Það er sem listamaður flétti saman tvær víddir vitundarinnar, annars vegar andrána sem er kvik á fæti og hins vegar seigfljótandi vitund okkar um sögu og tíma í verkinu „Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn.”

Listamaðurinn Paul Gauguin beinir augum sínum í umræddu listaverki að trúarlegum viðburði sem hefur víðtæka skírskotun til glímu mannsins við almættið og sjálfan sig; glímu við samfélag og annað fólk. Það er trúarleg tilvistarglíma sem allir kannast við. En þó er það ekki frásögn verksins sem kom því einu og sér á spjöld listasögunnar heldur hvernig það er unnið. Verkið telst verða nútímalegt tímamótaverk.

Áður en lengra er haldið verður vikið ögn að sjálfum listamanninum og nútímanum í listasögunni.

Hver var Paul Gauguin?

Paul Gauguin (1848-1903) var franskur listamaður. Áður en hann sneri sér alfarið að list fékkst hann við verðbréfaviðskipti og náði góðum árangri á þeim vettvangi. Hann var svo að segja sjálflærður í listinni og að endingu gaf hann sig listinni algerlega á vald 1883. Í fyrstu farnaðist honum ekki vel á þeim vettvangi og verk hans seldust treglega.

Gauguin dróst að sterkum litum og óvenjulegu umhverfi sem minnti hann á æskustöðvarnar. Hann var alinn upp í Lima í Perú frá tveggja ára aldri til sjö ára aldurs en móðir hans var þaðan. Bretaníuskagi í Norðvestur-Frakklandi og lífið þar heillaði hann og þar málaði hann þá mynd sem hér verður skoðuð. Hann fórnaði borgaralegu lífi og fjölskyldu sinni fyrir listina og taldi að listamaður gæti ekki lifað öðruvísi en fyrir listina með sínum hætti. Gauguin bjó síðustu æviár sín á Tahiti á Suðurhafseyjum og þar gerði hann margar myndir. Hann lést þar bláfátækur og sjúkur. Það átti fyrir Gauguin að liggja eins og mörgum listamönnum að verða ekki heimskunnur né heldur metinn að verðleikum fyrr en hann var allur.[1]

En hvað er nútími þegar horft er til listasögunnar?

Hugtakið nútími (eða módernismi, nútímahyggja) er gjarnan notað um stefnu eða tímabil í listum frá seinni hluti nítjándu aldar og fram á miða tuttugustu öld – eða seinni hluta hennar. Nútíminn verður nokkurs konar regnhlífahugtak yfir stefnur og strauma hvort tveggja í myndlist og bókmenntum eins og impressjónisma, expressjónisma, fútúrisma, dadaisma og súrrelaisma. Nútíminn er nátengdur samfélagsþróun í borgum Vesturlanda sem og nýjum stefnum í heimspeki, sálarfræði og félagsfræði.[2] Það getur verið umdeilt að marka upphaf stefnu með einhverju einu dæmi eða tilviki. En gjarnan hefur verið bent á grein Charles Baudelaire (1821-1867), „Málari nútímans,“ (The Painter of Modern Life).[3]

Vinnustofa listamannsins, eftir Gustave Courbet (1819-1877)

Vormerki um nútímalistaverk var einnig málverk Gustave Courbet (1819-1877) frá 1854-1855, „Vinnustofa listamannsins,“ raunveruleg allegóría.[4] Michel Foucault sagði að Charles Baudelaire hafi gert sér einna skýrasta grein fyrir hvað einkenndi nútíma nítjándu aldar. Þar kemur fram hefðarrof og sömuleiðis síbreytileiki.[5]

Listamaður markar spor í söguna

Ef til vill var Gauguin frjálsari með pensilinn þar sem hann var ekki skólaður á svipaðan hátt og aðrir listamenn. Auk þess fékkst hann við gerð skúlptúra og prentverka.

Gauguin sveigði í þessu verki sínu, „Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn,“ alfarið frá braut impressjónismans[6] og yfir til þess sem kallast synþetismi[7]. Hann kveður natúralismann sömuleiðis sem var að áliti hans „andstyggileg villa“ og flytur sig svo að segja yfir í stíl drauma, vitrana og hugsæis með táknvísum, táknum og ákveðinni litatjáningu.[8] Pensildrættir voru afdráttarlausir og litir sterkir, ýktir og formin jafnvel bjöguð.[9] Stærðarhlutföll eru nokkuð á reiki – engillinn og Jakob ættu að vera stærri. Hann notar eintóna liti (e. flat colours). Rauði liturinn, brúnn trjábolur, svört klæði, hvít höfuðföt, skuggar í lágmarki og skýrar útlínur. Skepnan sem er til vinstri er kálfur eða kýr. Hún gæti verið tákn fyrir móðurmjólk eða móður jörð.[10]

Hér glímir Gauguin við hinn sjónræna veruleika með sérstökum hætti og er staddur í Pont-Aven á Bretaníuskaga. Í fyrsta lagi teflir hann fram tveimur tímaskeiðum. Annars vegar frómum bændakonur 19. aldar og svo fornri biblíulegri frásögn úr Gamla testamentinu. Sýn hverra er þetta? Listamannsins eða kvennanna tólf og prestsins lengst til hægri? Nema hvort tveggja sé. Er þetta kannski allegóría?

Bændakonur í hefðbundnum kvenbúningum frá Bretaníuskaga eru sem ytri heimur og fylgjast andaktugar með því sem fram fer handan trjábolsins sem skilur að þennan heim og annan, heim draum og hugsýnar. Ekki fráleitt að túlka tréð sem lífsins tré eða skilningstré góðs og ills.[11] Handan trésins fer glíman fram, milli manns og Guðs. Eða mannsins við samvisku sína.[12] Það er rauði liturinn sem tengir þessa heima saman. Gauguin á að hafa sagt að litur og línur geti verið tjáning í sjálfu sér.[13] Sterkur er rauði liturinn og minnir á blóðvöll. Rauður litur táknar oft lífskraftinn og fórn – auk þess að vera mikilvægt tákn í kristinni trú í tengslum við dauða Krists á krossi.[14]

Japönsk áhrif í verkinu koma fram í skærum litum, skipulagi myndflatar og línum. Þá eru ótaldir „glímukapparnir“ sem minna á súmóglímukappa – fyrirmyndin jafnvel sótt til Hokusai.[15]

Með verki sínu og stíl hafði Gauguin mikil áhrif sem og með breyttum staðháttum með því að flytja til Thaíti, Suðurhafseyja; þýskir expressjónistar og vinahringur Picasso voru afar hrifnir af goðsögunni um Gauguin. Hann hafnaði ekki aðeins hinum hefðbundna natúralisma þar sem markmiðið var að endurspegla hinn ytri heim heldur sló hann og nýjan tón þar sem sjónum var beint að hinu huglæga, innra lífi mannsins og andlegum þáttum.[16]

Hvaðan komum við? Hver erum við? Hvert erum við að fara? Verk eftir Paul Gauguin frá 1897

Tilvistarfræðilegar hugsanir voru honum hugstæðar í fleiri verkum en hér hefur verið rætt um. Skömmu fyrir aldamótin 1900 málaði hann allegóríuverk sem fól í sér tilvistarfræðilegar og trúarlegar spurningar – samanber verkið hér að ofan frá 1897. Nokkru síðar eftir að hann lauk því reyndi hann að farga sér en það mistókst.[17]

Niðurstaða

Það er ekki tilviljun að þetta verk Gauguins, Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn, skipi öndvegi í listasögunni. Það er nútímalegt í þeim skilningi sem vikið var að hér að framan. Auk þess hafði verkið á sinn hátt mikil áhrif á aðra er fengust við málaralist og vakti marga til umhugsunar um möguleika listarinnar og nýs viðhorfs til málverksins – og almennt til listsköpunar. Gauguin raðar öllu upp á nýtt í sínu synþetíska verki. Hefðin er þar rofin og allt virðist nýtt svo vitnað sé til orða Charles Baudelaire hér að framan. Þá er kunnur trúartexti sem fjallar um tilvistarlega glímu mannsins við almættið settur í nýja umgjörð sem kallar án efa fram ýmsar trúar- og heimspekilegar vangaveltur hjá þeim er virðir verkið fyrir sér. Því má segja að listaverkið prédiki listilega.

Tilvísanir

[1] Belinda Thomson, World of Art, Gauguin, (London: Thames  and Hudson, 2020), 11-30 og Ian Chilvers, ritstj., The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, (Oxford: Oxford University Press, 1990), 173-174.

[2] Jakob Benediktsson (ritstj.). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. (Reykjavík: Mál og menning, 1983), 186-187.

[3] Þessi grein var skrifuð árið 1863 og hafði mikil áhrif á listamenn. Höfundur talar um listamanninn sem mann heimsins og hann hafi ástríðu fyrir múgnum og því að geta horfið inn í hann óþekktur þegar hann vill. Hann sé ferðamaður og heimsborgari. Múgurinn í nútímanum sé akkeri hans, ástríða hans og starfi sem renni saman við hold múgsins nánst með mýstískum hætti. Charles Baudelaire, The Painter of Modern Life and Other Essays. Þýdd af Jonathan Mayne. (London: Phaidon Press, 1995 [1863]), 5-9, 12.

[4] R. Richard Brettell, Modern Art 1851-1929 (Oxford: Oxford University Press, 1999), 6.

[5] „Þegar reynt er að skilgreina nútímann er oft skírskotað til vitundar um að tíminn sé ekki samfelldur: hefðin hefur verið rofin, allt virðist nýtt, mönnum sundlar yfir atburðum líðandi stundar. Það er einmitt þetta sem Baudelaire virðist eiga við þegar hann skilgreinir hið nútímalega sem það sem er stundlegt, rennur úr greipum manns, mótast af tilviljunum.“ Michel Foucault, „Hvað er upplýsing?“ þýð. Torfi H. Tulinius, Skírnir 167 (haust 1993), 11.

[6]The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, ritstj. Ian Chilvers (Oxford: Oxford University Press, 1990), 173. Einnig: „Þeim (Cezanne, Gauguin og van Gogh, innsk.) varð ljóst, að í náttúrunni bjuggu önnur öfl, sem ekki urðu túlkuð með aðferðum impressjónismans. Þeir vildu einnig leita tjáningar (í, innsk.) öflum, sem voru í þeim sjálfum.“ Þorvaldur Skúlason: „Málaralist nútímans“, Tímarit Máls og menningar 5 nr. 2 (1942): 157.

[7] Einkennist af stórum flötum, einföldum formum og línum, hreinum litum. Áhersla á tvívídd. Miðstöð hennar var í Bretón, í borginni Pont Aven. Nokkrir er hallir voru undir þessa stefnu héldu samsýningu 1889 og var það eina sýning þeirra. Sem framúrstefna og undirskipuð sýmbólisma var hún mjög áhrifarík á síðari hluta 19. aldar. Sjá: Brettell, R. Richard. Modern Art 1851-1929. (Oxford: Oxford University Press), 1999.

[8] Phoebe Pool, Impressionism (London: Thames and Hudson, 1986 [1967]), 206.

[9] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art (London: Thames and Hudson, 2010), 53.

[10] Hennessy, Kathryn o.fl. Zeichen und Symbole – Ihre Geschichte und Bedeutung, (München: Penguin, Random House, 2020), 54.

[11] „Og Drottinn Guð lét spretta af jörðinni alls konar tré, girnileg á að líta og góð að eta, ásamt lífsins tré í miðjum garðinum og skilningstré góðs og ills.“ 1Mósebók, 2.9, Biblían (Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag og JPV, 2007).

[12] 1Mós 32.22-32: 22: „Um nóttina reis Jakob á fætur, tók báðar konur sínar, báðar ambáttir sínar og syni sína ellefu og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23 Hann leiddi þau yfir ána og allt sem hann átti hafði hann meðferðis. 24 Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. 25 Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. 26 „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. 27 „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. 28 Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ 29 Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. 30 Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“ 31 Þegar hann fór frá Penúel rann sólin upp. Gekk hann þá haltur vegna mjaðmarinnar. 32 Þess vegna eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina sem er ofan á augnakarlinum því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.“ Biblían 2007 (Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag og JPV, 2007).

[13] Dempsey, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art (London: Thames and Hudson, 2010), 55.

[14] Wilson, Matthew. Symbole in der Kunst. Þýsk þýðing úr ensku: Symbols in Art, 2020. (Zürich: Midas 2021), 124.

[15] Ibid., 54. Og: „Japanir tömdu sér þessa list og Kínverjar líka,“ skrifaði Pissaro um þetta verk Gauguin, sjá Eckhard Hollmann, Paul Gauguin – Images from the South Seas (München og New York: Prestel-Verlag 1996), 10.

[16] Phoebe Pool, Impressionism (London: Thames and Hudson, 1986 [1967]), 207.

[17] Ian Chilvers, The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, (Oxford: Oxford University Press, 1990), 174.

Heimildaskrá

Barker, Emma, (ritstj.), Art and Visual Culture 1600-1850, Academy to Avant garde. London: Tate Publishing, 2013.

Baudelaire, Charles, The Painter of Modern Life and Other Essays. Þýdd af Jonathan Mayne. London: Phaidon Press, 1995 [1863].

Brettell, R. Richard, Modern Art 1851-1929. Oxford: Oxford University Press 1999.

Chilvers, Ian (ritstj.), The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists.Oxford: Oxford University Press, 1990.

Dempsey, Amy, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art. London: Thames and Hudson, 2010.

Foucault, Michel, „Hvað er upplýsing?“ Þýdd af Torfa H. Tulinius, Skírnir 176 (haust 1993): 387-405.

Hollmann, Eckhard, Paul Gauguin – Images from the South Seas Münhcen og New York: Prestel-Verlag, 1996.

Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Reykjavík: Mál og menning, 1983.

Hennessy, Kathryn o.fl., Zeichen und Symbole – Ihre Geschichte und Bedeutung, München: Penguin, Random House, 2020.

Pool, Phoebe, Impressionism. London: Thames and Hudson, 1986 [1967].

Wilson, Matthew, Symbole in der Kunst. Þýsk þýðing úr ensku: Symbols in Art, 2020. Zürich: Midas 2021.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er sem listamaður flétti saman tvær víddir vitundarinnar, annars vegar andrána sem er kvik á fæti og hins vegar seigfljótandi vitund okkar um sögu og tíma í verkinu „Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn.”

Listamaðurinn Paul Gauguin beinir augum sínum í umræddu listaverki að trúarlegum viðburði sem hefur víðtæka skírskotun til glímu mannsins við almættið og sjálfan sig; glímu við samfélag og annað fólk. Það er trúarleg tilvistarglíma sem allir kannast við. En þó er það ekki frásögn verksins sem kom því einu og sér á spjöld listasögunnar heldur hvernig það er unnið. Verkið telst verða nútímalegt tímamótaverk.

Áður en lengra er haldið verður vikið ögn að sjálfum listamanninum og nútímanum í listasögunni.

Hver var Paul Gauguin?

Paul Gauguin (1848-1903) var franskur listamaður. Áður en hann sneri sér alfarið að list fékkst hann við verðbréfaviðskipti og náði góðum árangri á þeim vettvangi. Hann var svo að segja sjálflærður í listinni og að endingu gaf hann sig listinni algerlega á vald 1883. Í fyrstu farnaðist honum ekki vel á þeim vettvangi og verk hans seldust treglega.

Gauguin dróst að sterkum litum og óvenjulegu umhverfi sem minnti hann á æskustöðvarnar. Hann var alinn upp í Lima í Perú frá tveggja ára aldri til sjö ára aldurs en móðir hans var þaðan. Bretaníuskagi í Norðvestur-Frakklandi og lífið þar heillaði hann og þar málaði hann þá mynd sem hér verður skoðuð. Hann fórnaði borgaralegu lífi og fjölskyldu sinni fyrir listina og taldi að listamaður gæti ekki lifað öðruvísi en fyrir listina með sínum hætti. Gauguin bjó síðustu æviár sín á Tahiti á Suðurhafseyjum og þar gerði hann margar myndir. Hann lést þar bláfátækur og sjúkur. Það átti fyrir Gauguin að liggja eins og mörgum listamönnum að verða ekki heimskunnur né heldur metinn að verðleikum fyrr en hann var allur.[1]

En hvað er nútími þegar horft er til listasögunnar?

Hugtakið nútími (eða módernismi, nútímahyggja) er gjarnan notað um stefnu eða tímabil í listum frá seinni hluti nítjándu aldar og fram á miða tuttugustu öld – eða seinni hluta hennar. Nútíminn verður nokkurs konar regnhlífahugtak yfir stefnur og strauma hvort tveggja í myndlist og bókmenntum eins og impressjónisma, expressjónisma, fútúrisma, dadaisma og súrrelaisma. Nútíminn er nátengdur samfélagsþróun í borgum Vesturlanda sem og nýjum stefnum í heimspeki, sálarfræði og félagsfræði.[2] Það getur verið umdeilt að marka upphaf stefnu með einhverju einu dæmi eða tilviki. En gjarnan hefur verið bent á grein Charles Baudelaire (1821-1867), „Málari nútímans,“ (The Painter of Modern Life).[3]

Vinnustofa listamannsins, eftir Gustave Courbet (1819-1877)

Vormerki um nútímalistaverk var einnig málverk Gustave Courbet (1819-1877) frá 1854-1855, „Vinnustofa listamannsins,“ raunveruleg allegóría.[4] Michel Foucault sagði að Charles Baudelaire hafi gert sér einna skýrasta grein fyrir hvað einkenndi nútíma nítjándu aldar. Þar kemur fram hefðarrof og sömuleiðis síbreytileiki.[5]

Listamaður markar spor í söguna

Ef til vill var Gauguin frjálsari með pensilinn þar sem hann var ekki skólaður á svipaðan hátt og aðrir listamenn. Auk þess fékkst hann við gerð skúlptúra og prentverka.

Gauguin sveigði í þessu verki sínu, „Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn,“ alfarið frá braut impressjónismans[6] og yfir til þess sem kallast synþetismi[7]. Hann kveður natúralismann sömuleiðis sem var að áliti hans „andstyggileg villa“ og flytur sig svo að segja yfir í stíl drauma, vitrana og hugsæis með táknvísum, táknum og ákveðinni litatjáningu.[8] Pensildrættir voru afdráttarlausir og litir sterkir, ýktir og formin jafnvel bjöguð.[9] Stærðarhlutföll eru nokkuð á reiki – engillinn og Jakob ættu að vera stærri. Hann notar eintóna liti (e. flat colours). Rauði liturinn, brúnn trjábolur, svört klæði, hvít höfuðföt, skuggar í lágmarki og skýrar útlínur. Skepnan sem er til vinstri er kálfur eða kýr. Hún gæti verið tákn fyrir móðurmjólk eða móður jörð.[10]

Hér glímir Gauguin við hinn sjónræna veruleika með sérstökum hætti og er staddur í Pont-Aven á Bretaníuskaga. Í fyrsta lagi teflir hann fram tveimur tímaskeiðum. Annars vegar frómum bændakonur 19. aldar og svo fornri biblíulegri frásögn úr Gamla testamentinu. Sýn hverra er þetta? Listamannsins eða kvennanna tólf og prestsins lengst til hægri? Nema hvort tveggja sé. Er þetta kannski allegóría?

Bændakonur í hefðbundnum kvenbúningum frá Bretaníuskaga eru sem ytri heimur og fylgjast andaktugar með því sem fram fer handan trjábolsins sem skilur að þennan heim og annan, heim draum og hugsýnar. Ekki fráleitt að túlka tréð sem lífsins tré eða skilningstré góðs og ills.[11] Handan trésins fer glíman fram, milli manns og Guðs. Eða mannsins við samvisku sína.[12] Það er rauði liturinn sem tengir þessa heima saman. Gauguin á að hafa sagt að litur og línur geti verið tjáning í sjálfu sér.[13] Sterkur er rauði liturinn og minnir á blóðvöll. Rauður litur táknar oft lífskraftinn og fórn – auk þess að vera mikilvægt tákn í kristinni trú í tengslum við dauða Krists á krossi.[14]

Japönsk áhrif í verkinu koma fram í skærum litum, skipulagi myndflatar og línum. Þá eru ótaldir „glímukapparnir“ sem minna á súmóglímukappa – fyrirmyndin jafnvel sótt til Hokusai.[15]

Með verki sínu og stíl hafði Gauguin mikil áhrif sem og með breyttum staðháttum með því að flytja til Thaíti, Suðurhafseyja; þýskir expressjónistar og vinahringur Picasso voru afar hrifnir af goðsögunni um Gauguin. Hann hafnaði ekki aðeins hinum hefðbundna natúralisma þar sem markmiðið var að endurspegla hinn ytri heim heldur sló hann og nýjan tón þar sem sjónum var beint að hinu huglæga, innra lífi mannsins og andlegum þáttum.[16]

Hvaðan komum við? Hver erum við? Hvert erum við að fara? Verk eftir Paul Gauguin frá 1897

Tilvistarfræðilegar hugsanir voru honum hugstæðar í fleiri verkum en hér hefur verið rætt um. Skömmu fyrir aldamótin 1900 málaði hann allegóríuverk sem fól í sér tilvistarfræðilegar og trúarlegar spurningar – samanber verkið hér að ofan frá 1897. Nokkru síðar eftir að hann lauk því reyndi hann að farga sér en það mistókst.[17]

Niðurstaða

Það er ekki tilviljun að þetta verk Gauguins, Sýnin eftir prédikunina – Jakob glímir við engilinn, skipi öndvegi í listasögunni. Það er nútímalegt í þeim skilningi sem vikið var að hér að framan. Auk þess hafði verkið á sinn hátt mikil áhrif á aðra er fengust við málaralist og vakti marga til umhugsunar um möguleika listarinnar og nýs viðhorfs til málverksins – og almennt til listsköpunar. Gauguin raðar öllu upp á nýtt í sínu synþetíska verki. Hefðin er þar rofin og allt virðist nýtt svo vitnað sé til orða Charles Baudelaire hér að framan. Þá er kunnur trúartexti sem fjallar um tilvistarlega glímu mannsins við almættið settur í nýja umgjörð sem kallar án efa fram ýmsar trúar- og heimspekilegar vangaveltur hjá þeim er virðir verkið fyrir sér. Því má segja að listaverkið prédiki listilega.

Tilvísanir

[1] Belinda Thomson, World of Art, Gauguin, (London: Thames  and Hudson, 2020), 11-30 og Ian Chilvers, ritstj., The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, (Oxford: Oxford University Press, 1990), 173-174.

[2] Jakob Benediktsson (ritstj.). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. (Reykjavík: Mál og menning, 1983), 186-187.

[3] Þessi grein var skrifuð árið 1863 og hafði mikil áhrif á listamenn. Höfundur talar um listamanninn sem mann heimsins og hann hafi ástríðu fyrir múgnum og því að geta horfið inn í hann óþekktur þegar hann vill. Hann sé ferðamaður og heimsborgari. Múgurinn í nútímanum sé akkeri hans, ástríða hans og starfi sem renni saman við hold múgsins nánst með mýstískum hætti. Charles Baudelaire, The Painter of Modern Life and Other Essays. Þýdd af Jonathan Mayne. (London: Phaidon Press, 1995 [1863]), 5-9, 12.

[4] R. Richard Brettell, Modern Art 1851-1929 (Oxford: Oxford University Press, 1999), 6.

[5] „Þegar reynt er að skilgreina nútímann er oft skírskotað til vitundar um að tíminn sé ekki samfelldur: hefðin hefur verið rofin, allt virðist nýtt, mönnum sundlar yfir atburðum líðandi stundar. Það er einmitt þetta sem Baudelaire virðist eiga við þegar hann skilgreinir hið nútímalega sem það sem er stundlegt, rennur úr greipum manns, mótast af tilviljunum.“ Michel Foucault, „Hvað er upplýsing?“ þýð. Torfi H. Tulinius, Skírnir 167 (haust 1993), 11.

[6]The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, ritstj. Ian Chilvers (Oxford: Oxford University Press, 1990), 173. Einnig: „Þeim (Cezanne, Gauguin og van Gogh, innsk.) varð ljóst, að í náttúrunni bjuggu önnur öfl, sem ekki urðu túlkuð með aðferðum impressjónismans. Þeir vildu einnig leita tjáningar (í, innsk.) öflum, sem voru í þeim sjálfum.“ Þorvaldur Skúlason: „Málaralist nútímans“, Tímarit Máls og menningar 5 nr. 2 (1942): 157.

[7] Einkennist af stórum flötum, einföldum formum og línum, hreinum litum. Áhersla á tvívídd. Miðstöð hennar var í Bretón, í borginni Pont Aven. Nokkrir er hallir voru undir þessa stefnu héldu samsýningu 1889 og var það eina sýning þeirra. Sem framúrstefna og undirskipuð sýmbólisma var hún mjög áhrifarík á síðari hluta 19. aldar. Sjá: Brettell, R. Richard. Modern Art 1851-1929. (Oxford: Oxford University Press), 1999.

[8] Phoebe Pool, Impressionism (London: Thames and Hudson, 1986 [1967]), 206.

[9] Amy Dempsey, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art (London: Thames and Hudson, 2010), 53.

[10] Hennessy, Kathryn o.fl. Zeichen und Symbole – Ihre Geschichte und Bedeutung, (München: Penguin, Random House, 2020), 54.

[11] „Og Drottinn Guð lét spretta af jörðinni alls konar tré, girnileg á að líta og góð að eta, ásamt lífsins tré í miðjum garðinum og skilningstré góðs og ills.“ 1Mósebók, 2.9, Biblían (Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag og JPV, 2007).

[12] 1Mós 32.22-32: 22: „Um nóttina reis Jakob á fætur, tók báðar konur sínar, báðar ambáttir sínar og syni sína ellefu og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23 Hann leiddi þau yfir ána og allt sem hann átti hafði hann meðferðis. 24 Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. 25 Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. 26 „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. 27 „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. 28 Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ 29 Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. 30 Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“ 31 Þegar hann fór frá Penúel rann sólin upp. Gekk hann þá haltur vegna mjaðmarinnar. 32 Þess vegna eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina sem er ofan á augnakarlinum því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.“ Biblían 2007 (Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag og JPV, 2007).

[13] Dempsey, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art (London: Thames and Hudson, 2010), 55.

[14] Wilson, Matthew. Symbole in der Kunst. Þýsk þýðing úr ensku: Symbols in Art, 2020. (Zürich: Midas 2021), 124.

[15] Ibid., 54. Og: „Japanir tömdu sér þessa list og Kínverjar líka,“ skrifaði Pissaro um þetta verk Gauguin, sjá Eckhard Hollmann, Paul Gauguin – Images from the South Seas (München og New York: Prestel-Verlag 1996), 10.

[16] Phoebe Pool, Impressionism (London: Thames and Hudson, 1986 [1967]), 207.

[17] Ian Chilvers, The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists, (Oxford: Oxford University Press, 1990), 174.

Heimildaskrá

Barker, Emma, (ritstj.), Art and Visual Culture 1600-1850, Academy to Avant garde. London: Tate Publishing, 2013.

Baudelaire, Charles, The Painter of Modern Life and Other Essays. Þýdd af Jonathan Mayne. London: Phaidon Press, 1995 [1863].

Brettell, R. Richard, Modern Art 1851-1929. Oxford: Oxford University Press 1999.

Chilvers, Ian (ritstj.), The Concise Oxford  Dictionary of Art and Artists.Oxford: Oxford University Press, 1990.

Dempsey, Amy, Styles, Schools and Movement: The Essential Encyclopaedic Guide to Modern Art. London: Thames and Hudson, 2010.

Foucault, Michel, „Hvað er upplýsing?“ Þýdd af Torfa H. Tulinius, Skírnir 176 (haust 1993): 387-405.

Hollmann, Eckhard, Paul Gauguin – Images from the South Seas Münhcen og New York: Prestel-Verlag, 1996.

Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Reykjavík: Mál og menning, 1983.

Hennessy, Kathryn o.fl., Zeichen und Symbole – Ihre Geschichte und Bedeutung, München: Penguin, Random House, 2020.

Pool, Phoebe, Impressionism. London: Thames and Hudson, 1986 [1967].

Wilson, Matthew, Symbole in der Kunst. Þýsk þýðing úr ensku: Symbols in Art, 2020. Zürich: Midas 2021.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir