Að þessu sinni sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is dr. Gunnlaugur A. Jónsson (f. 1952), prófessor emeritus, og skrifar um listaverk sem er að finna í kapellu Háskóla Íslands. Dr. Gunnlaugur var prófessor í gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands og kenndi þau í um fjörutíu ár. Hann hefur skrifað fjölda greina um fræði sín sem birst hafa víða. Viðamesta verk hans er bókin Áhrifasaga Saltarans, hátt í 700 blaðsíður, og kom út 2014. Hann hefur um árabil verið formaður listanefndar Seltjarnarneskirkju. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

 

Heimfærsla í trúarlegum táknmyndum Ásmundar Sveinssonar í kapellu Háskóla Íslands

Sjö helgimyndir eftir Ásmund Sveinsson (1893-1982) eru framan við söngloftið gamla í kapellu Háskóla Íslands yfir dyrunum innanverðum. Þessar myndir vekja almennt ekki mikla athygli enda snúa kirkjugestir jafnan baki í þær meðan á helgihaldi stendur.

Það sem um myndirnar hefur verið skrifað er ekki mikið og virðist fljótfærnislegt og jafnvel villandi. Réttilega er talað um „fornkirkjulegar táknmyndir“ sem allt eins mættu kallast „biblíulegar“. Þegar þeim er lýst nánar er það á þennan veg:  „Í miðju er Kristur sem lyftir höndum til að blessa. Út frá hægri hendi hans er lambið, tákn Krists, fiskurinn sem líka er tákn Krists, og skipið sem táknar kirkjuna. Frá vinstri hendi Krists er fyrst vera er leikur á hörpu og vísar til söngloftsins, vínviðurinn, tákn kirkjunnar og loks dúfa, tákn heilags anda.“[1]

Þessi lýsing er alls ekki fullnægjandi. Sjálfum finnst mér blasa við að það sé fólgin heimfærsla í þessum myndum Ásmundar og væri það í hans anda. Þannig hefur hann bæði fyrr og síðar gert nokkuð af því að fella trúarleg stef að íslenskri sögu. Dæmi þar um er bæði verk hans um Sæmund á selnum,[2] fyrir framan aðalbyggingu Háskólans, og verkið Trúarbrögðin sem stendur uppi á Valhúsahæð. Um það verk hefur Ásmundur sagt: „Ég er að reyna að tengja saman nútíð og fortíð í einni mynd … trúarbrögð feðra okkar og kristin viðhorf.“[3]

Ásmundur hefur einnig lýst afstöðu sinni til trúarinnar m.a. með þeim orðum að list og trúarbrögð séu „nátengdari en svo, að unnt sé að skilja þau að.“[4] Og hann notar víða trúarlegt tungutak um listsköpun sína, t.d. er hann segir: „Það er ekkert heilagt nema það sem við höfum þurft að hafa mikið fyrir.“[5]

Listaverkið skoðað nánar

Það er full ástæða til að fjalla nánar um táknmyndir kapellunnar og skoða betur biblíulegt samhengi þeirra og hina táknrænu merkingu. Táknmyndirnar eru sjö talsins, sem er þýðingarmikil og merkingarþrungin tala í biblíulegu samhengi. Hún táknar heild eins og fyrri sköpunarsaga 1. Mósebókar (1.1-2.4) er dæmi um þar sem sköpunarverkið er tengt sjö dögum.

Verkið er rammað inn af tveimur myndum sem báðar hafa skírskotun til íslenskra fornsagna, þ.e. frásagnar Landnámsbókar sem augljóslega tengir við frumsögu 1. Mósebókar. Þannig blasir við að myndin lengst til hægri er alls ekki af dúfu heldur af hrafni.[6] Hrafninn minnir á Hrafna-Flóka í Landnámu en saga Landnámu af hröfnunum þremur hefur þótt minna á frásögn 1. Mósebókar af Nóa sem notaði dúfu til að vísa sér á þurrt land eftir flóðið. Skipið lengst til vinstri er augljóslega víkingaskip. Ásmundur hefur í öðru samhengi talað um skipið sem eitt af helgitáknum íslenskrar trúar og sagt að það hafi „fylgt okkur alla tíð verið bjargvættur okkar“ og bætt við: „Fyrstu landbyggjendur Íslands komu á skipum og það þau hafa haldið í okkur lífinu.“[7]

Fiskurinn framan við skipið skapar hugrenningatengsl við frásögn Landnámabókar af því er Flóki kom í Vatnsfjörð við Barðaströnd en þá hafi fjörðurinn verið „fullur af veiðiskap.“  Það útilokar vitaskuld ekki að fiskurinn standi jafnframt í hinni kunnu og fornu merkingu fyrir Krist (sbr. gríska skammstöfunin ΙΧΘΥΣ (ichthys) for „Ἰησοῦς Χριστός, Θεοῦ Υἱός, Σωτήρ = Jesús Kristur, Guðs sonur frelsari). Tvíræðni er nokkuð sem allir listamenn þekkja en nota í mismiklum mæli. Þegar táknmyndirnar eru skoðaðar með þessum hætti þá kemur í ljós að þær eru innrammaðar af myndum sem sýna augljós tengsl við íslenska sögu án þess að hinum biblíulegu skírskotunum sé fórnað. Þar höfum við því gott dæmi um „heimfærslu“ hins biblíulega boðskapar.

Þegar talað er um „veru sem leikur á hörpu“ sýnist það allt of óákveðið. Það ætti að blasa við að sú vera er engin önnur en sjálfur Davíð konungur sem þekktur var fyrir hörpuleik sinn og ekki síst hvernig hann lék fyrir Sál konung er illur andi sótti að Sál og létti þá jafnan yfir Sál og honum leið betur (1Sam 16.14-23). Davíðssálmarnir sem kenndir eru við Davíð voru snemma fluttir með tónlist og hörpuleikur hefur þar komið við sögu. Einar Benediktsson talaði í kvæði sínu um Davíð konung um „hjarðkóngsins voldugu (h)ymna.“[8] Þess má geta að Davíðssálmar eru það rit Gamla testamentisins sem ásamt Jesajaritinu er mest vitnað til í Nýja testamentinu og mest áhrif hefur haft í kristninni. Þannig að það virðist heldur snautlegt að láta nægja að tala um „veru“ þarna svo augljós sem tengingin við Davíð konung og sálma hans er.

Lambið er sannarlega ein þeirra mynda sem notaðar eru um Jesú Krist (Guðs lambið í Jóh 1.19). En lambið kemur einnig ríkulega fyrir í Gamla testamentinu, tengist t.d. brottförinni frá Egyptalandi (2Mós 12). Það er sömuleiðis hluti stefsins hirðir og hjörð sem er meðal þeirra mynda sem testamentin tvö, hið gamla og hið nýja, eiga sameiginleg. Tvær af þekktustu sögupersónum Gamla testamentisins, þeir Móse og Davíð, voru báðir fjárhirðar áður en þeir gerðust hirðar þjóðar sinnar. Og sjálfur nefndi Jesús sig hinn góða hirði (Jóh 10.1-21). Lambið er sannarlega eitt þeirra táknrænu hugtaka sem sameinar testamentin tvö. Gott dæmi um það er Jes 53.7 („Hann var hart leikinn …eins og lamb sem leitt er til slátrunar“), hluti textans um hinn líðandi þjón (Jes 52.13-53.12) sem löngum var túlkaður sem spádómur um Jesú Krist.

Vínviðurinn er líka hugtak sem sameinar testamentin í ríkum mæli og þarf ekki að koma á óvart svo stóru hlutverki sem vínrækt hefur frá fornu fari gegnt í Landinu helga. Jesús Kristur talar um sig sjálfan sem hinn sanna vínvið í Jóh 15.1 og bætir við í Jóh 15.5: „Ég er vínviðurinn og þið eruð greinarnar.“ Vínviðurinn kemur við sögu strax í fyrstu bók Biblíunnar, þ.e. í frásögninni af Nóa (1Mós 9.20). Í aðdraganda landnáms Kanaanslands sendi Móse menn inn í landið til að kanna það (4Mós 13). Þeir komu til baka og sögðu landið fljóta í mjólk og hunangi. Til marks um það er frá því sagt að þeir hafi í Eskóldal skorið af vínviðargrein og þurfti tvo menn til að bera hana á burðarstöng (4Mós 13.23). Þannig stendur vínberjaklasinn oft sem táknmynd fyrir gnægð og grósku. Myndin af klasanum stendur sömuleiðis gjarnan sem tákn um fyrirheitna landið og frjósemi þess.  Þetta kallast líka á við frásagnir Landnámu og Íslendingabókar um að Ísland hafi við landnám verið viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Síðast en ekki síst skal svo nefnd miðjumyndin af Kristi sem blessar. Hugtak blessunarinnar gegnir gegnir enn stærra hlutverki í Gamla testamentinu en hinu nýja. Kunnustu blessunarorðin og þau sem enn eru notuð í kristinni guðsþjónustu er þannig að finna í 4Mós 6.24-26:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Blessunarhugtakið lifir góðu lífi í daglegu máli okkar Íslendinga allt til þessa þar sem menn heilsast með orðinu „blessaður/blessuð“, tala um að „leggja blessun sína yfir“ eitthvað o.s.frv.

Niðurstaða

Í ljósi alls þessa er óhætt að segja að táknmyndirnar sjö eru fjarri því bara úr Nýja testamentinu, eins og ætla mætti af því sem um þær hefur verið skrifað. Þvert á móti sameina þær allar testamentinu tvö. Og ekki bara það heldur fela þær í sér áhugaverða og úthugsaða heimfærslu til íslenskrar sögu og þá ekki síst frásagnar Landnámsbókar.

Samanburður eins og þessi má þó ekki verða til að skyggja á þá staðreynd að það er Jesús Kristur sem er í miðju táknmyndanna sjö og sú staðreynd minnir á að það er persóna hans, breytni og boðskapur sem er þungamiðja kristinnar boðunar og grundvöllur þess að við yfirleitt höldum kristin jól.

Það gefur myndunum hins vegar aukið vægi, og meiri dýpt að sjá þær ljósi þessa samanburðar og þeirra textatengsla sem hér hafa verið rakin. Þar er heimfærsla þeirra til íslenskra aðstæðna tvímælalaust liður í vinnu listamannsins með þær. Trúarleg hugsun, ígrundun og heimfærsla býr að baki táknmyndunum sjö sem þannig verða annað í meðförum listamannsins og túlkun þeirra annað og meira en handverkið eitt.

Tilvísanir

[1] „Ræða Magnúsar Jónssonar. Lýsing á kapellunni.“ Kirkjuritið 1940, 1.7, bls. 251-255. Sjá einnig Páll Sigurðsson, Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands, 1986, bls. 217. Guðfræðingatal, s. 163. Og loks Guðfræðingatal 1847-2002. Ritstj. Gunnlaugur Haraldsson, Prestafélag Íslands, 2002, bls. 163.

[2] Upphaflega gerð verksins frá árinu 1922 var unnin í gifs úti í Stokkhólmi. Sjá Gunnar B. Kvaran, Mótunarárin í list Ásmundar Sveinssonar.  Ásmundarsafn – Listasafn Reykjavíkur, 1996, bls. 32-33.

[3] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund. Reykjavík. Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn, 1999, bls. 11.

[4] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund.1999, bls. 13.

[5] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund.1999, bls. 45.

[6] Þó að þetta sé nokkuð augljóst bar ég það undir sr. Sigurð Ægisson í símtali eftir að hafa sent honum ljósmynd af táknmyndunum. Niðurstaða hans var sú að þarna væri augljóslega um hrafn að ræða. Sjá glænýja bók sr. Sigurðar, Hrafninn. Þjóðin, sagan, þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. Reykjavík 2022. Bókin hefst raunar á umfjöllun höfundar um Hrafna-Flóka.

[7] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund. Reykjavík, 1999, bls. 12.

[8] Ljóð Einars Benediktssonar, Davíð konungur kom fyrst fyrir augu lesenda í Lesbók Morgunblaðsins hinn 13. janúar 1929, bls. 12.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Að þessu sinni sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is dr. Gunnlaugur A. Jónsson (f. 1952), prófessor emeritus, og skrifar um listaverk sem er að finna í kapellu Háskóla Íslands. Dr. Gunnlaugur var prófessor í gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands og kenndi þau í um fjörutíu ár. Hann hefur skrifað fjölda greina um fræði sín sem birst hafa víða. Viðamesta verk hans er bókin Áhrifasaga Saltarans, hátt í 700 blaðsíður, og kom út 2014. Hann hefur um árabil verið formaður listanefndar Seltjarnarneskirkju. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

 

Heimfærsla í trúarlegum táknmyndum Ásmundar Sveinssonar í kapellu Háskóla Íslands

Sjö helgimyndir eftir Ásmund Sveinsson (1893-1982) eru framan við söngloftið gamla í kapellu Háskóla Íslands yfir dyrunum innanverðum. Þessar myndir vekja almennt ekki mikla athygli enda snúa kirkjugestir jafnan baki í þær meðan á helgihaldi stendur.

Það sem um myndirnar hefur verið skrifað er ekki mikið og virðist fljótfærnislegt og jafnvel villandi. Réttilega er talað um „fornkirkjulegar táknmyndir“ sem allt eins mættu kallast „biblíulegar“. Þegar þeim er lýst nánar er það á þennan veg:  „Í miðju er Kristur sem lyftir höndum til að blessa. Út frá hægri hendi hans er lambið, tákn Krists, fiskurinn sem líka er tákn Krists, og skipið sem táknar kirkjuna. Frá vinstri hendi Krists er fyrst vera er leikur á hörpu og vísar til söngloftsins, vínviðurinn, tákn kirkjunnar og loks dúfa, tákn heilags anda.“[1]

Þessi lýsing er alls ekki fullnægjandi. Sjálfum finnst mér blasa við að það sé fólgin heimfærsla í þessum myndum Ásmundar og væri það í hans anda. Þannig hefur hann bæði fyrr og síðar gert nokkuð af því að fella trúarleg stef að íslenskri sögu. Dæmi þar um er bæði verk hans um Sæmund á selnum,[2] fyrir framan aðalbyggingu Háskólans, og verkið Trúarbrögðin sem stendur uppi á Valhúsahæð. Um það verk hefur Ásmundur sagt: „Ég er að reyna að tengja saman nútíð og fortíð í einni mynd … trúarbrögð feðra okkar og kristin viðhorf.“[3]

Ásmundur hefur einnig lýst afstöðu sinni til trúarinnar m.a. með þeim orðum að list og trúarbrögð séu „nátengdari en svo, að unnt sé að skilja þau að.“[4] Og hann notar víða trúarlegt tungutak um listsköpun sína, t.d. er hann segir: „Það er ekkert heilagt nema það sem við höfum þurft að hafa mikið fyrir.“[5]

Listaverkið skoðað nánar

Það er full ástæða til að fjalla nánar um táknmyndir kapellunnar og skoða betur biblíulegt samhengi þeirra og hina táknrænu merkingu. Táknmyndirnar eru sjö talsins, sem er þýðingarmikil og merkingarþrungin tala í biblíulegu samhengi. Hún táknar heild eins og fyrri sköpunarsaga 1. Mósebókar (1.1-2.4) er dæmi um þar sem sköpunarverkið er tengt sjö dögum.

Verkið er rammað inn af tveimur myndum sem báðar hafa skírskotun til íslenskra fornsagna, þ.e. frásagnar Landnámsbókar sem augljóslega tengir við frumsögu 1. Mósebókar. Þannig blasir við að myndin lengst til hægri er alls ekki af dúfu heldur af hrafni.[6] Hrafninn minnir á Hrafna-Flóka í Landnámu en saga Landnámu af hröfnunum þremur hefur þótt minna á frásögn 1. Mósebókar af Nóa sem notaði dúfu til að vísa sér á þurrt land eftir flóðið. Skipið lengst til vinstri er augljóslega víkingaskip. Ásmundur hefur í öðru samhengi talað um skipið sem eitt af helgitáknum íslenskrar trúar og sagt að það hafi „fylgt okkur alla tíð verið bjargvættur okkar“ og bætt við: „Fyrstu landbyggjendur Íslands komu á skipum og það þau hafa haldið í okkur lífinu.“[7]

Fiskurinn framan við skipið skapar hugrenningatengsl við frásögn Landnámabókar af því er Flóki kom í Vatnsfjörð við Barðaströnd en þá hafi fjörðurinn verið „fullur af veiðiskap.“  Það útilokar vitaskuld ekki að fiskurinn standi jafnframt í hinni kunnu og fornu merkingu fyrir Krist (sbr. gríska skammstöfunin ΙΧΘΥΣ (ichthys) for „Ἰησοῦς Χριστός, Θεοῦ Υἱός, Σωτήρ = Jesús Kristur, Guðs sonur frelsari). Tvíræðni er nokkuð sem allir listamenn þekkja en nota í mismiklum mæli. Þegar táknmyndirnar eru skoðaðar með þessum hætti þá kemur í ljós að þær eru innrammaðar af myndum sem sýna augljós tengsl við íslenska sögu án þess að hinum biblíulegu skírskotunum sé fórnað. Þar höfum við því gott dæmi um „heimfærslu“ hins biblíulega boðskapar.

Þegar talað er um „veru sem leikur á hörpu“ sýnist það allt of óákveðið. Það ætti að blasa við að sú vera er engin önnur en sjálfur Davíð konungur sem þekktur var fyrir hörpuleik sinn og ekki síst hvernig hann lék fyrir Sál konung er illur andi sótti að Sál og létti þá jafnan yfir Sál og honum leið betur (1Sam 16.14-23). Davíðssálmarnir sem kenndir eru við Davíð voru snemma fluttir með tónlist og hörpuleikur hefur þar komið við sögu. Einar Benediktsson talaði í kvæði sínu um Davíð konung um „hjarðkóngsins voldugu (h)ymna.“[8] Þess má geta að Davíðssálmar eru það rit Gamla testamentisins sem ásamt Jesajaritinu er mest vitnað til í Nýja testamentinu og mest áhrif hefur haft í kristninni. Þannig að það virðist heldur snautlegt að láta nægja að tala um „veru“ þarna svo augljós sem tengingin við Davíð konung og sálma hans er.

Lambið er sannarlega ein þeirra mynda sem notaðar eru um Jesú Krist (Guðs lambið í Jóh 1.19). En lambið kemur einnig ríkulega fyrir í Gamla testamentinu, tengist t.d. brottförinni frá Egyptalandi (2Mós 12). Það er sömuleiðis hluti stefsins hirðir og hjörð sem er meðal þeirra mynda sem testamentin tvö, hið gamla og hið nýja, eiga sameiginleg. Tvær af þekktustu sögupersónum Gamla testamentisins, þeir Móse og Davíð, voru báðir fjárhirðar áður en þeir gerðust hirðar þjóðar sinnar. Og sjálfur nefndi Jesús sig hinn góða hirði (Jóh 10.1-21). Lambið er sannarlega eitt þeirra táknrænu hugtaka sem sameinar testamentin tvö. Gott dæmi um það er Jes 53.7 („Hann var hart leikinn …eins og lamb sem leitt er til slátrunar“), hluti textans um hinn líðandi þjón (Jes 52.13-53.12) sem löngum var túlkaður sem spádómur um Jesú Krist.

Vínviðurinn er líka hugtak sem sameinar testamentin í ríkum mæli og þarf ekki að koma á óvart svo stóru hlutverki sem vínrækt hefur frá fornu fari gegnt í Landinu helga. Jesús Kristur talar um sig sjálfan sem hinn sanna vínvið í Jóh 15.1 og bætir við í Jóh 15.5: „Ég er vínviðurinn og þið eruð greinarnar.“ Vínviðurinn kemur við sögu strax í fyrstu bók Biblíunnar, þ.e. í frásögninni af Nóa (1Mós 9.20). Í aðdraganda landnáms Kanaanslands sendi Móse menn inn í landið til að kanna það (4Mós 13). Þeir komu til baka og sögðu landið fljóta í mjólk og hunangi. Til marks um það er frá því sagt að þeir hafi í Eskóldal skorið af vínviðargrein og þurfti tvo menn til að bera hana á burðarstöng (4Mós 13.23). Þannig stendur vínberjaklasinn oft sem táknmynd fyrir gnægð og grósku. Myndin af klasanum stendur sömuleiðis gjarnan sem tákn um fyrirheitna landið og frjósemi þess.  Þetta kallast líka á við frásagnir Landnámu og Íslendingabókar um að Ísland hafi við landnám verið viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Síðast en ekki síst skal svo nefnd miðjumyndin af Kristi sem blessar. Hugtak blessunarinnar gegnir gegnir enn stærra hlutverki í Gamla testamentinu en hinu nýja. Kunnustu blessunarorðin og þau sem enn eru notuð í kristinni guðsþjónustu er þannig að finna í 4Mós 6.24-26:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Blessunarhugtakið lifir góðu lífi í daglegu máli okkar Íslendinga allt til þessa þar sem menn heilsast með orðinu „blessaður/blessuð“, tala um að „leggja blessun sína yfir“ eitthvað o.s.frv.

Niðurstaða

Í ljósi alls þessa er óhætt að segja að táknmyndirnar sjö eru fjarri því bara úr Nýja testamentinu, eins og ætla mætti af því sem um þær hefur verið skrifað. Þvert á móti sameina þær allar testamentinu tvö. Og ekki bara það heldur fela þær í sér áhugaverða og úthugsaða heimfærslu til íslenskrar sögu og þá ekki síst frásagnar Landnámsbókar.

Samanburður eins og þessi má þó ekki verða til að skyggja á þá staðreynd að það er Jesús Kristur sem er í miðju táknmyndanna sjö og sú staðreynd minnir á að það er persóna hans, breytni og boðskapur sem er þungamiðja kristinnar boðunar og grundvöllur þess að við yfirleitt höldum kristin jól.

Það gefur myndunum hins vegar aukið vægi, og meiri dýpt að sjá þær ljósi þessa samanburðar og þeirra textatengsla sem hér hafa verið rakin. Þar er heimfærsla þeirra til íslenskra aðstæðna tvímælalaust liður í vinnu listamannsins með þær. Trúarleg hugsun, ígrundun og heimfærsla býr að baki táknmyndunum sjö sem þannig verða annað í meðförum listamannsins og túlkun þeirra annað og meira en handverkið eitt.

Tilvísanir

[1] „Ræða Magnúsar Jónssonar. Lýsing á kapellunni.“ Kirkjuritið 1940, 1.7, bls. 251-255. Sjá einnig Páll Sigurðsson, Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands, 1986, bls. 217. Guðfræðingatal, s. 163. Og loks Guðfræðingatal 1847-2002. Ritstj. Gunnlaugur Haraldsson, Prestafélag Íslands, 2002, bls. 163.

[2] Upphaflega gerð verksins frá árinu 1922 var unnin í gifs úti í Stokkhólmi. Sjá Gunnar B. Kvaran, Mótunarárin í list Ásmundar Sveinssonar.  Ásmundarsafn – Listasafn Reykjavíkur, 1996, bls. 32-33.

[3] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund. Reykjavík. Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn, 1999, bls. 11.

[4] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund.1999, bls. 13.

[5] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund.1999, bls. 45.

[6] Þó að þetta sé nokkuð augljóst bar ég það undir sr. Sigurð Ægisson í símtali eftir að hafa sent honum ljósmynd af táknmyndunum. Niðurstaða hans var sú að þarna væri augljóslega um hrafn að ræða. Sjá glænýja bók sr. Sigurðar, Hrafninn. Þjóðin, sagan, þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. Reykjavík 2022. Bókin hefst raunar á umfjöllun höfundar um Hrafna-Flóka.

[7] Matthías Johannessen, Bókin um Ásmund. Reykjavík, 1999, bls. 12.

[8] Ljóð Einars Benediktssonar, Davíð konungur kom fyrst fyrir augu lesenda í Lesbók Morgunblaðsins hinn 13. janúar 1929, bls. 12.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir