Altaristaflan í Herderkirkjunni

Lucas Cranach eldri (1472-1553) málaði þessa mynd sem hér verður fjallað um. Um er að ræða olíuverk á við, stærð 370×309 og er að finna í Herderkirkju í þýsku borginni Weimar. Talið er að sonur hans, Lucas Cranach yngri, hafi lokið við myndina 1555.

Hér verður fjallað um töfluna þegar hún er opin, sem sé ekki myndir að framanverðu þegar henni er lokað sem sýna skírn Krists og upprisu; og ekki heldur hina miklu skreytingu sem er ofan á henni.

Lucas Cranach eldri myndi flokkast sem há-endurreisnarmaður.

Cranach var ekki aðeins málari heldur og apótekari og bjó í Wittenberg þar sem siðbót Marteins Lúthers hófst 1517. Friðrik vitri kjörfursti bjó einnig í Wittenberg og hann gerði Cranach að hirðmálara sínum 1503. Hann komst til mikilla áhrifa innan hirðarinnar sem og í Wittenberg. Þjónaði Friðriki vitra til dauðadags sem og tveimur eftirmönnum hans.

Búseta Cranach í Wittenberg olli því að hann var staddur í hringiðu þeirra sögulegu atburða sem þar hófust og áttu eftir að hafa víðtæk áhrif í sögu Evrópu.

Marteinn Lúther (1483-1546) og Cranach vor ætíð hinir mestu mátar og mikil tengsl á milli þeirra sem og við Friðrik vitra kjörfursta. Þeir voru stuðningsmenn Lúthers.

Cranach gerði urmul af myndum er tengdust atburðum siðbótar og myndir af siðbótarmanninum Lúther. Í myndum sínum leitaðist hann við að koma til skila túlkunum Lúthers á atburðum líðandi, skoðunum hans í fræðum og menningu. Gagnrýni á páfa og kaþólska kirkju.[1]

Cranach auðgaðist vel og veðjaði á réttan stað þegar hann flutti frá Vínarborg Habsborgaranna og til Wittenberg sem var deigla samtímans með endurreisnarfurstann Friðrik hinn vitra í fararbroddi sem hafði hugmyndir um að endurbæta borgina í anda ítalskra borga endurreisnarinnar svo hún stæðist Róm og Genf á sporði.[2]

Meginefni þessarar altaristöflu er krossfestingin og árétting þess að siðbótarmenn hafi réttan málstað að verja með tilvísunum til Gamla testamentisins og eigin túlkunar – þar eru tákn sem íkónóngrafísk greining dregur fram. Segja má að sitt hvoru megin séu stúkusæti þar sem frómar og áhrifamiklar siðbótarpersónur sitja og fylgjast með atburðum á Golgatahæð sem búið að var færa um set og líklega til siðbótarborgarinnar Wittenberg. Í vinstri vængnum má sjá Jóhann Friðrik I., kjörfursta og konu hans, og á hægri vængnum eru þrír synir þeirra er upp komust.[3] Þau kostuðu verkið og standa sem tákn fyrir málstaðinn sem verkið á að flytja og þá sem eru í forsvari fyrir hann.

Íkónógrafísk greining á myndinni sækir í alla þá ritningartexta sem greina frá píslum Jesú frá Nasaret. Sömuleiðis í texta Gamla testamentisins sem atburðir baksviðs í myndinni sýna. Að sönnu tekur Jesús miðju myndflatarins og er líkami hans frá lendum ofar þeim atburðum sem eru baksviðs. Þar eru myndir með stefjum úr Ritningunni, eirormur á stöng við tjaldbúðir, en ormurinn var líftákn, hver sem leit á hann hélt lífi[4] og segja má að þar sé tilvísun til Jesú á krossinum: þau sem líta hann augum lifa. Þá eru hirðar uppi á hæð og fé, engill, augljóslega Betlehemsvellir (Lúkasarguðspjall)[5] maður á hlaupum, lítill hópur manna með leirtöflur, og síðan þrír menn við krossinn hægra megin. Og svo maður vinstra megin.

Á þessari altaristöflu er Jesús Kristur festur á kross sem líkist einna helst svo kölluðum T-krossi en í kristinni list eru það oft ræningjarnir tveir er krossfestir voru með Jesú sem hanga á slíkum krossum en Jesús á latneskum.[6] Fyrir ofan höfuð hans er hin sígilda skammstafaða áletrun INRI á latínu: Iesus Nazarenus Rex Iudorum=Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga.[7] Það vekur athygli að flái er tekinn úr þvertré krossins beggja megin og fyrir miðju.

Enda þótt stef myndarinnar sé hefðbundið þá er hún ólík öðrum krossfestingarmyndum fyrir þær sakir að við krossinn er ekki að sjá Maríu, guðsmóður, eða Jóhannes, lærisveininn sem Jesús elskaði. Aðrir hafa tekið sviðið og kannski ekki fyrir tilviljun.

Þótt myndin af Jesú á krossinum sé að mestu hefðbundin er tvennt sem vekur þó athygli og sker sig úr frá öðrum krossfestingarmyndum. Annars vegar eru það lendaklæði hans sem sem sveiflast mjúklega til sitt hvorrar áttar og hins vegar er það blóðstreymið úr síðusárinu, blóðið rennur niður sem er hið algenga en hið óvenjulega er blóðið sem spýtist í boga á höfuð eins mannsins sem stendur hægra megin og kippir sér ekki upp við það. Sá maður er listamaðurinn Lucas Cranach eldri sem gerði altaristöfluna en lést án þess að ljúka við hana. Sonur hans og nafni, Lucas Cranach (1515-1589) rak smiðshöggið á hana og setti mjög líklega föður sinn á þennan heiðursstað með hendur í frómri bænastellingu.[8] Sonur hans var og harður fylgismaður siðbótarhreyfingarinnar.

Blóðið er myndrænt tákn í lúthersk-kristinni kenningu um hreinsun, syndahreinsun. Gagnstætt kenningu kaþólsku kirkjunnar sem kvað á um að menn gætu hlotið hjálpræði fyrir fé og verk, keypt sig frá syndum (sbr. aflátsbréfasölu kirkjunnar) þá lagði Lúther áherslu á að maðurinn yrði aðeins réttlættur í augum Guðs fyrir trúna á Krist – fyrir náð. Við má bæta að túlka megi þetta svo að listamaðurinn sé þveginn blóði lambsins.[9] Lambið sem tákn vísar til hins krossfesta.

Vinstra megin við Cranach er Jóhannes skírari og hægra megin siðbótarfrömuðurinn Marteinn Lúther og styður fingri á ritningarstað með öruggum svip. Jóhannes skírari bendir upp til hins krossfesta en hann virðist horfa á Cranach og Lúther án þess að ná augnsambandi því þeir horfa í aðra átt, sá fyrrnefndi til áhorfandans og Lúthers til krossins. En vinstri hönd skírarans bendir á lambið sem er fremst í myndinni, lamb Guðs sem ber heimsins syndir – Kriststákn.[10] Lambið heldur á sigurfána. Hver þeirra ber klæði sem hæfir tíma, stétt og hlutverki. Lúther í kufli menntamanna þess tíma, Cranach í dýrum klæðum enda auðugur mjög, og undir rauðri skikkju Jóhannesar sér í klæði úr úlfaldahári.[11] Vinstra megin við krossinn – og það er óvenjulegt að á krossfestingarmynd séu tvær myndir af Jesús – en þar hann kominn og að baki hans opin gröfin. Hér er hann sem sé bæði krossfestur og upprisinn. Frelsarinn horfist í augu við myndrýninn all yfirvegaður á svip sem er ólíkur hryggðarandliti hans á krossinum. Hann er í rauðri skikkju, stendur með vinstri fót á öxl dreka sem heldur að sjá traustu taki um spjót sem Jesús hefur rekið í gin hans, og hægri fótur stígur á beinagrind, dauðatákn. Á spjótinu eða stönginni er sigurfáni eða veifa.

Siðbótarfrömuðurinn, Lúther, fær mikilvægan stað á myndfletinum og með því er staða hans og kenning undirstrikuð. Biblían var hið æðsta vald í kirkjunni samkvæmt kenningum hans, ritningin ein (lat. sola scriptura)[12] var kenningarlega slagorðið. Athygli vekur að í sömu sjónlínu og þeir þremenningarnir sér í hóp manna og þar er Móse sem heldur á boðorðatöflunum.[13] Hvort tveggja boðorðin og Biblían eru opin – en Lúther er framar í mynd og gefur til kynna að orð hans og túlkun vegi þyngra en hinna fyrri spámanna.

Vinstra megin fyrir miðri mynd sér í skeggjaðan mann með uppréttar hendur sem er á hlaupum og dauðinn sem beinagrind á eftir honum eða verður á vegi hans. Sömuleiðis eitthvert illfygli sveiflandi barefli – gæti verið Satan. Þessi nakti maður er að öllum líkindum tilvísun til Adams (mannsins) í aldingarðinum Eden.[14] Maðurinn sem hleypur er á leiðinni til hins upprisna en þó er svo að sjá að á leið hans muni logar vítis sleikja hann.

Listamaðurinn Cranach fléttar hér saman í myndinni stef úr helgum ritningum og túlkunum á ýmsum trúarþáttum í anda siðbótar Lúthers. Þar má nefna Ritninguna sjálfa sem hið æðsta vald og mælisnúru, kenninguna um fórnardauða Krists og náð Guðs án nokkurrar milligöngu kennilýðs (blóðgusan fer milliliðalaust á höfuð Cranach og hreinsar hann af syndum, hann er hólpinn), frelsarinn er hvort tveggja krossfestur og upprisinn. Lambið er tákn sakleysis, sakleysis guðsonarins sem fórnað var. Þá er Lúther hinn nýi spámaður sem stendur Móse framar og boðskapur hans og siðbótarinnar í öndvegi þar sem hjálpræðisverk (krossdauði) Jesú er í miðju verksins.

Með þessari mynd gerist listamaðurinn Cranach enn og aftur liðsmaður trúarhreyfingar sem hann var sjálfur hluti af. Listsköpunin verður hluti af nýrri hreyfingu. Það var hvort tveggja í senn trúarpólitísk afstaða og veraldleg pólitísk afstaða.

Ef til vill má segja að það hafi á sínum tíma verið aðeins fyrir athugula áhorfendur að greina allt það sem tiltekið verk felur í sér. Allan þann boðskap sem kenningar Lúthers eru styrktar með í tilvísunum o.fl.

Í samhengi listasögunnar og með íkónólogísku innsæi má segja að um óvenjulega sterkt verk sé að ræða þar sem tekin er skýr afstaða með einum málstað og nokkur fjöldi stuðningsmanna dreginn fram á sviðið. Táknfræðin er sterk og er ætlað að ýta undir nýja túlkun sem siðbótarmennirnir standa fyrir og þá einkum og sér í lagi foringi þeirra, Marteinn Lúther. Trúfræðipólitískur boðskapur siðbótarinnar er ofinn listilega inn í verkið.

 

Ritstjóri Kirkjublaðsins.is og greinarhöfundur við altaristöfluna í Herderkirkjunni í Weimar 20. október 2021

Heimildir:
Dahlby, Frithiof. Symboler og tegn i den kristne kunst. Kaupmannahöfn: Bogtrykkeri Tönder, 1979., Einar Sigurbjörnsson. Orðið og trúin, trúfræðiþættir. Reykjavík: 1976, Víkingsprent.
Gunnar Kristjánsson. Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014.
Hallgrímur Pétursson. Fimmtíu passíusálmar. Reykjavík 1973: Prentsmiðjan Leiftur.
Noble, Bonnie. Lucas Cranach the Elder: Art and Devotion of the German Reformation. Lanham: University Press of America, 1984.
Schilling, Heinz. Martin Luther – rebel i en opbrudstid (dönsk þýð. Peter Dürrfeld – þýskur titill: Martin Luhter. Rebell in einer Zeit des Umbruchs). Kaupmannahöfn: Kristeligt Dagblads Forlag, 2015.

[1]Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar (Reykjavík: 2014, Hið íslenska bókmenntafélag), p. 170-173.

[2] Heinz Schilling, Martin Luther – rebel i en opbrudstid (dönsk þýð. Peter Dürrfeld) (Kaupmannahöfn: 2015, Kristeligt Dagblads Forlag), p. 111-115 – þýskur titill: Martin Luhter. Rebell in einer Zeit des Umbruchs

[3] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar (Reykjavík: 2014, Hið íslenska bókmenntafélag), p. 170.

[4]Biblían. 4. Mósebók 21.8-9: „[og] Drottinn sagði við Móse: ‚Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.‘ Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.“ (11. íslenska útgáfan).

[5] Biblían, Lúkasarguðspjall 2.1-20, (11. íslenska útgáfan).

[6]Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst (Kaupmannahöfn: 1979, Bogtrykkeri Tönder), p. 36.

[7]Biblían, Jóhannesarguðspjall 19.19-20, (11. íslenska útgáfan).

[8] Myndin var unnin af Cranach eldri á andlátsári hans 1552-1553 – hann lést 1553 sem áður sagði.  Bonnie Noble, Lucas Cranach the Elder: Art and Devotion of the German Reformation (Lanham: University Press of America, 1984), Location 2868 – en þar segir í neðanmálsgrein nr. 1: „Scholars have speculated that Cranach the Elder began the alterpiece, although it was probably completed by Cranach the Younger. Ernst Grohne believes that Cranach the Elder probably made the sketches for the Weimer Alterpiece. Grohne, Die bremischen Truhen mit reformatorischen Darstellung und der Ursprung ihrer Motive, Abhandlungen und Vorträge der Bremer Wissenschaftlichen Gesellschaft (Bremen: Geist, 1936), 17. In 1556, probably in May, Cranach the Younger received 77 florins, 16 groschen for costs assoiciated with an alterpiece in the City Church; see Schuchardt, Cranach des Aeltern, 1:218, and Schade, Family, Document 421.“

[9] Sbr. Passíusálm Hallgríms Péturssonar nr. 25.12: „Fyrir blóð lambsins blíða/búinn er nú að stríða/og sælan sigur vann.“ Hallgrímur Pétursson. Fimmtíu passíusálmar (Reykjavík 1973: Prentsmiðjan Leiftur), p. 137. – Lútherskur rétttrúnaður 17du aldar er oft sagður koma fram í sálmum Hallgríms.

[10] Biblían. Jóhannesguðspjall 1.29: „Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: ‚Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.´“ (11. íslenska útgáfan).

[11]Biblían, Matteusarguðspjall 3.4, (11. íslenska útgáfan).

[12] Einar Sigurbjörnsson, Orðið og trúin, trúfræðiþættir (Reykjavík: 1976, Víkingsprent) p. 19-21.

[13] Biblían, 2. Mósebók 20.2-17, (11. íslenska útgáfan).

[14] Ibid. 1. Mósebók 2.1-3.24.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Altaristaflan í Herderkirkjunni

Lucas Cranach eldri (1472-1553) málaði þessa mynd sem hér verður fjallað um. Um er að ræða olíuverk á við, stærð 370×309 og er að finna í Herderkirkju í þýsku borginni Weimar. Talið er að sonur hans, Lucas Cranach yngri, hafi lokið við myndina 1555.

Hér verður fjallað um töfluna þegar hún er opin, sem sé ekki myndir að framanverðu þegar henni er lokað sem sýna skírn Krists og upprisu; og ekki heldur hina miklu skreytingu sem er ofan á henni.

Lucas Cranach eldri myndi flokkast sem há-endurreisnarmaður.

Cranach var ekki aðeins málari heldur og apótekari og bjó í Wittenberg þar sem siðbót Marteins Lúthers hófst 1517. Friðrik vitri kjörfursti bjó einnig í Wittenberg og hann gerði Cranach að hirðmálara sínum 1503. Hann komst til mikilla áhrifa innan hirðarinnar sem og í Wittenberg. Þjónaði Friðriki vitra til dauðadags sem og tveimur eftirmönnum hans.

Búseta Cranach í Wittenberg olli því að hann var staddur í hringiðu þeirra sögulegu atburða sem þar hófust og áttu eftir að hafa víðtæk áhrif í sögu Evrópu.

Marteinn Lúther (1483-1546) og Cranach vor ætíð hinir mestu mátar og mikil tengsl á milli þeirra sem og við Friðrik vitra kjörfursta. Þeir voru stuðningsmenn Lúthers.

Cranach gerði urmul af myndum er tengdust atburðum siðbótar og myndir af siðbótarmanninum Lúther. Í myndum sínum leitaðist hann við að koma til skila túlkunum Lúthers á atburðum líðandi, skoðunum hans í fræðum og menningu. Gagnrýni á páfa og kaþólska kirkju.[1]

Cranach auðgaðist vel og veðjaði á réttan stað þegar hann flutti frá Vínarborg Habsborgaranna og til Wittenberg sem var deigla samtímans með endurreisnarfurstann Friðrik hinn vitra í fararbroddi sem hafði hugmyndir um að endurbæta borgina í anda ítalskra borga endurreisnarinnar svo hún stæðist Róm og Genf á sporði.[2]

Meginefni þessarar altaristöflu er krossfestingin og árétting þess að siðbótarmenn hafi réttan málstað að verja með tilvísunum til Gamla testamentisins og eigin túlkunar – þar eru tákn sem íkónóngrafísk greining dregur fram. Segja má að sitt hvoru megin séu stúkusæti þar sem frómar og áhrifamiklar siðbótarpersónur sitja og fylgjast með atburðum á Golgatahæð sem búið að var færa um set og líklega til siðbótarborgarinnar Wittenberg. Í vinstri vængnum má sjá Jóhann Friðrik I., kjörfursta og konu hans, og á hægri vængnum eru þrír synir þeirra er upp komust.[3] Þau kostuðu verkið og standa sem tákn fyrir málstaðinn sem verkið á að flytja og þá sem eru í forsvari fyrir hann.

Íkónógrafísk greining á myndinni sækir í alla þá ritningartexta sem greina frá píslum Jesú frá Nasaret. Sömuleiðis í texta Gamla testamentisins sem atburðir baksviðs í myndinni sýna. Að sönnu tekur Jesús miðju myndflatarins og er líkami hans frá lendum ofar þeim atburðum sem eru baksviðs. Þar eru myndir með stefjum úr Ritningunni, eirormur á stöng við tjaldbúðir, en ormurinn var líftákn, hver sem leit á hann hélt lífi[4] og segja má að þar sé tilvísun til Jesú á krossinum: þau sem líta hann augum lifa. Þá eru hirðar uppi á hæð og fé, engill, augljóslega Betlehemsvellir (Lúkasarguðspjall)[5] maður á hlaupum, lítill hópur manna með leirtöflur, og síðan þrír menn við krossinn hægra megin. Og svo maður vinstra megin.

Á þessari altaristöflu er Jesús Kristur festur á kross sem líkist einna helst svo kölluðum T-krossi en í kristinni list eru það oft ræningjarnir tveir er krossfestir voru með Jesú sem hanga á slíkum krossum en Jesús á latneskum.[6] Fyrir ofan höfuð hans er hin sígilda skammstafaða áletrun INRI á latínu: Iesus Nazarenus Rex Iudorum=Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga.[7] Það vekur athygli að flái er tekinn úr þvertré krossins beggja megin og fyrir miðju.

Enda þótt stef myndarinnar sé hefðbundið þá er hún ólík öðrum krossfestingarmyndum fyrir þær sakir að við krossinn er ekki að sjá Maríu, guðsmóður, eða Jóhannes, lærisveininn sem Jesús elskaði. Aðrir hafa tekið sviðið og kannski ekki fyrir tilviljun.

Þótt myndin af Jesú á krossinum sé að mestu hefðbundin er tvennt sem vekur þó athygli og sker sig úr frá öðrum krossfestingarmyndum. Annars vegar eru það lendaklæði hans sem sem sveiflast mjúklega til sitt hvorrar áttar og hins vegar er það blóðstreymið úr síðusárinu, blóðið rennur niður sem er hið algenga en hið óvenjulega er blóðið sem spýtist í boga á höfuð eins mannsins sem stendur hægra megin og kippir sér ekki upp við það. Sá maður er listamaðurinn Lucas Cranach eldri sem gerði altaristöfluna en lést án þess að ljúka við hana. Sonur hans og nafni, Lucas Cranach (1515-1589) rak smiðshöggið á hana og setti mjög líklega föður sinn á þennan heiðursstað með hendur í frómri bænastellingu.[8] Sonur hans var og harður fylgismaður siðbótarhreyfingarinnar.

Blóðið er myndrænt tákn í lúthersk-kristinni kenningu um hreinsun, syndahreinsun. Gagnstætt kenningu kaþólsku kirkjunnar sem kvað á um að menn gætu hlotið hjálpræði fyrir fé og verk, keypt sig frá syndum (sbr. aflátsbréfasölu kirkjunnar) þá lagði Lúther áherslu á að maðurinn yrði aðeins réttlættur í augum Guðs fyrir trúna á Krist – fyrir náð. Við má bæta að túlka megi þetta svo að listamaðurinn sé þveginn blóði lambsins.[9] Lambið sem tákn vísar til hins krossfesta.

Vinstra megin við Cranach er Jóhannes skírari og hægra megin siðbótarfrömuðurinn Marteinn Lúther og styður fingri á ritningarstað með öruggum svip. Jóhannes skírari bendir upp til hins krossfesta en hann virðist horfa á Cranach og Lúther án þess að ná augnsambandi því þeir horfa í aðra átt, sá fyrrnefndi til áhorfandans og Lúthers til krossins. En vinstri hönd skírarans bendir á lambið sem er fremst í myndinni, lamb Guðs sem ber heimsins syndir – Kriststákn.[10] Lambið heldur á sigurfána. Hver þeirra ber klæði sem hæfir tíma, stétt og hlutverki. Lúther í kufli menntamanna þess tíma, Cranach í dýrum klæðum enda auðugur mjög, og undir rauðri skikkju Jóhannesar sér í klæði úr úlfaldahári.[11] Vinstra megin við krossinn – og það er óvenjulegt að á krossfestingarmynd séu tvær myndir af Jesús – en þar hann kominn og að baki hans opin gröfin. Hér er hann sem sé bæði krossfestur og upprisinn. Frelsarinn horfist í augu við myndrýninn all yfirvegaður á svip sem er ólíkur hryggðarandliti hans á krossinum. Hann er í rauðri skikkju, stendur með vinstri fót á öxl dreka sem heldur að sjá traustu taki um spjót sem Jesús hefur rekið í gin hans, og hægri fótur stígur á beinagrind, dauðatákn. Á spjótinu eða stönginni er sigurfáni eða veifa.

Siðbótarfrömuðurinn, Lúther, fær mikilvægan stað á myndfletinum og með því er staða hans og kenning undirstrikuð. Biblían var hið æðsta vald í kirkjunni samkvæmt kenningum hans, ritningin ein (lat. sola scriptura)[12] var kenningarlega slagorðið. Athygli vekur að í sömu sjónlínu og þeir þremenningarnir sér í hóp manna og þar er Móse sem heldur á boðorðatöflunum.[13] Hvort tveggja boðorðin og Biblían eru opin – en Lúther er framar í mynd og gefur til kynna að orð hans og túlkun vegi þyngra en hinna fyrri spámanna.

Vinstra megin fyrir miðri mynd sér í skeggjaðan mann með uppréttar hendur sem er á hlaupum og dauðinn sem beinagrind á eftir honum eða verður á vegi hans. Sömuleiðis eitthvert illfygli sveiflandi barefli – gæti verið Satan. Þessi nakti maður er að öllum líkindum tilvísun til Adams (mannsins) í aldingarðinum Eden.[14] Maðurinn sem hleypur er á leiðinni til hins upprisna en þó er svo að sjá að á leið hans muni logar vítis sleikja hann.

Listamaðurinn Cranach fléttar hér saman í myndinni stef úr helgum ritningum og túlkunum á ýmsum trúarþáttum í anda siðbótar Lúthers. Þar má nefna Ritninguna sjálfa sem hið æðsta vald og mælisnúru, kenninguna um fórnardauða Krists og náð Guðs án nokkurrar milligöngu kennilýðs (blóðgusan fer milliliðalaust á höfuð Cranach og hreinsar hann af syndum, hann er hólpinn), frelsarinn er hvort tveggja krossfestur og upprisinn. Lambið er tákn sakleysis, sakleysis guðsonarins sem fórnað var. Þá er Lúther hinn nýi spámaður sem stendur Móse framar og boðskapur hans og siðbótarinnar í öndvegi þar sem hjálpræðisverk (krossdauði) Jesú er í miðju verksins.

Með þessari mynd gerist listamaðurinn Cranach enn og aftur liðsmaður trúarhreyfingar sem hann var sjálfur hluti af. Listsköpunin verður hluti af nýrri hreyfingu. Það var hvort tveggja í senn trúarpólitísk afstaða og veraldleg pólitísk afstaða.

Ef til vill má segja að það hafi á sínum tíma verið aðeins fyrir athugula áhorfendur að greina allt það sem tiltekið verk felur í sér. Allan þann boðskap sem kenningar Lúthers eru styrktar með í tilvísunum o.fl.

Í samhengi listasögunnar og með íkónólogísku innsæi má segja að um óvenjulega sterkt verk sé að ræða þar sem tekin er skýr afstaða með einum málstað og nokkur fjöldi stuðningsmanna dreginn fram á sviðið. Táknfræðin er sterk og er ætlað að ýta undir nýja túlkun sem siðbótarmennirnir standa fyrir og þá einkum og sér í lagi foringi þeirra, Marteinn Lúther. Trúfræðipólitískur boðskapur siðbótarinnar er ofinn listilega inn í verkið.

 

Ritstjóri Kirkjublaðsins.is og greinarhöfundur við altaristöfluna í Herderkirkjunni í Weimar 20. október 2021

Heimildir:
Dahlby, Frithiof. Symboler og tegn i den kristne kunst. Kaupmannahöfn: Bogtrykkeri Tönder, 1979., Einar Sigurbjörnsson. Orðið og trúin, trúfræðiþættir. Reykjavík: 1976, Víkingsprent.
Gunnar Kristjánsson. Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014.
Hallgrímur Pétursson. Fimmtíu passíusálmar. Reykjavík 1973: Prentsmiðjan Leiftur.
Noble, Bonnie. Lucas Cranach the Elder: Art and Devotion of the German Reformation. Lanham: University Press of America, 1984.
Schilling, Heinz. Martin Luther – rebel i en opbrudstid (dönsk þýð. Peter Dürrfeld – þýskur titill: Martin Luhter. Rebell in einer Zeit des Umbruchs). Kaupmannahöfn: Kristeligt Dagblads Forlag, 2015.

[1]Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar (Reykjavík: 2014, Hið íslenska bókmenntafélag), p. 170-173.

[2] Heinz Schilling, Martin Luther – rebel i en opbrudstid (dönsk þýð. Peter Dürrfeld) (Kaupmannahöfn: 2015, Kristeligt Dagblads Forlag), p. 111-115 – þýskur titill: Martin Luhter. Rebell in einer Zeit des Umbruchs

[3] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – Svipmyndir úr sögu siðbótar (Reykjavík: 2014, Hið íslenska bókmenntafélag), p. 170.

[4]Biblían. 4. Mósebók 21.8-9: „[og] Drottinn sagði við Móse: ‚Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.‘ Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.“ (11. íslenska útgáfan).

[5] Biblían, Lúkasarguðspjall 2.1-20, (11. íslenska útgáfan).

[6]Frithiof Dahlby, Symboler og tegn i den kristne kunst (Kaupmannahöfn: 1979, Bogtrykkeri Tönder), p. 36.

[7]Biblían, Jóhannesarguðspjall 19.19-20, (11. íslenska útgáfan).

[8] Myndin var unnin af Cranach eldri á andlátsári hans 1552-1553 – hann lést 1553 sem áður sagði.  Bonnie Noble, Lucas Cranach the Elder: Art and Devotion of the German Reformation (Lanham: University Press of America, 1984), Location 2868 – en þar segir í neðanmálsgrein nr. 1: „Scholars have speculated that Cranach the Elder began the alterpiece, although it was probably completed by Cranach the Younger. Ernst Grohne believes that Cranach the Elder probably made the sketches for the Weimer Alterpiece. Grohne, Die bremischen Truhen mit reformatorischen Darstellung und der Ursprung ihrer Motive, Abhandlungen und Vorträge der Bremer Wissenschaftlichen Gesellschaft (Bremen: Geist, 1936), 17. In 1556, probably in May, Cranach the Younger received 77 florins, 16 groschen for costs assoiciated with an alterpiece in the City Church; see Schuchardt, Cranach des Aeltern, 1:218, and Schade, Family, Document 421.“

[9] Sbr. Passíusálm Hallgríms Péturssonar nr. 25.12: „Fyrir blóð lambsins blíða/búinn er nú að stríða/og sælan sigur vann.“ Hallgrímur Pétursson. Fimmtíu passíusálmar (Reykjavík 1973: Prentsmiðjan Leiftur), p. 137. – Lútherskur rétttrúnaður 17du aldar er oft sagður koma fram í sálmum Hallgríms.

[10] Biblían. Jóhannesguðspjall 1.29: „Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: ‚Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.´“ (11. íslenska útgáfan).

[11]Biblían, Matteusarguðspjall 3.4, (11. íslenska útgáfan).

[12] Einar Sigurbjörnsson, Orðið og trúin, trúfræðiþættir (Reykjavík: 1976, Víkingsprent) p. 19-21.

[13] Biblían, 2. Mósebók 20.2-17, (11. íslenska útgáfan).

[14] Ibid. 1. Mósebók 2.1-3.24.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir