Guðmundsdóttir, Grund – afmælisrit 1922-2022, (Bókaútgáfan Grund, Reykjavík 2022), bls. 94. Og: M.J. (Magnús Jónsson), „Kórvígsla í Elliheimilinu Grund,“ Kirkjuritið 4. tbl. 1. apríl 1955, bls. 174.)

[2] Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning hvenær steindu gluggarnir komu í kapellu Grundar, þeir voru ekki komnir við vígslu hennar 1955. Líklegt er að þeir hafi komið á því ári eða 1956. Steindan glugga í Hallgrímskirkju í Saurbæ vann Gerður 1955-1956. (Sjá: Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985, texta við litmynd gegnt bls. 128.) Steindir gluggar voru settir í Bessastaðakirkju og segir Ásgeir Ásgeirsson, forseti, frá aðdraganda þess í ævisögu sinni sem Gylfi Gröndal skráði. Ásgeir varð sextugur 1954 og ákveðið var að setja steinda glugga í kirkjuna, vinnsla þeirra tók tvö ár og síðan þurfti að koma þeim fyrir í kirkjunni. Gluggarnir voru vígðir á hvítasunnu 1957, sjá: Gylfi Gröndal, Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga, Forlagið 1992, bls. 390-394. Einnig: Samvinnan 11.-12. tbl. 1. desember 1957.  Og: Kirkjuritið 10. tbl. 1. desember 1956. Samvinnan – 11.-12. Tölublað (01.12.1957) – Tímarit.is (timarit.is)

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – Steint gler, (Mál og menning, Reykjavík 1995) bls. 4.

[4] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985, bls. 96.

[5] Pétur H. Ármannsson, Lýsing kirkjunnar, Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, í Kirkjum Íslands , Þjóðminjasafn Íslands o.fl., Reykjavík 2018,) bls. 41.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir