Hér verður farið nokkrum orðum um verk sem eignað er hollenska endurreisnarmálaranum Geertgen tot Sint Jans (eða: Geertgen van Haarlem) sem fæddist um miðja 15du öld og andaðist í lok hennar.[1] Hann var í framvarðasveit hollenskra málara á síðasta ársfjórðungi 15. aldar og stíll hans er talinn vera þeirra þokkafyllsti.[2] Verkið ber heitið Dýrð guðsmóðurinnar (e. The Glorification of the Virgin) og er frá því um 1490: Olía á viðarspjald – hluti af altaristöflu/dýrlingatöflu/hjaratöflu og stærð þess er 27×21 cm – þetta er vinstri vængur töflunnar[3]. Hægri vængur hefur varðveist og er hann sígild krossfestingarmynd – miðjumyndin er hins vegar glötuð. Málningin hefur sprungið í aldanna rás og eru sprungurnar afar fínlegar.

Sístætt stef í kristinni list

Um er að ræða trúarlegt verk, kristið og tengt Maríudýrkun – norðurevrópskt endurreisnarverk. Mynd af verkinu er tvítekin hér með textanum til þess að lesendur geti skoðað hana betur um leið og henni er lýst. Gott er líka að stækka hana til þess að sjá hinn mikla fjölda tákna sem hún geymir. Hér er að finna góða slóð og skýra þar sem hægt er að stækka myndina og minnka. 

María guðsmóðir kemur fram í myndum þar sem fjallað er um stef er tengjast boðun hennar, fæðingu Jesú, brúðkaupinu í Kana, og krossfestingu Jesú, svo dæmi sé nefnd. María með son sinn í fanginu hefur verið sístætt stef í kristinni list á umliðnum öldum.

Hvað myndbyggingu snertir í umræddri mynd má segja að meðferð lita og rými dragi einhvern dám af býsanskri íkónalist. Stefið er vissulega náskylt algengu myndefni íkónua eðli máls samkvæmt – þó er myndin ekki íkón. Stærð myndar er ekki ósvipuð stærð íkóna almennt enda þótt hún sé sjálfstæður hluti af annarri mynd. Og myndin er máluð á við eins og allir íkónar.

Sveigðar línur eða bogadregnar eru áberandi í verkinu – mjúkar linur. Bent skal á kyrtil Maríu vinstra megin en þar fellur faldur hans ekki lóðrétt niður svo sem vænta mætti heldur sýnist hann nær hreyfður af vindi en svo er ekki heldur er þessi íbogna lína til samræmis við hið síða hár hennar sem fellur eftir baki hennar, bogadregið. Þá er örlitítill sveigur frá vinstri hönd Maríu að hægri hönd Jesúbarnsins. Einnig eru sveigar í fellingum kyrtils hennar ívið fleiri að sjá en láréttir. Hún stendur á sveigðum mána.

Form verksins ber svip af möndlu eða hring en mandla táknar m.a. móðurskaut Maríu.[4] Árur eða geislabaugar streyma frá möndlunni, geislabaugamandla (e. mandorla).[5] Í hringnum er hreyfing ef svo má segja með sem stafar frá iðju englanna.

Í verkinu er ákveðin dýpt – rýnir horfir eins og eftir stuttum gangi þar sem María er við endann, innst er birta og rökkur eftir því sem nær dregur jöðrunum.

Kyrrð og órói í sömu mynd

Þegar verkið er virt fyrir sér vekur það hughrif mýktar og virðingar. Kyrrðar og óróa í senn. Það er kyrrð yfir móðurinni með barnið en umhverfis það er englasvermur. Sumir bera ýmis tákn písla, aðrir eru í helgistellingum eða hlutlausir. Þessir englar eru afar litlir og verður að rýna vel í verkið til að sjá þá. Auk þess sem litur þeirra er daufur en þó ekki eintóna. Þeir eru nokkurs konar umgjörð um hina litríku guðsmóður og Jesúbarnið. Og minna á teiknimyndapersónur enda rými fyrir þá lítið á fletinum sem guðsmóðirin á nánast með öllu.

Óróinn sem verkið vekur eru píslir[6] þær sem barnsins bíða. Ekkert beint sigurtákn kristinnar trúar er að finna í því nema hvað líta mætti á hinar himnesku englasveitir sem slá margvísleg hljóðfæri sem tákn þess – þær syngja frelsaranum lof.

María guðsmóðir heldur á Jesúbarninu, hún virðist sitja og ef ekki þá væri hún afar lágvaxin. Mynd af þessu tagi er sígild, þ.e. af Maríu með sveinbarnið og hefur hina almennu skírskotun að þarna sé hin útvalda móðir með barnið eina í fanginu og því voru búin önnur örlög en allra annarra barna. Þetta er að sönnu helgimynd, mynd fyrir trúaða kaþólikka og orþódoxa til að nota m.a. við bænaiðkun – tímalaus sem slík. Hún nýtur einnig sérstöðu innan lútherskrar kristni, sem móðir Jesú, en ekki dýrlingur enda er þeim ekki fyrir að fara innan þeirrar trúardeildar.

Búið er að krýna Maríu með all hárri kórónu; hún er sveipuð rauðleitum kyrtli, gullbryddingar við hálsmál, og svört innri flík blasir við. Enni hennar er hátt og hvelft, hægri hönd hennar heldur um kvið Jesúbarnsins en sú vinstri heldur undir fót og læri barnsins. María stendur á íbjúgri gulleitri undirstöðu og undir er dreki. Næst henni er gullin birta, dýrðaljómi, svo þrefaldur hringur með englum sem hafa margt fyrir stafni.

Ráðandi litir eru mildir, þ.e. rauður, gylltur (gulur), brúnir, og grænleitir til jaðranna og fer út í alldökkt. Svartur litur er á innri flík hennar og svarti litur drekans er íofinn ögn brúnleitum lit.

Þetta verk er í hópi hins mikla fjölda listaverka þar sem Maríu guðsmóður er sungið lof.[7] Hún er æðst dýrlinga. En hún er ekki ein, umhverfis hana og Jesúbarnið, er fjöldi himneskra hersveita eins og á Betlehemsvöllum forðum daga. Þeir lofa hana og syngja henni óð en jafnframt segja sumir þeirra með táknum píslarsögu Jesúbarnsins þegar það óx úr grasi. Verkið er hluti af dýrlingatöflu/hjaratöflu og eini hluti hennar sem hefur varðveist.

Nánari athugun á verkinu

Miðja verksins er María guðsmóðir[8] sem heldur á hinum unga guðlega sveini í fanginu. Svipur hennar er umhyggjusamur og staðfastur. Hún tekur svo að segja upp allan myndflötinn í rauðum kyrtli sínum sem furðu fáir skuggar sækja að. Í innri hring má með góðum vilja draga upp þríhyrning sem hún situr í en annars er formið íbjúgt. Jesúbarnið heldur á tveimur bjöllum og vinstri höndin hringlar annarri þeirra. Fingur hennar eru óvenju langir, sérstaklega þumall hægri handar. Drengurinn Jesús er ögn búlduleitur líkt og móðirin og hægri handleggur all þykkur, ekki munur á þykkt fyrir ofan og neðan olnboga. Segja mætti að hann sé burstaklipptur eða hár bara svona snöggt. Munnur sem strik – og vinstra auga sjónarmun stærra en hið hægra – og það vinstri virðist horfa í auga rýnisins. Enni móður hans er afar hátt og augu hennar horfa niður á við vísa til hógværðar og auðmýktar hennar. Hár hennar er sítt og skolhært, mjúkliðað. Hárstæði nemur nánast við hvíta og rauða kórónugjörðina sem sýnist vera gerð úr hringlaga efni, kannski snúnum kaðli eða efni, hertu taui, skeljum eða tölum. Kórónan minnir á blómakrans, fínleg, hvítleit blóm og sexarma (hexagram) stjörnur – sú stjarna er tákn Gyðingdóms og kallast Davíðsstjarna. Sannarlega var Jesús gyðingur og ættir hans lágu til Davíðs konungs. Þessi stjarna er líka kölluð Betlehemsstjarnan.

Englasveimur næst guðsmóðurinni er athyglisverður en klæði þeirra fá mestan ljóma frá henni. Tveir efstu englarnir virðast halda við kórónuna en þeir gætu líka verið að krýna hana. Aðrir englar í þessum hring eru ýmist með hendur í bænastellingu, eða uppréttar, og þá niður með síðu og sumar ögn réttar upp þar frá. Svipur þeirra er mismunandi, sumir eru opinmynntir og aðrir ekki. Sá við hægri hönd Jesúbarnsins, við hringluna er ögn fýldur.

Önnur englaröðin ber ýmis tákn píslarsögunnar. Á klæði þeirra slær rauðum bjarma sem minnir á píslir. Efst yfir höfði Maríu eru tveir englar sem halda á helgigöngufána sem á stendur: krans. Farið er réttsælis, frá vinstri til hægri. Annar engill sem heldur á helgifána með áletruninni krans – kransinn er talinn vísa til rósakransins (talnabandsins).[9] Þá engill með uppréttar hendur eins og hann sé að segja eitthvað. Næsti engill heldur á krossi, annar þar fyrir neðan virðist halda á njarðarvetti vættan ediki, og sá sem er undir höfði drekans heldur á þyrnikórónu. Síðan kemur engill með nagla og hamar, þá engill sem heldur á langri stöng (gæti líka verið á henni njarðarvöttur vættur ediki), því næst engill sem heldur á súlu (staur). Þessir hlutir eru notaðir í kristinni táknfræði og list, kallast vopn Krists (lat. arma Christi) eða tól þjáningarinnar[10] vegna þess að með þeim fékkst sigur yfir hinu illa. Þá er næst engill með uppréttar hendur og virðist mikið niðri fyrir. Loks engill sem heldur á fána með áletrun eins og þeir efstu sem haldan saman utan um fánann og svo hinn öndvert honum. Svipur þessara engla er mjög líkur, fremur hlutlaus.

Ysti englasveimurinn er hin himneska hljómsveit ef svo má segja – þar hefur hver engill sitt hljóðfæri. Lúðrar (dómsdagstákn), bjöllur, gígjur,lútur, slagverk, trommur, harpa og þríhorn. Búningur flestra englanna í þessum hring er gráleitur og svartur við ysta jaðar rammans.

Enginn aðskilnaður er milli Maríu og englasvermsins, frjálst flæði er þar á milli.

Fætur Maríu hvíla á all langri gulleitri bogamyndaðri undirstöðu og fellur kyrtill hennar um hana á tveimur stöðum. Dreki hringar sig um bogann, vígtenntur kjaftur hans er opinn og rauð eiturtunga leitar upp á klæðafald Maríu. Mjósleginn hali drekans en þó sterklegur sveiflast upp – þá sér í klær hans.

Verkið styðst við 12. kafla Opinberunarbókar Jóhannesar, versin 1-18.[11] Þau minni sem höfundur tekur úr frásögn Opinberunarbókarinnar eru: kona klædd sólinni, tungl og kóróna af tólf stjörnum (v.1), dreki (v.3), hali v. (4), sveinbjarn (v. 5), höggormur (dreki) (v. 15).

Boðskapur listaverksins og niðurstaða

Segja má að verkið sé geirneglt þegar innbyrðis tengsl þess eru skoðuð í þessum hluta verksins sem hefur varðveist – en hluti af því hefur glatast. Miðpunktur þess (nánast sem sól) er María, guðsmóðir, og Jesúbarnið. Allt hverfist um þau; barnið guðlega og mennska, móðurina sem ber harm sinn í hljóði vitandi um píslarvættið sem bíður. Birtan kemur út úr myndinni svo að segja, undirstaða hennar er mánalöguð fótafjöl og drekinn þar undir virðist mega sín lítils þó ekki sé hann frýnilegur. Englasveipurinn sem myndar fyrstu áruna lofsyngur meyna og slær skjaldborg um hana. Næsti sveipur engla segir hvað bíður sveinbarnsins sem hvílir öruggt í faðmi móður sinnar, það eru píslarstef: krossfesting, naglar (voru reyndar ekki notaðir heldur kaðlar), hamar, staur (frelsarinn var bundinn við staur og hann húðstrýktur, sbr. Matteusarguðspjall 27.26), þyrnikóróna (27.29) til háðungar, njarðarvöttur með ediki (27.48) og sömuleiðis stöng sem gæti verið af sömu ætt og sú síðarnefnda. Píslarstefið er ákveðinn kjarni í lífi Jesúbarnsins þá það komst á fullorðinsár: píslardauðinn var fórnardauði og til frelsunar samkvæmt guðfræði miðaldakirkjunnar. Þetta hjálpræðisverk (e. salvation/þ. Heilgechichte) er lofað og prísað á himni og jörðu (af kirkjunni) og himneskum herskara og notar hann þar hljóðfæri sín í því skyni.

Boðskapur verksins er sá að himnamóðirin (María, sú sem fæðir Guð í heiminn (titill sem hún ber: gr. theotokos), færir jörðinni son sinn, fæðir Guðs son) inn í heiminn, sem gengur mót þjáningu heimsins, gefur líf sitt og rís upp. Það er mildi og kærleikur. Drekinn, höggormurinn, er vanmáttugur, og vísar hann til aldingarðsins Eden, þar sem Adam og Evu, gengu um forðum daga.[12] Höggormurinn spillti þeirri vist og þau voru gerð brottræk úr garðinum fræga. Hjálpræðissaga gengur út frá því að með krossdauða sínum hafi Jesús Kristur reist manninn við – og Jesús sé hinn nýi Adam – hinn gamli Adam er allur.[13] Dýrðarmynd af Maríu undirstrikar það – hún er drottning himnanna sú sem ól son Guðs – þann sem var Guð og maður í senn samkvæmt kristinni trú.[14]

Þegar allir þræðir eru dregnir saman er niðurstaðan þessi:

Verkið er hluti af altaristöflu, helgimynd, tilbeiðslumynd, nátengd Maríudýrkun. Hún er sígild og höfðar sem slík enn til trúaðs fólks þar sem dýrlingar skipta máli. Myndin er líka uppfræðsla um píslarsögu meistarans frá Nasaret. Máluð á við og málningin er öll smásprungin. Stef myndarinnar er guðsmóðirin með soninn eina, frelsarann, og hann nýtur verndar í fangi hennar en jafnframt bíða hans píslir og dauði fyrir utan dýrðarhringinn sem er umhverfis móðurina og hann. Þá er þess að geta að verkið vísar til 12. kafla Opinberunarbókar Jóhannesar, vers 1-12, en svo virðist sem höfundur nýti sér fáein tákn sem þar koma fram og áður er getið um.

Tilvísanir

[1] Zaczek, Iain, Die Geschichte der Kunst – eine Chronologie der westlichen Kunst von der Steinzeit bis Heute,  105 – og:  https://www.britannica.com/biography/Geertgen-tot-Sint-Jans Sótt 28. desember 2023. – Höfundur verksins er einnig kunnur sem Geertgen van Haarlem (og notaðist reyndar við fleiri nöfn.

[2] Turner, Jane (ritstj.), The Dicitonary of Art, 12, Gairard to Goodhue, 230-232.

[3]https://rkd.nl/en/explore/images/119812 Sótt 6. október 2023.

[4] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, 56.

[5] Ferguson, George, Signs & Symbols in Christian Art, 148.

[6] Biblían – heilög Ritning: Sígilda samandregna píslarsögu Krists má lesa í Matteusarguðspjalli, köflum 26-27.

[7] Sjá um Maríudýrkun: Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði, 218-219.

[8] Biblian – heilög Ritning: Um Maríu: Lúkasarguðspjall: Boðun Maríu: 1.26-38; og lofsöngur Maríu: 1.46-55. Matteusarguðspjall 1.18-2.23, og svo hin sígilda frásögn (jólaguðspjallið) í Lúkasarguðspjalli 2.1-20.

[9] Turner, Jane (ritstj.), The Dicitonary of Art, 12, Gairard to Goodhue, 232.

[10] J.C.J. Metford, Dictionary of Christian Lore and Legends, 34

[11] Biblían – heilög Ritning.

[12] Biblían – heilög Ritning: Saga Adams og Evu er táknsaga og hana má lesa í 1. Mósebók 3.1-23, Biblían 2007.

[13] Sjá Rómverjabréfið 5.12-6.14  og I. Korintubréf 15.45 – Biblían – heilög Ritning.

[14]Svo orðað í Níkeujátningunni frá 325: „Vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni, klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu meyju og gjörðist maður.“ Handbók íslensku kirkjunnar, 21.

Heimildaskrá

Biblían – heilög Ritning. Reykjavík: JPV-útgáfa, 2007.

Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan-Guðfræðistofnun, 1989.

Turner, Jane (ritstj.), The Dictionary of Art, 12, Gairard to Goodhue. London: Macmillan Publishers Limited,1998.

Ferguson, George, Signs & Symbols in Christian Art. Oxford, Eng.: Oxford University Press, 1976.

Handbók íslensku kirkjunnar, Reykjavík: Kirkjuráð, 1981.

J.C.J. Metford, Dictonary of Christian Lore and Legends. London, Eng.: Thames and Hudson, 1983

Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar. Reykjavík: Skálholtsútgáfan,1993.

Zaczek, Iain, Die Geschichte der Kunst – eine Chronologie der westlichen Kunst von der Steinzeit bis Heute. Kerdriel: Librero, 2019.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Hér verður farið nokkrum orðum um verk sem eignað er hollenska endurreisnarmálaranum Geertgen tot Sint Jans (eða: Geertgen van Haarlem) sem fæddist um miðja 15du öld og andaðist í lok hennar.[1] Hann var í framvarðasveit hollenskra málara á síðasta ársfjórðungi 15. aldar og stíll hans er talinn vera þeirra þokkafyllsti.[2] Verkið ber heitið Dýrð guðsmóðurinnar (e. The Glorification of the Virgin) og er frá því um 1490: Olía á viðarspjald – hluti af altaristöflu/dýrlingatöflu/hjaratöflu og stærð þess er 27×21 cm – þetta er vinstri vængur töflunnar[3]. Hægri vængur hefur varðveist og er hann sígild krossfestingarmynd – miðjumyndin er hins vegar glötuð. Málningin hefur sprungið í aldanna rás og eru sprungurnar afar fínlegar.

Sístætt stef í kristinni list

Um er að ræða trúarlegt verk, kristið og tengt Maríudýrkun – norðurevrópskt endurreisnarverk. Mynd af verkinu er tvítekin hér með textanum til þess að lesendur geti skoðað hana betur um leið og henni er lýst. Gott er líka að stækka hana til þess að sjá hinn mikla fjölda tákna sem hún geymir. Hér er að finna góða slóð og skýra þar sem hægt er að stækka myndina og minnka. 

María guðsmóðir kemur fram í myndum þar sem fjallað er um stef er tengjast boðun hennar, fæðingu Jesú, brúðkaupinu í Kana, og krossfestingu Jesú, svo dæmi sé nefnd. María með son sinn í fanginu hefur verið sístætt stef í kristinni list á umliðnum öldum.

Hvað myndbyggingu snertir í umræddri mynd má segja að meðferð lita og rými dragi einhvern dám af býsanskri íkónalist. Stefið er vissulega náskylt algengu myndefni íkónua eðli máls samkvæmt – þó er myndin ekki íkón. Stærð myndar er ekki ósvipuð stærð íkóna almennt enda þótt hún sé sjálfstæður hluti af annarri mynd. Og myndin er máluð á við eins og allir íkónar.

Sveigðar línur eða bogadregnar eru áberandi í verkinu – mjúkar linur. Bent skal á kyrtil Maríu vinstra megin en þar fellur faldur hans ekki lóðrétt niður svo sem vænta mætti heldur sýnist hann nær hreyfður af vindi en svo er ekki heldur er þessi íbogna lína til samræmis við hið síða hár hennar sem fellur eftir baki hennar, bogadregið. Þá er örlitítill sveigur frá vinstri hönd Maríu að hægri hönd Jesúbarnsins. Einnig eru sveigar í fellingum kyrtils hennar ívið fleiri að sjá en láréttir. Hún stendur á sveigðum mána.

Form verksins ber svip af möndlu eða hring en mandla táknar m.a. móðurskaut Maríu.[4] Árur eða geislabaugar streyma frá möndlunni, geislabaugamandla (e. mandorla).[5] Í hringnum er hreyfing ef svo má segja með sem stafar frá iðju englanna.

Í verkinu er ákveðin dýpt – rýnir horfir eins og eftir stuttum gangi þar sem María er við endann, innst er birta og rökkur eftir því sem nær dregur jöðrunum.

Kyrrð og órói í sömu mynd

Þegar verkið er virt fyrir sér vekur það hughrif mýktar og virðingar. Kyrrðar og óróa í senn. Það er kyrrð yfir móðurinni með barnið en umhverfis það er englasvermur. Sumir bera ýmis tákn písla, aðrir eru í helgistellingum eða hlutlausir. Þessir englar eru afar litlir og verður að rýna vel í verkið til að sjá þá. Auk þess sem litur þeirra er daufur en þó ekki eintóna. Þeir eru nokkurs konar umgjörð um hina litríku guðsmóður og Jesúbarnið. Og minna á teiknimyndapersónur enda rými fyrir þá lítið á fletinum sem guðsmóðirin á nánast með öllu.

Óróinn sem verkið vekur eru píslir[6] þær sem barnsins bíða. Ekkert beint sigurtákn kristinnar trúar er að finna í því nema hvað líta mætti á hinar himnesku englasveitir sem slá margvísleg hljóðfæri sem tákn þess – þær syngja frelsaranum lof.

María guðsmóðir heldur á Jesúbarninu, hún virðist sitja og ef ekki þá væri hún afar lágvaxin. Mynd af þessu tagi er sígild, þ.e. af Maríu með sveinbarnið og hefur hina almennu skírskotun að þarna sé hin útvalda móðir með barnið eina í fanginu og því voru búin önnur örlög en allra annarra barna. Þetta er að sönnu helgimynd, mynd fyrir trúaða kaþólikka og orþódoxa til að nota m.a. við bænaiðkun – tímalaus sem slík. Hún nýtur einnig sérstöðu innan lútherskrar kristni, sem móðir Jesú, en ekki dýrlingur enda er þeim ekki fyrir að fara innan þeirrar trúardeildar.

Búið er að krýna Maríu með all hárri kórónu; hún er sveipuð rauðleitum kyrtli, gullbryddingar við hálsmál, og svört innri flík blasir við. Enni hennar er hátt og hvelft, hægri hönd hennar heldur um kvið Jesúbarnsins en sú vinstri heldur undir fót og læri barnsins. María stendur á íbjúgri gulleitri undirstöðu og undir er dreki. Næst henni er gullin birta, dýrðaljómi, svo þrefaldur hringur með englum sem hafa margt fyrir stafni.

Ráðandi litir eru mildir, þ.e. rauður, gylltur (gulur), brúnir, og grænleitir til jaðranna og fer út í alldökkt. Svartur litur er á innri flík hennar og svarti litur drekans er íofinn ögn brúnleitum lit.

Þetta verk er í hópi hins mikla fjölda listaverka þar sem Maríu guðsmóður er sungið lof.[7] Hún er æðst dýrlinga. En hún er ekki ein, umhverfis hana og Jesúbarnið, er fjöldi himneskra hersveita eins og á Betlehemsvöllum forðum daga. Þeir lofa hana og syngja henni óð en jafnframt segja sumir þeirra með táknum píslarsögu Jesúbarnsins þegar það óx úr grasi. Verkið er hluti af dýrlingatöflu/hjaratöflu og eini hluti hennar sem hefur varðveist.

Nánari athugun á verkinu

Miðja verksins er María guðsmóðir[8] sem heldur á hinum unga guðlega sveini í fanginu. Svipur hennar er umhyggjusamur og staðfastur. Hún tekur svo að segja upp allan myndflötinn í rauðum kyrtli sínum sem furðu fáir skuggar sækja að. Í innri hring má með góðum vilja draga upp þríhyrning sem hún situr í en annars er formið íbjúgt. Jesúbarnið heldur á tveimur bjöllum og vinstri höndin hringlar annarri þeirra. Fingur hennar eru óvenju langir, sérstaklega þumall hægri handar. Drengurinn Jesús er ögn búlduleitur líkt og móðirin og hægri handleggur all þykkur, ekki munur á þykkt fyrir ofan og neðan olnboga. Segja mætti að hann sé burstaklipptur eða hár bara svona snöggt. Munnur sem strik – og vinstra auga sjónarmun stærra en hið hægra – og það vinstri virðist horfa í auga rýnisins. Enni móður hans er afar hátt og augu hennar horfa niður á við vísa til hógværðar og auðmýktar hennar. Hár hennar er sítt og skolhært, mjúkliðað. Hárstæði nemur nánast við hvíta og rauða kórónugjörðina sem sýnist vera gerð úr hringlaga efni, kannski snúnum kaðli eða efni, hertu taui, skeljum eða tölum. Kórónan minnir á blómakrans, fínleg, hvítleit blóm og sexarma (hexagram) stjörnur – sú stjarna er tákn Gyðingdóms og kallast Davíðsstjarna. Sannarlega var Jesús gyðingur og ættir hans lágu til Davíðs konungs. Þessi stjarna er líka kölluð Betlehemsstjarnan.

Englasveimur næst guðsmóðurinni er athyglisverður en klæði þeirra fá mestan ljóma frá henni. Tveir efstu englarnir virðast halda við kórónuna en þeir gætu líka verið að krýna hana. Aðrir englar í þessum hring eru ýmist með hendur í bænastellingu, eða uppréttar, og þá niður með síðu og sumar ögn réttar upp þar frá. Svipur þeirra er mismunandi, sumir eru opinmynntir og aðrir ekki. Sá við hægri hönd Jesúbarnsins, við hringluna er ögn fýldur.

Önnur englaröðin ber ýmis tákn píslarsögunnar. Á klæði þeirra slær rauðum bjarma sem minnir á píslir. Efst yfir höfði Maríu eru tveir englar sem halda á helgigöngufána sem á stendur: krans. Farið er réttsælis, frá vinstri til hægri. Annar engill sem heldur á helgifána með áletruninni krans – kransinn er talinn vísa til rósakransins (talnabandsins).[9] Þá engill með uppréttar hendur eins og hann sé að segja eitthvað. Næsti engill heldur á krossi, annar þar fyrir neðan virðist halda á njarðarvetti vættan ediki, og sá sem er undir höfði drekans heldur á þyrnikórónu. Síðan kemur engill með nagla og hamar, þá engill sem heldur á langri stöng (gæti líka verið á henni njarðarvöttur vættur ediki), því næst engill sem heldur á súlu (staur). Þessir hlutir eru notaðir í kristinni táknfræði og list, kallast vopn Krists (lat. arma Christi) eða tól þjáningarinnar[10] vegna þess að með þeim fékkst sigur yfir hinu illa. Þá er næst engill með uppréttar hendur og virðist mikið niðri fyrir. Loks engill sem heldur á fána með áletrun eins og þeir efstu sem haldan saman utan um fánann og svo hinn öndvert honum. Svipur þessara engla er mjög líkur, fremur hlutlaus.

Ysti englasveimurinn er hin himneska hljómsveit ef svo má segja – þar hefur hver engill sitt hljóðfæri. Lúðrar (dómsdagstákn), bjöllur, gígjur,lútur, slagverk, trommur, harpa og þríhorn. Búningur flestra englanna í þessum hring er gráleitur og svartur við ysta jaðar rammans.

Enginn aðskilnaður er milli Maríu og englasvermsins, frjálst flæði er þar á milli.

Fætur Maríu hvíla á all langri gulleitri bogamyndaðri undirstöðu og fellur kyrtill hennar um hana á tveimur stöðum. Dreki hringar sig um bogann, vígtenntur kjaftur hans er opinn og rauð eiturtunga leitar upp á klæðafald Maríu. Mjósleginn hali drekans en þó sterklegur sveiflast upp – þá sér í klær hans.

Verkið styðst við 12. kafla Opinberunarbókar Jóhannesar, versin 1-18.[11] Þau minni sem höfundur tekur úr frásögn Opinberunarbókarinnar eru: kona klædd sólinni, tungl og kóróna af tólf stjörnum (v.1), dreki (v.3), hali v. (4), sveinbjarn (v. 5), höggormur (dreki) (v. 15).

Boðskapur listaverksins og niðurstaða

Segja má að verkið sé geirneglt þegar innbyrðis tengsl þess eru skoðuð í þessum hluta verksins sem hefur varðveist – en hluti af því hefur glatast. Miðpunktur þess (nánast sem sól) er María, guðsmóðir, og Jesúbarnið. Allt hverfist um þau; barnið guðlega og mennska, móðurina sem ber harm sinn í hljóði vitandi um píslarvættið sem bíður. Birtan kemur út úr myndinni svo að segja, undirstaða hennar er mánalöguð fótafjöl og drekinn þar undir virðist mega sín lítils þó ekki sé hann frýnilegur. Englasveipurinn sem myndar fyrstu áruna lofsyngur meyna og slær skjaldborg um hana. Næsti sveipur engla segir hvað bíður sveinbarnsins sem hvílir öruggt í faðmi móður sinnar, það eru píslarstef: krossfesting, naglar (voru reyndar ekki notaðir heldur kaðlar), hamar, staur (frelsarinn var bundinn við staur og hann húðstrýktur, sbr. Matteusarguðspjall 27.26), þyrnikóróna (27.29) til háðungar, njarðarvöttur með ediki (27.48) og sömuleiðis stöng sem gæti verið af sömu ætt og sú síðarnefnda. Píslarstefið er ákveðinn kjarni í lífi Jesúbarnsins þá það komst á fullorðinsár: píslardauðinn var fórnardauði og til frelsunar samkvæmt guðfræði miðaldakirkjunnar. Þetta hjálpræðisverk (e. salvation/þ. Heilgechichte) er lofað og prísað á himni og jörðu (af kirkjunni) og himneskum herskara og notar hann þar hljóðfæri sín í því skyni.

Boðskapur verksins er sá að himnamóðirin (María, sú sem fæðir Guð í heiminn (titill sem hún ber: gr. theotokos), færir jörðinni son sinn, fæðir Guðs son) inn í heiminn, sem gengur mót þjáningu heimsins, gefur líf sitt og rís upp. Það er mildi og kærleikur. Drekinn, höggormurinn, er vanmáttugur, og vísar hann til aldingarðsins Eden, þar sem Adam og Evu, gengu um forðum daga.[12] Höggormurinn spillti þeirri vist og þau voru gerð brottræk úr garðinum fræga. Hjálpræðissaga gengur út frá því að með krossdauða sínum hafi Jesús Kristur reist manninn við – og Jesús sé hinn nýi Adam – hinn gamli Adam er allur.[13] Dýrðarmynd af Maríu undirstrikar það – hún er drottning himnanna sú sem ól son Guðs – þann sem var Guð og maður í senn samkvæmt kristinni trú.[14]

Þegar allir þræðir eru dregnir saman er niðurstaðan þessi:

Verkið er hluti af altaristöflu, helgimynd, tilbeiðslumynd, nátengd Maríudýrkun. Hún er sígild og höfðar sem slík enn til trúaðs fólks þar sem dýrlingar skipta máli. Myndin er líka uppfræðsla um píslarsögu meistarans frá Nasaret. Máluð á við og málningin er öll smásprungin. Stef myndarinnar er guðsmóðirin með soninn eina, frelsarann, og hann nýtur verndar í fangi hennar en jafnframt bíða hans píslir og dauði fyrir utan dýrðarhringinn sem er umhverfis móðurina og hann. Þá er þess að geta að verkið vísar til 12. kafla Opinberunarbókar Jóhannesar, vers 1-12, en svo virðist sem höfundur nýti sér fáein tákn sem þar koma fram og áður er getið um.

Tilvísanir

[1] Zaczek, Iain, Die Geschichte der Kunst – eine Chronologie der westlichen Kunst von der Steinzeit bis Heute,  105 – og:  https://www.britannica.com/biography/Geertgen-tot-Sint-Jans Sótt 28. desember 2023. – Höfundur verksins er einnig kunnur sem Geertgen van Haarlem (og notaðist reyndar við fleiri nöfn.

[2] Turner, Jane (ritstj.), The Dicitonary of Art, 12, Gairard to Goodhue, 230-232.

[3]https://rkd.nl/en/explore/images/119812 Sótt 6. október 2023.

[4] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar, 56.

[5] Ferguson, George, Signs & Symbols in Christian Art, 148.

[6] Biblían – heilög Ritning: Sígilda samandregna píslarsögu Krists má lesa í Matteusarguðspjalli, köflum 26-27.

[7] Sjá um Maríudýrkun: Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði, 218-219.

[8] Biblian – heilög Ritning: Um Maríu: Lúkasarguðspjall: Boðun Maríu: 1.26-38; og lofsöngur Maríu: 1.46-55. Matteusarguðspjall 1.18-2.23, og svo hin sígilda frásögn (jólaguðspjallið) í Lúkasarguðspjalli 2.1-20.

[9] Turner, Jane (ritstj.), The Dicitonary of Art, 12, Gairard to Goodhue, 232.

[10] J.C.J. Metford, Dictionary of Christian Lore and Legends, 34

[11] Biblían – heilög Ritning.

[12] Biblían – heilög Ritning: Saga Adams og Evu er táknsaga og hana má lesa í 1. Mósebók 3.1-23, Biblían 2007.

[13] Sjá Rómverjabréfið 5.12-6.14  og I. Korintubréf 15.45 – Biblían – heilög Ritning.

[14]Svo orðað í Níkeujátningunni frá 325: „Vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni, klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu meyju og gjörðist maður.“ Handbók íslensku kirkjunnar, 21.

Heimildaskrá

Biblían – heilög Ritning. Reykjavík: JPV-útgáfa, 2007.

Einar Sigurbjörnsson, Credo, kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan-Guðfræðistofnun, 1989.

Turner, Jane (ritstj.), The Dictionary of Art, 12, Gairard to Goodhue. London: Macmillan Publishers Limited,1998.

Ferguson, George, Signs & Symbols in Christian Art. Oxford, Eng.: Oxford University Press, 1976.

Handbók íslensku kirkjunnar, Reykjavík: Kirkjuráð, 1981.

J.C.J. Metford, Dictonary of Christian Lore and Legends. London, Eng.: Thames and Hudson, 1983

Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar. Reykjavík: Skálholtsútgáfan,1993.

Zaczek, Iain, Die Geschichte der Kunst – eine Chronologie der westlichen Kunst von der Steinzeit bis Heute. Kerdriel: Librero, 2019.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir