Skipulag Þjóðkirkjunnar út frá
greiningarlíkani Frederics Laloux

Sennilegt er að fólk sem þekkir til mannauðsmála innan Þjóðkirkjunnar verði þess áskynja að margt er ólíkt með því fyrirkomulagi sem er þar við lýði og svo því sem við getum kallað hefðbundið skipulag á rekstrarfélagi. Þessi sjónarmið má lesa í nýútkomnu hirðisbréfi sr. Agnesar M. Sigurðardóttur biskups þar sem segir:

„Það er að sönnu vandasamt verkefni að viðhafa virkt skipulag í fyrirbæri sem er hvorki stofnun né fyrirtæki. Þjóðkirkjan er trúfélag og erfitt getur reynst á stundum að lúta hefðbundu regluverki fyrirtækja og stofnana.“ (bls. 100).

Í þessari grein verður þess freistað að setja skipulag kirkjunnar í samhengi kenningar á sviði stjórnunar og forystu. Stuðst verður við hugmyndir belgíska viðskiptahugsuðarins Frederic Laloux (1969–) sem hann setti fram í ritinu Reinventing Organizations (2014). Samkvæmt henni eru framsæknustu skipulagsheildir samtímans ekki með hefðbundna uppbyggingu á sinni starfsemi. Þvert á móti er þar byggt á sjálfstæðum einingum og frumkvæði þeirra sem þar starfa.

Yfirskriftin, „Hvernig er kirkjan á litinn?“ vísar til þess að Laloux litgreindi rekstrareiningar út frá því hvernig þær voru byggðar upp. Áður en gerð verður grein fyrir þeirri flokkun er rétt að fara fáeinum orðum um uppbyggingu þeirrar þjónustu sem Þjóðkirkjan veitir.

Sjálfstæðar sóknir og sjálfstæð embætti

Í umræðu um skipulagsmál og stjórnun innan Þjóðkirkjunnar má gjarnan heyra þau sjónarmið að þar séu tvær grunnstoðir sem megi sem minnst raska. Önnur þeirra eru prestsembættin sem Þjóðkirkjan sjálf stendur straum af í krafti samkomulags sem gert var við ríkisvaldið um endurgjald af kirkjujörðum. Hin grunneiningin er sóknin. Sóknir eru landfræðilegar einingar og sóknargjöld eru greidd til þeirra. Sóknir eru afar ólíkar og í þeim stærstu eru starfsmenn á föstum launum og oftar en ekki viðamikill rekstur fasteigna og annarra fjárfestinga.

Þessar tvær grunnstoðir, prestsembættin og sóknirnar, eru sjálfstæðar í þeirri merkingu að ekkert yfirvald í stjórnkerfi Þjóðkirkjunnar getur með beinum hætti stjórnað því hvernig þær haga innra starfi sínu og stefnu. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir (1963– ) fjallar um þennan veruleika í doktorsritgerð sinni frá árinu 2019. Þar leggur hún mat á eina viðamestu viðleitni kirkjuyfirvalda til þess að móta starfsemi þessara tveggja eininga, sem er stefnumótun kirkjunnar frá árinu 2003. Niðurstaða Steinunnar Arnþrúðar er að sú tilraun hafi ekki tekist sem skyldi því engar raunverulegar leiðir voru til þess að móta starf embætta og sókna.

Miðstýring er óvinsæl í hinu kirkjulega samhengi og bera verjendur þessa sjálfstæðis gjarnan fyrir sig sjálfan Martein Lúther (1483–1546) en hann á að hafa lagt grunninn að þessum stjórnarháttum. Þá má ekki líta framhjá því að fæstir vilja láta segja sér fyrir verkum ef þeir eiga þess kost að komast hjá slíku. Kirkjuþing samanstendur af vígðum þjónum (prestum og djáknum) og fulltrúum sókna og þessir hópar eru því í góðri stöðu til að verjast beinum afskiptum yfirvalda innan kirkjunnar.

Hvað er þá hægt að segja um fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem Þjóðkirkjan miðlar? Liggja rætur þessa skipulags annars vegar í hugmyndum frá sextándu öld og svo hins vegar í mannlegri viðleitni til að forðast opinber afskipti? Eða má finna einhverjar hliðstæður við það í nútíma rekstri?

Fimm gerðir skipulagsheilda

Fyrrnefndur Frederic Laloux byggði niðurstöður sínar á viðamikilli rannsókn þar sem hann fór ofan í saumana á 50 félögum sem höfðu starfað að lágmarki í fimm ár og höfðu í það minnsta hundrað starfsmenn. Tilgáta hans er á þá leið að skipulagsheildir þróist í ákveðnum skrefum rétt eins og þær væru lífverur. Hann greinir þetta þróunarferli og gefur hverju fyrirkomulagi ákveðinn lit. Greiningarlíkan hans er í stuttu máli svona:

Þær frumstæðustu eru rauðar að lit. Sterkur leiðtogi sem beitir hörku ef þess er þörf. Dæmi um slíkar einingar eru götugengi og glæpaklíkur.

Þá eru það gulleitar einingar. Þær lúta reglum og siðferðisgildum þar sem mest er lagt upp úr stöðugleika. Stjórnunin er lagskipt frá efstu þrepum og niður eftir píramídanum. Rómversk kaþólska kirkja fellur í þennan flokk.

Þriðja fyrirkomulaginu gefur hann appelsínugulan lit. Þar er leitað að mælanlegum árangri, t.d. í formi markaðshlutdeildar. Í stað stöðugleika er unnið markvisst að nýsköpun og þróun. Fólk fær umbun fyrir vel unnin störf og er þar byggt á þeim viðmiðum sem sett hafa verið. Öflugur leiðtogi leiðir starfið og er það hlutverk hans að stefna á frekari landvinninga. Þessi kerfi eru algeng í viðskiptalífi samtímans.

Fjórða skipulagið er grænt. Þar sem hið appelsínugula fyrirkomulag lítur á ytri rammann sem mælikvarða (t.d. mælanlegan hagnað) horfa leiðtogar innan grænna eininga fremur til innri þátta. Virðing er borin fyrir tilfinningum starfsfólks og skoðanafrelsi. Leitað er sameiginlegrar niðurstöðu. Laloux talar um þrjá þætti sem einkenna slíkt skipulag: Valdeflingu, sterka sameiginlega menningu og margháttaða aðkomu haghafa að starfinu. Stefnumótun og markmiðssetning er unnið á breiðum grundvelli út frá þeirri hugmynd að fólk sé líklegt til að vinna að leiðum sem það hefur sjálft mótað. Eins og liturinn gefur til kynna eru græn félög líkleg til að leggja kapp á sjálfbærni og umhverfismál. Hann vísar í þessu sambandi til fyrirtækja og stofnana sem vinna samkvæmt hugmyndafræðinni um þjónandi forystu og nefnir hann Starbucks og IKEA sem dæmi.

Þessar fjórar gerðir skipulagsheilda ættu að vera flestum kunnuglegar. Líta má á flokkunina fram að þessu sem undirbúning fyrir þá síðustu sem Laloux telur einkenna rekstrareiningar sem best hafa náð að laga sig að nútímaaðstæðum.

Fimmta gerðin er grænblá. Í þess konar skipulagsheildum renna saman hinir ytri þættir, til dæmis hagnaður og þeir innri, t.d. starfsmenning. Valdastiginn og allt skipulagið eru brotin upp með róttækum hætti svo ekki blasir við hverjir eru í hlutverki leiðtoga og hverjir eru fylgjendur. Þau hlutverk geta færst á milli einstaklinga eftir því hvert verkefnið er sem unnið er að hverju sinni. Til þess að svo megi verða byggir starfsemin á sjálfstæðum einingum. Hver starfsmaður eða hvert teymi fær ákvörðunarvald og ábyrgð. Unnið er út frá því að starfsemin sé í raun ákveðin heild fremur en að hún sé deildarskipt. Hún er í stöðugri þróun þar sem allt er í mótun og endurskoðun. Félagið er sveigjanlegt og getur brugðist skjótt við nýjum aðstæðum Þar er engan valdapíramída að finna. Segja má að ákveðinn mannskilningur sé kjarninn í uppbyggingu þessara félaga þar sem ekki er litið á fólkið sem þar starfar sem „vinnuafl“ heldur býr þar að baki víðtækari og dýpri sýn á þá einstaklinga.

Ýmis dæmi má nefna um fyrirtæki sem rekin eru samkvæmt þessu grænbláa líkani, þótt þau séu hverfand fá samanborið við þau sem áður voru nefnd. Þau eiga það sameiginlegt að hafa náð miklum vexti og skilvirkni þar sem yfirbyggingu er haldið í lágmarki en frumkvæði fólks er hampað og nýsköpun er samofin rekstrinum. Hér skal nefnd streymisveitan Spotify sem dæmi um fyrirtæki í flokki grænblárra.

Hvernig er kirkjan á litinn?

Hvernig staðsetjum við kirkjuna samkvæmt ofangreindu? Á kerfið sem sumir kenna við sjálfan siðbótarmanninn heima í einhverju því líkani sem hér hefur verið fjallað um? Er sjálfstæði eininganna ljóður á starfi kirkjunnar eða er þar tækifæri til frekari vaxtar og þroska?

Er hún appelsínugul eins og fjármálafyrirtækin sem til skamms tíma voru nágrannar yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar? Er ekki svigrúm til umræðu og gagnrýni þegar kemur að ákvörðunum sem teknar eru í efstu lögum? Ná þau mestum frama sem sýna þeim öflum auðsveipni? Er hún græn í þeirri merkingu að leitað er sameiginlegra leiða? Víst hefur hún þokast í þá átt í kjölfar skipulagsbreytinga sem færa valdið að einhverju leyti frá æðstu embættismönnum Þjóðkirkjunnar yfir til kirkjuþings. En betur má ef duga skal. Til þess að græni liturinn (sem er jú ráðandi stóran hluta kirkjuársins!) einkenni Þjóðkirkjuna þarf að vinna nánar með grasrótinni og skapa löngun hjá fólki til að fylgja þeirri stefnu sem þátttakendur hafa í sameiningu komið sér saman um.

Hvað með grænbláu gerðina? Getum við séð Þjóðkirkjuna fyrir okkur í flokki framsækinna skipulagsheilda sem hafa brotið hlekki fastmótaðs skipulags og náð undraverðum árangri?

Eitt af því sem einkennir þann flokk er viðleitni til að greina þann tilgang sem starfsemin hefur. Þessi nálgun skapar svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika hvað varðar skipulag og formgerð, en býr um leið til skýran ramma sem skilgreinir þau mörk sem ekki má fara út fyrir. Ekki er ráðist í verkefni sem samræmast ekki þessum tilgangi en þau sem vinna að öðrum viðfangsefnum fá fullan stuðning. Skipulagið er aðeins rammi og um leið skapast svigrúm til þess að þátttakendur geti einbeitt sér að þeirri þjónustu sem sinna skal.

Starfsemi Þjóðkirkjunnar hefur svo sannarlega markmið. Launað starfsfólk og sjálfboðaliðar starfa í krafti hugsjóna og trúar. Mörg tækifæri gefast til þess að vinna þvert á skipulag. Horfa má í auknum mæli til sameiginlegra verkefna eins og prestakalla og sókna á sviði æskulýðsmála, tónlistarstarfs, kærleiksþjónustu.

Fjármagn til samstarfsverkefna á milli sókna myndi hafa hvetjandi áhrif og árangursmælingar gætu aukið þekkingu og aukið gæði. Margir kirkjunnar þjónar tóku vel við sér á tímum covid og nýttu samfélagsmiðla til boðunar og helgihalds. Er slík þjónusta að verða mikilvægari? Kirkjan miðlar boðskap og hlúir að þeim sem minnst mega sín. Með sama hætti þurfa þjónar hennar að hlúa að sínum innri manni. Fólk getur hvílst í því að það sé hluti af heild, hluti af gæsku og samfélagi sem byggir á sömu gildum og lýðræðisríki.

Já, hvernig er Þjóðkirkjan á litinn? Því er vandsvarað enda er hún á krossgötum í margvíslegum skilningi þess orðs. Skilgreina þarf markmið Þjóðkirkjunnar, vinna betur með þeirri sérstöðu hennar sem fyrr er rakin og nýta til þess fyrirliggjandi rannsóknir á sviði forystu og skipulags. Með þeim hætti getur Þjóðkirkjan náð fram því besta sem einkennir skipulag hennar sem er þegar á allt er litið ekki eins sérstætt og margur kann í fyrstu að ætla.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Skipulag Þjóðkirkjunnar út frá
greiningarlíkani Frederics Laloux

Sennilegt er að fólk sem þekkir til mannauðsmála innan Þjóðkirkjunnar verði þess áskynja að margt er ólíkt með því fyrirkomulagi sem er þar við lýði og svo því sem við getum kallað hefðbundið skipulag á rekstrarfélagi. Þessi sjónarmið má lesa í nýútkomnu hirðisbréfi sr. Agnesar M. Sigurðardóttur biskups þar sem segir:

„Það er að sönnu vandasamt verkefni að viðhafa virkt skipulag í fyrirbæri sem er hvorki stofnun né fyrirtæki. Þjóðkirkjan er trúfélag og erfitt getur reynst á stundum að lúta hefðbundu regluverki fyrirtækja og stofnana.“ (bls. 100).

Í þessari grein verður þess freistað að setja skipulag kirkjunnar í samhengi kenningar á sviði stjórnunar og forystu. Stuðst verður við hugmyndir belgíska viðskiptahugsuðarins Frederic Laloux (1969–) sem hann setti fram í ritinu Reinventing Organizations (2014). Samkvæmt henni eru framsæknustu skipulagsheildir samtímans ekki með hefðbundna uppbyggingu á sinni starfsemi. Þvert á móti er þar byggt á sjálfstæðum einingum og frumkvæði þeirra sem þar starfa.

Yfirskriftin, „Hvernig er kirkjan á litinn?“ vísar til þess að Laloux litgreindi rekstrareiningar út frá því hvernig þær voru byggðar upp. Áður en gerð verður grein fyrir þeirri flokkun er rétt að fara fáeinum orðum um uppbyggingu þeirrar þjónustu sem Þjóðkirkjan veitir.

Sjálfstæðar sóknir og sjálfstæð embætti

Í umræðu um skipulagsmál og stjórnun innan Þjóðkirkjunnar má gjarnan heyra þau sjónarmið að þar séu tvær grunnstoðir sem megi sem minnst raska. Önnur þeirra eru prestsembættin sem Þjóðkirkjan sjálf stendur straum af í krafti samkomulags sem gert var við ríkisvaldið um endurgjald af kirkjujörðum. Hin grunneiningin er sóknin. Sóknir eru landfræðilegar einingar og sóknargjöld eru greidd til þeirra. Sóknir eru afar ólíkar og í þeim stærstu eru starfsmenn á föstum launum og oftar en ekki viðamikill rekstur fasteigna og annarra fjárfestinga.

Þessar tvær grunnstoðir, prestsembættin og sóknirnar, eru sjálfstæðar í þeirri merkingu að ekkert yfirvald í stjórnkerfi Þjóðkirkjunnar getur með beinum hætti stjórnað því hvernig þær haga innra starfi sínu og stefnu. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir (1963– ) fjallar um þennan veruleika í doktorsritgerð sinni frá árinu 2019. Þar leggur hún mat á eina viðamestu viðleitni kirkjuyfirvalda til þess að móta starfsemi þessara tveggja eininga, sem er stefnumótun kirkjunnar frá árinu 2003. Niðurstaða Steinunnar Arnþrúðar er að sú tilraun hafi ekki tekist sem skyldi því engar raunverulegar leiðir voru til þess að móta starf embætta og sókna.

Miðstýring er óvinsæl í hinu kirkjulega samhengi og bera verjendur þessa sjálfstæðis gjarnan fyrir sig sjálfan Martein Lúther (1483–1546) en hann á að hafa lagt grunninn að þessum stjórnarháttum. Þá má ekki líta framhjá því að fæstir vilja láta segja sér fyrir verkum ef þeir eiga þess kost að komast hjá slíku. Kirkjuþing samanstendur af vígðum þjónum (prestum og djáknum) og fulltrúum sókna og þessir hópar eru því í góðri stöðu til að verjast beinum afskiptum yfirvalda innan kirkjunnar.

Hvað er þá hægt að segja um fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem Þjóðkirkjan miðlar? Liggja rætur þessa skipulags annars vegar í hugmyndum frá sextándu öld og svo hins vegar í mannlegri viðleitni til að forðast opinber afskipti? Eða má finna einhverjar hliðstæður við það í nútíma rekstri?

Fimm gerðir skipulagsheilda

Fyrrnefndur Frederic Laloux byggði niðurstöður sínar á viðamikilli rannsókn þar sem hann fór ofan í saumana á 50 félögum sem höfðu starfað að lágmarki í fimm ár og höfðu í það minnsta hundrað starfsmenn. Tilgáta hans er á þá leið að skipulagsheildir þróist í ákveðnum skrefum rétt eins og þær væru lífverur. Hann greinir þetta þróunarferli og gefur hverju fyrirkomulagi ákveðinn lit. Greiningarlíkan hans er í stuttu máli svona:

Þær frumstæðustu eru rauðar að lit. Sterkur leiðtogi sem beitir hörku ef þess er þörf. Dæmi um slíkar einingar eru götugengi og glæpaklíkur.

Þá eru það gulleitar einingar. Þær lúta reglum og siðferðisgildum þar sem mest er lagt upp úr stöðugleika. Stjórnunin er lagskipt frá efstu þrepum og niður eftir píramídanum. Rómversk kaþólska kirkja fellur í þennan flokk.

Þriðja fyrirkomulaginu gefur hann appelsínugulan lit. Þar er leitað að mælanlegum árangri, t.d. í formi markaðshlutdeildar. Í stað stöðugleika er unnið markvisst að nýsköpun og þróun. Fólk fær umbun fyrir vel unnin störf og er þar byggt á þeim viðmiðum sem sett hafa verið. Öflugur leiðtogi leiðir starfið og er það hlutverk hans að stefna á frekari landvinninga. Þessi kerfi eru algeng í viðskiptalífi samtímans.

Fjórða skipulagið er grænt. Þar sem hið appelsínugula fyrirkomulag lítur á ytri rammann sem mælikvarða (t.d. mælanlegan hagnað) horfa leiðtogar innan grænna eininga fremur til innri þátta. Virðing er borin fyrir tilfinningum starfsfólks og skoðanafrelsi. Leitað er sameiginlegrar niðurstöðu. Laloux talar um þrjá þætti sem einkenna slíkt skipulag: Valdeflingu, sterka sameiginlega menningu og margháttaða aðkomu haghafa að starfinu. Stefnumótun og markmiðssetning er unnið á breiðum grundvelli út frá þeirri hugmynd að fólk sé líklegt til að vinna að leiðum sem það hefur sjálft mótað. Eins og liturinn gefur til kynna eru græn félög líkleg til að leggja kapp á sjálfbærni og umhverfismál. Hann vísar í þessu sambandi til fyrirtækja og stofnana sem vinna samkvæmt hugmyndafræðinni um þjónandi forystu og nefnir hann Starbucks og IKEA sem dæmi.

Þessar fjórar gerðir skipulagsheilda ættu að vera flestum kunnuglegar. Líta má á flokkunina fram að þessu sem undirbúning fyrir þá síðustu sem Laloux telur einkenna rekstrareiningar sem best hafa náð að laga sig að nútímaaðstæðum.

Fimmta gerðin er grænblá. Í þess konar skipulagsheildum renna saman hinir ytri þættir, til dæmis hagnaður og þeir innri, t.d. starfsmenning. Valdastiginn og allt skipulagið eru brotin upp með róttækum hætti svo ekki blasir við hverjir eru í hlutverki leiðtoga og hverjir eru fylgjendur. Þau hlutverk geta færst á milli einstaklinga eftir því hvert verkefnið er sem unnið er að hverju sinni. Til þess að svo megi verða byggir starfsemin á sjálfstæðum einingum. Hver starfsmaður eða hvert teymi fær ákvörðunarvald og ábyrgð. Unnið er út frá því að starfsemin sé í raun ákveðin heild fremur en að hún sé deildarskipt. Hún er í stöðugri þróun þar sem allt er í mótun og endurskoðun. Félagið er sveigjanlegt og getur brugðist skjótt við nýjum aðstæðum Þar er engan valdapíramída að finna. Segja má að ákveðinn mannskilningur sé kjarninn í uppbyggingu þessara félaga þar sem ekki er litið á fólkið sem þar starfar sem „vinnuafl“ heldur býr þar að baki víðtækari og dýpri sýn á þá einstaklinga.

Ýmis dæmi má nefna um fyrirtæki sem rekin eru samkvæmt þessu grænbláa líkani, þótt þau séu hverfand fá samanborið við þau sem áður voru nefnd. Þau eiga það sameiginlegt að hafa náð miklum vexti og skilvirkni þar sem yfirbyggingu er haldið í lágmarki en frumkvæði fólks er hampað og nýsköpun er samofin rekstrinum. Hér skal nefnd streymisveitan Spotify sem dæmi um fyrirtæki í flokki grænblárra.

Hvernig er kirkjan á litinn?

Hvernig staðsetjum við kirkjuna samkvæmt ofangreindu? Á kerfið sem sumir kenna við sjálfan siðbótarmanninn heima í einhverju því líkani sem hér hefur verið fjallað um? Er sjálfstæði eininganna ljóður á starfi kirkjunnar eða er þar tækifæri til frekari vaxtar og þroska?

Er hún appelsínugul eins og fjármálafyrirtækin sem til skamms tíma voru nágrannar yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar? Er ekki svigrúm til umræðu og gagnrýni þegar kemur að ákvörðunum sem teknar eru í efstu lögum? Ná þau mestum frama sem sýna þeim öflum auðsveipni? Er hún græn í þeirri merkingu að leitað er sameiginlegra leiða? Víst hefur hún þokast í þá átt í kjölfar skipulagsbreytinga sem færa valdið að einhverju leyti frá æðstu embættismönnum Þjóðkirkjunnar yfir til kirkjuþings. En betur má ef duga skal. Til þess að græni liturinn (sem er jú ráðandi stóran hluta kirkjuársins!) einkenni Þjóðkirkjuna þarf að vinna nánar með grasrótinni og skapa löngun hjá fólki til að fylgja þeirri stefnu sem þátttakendur hafa í sameiningu komið sér saman um.

Hvað með grænbláu gerðina? Getum við séð Þjóðkirkjuna fyrir okkur í flokki framsækinna skipulagsheilda sem hafa brotið hlekki fastmótaðs skipulags og náð undraverðum árangri?

Eitt af því sem einkennir þann flokk er viðleitni til að greina þann tilgang sem starfsemin hefur. Þessi nálgun skapar svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika hvað varðar skipulag og formgerð, en býr um leið til skýran ramma sem skilgreinir þau mörk sem ekki má fara út fyrir. Ekki er ráðist í verkefni sem samræmast ekki þessum tilgangi en þau sem vinna að öðrum viðfangsefnum fá fullan stuðning. Skipulagið er aðeins rammi og um leið skapast svigrúm til þess að þátttakendur geti einbeitt sér að þeirri þjónustu sem sinna skal.

Starfsemi Þjóðkirkjunnar hefur svo sannarlega markmið. Launað starfsfólk og sjálfboðaliðar starfa í krafti hugsjóna og trúar. Mörg tækifæri gefast til þess að vinna þvert á skipulag. Horfa má í auknum mæli til sameiginlegra verkefna eins og prestakalla og sókna á sviði æskulýðsmála, tónlistarstarfs, kærleiksþjónustu.

Fjármagn til samstarfsverkefna á milli sókna myndi hafa hvetjandi áhrif og árangursmælingar gætu aukið þekkingu og aukið gæði. Margir kirkjunnar þjónar tóku vel við sér á tímum covid og nýttu samfélagsmiðla til boðunar og helgihalds. Er slík þjónusta að verða mikilvægari? Kirkjan miðlar boðskap og hlúir að þeim sem minnst mega sín. Með sama hætti þurfa þjónar hennar að hlúa að sínum innri manni. Fólk getur hvílst í því að það sé hluti af heild, hluti af gæsku og samfélagi sem byggir á sömu gildum og lýðræðisríki.

Já, hvernig er Þjóðkirkjan á litinn? Því er vandsvarað enda er hún á krossgötum í margvíslegum skilningi þess orðs. Skilgreina þarf markmið Þjóðkirkjunnar, vinna betur með þeirri sérstöðu hennar sem fyrr er rakin og nýta til þess fyrirliggjandi rannsóknir á sviði forystu og skipulags. Með þeim hætti getur Þjóðkirkjan náð fram því besta sem einkennir skipulag hennar sem er þegar á allt er litið ekki eins sérstætt og margur kann í fyrstu að ætla.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?