Þess er nú minnst víða um heim að 500 ár frá eru liðin frá því að siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther (1483-1546) stóð andspænis valdi ríkis og kirkju í þýsku borginni Worms. Það var 17. og 18. apríl 1521. Eðli máls samkvæmt þá er mikið um að vera í Þýskalandi á þessum tímamótum.

Í Worms hélt Lúther sína frægustu ræðu.

Til hvers í ósköpunum að rifja það upp? Skiptir það einhverju máli?

Jú, þetta er einn af hápunktunum í sögu siðbótarinnar og skylt að minnast þess. Tímamótaræða og margir telja að með henni hafi verið opnaður gluggi til nútímans. Svo er líka ræktarsemi fólgin í því að draga fram sögulega viðburði í hinu lútherska samhengi. Spyrja má til dæmis með hvaða hætti lútherskir söfnuðir og þar með talin þjóðkirkjan telji sig byggja á hugmyndum hans – eða guðfræði – hvar kemur það fram? Í prédikuninni eða starfinu? Hvernig hlúa þessir söfnuðir að sögulegu sambandi sínu við arf siðbótarhreyfingarinnar? Öll verðum við að svara þeirri spurningu umfram það að benda á játningagrundvöll einstakra safnaða og þjóðkirkjunnar.

Rómversk-kaþólska kirkjan hafði þegar tekið á hinum skoðanafasta munki og bannfært hann í janúar 1521. Kirkjuvaldið sýndi klærnar.

Kirkja og ríkisvald þess tíma með keisarann unga Karl V., í broddi fylkingar ætlaði sér að þagga niður í Lúther og kröfðust þess að hann tæki allt aftur sem hann hafði skrifað.

Vald er nauðsynlegt til að halda samfélögum saman sem og ýmsum stofnunum þess. En það er vandmeðfarið. Stundum stendur styrr um valdið og ákvarðanir sem handhafar þess taka. Það er eðlilegt og sérstaklega þar sem lýðræði er í hávegum haft. Vakandi lýðræðisvald kirkju og ríkis gengur hiklaust fram á völl og rökræðir gagnrýni og tekur mark á henni sé hún réttmæt – og starfar fyrir opnum tjöldum. Siðbótar er ætíð þörf – semper reformanda.

Margir sjá í Lúther einstaklinginn sem stóð gegn valdi, veraldlegu valdi og kirkjulegu valdi. Hann fékk sérstaklega að kenna á hinu kirkjulega valdi.

Það er nú svo að oft þolir vald ekki gagnrýni og bregst ókvæða við. Stundum með þögn og kulda. Valdið lyftir líka oft upp öllum spjótum sínum og gengur fram með hörku skreyttri lævísu tungutaki guðfræðinnar og kirkjulegrar tignarraðafræða. Sá sem gagnrýnir er varasamur og sérstaklega í augum valds sem er veikt og valt, spillt og innhverft, – og hjarir stundum á hefðinni einni saman.

Gegn þessu valdi stóð munkurinn Marteinn Lúther. Einstaklingurinn. Allt kirkjufólk getur tekið sér stöðu með honum þegar það horfist í augu við vald ríkis eða kirkju ættskotið því sem Lúther stóð andspænis, hvort heldur nú eða síðar. Vald verður nefnilega alltaf til – sem og – Guði sé lof – þau sem gagnrýna það og sjá til þess að það drepi ekki niður frumkvæði og skapandi mátt einstaklingsins. Sjá til þess að það haldi sér innan síns ramma. Lúthersk kirkja á að vera óhrædd að gagnrýna – það liggur nefnilega í sögulegu eðli hennar að gagnrýna og mótmæla.

„Þingið í Worms táknar hámarkið í ævisögu Lúthers, og í sögu siðbótarinnar. Þar, sem hann stendur einn gegnt rammauknustu völdum heimsins, páfadæminu og keisaravaldinu, er hann glæsilegastur. Til Worms hvarflar hugurinn, er vjer hugsum um hetjuna, spámanninn Lúther. Í Worms var grundvallarregla siðbótarinnar hreinust og háleitust: Rjettur einstaklingsins. Sjaldan hefir glæsilegar komið fram máttur persónuleikans og sigurafl góðs málstaðar.“ Marteinn Lúther, Magnús Jónsson, bls. 79. R. 1917.

Ræðu Lúthers 18. apríl 1521 má lesa í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar hér, en hún birtist í bókinni Marteinn Lúther, úrval rita 1, 1517-1523, bls. 263-266. Hún er birt með góðfúslegu leyfi útgefanda, Skálholtsútgáfunnar. Þessa ræðu flutti Lúther blaðalaust. Enginn ritaði hana niður. Hún var fyrst flutt á þýsku og síðan á latínu að ósk keisarans. Ræðuna skrifaði Lúther nokkru síðar niður eftir minni.

Um þessa ræðu var fjallað ítarlega í Kirkjublaðinu.is.

Í ræðunni svarar Lúther sem sagt tveimur spurningum:

Var hann höfundur þeirra bóka sem gefnar höfðu verið út undir nafni hans? Ef svo var, stóð hann við það sem hann hafði skrifað eða vildi hann draga eitthvað af því til baka?

Lúther var síðan dæmdur útlægur og réttdræpur. Hið sama gilti um fylgismenn hans. Þess vegna var skotið yfir hann skjólshúsi í Wartburgarkastala.

Lokaorð ræðunnar eru sem hornsteinn siðbótarkristni og eiga enn við í dag, Biblían er þar enn í öndvegi sem og skynsemin. Þá er hollt að minnast þess að enn skjátlast yfirvöldum ríkis og kirkju iðulega – og það fer ekki fram hjá neinum – og af því verður að læra:

Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar – og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga – þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni. Svo hjálpi mér guð. Amen. (Marteinn Lúther, Úrval rita 1, 1517-1523, Varnarræða í Worms, ísl. þýðin. dr. Gunnar Kristjánsson, R. 2017, bls. 266).


Marteinn Lúther í Worms 18. april 1521 – mynd: Wikimedia commons

Hér er ræðan í heild sinni í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar, með leyfi útgefanda, Skálholtsútgáfunnar:

Varnarræða í Worms flutt 18. apríl 1521:

Allranáðugasti herra og keisari!

Hávirðulegu furstar!

Náðugu herrar!

Eins og ráð var fyrir gert kem ég á þeirri stundu, sem mér var ætluð í gær, og bið og vona, í nafni Guðs náðar, að hinar allranáðugustu hátignir og hinir hávirðulegu furstar og herrar hlýði náðarsamlegast á málstað minn, sem er, vona ég, réttur og sannur. Fari svo að vanþekking mín valdi því að ég ávarpi einhvern ekki sem vera ber eða mér verði eitthvað annað á í hirðsiðum og hefðum, þá bið ég þess, að mér verði það vinsamlega fyrirgefið; því að ég er ekki alinn upp við hirðina, heldur innan hins þrönga hrings munksins og get einungis sagt um sjálfan mig að ég hafi til þessa dags talið það eitt eftirsóknarvert í ræðum mínum og ritum að hafa virðingu Guðs í heiðri og keppa eftir því að fræða einföld hjörtu kristinna manna.

Allranáðugasti keisari, hávirðulegu furstar! Hin allranáðugasta hátign beindi til mín tveimur spurningum í gær: hvort ég viðurkenndi tilgreindar bækur, sem komið hafa út sem mín verk og í mínu nafni, hvort ég héldi mér við að verja þær og hvort ég væri fús til þess að afturkalla þær. Við fyrra atriðinu gaf ég þegar ákveðið svar og mun ekki fyrirverða mig fyrir að standa við það um alla eilífð: Þetta eru mínar bækur sem ég hef sjálfur gefið út í mínu nafni, þó með þeim fyrirvara að illvilji óvinaminna eða óviðeigandi hugkvæmni þeirra hafi breytt einhverju eða stytt eftir á. Því að ég viðurkenni eingöngu það sem ég einn og sjálfur hef skrifað og frá mér sjálfum er komið en engar snjallar útleggingar af annarra hálfu.

Viðvíkjandi síðari spurningunni bið ég yðar allranáðugustu hátign og furstalegu náðir að hafa það íhuga að bækur mínar eru ekki allar af sama tagi.

Fyrst eru bækur þar sem ég fjalla um rétta trú og rétt siðferði á einfaldan og evangelískan hátt, þannig að andstæðingar mínir verði að viðurkenna að þær eru gagnlegar, hættulausar og afar nytsamlegt lesefni fyrir kristna manneskju. Já, þrátt fyrir eindregna óvináttu er viðurkennt í páfabréfinu að nokkrar bóka minna séu algjörlega óskaðlegar, eigi að síður eru þær fordæmdar þar í ævintýralegum dómi. Ætti ég nú að byrja á því að afneita þessum bókum — en þá spyr ég sjálfan mig hvert það mundi leiða? Þá væri ég eini dauðlegi maðurinn sem fordæmdi sannleika sem vinir og óvinir játa sameiginlega, sá eini sem stillti sér upp gegn einróma játningu alls heimsins!

Í öðrum flokki eru bækur þar sem ráðist er á páfadóminn og verk fylgjenda hans, af því að kenningar þeirra og slæmt fordæmi hefur hvort tveggja skaðað alla kristnina bæði andlega og líkamlega. Því verður hvorki neitað né horft framhjá. Því að reynslan kennir það sérhverjum manni, og almenn óánægja er þar til vitnis, að lög og mannasetningar páfanna hafa bundið samvisku hinnar trúuðu kyrfilega, íþyngt þeim og kvalið. Ótrúleg harðstjórn þeirra hefur sölsað undir sig eigur og eignir og heldur þeirri háttsemi áfram, einkum og sér í lagi bitnar þetta á okkar merkilegu þýsku þjóð. Þetta sjáið þið best sjálfir í reglugerðum ykkar, hvað stendur ekki í málsgreinum 9 og 25, spurningum 1 og 9: Páfalög, sem eru andstæð kenningu fagnaðarerindisins og kennisetningum þess og kennisetningum kirkjufeðranna, ber að skoða sem rangar og ógildar. Ef ég ætti að afneita þessum bókum væri ég að styðja harðstjórnina og styrkja hana í sessi, ég væri ekki aðeins að opna lítinn glugga fyrir þessa guðlausu eyðileggingarsmiðju, heldur væri ég að opna dyr og hlið enn meir og greiða fyrir störfum hennar meir en nokkru sinni fyrr. Þannig kæmi afneitun mín þessum takmarkalausa og óforskammaða illvilja að gagni og veldi hans yrði til þess að kúga fátækan almúgann enn frekar en áður, og að þessu sinni rækilega grundvallað og tryggt þegar haft er í huga að fólk mun tala um að ég hefði gert þetta að beiðni yðar allranáðugustu hátignar og alls rómverska ríkisins. Guð minn góður, hve skelfilega yrði ég þá harðneskju og harðstjórn að gagni!

Í þriðja lagi eru svo bækur sem ég hef skrifað gegn einstaklingum sem hafa svo að segja í eigin nafni gert sér far um að verja rómversku harðstjórnina og skaðað kristindóminn eins og ég hef haldið fram. Ég viðurkenni að ég hef gengið harðar gegn þessum mönnum heldur en viðeigandi var vegna þess að um trúna var að ræða og einnig með hliðsjón af minni stöðu. Því að ég lít ekki á mig sem dýrling og er ekki að verja eigin lífsmáta, heldur kenningu Krists. Samt væri ekki rétt af mér að afneita þessum bókum frekar en hinum; því að það hefði í för með sér að guðlaus harðstjórnin gæti þá vísað á mig og sýnt fólki enn meiri grimmd og harðneskju en nokkru sinni fyrr.

En ég er manneskja og ekki Guð. Þess vegna get ég ekki varið rit mín með öðrum hætti en Herrann Kristur varði sína eigin kenningu. Þegar Annas spurði hann um kenningu hans og þjónninn hafði gefið honum kinnhest sagði hann: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið …“[1] Herrann sjálfur, sem vissi þó að honum gat ekki skjátlast, taldi það ekki út í hött að hlusta á sönnun gegn kenningu sinni og það af einum vesælum þjóni. Hversu miklu heldur ætti ég ekki, aumur maður, sem getur auðveldlega skjátlast, að vera reiðubúinn til þess að óska eftir og taka á móti hverri gagnrýni á mína kenningu. Þess vegna bið ég yður, í nafni guðlegrar miskunnsemi, allranáðugasta hátign, hávirðulegu og náðarsamlegustu furstar eða hver sem hlut á að máli, af æðstu eða lægstu stöðu, að leggja fram fyrir mig sannanir, lögsækja mig og yfirbuga með vitnisburði spámannlegra eða evangelískra rita. Ég mun þá fúslega afneita hverri þeirri villu sem á mig sannast, já, ég verð þá sá fyrsti til að varpa ritum mínum á eldinn.

Af þessu mætti ljóst vera að ég hef hugleitt vandlega og metið raunir, hættur og átök sem upp hafa komið um víða veröld vegna kenningar minnar eins og mér var leitt hér fyrir sjónir í gær með alvöruþunga. Ég gleðst mjög yfir því að sjá þann óróa og þau átök sem upp koma vegna Guðs orðs. Því að svona er þessu háttað, þetta er leiðin til árangurs sem fylgir Guðs orði, eins og Kristur segir: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að flytja frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum …“[2] Þess vegna verðum við að hugleiða hve undursamlegur og óttalegur Guð er í ákvörðunum sínum, að endalokin á því, sem við settum í gang til þess að hafa hemil á óróanum, hefjast ekki með því að við bölvum Guðs orði til þess eins að setja í gang nýtt syndaflóð með óbærilegum kvölum. Við hljótum að segja sem svo að stjórn okkar unga, framúrskarandi Karls keisara, sem vonir okkar eru bundnar við, næst Guði, megi ekki taka afdrifaríka stefnubreytingu til verri vegar.

Ég gæti tekið hér mörg dæmi úr Ritningunni um faraó, Babýloníukonung og Ísraelskonunga, hvernig þeir stefndu beint í ógæfuna þegar þeir höfðu gert einstaklega snjallar áætlanir um að koma á friði og skipulagi í ríkjum sínum. Því að hann, Guð, nær hinum lævísu í lævísi þeirra og umbyltir fjöllunum áður en þeir átta sig. Þess vegna þörfnumst við óttans við Guð. Ég segi þetta ekki vegna þess að hinir háu herrar þurfi minnar kennslu við eða hvatningar, heldur af því að ég vildi ekki svíkja Þýskaland, sem ég er skuldbundinn, um þjónustu mína.

Með þessu vildi ég fela mig yðar allranáðarsamlegustu keisaralegu hátign og náðugu furstum íauðmýkt og bið þess að þér munið ekki láta villast af tilefnislausum ákafa andstæðinga minna í minn garð. Ég er kominn að lokum …

Af því að yðar allranáðugasta hátign og náðugu furstar krefjist einfalds svars skal ég að meinalausu segja það hreint út, þannig:

Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar—og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga—þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni.

Svo hjálpi mér Guð. Amen.

[1] Jóh 18.23

[2] Matt 10.34 o. áfr.

Minnismerki um Lúther og siðbótarmennina í Worms – mynd: Wikimedia commons

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þess er nú minnst víða um heim að 500 ár frá eru liðin frá því að siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther (1483-1546) stóð andspænis valdi ríkis og kirkju í þýsku borginni Worms. Það var 17. og 18. apríl 1521. Eðli máls samkvæmt þá er mikið um að vera í Þýskalandi á þessum tímamótum.

Í Worms hélt Lúther sína frægustu ræðu.

Til hvers í ósköpunum að rifja það upp? Skiptir það einhverju máli?

Jú, þetta er einn af hápunktunum í sögu siðbótarinnar og skylt að minnast þess. Tímamótaræða og margir telja að með henni hafi verið opnaður gluggi til nútímans. Svo er líka ræktarsemi fólgin í því að draga fram sögulega viðburði í hinu lútherska samhengi. Spyrja má til dæmis með hvaða hætti lútherskir söfnuðir og þar með talin þjóðkirkjan telji sig byggja á hugmyndum hans – eða guðfræði – hvar kemur það fram? Í prédikuninni eða starfinu? Hvernig hlúa þessir söfnuðir að sögulegu sambandi sínu við arf siðbótarhreyfingarinnar? Öll verðum við að svara þeirri spurningu umfram það að benda á játningagrundvöll einstakra safnaða og þjóðkirkjunnar.

Rómversk-kaþólska kirkjan hafði þegar tekið á hinum skoðanafasta munki og bannfært hann í janúar 1521. Kirkjuvaldið sýndi klærnar.

Kirkja og ríkisvald þess tíma með keisarann unga Karl V., í broddi fylkingar ætlaði sér að þagga niður í Lúther og kröfðust þess að hann tæki allt aftur sem hann hafði skrifað.

Vald er nauðsynlegt til að halda samfélögum saman sem og ýmsum stofnunum þess. En það er vandmeðfarið. Stundum stendur styrr um valdið og ákvarðanir sem handhafar þess taka. Það er eðlilegt og sérstaklega þar sem lýðræði er í hávegum haft. Vakandi lýðræðisvald kirkju og ríkis gengur hiklaust fram á völl og rökræðir gagnrýni og tekur mark á henni sé hún réttmæt – og starfar fyrir opnum tjöldum. Siðbótar er ætíð þörf – semper reformanda.

Margir sjá í Lúther einstaklinginn sem stóð gegn valdi, veraldlegu valdi og kirkjulegu valdi. Hann fékk sérstaklega að kenna á hinu kirkjulega valdi.

Það er nú svo að oft þolir vald ekki gagnrýni og bregst ókvæða við. Stundum með þögn og kulda. Valdið lyftir líka oft upp öllum spjótum sínum og gengur fram með hörku skreyttri lævísu tungutaki guðfræðinnar og kirkjulegrar tignarraðafræða. Sá sem gagnrýnir er varasamur og sérstaklega í augum valds sem er veikt og valt, spillt og innhverft, – og hjarir stundum á hefðinni einni saman.

Gegn þessu valdi stóð munkurinn Marteinn Lúther. Einstaklingurinn. Allt kirkjufólk getur tekið sér stöðu með honum þegar það horfist í augu við vald ríkis eða kirkju ættskotið því sem Lúther stóð andspænis, hvort heldur nú eða síðar. Vald verður nefnilega alltaf til – sem og – Guði sé lof – þau sem gagnrýna það og sjá til þess að það drepi ekki niður frumkvæði og skapandi mátt einstaklingsins. Sjá til þess að það haldi sér innan síns ramma. Lúthersk kirkja á að vera óhrædd að gagnrýna – það liggur nefnilega í sögulegu eðli hennar að gagnrýna og mótmæla.

„Þingið í Worms táknar hámarkið í ævisögu Lúthers, og í sögu siðbótarinnar. Þar, sem hann stendur einn gegnt rammauknustu völdum heimsins, páfadæminu og keisaravaldinu, er hann glæsilegastur. Til Worms hvarflar hugurinn, er vjer hugsum um hetjuna, spámanninn Lúther. Í Worms var grundvallarregla siðbótarinnar hreinust og háleitust: Rjettur einstaklingsins. Sjaldan hefir glæsilegar komið fram máttur persónuleikans og sigurafl góðs málstaðar.“ Marteinn Lúther, Magnús Jónsson, bls. 79. R. 1917.

Ræðu Lúthers 18. apríl 1521 má lesa í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar hér, en hún birtist í bókinni Marteinn Lúther, úrval rita 1, 1517-1523, bls. 263-266. Hún er birt með góðfúslegu leyfi útgefanda, Skálholtsútgáfunnar. Þessa ræðu flutti Lúther blaðalaust. Enginn ritaði hana niður. Hún var fyrst flutt á þýsku og síðan á latínu að ósk keisarans. Ræðuna skrifaði Lúther nokkru síðar niður eftir minni.

Um þessa ræðu var fjallað ítarlega í Kirkjublaðinu.is.

Í ræðunni svarar Lúther sem sagt tveimur spurningum:

Var hann höfundur þeirra bóka sem gefnar höfðu verið út undir nafni hans? Ef svo var, stóð hann við það sem hann hafði skrifað eða vildi hann draga eitthvað af því til baka?

Lúther var síðan dæmdur útlægur og réttdræpur. Hið sama gilti um fylgismenn hans. Þess vegna var skotið yfir hann skjólshúsi í Wartburgarkastala.

Lokaorð ræðunnar eru sem hornsteinn siðbótarkristni og eiga enn við í dag, Biblían er þar enn í öndvegi sem og skynsemin. Þá er hollt að minnast þess að enn skjátlast yfirvöldum ríkis og kirkju iðulega – og það fer ekki fram hjá neinum – og af því verður að læra:

Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar – og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga – þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni. Svo hjálpi mér guð. Amen. (Marteinn Lúther, Úrval rita 1, 1517-1523, Varnarræða í Worms, ísl. þýðin. dr. Gunnar Kristjánsson, R. 2017, bls. 266).


Marteinn Lúther í Worms 18. april 1521 – mynd: Wikimedia commons

Hér er ræðan í heild sinni í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar, með leyfi útgefanda, Skálholtsútgáfunnar:

Varnarræða í Worms flutt 18. apríl 1521:

Allranáðugasti herra og keisari!

Hávirðulegu furstar!

Náðugu herrar!

Eins og ráð var fyrir gert kem ég á þeirri stundu, sem mér var ætluð í gær, og bið og vona, í nafni Guðs náðar, að hinar allranáðugustu hátignir og hinir hávirðulegu furstar og herrar hlýði náðarsamlegast á málstað minn, sem er, vona ég, réttur og sannur. Fari svo að vanþekking mín valdi því að ég ávarpi einhvern ekki sem vera ber eða mér verði eitthvað annað á í hirðsiðum og hefðum, þá bið ég þess, að mér verði það vinsamlega fyrirgefið; því að ég er ekki alinn upp við hirðina, heldur innan hins þrönga hrings munksins og get einungis sagt um sjálfan mig að ég hafi til þessa dags talið það eitt eftirsóknarvert í ræðum mínum og ritum að hafa virðingu Guðs í heiðri og keppa eftir því að fræða einföld hjörtu kristinna manna.

Allranáðugasti keisari, hávirðulegu furstar! Hin allranáðugasta hátign beindi til mín tveimur spurningum í gær: hvort ég viðurkenndi tilgreindar bækur, sem komið hafa út sem mín verk og í mínu nafni, hvort ég héldi mér við að verja þær og hvort ég væri fús til þess að afturkalla þær. Við fyrra atriðinu gaf ég þegar ákveðið svar og mun ekki fyrirverða mig fyrir að standa við það um alla eilífð: Þetta eru mínar bækur sem ég hef sjálfur gefið út í mínu nafni, þó með þeim fyrirvara að illvilji óvinaminna eða óviðeigandi hugkvæmni þeirra hafi breytt einhverju eða stytt eftir á. Því að ég viðurkenni eingöngu það sem ég einn og sjálfur hef skrifað og frá mér sjálfum er komið en engar snjallar útleggingar af annarra hálfu.

Viðvíkjandi síðari spurningunni bið ég yðar allranáðugustu hátign og furstalegu náðir að hafa það íhuga að bækur mínar eru ekki allar af sama tagi.

Fyrst eru bækur þar sem ég fjalla um rétta trú og rétt siðferði á einfaldan og evangelískan hátt, þannig að andstæðingar mínir verði að viðurkenna að þær eru gagnlegar, hættulausar og afar nytsamlegt lesefni fyrir kristna manneskju. Já, þrátt fyrir eindregna óvináttu er viðurkennt í páfabréfinu að nokkrar bóka minna séu algjörlega óskaðlegar, eigi að síður eru þær fordæmdar þar í ævintýralegum dómi. Ætti ég nú að byrja á því að afneita þessum bókum — en þá spyr ég sjálfan mig hvert það mundi leiða? Þá væri ég eini dauðlegi maðurinn sem fordæmdi sannleika sem vinir og óvinir játa sameiginlega, sá eini sem stillti sér upp gegn einróma játningu alls heimsins!

Í öðrum flokki eru bækur þar sem ráðist er á páfadóminn og verk fylgjenda hans, af því að kenningar þeirra og slæmt fordæmi hefur hvort tveggja skaðað alla kristnina bæði andlega og líkamlega. Því verður hvorki neitað né horft framhjá. Því að reynslan kennir það sérhverjum manni, og almenn óánægja er þar til vitnis, að lög og mannasetningar páfanna hafa bundið samvisku hinnar trúuðu kyrfilega, íþyngt þeim og kvalið. Ótrúleg harðstjórn þeirra hefur sölsað undir sig eigur og eignir og heldur þeirri háttsemi áfram, einkum og sér í lagi bitnar þetta á okkar merkilegu þýsku þjóð. Þetta sjáið þið best sjálfir í reglugerðum ykkar, hvað stendur ekki í málsgreinum 9 og 25, spurningum 1 og 9: Páfalög, sem eru andstæð kenningu fagnaðarerindisins og kennisetningum þess og kennisetningum kirkjufeðranna, ber að skoða sem rangar og ógildar. Ef ég ætti að afneita þessum bókum væri ég að styðja harðstjórnina og styrkja hana í sessi, ég væri ekki aðeins að opna lítinn glugga fyrir þessa guðlausu eyðileggingarsmiðju, heldur væri ég að opna dyr og hlið enn meir og greiða fyrir störfum hennar meir en nokkru sinni fyrr. Þannig kæmi afneitun mín þessum takmarkalausa og óforskammaða illvilja að gagni og veldi hans yrði til þess að kúga fátækan almúgann enn frekar en áður, og að þessu sinni rækilega grundvallað og tryggt þegar haft er í huga að fólk mun tala um að ég hefði gert þetta að beiðni yðar allranáðugustu hátignar og alls rómverska ríkisins. Guð minn góður, hve skelfilega yrði ég þá harðneskju og harðstjórn að gagni!

Í þriðja lagi eru svo bækur sem ég hef skrifað gegn einstaklingum sem hafa svo að segja í eigin nafni gert sér far um að verja rómversku harðstjórnina og skaðað kristindóminn eins og ég hef haldið fram. Ég viðurkenni að ég hef gengið harðar gegn þessum mönnum heldur en viðeigandi var vegna þess að um trúna var að ræða og einnig með hliðsjón af minni stöðu. Því að ég lít ekki á mig sem dýrling og er ekki að verja eigin lífsmáta, heldur kenningu Krists. Samt væri ekki rétt af mér að afneita þessum bókum frekar en hinum; því að það hefði í för með sér að guðlaus harðstjórnin gæti þá vísað á mig og sýnt fólki enn meiri grimmd og harðneskju en nokkru sinni fyrr.

En ég er manneskja og ekki Guð. Þess vegna get ég ekki varið rit mín með öðrum hætti en Herrann Kristur varði sína eigin kenningu. Þegar Annas spurði hann um kenningu hans og þjónninn hafði gefið honum kinnhest sagði hann: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið …“[1] Herrann sjálfur, sem vissi þó að honum gat ekki skjátlast, taldi það ekki út í hött að hlusta á sönnun gegn kenningu sinni og það af einum vesælum þjóni. Hversu miklu heldur ætti ég ekki, aumur maður, sem getur auðveldlega skjátlast, að vera reiðubúinn til þess að óska eftir og taka á móti hverri gagnrýni á mína kenningu. Þess vegna bið ég yður, í nafni guðlegrar miskunnsemi, allranáðugasta hátign, hávirðulegu og náðarsamlegustu furstar eða hver sem hlut á að máli, af æðstu eða lægstu stöðu, að leggja fram fyrir mig sannanir, lögsækja mig og yfirbuga með vitnisburði spámannlegra eða evangelískra rita. Ég mun þá fúslega afneita hverri þeirri villu sem á mig sannast, já, ég verð þá sá fyrsti til að varpa ritum mínum á eldinn.

Af þessu mætti ljóst vera að ég hef hugleitt vandlega og metið raunir, hættur og átök sem upp hafa komið um víða veröld vegna kenningar minnar eins og mér var leitt hér fyrir sjónir í gær með alvöruþunga. Ég gleðst mjög yfir því að sjá þann óróa og þau átök sem upp koma vegna Guðs orðs. Því að svona er þessu háttað, þetta er leiðin til árangurs sem fylgir Guðs orði, eins og Kristur segir: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að flytja frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum …“[2] Þess vegna verðum við að hugleiða hve undursamlegur og óttalegur Guð er í ákvörðunum sínum, að endalokin á því, sem við settum í gang til þess að hafa hemil á óróanum, hefjast ekki með því að við bölvum Guðs orði til þess eins að setja í gang nýtt syndaflóð með óbærilegum kvölum. Við hljótum að segja sem svo að stjórn okkar unga, framúrskarandi Karls keisara, sem vonir okkar eru bundnar við, næst Guði, megi ekki taka afdrifaríka stefnubreytingu til verri vegar.

Ég gæti tekið hér mörg dæmi úr Ritningunni um faraó, Babýloníukonung og Ísraelskonunga, hvernig þeir stefndu beint í ógæfuna þegar þeir höfðu gert einstaklega snjallar áætlanir um að koma á friði og skipulagi í ríkjum sínum. Því að hann, Guð, nær hinum lævísu í lævísi þeirra og umbyltir fjöllunum áður en þeir átta sig. Þess vegna þörfnumst við óttans við Guð. Ég segi þetta ekki vegna þess að hinir háu herrar þurfi minnar kennslu við eða hvatningar, heldur af því að ég vildi ekki svíkja Þýskaland, sem ég er skuldbundinn, um þjónustu mína.

Með þessu vildi ég fela mig yðar allranáðarsamlegustu keisaralegu hátign og náðugu furstum íauðmýkt og bið þess að þér munið ekki láta villast af tilefnislausum ákafa andstæðinga minna í minn garð. Ég er kominn að lokum …

Af því að yðar allranáðugasta hátign og náðugu furstar krefjist einfalds svars skal ég að meinalausu segja það hreint út, þannig:

Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða rökum skynseminnar—og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum, því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og þau hafa orðið tvísaga—þá er samviska mín bundin af þeim orðum Guðs sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni.

Svo hjálpi mér Guð. Amen.

[1] Jóh 18.23

[2] Matt 10.34 o. áfr.

Minnismerki um Lúther og siðbótarmennina í Worms – mynd: Wikimedia commons

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir