Listaverkin eru mörg í almannarýminu í Reykjavík. Þau eru misáberandi. Allir vita hvar styttuna af Jóni Sigurðssyni er að finna. Og hvað með listaskáldið Jónas? Hvar er hann nú? Einar Ben? Getur einhver nefnt hvar sellóleikarinn hennar Ólafar Pálsdóttur er? Spyrja má um fleiri styttur til að rifja upp hvar þær eru.

Styttur verða nefnilega líka hversdagslegar eins og mannfólkið í borginni sem gengur fram hjá þeim þar sem þær standa í sömu sporum svo áratugum skiptir. En það eru örlög þeirra nema að eitthvað hendi sem veldur því að þær eru færðar til og jafnvel settar í geymslu. Slíkt gerist.

Það eru ekki mörg listaverk í almannarými borgarinnar sem gefa til kynna kristinn bakgrunn Íslendinga. Þó skal bent á Hörpu Hallgríms við Dómkirkjuna sem komið var þar fyrir 1885. Þar er og brjóstmynd af heiðursklerkunum sr. Jóni Vídalín og sr. Bjarna Jónssyni. Nú, sr. Friðrik er á förum úr Lækjargötunni eins og kunnugt er – hann er nú þegar farinn af Valsvellinum. Eina styttan af meistaranum frá Nasaret er Kristsstytta Thorvaldsen í skeifunni hjá gamla duftreitnum fyrir framan Fossvogskirkjudyr. Þá er að geta lítillar styttu af Maríu guðsmóður í láginni fyrir framan Landakotsspítala. Í fljótu bragði er þá sennilega allt upptalið.

Þær eru nokkrar göturnar sem kenndar eru við heiðin goð eins og Þórsgata, Týsgata, Njarðargata, Freyjugata og þannig mætti halda áfram. Þetta eru götur sem byggðust upp við Skólavörðuholtið upp úr aldamótunum 1900. Þegar Grafarholtshverfið var skipulagt fengu margar götur þar nöfn sem minna skyldu á merkisfólk kristinnar trúar. Tilefnið var að sjálfsögðu kristnitökuárið 2000. Þar má til dæmis finna Kristnibraut, Þorláksgeisla, Jónsgeisla og Maríubaug.

Á horni Bíldshöfða og Höfðabakka leynist goðið Þór á horni einu. Það er afar fjölfarin leið í borginni þar sem Höfðabakkinn er umferðarstofnæð sem liggur að Gullinbrú og inn í fjölmennasta hverfi borgarinnar. En þarna í húsaskotinu stendur Þór og fylgist með öllum er fara þessa fjölförnu leið og hljóta Ásatrúarmenn að vera býsna ánægðir með þessa staðsetningu goðsins. Ekki er þó víst að allir taki eftir honum vegna þess að umferðin er þung á þessum slóðum. Þessi stytta vill stundum líka sennilega gleymast þar sem hún er ekki í miðborg Reykjavíkur. Kannski yrði heldur aldrei samþykkt að reisa styttu af heiðnu goði í miðborginni. Goðið er sennilega mest geymt á þessum stað.

En listaverkið af Þór er stílhreint í álham sínum og kröftugt svo sem goðinu sæmir. Brúnir þess eru hvassar og annarri hönd er smeygt á hnakkann en goðið reigir upp höfuð sitt. Í verkinu togast á viss léttleiki og þungi. Nú er stundum álitamál hvað megi lesa úr andlitssvip í listaverkum en hann getur oft verið tvíræðari en í veruleikanum og er þá mikið sagt. Mætti lesa hér úr svip goðsins uppgjöf? Eða er þetta svipur sigurvegarans? Eða svipur nautnar? Nú, kannski er goðið bara að teygja úr sér að morgni dags.

Þó verður að segjast eins og er að nokkuð þröngt er um goðið aflmikla á þessu horni. Þá verður listaverkið ekki skoðað almennilega nema að fara út úr bíl sínum sé fólk akandi. Fátítt er að sjá fólk gangandi á þessum varasömu bílaumferðaslóðum. Þetta eru gatnamót af því tagi sem enginn sér og allir vilja hafa þar sem stysta viðdvöl því að þau eru ófrýnileg og í raun einskis manns land þó svo fólk streymi í verslanir og ýmis fyrirtæki við þau – já og þar leynist líka bensínstöð. Umhverfið er sem sé ekki beint aðlaðandi þó það dragi að sér fólk nauðsynja vegna. En þau sem á annað borð taka eftir þessu listaverki þarna á horninu sjá það í sjónhendingu.

Eitt getur villt fólki sýni í sambandi við þetta verk. Það stendur á horni þar sem hið ágæta fyrirtækið Málmtækni er til húsa sem meðal annars smíðar vörubílspalla. Auðvelt er að halda að þetta gljáandi verk úr áli á horninu sé einfaldlega á vegum þessa fyrirtækis. Sé jafnvel auglýsing fyrir það. Ekki er fráleitt að hugsa sér að þetta sé einhver járnsmiður. Á stöplinum sem verkið rís upp af stendur reyndar skýrum stöfum: Þór og neðst í horninu merki fyrirtækisins Málmtækni, ál, stál, plast. Fyrirtækið á styttuna og hefur sennilega gert þessa afsteypu úr áli af verkinu.

Listaverkið er eftir Hallstein Sigurðsson en hann gaf á sínum tíma Reykjavíkurborg sextán skúlptúra úr áli. Þeir eru flestir á opnu svæði við Gufunes.

Hallsteinn er fæddur í Reykjavík 1945. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann 1963-1966; var við framhaldsnám í London 1966-1972, meðal annars í ST. Martins School of Art. Þá fór hann í nokkrar námsferðir til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hann hefur sýnt mjög víða. Verk eftir hann má meðal annars finna í Reykjavík, Borgarnesi, Húsavík og víðar.

 

 

Fyrir þá lesendur sem eru ekki kunnugir á þessum slóðum – skjáskot: Kirkjublaðið.is

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Listaverkin eru mörg í almannarýminu í Reykjavík. Þau eru misáberandi. Allir vita hvar styttuna af Jóni Sigurðssyni er að finna. Og hvað með listaskáldið Jónas? Hvar er hann nú? Einar Ben? Getur einhver nefnt hvar sellóleikarinn hennar Ólafar Pálsdóttur er? Spyrja má um fleiri styttur til að rifja upp hvar þær eru.

Styttur verða nefnilega líka hversdagslegar eins og mannfólkið í borginni sem gengur fram hjá þeim þar sem þær standa í sömu sporum svo áratugum skiptir. En það eru örlög þeirra nema að eitthvað hendi sem veldur því að þær eru færðar til og jafnvel settar í geymslu. Slíkt gerist.

Það eru ekki mörg listaverk í almannarými borgarinnar sem gefa til kynna kristinn bakgrunn Íslendinga. Þó skal bent á Hörpu Hallgríms við Dómkirkjuna sem komið var þar fyrir 1885. Þar er og brjóstmynd af heiðursklerkunum sr. Jóni Vídalín og sr. Bjarna Jónssyni. Nú, sr. Friðrik er á förum úr Lækjargötunni eins og kunnugt er – hann er nú þegar farinn af Valsvellinum. Eina styttan af meistaranum frá Nasaret er Kristsstytta Thorvaldsen í skeifunni hjá gamla duftreitnum fyrir framan Fossvogskirkjudyr. Þá er að geta lítillar styttu af Maríu guðsmóður í láginni fyrir framan Landakotsspítala. Í fljótu bragði er þá sennilega allt upptalið.

Þær eru nokkrar göturnar sem kenndar eru við heiðin goð eins og Þórsgata, Týsgata, Njarðargata, Freyjugata og þannig mætti halda áfram. Þetta eru götur sem byggðust upp við Skólavörðuholtið upp úr aldamótunum 1900. Þegar Grafarholtshverfið var skipulagt fengu margar götur þar nöfn sem minna skyldu á merkisfólk kristinnar trúar. Tilefnið var að sjálfsögðu kristnitökuárið 2000. Þar má til dæmis finna Kristnibraut, Þorláksgeisla, Jónsgeisla og Maríubaug.

Á horni Bíldshöfða og Höfðabakka leynist goðið Þór á horni einu. Það er afar fjölfarin leið í borginni þar sem Höfðabakkinn er umferðarstofnæð sem liggur að Gullinbrú og inn í fjölmennasta hverfi borgarinnar. En þarna í húsaskotinu stendur Þór og fylgist með öllum er fara þessa fjölförnu leið og hljóta Ásatrúarmenn að vera býsna ánægðir með þessa staðsetningu goðsins. Ekki er þó víst að allir taki eftir honum vegna þess að umferðin er þung á þessum slóðum. Þessi stytta vill stundum líka sennilega gleymast þar sem hún er ekki í miðborg Reykjavíkur. Kannski yrði heldur aldrei samþykkt að reisa styttu af heiðnu goði í miðborginni. Goðið er sennilega mest geymt á þessum stað.

En listaverkið af Þór er stílhreint í álham sínum og kröftugt svo sem goðinu sæmir. Brúnir þess eru hvassar og annarri hönd er smeygt á hnakkann en goðið reigir upp höfuð sitt. Í verkinu togast á viss léttleiki og þungi. Nú er stundum álitamál hvað megi lesa úr andlitssvip í listaverkum en hann getur oft verið tvíræðari en í veruleikanum og er þá mikið sagt. Mætti lesa hér úr svip goðsins uppgjöf? Eða er þetta svipur sigurvegarans? Eða svipur nautnar? Nú, kannski er goðið bara að teygja úr sér að morgni dags.

Þó verður að segjast eins og er að nokkuð þröngt er um goðið aflmikla á þessu horni. Þá verður listaverkið ekki skoðað almennilega nema að fara út úr bíl sínum sé fólk akandi. Fátítt er að sjá fólk gangandi á þessum varasömu bílaumferðaslóðum. Þetta eru gatnamót af því tagi sem enginn sér og allir vilja hafa þar sem stysta viðdvöl því að þau eru ófrýnileg og í raun einskis manns land þó svo fólk streymi í verslanir og ýmis fyrirtæki við þau – já og þar leynist líka bensínstöð. Umhverfið er sem sé ekki beint aðlaðandi þó það dragi að sér fólk nauðsynja vegna. En þau sem á annað borð taka eftir þessu listaverki þarna á horninu sjá það í sjónhendingu.

Eitt getur villt fólki sýni í sambandi við þetta verk. Það stendur á horni þar sem hið ágæta fyrirtækið Málmtækni er til húsa sem meðal annars smíðar vörubílspalla. Auðvelt er að halda að þetta gljáandi verk úr áli á horninu sé einfaldlega á vegum þessa fyrirtækis. Sé jafnvel auglýsing fyrir það. Ekki er fráleitt að hugsa sér að þetta sé einhver járnsmiður. Á stöplinum sem verkið rís upp af stendur reyndar skýrum stöfum: Þór og neðst í horninu merki fyrirtækisins Málmtækni, ál, stál, plast. Fyrirtækið á styttuna og hefur sennilega gert þessa afsteypu úr áli af verkinu.

Listaverkið er eftir Hallstein Sigurðsson en hann gaf á sínum tíma Reykjavíkurborg sextán skúlptúra úr áli. Þeir eru flestir á opnu svæði við Gufunes.

Hallsteinn er fæddur í Reykjavík 1945. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann 1963-1966; var við framhaldsnám í London 1966-1972, meðal annars í ST. Martins School of Art. Þá fór hann í nokkrar námsferðir til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hann hefur sýnt mjög víða. Verk eftir hann má meðal annars finna í Reykjavík, Borgarnesi, Húsavík og víðar.

 

 

Fyrir þá lesendur sem eru ekki kunnugir á þessum slóðum – skjáskot: Kirkjublaðið.is

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir