Helgisögur jóla segja frá því sem gerist á mærum þessa heims og annars. Jólanóttin er dularfullur tími eins og nýársnótt og margt getur gerst.

Þegar lýsa skal því sem er handan þessa heims er gripið til ýmissa ráða enda telst erindið brýnt. Stundum verða frásagnir hlaðnar svo miklu orðskrúði að kjarni þess sem á að lýsa fer forgörðum. Aðrir kjósa einfaldleika en hann getur líka orðið svo mikill að magnaðir atburðir á mörkum þessa heims og annars falla eins og dauð kirkjuklisja. Leiðin til að segja frá hinu óvenjulega, hinu heilaga, því sem á rætur í annarri veröld, er nefnilega vandfarin. Prédikanir eru til dæmis ein aðferð til að fjalla um trúartexta og eru þær býsna misjafnar og ekki er örgrannt um að lútherskri kirkju sé að fara aftur í því efni og hverfa frá arfi siðbótarmannsins þar sem prédikunin á að skipa öndvegi

Listamenn prédika líka. Sumir vel og aðrir illa. Góð verk lifa eins og alkunna er.

Listamenn hafa farið sínar leiðir til að draga upp myndir af því sem er á mærum tveggja heima. Lýsa því þegar mönnum er boðið að skyggnast inn í eilífða á vettvangi dagsins í heimabæ sínum. Margir listamenn hafa verið hinir bestu boðberar fagnaðarerindisins.

Þetta er óvenjuleg mynd sem hefur efni fæðingarfrásagnarinnar að uppistöðu og er hún sett á svið á sumardegi í ítölsku héraði. Myndin átti að þjóna hlutverki altaristöflu en frá því var horfið og hún hafnaði á vegg virðulegs svefnherbergis. Það var ítalski endurreisnarmálarinn Piero della Francesca (1415-1492) sem gerði hana og var hann í hópi snjöllustu og dáðustu listmálara 15. aldar.

Fjárhúsin eru sýnd með lúinni, háreistri og einfaldri byggingu í bakgrunni. Á hlöðnum veggnum hægra megin sést í ljósleita steina en ímyndaður geisli Betlehemsstjörnunnar smýgur gegnum þakið og lýsir þá upp en listamaðurinn var kunnur fyrir þess háttar tilvísanir. Vinstra megin sést kyrr á sem liðast um og hægra megin er víggirt borg. Nákvæmni er mikil því að gluggar og stræti sjást. Hyrnt naut er fyrir miðri mynd og asni er reigir höfuð sitt upp og frísar. Þetta voru lítilmótlegustu skepnur þessa tíma og voru í helgisögum viðstaddar fæðingu frelsarans og þær fyrstu sem lutu honum og skynjuðu að þar var sonur Guðs:

Uxinn þekkir eiganda sinn
og asninn jötu húsbónda síns.

(Spádómsbók Jesaja 1.3).

Guðsmóðirin María er á sínum stað en sannast sagna ekki sem fátæk mær heldur vel stöndug svo sem klæðaburður sýnir augljóslega. En þarna er hún heimfærð til 15. aldar vel stæðra Ítala og með hendur í sígildri bænastellingu. Í ljósbláum kyrtli, gulfóðruðum, efnismiklum og dökkbláum möttli. Blái liturinn var dýrastur lita og hann er ætíð tengdur Maríu. Um hálsinn er hún með nisti í hvítri ól, steinninn í nistinu er dimmrauður. Upphlutur er rauður og ermalíning með perlum – einnig eru perlur í ljósu hári hennar. Jesúbarnið hvílir á hluta möttulsins sem móðir hans hefur breitt út. Sandurinn sem barnið hvílir á er vaxinn gróðri. Jesúbarnið lyftir höndum mót móður sinni og er allsnakið – ekki laust við íkonískt yfirbragð.

Fyrir miðri mynd eru fimm englar. Tveir leika á lútu sem var vinsælasta hljóðfæri endurreisnarinnar og tveir syngja. Einn horfir hljóður niður. Það er augljóslega hreyfing á þeim sem fram kemur í fótaburði.

En Jósef?

Hann er hægra megin á myndinni í svörtum klæðum og bleikum kyrtli. Blár hattur á höfði. Situr þungt hugsi í söðli sem María hefur notað á ferðalaginu til Betlehem. Hirðarnir í jarðlitum klæðum og alvarlegir á svip lýsa fyrir honum því sem gerðist á Betlehemsvöllum og bendir annar þeirra hægri hönd til himins. Hinn horfir einnig upp og heldur fast um hirðisstaf sinn. Andlit hirðanna hafa skemmst í aldanna rás. Jósef hefur brugðið hægri fæti á hné sér og er með hendur í hvíld.

Það sem vekur athygli við þessa fæðingarfrásagnarmynd er hversu jarðnesk hún er. Á henni er ekki að finna neina geislabauga eða svífandi himneskar verur. Nei, hér standa allir föstum fótum á jörðu án vængja og dýrðarljóma. Já, en tilvísanir til hins æðra eru þó þarna í myndinni sem áhorfendur lesa.

En þó að helgimyndin sé hugljúf eru fuglar sem flytja tákn. Til vinstri á myndinni eru tvær þistilfinkur eins og í felumynd. Þistilfinkan er fugl þjáningarinnar og bendir til þeirra örlaga er bíða barnsins. Þistilfinkunni er bundin sú sögn að hún hafi flogið yfir höfuð Jesú á leiðinni til Golgata og dregið úr augabrún hans þistiltein og um leið hafi blóðdreitill úr honum skotist á höfuð finkunnar. Á þaki skepnuhússins er allstór fugl sem heitir skaði og sá var ekki í hávegum hafður meðal kristinna manna. Sú saga gekk að þegar Jesús var krossfestur hafi tveir fuglar sest á þvertréð, annar var dúfa sem harmaði örlög frelsarans, en hinn var fuglinn skaði sem lét sér fátt um finnast.

Segja má að þessi fæðingarfrásagnarmynd tali skýrt til nútímans á Vesturlöndum þar sem hún býr yfir blöndu af sterkum veraldlegum svip og himneskum. Yfir henni hvílir fegurð og alvara.

Hér má sjá samtal um listaverkið og viðgerð á því en það var mjög illa farið.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Helgisögur jóla segja frá því sem gerist á mærum þessa heims og annars. Jólanóttin er dularfullur tími eins og nýársnótt og margt getur gerst.

Þegar lýsa skal því sem er handan þessa heims er gripið til ýmissa ráða enda telst erindið brýnt. Stundum verða frásagnir hlaðnar svo miklu orðskrúði að kjarni þess sem á að lýsa fer forgörðum. Aðrir kjósa einfaldleika en hann getur líka orðið svo mikill að magnaðir atburðir á mörkum þessa heims og annars falla eins og dauð kirkjuklisja. Leiðin til að segja frá hinu óvenjulega, hinu heilaga, því sem á rætur í annarri veröld, er nefnilega vandfarin. Prédikanir eru til dæmis ein aðferð til að fjalla um trúartexta og eru þær býsna misjafnar og ekki er örgrannt um að lútherskri kirkju sé að fara aftur í því efni og hverfa frá arfi siðbótarmannsins þar sem prédikunin á að skipa öndvegi

Listamenn prédika líka. Sumir vel og aðrir illa. Góð verk lifa eins og alkunna er.

Listamenn hafa farið sínar leiðir til að draga upp myndir af því sem er á mærum tveggja heima. Lýsa því þegar mönnum er boðið að skyggnast inn í eilífða á vettvangi dagsins í heimabæ sínum. Margir listamenn hafa verið hinir bestu boðberar fagnaðarerindisins.

Þetta er óvenjuleg mynd sem hefur efni fæðingarfrásagnarinnar að uppistöðu og er hún sett á svið á sumardegi í ítölsku héraði. Myndin átti að þjóna hlutverki altaristöflu en frá því var horfið og hún hafnaði á vegg virðulegs svefnherbergis. Það var ítalski endurreisnarmálarinn Piero della Francesca (1415-1492) sem gerði hana og var hann í hópi snjöllustu og dáðustu listmálara 15. aldar.

Fjárhúsin eru sýnd með lúinni, háreistri og einfaldri byggingu í bakgrunni. Á hlöðnum veggnum hægra megin sést í ljósleita steina en ímyndaður geisli Betlehemsstjörnunnar smýgur gegnum þakið og lýsir þá upp en listamaðurinn var kunnur fyrir þess háttar tilvísanir. Vinstra megin sést kyrr á sem liðast um og hægra megin er víggirt borg. Nákvæmni er mikil því að gluggar og stræti sjást. Hyrnt naut er fyrir miðri mynd og asni er reigir höfuð sitt upp og frísar. Þetta voru lítilmótlegustu skepnur þessa tíma og voru í helgisögum viðstaddar fæðingu frelsarans og þær fyrstu sem lutu honum og skynjuðu að þar var sonur Guðs:

Uxinn þekkir eiganda sinn
og asninn jötu húsbónda síns.

(Spádómsbók Jesaja 1.3).

Guðsmóðirin María er á sínum stað en sannast sagna ekki sem fátæk mær heldur vel stöndug svo sem klæðaburður sýnir augljóslega. En þarna er hún heimfærð til 15. aldar vel stæðra Ítala og með hendur í sígildri bænastellingu. Í ljósbláum kyrtli, gulfóðruðum, efnismiklum og dökkbláum möttli. Blái liturinn var dýrastur lita og hann er ætíð tengdur Maríu. Um hálsinn er hún með nisti í hvítri ól, steinninn í nistinu er dimmrauður. Upphlutur er rauður og ermalíning með perlum – einnig eru perlur í ljósu hári hennar. Jesúbarnið hvílir á hluta möttulsins sem móðir hans hefur breitt út. Sandurinn sem barnið hvílir á er vaxinn gróðri. Jesúbarnið lyftir höndum mót móður sinni og er allsnakið – ekki laust við íkonískt yfirbragð.

Fyrir miðri mynd eru fimm englar. Tveir leika á lútu sem var vinsælasta hljóðfæri endurreisnarinnar og tveir syngja. Einn horfir hljóður niður. Það er augljóslega hreyfing á þeim sem fram kemur í fótaburði.

En Jósef?

Hann er hægra megin á myndinni í svörtum klæðum og bleikum kyrtli. Blár hattur á höfði. Situr þungt hugsi í söðli sem María hefur notað á ferðalaginu til Betlehem. Hirðarnir í jarðlitum klæðum og alvarlegir á svip lýsa fyrir honum því sem gerðist á Betlehemsvöllum og bendir annar þeirra hægri hönd til himins. Hinn horfir einnig upp og heldur fast um hirðisstaf sinn. Andlit hirðanna hafa skemmst í aldanna rás. Jósef hefur brugðið hægri fæti á hné sér og er með hendur í hvíld.

Það sem vekur athygli við þessa fæðingarfrásagnarmynd er hversu jarðnesk hún er. Á henni er ekki að finna neina geislabauga eða svífandi himneskar verur. Nei, hér standa allir föstum fótum á jörðu án vængja og dýrðarljóma. Já, en tilvísanir til hins æðra eru þó þarna í myndinni sem áhorfendur lesa.

En þó að helgimyndin sé hugljúf eru fuglar sem flytja tákn. Til vinstri á myndinni eru tvær þistilfinkur eins og í felumynd. Þistilfinkan er fugl þjáningarinnar og bendir til þeirra örlaga er bíða barnsins. Þistilfinkunni er bundin sú sögn að hún hafi flogið yfir höfuð Jesú á leiðinni til Golgata og dregið úr augabrún hans þistiltein og um leið hafi blóðdreitill úr honum skotist á höfuð finkunnar. Á þaki skepnuhússins er allstór fugl sem heitir skaði og sá var ekki í hávegum hafður meðal kristinna manna. Sú saga gekk að þegar Jesús var krossfestur hafi tveir fuglar sest á þvertréð, annar var dúfa sem harmaði örlög frelsarans, en hinn var fuglinn skaði sem lét sér fátt um finnast.

Segja má að þessi fæðingarfrásagnarmynd tali skýrt til nútímans á Vesturlöndum þar sem hún býr yfir blöndu af sterkum veraldlegum svip og himneskum. Yfir henni hvílir fegurð og alvara.

Hér má sjá samtal um listaverkið og viðgerð á því en það var mjög illa farið.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir