„Leifur Breiðfjörð er sem kunnugt snjallasti listamaður okkar á sviði steindra glerverka. Hann hefur gert stóra steinda glugga í kirkjur og önnur hús víðs vegar um land og einnig erlendis – auk fjölda smærri vera.“[1]

 

Í þessari grein verður sjónum beint að glerlistaverki í Fossvogskirkju frá 1971 eftir Leif Breiðfjörð (f. 1945). Leitast verður við að svara þeirri spurningu hversu hefðbundið það verk er og hvar það er í ferilþroska listamannsins. Þá verður fjallað um samspil verksins við altaristöflu þá sem var í kirkjunni til ársins 1990 og þess verks sem nú er í kór kirkjunnar.

Aðfaraorð

List og kirkja hafa haldist í hendur svo öldum skiptir. Kirkjan tók snemma að nýta sér listgáfuna til að þjóna boðunarhlutverki sínu. Kirkjulegir listmunir voru fluttir inn til landsins. Ráða má af máldögum kirkna og öðrum skjölum að framleiðsla listgripa til nota í kirkjum hafi farið fram hér á landi og þá einum á hinum fornum höfuðbólum kirkjunnar, Skálholti og Hólum.[2]

Saga glerlistar er ekki löng hér á landi að mati listfræðinga. Hún hófst um miðja síðustu öld og þar var Gerður Helgadóttir lykilmanneskja með steindum gluggum sínum sem settir voru í Elliheimili Grund í Reykjavík (nú Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund). Önnur kona kom einnig að þessari glerlistasögu Íslands, Nína Tryggvadóttir.[3] Sú síðarnefnda varð fyrst listamanna til að halda sérsýningu á abstrakt glermálverki með tækni miðalda við gerð steindra glugga.[4] Báðar þessar konur unnu steinda glugga nær eingöngu fyrir kirkjur. En skylt er og að geta tveggja listamanna er gerðu steinda glugga fyrir Bessastaðakirkju, þeirra Finns Jónssonar og Guðmundar Einarssonar frá Miðdal á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.[5]

Fyrsti steindi kirkjuglugginn sem unnin var af íslenskum listamanni kom í Saurbæjarkirkju. Það var Gerður Helgadóttir sem átti hann.[6] Síðar átti hún eftir að gera steinda glugga í Skálholtsdómkirkju sem báru hróður hennar víða. Einn listfróður prestur fullyrti svo að með gluggum hennar í Skálholtskirkju 1963 hefðu orðið „þáttaskil í kirkjulist hér á landi. Þá er tímabili biblíumyndastílsins endanlega lokið og ísinn brotinn með óhlutbundnum formum steindu glugganna.“[7]

Segja má að Leifur Breiðfjörð taki upp merki glerlistarinnar hér á landi og varð það strax ljóst með einkasýningu hans árið 1969.[8] Á þeirri sýningu sýndi hann glermyndir, vinnuteikningar og tillögumyndir. Morgunblaðið tók viðtal við hann í tilefni þessarar sýningar. Þar kom fram að hann hefði snemma ákveðið að leggja glerlistina fyrir sig. Að námi loknu í Myndlista- og handíðaskólanum hélt hann til Skotlands 1966 og einbeitti sér nær eingöngu að steindri glerlist. Mikilvægur þáttur í náminu var að kynna sér kirkjuhús og aðrar opinberar byggingar.[9]

Leifur hefur haft sama hátt á og Gerður og unnið steinda glugga sína frá upphafi til enda, ekki látið þá handiðnaðarmennina sjá um samsetningu verksins.[10] Hann teiknar, reiknar, og leggur sjálfur glerið í blýið. Haft var eftir honum að handarbrögðin við gerð steindra glugga hefðu ekkert breyst frá því fyrstu myndirnar voru gerðar á 10. öld.[11]

Leifur er eftirsóttasti glerlistamaður sinnar tíðar hér á landi og afkastamikill í gerð listaverka fyrir kirkjur. Hann er líka fyrsti íslenski listamaðurinn sem helgar sig strax glerlistinni og setur á fót fyrsta glerlistaverkstæðið hér á landi.[12] Með því má segja að hann verði á vissan hátt áhrifamesti frumkvöðullinn í glerlistmenningunni.

Fyrsta listaverkið í Fossvogskirkju

Glerlistamaðurinn ungi, Leifur Breiðfjörð, fékk tækifæri til að prýða suðurvegg[13] Fossvogskirkju um 1970 með þremur steindum gluggum. Fyrir var altaristafla í kirkjunni eftir listamanninn Eggert Guðmundsson (1906-1983). Áður en vikið verður að steindum gluggum Leifs skal fáeinum orðum farið um altaristöflu Eggerts.

Altaristafla Eggerts kom í Fossvogkirkju árið 1950, tveimur árum eftir að kirkjan var vígð en hún myndi flokkast sem módernískur arkitektúr. Taflan var upprisumynd.[14] Segja má að það hafi ekki komið á óvart að stef upprisunnar hafi orðið fyrir valinu hjá listamanninum þar sem Fossvogskirkja var reist sem aðalútfararkirkja Reykjavíkur.

Eggerts lauk við verkið á þremur mánuðum. Blaðamönnum var boðið að skoða myndina 14. ágúst 1950.[15] Blöðin sögðu hvert myndefni altaristöflunnar var og gátu um stærð hennar en hún var sú stærsta sem hafði verið sett upp í íslenskri kirkju fram til þessa. Alþýðublaðið og Fálkinn birtu mynd af henni, svarthvíta.[16]

Tveir menningarfrömuðir gagnrýndu altaristöflu Eggerts óvægilega á sjötta og áttunda áratug síðustu aldar.[17] Ekkert var hróflað við töflunni fyrr en1990 þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á kirkjunni. Taflan var tekin niður, sett í geymslu, og síðar hengd upp á söngloft kirkjunnar að vestanverðu þar sem hún er enn.

Upprisumynd Eggerts í Fossvogskirkju

Kristur stendur upprisinn við gröfina og fyrir framan hann er María Magdalena. Inni í gröfinni situr engill og við hlið hans er ilmsmyrslaker en þar er tákn Maríu Magdalenu. Kristur er býsna stórkarlalegur. Andlitið langleitt, sítt skegg og hár, augu dökk og nef beint. Nagalför sjást við úlnlið en ekki í lófum eins og venjulegast var. Kyrtill hans er skjannahvítur. Vægur ljómi yfir höfði hans, geislar, sem gárast svo út í bláma himins bak honum.

Drifhvítur kyrtill frelsarans nær að fanga auga áhorfanda sem miðpunktur enda þótt gráir tónar séu nokkuð ríkjandi í altaristöflunni þar sem grafarmunninn er all fyrirferðamikill sem og tröppur þær er Kristur stendur í að ónefndri hellunni sem liggur skáhallt í myndinni. Þá er engillinn inni í gröfinni fremur dauflegur á svip og tekur karlmannlegri hönd um einhvers konar setbrún. María Magdalena er klædd bláum kyrtli, fóðruðum gul-grænu efni og með bleikri flík undir. Myndin er all nákvæm, sér í fíngerðar fellingar á fötum, augabrýr og litarraft á húð. Gróður nákvæmlega teiknaður og sprungur í grafarmunna og fellingar í dyraumgjörð grafarinnar – mætti halda að hann væri í trúarlist sinni undir einhverjum áhrifum frá for-Rafaelíska málverksins.[18] Segja má að ákveðið sambandsleysi sé á milli persónanna í myndinni. Gullinhærður engill með fjarræn augu inni í gröfinni; Kristur starir ögn niðurlútur og María Magdalena virðist horfa fram hjá honum. Eða kannski er þetta andráin áður en hún sér hann upprisinn? Ekki er ljóst hvers vegna hún réttir hönd sína út.

Þessi mynd eftir Eggert Guðmundsson (1906-1983), listmálara, var altaristafla Fossvogskirkju frá 1950-1990

Altaristöflumynd Eggerts sver sig í ætt við hefðbundnar töflur. Frásögn guðspjallstextans sem er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 11-15 er einfaldlega sett fram á myndrænan hátt án þess að farið sé út í miklar túlkarnir. Hér er frásögn í orðum einfaldlega sett í mynd; upprisumynd.

Þá verður að benda á umgjörð altaristöflunnar og orðin á stalli hennar: „Kona hví grætur þú?“ sem eru orð úr guðspjallstextanum sem listamaðurinn fæst við. Ekki er vitað hvort umgjörðin er eftir fyrirsögn hans eða ekki. Á myndinni sjálfri er ekki að sjá að María Magdalena gráti en hins vegar gæti skírskotun orðanna verið víðari eða með öðrum orðum beinst að þeim er sitja sorgmædd á kirkjubekk við útför.[19]

Steindir gluggar í Fossvogskirkju

„Það væri gaman að hafa samvinnu við arkitekt, og gera til dæmis heila veggi í kirkjur eða aðrar byggingar,“ sagði Leifur Breiðfjörð í viðtali við Morgunblaðið 1969 vegna fyrstu listsýningar sinnar. Hann sýndi hátt í fimmtíu steindar glermyndir.[20] Þá var hann ungur maður, augljóslega bjartsýnn og áræðinn. Enda átti hann eftir að láta mikið að sér kveða í kirkjulist á næstu áratugum. Enginn einn íslenskur listamaður á jafnmörg listaverk í kirkjum landsins eins og Leifur.[21]

Leifur var beðinn um að gera steinda glugga í Fossvogskirkju nokkru eftir listsýningu sína sem áður er getið. Má vera að sýningin hafi vakið athygli á listamanninum og forsvarsmenn kirkjunnar munað þá eftir gluggunum þremur á suðurgafli kirkjunnar.

Einn fyrsti hluti af listsköpuninni er að skoða staðinn þar sem glerlistaverkið á að vera. Og listamaðurinn kemur ekki aðeins einu sinni heldur oft. Staðinn þarf að skoða í sem fjölbreytilegustu birtuskilyrðum. Sé gert ráð fyrir steindum gluggum í nýbyggingu og hann valinn til verksins er samvinna við arkitektinn afar mikilvæg.[22]

Gluggarnir í Fossvogskirkju eru fyrstu steindu gluggarnir sem Leifur gerir í íslenska kirkju.[23] Unga listamanninum var vissulega vandi á höndum að vinna steinda glugga á suðurvegg kirkjunnar sem var vígð þremur árum eftir fæðingu hans. Hann hefur ætíð lagt á það þunga áherslu að steindir gluggar í kirkjum séu unnir í tengslum við kirkjubygginguna sjálfa og því sé samvinna listamanns og arkitekts mikilvæg. Þannig fáist heildarsvipur milla glugga og kirkju. En því var ekki að heilsa. Hins vegar var leiðin fráleitt lokuð því að viðhorf hans er hvað sem öðru líður það að steint gler sé fyrst og fremst „sjálfstætt listaverk háð umhverfi sínu.“[24]

Gluggarnir Leifs hafa þá einstöku stöðu í kirkjunni að þeir blasa við öllum sem ganga út kirkjuna. Þeir eru nokkuð hátt uppi en eru vel afmarkaðir. Miðglugginn er hæstur en gluggar honum til sitt hvorrar handar jafnstórir. Stærð þeirra er: miðglugginn er 2,6 x 0,74 m og gluggarnir sitt hvoru megin við hann eru 1,8m x 0,52 m.

Miðglugginn sýnir mynd af Jesú Kristi.

Hliðargluggarnir eru postulamyndir og hverjir það eru er ótilgreint af hálfu listamannsins.[25]

Þegar gluggarnir eru skoðaðir er ljóst að þeir eru sambland af figúratífu verki og abstrakt – listamaðurinn stýrir lífi forma og lita á myndfletinum eins og það mótast í vitund hans. Á þessum tíma vann hann fleiri abstrakt verk en fígúratíf.[26]

Lýsing á gluggum Leifs í Fossvogskirkju

Gluggar Leifs Breiðfjörð í Fossvogskirkju – gerðir 1971

Kristsmyndin í miðglugganum er umvafin sterkum bláum lit sem brotinn er upp af ljósum grænum lit og dökkum sem og hvítum. Kringum höfuð Krists er geislabaugur sem er tvöfaldur en blár litur fer yfir hluta hans í ytri hring. Tvær allbreiðar eldingslaga línur koma hægra megin að höfði hans – túlka mætti sem tákn heilags anda. Kyrtill frelsarans er gulbjartur og hvítur með grænleitum reitum hér og þar. Það er mikil hreyfing í myndinni vegna þess að sveigðir glerfletir á lengdina draga hana fram. Ýkjulaust má segja að svo virðist sem frelsarinn komi gangandi á mót þeim er horfir á myndina. Vinstri hönd Krists er upprétt og flatur lófi blasir við – liggur við að að sé að veifa til þeirra er út ganga! (Kannski: Sjáumst aftur!) Hægri hönd liggur með fram síðu. Á báðum höndum og fótum má sjá sáramerki Krists – þetta er mynd af hinum upprisna frelsara. Svipur Krists er mildur, augu sjást vel. Og hann er hárprúður að vanda svo sem hin sígilda vestræna hugmynd segir til um. Neðsti myndreitur er rauð hálfkúla umlukin bláum lit, gæti verið sól að rísa úr ægi. Fossvogskirkja var reist sem guðshús fyrir útfarir og er því við hæfi að upprisumynd sé að finna á góðum stað í kirkjunni. Það fellur einnig að hinum gamla sið að mynd hins upprisna á að vera í huga þess sem gengur út úr kirkju að lokinni útför.[27]

Rauður litur er ráðandi í umgjörð gluggans vinstra megin við miðmyndina eða norðan megin. Postulinn ónefndi horfir upp til Krists með hendur opnar. Blár litur í köflum kyrtilsins er áberandi íþættur hvítum og fjólubláum reitum. Í honum er einnig mikil hreyfing.

Glugginn hægra megin við miðgluggann, sunnan megin, er sleginn grænum lit að mestu sem þó er skotið inn í gulum og dökkgrænum. Á einum stað í vinstri reit til hægri er dökkfjólublár kafli sem kallast á við ljósari litatón ögn ofar. Postulinn horfir sömuleiðis upp til Krists og yfir höfði hans er hálfur rauður bogi sem gæti minnt á hjálmfjaðrir rómversks hermanns.

Sannarlega má taka undir þau orð listamannsins að: „Steindar glermyndir eru umhverfislist, sem umlykur áhorfandann og skapa þær andrúmsloft, sem augað grípur. Eru hula tilfinninga, sem áhorfandinn hrífst í.“[28]

Þegar spurt er hvort listaverkið sé hefðbundið eða ekki verður að athuga merkingu orðsins hefðbundið. Kannski er skýrara að nota samheitið venjubundinn eða viðtekinn í þessu sambandi. Verður hvort tveggja skoðað út frá myndefni annars vegar og vinnuaðferð hins vegar.

Myndefnið er sígilt. Kristur og lærisveinar. Verkið er fígúratíft en þó kennir í því áhrifa úr abstraktlist og jafnvel kúbisma ef vel er að gáð. Í gluggunum er mild og blæbrigðarík túlkun á persónum myndanna. Það er ákveðinn kraftur í þeim og ólga í sveipum kyrtlanna.

Leifur hefur lýst vinnuaðferðum sínum í mörgum viðtölum. Hann lýsti aðferð sinni svo árið 1970: „Fyrst tek ég mál, geri frumskissur og sem kostnaðaráætlun. Ég hef samráð við viðkomandi arkitekt um uppsetningu og gerð myndarinnar. Að svo búnu er tillagan stækkuð upp í fulla stærð og þá get ég snúið mér að glerinu. Ég sker það hér á vinnustofunni og það er handblásið og valsað út. Blýfalsana geri ég sjálfur í vélinni þeirri arna, þeir eru fyrst steyptir en síðan valsaðir.“[29] Þá hefur hann og lýst því hvernig rannsaka beri flæði birtu í því rými sem steindur gluggi á að vera. Þarf að huga að birtumagni og birtuflæði á ýmsum tímum sólarhringsins og sömuleiðis eftir árstíðum.[30]

Hvernig skyldu verk Eggerts og Leifs hafa náð saman?

Myndefni beggja listaverkanna sýna hinn upprisna Jesú Krists sem er hefðbundið stef. Eitt af þremur algengustu altaristöflustefjum frá siðbótartíð en hin tvö eru kvöldmáltíð og krossfesting.[31]

Það er vandkvæðum bundið að bera saman steindan glugga og málverk á striga. Steindum gluggum er gefið líf með birtumagni sólar sem getur verið mismikið. Verk glerlistamannsins Leifs er því lifandi og síkvikt. Myndefni altaristöflu Eggerts er í björtum tónum og sker sig þar úr mjallahvítur kyrtill frelsarans á nánast miðjum myndfleti. Hann er sem ljós og mætti því tengja við birtuflæði í gegnum steindan glugga Leifs af frelsaranum.

Þegar hefur komið fram sú skoðun að persónur altaristöflunnar sem Eggert gerði séu fremur stirðar og sambandslausar. Í verki Leifs horfa tveir lærisveinar upp til frelsarans sem er upprisinn. Hann horfir í augu þess er lítur til verksins en Kristur í altaristöflu Eggerts horfir fremur niður – að minnsta kosti virðist ekki beint augnsamband nást.

Segja má að bæði verkin séu hefðbundin, módernísk.

Ný altarisumgjörð 1990

Ráðist var í miklar endurbætur og breytingar á Fossvogskirkju um 1990. Hugmyndasamkeppni um kirkjuna og umhverfi hennar var ýtt úr vör.[32]

Altaristafla eða altarisumgjörð Helga Gíslasonar kom í kirkjuna 1990

Það var ungur listamaður, Helgi Gíslason (f. 1947) sem varð hlutskarpastur í samkeppni um altaristöflu.[33] Altaristafla hans er fjórir metrar á hæð, þríhyrnd, gerð úr steini, bronsi og gleri. Táknmynd hennar er heilög þrenning og upprisan.[34] Það sem fangar augað þegar horft er á töfluna er stór hallandi hvítleitur kross með órólegum útlínum sem gefa honum líf – hægt er að sjá móta fyrir líkama hins krossfesta í glerinu – á vissan hátt mætti segja að þetta sé dulbúinn róðukross. Jarðlitur er ríkjandi í efri hluta þríhyrningsins, hálfhamraður málmur. Neðri hlutinn er svartleitur steinn.

Hvernig skyldu verk Helga og Leifs ná saman?

Verk Helga Gíslasonar má flokka sem póst-módernískt og með skúlptúrum. Það notfærir sér ljós sem aflgjafa til áhrifa ef svo má segja. Skáhallandi krossinn á myndfleti skúlptúrsins er úr gleri og nýtur birtunnar þegar hún streymir inn um kórloftsglugga vestan og austan megin. Auk þess skapar krosshallinn hreyfingu í verkinu, snarpa hreyfingu. Hvað þessa altaristöflu Helga snertir má hiklaust fullyrða að hún sé ættskotin steindum gluggum Leifs á suðurgafli kirkjunnar. Birta skáhallandi krossins er aldrei sú hin sama fremur en birtumagnið sem fer í gegnum steindu gluggana. Annars er efniviður listaverkanna ólíkur eins og fram hefur komið enda þótt gler komi fyrir í þeim báðum.

Form altaristöflunnar er þríhyrningur sem er algengt tákn í kristnum listaverkum og stendur fyrir þrenninguna. Gluggar Leifs eru þrír – kannski vísun til þrenningar? Gæti þó verið oftúlkun. Nagalför hins upprisna frelsara sjást í glugga Leifs og vísa þar með til krossfestingarinnar sem megintákns altarisþríhyrnings Helga.

Ljós og birta eru því meginþræðir í þessum tveimur verkum, krossinum og í steinda glugganum af Kristi upprisnum. Því má segja að verkin kallist nokkuð skýrt á fyrir tilstilli ljóss sem er svo aftur á móti lykilhugtak í kristinni guðfræði.

Niðurstaða

Hér að framan var gerð grein fyrir stöðu Leifs Breiðfjörð sem kirkjulistamanns og þá fyrst og síðast á sviði steindra glugga. Þar hefur hann sérstöðu og enginn listamaður íslenskur á þessu sviði á jafn mörg verk í kirkjum landsins sem hann. Fjallað var sérstaklega um steinda glugga Leifs í Fossvogskirkju í Reykjavík sem hann gerði 25 ára gamall og samspil þeirra við altaristöflu sem var í kirkjunni frá 1950-1990 og þeirrar nýju altarisumgjarðar (altaristöflu) sem síðar var sett upp. Niðurstaðan í því efni var sú að myndefni hans í gluggunum hafi rímað ágætlega við altaristöfluna 1950-1990 enda þótt þar væri um að ræða málverk á striga og þar með allsendis ólíkan myndmiðil sem steint gler er. Hinn upprisni Kristur er miðlægur í báðum þessum verkum. Birta sólarljóss fer um glerið í verki Leifs sem og um verk Eggerts þó með öðrum hætti sé en þar sker sig úr drifhvítur kyrtill hins upprisna. Í gluggum Leifs er myndefnið augljóslega túlkað með altaristafla Eggerts er nánast hrein og klár frásagnarmynd án tilþrifamikillar listrænnar túlkunar nema í litlum mæli.

Verk Helga Grímssonar kom í Fossvogskirkju 1990 og sömuleiðis kallast það rækilega á við steinda glugga Leifs en í þeim báðum má finna má trúarleg stef. Upprisu og krossfestingu. Og ljós. Hluti verks Helga er úr gleri og dregur til sín birtu sólar sem leikur þar stórt hlutverk sem og þegar geislar fara í gegnum steinda glerið í gluggum Leifs.

Verk Eggerts má flokka með módernískum verkum, natúralískum, en gluggarnir eru fígúratífir með abstrakt einkennum – jafnvel kúbískum. Altarisumgjörð Helga og þar með talin altaristaflan er nánast sem skúlptúr með myndfleti – verk sem ber með sér póstmódernisma.

 Tilvísanir

[1] Selma Jónsdóttir, „Listasafn Íslands 100 ára – Leifur Breiðfjörð, glermyndir-stained glass,” í Lífblóm og steingervingar (Reykjavík: Listasafn Íslands, 1984), 1.

[2] Guðbjörg Kristjánsdóttir, „Messuföng og kirkjulist,“ í Hlutavelta tímans – Menningararfur á Þjóðminjasafni (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004), 247-249.

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 4.

[4] Halldór Laxness, „Minning,“ Morgunblaðið 26. júní 1968.

[5] Sjá: Friðrik Hjartar: Glerlistin í Bessastaðakirkju I og II. : Glerlistin í Bessastaðakirkju I. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) og Glerlistin í Bessastaðakirkju II. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 23. september 2023.

[6] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985), 97.

[7] Gunnar Kristjánsson, „Kirkjubyggingar, myndlist og trú,“ í Kristni Íslands IV. ritstj. Þórunn Valdimarsdóttir og Pétur Pétursson (Reykjavík: Alþingi, 2000), 332.

[8] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[9] „Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð,“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

[10] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985), 95.

[11] „Sömu handbrögð og á 10. öld,“ Vísir 9. ágúst 1969.

[12] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[13] Fyrrum sneru nær allar kirkjur svo að altarið var í austurátt, sólarupprisuáttina. Gengið var inn í kirkjurnar vestan megin. Fossvogskirkja snýr svo að altarið er í norð-austur samkvæmt áttavitamælingu höfundar. Sjá: Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – Guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð, (Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1996), 126.

[14] „Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950.

[15] „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu,“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950. Taflan var 1.90×2.70.

[16] „Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950 og „Ný altaristafla í Fossvogskirkju,“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

[17] Ragnar Jónsson í Smára sagði að taflan væri „beinlínis hlægileg“ í: „Misheppnuð kirkjuprýði,“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164. Undir þessari grein stendur aðeins: r. Ekki er ólíklegt að höfundur sé menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson í Smára en hann var í ritstjórn tímaritsins og ábyrgðarmaður þess. Björn Th. Björnsson, listfræðingur, taldi hana vera stirðlega og ólistræna, í Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti II. bindi (Reykjavík: Helgafell, 1973), 177.

[18] Æsa Sigurjónsdóttir, „Pre-Rafaelítar“ í Vetrarvirki – Björn Th. Björnsson listfræðingur sjötugur 3. september 1992 – Afmæliskveðja frá nemendum, (Reykjavík: Mál og menning, 1993), 195.

[19] Um þessa altaristöflu fjallaði ég í stuttri grein 20. október 2023 í: Lítil saga um stóra altaristöflu – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 4. nóvember 2023.

[20] „Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð,“ Morgunblaðið 22. ágúst 1969. Leifur hefur alltaf lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að listamaðurinn hafi samvinnu við arktitektinn og að „samvinna arkitekts og listamanns hefjist strax og frumdrög að kirkju eru gerð.“ (Sjá: Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum.“ Kirkjuritið, 47. árg. 2. hefti 1981, 88.

[21] Fyllsta opinbera skrá um þau er í bók Aðalsteins Ingólfssonar, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), bls. 62-67. Vitaskuld hafa mörg listaverk frá honum bæst við – sjálfur heldur Leifur skrá um verk sín. (Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.)

[22] Aðalsteinn Ingólfsson, „Leifur Breiðfjörð,“ í Íslensk list – Sextán íslenskir myndlistarmenn (Reykjavík: Bókaútgáfan Hildur – Gunnar S. Þorleifsson, 1981), 30-32.

[23] Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

[24] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum,“ Kirkjuritið, 47. árg., 2. hefti 1981, 90.

[25] Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

[26] „Listin á heima þar sem fólkið er, Vikan 6. desember 1973.

[27] Í Kolbeinsstaðakirkju í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi tíðkaðist sá gamli siður þá höfundur þjónaði þar að eftir að búið var að molda úti í kirkjugarði fór fólk aftur inn í kirkjuna og blessaði prestur söfnuðinn og síðan var sunginn sálmurinn Son Guðs ertu með sanni. Hugsunin var sú að kirkja hins upprisna átti að vera síðasta minning frá útför en ekki líkkista í kór. Þessi siður er nú aflagður þar vestra.

[28] „Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð,“ Morgunblaðið 22. ágúst 1969.

[29] „Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð,“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

[30] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðing um steint gler í kirkjum,” í Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989, 35.

[31] Nina Damsgaard, „1800-tallet altertavlemaleri og tidens religiøse strømninger,“ í Troens stil i guldalderens kunst (Kaupmannahöfn: Nivaagaard malerisamling, 1999), 16.

[32] „Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari,” Tíminn 25. apríl 1989.

[33] Altarisumgjörð: „Altari, altaristafla, ræðupúlt, skírnarfontur, moldunarkassi og svifform í kór, svo og aðalhurðir kirkjunnar. Efniviður: járn, kopar, brons, gler og íslenskur grásteinn.” Sjá: Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason: „Um breytingar á Fossvogskirkju,” í Arkitektúr og skipulag, 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

[34] „Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju,“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

Heimildir

Aðalsteinn Ingólfsson. „Leifur Breiðfjörð“ Í Íslensk list – Sextán íslenskir myndlistarmenn. Reykjavík: Bókaútgáfan Hildur – Gunnar S. Þorleifsson, 1981.

„Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950.

Aðalsteinn Ingólfsson. Leifur Breiðfjörð – steint gler. Reykjavík: Mál og menning, 1995.

Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason. „Um breytingar á Fossvogskirkju.” Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989 og 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

Ásbjörn Jónsson. „Fossvogskirkja 50 ára“, Morgunblaðið, 14. nóvember 1998.

Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti. II. bindi Reykjavík: Helgafell,1973.

Einar Sigurbjörnsson. Embættisgjörð – Guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996.

Elín Pálmadóttir. Gerður – ævisaga myndhöggvara. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985.

Emil Thoroddsen. Íslenzk myndlist – 20 listmálara. Reykjavík: Kristján Friðriksson: 1943.

„Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu.“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950.

Friðrik Hjartar: Glerlistin í Bessastaðakirkju I og II. : Glerlistin í Bessastaðakirkju I. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) og Glerlistin í Bessastaðakirkju II. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 23. september 2023.

Gunnar Kristjánsson. „Kirkjubyggingar, myndlist og trú.“ Í Kristni Íslands IV. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Guðbjörg Kristjánsdóttir. „Messuföng og kirkjulist.“ Í Hlutavelta tímans – Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004.

Hreinn Hákonarson. Lítil saga um stóra altaristöflu – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 4. nóvember 2023.

Halldór Laxness. „Minning.“ Morgunblaðið, 26. júní 1968.

Leifur Breiðfjörð. „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum.“ Kirkjuritið 47. árg. 2. hefti 1981, 88-95.

„Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð.“ Morgunblaðið, 22. ágúst 1969.

„Listin á heima þar sem fólkið er,“ Vikan, 6. desember 1973.

„Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð.“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

„Misheppnuð kirkjuprýði.“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164.

„Ný altaristafla í Fossvogskirkju.“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

„Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju.“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

„Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari.” Tíminn 25. apríl 1989.

Samtal höfundar við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

Selma Jónsdóttir. „Listasafn Íslands 100 ára – Leifur Breiðfjörð – glermyndir – stained glass.“ Í Lífsblóm og steingervingar. Reykjavík: Listasafn Íslands, 1984.

„Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju.“ Alþýðublaðið, 15. ágúst 1950.

„Sömu handbrögð og á 10. öld.“ Vísir, 9. ágúst 1969.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Pre-Rafaelítar“ í Vetrarvirki – Björn Th. Björnsson listfræðingur sjötugur 3. september 1992 – Afmæliskveðja frá nemendum. Reykjavík: Mál og menning, 1993.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

„Leifur Breiðfjörð er sem kunnugt snjallasti listamaður okkar á sviði steindra glerverka. Hann hefur gert stóra steinda glugga í kirkjur og önnur hús víðs vegar um land og einnig erlendis – auk fjölda smærri vera.“[1]

 

Í þessari grein verður sjónum beint að glerlistaverki í Fossvogskirkju frá 1971 eftir Leif Breiðfjörð (f. 1945). Leitast verður við að svara þeirri spurningu hversu hefðbundið það verk er og hvar það er í ferilþroska listamannsins. Þá verður fjallað um samspil verksins við altaristöflu þá sem var í kirkjunni til ársins 1990 og þess verks sem nú er í kór kirkjunnar.

Aðfaraorð

List og kirkja hafa haldist í hendur svo öldum skiptir. Kirkjan tók snemma að nýta sér listgáfuna til að þjóna boðunarhlutverki sínu. Kirkjulegir listmunir voru fluttir inn til landsins. Ráða má af máldögum kirkna og öðrum skjölum að framleiðsla listgripa til nota í kirkjum hafi farið fram hér á landi og þá einum á hinum fornum höfuðbólum kirkjunnar, Skálholti og Hólum.[2]

Saga glerlistar er ekki löng hér á landi að mati listfræðinga. Hún hófst um miðja síðustu öld og þar var Gerður Helgadóttir lykilmanneskja með steindum gluggum sínum sem settir voru í Elliheimili Grund í Reykjavík (nú Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund). Önnur kona kom einnig að þessari glerlistasögu Íslands, Nína Tryggvadóttir.[3] Sú síðarnefnda varð fyrst listamanna til að halda sérsýningu á abstrakt glermálverki með tækni miðalda við gerð steindra glugga.[4] Báðar þessar konur unnu steinda glugga nær eingöngu fyrir kirkjur. En skylt er og að geta tveggja listamanna er gerðu steinda glugga fyrir Bessastaðakirkju, þeirra Finns Jónssonar og Guðmundar Einarssonar frá Miðdal á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.[5]

Fyrsti steindi kirkjuglugginn sem unnin var af íslenskum listamanni kom í Saurbæjarkirkju. Það var Gerður Helgadóttir sem átti hann.[6] Síðar átti hún eftir að gera steinda glugga í Skálholtsdómkirkju sem báru hróður hennar víða. Einn listfróður prestur fullyrti svo að með gluggum hennar í Skálholtskirkju 1963 hefðu orðið „þáttaskil í kirkjulist hér á landi. Þá er tímabili biblíumyndastílsins endanlega lokið og ísinn brotinn með óhlutbundnum formum steindu glugganna.“[7]

Segja má að Leifur Breiðfjörð taki upp merki glerlistarinnar hér á landi og varð það strax ljóst með einkasýningu hans árið 1969.[8] Á þeirri sýningu sýndi hann glermyndir, vinnuteikningar og tillögumyndir. Morgunblaðið tók viðtal við hann í tilefni þessarar sýningar. Þar kom fram að hann hefði snemma ákveðið að leggja glerlistina fyrir sig. Að námi loknu í Myndlista- og handíðaskólanum hélt hann til Skotlands 1966 og einbeitti sér nær eingöngu að steindri glerlist. Mikilvægur þáttur í náminu var að kynna sér kirkjuhús og aðrar opinberar byggingar.[9]

Leifur hefur haft sama hátt á og Gerður og unnið steinda glugga sína frá upphafi til enda, ekki látið þá handiðnaðarmennina sjá um samsetningu verksins.[10] Hann teiknar, reiknar, og leggur sjálfur glerið í blýið. Haft var eftir honum að handarbrögðin við gerð steindra glugga hefðu ekkert breyst frá því fyrstu myndirnar voru gerðar á 10. öld.[11]

Leifur er eftirsóttasti glerlistamaður sinnar tíðar hér á landi og afkastamikill í gerð listaverka fyrir kirkjur. Hann er líka fyrsti íslenski listamaðurinn sem helgar sig strax glerlistinni og setur á fót fyrsta glerlistaverkstæðið hér á landi.[12] Með því má segja að hann verði á vissan hátt áhrifamesti frumkvöðullinn í glerlistmenningunni.

Fyrsta listaverkið í Fossvogskirkju

Glerlistamaðurinn ungi, Leifur Breiðfjörð, fékk tækifæri til að prýða suðurvegg[13] Fossvogskirkju um 1970 með þremur steindum gluggum. Fyrir var altaristafla í kirkjunni eftir listamanninn Eggert Guðmundsson (1906-1983). Áður en vikið verður að steindum gluggum Leifs skal fáeinum orðum farið um altaristöflu Eggerts.

Altaristafla Eggerts kom í Fossvogkirkju árið 1950, tveimur árum eftir að kirkjan var vígð en hún myndi flokkast sem módernískur arkitektúr. Taflan var upprisumynd.[14] Segja má að það hafi ekki komið á óvart að stef upprisunnar hafi orðið fyrir valinu hjá listamanninum þar sem Fossvogskirkja var reist sem aðalútfararkirkja Reykjavíkur.

Eggerts lauk við verkið á þremur mánuðum. Blaðamönnum var boðið að skoða myndina 14. ágúst 1950.[15] Blöðin sögðu hvert myndefni altaristöflunnar var og gátu um stærð hennar en hún var sú stærsta sem hafði verið sett upp í íslenskri kirkju fram til þessa. Alþýðublaðið og Fálkinn birtu mynd af henni, svarthvíta.[16]

Tveir menningarfrömuðir gagnrýndu altaristöflu Eggerts óvægilega á sjötta og áttunda áratug síðustu aldar.[17] Ekkert var hróflað við töflunni fyrr en1990 þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á kirkjunni. Taflan var tekin niður, sett í geymslu, og síðar hengd upp á söngloft kirkjunnar að vestanverðu þar sem hún er enn.

Upprisumynd Eggerts í Fossvogskirkju

Kristur stendur upprisinn við gröfina og fyrir framan hann er María Magdalena. Inni í gröfinni situr engill og við hlið hans er ilmsmyrslaker en þar er tákn Maríu Magdalenu. Kristur er býsna stórkarlalegur. Andlitið langleitt, sítt skegg og hár, augu dökk og nef beint. Nagalför sjást við úlnlið en ekki í lófum eins og venjulegast var. Kyrtill hans er skjannahvítur. Vægur ljómi yfir höfði hans, geislar, sem gárast svo út í bláma himins bak honum.

Drifhvítur kyrtill frelsarans nær að fanga auga áhorfanda sem miðpunktur enda þótt gráir tónar séu nokkuð ríkjandi í altaristöflunni þar sem grafarmunninn er all fyrirferðamikill sem og tröppur þær er Kristur stendur í að ónefndri hellunni sem liggur skáhallt í myndinni. Þá er engillinn inni í gröfinni fremur dauflegur á svip og tekur karlmannlegri hönd um einhvers konar setbrún. María Magdalena er klædd bláum kyrtli, fóðruðum gul-grænu efni og með bleikri flík undir. Myndin er all nákvæm, sér í fíngerðar fellingar á fötum, augabrýr og litarraft á húð. Gróður nákvæmlega teiknaður og sprungur í grafarmunna og fellingar í dyraumgjörð grafarinnar – mætti halda að hann væri í trúarlist sinni undir einhverjum áhrifum frá for-Rafaelíska málverksins.[18] Segja má að ákveðið sambandsleysi sé á milli persónanna í myndinni. Gullinhærður engill með fjarræn augu inni í gröfinni; Kristur starir ögn niðurlútur og María Magdalena virðist horfa fram hjá honum. Eða kannski er þetta andráin áður en hún sér hann upprisinn? Ekki er ljóst hvers vegna hún réttir hönd sína út.

Þessi mynd eftir Eggert Guðmundsson (1906-1983), listmálara, var altaristafla Fossvogskirkju frá 1950-1990

Altaristöflumynd Eggerts sver sig í ætt við hefðbundnar töflur. Frásögn guðspjallstextans sem er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 11-15 er einfaldlega sett fram á myndrænan hátt án þess að farið sé út í miklar túlkarnir. Hér er frásögn í orðum einfaldlega sett í mynd; upprisumynd.

Þá verður að benda á umgjörð altaristöflunnar og orðin á stalli hennar: „Kona hví grætur þú?“ sem eru orð úr guðspjallstextanum sem listamaðurinn fæst við. Ekki er vitað hvort umgjörðin er eftir fyrirsögn hans eða ekki. Á myndinni sjálfri er ekki að sjá að María Magdalena gráti en hins vegar gæti skírskotun orðanna verið víðari eða með öðrum orðum beinst að þeim er sitja sorgmædd á kirkjubekk við útför.[19]

Steindir gluggar í Fossvogskirkju

„Það væri gaman að hafa samvinnu við arkitekt, og gera til dæmis heila veggi í kirkjur eða aðrar byggingar,“ sagði Leifur Breiðfjörð í viðtali við Morgunblaðið 1969 vegna fyrstu listsýningar sinnar. Hann sýndi hátt í fimmtíu steindar glermyndir.[20] Þá var hann ungur maður, augljóslega bjartsýnn og áræðinn. Enda átti hann eftir að láta mikið að sér kveða í kirkjulist á næstu áratugum. Enginn einn íslenskur listamaður á jafnmörg listaverk í kirkjum landsins eins og Leifur.[21]

Leifur var beðinn um að gera steinda glugga í Fossvogskirkju nokkru eftir listsýningu sína sem áður er getið. Má vera að sýningin hafi vakið athygli á listamanninum og forsvarsmenn kirkjunnar munað þá eftir gluggunum þremur á suðurgafli kirkjunnar.

Einn fyrsti hluti af listsköpuninni er að skoða staðinn þar sem glerlistaverkið á að vera. Og listamaðurinn kemur ekki aðeins einu sinni heldur oft. Staðinn þarf að skoða í sem fjölbreytilegustu birtuskilyrðum. Sé gert ráð fyrir steindum gluggum í nýbyggingu og hann valinn til verksins er samvinna við arkitektinn afar mikilvæg.[22]

Gluggarnir í Fossvogskirkju eru fyrstu steindu gluggarnir sem Leifur gerir í íslenska kirkju.[23] Unga listamanninum var vissulega vandi á höndum að vinna steinda glugga á suðurvegg kirkjunnar sem var vígð þremur árum eftir fæðingu hans. Hann hefur ætíð lagt á það þunga áherslu að steindir gluggar í kirkjum séu unnir í tengslum við kirkjubygginguna sjálfa og því sé samvinna listamanns og arkitekts mikilvæg. Þannig fáist heildarsvipur milla glugga og kirkju. En því var ekki að heilsa. Hins vegar var leiðin fráleitt lokuð því að viðhorf hans er hvað sem öðru líður það að steint gler sé fyrst og fremst „sjálfstætt listaverk háð umhverfi sínu.“[24]

Gluggarnir Leifs hafa þá einstöku stöðu í kirkjunni að þeir blasa við öllum sem ganga út kirkjuna. Þeir eru nokkuð hátt uppi en eru vel afmarkaðir. Miðglugginn er hæstur en gluggar honum til sitt hvorrar handar jafnstórir. Stærð þeirra er: miðglugginn er 2,6 x 0,74 m og gluggarnir sitt hvoru megin við hann eru 1,8m x 0,52 m.

Miðglugginn sýnir mynd af Jesú Kristi.

Hliðargluggarnir eru postulamyndir og hverjir það eru er ótilgreint af hálfu listamannsins.[25]

Þegar gluggarnir eru skoðaðir er ljóst að þeir eru sambland af figúratífu verki og abstrakt – listamaðurinn stýrir lífi forma og lita á myndfletinum eins og það mótast í vitund hans. Á þessum tíma vann hann fleiri abstrakt verk en fígúratíf.[26]

Lýsing á gluggum Leifs í Fossvogskirkju

Gluggar Leifs Breiðfjörð í Fossvogskirkju – gerðir 1971

Kristsmyndin í miðglugganum er umvafin sterkum bláum lit sem brotinn er upp af ljósum grænum lit og dökkum sem og hvítum. Kringum höfuð Krists er geislabaugur sem er tvöfaldur en blár litur fer yfir hluta hans í ytri hring. Tvær allbreiðar eldingslaga línur koma hægra megin að höfði hans – túlka mætti sem tákn heilags anda. Kyrtill frelsarans er gulbjartur og hvítur með grænleitum reitum hér og þar. Það er mikil hreyfing í myndinni vegna þess að sveigðir glerfletir á lengdina draga hana fram. Ýkjulaust má segja að svo virðist sem frelsarinn komi gangandi á mót þeim er horfir á myndina. Vinstri hönd Krists er upprétt og flatur lófi blasir við – liggur við að að sé að veifa til þeirra er út ganga! (Kannski: Sjáumst aftur!) Hægri hönd liggur með fram síðu. Á báðum höndum og fótum má sjá sáramerki Krists – þetta er mynd af hinum upprisna frelsara. Svipur Krists er mildur, augu sjást vel. Og hann er hárprúður að vanda svo sem hin sígilda vestræna hugmynd segir til um. Neðsti myndreitur er rauð hálfkúla umlukin bláum lit, gæti verið sól að rísa úr ægi. Fossvogskirkja var reist sem guðshús fyrir útfarir og er því við hæfi að upprisumynd sé að finna á góðum stað í kirkjunni. Það fellur einnig að hinum gamla sið að mynd hins upprisna á að vera í huga þess sem gengur út úr kirkju að lokinni útför.[27]

Rauður litur er ráðandi í umgjörð gluggans vinstra megin við miðmyndina eða norðan megin. Postulinn ónefndi horfir upp til Krists með hendur opnar. Blár litur í köflum kyrtilsins er áberandi íþættur hvítum og fjólubláum reitum. Í honum er einnig mikil hreyfing.

Glugginn hægra megin við miðgluggann, sunnan megin, er sleginn grænum lit að mestu sem þó er skotið inn í gulum og dökkgrænum. Á einum stað í vinstri reit til hægri er dökkfjólublár kafli sem kallast á við ljósari litatón ögn ofar. Postulinn horfir sömuleiðis upp til Krists og yfir höfði hans er hálfur rauður bogi sem gæti minnt á hjálmfjaðrir rómversks hermanns.

Sannarlega má taka undir þau orð listamannsins að: „Steindar glermyndir eru umhverfislist, sem umlykur áhorfandann og skapa þær andrúmsloft, sem augað grípur. Eru hula tilfinninga, sem áhorfandinn hrífst í.“[28]

Þegar spurt er hvort listaverkið sé hefðbundið eða ekki verður að athuga merkingu orðsins hefðbundið. Kannski er skýrara að nota samheitið venjubundinn eða viðtekinn í þessu sambandi. Verður hvort tveggja skoðað út frá myndefni annars vegar og vinnuaðferð hins vegar.

Myndefnið er sígilt. Kristur og lærisveinar. Verkið er fígúratíft en þó kennir í því áhrifa úr abstraktlist og jafnvel kúbisma ef vel er að gáð. Í gluggunum er mild og blæbrigðarík túlkun á persónum myndanna. Það er ákveðinn kraftur í þeim og ólga í sveipum kyrtlanna.

Leifur hefur lýst vinnuaðferðum sínum í mörgum viðtölum. Hann lýsti aðferð sinni svo árið 1970: „Fyrst tek ég mál, geri frumskissur og sem kostnaðaráætlun. Ég hef samráð við viðkomandi arkitekt um uppsetningu og gerð myndarinnar. Að svo búnu er tillagan stækkuð upp í fulla stærð og þá get ég snúið mér að glerinu. Ég sker það hér á vinnustofunni og það er handblásið og valsað út. Blýfalsana geri ég sjálfur í vélinni þeirri arna, þeir eru fyrst steyptir en síðan valsaðir.“[29] Þá hefur hann og lýst því hvernig rannsaka beri flæði birtu í því rými sem steindur gluggi á að vera. Þarf að huga að birtumagni og birtuflæði á ýmsum tímum sólarhringsins og sömuleiðis eftir árstíðum.[30]

Hvernig skyldu verk Eggerts og Leifs hafa náð saman?

Myndefni beggja listaverkanna sýna hinn upprisna Jesú Krists sem er hefðbundið stef. Eitt af þremur algengustu altaristöflustefjum frá siðbótartíð en hin tvö eru kvöldmáltíð og krossfesting.[31]

Það er vandkvæðum bundið að bera saman steindan glugga og málverk á striga. Steindum gluggum er gefið líf með birtumagni sólar sem getur verið mismikið. Verk glerlistamannsins Leifs er því lifandi og síkvikt. Myndefni altaristöflu Eggerts er í björtum tónum og sker sig þar úr mjallahvítur kyrtill frelsarans á nánast miðjum myndfleti. Hann er sem ljós og mætti því tengja við birtuflæði í gegnum steindan glugga Leifs af frelsaranum.

Þegar hefur komið fram sú skoðun að persónur altaristöflunnar sem Eggert gerði séu fremur stirðar og sambandslausar. Í verki Leifs horfa tveir lærisveinar upp til frelsarans sem er upprisinn. Hann horfir í augu þess er lítur til verksins en Kristur í altaristöflu Eggerts horfir fremur niður – að minnsta kosti virðist ekki beint augnsamband nást.

Segja má að bæði verkin séu hefðbundin, módernísk.

Ný altarisumgjörð 1990

Ráðist var í miklar endurbætur og breytingar á Fossvogskirkju um 1990. Hugmyndasamkeppni um kirkjuna og umhverfi hennar var ýtt úr vör.[32]

Altaristafla eða altarisumgjörð Helga Gíslasonar kom í kirkjuna 1990

Það var ungur listamaður, Helgi Gíslason (f. 1947) sem varð hlutskarpastur í samkeppni um altaristöflu.[33] Altaristafla hans er fjórir metrar á hæð, þríhyrnd, gerð úr steini, bronsi og gleri. Táknmynd hennar er heilög þrenning og upprisan.[34] Það sem fangar augað þegar horft er á töfluna er stór hallandi hvítleitur kross með órólegum útlínum sem gefa honum líf – hægt er að sjá móta fyrir líkama hins krossfesta í glerinu – á vissan hátt mætti segja að þetta sé dulbúinn róðukross. Jarðlitur er ríkjandi í efri hluta þríhyrningsins, hálfhamraður málmur. Neðri hlutinn er svartleitur steinn.

Hvernig skyldu verk Helga og Leifs ná saman?

Verk Helga Gíslasonar má flokka sem póst-módernískt og með skúlptúrum. Það notfærir sér ljós sem aflgjafa til áhrifa ef svo má segja. Skáhallandi krossinn á myndfleti skúlptúrsins er úr gleri og nýtur birtunnar þegar hún streymir inn um kórloftsglugga vestan og austan megin. Auk þess skapar krosshallinn hreyfingu í verkinu, snarpa hreyfingu. Hvað þessa altaristöflu Helga snertir má hiklaust fullyrða að hún sé ættskotin steindum gluggum Leifs á suðurgafli kirkjunnar. Birta skáhallandi krossins er aldrei sú hin sama fremur en birtumagnið sem fer í gegnum steindu gluggana. Annars er efniviður listaverkanna ólíkur eins og fram hefur komið enda þótt gler komi fyrir í þeim báðum.

Form altaristöflunnar er þríhyrningur sem er algengt tákn í kristnum listaverkum og stendur fyrir þrenninguna. Gluggar Leifs eru þrír – kannski vísun til þrenningar? Gæti þó verið oftúlkun. Nagalför hins upprisna frelsara sjást í glugga Leifs og vísa þar með til krossfestingarinnar sem megintákns altarisþríhyrnings Helga.

Ljós og birta eru því meginþræðir í þessum tveimur verkum, krossinum og í steinda glugganum af Kristi upprisnum. Því má segja að verkin kallist nokkuð skýrt á fyrir tilstilli ljóss sem er svo aftur á móti lykilhugtak í kristinni guðfræði.

Niðurstaða

Hér að framan var gerð grein fyrir stöðu Leifs Breiðfjörð sem kirkjulistamanns og þá fyrst og síðast á sviði steindra glugga. Þar hefur hann sérstöðu og enginn listamaður íslenskur á þessu sviði á jafn mörg verk í kirkjum landsins sem hann. Fjallað var sérstaklega um steinda glugga Leifs í Fossvogskirkju í Reykjavík sem hann gerði 25 ára gamall og samspil þeirra við altaristöflu sem var í kirkjunni frá 1950-1990 og þeirrar nýju altarisumgjarðar (altaristöflu) sem síðar var sett upp. Niðurstaðan í því efni var sú að myndefni hans í gluggunum hafi rímað ágætlega við altaristöfluna 1950-1990 enda þótt þar væri um að ræða málverk á striga og þar með allsendis ólíkan myndmiðil sem steint gler er. Hinn upprisni Kristur er miðlægur í báðum þessum verkum. Birta sólarljóss fer um glerið í verki Leifs sem og um verk Eggerts þó með öðrum hætti sé en þar sker sig úr drifhvítur kyrtill hins upprisna. Í gluggum Leifs er myndefnið augljóslega túlkað með altaristafla Eggerts er nánast hrein og klár frásagnarmynd án tilþrifamikillar listrænnar túlkunar nema í litlum mæli.

Verk Helga Grímssonar kom í Fossvogskirkju 1990 og sömuleiðis kallast það rækilega á við steinda glugga Leifs en í þeim báðum má finna má trúarleg stef. Upprisu og krossfestingu. Og ljós. Hluti verks Helga er úr gleri og dregur til sín birtu sólar sem leikur þar stórt hlutverk sem og þegar geislar fara í gegnum steinda glerið í gluggum Leifs.

Verk Eggerts má flokka með módernískum verkum, natúralískum, en gluggarnir eru fígúratífir með abstrakt einkennum – jafnvel kúbískum. Altarisumgjörð Helga og þar með talin altaristaflan er nánast sem skúlptúr með myndfleti – verk sem ber með sér póstmódernisma.

 Tilvísanir

[1] Selma Jónsdóttir, „Listasafn Íslands 100 ára – Leifur Breiðfjörð, glermyndir-stained glass,” í Lífblóm og steingervingar (Reykjavík: Listasafn Íslands, 1984), 1.

[2] Guðbjörg Kristjánsdóttir, „Messuföng og kirkjulist,“ í Hlutavelta tímans – Menningararfur á Þjóðminjasafni (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004), 247-249.

[3] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 4.

[4] Halldór Laxness, „Minning,“ Morgunblaðið 26. júní 1968.

[5] Sjá: Friðrik Hjartar: Glerlistin í Bessastaðakirkju I og II. : Glerlistin í Bessastaðakirkju I. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) og Glerlistin í Bessastaðakirkju II. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 23. september 2023.

[6] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985), 97.

[7] Gunnar Kristjánsson, „Kirkjubyggingar, myndlist og trú,“ í Kristni Íslands IV. ritstj. Þórunn Valdimarsdóttir og Pétur Pétursson (Reykjavík: Alþingi, 2000), 332.

[8] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[9] „Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð,“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

[10] Elín Pálmadóttir, Gerður – ævisaga myndhöggvara (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985), 95.

[11] „Sömu handbrögð og á 10. öld,“ Vísir 9. ágúst 1969.

[12] Aðalsteinn Ingólfsson, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), 9.

[13] Fyrrum sneru nær allar kirkjur svo að altarið var í austurátt, sólarupprisuáttina. Gengið var inn í kirkjurnar vestan megin. Fossvogskirkja snýr svo að altarið er í norð-austur samkvæmt áttavitamælingu höfundar. Sjá: Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – Guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð, (Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1996), 126.

[14] „Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950.

[15] „Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu,“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950. Taflan var 1.90×2.70.

[16] „Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950 og „Ný altaristafla í Fossvogskirkju,“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

[17] Ragnar Jónsson í Smára sagði að taflan væri „beinlínis hlægileg“ í: „Misheppnuð kirkjuprýði,“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164. Undir þessari grein stendur aðeins: r. Ekki er ólíklegt að höfundur sé menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson í Smára en hann var í ritstjórn tímaritsins og ábyrgðarmaður þess. Björn Th. Björnsson, listfræðingur, taldi hana vera stirðlega og ólistræna, í Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti II. bindi (Reykjavík: Helgafell, 1973), 177.

[18] Æsa Sigurjónsdóttir, „Pre-Rafaelítar“ í Vetrarvirki – Björn Th. Björnsson listfræðingur sjötugur 3. september 1992 – Afmæliskveðja frá nemendum, (Reykjavík: Mál og menning, 1993), 195.

[19] Um þessa altaristöflu fjallaði ég í stuttri grein 20. október 2023 í: Lítil saga um stóra altaristöflu – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 4. nóvember 2023.

[20] „Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð,“ Morgunblaðið 22. ágúst 1969. Leifur hefur alltaf lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að listamaðurinn hafi samvinnu við arktitektinn og að „samvinna arkitekts og listamanns hefjist strax og frumdrög að kirkju eru gerð.“ (Sjá: Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum.“ Kirkjuritið, 47. árg. 2. hefti 1981, 88.

[21] Fyllsta opinbera skrá um þau er í bók Aðalsteins Ingólfssonar, Leifur Breiðfjörð – steint gler (Reykjavík: Mál og menning, 1995), bls. 62-67. Vitaskuld hafa mörg listaverk frá honum bæst við – sjálfur heldur Leifur skrá um verk sín. (Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.)

[22] Aðalsteinn Ingólfsson, „Leifur Breiðfjörð,“ í Íslensk list – Sextán íslenskir myndlistarmenn (Reykjavík: Bókaútgáfan Hildur – Gunnar S. Þorleifsson, 1981), 30-32.

[23] Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

[24] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum,“ Kirkjuritið, 47. árg., 2. hefti 1981, 90.

[25] Samtal við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

[26] „Listin á heima þar sem fólkið er, Vikan 6. desember 1973.

[27] Í Kolbeinsstaðakirkju í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi tíðkaðist sá gamli siður þá höfundur þjónaði þar að eftir að búið var að molda úti í kirkjugarði fór fólk aftur inn í kirkjuna og blessaði prestur söfnuðinn og síðan var sunginn sálmurinn Son Guðs ertu með sanni. Hugsunin var sú að kirkja hins upprisna átti að vera síðasta minning frá útför en ekki líkkista í kór. Þessi siður er nú aflagður þar vestra.

[28] „Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð,“ Morgunblaðið 22. ágúst 1969.

[29] „Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð,“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

[30] Leifur Breiðfjörð, „Hugleiðing um steint gler í kirkjum,” í Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989, 35.

[31] Nina Damsgaard, „1800-tallet altertavlemaleri og tidens religiøse strømninger,“ í Troens stil i guldalderens kunst (Kaupmannahöfn: Nivaagaard malerisamling, 1999), 16.

[32] „Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari,” Tíminn 25. apríl 1989.

[33] Altarisumgjörð: „Altari, altaristafla, ræðupúlt, skírnarfontur, moldunarkassi og svifform í kór, svo og aðalhurðir kirkjunnar. Efniviður: járn, kopar, brons, gler og íslenskur grásteinn.” Sjá: Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason: „Um breytingar á Fossvogskirkju,” í Arkitektúr og skipulag, 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

[34] „Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju,“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

Heimildir

Aðalsteinn Ingólfsson. „Leifur Breiðfjörð“ Í Íslensk list – Sextán íslenskir myndlistarmenn. Reykjavík: Bókaútgáfan Hildur – Gunnar S. Þorleifsson, 1981.

„Altaristaflan í Fossvogskirkju,“ Alþýðublaðið 15. ágúst 1950.

Aðalsteinn Ingólfsson. Leifur Breiðfjörð – steint gler. Reykjavík: Mál og menning, 1995.

Árni Kjartansson, Sigbjörn Kjartansson og Helgi Gíslason. „Um breytingar á Fossvogskirkju.” Arkitektúr og skipulag, 3. tbl. 1. september 1989 og 1. tbl. 1. apríl 1991, 72.

Ásbjörn Jónsson. „Fossvogskirkja 50 ára“, Morgunblaðið, 14. nóvember 1998.

Björn Th. Björnsson. Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld – Drög að sögulegu yfirliti. II. bindi Reykjavík: Helgafell,1973.

Einar Sigurbjörnsson. Embættisgjörð – Guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996.

Elín Pálmadóttir. Gerður – ævisaga myndhöggvara. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985.

Emil Thoroddsen. Íslenzk myndlist – 20 listmálara. Reykjavík: Kristján Friðriksson: 1943.

„Fossvogskirkja eignast nýja altaristöflu.“ Þjóðviljinn, 15. ágúst 1950.

Friðrik Hjartar: Glerlistin í Bessastaðakirkju I og II. : Glerlistin í Bessastaðakirkju I. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) og Glerlistin í Bessastaðakirkju II. – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 23. september 2023.

Gunnar Kristjánsson. „Kirkjubyggingar, myndlist og trú.“ Í Kristni Íslands IV. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Guðbjörg Kristjánsdóttir. „Messuföng og kirkjulist.“ Í Hlutavelta tímans – Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004.

Hreinn Hákonarson. Lítil saga um stóra altaristöflu – Kirkjublaðið.is (kirkjubladid.is) – sótt 4. nóvember 2023.

Halldór Laxness. „Minning.“ Morgunblaðið, 26. júní 1968.

Leifur Breiðfjörð. „Hugleiðingar um steint gler í kirkjum.“ Kirkjuritið 47. árg. 2. hefti 1981, 88-95.

„Listin er aðallega fyrir arkitekta – rabb við Leif Breiðfjörð.“ Morgunblaðið, 22. ágúst 1969.

„Listin á heima þar sem fólkið er,“ Vikan, 6. desember 1973.

„Ljósið er mikill þáttur í hverri mynd – Rabbað við Leif Breiðfjörð.“ Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 1970.

„Misheppnuð kirkjuprýði.“ Nýtt Helgafell, 3.-4. hefti, 1. desember 1958, 163-164.

„Ný altaristafla í Fossvogskirkju.“ Fálkinn, 31. tbl., 18. ágúst 1950.

„Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju.“ Arkitektúr og skipulag, 2. tbl. 1. júní 1989, 40.

„Hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkjunni: Áherslan á táknrænt en jarðbundið altari.” Tíminn 25. apríl 1989.

Samtal höfundar við Leif Breiðfjörð 22. september 2023.

Selma Jónsdóttir. „Listasafn Íslands 100 ára – Leifur Breiðfjörð – glermyndir – stained glass.“ Í Lífsblóm og steingervingar. Reykjavík: Listasafn Íslands, 1984.

„Stærsta málaða altaristafla á Íslandi í Fossvogskirkju.“ Alþýðublaðið, 15. ágúst 1950.

„Sömu handbrögð og á 10. öld.“ Vísir, 9. ágúst 1969.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Pre-Rafaelítar“ í Vetrarvirki – Björn Th. Björnsson listfræðingur sjötugur 3. september 1992 – Afmæliskveðja frá nemendum. Reykjavík: Mál og menning, 1993.

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir