Það er ekki hægt að sleppa því á þessum sunnudegi 8. janúar 2023 þar sem texti dagsins  segir frá skírn Jesú að minnast á tvær altaristöflur eftir kunna listamenn.

Nokkur stef í altaristöflum eru algengari en önnur. Krossfesting, skírn Jesú, kvöldmáltíðin, upprisan, Emmaus, og Fjallræðan. Oft er einfaldur trékross líka látinn nægja yfir altari.

Ekki þarf að taka fram að sá listamaður sem gerir altaristöflu er mikill vandi á höndum. Jafnan er hann leystur vel.

Stundum tekur tíma fyrir söfnuð að sættast við altaristöfluna. Svo er fólk sem aldrei nær sáttum við hana en lætur það svo sem ekki uppi. Við þekkjum þetta öll. Aldinn maður sagði einhverju sinni við undirritaðan: „Ég lít nú alltaf fram hjá altaristöflunni,“ og bætti svo við lágum og hikandi rómi: „Ég þoli ekki þennan einkennilega svip á frelsaranum.“ Það lá við að þetta væri syndajátning. En það er önnur saga.

Altaristafla er því alvörumál.

Altaristafla er nokkurs konar hjartastaður kirkjunnar enda altarið sjálft helgasti punktur kirkjuhússins.

Jóhannes Kjarval (1885-1972) var beðinn um að gera altaristöflu í kirkjuna á Ríp í Hegranesi, 1924. Hann segist hafa verið í „algyðishorninu“ þegar taflan var pöntuð.[1]

Saga þessar töflu er merkileg og var minnst á sögu hennar hér í Kirkjublaðinu.is en taflan týndist um skeið.

Kjarval stóð á fertugu þegar hann gerði myndina.

„Við erum svo ungir í þessari kirkjulegu list, og auðvitað tók ég það í mál að gera þessa töflu í einfeldni minni,“ sagði hann í Kjarvalskveri, viðtalsbók Matthíasar Johannessens. Hann bætti því við að kannski hefði þetta verið of dýru verði keypt en hann væri „tilbúinn að taka lán til að borga þetta til baka, því þeir verða að vera naskir, þeir kirkjustjórnarmenn.“[2]

Kjarval lýsti sjálfur töflunni svo:

„Það er Unglingur og Skírari og svo mikill er trúnaðurinn á milli þeirra, að Skírarinn heldur með vinstri hendi um báðar hendur Unglingsins, sem hann réttir fram eins og í bænarstillingu í náttúrunni, en Skírarinn lætur svo bunulækinn ofan af berginu renna á handarbak sér, en þá hönd hefur hann lagt á höfuð Unglingsins. Ég hugsa mér að þetta sé lítill lækur, afleggjari frá ánni Jórdan, sem kemur ofan af þessu bergi – þetta hugsa ég mér.“[3]

Þessi altaristafla var aldrei hengd upp í kirkjunni að sögn Kjarvals. Það kann að vera misminni því að í grein í Morgunblaðinu frá 1969 er þessi einstaka saga um Kjarvalstöfluna rifjuð upp. Þar segir að altaristaflan hafi verið komin upp í gullinni umgjörð við vígslu kirkjunnar vorið 1925.[4]

Þegar vígslu var lokið vildu allir að sjálfsögðu skoða töfluna nánar. „Prestarnir fyrst,“ auðvitað! Og kváðu upp dóm:

„Guð minn góður! Þetta getur ekki gengið. Þetta er söguleg fölsun. Hér sýnir málarinn Krist sem ungling, en Jóhannes skírara sem öldung. Biblían segir að aldursmunur þeirra hafi aðeins verið sex mánuðir. Það getur ekki gengið að hafa þessa mynd í guðshúsi.“[5]

Sá dómur stóð. En skyldi hann standa enn?

Það skipti engum togum. Myndin var tekin ofan. Ný pöntuð hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal.

Kjarval fannst ekkert athugavert við afstöðu heimamanna þó hann hefði auðvitað verið leiður yfir því að taflan skyldi ekki verða sett upp. Honum fannst myndin „vera táknræn upp á skírnina, fyrir og eftir kristindóminn.“ Hann sagði að myndin væri „engin mótmæli gegn kristindómnum“ þó hann kallaði hana „Hina heilögu skírn.“[6]

Hér til vinstri er altaristafla Rípurkirkju eftir Guðmund Einarssonar frá Miðdal. Hún kom í kirkjuna árið 1927 í stað myndar Kjarvals.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var fjölhæfur listamaður og fékkst við margar greinar listarinnar. Kunnar lágmyndir eftir hann prýða Landspítalann, sýnir Krist með lærisveinunum, og einnig lágmynd yfir dyrum Landakotskirkju, mynd af Kristi.[7] Hann vann og samkeppni um lágmyndir á húsi Nathans og Olsens í Reykjavík. Guðmundur var um margt ólíkur Kjarval í listsköpun sinni sem og Ásgrími Jónssyni. Með kunnari listaverkum hans er silfurbergshvelfingin í anddyri Háskóla Íslands en þess má geta að Guðmundur var mikill náttúrudýrkandi og fjallamaður.[8]

Altaristafla Guðmundar frá Miðdal í Rípurkirkju frá 1927 er gerólík töflu Kjarvals. Guðmundur er á hefðbundnum módernískum málaranótum og fjarri öllum expressjónisma. Dæmigerð falleg biblíumynd sem ruggaði ekki við prestum, bændum og búaliði. Allir sáttir. Allt er á sínum stað. Jórdan, dúfan, Jóhannes og Kristur á réttum aldri. Geislabaugur í kringum höfuð þeirra beggja. Tvær konur í fjarska með barn sem fylgjast með.

En skyldu þeir Hegranesmenn vilja fá Kjarlvals-altaristöfluna aftur ef hún stæði þeim nú til boða? Það væri skemmtilegt að gera könnun á meðal þeirra Skagfirðinga um málið. Og væri ekki ráð að eftir tvö ár, 2025, héldu þeir ráðstefnu í Skagafirði um altaristöfluna og fleira tengt kirkjumálum? Þá verða hundrað ár frá því að altaristafla Kjarvals kom í kirkjuna – og fór. Er þetta ekki bara góð hugmynd, gott kirkjufólk í Skagafirði og víðar?

Altaristafla Kjarval fór á flakk um skeið og endaði svo í eigu Halldórs Laxness (1902-1998) og er í anddyrinu á Gljúfrasteini. Nú er sem sé þessi merkilega altaristafla Kjarvals komin í eigu íslensku þjóðarinnar eftir ferð norður og suður, og hingað og þangað.

En þetta er sem sé guðspjall dagsins:

Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér. Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“
Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“

Jóhannesarguðspjall 1.29-34

Tilvísanir:

[1] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 7.

[2] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[3] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[4] Hafsteinn Björnsson, „Um sálarrannsóknir, niðurlag,“ Lesbók Morgunblaðsins  10. ágúst 1969. (Þar er birt frásögn Ólafs Sigurðssonar frá Hellulandi frá 24. nóvember 1959, um mál þetta).

[5] Hafsteinn Björnsson, „Um sálarrannsóknir, niðurlag,“ Lesbók Morgunblaðsins  10. ágúst 1969. (Þar er birt frásögn Ólafs Sigurðssonar frá Hellulandi frá 24. nóvember 1959, um mál þetta).

[6] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[7] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist – á 19. og 20. öld – drög að sögulegu yfirliti, I. bindi, (Reykjavík: Helgafell 1964), bls. 216.

[8] Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, II. bindi, (Reykjavík: Listasafn Ísland og Forlagið, 2011, bls. 23-25

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er ekki hægt að sleppa því á þessum sunnudegi 8. janúar 2023 þar sem texti dagsins  segir frá skírn Jesú að minnast á tvær altaristöflur eftir kunna listamenn.

Nokkur stef í altaristöflum eru algengari en önnur. Krossfesting, skírn Jesú, kvöldmáltíðin, upprisan, Emmaus, og Fjallræðan. Oft er einfaldur trékross líka látinn nægja yfir altari.

Ekki þarf að taka fram að sá listamaður sem gerir altaristöflu er mikill vandi á höndum. Jafnan er hann leystur vel.

Stundum tekur tíma fyrir söfnuð að sættast við altaristöfluna. Svo er fólk sem aldrei nær sáttum við hana en lætur það svo sem ekki uppi. Við þekkjum þetta öll. Aldinn maður sagði einhverju sinni við undirritaðan: „Ég lít nú alltaf fram hjá altaristöflunni,“ og bætti svo við lágum og hikandi rómi: „Ég þoli ekki þennan einkennilega svip á frelsaranum.“ Það lá við að þetta væri syndajátning. En það er önnur saga.

Altaristafla er því alvörumál.

Altaristafla er nokkurs konar hjartastaður kirkjunnar enda altarið sjálft helgasti punktur kirkjuhússins.

Jóhannes Kjarval (1885-1972) var beðinn um að gera altaristöflu í kirkjuna á Ríp í Hegranesi, 1924. Hann segist hafa verið í „algyðishorninu“ þegar taflan var pöntuð.[1]

Saga þessar töflu er merkileg og var minnst á sögu hennar hér í Kirkjublaðinu.is en taflan týndist um skeið.

Kjarval stóð á fertugu þegar hann gerði myndina.

„Við erum svo ungir í þessari kirkjulegu list, og auðvitað tók ég það í mál að gera þessa töflu í einfeldni minni,“ sagði hann í Kjarvalskveri, viðtalsbók Matthíasar Johannessens. Hann bætti því við að kannski hefði þetta verið of dýru verði keypt en hann væri „tilbúinn að taka lán til að borga þetta til baka, því þeir verða að vera naskir, þeir kirkjustjórnarmenn.“[2]

Kjarval lýsti sjálfur töflunni svo:

„Það er Unglingur og Skírari og svo mikill er trúnaðurinn á milli þeirra, að Skírarinn heldur með vinstri hendi um báðar hendur Unglingsins, sem hann réttir fram eins og í bænarstillingu í náttúrunni, en Skírarinn lætur svo bunulækinn ofan af berginu renna á handarbak sér, en þá hönd hefur hann lagt á höfuð Unglingsins. Ég hugsa mér að þetta sé lítill lækur, afleggjari frá ánni Jórdan, sem kemur ofan af þessu bergi – þetta hugsa ég mér.“[3]

Þessi altaristafla var aldrei hengd upp í kirkjunni að sögn Kjarvals. Það kann að vera misminni því að í grein í Morgunblaðinu frá 1969 er þessi einstaka saga um Kjarvalstöfluna rifjuð upp. Þar segir að altaristaflan hafi verið komin upp í gullinni umgjörð við vígslu kirkjunnar vorið 1925.[4]

Þegar vígslu var lokið vildu allir að sjálfsögðu skoða töfluna nánar. „Prestarnir fyrst,“ auðvitað! Og kváðu upp dóm:

„Guð minn góður! Þetta getur ekki gengið. Þetta er söguleg fölsun. Hér sýnir málarinn Krist sem ungling, en Jóhannes skírara sem öldung. Biblían segir að aldursmunur þeirra hafi aðeins verið sex mánuðir. Það getur ekki gengið að hafa þessa mynd í guðshúsi.“[5]

Sá dómur stóð. En skyldi hann standa enn?

Það skipti engum togum. Myndin var tekin ofan. Ný pöntuð hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal.

Kjarval fannst ekkert athugavert við afstöðu heimamanna þó hann hefði auðvitað verið leiður yfir því að taflan skyldi ekki verða sett upp. Honum fannst myndin „vera táknræn upp á skírnina, fyrir og eftir kristindóminn.“ Hann sagði að myndin væri „engin mótmæli gegn kristindómnum“ þó hann kallaði hana „Hina heilögu skírn.“[6]

Hér til vinstri er altaristafla Rípurkirkju eftir Guðmund Einarssonar frá Miðdal. Hún kom í kirkjuna árið 1927 í stað myndar Kjarvals.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var fjölhæfur listamaður og fékkst við margar greinar listarinnar. Kunnar lágmyndir eftir hann prýða Landspítalann, sýnir Krist með lærisveinunum, og einnig lágmynd yfir dyrum Landakotskirkju, mynd af Kristi.[7] Hann vann og samkeppni um lágmyndir á húsi Nathans og Olsens í Reykjavík. Guðmundur var um margt ólíkur Kjarval í listsköpun sinni sem og Ásgrími Jónssyni. Með kunnari listaverkum hans er silfurbergshvelfingin í anddyri Háskóla Íslands en þess má geta að Guðmundur var mikill náttúrudýrkandi og fjallamaður.[8]

Altaristafla Guðmundar frá Miðdal í Rípurkirkju frá 1927 er gerólík töflu Kjarvals. Guðmundur er á hefðbundnum módernískum málaranótum og fjarri öllum expressjónisma. Dæmigerð falleg biblíumynd sem ruggaði ekki við prestum, bændum og búaliði. Allir sáttir. Allt er á sínum stað. Jórdan, dúfan, Jóhannes og Kristur á réttum aldri. Geislabaugur í kringum höfuð þeirra beggja. Tvær konur í fjarska með barn sem fylgjast með.

En skyldu þeir Hegranesmenn vilja fá Kjarlvals-altaristöfluna aftur ef hún stæði þeim nú til boða? Það væri skemmtilegt að gera könnun á meðal þeirra Skagfirðinga um málið. Og væri ekki ráð að eftir tvö ár, 2025, héldu þeir ráðstefnu í Skagafirði um altaristöfluna og fleira tengt kirkjumálum? Þá verða hundrað ár frá því að altaristafla Kjarvals kom í kirkjuna – og fór. Er þetta ekki bara góð hugmynd, gott kirkjufólk í Skagafirði og víðar?

Altaristafla Kjarval fór á flakk um skeið og endaði svo í eigu Halldórs Laxness (1902-1998) og er í anddyrinu á Gljúfrasteini. Nú er sem sé þessi merkilega altaristafla Kjarvals komin í eigu íslensku þjóðarinnar eftir ferð norður og suður, og hingað og þangað.

En þetta er sem sé guðspjall dagsins:

Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér. Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“
Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“

Jóhannesarguðspjall 1.29-34

Tilvísanir:

[1] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 7.

[2] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[3] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[4] Hafsteinn Björnsson, „Um sálarrannsóknir, niðurlag,“ Lesbók Morgunblaðsins  10. ágúst 1969. (Þar er birt frásögn Ólafs Sigurðssonar frá Hellulandi frá 24. nóvember 1959, um mál þetta).

[5] Hafsteinn Björnsson, „Um sálarrannsóknir, niðurlag,“ Lesbók Morgunblaðsins  10. ágúst 1969. (Þar er birt frásögn Ólafs Sigurðssonar frá Hellulandi frá 24. nóvember 1959, um mál þetta).

[6] Matthías Johannessen, Kjarvalskver, (Reykjavík: Helgafell, 1974), bls. 9.

[7] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist – á 19. og 20. öld – drög að sögulegu yfirliti, I. bindi, (Reykjavík: Helgafell 1964), bls. 216.

[8] Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, II. bindi, (Reykjavík: Listasafn Ísland og Forlagið, 2011, bls. 23-25

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir