Hér verður farið nokkrum orðum um minnismerkið um helförina sem er að finna í Berlín. Verkið ber heitið „Minnismerkið um Gyðingana sem voru myrtir í Evrópu“, (e. The Memorial to the Murdered Jews of Europe og þ. Denkmal für die ermordeten Juden Europas) og er í miðri Berlínarborg. Titill verksins er ekki kominn frá höfundi þess því hann vildi hafa það nafnlaust.

Verkinu verður lýst í fáum orðum og rætt um tilganginn með því að reisa það.

Vikið verður að helförinni og hvernig Þjóðverjar hafa unnið úr henni á sínum heimavelli.

Þá verður fjallað um merkingu verksins, minnismerkjaform, og hún tengd við minni og afbyggingu.

Einnig verður vikið að gagnrýni sem sett var fram á verkið bæði meðan á undirbúningi þess stóð og eftir að það var afhjúpað.

Aðfaraorð

Eitt af hlutverkum listarinnar snýr að því að halda á lofti atburðum í lífi þjóða og einstaklinga. Það er minnishlutverk hennar sem Jóhann J. Winckelmann (d. 1748) talaði fyrir.[1]

Ekki er sú borg til sem ekki státar af einhverju listaverki sem minnir á gullna forna tíð, hershöfðingja og konunga munda sverð og spjót. Styttur á torgum og túnum – og það sem minnir á sókn og sigra, glæsta sögu. Einnig hörmulega atburði í lífi þjóða og einstaklinga.

Það var Peter Eisenman, bandaríkjamaður af gyðingaættum, sem vann samkeppni um minnismerki helfararinnar í Berlín árið 1994 ásamt myndhöggvaranum Richard Serra en hann sagði sig frá verkinu þegar breytinga á því var krafist og Eisenman varð við.[2] Þýska þingið greiddi atkvæði um tillöguna árið 1999 og samþykkti meirihluti þingmanna hana sem og að verkið skyldi eingöngu vera tileinkað fórnarlömbum helfararinnar.[3] Lokið var við verkið árið 2005. [4]

Minnismerki í almannarými geta verið tilfinningamál. Þau geta verið umdeild vegna þess að saga þeirra sem þau eiga að minnast er skilin með misjöfnum hætti. Minnismerki staldra við minningar eins og orðið gefur til kynna en þær eru flókið fyrirbæri. Eins og aðrir túlka listamenn söguna og setja hana fram með sínum hætti.[5] Listaverk Eisenmans er gott dæmi um það. Svo ólíkt öðrum verkum. Segja má að um sé að ræða and-minnismerki (e. anti/counter-monumentalism) sem felst í því að verkið tekur stefnu sem er með öllu frábrugðin hefðbundnum minnismerkjum í almannarými.[6]

Minnismerkið

Minnismerkið sem hér um ræðir er gert úr 2711 gráleitum steinblokkum sem liggja flatar á jörðinni á stóru svæði sem hallar dálítið. Enginn þessara steinblokka er eins og þær eru misháar – allt frá því að nema ögn frá jörðu og upp í fjóra metra. Steinblokkirnar eru rétthyrndar og brúnir hvassar. Þær standa í nokkuð beinni röð þegar horft er á milli þeirra. Bilið milli þeirra er um armslengd og þá er gönguslóðinn á milli þeirr lagður steinum. Mismikill flái er á efstu brún blokkanna. Minnismerkið er á svæði skammt frá Brandenborgarhliðinu og auðu svæði sem var á milli austur og vesturs við múrinn.

Þar sem steinblokkirnar eru misháar búa þær til ölduhreyfingu þegar myndir eru teknar af verkinu úr lofti [7] eða horft á það frá ákveðnum sjónarhornum á jörðu. Öldurnar eru misdjúpar og háar. Sú dýpsta er reyndar 2.4 metrum undir yfirborði götunnar. Sagan er hreyfing sem tekur fólk í fangið og ber það á ýmsar slóðir. Sumir rífa sig lausa úr þessu fangi en greipar þess eru sterkar. Stíllinn ber keim af mínimalisma (naumhyggju) og geómetríu (strangflatarlist). Minnismerkið er í raun skúlptúr sem kallar á túlkun eða þögn.

Höfundur verksins, Peter Eisenman (f. 1932), segir að í helfararminnismerkinu í Berlín hafi verið leitast við að nota efni sem hefði enga skírskotun, til dæmis ekki neitt grjót frá Jerúsalem sem fólk hefði farið að lesa út úr einhverja merkingu. Steypa var valin. Áferð steypunnar var látin líkjast sem mest járni og brúnir steinblakkkanna voru skarpar. Þetta hafi verið gert í því skyni að verkið yrði sem framandlegast og fjarri öllu hversdagslegu lífi.[8]

Sögulegur bakgrunnur

Helförin kostaði líf 6 milljóna Gyðinga.[9] Hún hefur verið sem kökkur í þjóðarhálsi Þjóðverja og fjöldi bóka verið ritaður um hana og rannsóknir gerðar. Þjóðverjar voru svifaseinir til að horfast í augu við gjörðir sínar eftir heimsstyrjöldina síðari. Hinn kunni breski sagnfræðingur Ian Kershaw fullyrðir að þeir hafi ekki tekið við sér að fullu fyrr en með réttarhöldunum yfir Eichmann á sjöunda áratug síðustu aldar. Félags- og sagnfræðirannsóknir á síðari heimsstyrjöldinni og afleiðingum hennar hófust því ekki í Þýskalandi heldur í Ísrael og Bandaríkjunum.[10] Með þessu er ekki sagt að Þjóðverjar hafi viljað gleyma helförinni heldur kannski fremur að þjóðin hafi ekki haft sálarstyrk til þess að horfast í augu við gjörðir sínar, hafi verið í losti. Sigmundur Freud taldi manneskjuna halla undir að afneita  óþægilegum staðreyndum sem er öndvert við að horfast í augu við þær í minnismerkjum af þessu tagi. Hvort tveggja væri bæði meðvituð og ómeðvituð viðbrögð, varnarháttur manneskjunnar.[11]

List og minni þýskrar þjóðar

Í þessu sambandi má geta um minni samfélagsins (kollektift minni), samfélagið gleymdi ekki þessum atburðum enda var það í rúst eftir stríðið og samviskubit nagaði margan Þjóðverjann – og gerir enn. Sálarkvöl þeirra var mikil þar sem öll þýska þjóðin var stimpluð sek; sekt samfélagsins. En minningar hrönnuðust upp í kjölfar stríðsins. Minningar þeirra sem lifðu af og þeirra sem voru drepin.[12] Bækur, kvikmyndir og sögur, röktu þessar minningar. Kjörorðið var í raun: aldrei aftur. Nútímamenning hefur verið að áliti sumra fræðimanna áfjáð í minningar og í því sambandi er talað um „memorial turn“ á Vesturlöndum.[13] Þetta er gott að hafa í huga áður en lengra er haldið í umfjöllun um minnismerki Eisenmans.

Helfararminnisverkið er því byggt á heimildum og upplifunum, túlkunum á skelfilegum sögulegum atburði, og komið fyrir í táknrænu formi og á táknrænum stað í því landi sem ól hörmungarnar af sér. Stað í Berlín þar sem var kjarni hins nasíska ríkis, vísar til tíma Þriðja ríkisins og kveikir minningar.

Höfundur verksins endursegir þetta tímabil þýskrar sögu með sínum hætti. Umritar söguna í steinblokkunum.

Saga einstaklinga og þjóðar í minnismerkinu

Sagan er bæði persónuleg og ópersónuleg sem helfararverkið sýnir. Persónuleg harmsaga allra þeirra sem voru Gyðingar eða af uppruna þeirra. En verkið sýnir hina köldu og ópersónuleg hlið í steinblokkum sínum, að því er virðist óbifanleg, köld þögn múrsins steingráa andspænis hrópum fólksins. Steinblokkirnar standa fyrir öll þau sem féllu, standa þarna í borg hinna dauðu og fyrir utan hana iðar borg hinna lifandi, afkomenda böðlanna. Þær standa fyrir miskunnarlaust vald sem engu eirir. Þetta getur og vakið óhug hjá þeim sem skoðar og sú var einnig ætlunin hjá Eisenman, að skapa „óstöðugan stað.“[14]

Þeim sem koma að minnismerkinu er boðið að ganga inn í það hvar sem er. Það umkringir líkama þeirra sem fara um það. Segja má að það höfði til allra skilningarvita (e. multisensory), sem streyma að því úr ýmsum áttum. Ilmur náttúru, þurr steinn, kliður borgar í fjarska, tal og marr undan skóm þegar gengið er á milli steinblokkanna o.s.frv.[15]

Minnismerkið er sem völundarhús með öllum sínum þröngu stígum en þó ekki sem venjulegt völundarhús þar sem stígarnir liggja út og suður. Nei, stígarnir eru beinir, skipulagðir. Segja mætti að þeir vísi til hins skipulagða ríkisvalds sem ofsótti Gyðinga með skipulögðum hætti á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar. Sá sem gengur á milli steinblokkanna er stöðugt aðþrengdur af einhverju sem honum er ógeðfellt. Hann getur fundir til hryggðar og haft á tilfinningunni að hann sé týndur og yfirgefinn – hvort tveggja gæti verið ómur af tilfinningum hinna ofsóttu Gyðinga. Hvar sem gengið er inn í það blasa við ný sjónarhorn. Ölduhreyfing þess þegar horft er á það ofan frá minnir á djúpar sjávaröldur sem geta ógnað lífi – og minnir á sjónvilluverk (e. opt art; optical illusions).[16] Minnismerkið minnir og á kirkjugarð, steinblokkirnar nokkurs konar grafir eða legsteinar. Öll án nafns enda þurrkaði útrýmingarkerfi þriðja ríkisins fórnarlömb sín út án þess að spyrja um nöfn þeirra. Nóg var að þau voru Gyðingar.

Stærð minnismerkisins veldur því að enginn getur gengið fram hjá því án þess að veita því athygli. Stærðin ein og sér í þessu almannarými segir og um mikilvægi verksins. Segja má að stærðin hrópi líka á umhverfið og þau sem sækja verkið heim. Verkið hefur gefið fórnarlömbum helfararinnar rödd.

Hér er þó rétt að geta þess að minnismerkið er ómerkt með öllu og verður því viðkomandi að hafa fyrir fram vitneskju um það hvað hér er á ferð sem og – eftir atvikum – að hafa einhverju söguþekkingu til að upplifa verkið. Líklegra að Gyðingar upplifi það sterkar en aðrir.

Minnismerkið og hefðir Gyðinga

Hjá Gyðingum er minning um liðna atburði í hávegum höfð. Páskahelgisiðir Gyðinga eru gott dæmi um það en í því er fólgin upprifjun, spurt er og svarað, og vísað til trúarsögunnar. Annað þema hjá Gyðingum er gangan og þá er gjarnan vitnað til brottfararinnar frá Egyptalandi (Exodus) til fyrirheitna landsins og vísað til trúartexta þeirra, Gamla testamentisins.[17] Minninsmerki helfararinnar í Berlín kallar á að sagan sé rifjuð upp, sögð – og út í hana spurt. Auk þess að ganga inni í verkinu. Þannig fléttast verkið við forna siðu Gyðinga. Verkið getur hjálpað fólki til að vinna úr trauma helfararinnar; verkið felur í sér minningarþema sem snýr hvoru tveggja að einstaklingum og hópum sem sjá sameiginlega sögu, minningu, í verkinu.

Göngur af ýmsu tagi hafa verið tengdar trúarbrögðum. Helgigöngur og pílagrímagöngur svo kunn dæmi séu nefnd. Í göngunum er iðulega numið staðar, trúarlegir textar lesnir og íhugaðir meðal annars til að leggja þá á minnið. Mikilvægir atburðir í trúarsögu Gyðinga endurspeglast í hátíðum þeirra þar sem upplestur og helgigöngur skipa háan sess. Þá bænaatferli sem felst í hreyfingu líkamans og sjá má til dæmis hjá Gyðingum við Grátmúrinn. Þetta er allt liður í að byggja upp sameiginlegt minni, eða minnisbanka.[18]

Minnismerki helfarar

Í þessu sambandi er talað um minnismenningu sem sæki fast að Vesturlandabúum. Og meira en það, stappar nær „algjörri þráhyggju gagnvart fortíðinni. Í raun mætti tala um minnismerkja- eða safnahugsun sem tekur stöðugt meira pláss í menningu og reynslu hversdagsins.“[19] Susan Sontag telur að í öllum tilvikum sé minnið einstaklingsbundið og sameiginlegt minni felist í því að komast að samkomulagi um að eitthvert atriði sé með ákveðnum hætti og þannig sé sagan um það sem eitt sinn gerðist.[20] Andreas Huyssen telur minnismenninguna vera póstmóderníska, og bendir á fjölgun helfararsafna og minnisvarða í Ísrael, Þýskalandi, og víðar í Evrópu, og Bandaríkjunum. Ein skýringin á þessu að mati hans er varanleiki minnisvarðans í endurheimtu almannarými, götum og hverfum. Bendir og á að minnisvarðinn er fast form, stendur hér/þarna. Hægt að þreifa á honum í raunheimi.[21]

Svo sannarlega má finna minnismerki/listaverk þar sem helfararinnar og örlaga Gyðinga er minnst. Dæmi um þetta er minnismerkið í Vínarborg, Nafnlausa bókasafnið, í Leipzig, Trier, Hamborg og víðar. Þá er rétt að geta algengra minnismerkja sem sett eru í gangstéttir, sams konar stærð og götusteinar (þ. Stolpersteine) fyrir utan hús Gyðinga sem numdir voru á brott og sendir í útrýmingarbúðir. Almannarýmið í Mið-Evrópu hefur að geyma fjöldann allan af minnismerkjum um helförina. En ekkert þeirra er jafn stórt og minnismerkið í Berlín sem færir fórnarlömbum helfararinnar kröftuga rödd sem segir frá því sem kalla má menningartrauma.[22]

Athyglisvert er að lesa skýringar Peter Eisenmans og Richard Serra, á verkinu. Þeir segja:

Steinblokkirnar eiga að vera ósnertanlegar – hugmyndin er sú að þær teygi sig milli tveggja báróttra reita, og efsta brún þeirra er hverju sinni í augnhæð. Þetta skapar ákveðna ókyrrð á milli þeirra. Þessi ókyrrð eða óregla er lögð ofan á landslagið og bylgjast á brúnum steinblokkanna. Með þessum hæðarmun er kölluð fram skynjun á ójafnri hæð steinblokkanna og umhverfisins. Þetta frávik stendur fyrir mismun á tímaskeiði sem heimspekingurinn Henri Bergson kallaði krónólogískan frásagnartíma og líðandi stund (e. chronological, narrative time and time as duration). Minnismerkið sem ber þennan mismun býr til stað missis og íhugunar, sem eru grunnþætttir minnisins.[23]

Áhrifavaldar

Peter Eisenman hefur lýst því að hann sé hallur undir póststrúktúralisma og afbyggingu (e. deconstruction).[24] Hugtakið afbygging er úr smiðju franska heimspekingins Jacques Derrida. Eisenman og Derrida þekktust vel. Afbyggingin felur í sér að víkja með afgerandi hætti frá hinu hefðbundna; gera uppreisn gegn venjubundnum túlkunum og birtist það í mörgum listaverkum – og í arkitektúr. Afbyggingin kemur líka fram í túlkunum á listaverkum – og hugmyndum. Enginn getur sagt til um hvernig gera skuli listaverk, það bara kemur til listamannsins, kemur úr veruleikanum. Listaverk getur jafnvel átt sér hliðar sem listamaðurinn sjálfur hefur ekki hugmynd um.[25]

Eisenman lítur á arktitektúr í anda Derrida sem skrifaðan texta í borgarlandslag – og verk arkitektsins er tákn; arkitektúrinn muni alltaf hafa merkingu öndvert við tákn tungumálsins sem merkja ekkert. Derrida mun þó hafa þótt athyglisvert að arktitekúr streittist iðulega á móti afbyggingu.[26]

Það er mikill munur að sjá annars vegar eingöngu myndir af umræddu minnismerki og hins vegar að sjá verkið sjálft. Hér mætti sannarlega minnast á kenningu Walters Benjamins um áruna og mikilvægi þess að sjá listaverkið sjálft en ekki eftirmynd þess eða myndir af því. Yfir frumverkinu er ára, eitthvað sem tæknin nær ekki tökum á. Jaðrar við yfirnáttúrulegt fyrirbæri.[27]

Gagnrýni á verkið

Umræða og undirbúningur minnismerkisins tók um sautján ár. Eins og svo oft áður voru ekki allir hrifnir af þessu minnismerki um helförina og voru gjarnan höfð um verkið stór orð. Minnismerkið væri of nálægt þungum umferðaæðum. Það var sagt vera misheppnað listaverk og háðuleg orð látin falla um að það væri ágæt viðbót fyrir ferðamannaiðnaðinn. Sögulegar skírskotanir væru afar óljósar. Þegar fyrstu drög að verkinu litu dagsins ljós komu stjórnmálamenn til skjalanna og kröfðust breytinga á því – steinblokkirnar áttu að vera 4000 en krafa var gerð um að fækka þeim í 2700.[28]

 Niðurstaða

„Minnismerkið um Gyðingana sem voru myrtir í Evrópu“, er áhrifaríkt í mikilfengleik sínum og umhverfi því þar sem stjórnendur Þriðja ríkisins voru með höfuðbækistöðvar sínar. Verkið er á vissan hátt óhugnanlegt með öllum steinblokkunum sem eru hver annarri ólíkari í gráma sínum og þögn og skapa óróa í sál og þá horft er á þær. Í verkinu er ákveðin leið fyrir Gyðinga að samtvinna íhugun, bænir, og göngu, sem er hluti af trúararfi þeirra þegar þeir leiða hugann að helförinni. Hvar sem litið er inni í verkinu blasa við ný og ný sjónarhorn. Tilvísun til helfararinnar kemur fram í að verkið minnir á grafreiti Gyðinga (og grafreiti almennt með misháum leiðum) og engin nöfn blasa við því að drápshönd nasistanna spurði ekki Gyðinga að nafni. Þeir voru merktir dauðanum sakir uppruna síns. Minnismerkið er með áhrifamikla vísun til tímans, liðins sem yfirstandandi, og hæfir vel almannarýminu við þinghúsið. Loks ætti minnismerkið að geta reynst fólki hjálplegt að vinna úr trauma (áfalli) og öllu því er viðkemur helförinni.

Höfundur við minnismerkið árið 2019

 

Heimildir

Anna Frank, og Elliott Roosevelt, Dagbók Önnu Frank, Sveinn Víkingur þýddi, R. 1957.
Andreas Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld,“ Gunnþórunn Guðmundsdóttir þýddi, Ritið, 13. árg. Reykjavík: 2013.
Christian Saehrendt, Holocaust Memorial, The Burlington Magazine, desember 2005. London: 2005.
Demsey, Amy, Styles, schools and movements, The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art. London: (2010), 2017.
Ian Kershaw, Hitler, the Germans and the Final Solution. London: 2008.
Jean Robertson og Craig Mc Daniel, Themes of contemporary art – visual art after 1980. New York: 2022.
Maria Karlsson, Cultures of Denial, Comparing Holocaust and Armenian Genocide Denial. Lundur: 2015.
Menahem Mansor, Jewish history and thought – an introduction. Wisconsin: 1991
Natasha Goldman, Memory Passages – Holocaust memorials in the United States and Germany: Fíladelfía, 2020.
Peter Eisenman and Carlos Brillemborug, BOMB, New Art Publication, nr. 117. Brooklyn, New York: 2011.
Ragna Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar – minningin um nastistatímabilið,“ Ný saga, 1. tbl.: 2001.
Robert M. Seltzer, ritstj. Judaism – A People and its History. New York: 1989.
Susan Sontag, Um sársauka annarra, Uggi Jónsson þýddi. Reykjavík: 2006..
Svetlana Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll, Gunnar Þorri Pétursson þýddi. Reykjavík: 2021.
Stefán Snævarr, Kunstfilosofi – En kristisk innføring. Bergen: 2008.
Viktor Frankl, Leitin að tilgangi lífsins, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, þýddi, R. 1996.
Walter Benjamin, Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar, Fagurfræði og miðlun, útrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson, Árni Óskarsson og Örnólfur Thorsson þýddu. Reykjavík: 2008.
Æsa Sigurjónsdóttir í fyrirlestri í H.Í., 4. október 2022.

Tilvísanir:

[1] Æsa Sigurjónsdóttir í fyrirlestri í H.Í., 4. október 2022.

[2] Goldman, Memory Passages,150. Verki þeirra félaga var í raun hafnað og farið fram á breytingar sem Serra sætti sig ekki við en Eisenman tók þær sér fyrir hendur, nýtt og minna verk kom í stað þess sem fyrri tillaga gerði ráð fyrir. Einnig er góða lýsingu á átökum í kringum tilurð verksins að finna hér: Ragnar Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar“, 59-63.

[3] Goldman, Memory Passages,152.

[4] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 173.

[5] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 172-174.

[6] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 202.

[7] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844-855.

[8] Eisenman og Brillemborug, BOMB,72-73.

[9] Mansor, Jewish history and thought,455.

[10] Kershaw, Hitler, the Germans and the Final Solution, 238-239.

[11] Karlsson, Cultures of Denial, 8-9.

[12] Til dæmis Viktor Frankl: Leitin að tilgangi lífsins – og Dagbók Önnu Frank.

[13] Karlsson, Cultures of Denial, 8-9.

[14] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844.

[15] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 182.

[16] Demsey, Styles, schools and movements, 230-232.

[17] Brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi og fjörutíu ára eyðimerkurganga áður en komið var til fyrirheitna landsins, 2. Mósebók 12. 37 o.áfr. Biblían 2007.

[18] Judaism, 219.

[19] Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld“, 211.

[20] Sontag, Um sársauka annarra, 112.

[21] Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld“, 215.

[22] Orðið menningartrauma kemur fyrir í bók Svetlönu Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll, 138, sem segir frá skelfilegum afleiðingum kjarnorkuslyss í Tsjernobyl 1986: „Á undan Tsjernobyl var menning en það er engin menning eftir Tsjernobyl.“ 302. Að svo miklu leyti sem hægt er að bera hörmungar saman verður ekki sagt að Tsjernobyl-slysið komist hvergi til jafns við helför Gyðinga.

[23] Goldman, Memory Passages, 140, 148, 163.

[24] Eisenman og Brillemborug, BOMB,69.

[25] Stefán Snævarr, Kunstfilosofi, 229.

[26] Eisenman og Brillemborug, BOMB, 72-73.

[27] Benjamin, „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“, 549-579.

[28] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844-855. Einnig: Ragna Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar“, 59-63.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Hér verður farið nokkrum orðum um minnismerkið um helförina sem er að finna í Berlín. Verkið ber heitið „Minnismerkið um Gyðingana sem voru myrtir í Evrópu“, (e. The Memorial to the Murdered Jews of Europe og þ. Denkmal für die ermordeten Juden Europas) og er í miðri Berlínarborg. Titill verksins er ekki kominn frá höfundi þess því hann vildi hafa það nafnlaust.

Verkinu verður lýst í fáum orðum og rætt um tilganginn með því að reisa það.

Vikið verður að helförinni og hvernig Þjóðverjar hafa unnið úr henni á sínum heimavelli.

Þá verður fjallað um merkingu verksins, minnismerkjaform, og hún tengd við minni og afbyggingu.

Einnig verður vikið að gagnrýni sem sett var fram á verkið bæði meðan á undirbúningi þess stóð og eftir að það var afhjúpað.

Aðfaraorð

Eitt af hlutverkum listarinnar snýr að því að halda á lofti atburðum í lífi þjóða og einstaklinga. Það er minnishlutverk hennar sem Jóhann J. Winckelmann (d. 1748) talaði fyrir.[1]

Ekki er sú borg til sem ekki státar af einhverju listaverki sem minnir á gullna forna tíð, hershöfðingja og konunga munda sverð og spjót. Styttur á torgum og túnum – og það sem minnir á sókn og sigra, glæsta sögu. Einnig hörmulega atburði í lífi þjóða og einstaklinga.

Það var Peter Eisenman, bandaríkjamaður af gyðingaættum, sem vann samkeppni um minnismerki helfararinnar í Berlín árið 1994 ásamt myndhöggvaranum Richard Serra en hann sagði sig frá verkinu þegar breytinga á því var krafist og Eisenman varð við.[2] Þýska þingið greiddi atkvæði um tillöguna árið 1999 og samþykkti meirihluti þingmanna hana sem og að verkið skyldi eingöngu vera tileinkað fórnarlömbum helfararinnar.[3] Lokið var við verkið árið 2005. [4]

Minnismerki í almannarými geta verið tilfinningamál. Þau geta verið umdeild vegna þess að saga þeirra sem þau eiga að minnast er skilin með misjöfnum hætti. Minnismerki staldra við minningar eins og orðið gefur til kynna en þær eru flókið fyrirbæri. Eins og aðrir túlka listamenn söguna og setja hana fram með sínum hætti.[5] Listaverk Eisenmans er gott dæmi um það. Svo ólíkt öðrum verkum. Segja má að um sé að ræða and-minnismerki (e. anti/counter-monumentalism) sem felst í því að verkið tekur stefnu sem er með öllu frábrugðin hefðbundnum minnismerkjum í almannarými.[6]

Minnismerkið

Minnismerkið sem hér um ræðir er gert úr 2711 gráleitum steinblokkum sem liggja flatar á jörðinni á stóru svæði sem hallar dálítið. Enginn þessara steinblokka er eins og þær eru misháar – allt frá því að nema ögn frá jörðu og upp í fjóra metra. Steinblokkirnar eru rétthyrndar og brúnir hvassar. Þær standa í nokkuð beinni röð þegar horft er á milli þeirra. Bilið milli þeirra er um armslengd og þá er gönguslóðinn á milli þeirr lagður steinum. Mismikill flái er á efstu brún blokkanna. Minnismerkið er á svæði skammt frá Brandenborgarhliðinu og auðu svæði sem var á milli austur og vesturs við múrinn.

Þar sem steinblokkirnar eru misháar búa þær til ölduhreyfingu þegar myndir eru teknar af verkinu úr lofti [7] eða horft á það frá ákveðnum sjónarhornum á jörðu. Öldurnar eru misdjúpar og háar. Sú dýpsta er reyndar 2.4 metrum undir yfirborði götunnar. Sagan er hreyfing sem tekur fólk í fangið og ber það á ýmsar slóðir. Sumir rífa sig lausa úr þessu fangi en greipar þess eru sterkar. Stíllinn ber keim af mínimalisma (naumhyggju) og geómetríu (strangflatarlist). Minnismerkið er í raun skúlptúr sem kallar á túlkun eða þögn.

Höfundur verksins, Peter Eisenman (f. 1932), segir að í helfararminnismerkinu í Berlín hafi verið leitast við að nota efni sem hefði enga skírskotun, til dæmis ekki neitt grjót frá Jerúsalem sem fólk hefði farið að lesa út úr einhverja merkingu. Steypa var valin. Áferð steypunnar var látin líkjast sem mest járni og brúnir steinblakkkanna voru skarpar. Þetta hafi verið gert í því skyni að verkið yrði sem framandlegast og fjarri öllu hversdagslegu lífi.[8]

Sögulegur bakgrunnur

Helförin kostaði líf 6 milljóna Gyðinga.[9] Hún hefur verið sem kökkur í þjóðarhálsi Þjóðverja og fjöldi bóka verið ritaður um hana og rannsóknir gerðar. Þjóðverjar voru svifaseinir til að horfast í augu við gjörðir sínar eftir heimsstyrjöldina síðari. Hinn kunni breski sagnfræðingur Ian Kershaw fullyrðir að þeir hafi ekki tekið við sér að fullu fyrr en með réttarhöldunum yfir Eichmann á sjöunda áratug síðustu aldar. Félags- og sagnfræðirannsóknir á síðari heimsstyrjöldinni og afleiðingum hennar hófust því ekki í Þýskalandi heldur í Ísrael og Bandaríkjunum.[10] Með þessu er ekki sagt að Þjóðverjar hafi viljað gleyma helförinni heldur kannski fremur að þjóðin hafi ekki haft sálarstyrk til þess að horfast í augu við gjörðir sínar, hafi verið í losti. Sigmundur Freud taldi manneskjuna halla undir að afneita  óþægilegum staðreyndum sem er öndvert við að horfast í augu við þær í minnismerkjum af þessu tagi. Hvort tveggja væri bæði meðvituð og ómeðvituð viðbrögð, varnarháttur manneskjunnar.[11]

List og minni þýskrar þjóðar

Í þessu sambandi má geta um minni samfélagsins (kollektift minni), samfélagið gleymdi ekki þessum atburðum enda var það í rúst eftir stríðið og samviskubit nagaði margan Þjóðverjann – og gerir enn. Sálarkvöl þeirra var mikil þar sem öll þýska þjóðin var stimpluð sek; sekt samfélagsins. En minningar hrönnuðust upp í kjölfar stríðsins. Minningar þeirra sem lifðu af og þeirra sem voru drepin.[12] Bækur, kvikmyndir og sögur, röktu þessar minningar. Kjörorðið var í raun: aldrei aftur. Nútímamenning hefur verið að áliti sumra fræðimanna áfjáð í minningar og í því sambandi er talað um „memorial turn“ á Vesturlöndum.[13] Þetta er gott að hafa í huga áður en lengra er haldið í umfjöllun um minnismerki Eisenmans.

Helfararminnisverkið er því byggt á heimildum og upplifunum, túlkunum á skelfilegum sögulegum atburði, og komið fyrir í táknrænu formi og á táknrænum stað í því landi sem ól hörmungarnar af sér. Stað í Berlín þar sem var kjarni hins nasíska ríkis, vísar til tíma Þriðja ríkisins og kveikir minningar.

Höfundur verksins endursegir þetta tímabil þýskrar sögu með sínum hætti. Umritar söguna í steinblokkunum.

Saga einstaklinga og þjóðar í minnismerkinu

Sagan er bæði persónuleg og ópersónuleg sem helfararverkið sýnir. Persónuleg harmsaga allra þeirra sem voru Gyðingar eða af uppruna þeirra. En verkið sýnir hina köldu og ópersónuleg hlið í steinblokkum sínum, að því er virðist óbifanleg, köld þögn múrsins steingráa andspænis hrópum fólksins. Steinblokkirnar standa fyrir öll þau sem féllu, standa þarna í borg hinna dauðu og fyrir utan hana iðar borg hinna lifandi, afkomenda böðlanna. Þær standa fyrir miskunnarlaust vald sem engu eirir. Þetta getur og vakið óhug hjá þeim sem skoðar og sú var einnig ætlunin hjá Eisenman, að skapa „óstöðugan stað.“[14]

Þeim sem koma að minnismerkinu er boðið að ganga inn í það hvar sem er. Það umkringir líkama þeirra sem fara um það. Segja má að það höfði til allra skilningarvita (e. multisensory), sem streyma að því úr ýmsum áttum. Ilmur náttúru, þurr steinn, kliður borgar í fjarska, tal og marr undan skóm þegar gengið er á milli steinblokkanna o.s.frv.[15]

Minnismerkið er sem völundarhús með öllum sínum þröngu stígum en þó ekki sem venjulegt völundarhús þar sem stígarnir liggja út og suður. Nei, stígarnir eru beinir, skipulagðir. Segja mætti að þeir vísi til hins skipulagða ríkisvalds sem ofsótti Gyðinga með skipulögðum hætti á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar. Sá sem gengur á milli steinblokkanna er stöðugt aðþrengdur af einhverju sem honum er ógeðfellt. Hann getur fundir til hryggðar og haft á tilfinningunni að hann sé týndur og yfirgefinn – hvort tveggja gæti verið ómur af tilfinningum hinna ofsóttu Gyðinga. Hvar sem gengið er inn í það blasa við ný sjónarhorn. Ölduhreyfing þess þegar horft er á það ofan frá minnir á djúpar sjávaröldur sem geta ógnað lífi – og minnir á sjónvilluverk (e. opt art; optical illusions).[16] Minnismerkið minnir og á kirkjugarð, steinblokkirnar nokkurs konar grafir eða legsteinar. Öll án nafns enda þurrkaði útrýmingarkerfi þriðja ríkisins fórnarlömb sín út án þess að spyrja um nöfn þeirra. Nóg var að þau voru Gyðingar.

Stærð minnismerkisins veldur því að enginn getur gengið fram hjá því án þess að veita því athygli. Stærðin ein og sér í þessu almannarými segir og um mikilvægi verksins. Segja má að stærðin hrópi líka á umhverfið og þau sem sækja verkið heim. Verkið hefur gefið fórnarlömbum helfararinnar rödd.

Hér er þó rétt að geta þess að minnismerkið er ómerkt með öllu og verður því viðkomandi að hafa fyrir fram vitneskju um það hvað hér er á ferð sem og – eftir atvikum – að hafa einhverju söguþekkingu til að upplifa verkið. Líklegra að Gyðingar upplifi það sterkar en aðrir.

Minnismerkið og hefðir Gyðinga

Hjá Gyðingum er minning um liðna atburði í hávegum höfð. Páskahelgisiðir Gyðinga eru gott dæmi um það en í því er fólgin upprifjun, spurt er og svarað, og vísað til trúarsögunnar. Annað þema hjá Gyðingum er gangan og þá er gjarnan vitnað til brottfararinnar frá Egyptalandi (Exodus) til fyrirheitna landsins og vísað til trúartexta þeirra, Gamla testamentisins.[17] Minninsmerki helfararinnar í Berlín kallar á að sagan sé rifjuð upp, sögð – og út í hana spurt. Auk þess að ganga inni í verkinu. Þannig fléttast verkið við forna siðu Gyðinga. Verkið getur hjálpað fólki til að vinna úr trauma helfararinnar; verkið felur í sér minningarþema sem snýr hvoru tveggja að einstaklingum og hópum sem sjá sameiginlega sögu, minningu, í verkinu.

Göngur af ýmsu tagi hafa verið tengdar trúarbrögðum. Helgigöngur og pílagrímagöngur svo kunn dæmi séu nefnd. Í göngunum er iðulega numið staðar, trúarlegir textar lesnir og íhugaðir meðal annars til að leggja þá á minnið. Mikilvægir atburðir í trúarsögu Gyðinga endurspeglast í hátíðum þeirra þar sem upplestur og helgigöngur skipa háan sess. Þá bænaatferli sem felst í hreyfingu líkamans og sjá má til dæmis hjá Gyðingum við Grátmúrinn. Þetta er allt liður í að byggja upp sameiginlegt minni, eða minnisbanka.[18]

Minnismerki helfarar

Í þessu sambandi er talað um minnismenningu sem sæki fast að Vesturlandabúum. Og meira en það, stappar nær „algjörri þráhyggju gagnvart fortíðinni. Í raun mætti tala um minnismerkja- eða safnahugsun sem tekur stöðugt meira pláss í menningu og reynslu hversdagsins.“[19] Susan Sontag telur að í öllum tilvikum sé minnið einstaklingsbundið og sameiginlegt minni felist í því að komast að samkomulagi um að eitthvert atriði sé með ákveðnum hætti og þannig sé sagan um það sem eitt sinn gerðist.[20] Andreas Huyssen telur minnismenninguna vera póstmóderníska, og bendir á fjölgun helfararsafna og minnisvarða í Ísrael, Þýskalandi, og víðar í Evrópu, og Bandaríkjunum. Ein skýringin á þessu að mati hans er varanleiki minnisvarðans í endurheimtu almannarými, götum og hverfum. Bendir og á að minnisvarðinn er fast form, stendur hér/þarna. Hægt að þreifa á honum í raunheimi.[21]

Svo sannarlega má finna minnismerki/listaverk þar sem helfararinnar og örlaga Gyðinga er minnst. Dæmi um þetta er minnismerkið í Vínarborg, Nafnlausa bókasafnið, í Leipzig, Trier, Hamborg og víðar. Þá er rétt að geta algengra minnismerkja sem sett eru í gangstéttir, sams konar stærð og götusteinar (þ. Stolpersteine) fyrir utan hús Gyðinga sem numdir voru á brott og sendir í útrýmingarbúðir. Almannarýmið í Mið-Evrópu hefur að geyma fjöldann allan af minnismerkjum um helförina. En ekkert þeirra er jafn stórt og minnismerkið í Berlín sem færir fórnarlömbum helfararinnar kröftuga rödd sem segir frá því sem kalla má menningartrauma.[22]

Athyglisvert er að lesa skýringar Peter Eisenmans og Richard Serra, á verkinu. Þeir segja:

Steinblokkirnar eiga að vera ósnertanlegar – hugmyndin er sú að þær teygi sig milli tveggja báróttra reita, og efsta brún þeirra er hverju sinni í augnhæð. Þetta skapar ákveðna ókyrrð á milli þeirra. Þessi ókyrrð eða óregla er lögð ofan á landslagið og bylgjast á brúnum steinblokkanna. Með þessum hæðarmun er kölluð fram skynjun á ójafnri hæð steinblokkanna og umhverfisins. Þetta frávik stendur fyrir mismun á tímaskeiði sem heimspekingurinn Henri Bergson kallaði krónólogískan frásagnartíma og líðandi stund (e. chronological, narrative time and time as duration). Minnismerkið sem ber þennan mismun býr til stað missis og íhugunar, sem eru grunnþætttir minnisins.[23]

Áhrifavaldar

Peter Eisenman hefur lýst því að hann sé hallur undir póststrúktúralisma og afbyggingu (e. deconstruction).[24] Hugtakið afbygging er úr smiðju franska heimspekingins Jacques Derrida. Eisenman og Derrida þekktust vel. Afbyggingin felur í sér að víkja með afgerandi hætti frá hinu hefðbundna; gera uppreisn gegn venjubundnum túlkunum og birtist það í mörgum listaverkum – og í arkitektúr. Afbyggingin kemur líka fram í túlkunum á listaverkum – og hugmyndum. Enginn getur sagt til um hvernig gera skuli listaverk, það bara kemur til listamannsins, kemur úr veruleikanum. Listaverk getur jafnvel átt sér hliðar sem listamaðurinn sjálfur hefur ekki hugmynd um.[25]

Eisenman lítur á arktitektúr í anda Derrida sem skrifaðan texta í borgarlandslag – og verk arkitektsins er tákn; arkitektúrinn muni alltaf hafa merkingu öndvert við tákn tungumálsins sem merkja ekkert. Derrida mun þó hafa þótt athyglisvert að arktitekúr streittist iðulega á móti afbyggingu.[26]

Það er mikill munur að sjá annars vegar eingöngu myndir af umræddu minnismerki og hins vegar að sjá verkið sjálft. Hér mætti sannarlega minnast á kenningu Walters Benjamins um áruna og mikilvægi þess að sjá listaverkið sjálft en ekki eftirmynd þess eða myndir af því. Yfir frumverkinu er ára, eitthvað sem tæknin nær ekki tökum á. Jaðrar við yfirnáttúrulegt fyrirbæri.[27]

Gagnrýni á verkið

Umræða og undirbúningur minnismerkisins tók um sautján ár. Eins og svo oft áður voru ekki allir hrifnir af þessu minnismerki um helförina og voru gjarnan höfð um verkið stór orð. Minnismerkið væri of nálægt þungum umferðaæðum. Það var sagt vera misheppnað listaverk og háðuleg orð látin falla um að það væri ágæt viðbót fyrir ferðamannaiðnaðinn. Sögulegar skírskotanir væru afar óljósar. Þegar fyrstu drög að verkinu litu dagsins ljós komu stjórnmálamenn til skjalanna og kröfðust breytinga á því – steinblokkirnar áttu að vera 4000 en krafa var gerð um að fækka þeim í 2700.[28]

 Niðurstaða

„Minnismerkið um Gyðingana sem voru myrtir í Evrópu“, er áhrifaríkt í mikilfengleik sínum og umhverfi því þar sem stjórnendur Þriðja ríkisins voru með höfuðbækistöðvar sínar. Verkið er á vissan hátt óhugnanlegt með öllum steinblokkunum sem eru hver annarri ólíkari í gráma sínum og þögn og skapa óróa í sál og þá horft er á þær. Í verkinu er ákveðin leið fyrir Gyðinga að samtvinna íhugun, bænir, og göngu, sem er hluti af trúararfi þeirra þegar þeir leiða hugann að helförinni. Hvar sem litið er inni í verkinu blasa við ný og ný sjónarhorn. Tilvísun til helfararinnar kemur fram í að verkið minnir á grafreiti Gyðinga (og grafreiti almennt með misháum leiðum) og engin nöfn blasa við því að drápshönd nasistanna spurði ekki Gyðinga að nafni. Þeir voru merktir dauðanum sakir uppruna síns. Minnismerkið er með áhrifamikla vísun til tímans, liðins sem yfirstandandi, og hæfir vel almannarýminu við þinghúsið. Loks ætti minnismerkið að geta reynst fólki hjálplegt að vinna úr trauma (áfalli) og öllu því er viðkemur helförinni.

Höfundur við minnismerkið árið 2019

 

Heimildir

Anna Frank, og Elliott Roosevelt, Dagbók Önnu Frank, Sveinn Víkingur þýddi, R. 1957.
Andreas Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld,“ Gunnþórunn Guðmundsdóttir þýddi, Ritið, 13. árg. Reykjavík: 2013.
Christian Saehrendt, Holocaust Memorial, The Burlington Magazine, desember 2005. London: 2005.
Demsey, Amy, Styles, schools and movements, The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art. London: (2010), 2017.
Ian Kershaw, Hitler, the Germans and the Final Solution. London: 2008.
Jean Robertson og Craig Mc Daniel, Themes of contemporary art – visual art after 1980. New York: 2022.
Maria Karlsson, Cultures of Denial, Comparing Holocaust and Armenian Genocide Denial. Lundur: 2015.
Menahem Mansor, Jewish history and thought – an introduction. Wisconsin: 1991
Natasha Goldman, Memory Passages – Holocaust memorials in the United States and Germany: Fíladelfía, 2020.
Peter Eisenman and Carlos Brillemborug, BOMB, New Art Publication, nr. 117. Brooklyn, New York: 2011.
Ragna Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar – minningin um nastistatímabilið,“ Ný saga, 1. tbl.: 2001.
Robert M. Seltzer, ritstj. Judaism – A People and its History. New York: 1989.
Susan Sontag, Um sársauka annarra, Uggi Jónsson þýddi. Reykjavík: 2006..
Svetlana Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll, Gunnar Þorri Pétursson þýddi. Reykjavík: 2021.
Stefán Snævarr, Kunstfilosofi – En kristisk innføring. Bergen: 2008.
Viktor Frankl, Leitin að tilgangi lífsins, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, þýddi, R. 1996.
Walter Benjamin, Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar, Fagurfræði og miðlun, útrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson, Árni Óskarsson og Örnólfur Thorsson þýddu. Reykjavík: 2008.
Æsa Sigurjónsdóttir í fyrirlestri í H.Í., 4. október 2022.

Tilvísanir:

[1] Æsa Sigurjónsdóttir í fyrirlestri í H.Í., 4. október 2022.

[2] Goldman, Memory Passages,150. Verki þeirra félaga var í raun hafnað og farið fram á breytingar sem Serra sætti sig ekki við en Eisenman tók þær sér fyrir hendur, nýtt og minna verk kom í stað þess sem fyrri tillaga gerði ráð fyrir. Einnig er góða lýsingu á átökum í kringum tilurð verksins að finna hér: Ragnar Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar“, 59-63.

[3] Goldman, Memory Passages,152.

[4] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 173.

[5] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 172-174.

[6] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 202.

[7] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844-855.

[8] Eisenman og Brillemborug, BOMB,72-73.

[9] Mansor, Jewish history and thought,455.

[10] Kershaw, Hitler, the Germans and the Final Solution, 238-239.

[11] Karlsson, Cultures of Denial, 8-9.

[12] Til dæmis Viktor Frankl: Leitin að tilgangi lífsins – og Dagbók Önnu Frank.

[13] Karlsson, Cultures of Denial, 8-9.

[14] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844.

[15] Robertson og Mc Daniel, Themes of Contemporary Art, 182.

[16] Demsey, Styles, schools and movements, 230-232.

[17] Brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi og fjörutíu ára eyðimerkurganga áður en komið var til fyrirheitna landsins, 2. Mósebók 12. 37 o.áfr. Biblían 2007.

[18] Judaism, 219.

[19] Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld“, 211.

[20] Sontag, Um sársauka annarra, 112.

[21] Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld“, 215.

[22] Orðið menningartrauma kemur fyrir í bók Svetlönu Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll, 138, sem segir frá skelfilegum afleiðingum kjarnorkuslyss í Tsjernobyl 1986: „Á undan Tsjernobyl var menning en það er engin menning eftir Tsjernobyl.“ 302. Að svo miklu leyti sem hægt er að bera hörmungar saman verður ekki sagt að Tsjernobyl-slysið komist hvergi til jafns við helför Gyðinga.

[23] Goldman, Memory Passages, 140, 148, 163.

[24] Eisenman og Brillemborug, BOMB,69.

[25] Stefán Snævarr, Kunstfilosofi, 229.

[26] Eisenman og Brillemborug, BOMB, 72-73.

[27] Benjamin, „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“, 549-579.

[28] Saehrendt, „Holocaust Memorial“, 844-855. Einnig: Ragna Garðarsdóttir, „Óleysanlegir fortíðarhnútar“, 59-63.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir