Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum. 

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Þetta er önnur greinin sem birtist í Gestaglugganum eftir hann en hin birtist í síðustu viku. Mynd: Manfred Neumann 

„Passaðu þig Pétur, þessar tröppur eru handónýtar,“ sagði biskupinn og prílaði upp fúnar tröppurnar á undan mér. Hann gætti þess að stíga aðallega á burðarbitana sitthvorum megin við þrepin. Timbrið sem hékk saman að því virtist af gömlum vana milli bitanna mátti sannarlega muna sinn fífil fegri. Sjálfsagt hefur það verið kostuleg sjón að sjá þungavigtarmennina tvo, biskupinn og djáknann, príla þarna upp þessar tröppur í litlu þorpi í afdal, 50 km fyrir utan Tíblisi, höfuðborg Georgíu. En upp komumst við. Þegar inn í húsið var komið sagði biskupinn eins og við sjálfan sig: „Það þarf að gera við þessar tröppur.“ Svo var það ekkert rætt frekar, enda dagskrá dagsins stíf, við á ferð í þeim erindagjörðum að taka út starf hjúkrunarfræðinga sem sinna heimaþjónustu á vegum kærleiksþjónustu Lúthersku kirkjunnar.

Tíu vikum seinna sat ég á skrifstofu minni í Stuttgart og las fréttabréf þýskra hollvina kirkjunnar í Georgíu þar sem þau lýstu árlegri ferð sinni um Georgíu í fylgd Rolf Bareis, biskups Lúthersku kirkjunnar í Georgíu og Suður-Kákasus. Þau höfðu verið þar tveimur vikum á eftir mér. Þar stóð:

„… komum við í fjallaþorp í Duscheti-héraðinu. Þar bað biskupinn okkur að stíga út úr bílnum. Heldur urðum við hissa þegar hann opnaði skottið og rétti okkur alls konar verkfæri og slatta af misþykku, hefluðu og fúavörðu timbri. Þegar skottið var orðið tómt arkaði biskupinn af stað og við á eftir.  Gengum við í tíu mínútur eftir stíg sem lá að húsaþyrpingunni efst í þorpinu. Þar nam biskup staðar við heldur hrörlegt hús með enn hrörlegri tröppur við innganginn. Þegar biskupinn hófst umsvifalaust handa við að rífa tröppurnar rann það upp fyrir okkur að við vorum ekki lengur sendinefnd, heldur verkamenn í víngarði Drottins. Tæpri klukkustund seinna höfðum við smíðað þessar fínu, traustu tröppur, eða öllu heldur horft á biskupinn skella upp tröppunum eins og hann væri vanur húsasmiður. Nú birtist kona á tíræðisaldri að okkur virtist í hurðargættinni og blessaði biskupinn í bak og fyrir og sagðist kannski bara reyna að fara út úr húsi við tækifæri, fyrst tröppurnar væru orðnar svona traustar. Í mörg ár hafi hún alltaf verið jafn hissa hvernig hjúkrunarfræðingurinn færi að því að komast upp tröppurnar, sérstaklega með öll innkaupin handa henni.“

Svona eru sögurnar úr kirkjustarfinu víða um heim hugsaði ég, lagði fréttabréfið frá mér og brosti við tilhugsunina um klifur okkar biskupsins upp tröppurnar. Ekkert virtist konan hafa minnst á að hún hafi verið hissa að við komumst upp tröppurnar. Kannski af því að við vorum ekki með innkaupapoka.

Í starfi mínu fyrir hjálparstarf kirkjunnar í Württemberg er ég oft spurður hvernig stuðningur okkar við hin ýmsu verkefni í löndum Austur-Evrópu sé tilkominn. Svarið er alltaf að það séu söguleg og persónuleg tengsl sem hafi leitt til samstarfsins. Ein af skrautlegri og lengri sögunum er um tengsl kirkjunnar í Württemberg við þýsku Lúthersku kirkjuna í Georgíu og Suður-Kákasus.

Rolf Bareis, biskup kirkjunnar um þessar mundir er „lánaður“ til þessarar þjónustu héðan úr Württemberg. Að loknum nær átta árum mun hann snúa til baka í prestsembætti í Württemberg, rétt eins og forverar hans. Þessi stuðningur kemur beint frá Württemberg en ekki EKD eins og oftast er tilfellið. Í samstarfi við Hollvini Lúthersku kirkjunnar  í Georgíu, hefur kirkjan í Württemberg og verkefnið Von fyrir Austur-Evrópu (þ. Hoffnung für Osteuropa) fjármagnað stóran hluta starfsins. Til að tryggja góð samskipti sit ég sjálfur í stjórn díakoníunnar og er því einu sinni til tvisvar á ári í Georgíu. Hollvinir Lúthersku kirkjunnar í Georgíu eru líka með eitt sæti í stjórninni. Þau hafa aðsetur í Þýskalandi og það eina markmið að styðja við Lúthersku kirkjuna og díakoníuna í Georgíu.

Samstarfið á rætur sínar að rekja til ársins 1817. Það ár fluttust um 500 manns búferlum frá Suður-Þýskalandi í héraðið suðaustur af Tíblisi. Flest þeirra voru illa á sig komin og hafði ferðin kostað meira blóð, svita og tár en nokkur hefði getað ímyndað sér. Nóg af ræktarlandi og velsæld í boði Rússakeisara hafði hljómað svo vel. En siglingin eftir Dóná í vélarlausum bátum (þ. Ulmer Schachtel) hafði reynst mörgum um megn og timbrið úr bátunum löngu selt fyrir fæði, lyf og læknisþjónustu. Heimafólk í Georgíu tók í fyrstu þetta fátæka fólk upp á sína arma, en sjálf höfðu þau ekki úr miklu að moða. Því urðu þýsku innflytjendurnir að taka höndum saman og tryggja sér eigið fæði og húsnæði.

Flest fólkið var úr röðum píetista (heittrúaðra) af svæðinu í kringum Stuttgart og fjallahéraðinu „Schwäbische Alb“. Tvennt hjálpaði til við uppbyggingu þýsku þorpanna. Annars vegar var það trúin og sú samstaða sem hún fól í sér. Hins vegar að hér voru bændur og hagleiksfólk á ferð sem kunni til verka. Á næstu árum áttu 2.600 einstaklingar – aðallega frá Suður-Þýskalandi – eftir að bætast í hópinn. En stöðugt reyndi á samstöðu innflytjenda og útistöðum við aðra íbúa á svæðinu fór fjölgandi. Sú saga verður ekki rakin hér að þessu sinni.

Eitt er þó mikilvægt að nefna: Ráðamenn í konungsríkinu Württemberg voru voða fegnir að „þetta fólk“ var farið af landi brott, því á meðal píetistanna (heittrúaðra) voru margir aðskilnaðarsinnar. Þeir höfðu sagt skilið við Evangelísku kirkjuna í Württemberg, því kennimenn hennar vildu ekki taka undir þá útreikninga að Kristur kæmi aftur í júní 1836. Eiginlega hefðu aðskilnaðarsinnarnir viljað flytja beint til Jerúsalem. En þar réðu múslímar ríkjum og því kom það ekki til greina.  Því varð Suður-Kákasus að duga. Að sögn þeirra sem þóttust þekkja aðstæður væri hægt – af hæstu fjallatoppum Suður-Kákasus  – að sjá fjallið Ararat, en vel gæti verið að Kristur myndi birtast þar á ný.

En fljótlega var þessi útreikningur gleymdur. Fyrir innflytjendurna var aðalmálið að deyja ekki úr hungri og fátækt. Þau snéru sér því með öllum krafti að korn- og vínrækt og að koma upp bústofni. Minjar frá þessum árum sýna að vel tókst til, ríkidæmi þeirra óx stöðugt og voru þýsku þorpin orðin vel stöndug er kom fram á 20. öld. Tveimur árum eftir að seinni heimsstyrjöldin hófst höfðu þýsku innflytjendurnir allir verið hraktir á brott, eða öllu heldur neyddir til að flytjast lengra inn í Sovétríkin.

Það var svo fyrir um 30 árum að fólk erlendis frá gat ferðast nokkuð frjálst um Georgíu og jafnvel sest þar að. Fljótlega fóru fyrstu afkomendur og ættingjar hinna þýsku innflytjenda að mæta á svæðið. Búið var að breyta kirkjunum þeirra í bílaverkstæði, geymslur eða íþróttahús, vínræktin var löngu komin í órækt og þó hin traustu íbúðarhús stæðu enn, voru þau í eigu ókunnugra. Smám saman kom þó að í ljós að þó nokkuð af fólki með þýskar rætur bjó enn á svæðinu. Foreldrar þeirra höfðu verið í tvíþjóða hjónaböndum og verið búnir að taka upp innlend ættarnöfn og tekist að fela þýskan uppruna sinn.

Í Tíblisi var enn þýskur kirkjugarður sem hafði verið látinn óáreittur. Þar fékk hinn „endurfæddi“ lútherski söfnuður að byggja kirkju, safnaðarheimili, prestsbústað og öldrunarheimili með pláss fyrir tólf manns. Þar er í dag líka aðsetur Díakoníunnar, sem rekur öldrunarheimilið og sinnir heimaþjónustu fyrir um 200 aldraða einstæðinga. Oft er þetta fólk eitt á báti af því að börn og barnabörn eru horfin inn í vestrið og upptekin þar af sjálfum sér.

Lútherska kirkjan í Georgíu og Suður-Kákasus er nýjasti meðlimur Lútherska heimssambandsins og því má reikna með að við eigum eftir að heyra meira um starfsemi hennar í framtíðinni.

 

Konan fagnaði nýju tröppunum innilega og af miklu þakklæti – hún vildi ekki láta nafns síns getið: „Í mörg ár hafi hún alltaf verið jafn hissa hvernig hjúkrunarfræðingurinn færi að því að komast upp tröppurnar, sérstaklega með öll innkaupin handa henni.“ – Myndina tók greinarhöfundur                                         

Biskupsvígsla janúar 2023 í Tiflis. Pétur Björgvin Þorsteinsson (Hoffnung für Osteuropa), Ernst-Wilhelm Gohl (biskup evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Rolf Bareis (nývígður biskpu), Christine Keim (stjórnandi samkirkjumála ev.kirkjunnar í Württemberg), Markus Frasch (prófastur í Böblingen)

Biskupsvígsla janúar 2023 í Tíblisi. Pétur Björgvin Þorsteinsson (framkvæmdastjóri verkefnisins „Von fyrir Austur-Evrópu“), Ernst-Wilhelm Gohl (biskup evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Rolf Bareis (nývígður biskup), Christine Keim (stjórnandi samkirkjumála evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Markus Frasch (prófastur í Böblingen)

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við Gestagluggann sest

Pétur Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkefnis sem nefnist Von fyrir Austur-Evrópu  (þ. Hoffnung für Osteuropa). Verkefnið er samstarf evangelísku kirkjunnar og díakoníunnar í Württemberg, Þýskalandi. Pétur tók við starfinu fyrir fimm árum en verkefnið er 30 ára gamalt. Því er ætlað að styðja við díakoníu og hjálparstarf í fyrrverandi austantjaldslöndum. 

Pétur Björgvin er djákni og með M.A. gráðu í Evrópufræðum. Hann fæddist á Dalvík og ólst upp í Þorpinu á Akureyri. Frá því að hann lauk námi í trúaruppeldisfræðum frá Karlshöhe, Ludwigsburg, þar sem hann vígðist til djákna 1997, hefur hann starfað til skiptis í Þýskalandi og á Íslandi. Þetta er önnur greinin sem birtist í Gestaglugganum eftir hann en hin birtist í síðustu viku. Mynd: Manfred Neumann 

„Passaðu þig Pétur, þessar tröppur eru handónýtar,“ sagði biskupinn og prílaði upp fúnar tröppurnar á undan mér. Hann gætti þess að stíga aðallega á burðarbitana sitthvorum megin við þrepin. Timbrið sem hékk saman að því virtist af gömlum vana milli bitanna mátti sannarlega muna sinn fífil fegri. Sjálfsagt hefur það verið kostuleg sjón að sjá þungavigtarmennina tvo, biskupinn og djáknann, príla þarna upp þessar tröppur í litlu þorpi í afdal, 50 km fyrir utan Tíblisi, höfuðborg Georgíu. En upp komumst við. Þegar inn í húsið var komið sagði biskupinn eins og við sjálfan sig: „Það þarf að gera við þessar tröppur.“ Svo var það ekkert rætt frekar, enda dagskrá dagsins stíf, við á ferð í þeim erindagjörðum að taka út starf hjúkrunarfræðinga sem sinna heimaþjónustu á vegum kærleiksþjónustu Lúthersku kirkjunnar.

Tíu vikum seinna sat ég á skrifstofu minni í Stuttgart og las fréttabréf þýskra hollvina kirkjunnar í Georgíu þar sem þau lýstu árlegri ferð sinni um Georgíu í fylgd Rolf Bareis, biskups Lúthersku kirkjunnar í Georgíu og Suður-Kákasus. Þau höfðu verið þar tveimur vikum á eftir mér. Þar stóð:

„… komum við í fjallaþorp í Duscheti-héraðinu. Þar bað biskupinn okkur að stíga út úr bílnum. Heldur urðum við hissa þegar hann opnaði skottið og rétti okkur alls konar verkfæri og slatta af misþykku, hefluðu og fúavörðu timbri. Þegar skottið var orðið tómt arkaði biskupinn af stað og við á eftir.  Gengum við í tíu mínútur eftir stíg sem lá að húsaþyrpingunni efst í þorpinu. Þar nam biskup staðar við heldur hrörlegt hús með enn hrörlegri tröppur við innganginn. Þegar biskupinn hófst umsvifalaust handa við að rífa tröppurnar rann það upp fyrir okkur að við vorum ekki lengur sendinefnd, heldur verkamenn í víngarði Drottins. Tæpri klukkustund seinna höfðum við smíðað þessar fínu, traustu tröppur, eða öllu heldur horft á biskupinn skella upp tröppunum eins og hann væri vanur húsasmiður. Nú birtist kona á tíræðisaldri að okkur virtist í hurðargættinni og blessaði biskupinn í bak og fyrir og sagðist kannski bara reyna að fara út úr húsi við tækifæri, fyrst tröppurnar væru orðnar svona traustar. Í mörg ár hafi hún alltaf verið jafn hissa hvernig hjúkrunarfræðingurinn færi að því að komast upp tröppurnar, sérstaklega með öll innkaupin handa henni.“

Svona eru sögurnar úr kirkjustarfinu víða um heim hugsaði ég, lagði fréttabréfið frá mér og brosti við tilhugsunina um klifur okkar biskupsins upp tröppurnar. Ekkert virtist konan hafa minnst á að hún hafi verið hissa að við komumst upp tröppurnar. Kannski af því að við vorum ekki með innkaupapoka.

Í starfi mínu fyrir hjálparstarf kirkjunnar í Württemberg er ég oft spurður hvernig stuðningur okkar við hin ýmsu verkefni í löndum Austur-Evrópu sé tilkominn. Svarið er alltaf að það séu söguleg og persónuleg tengsl sem hafi leitt til samstarfsins. Ein af skrautlegri og lengri sögunum er um tengsl kirkjunnar í Württemberg við þýsku Lúthersku kirkjuna í Georgíu og Suður-Kákasus.

Rolf Bareis, biskup kirkjunnar um þessar mundir er „lánaður“ til þessarar þjónustu héðan úr Württemberg. Að loknum nær átta árum mun hann snúa til baka í prestsembætti í Württemberg, rétt eins og forverar hans. Þessi stuðningur kemur beint frá Württemberg en ekki EKD eins og oftast er tilfellið. Í samstarfi við Hollvini Lúthersku kirkjunnar  í Georgíu, hefur kirkjan í Württemberg og verkefnið Von fyrir Austur-Evrópu (þ. Hoffnung für Osteuropa) fjármagnað stóran hluta starfsins. Til að tryggja góð samskipti sit ég sjálfur í stjórn díakoníunnar og er því einu sinni til tvisvar á ári í Georgíu. Hollvinir Lúthersku kirkjunnar í Georgíu eru líka með eitt sæti í stjórninni. Þau hafa aðsetur í Þýskalandi og það eina markmið að styðja við Lúthersku kirkjuna og díakoníuna í Georgíu.

Samstarfið á rætur sínar að rekja til ársins 1817. Það ár fluttust um 500 manns búferlum frá Suður-Þýskalandi í héraðið suðaustur af Tíblisi. Flest þeirra voru illa á sig komin og hafði ferðin kostað meira blóð, svita og tár en nokkur hefði getað ímyndað sér. Nóg af ræktarlandi og velsæld í boði Rússakeisara hafði hljómað svo vel. En siglingin eftir Dóná í vélarlausum bátum (þ. Ulmer Schachtel) hafði reynst mörgum um megn og timbrið úr bátunum löngu selt fyrir fæði, lyf og læknisþjónustu. Heimafólk í Georgíu tók í fyrstu þetta fátæka fólk upp á sína arma, en sjálf höfðu þau ekki úr miklu að moða. Því urðu þýsku innflytjendurnir að taka höndum saman og tryggja sér eigið fæði og húsnæði.

Flest fólkið var úr röðum píetista (heittrúaðra) af svæðinu í kringum Stuttgart og fjallahéraðinu „Schwäbische Alb“. Tvennt hjálpaði til við uppbyggingu þýsku þorpanna. Annars vegar var það trúin og sú samstaða sem hún fól í sér. Hins vegar að hér voru bændur og hagleiksfólk á ferð sem kunni til verka. Á næstu árum áttu 2.600 einstaklingar – aðallega frá Suður-Þýskalandi – eftir að bætast í hópinn. En stöðugt reyndi á samstöðu innflytjenda og útistöðum við aðra íbúa á svæðinu fór fjölgandi. Sú saga verður ekki rakin hér að þessu sinni.

Eitt er þó mikilvægt að nefna: Ráðamenn í konungsríkinu Württemberg voru voða fegnir að „þetta fólk“ var farið af landi brott, því á meðal píetistanna (heittrúaðra) voru margir aðskilnaðarsinnar. Þeir höfðu sagt skilið við Evangelísku kirkjuna í Württemberg, því kennimenn hennar vildu ekki taka undir þá útreikninga að Kristur kæmi aftur í júní 1836. Eiginlega hefðu aðskilnaðarsinnarnir viljað flytja beint til Jerúsalem. En þar réðu múslímar ríkjum og því kom það ekki til greina.  Því varð Suður-Kákasus að duga. Að sögn þeirra sem þóttust þekkja aðstæður væri hægt – af hæstu fjallatoppum Suður-Kákasus  – að sjá fjallið Ararat, en vel gæti verið að Kristur myndi birtast þar á ný.

En fljótlega var þessi útreikningur gleymdur. Fyrir innflytjendurna var aðalmálið að deyja ekki úr hungri og fátækt. Þau snéru sér því með öllum krafti að korn- og vínrækt og að koma upp bústofni. Minjar frá þessum árum sýna að vel tókst til, ríkidæmi þeirra óx stöðugt og voru þýsku þorpin orðin vel stöndug er kom fram á 20. öld. Tveimur árum eftir að seinni heimsstyrjöldin hófst höfðu þýsku innflytjendurnir allir verið hraktir á brott, eða öllu heldur neyddir til að flytjast lengra inn í Sovétríkin.

Það var svo fyrir um 30 árum að fólk erlendis frá gat ferðast nokkuð frjálst um Georgíu og jafnvel sest þar að. Fljótlega fóru fyrstu afkomendur og ættingjar hinna þýsku innflytjenda að mæta á svæðið. Búið var að breyta kirkjunum þeirra í bílaverkstæði, geymslur eða íþróttahús, vínræktin var löngu komin í órækt og þó hin traustu íbúðarhús stæðu enn, voru þau í eigu ókunnugra. Smám saman kom þó að í ljós að þó nokkuð af fólki með þýskar rætur bjó enn á svæðinu. Foreldrar þeirra höfðu verið í tvíþjóða hjónaböndum og verið búnir að taka upp innlend ættarnöfn og tekist að fela þýskan uppruna sinn.

Í Tíblisi var enn þýskur kirkjugarður sem hafði verið látinn óáreittur. Þar fékk hinn „endurfæddi“ lútherski söfnuður að byggja kirkju, safnaðarheimili, prestsbústað og öldrunarheimili með pláss fyrir tólf manns. Þar er í dag líka aðsetur Díakoníunnar, sem rekur öldrunarheimilið og sinnir heimaþjónustu fyrir um 200 aldraða einstæðinga. Oft er þetta fólk eitt á báti af því að börn og barnabörn eru horfin inn í vestrið og upptekin þar af sjálfum sér.

Lútherska kirkjan í Georgíu og Suður-Kákasus er nýjasti meðlimur Lútherska heimssambandsins og því má reikna með að við eigum eftir að heyra meira um starfsemi hennar í framtíðinni.

 

Konan fagnaði nýju tröppunum innilega og af miklu þakklæti – hún vildi ekki láta nafns síns getið: „Í mörg ár hafi hún alltaf verið jafn hissa hvernig hjúkrunarfræðingurinn færi að því að komast upp tröppurnar, sérstaklega með öll innkaupin handa henni.“ – Myndina tók greinarhöfundur                                         

Biskupsvígsla janúar 2023 í Tiflis. Pétur Björgvin Þorsteinsson (Hoffnung für Osteuropa), Ernst-Wilhelm Gohl (biskup evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Rolf Bareis (nývígður biskpu), Christine Keim (stjórnandi samkirkjumála ev.kirkjunnar í Württemberg), Markus Frasch (prófastur í Böblingen)

Biskupsvígsla janúar 2023 í Tíblisi. Pétur Björgvin Þorsteinsson (framkvæmdastjóri verkefnisins „Von fyrir Austur-Evrópu“), Ernst-Wilhelm Gohl (biskup evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Rolf Bareis (nývígður biskup), Christine Keim (stjórnandi samkirkjumála evangelísku kirkjunnar í Württemberg), Markus Frasch (prófastur í Böblingen)

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?