Þótt listakonan Hildur Hákonardóttir hafi gert mörg pólitísk verk og þá einkum út frá jafnréttisbaráttu, umhverfismálum og femínisma má líka finna hjá henni sterkar trúarlegar tilvísanir.

Á glæsilegri sýningu á verkum Hildar sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum er farið yfir listferil hennar í stórum dráttum. Þar má sjá kunn listaverk sem eru meistarastykki í íslenskri listasögu. Flest verkanna eru ofin enda var vefnaður hennar svið.

Þau verk sem eru með beinar trúarlegar tilvísanir eru þrjú að tölu.

Stef í öðrum vísa til jafnréttisbaráttu kvenna, umhverfismála og baráttu gegn hernaði.

„Guð í sjálfum þér,“ er heiti á verki frá 1970 sem er úr ull, saumað er í verkið og í því er spegill inni í djúpum ferningi og bak við hann kross. Þegar staðið er fyrir framan verkið er horft beint í spegilinn – eða beint inn í djúp sálarinnar þar sem margt leynist.  Nafn verksins er sótt í kunna vísu eftir Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) þar sem hvatt er til trúar á Guð og vitundar mannsins um að guð sé einnig í honum:

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber,
Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.

Það er eflaust margt sem kemur upp í huga hvers og eins sem horfir í þennan spegil í miðju listaverkinu. Hvað sér hann eða hún? Er þetta Guð? Eða…

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Þetta er dýrðarsöngur englanna úr jólaguðspjallinu og flest okkar kannast við hann. Hildur notar seinni hluta textans í verk sitt „Desember 1972“: Þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Þetta er friðarverk, neðarlega fyrir miðri mynd er friðardúfa og svo er að sjá sem sprengjur hæfi hana frá flugvél nokkurri. Fyrir neðan friðarmerkið efst í myndinni eru nöfn nokkurra hreyfinga sem börðust í ýmsum löndum. Efst í huga listakonunnar voru árásir bandaríkjahers á jólaföstunni 1972 á borgina Hanoi, sem var höfuðborg Norður-Víetnams. Verkið á enn fullt erindi þegar horft er til innrásarstríðs Rússa í Úkraínu og þá verður ekki komist hjá því að nefna stuðning rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar við stríðsreksturinn. Hvernig má túlka þá velþóknun sem nefnd er í guðspjallstextanum annars vegar og svo hinar vegar í þessu verki? Spyrja má hvort nokkur geti haft velþóknun á stríðsrekstri og þaðan af síður þegar friður er sprengdur í loft upp. Textinn í þessu samhengi vekur upp vafa hjá áhorfandanum eða harða vissu: Það er engin dýrð yfir þessu. Hér hefur velþóknunin snúist upp í andhverfu sína hjá þeim sem stýra herveldum og telja sig vera guð. Ísköld írónía situr eftir í huga áhorfandans ef verkið er túlkað með þessum hætti. En auðvitað túlkar hver fyrir sig. Verkið er úr ull og frá árinu 1972.

Þriðja verkið ber heitið „Sköpunin,“ og er í eigu Selfosskirkju. Það verk eru fjögur ofin veggteppi frá árinu 1983. Í verkinu ríkja grunnlitirnir gulur, rauður, grænn og blár. Það er tákn regnbogans, friðarbogans. Sáttmálstáknsins milli Guðs og manns sem getið er um í I. Mósebók 9.13: Boga minn set ég í skýin… .

Listaverkið er ákaflega stílhreint og yfir því er léttur blær og vekjandi.

Regnboginn er eitt kunnasta táknið úr Gamla testamentinu og hefur orðið mörgum listamönnum verðugt viðfangsefni. Nefna má til dæmis Regnboga listakonunnar Rúríar við Leifsstöð í Keflavík.


Þetta verk heitir „Árstíðirnar“ – hér leikast á himinn og jörð


Hildur Hákonardóttir við eitt þekktasta verk sitt úr jafnréttisbaráttunni. Verkið heitir: „Fiskikonurnar,“ og er frá 1971

 

Hver er Hildur Hákonardóttir?

Hún er fædd í Reykjavík 1938. Myndvefari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968 og lauk síðar vefnaðarkennaraprófi frá sama skóli. Þá lauk hún námi í vefnaði frá Edinburgh College of Art. Hún fékkst við kennslu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, var skólastjóri þar 1975-1978. Hildur var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga á Selfossi. Hún fékkst listvefnað á árunum 1969-1990. Verk hennar hafa verið sýnd víða og eru í eigu fjölmargra safna. Þá var Hildur einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar á áttunda áratug síðustu aldar og látið jafnréttismál sig ætíð miklu varða. Hún hefur ritað fjölmargar greinar og bækur. Á síðasta ári hlaut hún heiðurslaun listamanna frá Alþingi.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þótt listakonan Hildur Hákonardóttir hafi gert mörg pólitísk verk og þá einkum út frá jafnréttisbaráttu, umhverfismálum og femínisma má líka finna hjá henni sterkar trúarlegar tilvísanir.

Á glæsilegri sýningu á verkum Hildar sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum er farið yfir listferil hennar í stórum dráttum. Þar má sjá kunn listaverk sem eru meistarastykki í íslenskri listasögu. Flest verkanna eru ofin enda var vefnaður hennar svið.

Þau verk sem eru með beinar trúarlegar tilvísanir eru þrjú að tölu.

Stef í öðrum vísa til jafnréttisbaráttu kvenna, umhverfismála og baráttu gegn hernaði.

„Guð í sjálfum þér,“ er heiti á verki frá 1970 sem er úr ull, saumað er í verkið og í því er spegill inni í djúpum ferningi og bak við hann kross. Þegar staðið er fyrir framan verkið er horft beint í spegilinn – eða beint inn í djúp sálarinnar þar sem margt leynist.  Nafn verksins er sótt í kunna vísu eftir Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) þar sem hvatt er til trúar á Guð og vitundar mannsins um að guð sé einnig í honum:

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber,
Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.

Það er eflaust margt sem kemur upp í huga hvers og eins sem horfir í þennan spegil í miðju listaverkinu. Hvað sér hann eða hún? Er þetta Guð? Eða…

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Þetta er dýrðarsöngur englanna úr jólaguðspjallinu og flest okkar kannast við hann. Hildur notar seinni hluta textans í verk sitt „Desember 1972“: Þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Þetta er friðarverk, neðarlega fyrir miðri mynd er friðardúfa og svo er að sjá sem sprengjur hæfi hana frá flugvél nokkurri. Fyrir neðan friðarmerkið efst í myndinni eru nöfn nokkurra hreyfinga sem börðust í ýmsum löndum. Efst í huga listakonunnar voru árásir bandaríkjahers á jólaföstunni 1972 á borgina Hanoi, sem var höfuðborg Norður-Víetnams. Verkið á enn fullt erindi þegar horft er til innrásarstríðs Rússa í Úkraínu og þá verður ekki komist hjá því að nefna stuðning rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar við stríðsreksturinn. Hvernig má túlka þá velþóknun sem nefnd er í guðspjallstextanum annars vegar og svo hinar vegar í þessu verki? Spyrja má hvort nokkur geti haft velþóknun á stríðsrekstri og þaðan af síður þegar friður er sprengdur í loft upp. Textinn í þessu samhengi vekur upp vafa hjá áhorfandanum eða harða vissu: Það er engin dýrð yfir þessu. Hér hefur velþóknunin snúist upp í andhverfu sína hjá þeim sem stýra herveldum og telja sig vera guð. Ísköld írónía situr eftir í huga áhorfandans ef verkið er túlkað með þessum hætti. En auðvitað túlkar hver fyrir sig. Verkið er úr ull og frá árinu 1972.

Þriðja verkið ber heitið „Sköpunin,“ og er í eigu Selfosskirkju. Það verk eru fjögur ofin veggteppi frá árinu 1983. Í verkinu ríkja grunnlitirnir gulur, rauður, grænn og blár. Það er tákn regnbogans, friðarbogans. Sáttmálstáknsins milli Guðs og manns sem getið er um í I. Mósebók 9.13: Boga minn set ég í skýin… .

Listaverkið er ákaflega stílhreint og yfir því er léttur blær og vekjandi.

Regnboginn er eitt kunnasta táknið úr Gamla testamentinu og hefur orðið mörgum listamönnum verðugt viðfangsefni. Nefna má til dæmis Regnboga listakonunnar Rúríar við Leifsstöð í Keflavík.


Þetta verk heitir „Árstíðirnar“ – hér leikast á himinn og jörð


Hildur Hákonardóttir við eitt þekktasta verk sitt úr jafnréttisbaráttunni. Verkið heitir: „Fiskikonurnar,“ og er frá 1971

 

Hver er Hildur Hákonardóttir?

Hún er fædd í Reykjavík 1938. Myndvefari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968 og lauk síðar vefnaðarkennaraprófi frá sama skóli. Þá lauk hún námi í vefnaði frá Edinburgh College of Art. Hún fékkst við kennslu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, var skólastjóri þar 1975-1978. Hildur var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga á Selfossi. Hún fékkst listvefnað á árunum 1969-1990. Verk hennar hafa verið sýnd víða og eru í eigu fjölmargra safna. Þá var Hildur einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar á áttunda áratug síðustu aldar og látið jafnréttismál sig ætíð miklu varða. Hún hefur ritað fjölmargar greinar og bækur. Á síðasta ári hlaut hún heiðurslaun listamanna frá Alþingi.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir