Fossvogskirkja í Reykjavík var vígð 1948.[1] Tveimur árum síðar kom í kirkjuna altaristafla sem Eggert Guðmundsson (1906-1983) listmálari gerði; olíumálverk á striga. Það var stærsta altaristafla sem sett hafði verið upp í íslenskri kirkju fram til þessa og vakti því nokkra athygli. Upprisumynd með stefinu: „Kona, hví grætur þú?“[2]

Upprisumynd var við hæfi enda kirkjan í Fossvoginum hugsuð sem aðalútfararkirkjan í Reykjavík.

Til stóð að listmálarinn Jón Stefánsson (1881-1962) gerði altaristöflu í kirkjuna en veikindi hans hömluðu því. Var því leitað til Eggerts og lauk hann við verkið á þremur mánuðum. Blaðamönnum var boðið að skoða myndina 14. ágúst 1950.[3] Blöðin sögðu hvert myndefni altaristöflunnar væri og gátu um stærð hennar. Alþýðublaðið og Fálkinn birtu mynd af henni, svarthvíta.[4]

Hver var Eggert Guðmundsson?

Hann var Suðurnesjamaður, fæddur í Stapakoti í Innri-Njarðvík 1906. Strax á unga aldri vaknaði áhugi hans á myndlist. Lærði hann hjá Guðmundi Thorsteinssyni (Muggi), Stefáni Eiríkssyni, myndskera, Einari Jónssyni myndhöggvara og Ríkarði Jónssyni, myndskera og myndhöggvara. Fyrstu sýningu sína hélt hann 1927 í Góðtemplarahúsinu og var henni vel tekið. Hann hélt svo utan til frekara listnáms. Dvaldist við listaskóla í München, Róm, París og London. Sýndi svo í Kaupmannahöfn 1933 og víðar. Hann kom til Íslands haustið 1940 í hinni frægu Petsamó-ferð Esju.

Eggert var trúmaður og um verk hans að honum látnum var sagt: „…síst af öllu má gleyma því, að víða verður vart við sterkan trúarlegan undirstraum í myndum hans.  … Sjálfur komst hann svo að orði, að listin ætti rætur sínar í Guðstrúnni.“[5] Hann lést 1983.

Eggert sagðist ekki láta neina „isma“ í listum hafa áhrif á sig. Hann lét enga gagnrýni trufla sig og taldi listamenn ekki eiga neina samleið með einhverjum ismum ismanna vegna: „Sjálfstæður listamaður leggur og brýtur alla isma undir mulningshamri sínum og skapar verk sitt í sinni eigin mynd, samanber fæðingu.“[6] Eggert hélt sínum stíl sem var „natúraliskur, sléttfelldur, með ríkri áherzlu á hið frásagnarlega í myndefninu.“ Hann lét hið sjónræna ætíð hafa yfirhöndina í verkum sínum, vildi fremur sýna efnið en túlka.[7] Umbrotatímar listasögunnar hér á landi höfðu því lítil sem engin áhrif á hann.

Í Leirárkirkju í Borgarfirði er eftirmynd Fossvogskirkjutöflunnar og höfundur hennar er Eggert. Það er olíuverk á striga og er frá sama ári og taflan í Fossvogi en minni 167×122 sm.[8] Einnig er altaristafla eftir hann í Breiðavíkurkirkju.[9] Þá er mynd eftir hann á kórþili Lögmannshlíðarkirkju.[10] Kirkjan á Núpi í Dýrafirði hefur og altarismynd eftir Eggert.[11] Einnig Saurbæjarkirkja á Rauðasandi.[12]

Hér sést altaristafla Eggerts Guðmundssonar vel. Myndin er tekin í Fossvogskirkju 2. febrúar 1952 við útför Sveins Björnssonar, forseta Íslands. Mynd: Pétur Thomsen (1920-1988). Mynd birt með leyfi Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Hér sést altaristafla Eggerts Guðmundssonar nokkuð vel. Myndin er tekin í Fossvogskirkju 2. febrúar 1952 við útför Sveins Björnssonar, forseta Íslands. Mynd: Pétur Thomsen (1920-1988); birt með leyfi Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Óvægin gagnrýni

Tveir áhrifamiklir mektarmenn í heimi menningar og myndlistar gagnrýndu altaristöfluna óvægilega. Fyrst skal vitnað til ummæla Björns Th. Björnssonar (1922-2007), listfræðings sem hann lét frá sér fara í tímamótaverki sínu um íslenska myndlist:

„Nú efast ég um að jafnvel mestu aðdáendur Eggerts fari í nokkrar grafgötur um það, að hin stóra upprisumynd hans í Fossvogskapellu sé eitthvert stirðlegasta og ólistrænasta verk sem eftir hann liggi, en ýmsar smámyndir með næsta hversdagslegu efni hinsvegar mæt listaverk.“[13]

Hin ummælin birtust í tímaritinu Nýju Helgafelli og voru þau harðari en þau fyrrnefndu – höfundur þeirra hefur að líkindum verið menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson (1904-1984), þekktur sem Ragnar í Smára:

„Fossvogskirkja á sér hinsvegar engan kjörgrip. Altaristaflan þar er beinlínis hlægileg. Það er eins og maður sé staddur í kvikmyndahúsi, þar sem hefir orðið straumrof, kvikmyndin stendur kyrr á tjaldinu og allt í pati, en kirkjugestir geta um það eitt hugsað með hvaða hætti unnt sé að losa um þessa annarlegu steingervinga, sem dagað hefur uppi þarna fyrir augunum á manni. Og engilmyndin í grafhýsinu minnir á ekkert nema púkann á fjósbitanum. Ekki verður því þó um kennt að efnið sé hversdagslegt, því mótífið var hvorki meira né minna en frásögnin í Jóhannesarguðspjalli er María Magdalena kemur að gröf Krists og mætir frelsaranum upprisnum. Sjálfur fagnaðarboðskapur lífsins og undirstaða kristinnar trúar. Andríkasta saga Nýja testamentisins, sem orðið hefir þúsundum listamanna uppörvun og aflgjafi í tvö þúsund ár. En um þetta þýðir ekki að sakast við listamanninn. Sagan um upprisuna hefir sýnilega látið hann ósnortinn með öllu, en í staðinn hefir hann viljað reyna að þræða texta ritninganna, og þá væntanlega til að þóknast umbjóðendum sínum, sem alla ábyrgð bera á þessum hörmulegu mistökum.

Aldrei kennir mann sárar til andspænis þessu misheppnaða verki en við líkbörur snillinga né biður þess heitar að þessi kaleikur megi verða frá manni tekinn.“[14]

Breytingar á Fossvogskirkju

Um áhrif þessara hörðu dóma menningarpáfanna tveggja er ekki vitað. Eflaust hafa dómar þeirra verið ræddir í skúmaskotum menningar og lista eins og venja er þegar áhrifafólk lætur í sér heyra um menningarmálefni. Engin umræða fór fram á opinberum vettvangi – og þyrfti ekki að spyrja að líflegum skoðanaskiptum á samfélagsmiðlum nútímans væru slík orð látin falla nú á tímum.

Ekkert var hróflað við altaristöflu Eggerts fyrr en um 1990 en þá var ráðist í miklar endurbætur á kirkjunni. Gengið var rösklega til verks því að endurbæturnar tóku aðeins um hálft ár.

Þetta var haft eftir þáverandi forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis, Ásbirni Björnssyni, í Morgunblaðinu 6. maí 1990. Skjáskot: Kirkjublaðið.is

Sagt var að kirkjan hefði lengi þótt „frekar kuldaleg að innan,“ og hefði því verið efnt til hugmyndasamkeppni til að bæta úr því.[15] Kirkjan var svo endurvígð við hátíðlega athöfn. Þá var komin ný altaristafla, eða öllu heldur altarisumgjörð,[16] sem ungur listamaður að nafni Helgi Gíslason (f. 1947) gerði. Altaristaflan er fjórir metrar á hæð, þríhyrnd, úr steini, bronsi og gleri. Táknar heilaga þrenningu og upprisuna. Hallandi kross gengur á ská í gegnum hana.[17]

Í fréttum um endurbætur á kirkjunni var ekki einu orði vikið að altaristöflu Eggerts. Hún var bara fjarlægð. Altaristaflan var sett fyrst um sinn í geymslu í kjallara kirkjunnar því ekki fannst neinn nógu hár veggur á heppilegum stað fyrir hana.

Síðan var töflunni komið fyrir uppi á sönglofti kirkjunnar. Það var skásti staðurinn. Altaristaflan er býsna stór eins og fram hefur komið og var hugsuð eins og flest öll listaverk fyrir ákveðið rými. Ljóst er að þetta litla rými þar sem taflan er nú geymd er til bráðabirgða og þyrfti að koma henni fyrir á sómasamlegum stað þar sem hún fær notið sín burt séð hvaða álit fólk kunni að hafa á listaverkinu. En stærð hennar gerir kröfu um myndarlegt rými.

Hvernig má lýsa verki Eggerts?

Yfirbragð myndarinnar er ákaflega hefðbundið. Gröf hins upprisna þar sem vel og snyrtilega hefur verið slegið úr berginu til að koma fyrir steininum stóra sem liggur á hliðinni hægra megin. Umhverfið er Landið helga. Hinn upprisni frelsari er alltröllvaxinn og er sjónpunktur myndflatarins; skínandi hvítur kyrtill hans færir nánast ofbirtu í auga áhorfandans. Sáramerki á höndum eru á sínum stað, andlit hans er með sígildum hætti, sítt ár, skegg og það vel snyrt. Hann er niðurleitur. Um höfuð hans er vægur geislabaugur en himinninn að baki honum er sem gárur frá þessum litla geislabaug. Hendur hans eru sterklegar og andstæða hinnar grönnu handar Maríu Magdalenu. Önnur hönd engilsins inni í gröfinni sést og er hún býsna sterkleg. María Magdalena er bláklædd í bleiklitum undirkyrtli og horfir fram, það er sem hún hafi ekki á þessu augnabliki komið auga á hinn upprisna. Hún er fögur, svipur hennar ögn dapur. Inni í gröfinni situr engill með allháum vængbörðum og með nokkuð hlutlausan svip. Grámóskulegum lit slær á kyrtil engilsins. Við hlið hans er vasi en hann er tákn Maríu Magdalenu og geymir ilmsmyrsl.

Altaristöfluna sem prýddi Fossvogskirkju í tæpa fjóra áratugi má skoða út frá því að hið sjónræna er látið skipa öndvegi meðan túlkunin er fjarri. Og túlkunin er svo fjarlæg að hver persóna myndarinnar stendur ein og sér í raun og veru; er sett fram eingöngu vegna hlutverks síns. Samband milli þeirra er ekkert og hinn sjónræni viðburður, heimssögulegur í trúarlegu tilliti, virðist nokkuð hversdagslegur. Í kirkjulegri list var lengstum tryggð við frásagnir trúartextanna og reynt að koma þeim áfram í myndrænu formi. Það var vissulega gert með misjafnlega listrænum hætti – og lifandi. Þar skilur auðvitað milli feigs og ófeigs í list sem þessari. Kirkjulistamaðurinn skrásetur ekki trúartextann aðeins með myndum heldur líka með túlkun og tilfinningu vegna þess að hann er manneskja. Ef túlkun og tilfinning er ekki fyrir hendi verður verk hans ekki eins safaríkt fyrir vikið enda þótt handverkið sé vel gert. Eggert var vissulega listamaður og það afkastamikill; handlaginn og eftirtektarsamur.[18]

Það er hægt að taka undir þá gagnrýni að hreyfing sé ekki mikil í myndinni – hún sé stirðleg og jafnvel köld. Myndin er dálítið kyrr og á vissan hátt sambandslaus. Enginn horfist í augu – aðeins áhorfandinn horfir á persónur myndarinnar. Eins og hver sé í sínum heimi. En myndin segir engu að síður sterklega: Hann er upprisinn. Og það er fagnaðarerindi kristinnar trúar.

Altaristaflan er gerð út frá texta Jóhannesarguðspjalls 20.11-15:

En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“  Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“

Fossvogskirkja – altari og umgjörð eftir Helga Gíslason, myndhöggvara – mynd í október 2023 – berið saman við myndina frá 1952 hér að framan

Lokaorð

Örlög altaristöflunnar i Fossvogskirkju eru í sjálfu sér ekkert einsdæmi. Altaristöflur hafa komið og farið, sérstaklega fyrr á öldum. En ólíklegt verður að telja að menningarfrömuðirnir tveir sem nefndir voru hér að framan, þeir Ragnar Jónsson í Smára og Björn Th. Björnsson, hafi haft þau áhrif að taflan væri látin víkja áratugum eftir að þeir létu fyrrgreind orð falla.

Þegar breytingar voru fyrirhugaðar á kirkjunni á níunda áratug síðustu aldar var þeirri hugmynd skotið fram að innan hennar yrðu ekki sterk trúartákn þar sem fleiri myndu nota hana til útfara sem ekki aðhylltust kristna trú. Svo varð reyndar ekki því altarisumgjörðin sem nú er í kirkjunni er með kristin trúartákn. Kannski sú umræða hafi haft áhrif á brotthvarf altaristöflu Eggerts Guðmundssonar úr kór Fossvogskirkju – og upp á söngloft.

Söngloftið í Fossvogskirkju – þarna er altaristafla Eggerts

Þau sem hafa athugasemdir fram að færa við grein þessa eru vinsamlega beðin um að senda þær á kirkjubladid@kirkjubladid.is

Tilvísanir:

[1] Ásbjörn Jónsson, „Fossvogskirkja 50 ára“, Morgunblaðið 14. nóvember 1998.

[2] „Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950. Taflan var 1.90×2.70 m samkvæmt Þjóðviljanum 15. ágúst 1950: „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu.“ Ári síðar kom altaristafla í Laugarneskirkju sem var 1,80×2,80 m. („Laugarneskirkju gefn altaristafla,“ Alþýðublaðið 1. desember 1951.)

[3] „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu,“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950.

[4] „Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950 og „Ný altaristafla í Fossvogskirkju,“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

[5] Björn Jónsson, „Eggert Guðmundsson, listmálari – Minning,” Morgunblaðið 27. júlí 1983.

[6] „Misrétti, sem sæmir ekki okkar lýðfrjálsa landi,“ Morgunblaðið 23. maí 1974.

[7] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti, (Helgafell: Reykjavík 1973), 176.

[8] Lilja Árnadóttir, Leirárkirkja: „Byggingarlist kirkjunnar,“ í Kirkjum Íslands, 13. bindi, (Þjóðminjasafnið: Reykjavík 2009), 230-231.

[9] „Breiðavíkurkirkja vígð,“ Kirkjuritið, 7. tbl., 1946, 327.

[10] Akureyrarbær-Lögmannshlíð-Kirkjugarður, 20. Sótt 19. október 2023: logmannshlid_greinargerd.pdf (akureyri.is)

[11] „Núpskirkja í Dýrafirði,“ Kirkjublaðið, 17. tbl., 17. október 1949.

[12] „Vegleg altaristafla gefin Saurbæjarkirkju,“ Kirkjublaðið, 2. tbl., 31. janúar 1949.

[13] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti, (Helgafell: Reykjavík 1973), 177.

[14] „Misheppnuð kirkjuprýði,“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164. Undir þessari grein stendur aðeins: r. Ekki er ólíklegt að höfundur sé menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson í Smára en hann var í ritstjórn tímaritsins og ábyrgðarmaður þess. – Kona nokkur skrifaði Póstinum í Vikunni 1951 og sagði að altaristaflan væri „dásamlegt listaverk… og ein sú fegursta altaristafla“ sem hún hefði séð. Altaristaflan flytti „mikinn boðskap.“ „Pósturinn,“ Vikan, 10. maí 1951, 2.

[15] „Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari,” Tíminn 25. apríl 1989. Undir þessari frétt standa stafirnir KB en þá starfaði ungur guðfræðingur sem blaðamaður á Tímanum, sr. Kristján Björnsson, núverandi vígslubiskup í Skálholtsumdæmi. Fréttina skrifaði hann.

[16] Altarisumgjörð: „Altari, altaristafla, ræðupúlt, skírnarfontur, moldunarkassi og svifform í kór, svo og aðalhurðir kirjkunnar. Efniviður: járn, kopar, brons, gler og íslenskur grásteinn.” Sjá: Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason: „Um breytingar á Fossvogskirkju,” í Arkitektúr og skipulag, 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

[17] „Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju,“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

[18] Emil Thoroddsen, Íslenzk myndlist – 20 listmálarar, (Kristján Friðriksson: Reykjavík 1943), 20.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Fossvogskirkja í Reykjavík var vígð 1948.[1] Tveimur árum síðar kom í kirkjuna altaristafla sem Eggert Guðmundsson (1906-1983) listmálari gerði; olíumálverk á striga. Það var stærsta altaristafla sem sett hafði verið upp í íslenskri kirkju fram til þessa og vakti því nokkra athygli. Upprisumynd með stefinu: „Kona, hví grætur þú?“[2]

Upprisumynd var við hæfi enda kirkjan í Fossvoginum hugsuð sem aðalútfararkirkjan í Reykjavík.

Til stóð að listmálarinn Jón Stefánsson (1881-1962) gerði altaristöflu í kirkjuna en veikindi hans hömluðu því. Var því leitað til Eggerts og lauk hann við verkið á þremur mánuðum. Blaðamönnum var boðið að skoða myndina 14. ágúst 1950.[3] Blöðin sögðu hvert myndefni altaristöflunnar væri og gátu um stærð hennar. Alþýðublaðið og Fálkinn birtu mynd af henni, svarthvíta.[4]

Hver var Eggert Guðmundsson?

Hann var Suðurnesjamaður, fæddur í Stapakoti í Innri-Njarðvík 1906. Strax á unga aldri vaknaði áhugi hans á myndlist. Lærði hann hjá Guðmundi Thorsteinssyni (Muggi), Stefáni Eiríkssyni, myndskera, Einari Jónssyni myndhöggvara og Ríkarði Jónssyni, myndskera og myndhöggvara. Fyrstu sýningu sína hélt hann 1927 í Góðtemplarahúsinu og var henni vel tekið. Hann hélt svo utan til frekara listnáms. Dvaldist við listaskóla í München, Róm, París og London. Sýndi svo í Kaupmannahöfn 1933 og víðar. Hann kom til Íslands haustið 1940 í hinni frægu Petsamó-ferð Esju.

Eggert var trúmaður og um verk hans að honum látnum var sagt: „…síst af öllu má gleyma því, að víða verður vart við sterkan trúarlegan undirstraum í myndum hans.  … Sjálfur komst hann svo að orði, að listin ætti rætur sínar í Guðstrúnni.“[5] Hann lést 1983.

Eggert sagðist ekki láta neina „isma“ í listum hafa áhrif á sig. Hann lét enga gagnrýni trufla sig og taldi listamenn ekki eiga neina samleið með einhverjum ismum ismanna vegna: „Sjálfstæður listamaður leggur og brýtur alla isma undir mulningshamri sínum og skapar verk sitt í sinni eigin mynd, samanber fæðingu.“[6] Eggert hélt sínum stíl sem var „natúraliskur, sléttfelldur, með ríkri áherzlu á hið frásagnarlega í myndefninu.“ Hann lét hið sjónræna ætíð hafa yfirhöndina í verkum sínum, vildi fremur sýna efnið en túlka.[7] Umbrotatímar listasögunnar hér á landi höfðu því lítil sem engin áhrif á hann.

Í Leirárkirkju í Borgarfirði er eftirmynd Fossvogskirkjutöflunnar og höfundur hennar er Eggert. Það er olíuverk á striga og er frá sama ári og taflan í Fossvogi en minni 167×122 sm.[8] Einnig er altaristafla eftir hann í Breiðavíkurkirkju.[9] Þá er mynd eftir hann á kórþili Lögmannshlíðarkirkju.[10] Kirkjan á Núpi í Dýrafirði hefur og altarismynd eftir Eggert.[11] Einnig Saurbæjarkirkja á Rauðasandi.[12]

Hér sést altaristafla Eggerts Guðmundssonar vel. Myndin er tekin í Fossvogskirkju 2. febrúar 1952 við útför Sveins Björnssonar, forseta Íslands. Mynd: Pétur Thomsen (1920-1988). Mynd birt með leyfi Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Hér sést altaristafla Eggerts Guðmundssonar nokkuð vel. Myndin er tekin í Fossvogskirkju 2. febrúar 1952 við útför Sveins Björnssonar, forseta Íslands. Mynd: Pétur Thomsen (1920-1988); birt með leyfi Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Óvægin gagnrýni

Tveir áhrifamiklir mektarmenn í heimi menningar og myndlistar gagnrýndu altaristöfluna óvægilega. Fyrst skal vitnað til ummæla Björns Th. Björnssonar (1922-2007), listfræðings sem hann lét frá sér fara í tímamótaverki sínu um íslenska myndlist:

„Nú efast ég um að jafnvel mestu aðdáendur Eggerts fari í nokkrar grafgötur um það, að hin stóra upprisumynd hans í Fossvogskapellu sé eitthvert stirðlegasta og ólistrænasta verk sem eftir hann liggi, en ýmsar smámyndir með næsta hversdagslegu efni hinsvegar mæt listaverk.“[13]

Hin ummælin birtust í tímaritinu Nýju Helgafelli og voru þau harðari en þau fyrrnefndu – höfundur þeirra hefur að líkindum verið menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson (1904-1984), þekktur sem Ragnar í Smára:

„Fossvogskirkja á sér hinsvegar engan kjörgrip. Altaristaflan þar er beinlínis hlægileg. Það er eins og maður sé staddur í kvikmyndahúsi, þar sem hefir orðið straumrof, kvikmyndin stendur kyrr á tjaldinu og allt í pati, en kirkjugestir geta um það eitt hugsað með hvaða hætti unnt sé að losa um þessa annarlegu steingervinga, sem dagað hefur uppi þarna fyrir augunum á manni. Og engilmyndin í grafhýsinu minnir á ekkert nema púkann á fjósbitanum. Ekki verður því þó um kennt að efnið sé hversdagslegt, því mótífið var hvorki meira né minna en frásögnin í Jóhannesarguðspjalli er María Magdalena kemur að gröf Krists og mætir frelsaranum upprisnum. Sjálfur fagnaðarboðskapur lífsins og undirstaða kristinnar trúar. Andríkasta saga Nýja testamentisins, sem orðið hefir þúsundum listamanna uppörvun og aflgjafi í tvö þúsund ár. En um þetta þýðir ekki að sakast við listamanninn. Sagan um upprisuna hefir sýnilega látið hann ósnortinn með öllu, en í staðinn hefir hann viljað reyna að þræða texta ritninganna, og þá væntanlega til að þóknast umbjóðendum sínum, sem alla ábyrgð bera á þessum hörmulegu mistökum.

Aldrei kennir mann sárar til andspænis þessu misheppnaða verki en við líkbörur snillinga né biður þess heitar að þessi kaleikur megi verða frá manni tekinn.“[14]

Breytingar á Fossvogskirkju

Um áhrif þessara hörðu dóma menningarpáfanna tveggja er ekki vitað. Eflaust hafa dómar þeirra verið ræddir í skúmaskotum menningar og lista eins og venja er þegar áhrifafólk lætur í sér heyra um menningarmálefni. Engin umræða fór fram á opinberum vettvangi – og þyrfti ekki að spyrja að líflegum skoðanaskiptum á samfélagsmiðlum nútímans væru slík orð látin falla nú á tímum.

Ekkert var hróflað við altaristöflu Eggerts fyrr en um 1990 en þá var ráðist í miklar endurbætur á kirkjunni. Gengið var rösklega til verks því að endurbæturnar tóku aðeins um hálft ár.

Þetta var haft eftir þáverandi forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis, Ásbirni Björnssyni, í Morgunblaðinu 6. maí 1990. Skjáskot: Kirkjublaðið.is

Sagt var að kirkjan hefði lengi þótt „frekar kuldaleg að innan,“ og hefði því verið efnt til hugmyndasamkeppni til að bæta úr því.[15] Kirkjan var svo endurvígð við hátíðlega athöfn. Þá var komin ný altaristafla, eða öllu heldur altarisumgjörð,[16] sem ungur listamaður að nafni Helgi Gíslason (f. 1947) gerði. Altaristaflan er fjórir metrar á hæð, þríhyrnd, úr steini, bronsi og gleri. Táknar heilaga þrenningu og upprisuna. Hallandi kross gengur á ská í gegnum hana.[17]

Í fréttum um endurbætur á kirkjunni var ekki einu orði vikið að altaristöflu Eggerts. Hún var bara fjarlægð. Altaristaflan var sett fyrst um sinn í geymslu í kjallara kirkjunnar því ekki fannst neinn nógu hár veggur á heppilegum stað fyrir hana.

Síðan var töflunni komið fyrir uppi á sönglofti kirkjunnar. Það var skásti staðurinn. Altaristaflan er býsna stór eins og fram hefur komið og var hugsuð eins og flest öll listaverk fyrir ákveðið rými. Ljóst er að þetta litla rými þar sem taflan er nú geymd er til bráðabirgða og þyrfti að koma henni fyrir á sómasamlegum stað þar sem hún fær notið sín burt séð hvaða álit fólk kunni að hafa á listaverkinu. En stærð hennar gerir kröfu um myndarlegt rými.

Hvernig má lýsa verki Eggerts?

Yfirbragð myndarinnar er ákaflega hefðbundið. Gröf hins upprisna þar sem vel og snyrtilega hefur verið slegið úr berginu til að koma fyrir steininum stóra sem liggur á hliðinni hægra megin. Umhverfið er Landið helga. Hinn upprisni frelsari er alltröllvaxinn og er sjónpunktur myndflatarins; skínandi hvítur kyrtill hans færir nánast ofbirtu í auga áhorfandans. Sáramerki á höndum eru á sínum stað, andlit hans er með sígildum hætti, sítt ár, skegg og það vel snyrt. Hann er niðurleitur. Um höfuð hans er vægur geislabaugur en himinninn að baki honum er sem gárur frá þessum litla geislabaug. Hendur hans eru sterklegar og andstæða hinnar grönnu handar Maríu Magdalenu. Önnur hönd engilsins inni í gröfinni sést og er hún býsna sterkleg. María Magdalena er bláklædd í bleiklitum undirkyrtli og horfir fram, það er sem hún hafi ekki á þessu augnabliki komið auga á hinn upprisna. Hún er fögur, svipur hennar ögn dapur. Inni í gröfinni situr engill með allháum vængbörðum og með nokkuð hlutlausan svip. Grámóskulegum lit slær á kyrtil engilsins. Við hlið hans er vasi en hann er tákn Maríu Magdalenu og geymir ilmsmyrsl.

Altaristöfluna sem prýddi Fossvogskirkju í tæpa fjóra áratugi má skoða út frá því að hið sjónræna er látið skipa öndvegi meðan túlkunin er fjarri. Og túlkunin er svo fjarlæg að hver persóna myndarinnar stendur ein og sér í raun og veru; er sett fram eingöngu vegna hlutverks síns. Samband milli þeirra er ekkert og hinn sjónræni viðburður, heimssögulegur í trúarlegu tilliti, virðist nokkuð hversdagslegur. Í kirkjulegri list var lengstum tryggð við frásagnir trúartextanna og reynt að koma þeim áfram í myndrænu formi. Það var vissulega gert með misjafnlega listrænum hætti – og lifandi. Þar skilur auðvitað milli feigs og ófeigs í list sem þessari. Kirkjulistamaðurinn skrásetur ekki trúartextann aðeins með myndum heldur líka með túlkun og tilfinningu vegna þess að hann er manneskja. Ef túlkun og tilfinning er ekki fyrir hendi verður verk hans ekki eins safaríkt fyrir vikið enda þótt handverkið sé vel gert. Eggert var vissulega listamaður og það afkastamikill; handlaginn og eftirtektarsamur.[18]

Það er hægt að taka undir þá gagnrýni að hreyfing sé ekki mikil í myndinni – hún sé stirðleg og jafnvel köld. Myndin er dálítið kyrr og á vissan hátt sambandslaus. Enginn horfist í augu – aðeins áhorfandinn horfir á persónur myndarinnar. Eins og hver sé í sínum heimi. En myndin segir engu að síður sterklega: Hann er upprisinn. Og það er fagnaðarerindi kristinnar trúar.

Altaristaflan er gerð út frá texta Jóhannesarguðspjalls 20.11-15:

En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“  Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“

Fossvogskirkja – altari og umgjörð eftir Helga Gíslason, myndhöggvara – mynd í október 2023 – berið saman við myndina frá 1952 hér að framan

Lokaorð

Örlög altaristöflunnar i Fossvogskirkju eru í sjálfu sér ekkert einsdæmi. Altaristöflur hafa komið og farið, sérstaklega fyrr á öldum. En ólíklegt verður að telja að menningarfrömuðirnir tveir sem nefndir voru hér að framan, þeir Ragnar Jónsson í Smára og Björn Th. Björnsson, hafi haft þau áhrif að taflan væri látin víkja áratugum eftir að þeir létu fyrrgreind orð falla.

Þegar breytingar voru fyrirhugaðar á kirkjunni á níunda áratug síðustu aldar var þeirri hugmynd skotið fram að innan hennar yrðu ekki sterk trúartákn þar sem fleiri myndu nota hana til útfara sem ekki aðhylltust kristna trú. Svo varð reyndar ekki því altarisumgjörðin sem nú er í kirkjunni er með kristin trúartákn. Kannski sú umræða hafi haft áhrif á brotthvarf altaristöflu Eggerts Guðmundssonar úr kór Fossvogskirkju – og upp á söngloft.

Söngloftið í Fossvogskirkju – þarna er altaristafla Eggerts

Þau sem hafa athugasemdir fram að færa við grein þessa eru vinsamlega beðin um að senda þær á kirkjubladid@kirkjubladid.is

Tilvísanir:

[1] Ásbjörn Jónsson, „Fossvogskirkja 50 ára“, Morgunblaðið 14. nóvember 1998.

[2] „Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950. Taflan var 1.90×2.70 m samkvæmt Þjóðviljanum 15. ágúst 1950: „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu.“ Ári síðar kom altaristafla í Laugarneskirkju sem var 1,80×2,80 m. („Laugarneskirkju gefn altaristafla,“ Alþýðublaðið 1. desember 1951.)

[3] „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu,“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950.

[4] „Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950 og „Ný altaristafla í Fossvogskirkju,“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

[5] Björn Jónsson, „Eggert Guðmundsson, listmálari – Minning,” Morgunblaðið 27. júlí 1983.

[6] „Misrétti, sem sæmir ekki okkar lýðfrjálsa landi,“ Morgunblaðið 23. maí 1974.

[7] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti, (Helgafell: Reykjavík 1973), 176.

[8] Lilja Árnadóttir, Leirárkirkja: „Byggingarlist kirkjunnar,“ í Kirkjum Íslands, 13. bindi, (Þjóðminjasafnið: Reykjavík 2009), 230-231.

[9] „Breiðavíkurkirkja vígð,“ Kirkjuritið, 7. tbl., 1946, 327.

[10] Akureyrarbær-Lögmannshlíð-Kirkjugarður, 20. Sótt 19. október 2023: logmannshlid_greinargerd.pdf (akureyri.is)

[11] „Núpskirkja í Dýrafirði,“ Kirkjublaðið, 17. tbl., 17. október 1949.

[12] „Vegleg altaristafla gefin Saurbæjarkirkju,“ Kirkjublaðið, 2. tbl., 31. janúar 1949.

[13] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti, (Helgafell: Reykjavík 1973), 177.

[14] „Misheppnuð kirkjuprýði,“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164. Undir þessari grein stendur aðeins: r. Ekki er ólíklegt að höfundur sé menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson í Smára en hann var í ritstjórn tímaritsins og ábyrgðarmaður þess. – Kona nokkur skrifaði Póstinum í Vikunni 1951 og sagði að altaristaflan væri „dásamlegt listaverk… og ein sú fegursta altaristafla“ sem hún hefði séð. Altaristaflan flytti „mikinn boðskap.“ „Pósturinn,“ Vikan, 10. maí 1951, 2.

[15] „Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari,” Tíminn 25. apríl 1989. Undir þessari frétt standa stafirnir KB en þá starfaði ungur guðfræðingur sem blaðamaður á Tímanum, sr. Kristján Björnsson, núverandi vígslubiskup í Skálholtsumdæmi. Fréttina skrifaði hann.

[16] Altarisumgjörð: „Altari, altaristafla, ræðupúlt, skírnarfontur, moldunarkassi og svifform í kór, svo og aðalhurðir kirjkunnar. Efniviður: járn, kopar, brons, gler og íslenskur grásteinn.” Sjá: Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason: „Um breytingar á Fossvogskirkju,” í Arkitektúr og skipulag, 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

[17] „Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju,“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

[18] Emil Thoroddsen, Íslenzk myndlist – 20 listmálarar, (Kristján Friðriksson: Reykjavík 1943), 20.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir